Categories
Fréttir

Umhverfisráðherra býður til morgunverðar á Hallveigarstöðum

Deila grein

15/03/2016

Umhverfisráðherra býður til morgunverðar á Hallveigarstöðum

sigrunmagnusdottir-vefmyndUmhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, býður til morgunarverðarfundar fimmtudaginn 17. mars undir yfirskriftinni „Saman gegn sóun“
Á fundinum verður stefna ráðherra um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun,  kynnt ásamt námsefni um úrgangforvarnir. 
Matarsóun verður í forgangi fyrstu tvö ár stefnunnar og verða ýmsar aðgerðir á því sviði kynntar á fundinum, m.a. ný vefgátt um matarsóun og nýtt kerfi strikamerkja sem stuðlað getur að minni sóun. 
Fundurinn verður haldinn á Hallveigarstöðum, Túngötu 14, frá kl. 8.30-10:00 og verður boðið upp á morgunverð
Vinsamlegast skráið þátttöku með því að senda tölvupóst til thorunn.elfa@uar.is  

Categories
Fréttir

Hátíðarkvöldverður SUF og LFK á Akureyri

Deila grein

15/03/2016

Hátíðarkvöldverður SUF og LFK á Akureyri

logo-suf-forsidalogo-lfk-gluggiÍ tilefni Sambandsþings SUF og Landsstjórnarfundi LFK á Akureyri þann 19. mars nk verður hátíðarkvöldverður í Lionssalnum, Skipagötu 14.
Hátíðarkvöldverðurinn hefst kl. 19.00 með fordrykk. Í aðalrétt er lambalæri með kartöflugratíni, sósu og salati og í eftirrétt er marengsterta. Verðið fyrir kvöldverðinn er kr. 5.500,-
Hægt er að skrá sig í kvöldverðinn til kl. 17.00 þann 16. mars með því að senda tölvupóst á suf@suf.is eða hafa samband við skrifstofu flokksins í síma 540-4300.
Allir eru velkomnir!
Stjórn SUF

Categories
Greinar

Dómgreindarbrestur eða græðgi?

Deila grein

10/03/2016

Dómgreindarbrestur eða græðgi?

thingmadur-willumthor-05Ekki er til einhlítur mælikvarði á jöfnuð og hann snýst ekki bara um laun. Það er óumdeilt að við viljum jöfn tækifæri fyrir alla og jafnan aðgang að grunnþjónustu. Það er einnig almennur skilningur á því að til þess að auka velferð allra, efla heilbrigðis- og menntakerfið og fara í nauðsynlega innviðauppbyggingu, þarf að auka verðmætasköpun. Til þess að hægt sé að „stækka kökuna“ standa heimshagkerfin frammi fyrir þeirri áskorun að auka framleiðni og draga úr misskiptingu auðs. Þetta viðfangsefni þarfnast sannarlega frumkvæðis stjórnvalda og atvinnulífs en ekkert síður sameiginlegs skilnings á verkefninu.

Jöfnuður meiri en nokkru sinni áður
Í nýútkomnum félagsvísum fyrir 2015 kemur fram að Gini-stuðullinn, sem mælir hvernig samanlagðar tekjur allra einstaklinga í landinu dreifast, hefur ekki verið lægri síðan mælingar hófust árið 2004. Bilið milli tekjuhæstu og tekjulægstu Íslendinga hefur minnkað og einstaklingar undir lágtekjumörkum hafa aðeins einu sinni áður mælst færri síðan mælingar hófust.

Lífskjör – Ísland í 4. sæti
Ef tekið er mið af lífskjaramælikvarða SPI-vísitölunnar (Social Progress Index) er Ísland í fjórða sæti. Fyrir ofan Ísland á þessum lista eru Noregur, Svíþjóð og Sviss. Þessi félagslega þróunarvísitala er dæmi um breytta nálgun þar sem ekki er einblínt á einhlítan hagvaxtarmælikvarða. Lífskjör og verðmætasköpun eru meðal annars metin út frá grundvallarþörfum, almennri velferð, aðgengi að velferðarkerfum og tækifærum einstaklinga til að vaxa og dafna.

Lægri skattar og aukinn stuðningur
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur markvisst dregið úr skattheimtu og aukið enn frekar félagslega aðstoð. Vörugjöld hafa verið afnumin, sem skilar sér í lægra vöruverði, tekjuskattskerfið einfaldað og skattleysismörk og persónuafsláttur hafa hækkað. Barnabætur eru hærri og bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækkuðu um tæp 10% um áramótin. Kaupmáttur allra hefur aukist og atvinnuleysi minnkað. Skuldir heimila hafa lækkað og séreignarsparnaðarleiðin var hluti af velheppnaðri skuldaleiðréttingu en ekkert síður til þess fallin að auðvelda fólki að spara til þess að fjárfesta í húsnæði. Fyrirhugaðar aðgerðir sem samþykktar voru sem hluti af kjarasamningum síðastliðið vor eru svo hugsaðar til þess að auka tekjujöfnuð enn frekar og jafna og bæta eignastöðu fólks.

Sama farið?
Þjóðin öll tók á sig skell og auknar byrðar en hefur með sameiginlegu átaki náð vopnum sínum. Flestir hagvísar eru nú jákvæðir: aukinn hagvöxtur, minna atvinnuleysi, verðstöðugleiki, aukinn tekjujöfnuður, lækkandi skuldir þjóðarbúsins og lausn á greiðslujafnaðarvanda þar sem erlend staða þjóðarbúsins hefur ekki verið betri síðan á síldarárunum! Aukinn kaupmáttur og ráðstöfunargeta sem skilar sér í auknum ávinningi í atvinnulífinu. Á sama tíma og við erum að komast í betri stöðu til þess að efla velferðarkerfið og auka jöfnuð þá berast okkur fréttir um ofurbónusa fárra, hlutabréfakaup útvalinna, himinháar arðgreiðslur og já jafnvel arðgreiðslur umfram hagnað!

Gagnkvæmur skilningur?
Stjórnendur fyrirtækja bera mikla samfélagslega ábyrgð ekkert síður en gagnvart eigendum. Það er skilningur á því að eigendur njóti arðs af fjárfestingum og stjórnendur hljóti umbun fyrir erfiðar ákvarðanir. En um leið þurfa þeir að geta lesið í samfélag sitt. Ef ekki ríkir gagnkvæmur skilningur stjórnvalda og stjórnenda í atvinnulífinu á efnahagslegum áskorunum um framleiðni og aukinn jöfnuð, rofnar hin samfélagslega sátt. Niðurstaðan verður í besta falli brestur á dómgreind eða hrein græðgi.

Willum Þór Þórsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. mars 2016.

Categories
Greinar

Eldra fólki á vinnumarkaði fjölgar

Deila grein

08/03/2016

Eldra fólki á vinnumarkaði fjölgar

Þorsteinn-sæmundssonÞað er ánægjulegt að sjá að sífellt hærra hlutfall eldra fólks starfar á íslenskum vinnumarkaði. Mikilvægt er að hæfileika þeirra sem eldri eru njóti við þegar yngri kynslóðir eru að koma nýjar inn á vinnumarkaðinn. Í Félagsvísum 2015, sem gefnir eru út af velferðarráðuneytinu, kemur fram að atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 55-74 ára var 67,2% árið 2014 en tíu árum áður var hlutfallið 63,3%.

Bætt starfsumhverfi
Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar, sem og annars staðar á Vesturlöndum, er að breytast og hlutfall þeirra sem eldri eru eykst smám saman. Í mannfjöldaspá Hagstofunnar er til að mynda gert ráð fyrir því að hlutfall Íslendinga 60 ára og eldri verði komið yfir 30% árið 2060. Á sama tíma erum við heilsuhraustari og ævilíkur að lengjast, sem leiðir af sér aukinn vilja og getu til virkrar þátttöku í atvinnulífinu hjá þeim sem eldri eru. Hér á Íslandi er stærstur hluti vinnumarkaðarins blessunarlega meðvitaður um mikilvægi þess að tryggja starfsfólki sínu starfsumhverfi sem stuðlar að betri líðan og heilsu. Gott og vandað starfsumhverfi skilar sér í betri anda á vinnustaðnum og ánægðara starfsfólki, sem skilar sér í auknum afköstum.

Jöfn meðferð á vinnumarkaði
Það er ljóst að við erum á réttri leið. Mikilvægt er að auka möguleika þeirra sem eldri eru til að viðhalda og efla vinnufærni sína svo að vinnumarkaðurinn geti notið þeirrar miklu þekkingar og færni sem þessi aldurshópur býr yfir, sem lengst. Þar má meðal annars nefna möguleika einstaklinga á nýjum starfsvettvangi á miðri starfsævinnar eða seinni stigum hennar. Einnig er mikilvægt að sveigjanleg starfslok séu raunverulegur valkostur þegar líður að lokum starfsævinnar. Því miður höfum við séð vísbendingar um að fólki hér á landi sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs, þrátt fyrir þá ómetanlegu reynslu sem þessi hópur hefur öðlast á sínum starfsferli.

Til stendur að félagsmálaráðherra leggi fram frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði nú í vor. Í frumvarpinu felst að fyrirtæki og stofnanir megi ekki mismuna fólki, meðal annars á grundvelli aldurs. Samþykkt slíks frumvarps er mikilvægt skref í að styðja enn betur við eldra fólk á vinnumarkaði og mun ég glaður greiða atkvæði mitt með því.
KVÓT: Því miður höfum við séð vísbendingar um að fólki hér á landi sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs, þrátt fyrir þá ómetanlegu reynslu sem þessi hópur hefur öðlast á sínum starfsferli.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 8. mars 2016.

Categories
Greinar

Konur í áhrifastöðum – innilega til hamingju með daginn!

Deila grein

08/03/2016

Konur í áhrifastöðum – innilega til hamingju með daginn!

Anna kolbrúnDagurinn í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og er í tilefni dagsins er gott að minna á að við högnumst öll á jafnrétti því eins og sagan sýnir eru það ekki bara konur sem njóta afraksturs jafnréttisbaráttunnar heldur samfélagið allt. Ísland er vissulega í fararbroddi á sviði jafnréttismála í alþjóðlegum samanburði, en betur má ef duga skal. Það eru enn verkefni sem þarf að vinna, huga þarf að réttindum kvenna jafnt innan lands og utan. Til að nefna dæmi þá er launamunur kynjanna enn til staðar hér á landi þó vísbendingar gefi nú til kynna að hann dragist saman. Við þurfum áfram að beita öllum hugsanlegum ráðum til þess að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, það á aldrei að líðast.

Áhrifastöður eru einnig að finna víða í samfélaginu, innan heimilis og utan og í aðalnámsskrá leikskóla er því beinlínis haldið fram að litið sé á leikskólakennara sem áhrifavald í uppeldis- og menntastarfi barna. Með því er verið að segja að það sé áhrifastaða að vera leikskólakennari. Ekki þarf að efast um að þetta sé rétt, leikskólakennara er ætlað að vera leiðandi í mótun starfsins, vera góð fyrirmynd og hann á að vera samverkamaður barna, foreldra og samstarfsfólks.

Einnig má segja að umönnunarstörf séu skipuð fólki í áhrifastöðum. Hver einasta fjölskylda í landinu hefur örugglega átt í samskiptum við einstaklinga sem sinna ástvinum þeirra að alúð og oftar en ekki á erfiðum tímum. Samskipti við umönnunaraðila eru og verða áhrifarík og þar með skipuð fólki í áhrifastöðum.

Þegar talað er um umönnunar- og kennslustörf, þá er oftar en ekki talað um hefðbundin kvennastörf og jafnvel kvennastéttir sem sinna störfunum – aldrei er minnst á áhrifastöður í þessu sambandi.

Um leið og við minnumst dagsins er gott að við hugum einnig að baráttu kvenna utan  landsteinanna, barnungar stúlkur eru enn þvingaðar í hjónabönd, umskurður kvenna viðgengst víða, stúlkum er meinaður aðgangur að menntun og eru jafnvel skotnar í höfuðið ef þær ákveða að sækja sér menntun þrátt fyrir augljósa hættu. Á þessum degi sem og aðra daga eigum við því einnig að sýna kynsystrum okkar stuðning hvar sem þær eru í heiminum og sama hvaða áhrifastöðum þær gegna.

Innilega til hamingu með daginn – öll sem eitt!

Anna Kolbrún Árnadóttir.

Categories
Greinar

Jöfnuður eykst

Deila grein

07/03/2016

Jöfnuður eykst

líneikÞað er virkilega ánægjulegt að verða vitni að vaxandi jöfnuði í samfélaginu. Heimilum sem þurfa fjárhagsaðstoð hefur fækkað milli áranna 2013 og 2014. Árin þar á undan fjölgaði heimilum sem þurftu fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum en milli áranna 2013 og 2014 varð viðsnúningur og heimilum sem fá fjárhagsaðstoð fækkar. Þetta helst í hendur við þróun í átt að auknum tekjujöfnuði en tekjur hafa ekki dreifst jafnar milli fólks hér á landi frá því mælingar Hagstofunnar hófust árið 2004.

Hlutfall landsmanna með tekjur undir lágtekjumörkum hefur dregist saman og aðeins einu sinni á síðustu 10 árum hafa jafn fáir mælst undir lágtekjumörkum, samkvæmt nýbirtum Félagsvísum velferðarráðuneytisins og Hagstofu Íslands 2015.Það er ávallt ánægjulegt þegar hagur heimilanna batnar. Þessi bætta staða er afleiðing margra samverkandi þátta en ætla má að atvinnumöguleikar og aukin áhersla á velferð vegi þar nokkuð. Frá árinu 2013 hafa skapast um 15.000 ný störf og mælist atvinnuleysi á Íslandi nú það minnsta í Evrópu eða 3,6%, samkvæmt tölum Eurostat sem birtar voru í byrjun febrúar. Til samanburðar mælist atvinnuleysi að meðaltali um 9% í Evrópusambandslöndunum. Þetta er magnaður árangur ef við lítum til þess að árið 2010 mældist atvinnuleysi hér á landi 7,6%.

Á síðustu árum hefur ríkisstjórnin ráðist í aðgerðir með það að leiðarljósi að auka velferð í samfélaginu og fleiri verkefni eru í farvatninu. Gerðar hafa verið breytingar á skattkerfinu, þannig hafa skattleysismörk og persónuafsláttur hækkað sem skilar sér í auknum ráðstöfunartekjum. Vörugjöld hafa einnig verið afnumin og skattar lækkað. Nú er til umræðu í velferðarnefnd frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem fjallar um uppbyggingu félagslegra leiguíbúða fyrir efnaminni fjölskyldur. Markmið þeirrar vinnu er að bæta húsnæðisöryggi þessa hóps með auknu framboði á hagkvæmu leiguhúsnæði þar sem húsnæðiskostnaður verði í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Auk þess er stefnt að breytingum á húsnæðisbótakerfinu, á þann hátt að húsnæðisstuðningur verði aukinn og grunnfjárhæð húsnæðisbóta og frítekjumörk hækkuð. Með fyrrnefndum aðgerðum eykst stuðningur enn frekar við þá sem minnstar hafa tekjurnar. Fólk sem fest hefur í fátækragildru fær þá möguleika á að komast í þá stöðu að ná endum saman í lok hvers mánaðar og leggja fyrir.

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 7. mars 2016.

Categories
Fréttir

Þörf á aukinni umræðu um NATO

Deila grein

02/03/2016

Þörf á aukinni umræðu um NATO

Silja-Dogg-mynd01-vef„Virðulegi forseti. Umræðan um viðskiptabann Rússa gagnvart Íslendingum vakti upp háværar umræður hér á landi um utanríkismál. Tónninn var og er stundum sá að þátttaka okkar í viðskiptabanni vestrænna þjóða gegn Rússum sé hreinlega óþarfi. Við þurfum aukna almenna umræðu um utanríkismál og þá sérstaklega varnar- og öryggismál svo að við náum að átta okkur betur á samhengi hlutanna, að sameiginlegur skilningur sé til staðar á milli almennings og á milli stjórnmálamanna.
Ég tel að það sé til dæmis þörf á aukinni umræðu um NATO þar sem ég gæti best trúað að fjölmargir Íslendingar, þá helst kannski í yngri aldurshópunum, viti ekki hvað NATO stendur fyrir og hvers vegna við erum þátttakendur í því varnarsamstarfi. Við erum herlaus þjóð og friðelskandi og ætlum okkur að vera það áfram. Eigum við þá ekki bara að sleppa öllu varnarsamstarfi? Er NATO ekki eitthvað úrelt og óþarft kaldastríðsfyrirbæri? Nei, svo er ekki. Öryggisumhverfi í Evrópu er reyndar gjörbreytt frá því sem áður var þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað árið 1949. En markmiðin eru þau sömu, þ.e að tryggja öryggi og frið í álfunni. Auk varnar- og öryggisþáttarins gegnir NATO lykilhlutverki sem pólitískt bandalag 28 lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins. Og NATO á í margvíslegu samstarfi við ríki og ríkjabandalög utan NATO, t.d. bandalag Afríkuríkja.
Meginstoðir í stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum eru þátttaka Íslands í starfi Atlantshafsbandalagsins, virkt samstarf við grannríki á sviði öryggismála og varnarsamningurinn við Bandaríkin.
Við hér uppi á hinu friðsæla og yndislega Íslandi getum ekki leyft okkur að sleppa því að taka umræðuna um varnar- og öryggismál. Við þurfum að vera meðvituð og upplýst vegna þessa að afstaða okkar Íslendinga skiptir máli. Við höfum hlutverki að gegna í samfélagi þjóðanna og eigum að axla okkar ábyrgð þar.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Afhending á skýrslu Pétursnefndar

Deila grein

02/03/2016

Afhending á skýrslu Pétursnefndar

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Það var ánægjulegt að geta nú í hádeginu afhent hæstv. félags- og húsnæðisráðherra skýrslu nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar, svokallaðrar Pétursnefndar sem heitir í höfuðið á Pétri heitnum Blöndal, þeim mikla sómamanni sem gegndi lengi forustu í þeirri nefnd.
Fjölmargir hafa komið að þessari vinnu. Samvinna í nefndinni var yfir höfuð góð þó að nokkuð drægi úr henni á síðustu metrunum, því miður. En þó er ljóst að niðurstöður skýrslunnar eru ávísun á mestu breytingar sem gerðar hafa verið á almannatryggingakerfinu á Íslandi í áratugi ef af verður. Breytingarnar snúa að einföldun almannatryggingakerfisins, sveigjanlegum starfslokum og upptöku starfsorkumats í stað örorkumats.
Það er næsta víst að þó að tillögurnar séu flestar mjög góðar sem fram koma í skýrslunni er enn þá margt ógert. Enn skortir á að við höfum greint nægilega vel vandamál einstakra hópa innan þessara stóru hópa, aldraðra og öryrkja. Það er ekki hægt að tala um þessa hópa sem eitt mengi vegna þess að aðstaða þeirra er mjög mismunandi. Það er núna verk okkar í framhaldi af skýrslunni að vinna enn betur að því að kanna sérstaklega stöðu þeirra sem verst standa innan þessara hópa og grípa þá til sérstakra ráða til þess að þeir megi búa við betri lífskjör.
Heilt yfir er ekki laust við að maður geti verið ánægður með að skýrslan skuli nú loksins vera fram komin. Ég vona sannarlega að í framhaldinu muni fylgja frumvörp frá hendi ráðherra sem uppfylla það sem hér er sett fram.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn

Deila grein

02/03/2016

Mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða þá stöðu sem er teiknast upp hér í þjóðarbúskapnum samhliða jákvæðum samfélagslegum tíðindum. Kaupmáttur hefur aukist til muna og skuldir landsmanna minnkað. Á sama tíma eru að berast mjög jákvæðar fréttir sem lesa má úr Félagsvísum sem Hagstofan birtir og finna má á vef velferðarráðuneytisins; mikilvægur gagnagrunnur, upplýsingar um velferð, vellíðan, heilbrigði og þarfir, gögn fyrir bætta stefnumótun og samfélagslegar aðgerðir þar sem þörfin er mest aðkallandi.
Margt má lesa úr þessu og meðal annars þá afar jákvæðu þróun að börn og unglingar verja nú í auknum mæli tíma með foreldrum sínum og þeim fjölgar sem taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Það er besta forvarnarstarfið, virðulegi forseti, og ber að huga að og vísbendingu þessa efnis má einnig finna í minni neyslu áfengis og vímuefna. Það er mikilvægt að við verjum það mikilvæga sjálfboðastarf sem unnið er á vettvangi æskulýðs-, ungmenna- og íþróttafélaga. Þetta er þróun sem við ættum með öllum mætti að verja og styðja enn frekar.
Tekjujöfnun er æskileg, ekki bara út frá félagslegum heldur einnig út frá hagstjórnarlegum sjónarmiðum. Því eru það afar mikilvæg tíðindi, sem lesa má úr þessum Hagvísum, að jöfnuður er sannarlega að aukast og er óvíða meiri. Skuldaleiðrétting, séreignarsparnaðarleið, mildar skattalækkanir, afnám vörugjalda og ýmissa tolla, kjarasamningar og verðstöðugleiki ásamt öðrum félagslegum og hagstjórnarlegum aðgerðum hafa því stuðlað að auknum kaupmætti, auknum jöfnuði, aukinni velferð.
Nú berast tíðindi um það að við siglum hratt inn í þensluskeið og það er verkefni sem við höfum oft klúðrað. Því mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn ef okkur á að takast að halda áfram á sömu braut, horfa til jöfnuðar, kaupmáttar, stöðugleika og móta það velferðarþjóðfélag sem við viljum búa í.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Fjármálastofnanir sýni neytendum sóma

Deila grein

02/03/2016

Fjármálastofnanir sýni neytendum sóma

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Þessa dagana heyrum við fréttir af gríðarlegum hagnaði viðskiptabankanna þriggja. Samanlagt tóku þeir inn 80 milljarða króna hagnað á síðasta ári og er hagnaður þeirra þriggja frá hruni 370 milljarðar. Þessi hagnaður kemur á sama tíma og þessir sömu viðskiptabankar hafa verið að bæta við þjónustugjöldum og í mörgum tilfellum að hækka þau þjónustugjöld sem fyrir voru. Má þar meðal annars nefna úttektargjald, hraðbankagjald, svargjald bankaþjónustu, greiðslugjald, kortagjald og svona er hægt að telja áfram. Þessir gjaldaliðir eru um 30 talsins og hv. þm. Framsóknarflokksins Karl Garðarsson gerir ágætlega grein fyrir þeim í færslu á Eyjunni. Í færslu hans kemur jafnframt fram að fólki blöskri og það sé búið að fá nóg. Það er ekki annað hægt en að taka heils hugar undir þau orð hans þegar kemur að þessum þáttum í bankakerfinu. Við þurfum að skapa nýtt og heiðarlegra bankakerfi.
Herra forseti. Hér þarf að aðgreina á milli fjárfestingar- og viðskiptabanka. Hér þarf að afnema verðtryggingu og taka um leið á því vaxtaumhverfi sem við búum við. Í því samhengi gæti líka verið afar gagnlegt að líta til hugmynda hv. þm. Frosta Sigurjónssonar um breytt peningakerfi. Á meðan sú vinna er í gangi eiga forsvarsmenn þessara fjármálastofnana að sýna sóma sinn í því að leyfa neytendum landsins að finna fyrir þeim gríðarlega hagnaði sem fjármálastofnanirnar hafa náð. Það ættu þeir að geta gert með því að kalla til baka þær hækkanir sem orðið hafa á þjónustugjöldum eða fækka þeim þjónustuliðum sem rukkað er fyrir og að lækka vexti. Það gæti orðið gríðarleg kjarabót fyrir heimili landsins.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 1. mars 2016.