Categories
Greinar

Fíkniefnið sykur

Deila grein

25/08/2014

Fíkniefnið sykur

haraldur_SRGB_fyrir_vefVið félagarnir vorum að hugsa um að fara heilt maraþon. Skipta því bróðurlega á milli okkar og hlaupa í boðhlaupi. Spretthlauparinn ég ákvað því að taka æfingu fyrir átökin, enda lengri vegalengdir ekki mínir hlaupaskór. Æfingin lá niður að sjó meðfram Sæbrautinni þar sem fleiri voru greinilega að æfa sig. Allir hlauparar sem ég mætti á leið minni meðfram sjónum heilsuðu hressilega »Góðan daginn«, »koma svo«, bros og veif. Þetta hlýja viðmót bætti mjög daginn minn og gerði hlaupið auðveldara. Það var greinilegt að hlaupurum á Sæbrautinni þennan dag leið vel í eigin líkama.

Hreyfing er mikilvæg
Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum. Hvert og eitt okkar verður að hugsa um sína heilsu og þar er lykilatriði að stunda einhverja hreyfingu, hvort sem við erum í keppnisgalla í Reykjavíkurmaraþoni, að hlaupa fyrir gott málefni, ganga í búðina eða eitthvað annað sem hentar hverjum og einum. Það er annað sem skiptir jafnvel meira máli en hreyfing til að halda heilsunni; hollt mataræði. Það minnkar líkur á lífsstílstengdum sjúkdómum sem hrjá margan Íslendinginn, til dæmis hjarta- og æðasjúkdómum. Einnig er stress, kvíði og athyglisbrestur dæmi um álagseinkenni sem geta aukist með lélegu mataræði. Unnar matvörur eru til dæmis lakari matur og inniheldur gjarnan sykur, hveiti og rotvarnarefni, en þessar vörur eru að jafnaði ódýrari en þær sem hollari eru.

Sykur, skattar og lýðheilsa
Með þetta í huga velti ég vöngum yfir mögulegum afleiðingum þess að afnema sykurskatt. Á sama tíma og ljóst er að markvissari verðlagningaraðgerðir þyrfti til að draga úr sykurneyslu í miklum mæli er hugsunin á bak við sykurskattinn í rétta átt. Markmiðið er gott en spyrja má hvort skatturinn hefur náð tilsettum árangri? Hærra verð á sælgæti og gosi heldur mér a.m.k. svolítið fjær því að velja þær vörur en annars væri.

Það er ekki einungis jákvætt heldur nauðsynlegt að stefna að betri árangri í lýðheilsumálum og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er bætt lýðheilsa og forvarnarstarf sett meðal forgangsverkefna. Með markvissum aðgerðum á því sviði má draga úr kostnaði fyrir samfélagið til framtíðar og í raun ættu lýðheilsumarkmið að vera þáttur í öllum stefnum stjórnvalda. Aðgerðir til að draga úr sykurneyslu eru þar mikilvægar og sterkasta forvarnaraðgerðin á færi stjórnvalda í því samhengi er markviss lagasetning.

Umræða um hækkun virðisaukaskatts á matvæli tengist einnig inn í lýðheilsuumræðuna, þar sem varast verður að matarkarfan hækki almennt í verði á meðan sykur og sykurvörur lækka hlutfallslega á móti. Hættan á því að sykraðar matvörur verði algengari í matarkörfunni vegna verðlags er raunveruleg og með henni eykst hætta á lífsstílstengdum sjúkdómum sem getur leitt til aukins kostnaðar fyrir samfélagið til lengri tíma litið.

Reykjavíkurmaraþonið er orðið fastur þáttur í lífi margra og hefur, með áherslu á að sem flestir geti tekið þátt, lagt mikið til vakningar um mikilvægi hreyfingar á undanförnum árum. Stjórnvöld þurfa að vinna í sömu átt til þess að sem flestir geti átt jafnan aðgang að hollu mataræði og liðið vel í eigin líkama. Til þess þarf að huga að lýðheilsumarkmiðum þegar stefnan er mörkuð. Ég mun beita mér fyrir því.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. ágúst 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Þjóðkirkjan og við

Deila grein

25/08/2014

Þjóðkirkjan og við

ásmundur_Srgb_fyrir_vefÞjóðkirkjan fylgir flestum Íslendingum frá vöggu til grafar og hefur gert í þúsund ár. Við erum flest skírð til kirkjunnar ómálga börn, staðfestum skírnarheitið með fermingu, fáum blessun kirkjunnar í upphafi hjónabands og þorri landsmanna fær sína hinstu kveðju í kirkjulegri útför.

Okkur er ekki tamt að flíka trúarskoðunum okkar. Við teljum það til einkamála hvort og hvernig við iðkum trúna. Engu að síður gerum við ráð fyrir að kirkjan sé til taks þegar á þarf að halda og að boðskapur hennar um kærleika og fyrirgefningu sé stuðningur við daglegt amstur.

Kirkjan er hluti af okkar stjórnskipun. Í fyrstu málsgrein 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins segir um þjóðkirkjuna: »Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.« Þarna undirstrika grunnlög þjóðarinnar mikilvægi þjóðkirkjunnar og boða að ríkisvaldið skuli styðja og vernda kirkjuna.
Stuðningur þjóðarinnar við þjóðkirkjuna var mældur fyrir tveim árum, þegar greidd voru atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs vegna vinnu við nýja stjórnarskrá. Meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði sagði já við eftirfarandi spurningu: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Kirkjuna og kristna trú er ekki hægt að jafnstilla öðrum trúarbrögðum hér á landi, þótt við virðum trúfrelsi og réttinn til trúleysis. Í sögu okkar, menningu og stjórnskipun er kristni og þjóðkirkja verðmæti sem leggja ber rækt við. Til dæmis með því að útvarpa morgunbæn í dagskrá þjóðarútvarpsins.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Áfengi er engin venjuleg neysluvara

Deila grein

31/07/2014

Áfengi er engin venjuleg neysluvara

Silja-Dogg-mynd01-vefFrelsi eins getur haft í för með sér ófrelsi annars. Hlutverk stjórnmálamanna er að tryggja almannahag og öryggi borgaranna- bæta samfélagið. Með lýðræðislegum kosningum veitum við þeim forræði í ákveðnum málaflokkum sem snúa að samfélagsmótun og framtíðarsýn.

Efnislega mikilvæg vara

Að mínu mati væri frjáls sala áfengis í matvöruverslunum EKKI framfaraspor fyrir íslenska þjóð. Í mörgum löndum er framleiðsla og sala á áfengi tekjulind fyrir bændur, framleiðendur, auglýsingastofur, rekstraraðila fjölmiðla og fjárfesta. Áfengi er einnig atvinnuskapandi, það aflar gjaldeyristekna vegna útflutnings og ríkissjóður hagnast vegna álagningar áfengisgjalds. Áfengi er því efnahagslega mikilvægt. En ábatinn af sölu og framleiðslu á áfengi er samfélaginu afar dýrkeyptur. Það er einkum þrennt sem leiðir til þess að áfengi veldur svo miklu líkamlegu, andlegu og félagslegu tjóni: 1) eitrun í líkamanum, 2) víma og 3) ánetjun (fíkn).

Gríðarlegt heilsutjón af völdum áfengis

Tengsl milli áfengisvímu og skaða eru þó skýr og greinileg, sérstaklega hvað varðar ofbeldi, umferðarslys eða önnur slys. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni mátti á árinu 2000 rekja 4,0% allra dauðsfalla og örorku í heiminum til áfengis („The Global Burden of Disease“). Áfengi reyndist því fimmti skaðlegasti áhættuþátturinn af 26 sem kannaðir voru. Áfengi veldur álíka miklu heilsutjóni og tóbak.

Stefna Norðurlandaþjóða

Velferðarnefnd Norðurlandaráðs fór í vandaða og umfangsmikla vinnu í þessum málaflokki fyrir ekki löngu þar sem skoðuð voru m. a. gögn frá vísinda- og rannsóknaraðilum. Tillagan varð opinber stefna Norðurlandaráðs og er þess vænst að norræn ríki fylgi henni. Þar er ótvírætt sýnt fram á að aðgengi skiptir miklu máli hvað varðar neyslu, þ.m.t. neyslu ungmenna. Einnig er talið að forvarnir skipti því miður minna máli en menn hafa haldið almennt.  Það sem er sagt skipta mestu máli er þetta:

  1. Álagning/skattar á áfengi
  2. Áfengisverslun ríkisins
  3. Aldurstakmörk
  4. Takmarkað aðgengi þ.e. takmark á fjölda útsölustaða/opnunartíma
  5. Bann við beinni og óbeinni markaðssetningu
  6. Mörk gagnvart akstri undir áhrifum 0,5 eða 0,2 prómill og sýnilegt og  óvænt/tilfallandi eftirlit.
  7. Ráðgjöf í heilsugæslunni og öflugri meðferð þeirra sem eru háðir áfengi

Verum fyrirmynd annarra þjóða með ábyrgri stefnu í áfengismálum!

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

 

Heimildir: https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item10424/Afengi_engin_venjuleg.pdf og tillaga Velferðarnefndar Norðurlandaráðs um norræna lýðheilsustefnu í áfengis- og tóbaksmálum.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. júlí 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Bútateppið

Deila grein

31/07/2014

Bútateppið

Silja-Dogg-mynd01-vefHver einstaklingur er einstakur og fólkið sem vill búa á Íslandi kemur alls staðar að úr heiminum. Einstaklingar með ólíkan litarhátt, menningu, trúarbrögð og hugmyndir. En þetta fólk á það sameiginlegt að vera manneskjur sem vilja búa á Íslandi og eignast gott líf. Nýtt tækifæri.

Góðir starfskraftar

Þegar Íslendingar rekja ættir sínar með aðstoð Íslendingabókar þá kemur í ljós að við erum meira og minna skyld í a.m.k. 8. ættlið. Síðan gerist það fyrir nokkrum áratugum síðan að hópar fólks fara að koma hingað til lands. Víetnamar, Filipseyjingar og nú síðustu ár hefur fjöldi Pólverja flutt hingað, svo eitthvað sé nefnt. Ég get fullyrt að „nýju Íslendingarnir“ hafa staðið sig feykilega vel í að aðlagast og leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins. Fólkið er almennt vinsælir starfskraftar og margir hverjir hafa stofnað eigin fyrirtæki hér á landi.

Kærleikurinn

Kærleikurinn er inntak allra trúarbragða. Afbökun trúarbragða hefur hins vegar átt sér stað öldum saman og misnotkun þeirra. Kristin trú og kristnir trúarleiðtogar er þar síður en svo undanskyldir. Almennt eru Íslendingar umburðalyndir og vilja vel. Því miður eru alltaf einhverjir sem ala á ótta, hatri og nærast á neikvæðri umræðu. Uppbyggileg og málefnaleg umræða er það sem við þurfum, hvort sem það er um innflytjendamál, trúarbrögð eða annað. Mótun samfélagsins og sú stefna sem við viljum taka í þeim efnum er okkur öllum mikilvæg.

Litríkara og skemmtilegra

Nágrannaþjóðir okkar hafa mun lengri reynslu en við að málefnum innflytjenda. Þessar þjóðir hafa þegar mótað sér stefnu eða eru í þeirri vinnu. Eitthvað hefur betur mátt fara en einnig er margt sem vel hefur verið gert. Það er kominn tími til að við skoðum vandlega hvað nágrannar okkar hafa verið að gera og nýtum okkur þeirra reynslu til frekari uppbyggingar samfélags okkar. Fjölbreytni er af hinu góða. Hún eykur hagvöxt og gerir samfélagið litríkara og fallegra, eins og stórkostlegt bútateppi sem prýði er af. Ég ætla að beita mér fyrir því á næsta þingi að hafist verði handa við þetta aðkallandi og mikilvæga verkefni.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ertu ekki örugglega búin(n) að sækja um skuldaleiðréttingu?

Deila grein

18/07/2014

Ertu ekki örugglega búin(n) að sækja um skuldaleiðréttingu?

Þorsteinn SæmundssonLesandi góður! Nú styttist óðum sá tími sem ætlaður er til að sækja um leiðréttingu á verðtryggðum neytendalánum en frestur til að sækja um rennur út 1. september n.k.

Aðgerðin er hin stærsta sem gripið hefur verið til í því augnamiði að rétta hlut skuldara nokkurs staðar. Hún er almenn og byggir á jöfnuði og réttlæti. Skuldaleiðréttingin felst annarsvegar í beinni niðurfærslu skulda en hinsvegar í því að skuldarar geta nýtt viðbótarlífeyrissparnað sinn til niðurgreiðslu húsnæðislána í þrjú ár.

Aðgerðin nýtist best þeim sem hafa minni- eða meðaltekjur og eiga íbúð af hóflegri stærð. Þannig koma um 60% upphæðarinnar sem ætluð er til beinnar skuldalækkunar í hlut þeirra heimila sem hafa samtals 8 milljónir króna eða minna í tekjur á ári. Það samsvarar t.d. meðallaunum tveggja einstaklinga sem taka laun samkvæmt kjarasamningi BSRB.

Aðgerðin beinist að þeim sem urðu fyrir forsendubresti í verðbólguholskeflunni sem reið yfir í kjölfar hrunsins árin 2009 og 2010. Markmiðið með aðgerðinni er að rétta hlut þessa hóps nokkuð og gefa honum færi á að ná vopnum sínum aftur.

Aðgerðin mun lækka greiðslubyrði þeirra sem rétt eiga á leiðréttingu og leiða til aukins kaupmáttar. Séreignarsparnaðarhluti aðgerðarinnar gagnast einnig þeim sem ekki eiga íbúð en freista þess að leggja fyrir og mynda þannig grunn að húsnæðiskaupum. Einnig má segja að notkun hluta séreignasparnaðar til lækkunar húsnæðisskulda sé ein besta fjárfesting sem völ er á nú um stundir. Þann 1. júlí s.l. var hægt að hefja nýtingu séreignasparnaðar til lækkunar húsnæðislána eða til að byggja upp sjóð til fasteignakaupa síðar.

Það er mikilvægt að allir sem telja sig eiga rétt á leiðréttingu sækist eftir henni. Fljótlega eftir 1. september n.k. mun ljóst verða hver leiðrétting hvers og eins verður. Þá fá íslensk heimili ný tækifæri til sóknar.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í DV þriðjudaginn 15. júlí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Sumarlokun flokksskrifstofu Framsóknar

Deila grein

16/07/2014

Sumarlokun flokksskrifstofu Framsóknar

framsoknarhusidSkrifstofa Framsóknarflokksins verður lokuð vegna sumarleyfa starfsfólks frá og með 21. júlí til og með 13. ágúst. Hægt er að fylgjast með fréttum á vefsíðunni, www.framsokn.is og senda póst á netfangið framsokn@framsokn.is.
Framsóknarflokkurinn
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Hugleiðingar vegna landnáms Costco á Íslandi

Deila grein

15/07/2014

Hugleiðingar vegna landnáms Costco á Íslandi

Þorsteinn SæmundssonNýlega bárust fregnir af því að bandaríska risaverslunarkeðjan Costco hygði á landvinninga á Íslandi. Að vanda fór samfélagsumræðan út um víðan völl af þessu tilefni, ekki síst fyrir tilstuðlan fjölmiðla. Mátti halda í byrjun að nú yrði slakað til fyrir verslunarrisann með lagasetningum sem væru til þess fallnar að breyta rekstrarskilyrðum verslunar stórlega, m.a. með tilslökunum í sölu áfengis og innflutnings á hráu kjöti.

Nú þegar umræðan hefur róast virðist svo sem Costco hafi áhuga á að hasla sér völl á Íslandi á þeim forsendum og innan þess regluverks sem íslensk stjórnvöld setja. Því ber að fagna. Sá sem hér ritar hefur haldið því fram bæði í ræðu og riti að helsta von Íslendinga um samkeppni sé fólgin í innflutningi á kaupmönnum og fagnar því hugmyndum Costco um rekstur á Íslandi.

Núverandi fákeppni hefur verið og er ein mesta ógnin við íslenska neytendur og afkomu þeirra. Verstu einkenni fákeppninnar hafa undanfarin misseri kristallast í því að innflutt vara hefur lækkað mjög óverulega þrátt fyrir allnokkra styrkingu íslensku krónunnar. Þessi staðreynd hefur ekki komist á dagskrá því kaupmönnum hefur tekist að snúa allri umræðu um verslun á Íslandi að landbúnaðarkerfinu, vörugjöldum og tollum. Í þeirri umræðu er öllu blandað saman og menn velja sér rök hverju sinni líkt og af hlaðborði. Hvergi minnast kaupmenn á að samkvæmt erlendum könnunum er ofmönnun í íslenskri verslun allt að 20% og að óvíða eru jafn margir fermetrar í verslun á íbúa og hér á Íslandi auk þess sem ótakmarkaður afgreiðslutími eykur kostnað og hækkar þar með vöruverð.

Verði tilkoma Costco á íslenskan markað til þess að auka samkeppni og hagkvæmni í verslun ber að fagna komu fyrirtækisins til Íslands. Nauðsynlegt er þó að svara nokkrum spurningum sem vakna við komu fyrirtækisins. Hverjir eru innlendir samstarfsaðilar Costco og hugsanlegir meðeigendur? Sérstaka athygli hafa vakið hófstillt viðbrögð forstjóra Haga, sem hefur yfirgnæfandi markaðshlutfall hér á landi, við yfirvofandi samkeppni. Getur verið að Hagar eða aðilar þeim tengdir eigi aðild að fyrirhugaðri verslun Costco? Svör við þessum spurningum og fleiri slíkum verða að liggja fyrir áður en hægt er að fagna komu Costco til Íslands.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júlí 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Vilhjálmur Hjálmarsson látinn

Deila grein

15/07/2014

Vilhjálmur Hjálmarsson látinn

vilhjalmur-hjalmarssonVilhjálmur Hjálmarsson, bóndi og fyrrverandi þingmaður og ráðherra lést í gær, 14. júlí, á heimili sínu Brekku í Mjóafirði, 99 ára að aldri.
Hann fæddist á Brekku 20. september árið 1914, og var jafna kenndur við bæinn, sonur hjónanna Hjálmars Vilhjálmssonar og Stefaníu Sigurðardóttur.
Vilhjálmur var kvæntur Önnu Margréti Þorkelsdóttur, sem lést 21. apríl 2008. Þau eignuðust fimm börn; Hjálmar (látinn 2011), Pál, Sigfús Mar, Stefán og Önnu. Barnabörn Vilhjálms og Margrétar eru átján, barnabarnabörnin 35, barnabarnabarnabörnin fimm og tvö til viðbótar eru á leiðinni.
Vilhjálmur lauk héraðsskólaprófi frá Laugarvatni árið 1935. Hann stundaði búskap í um þrjátíu ár, kenndi við barnaskólann í Mjóafirði og sinnti auk þess ýmis konar félagsmálastörfum.
Vilhjálmur sat í hreppsnefnd Mjóafjarðar í á fimmta áratug, frá 1944 til 1990. Þar af var hann oddviti hreppsins frá 1950 til 1978.
Þingferill Vilhjálms, sem stóð í þrjátíu ár, hófst árið 1949 þegar hann tók fyrst sæti á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn sem þingmaður Suður-Múlasýslu. Hann gegndi embætti menntamálaráðherra á árunum 1974-1978. Hann sat einnig í ýmsum nefndum og ráðum, þar á meðal var hann formaður útvarpsráðs árin 1980-1983.
Þegar þingsetu lauk árið 1979 tóku ritstörf við. Samtals komu út 24 bækur eftir Vilhjálm sem hann skrifaði sjálfur og þrjár sem hann átti hlutdeild í.
Á meðal bóka Vilhjálms eru endurminningarnar, „Raupað úr ráðuneyti“ frá 1981 og sjálfsævisagan „Hann er sagður bóndi“ frá 1991. Þá skrifaði hann ævisögu Eysteins Jónssonar í þremur bindum árin 1983-1985 og Mjófirðingasögur í þremur bindum árin 1987-1990.
Síðasta bók Vilhjálms, „Örnefni í Mjóafirði“, kemur út 20. september nk. en þá hefði hann átt hundrað ára afmæli. Af þessu tilefni sló Fréttablaðið á þráðinn til Vilhjálms síðastliðinn föstudag en hann var ern til dánardags. „Þetta er reyndar smá svindl því handritið var til,“ sagði Vilhjálmur þegar blaðamaður hrósaði honum fyrir framtakssemina. Og ekki vantaði gamansemina þegar rætt var um ritstörf hans. „Ég hef alla tíð skrifað mikið. Ég skrifaði til dæmis allar mínar ræður þegar ég var ráðherra, mér fannst það líka betra að vita hvað ég hafði sagt.“
Framsóknarflokkurinn vottar aðstandendum dýpstu samúð.
 

Categories
Fréttir

Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku 100 ára

Deila grein

09/07/2014

Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku 100 ára

vilhjalmur-hjalmarssonÞann 20. september næstkomandi verður Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði 100 ára.  Af því tilefni kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum vandað afmælisrit eftir afmælisbarnið sjálft, Örnefni í Mjóafirði.  Þar verður að finna á 320 blaðsíðum örnefnaskrá allra jarða við Mjóafjörð, ásamt frásögnum tengdum örnefnunum og öðrum fróðleik. Í bókinni verða einnig  kort,  litmyndir sem örnefni hafa verið merkt inn á og fjöldi annarra mynda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bókaútgáfunni Hólum.
Vilhjálmur stundaði lengi kennslu og búskap í sinni heimabyggð, en þekktastur er hann þó fyrir hin pólitísku störf sín, en hann var lengi alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn í Austurlandskjördæmi og menntamálaráðherra 1974-1978.  Þá hefur hann skrifað fjölda bóka um menn, málefni og heimabyggð sína.  Sú bók sem nefnd er hér að ofan verður síðasta ritverk hans og hefur enginn á Íslandi staðið fyrir bókaútgáfu svo gamall og raunar hefur hann á undanförnum árum sífellt bætt eigið Íslandsmet hvað þetta varðar.
Aftast í bókinni verður Tabula gratulatoria (heillaóskaskrá) og þar geta þeir sem vilja sýna Vilhjálmi heiður á þessum tímamótum og óska honum til hamingju með áfangann skráð nafn sitt og um leið gerst áskrifendur að bókinni sem kostar kr. 6.480- m/vsk og sendingargjaldi.
Hægt er að panta bókina í netfanginu erna@holabok.is  eða í síma. 587-2619.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Styrking landsbyggðar – sterkari höfuðborg?

Deila grein

08/07/2014

Styrking landsbyggðar – sterkari höfuðborg?

Þórunn EgilsdóttirByggðaþróun- og byggðamál hafa verið ofarlega í umræðunni undanfarin ár. Samþjöppun byggðar og tilflutningur á störfum hefur orðið til þess að minni samfélög út um landið standa frammi fyrir því að atvinnulíf verður einhæft og stoðirnar veikjast.

Árum saman hefur verið talað um að þessari þróun verði að snúa við, en hægt hefur gengið. Hið opinbera hefur til þess þrjár leiðir; efla starfsemi á þess vegum á viðkomandi stað, flytja verkefni eða stofnanir.

Menn hafa séð á bak opinberum störfum sem flutt hafa verið suður. Þetta hefur gerst án mikillar umræðu eða athygli. Samfélagið er að breytast, störf breytast og þróast. En svo öfugsnúið sem það nú er þá hefur eðlisbreyting og nútímavæðing starfa ekki orðið til þess að þau haldist frekar út um landið heldur hefur þeim fjölgað á höfuðborgarsvæðinu.

Með tilkomu netsins og nýrrar tækni hefur þjónusta breyst en mörg störf má allt eins vinna utan höfuðborgarsvæðisins eins og þar.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stendur: »Mikilvægt er að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa.«

Það þarf því ekki að koma á óvart þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar tilkynna ákvarðanir um flutning starfa líkt og gerðist í liðinni viku. Við getum haft allskonar skoðanir á því hvernig er að málum staðið og ekki skal vanmeta stöðu þeirra sem nú standa frammi fyrir breytingum á starfsumhverfi.

En við hljótum að geta verið sammála um það að til að byggja hér upp sterkt samfélag þurfa innviðirnir að vera sterkir um allt land. Sterk höfuðborg þarf styrka landsbyggð og við þurfum öll að vinna saman að því að nýta tækifæri framtíðarinnar með því að stuðla að jafnvægi byggðar. Við þurfum hvert á öðru að halda.

Starfshópi, sem skipaður hefur verið, eru ætlaðir 18 mánuðir til að vinna að undirbúningi og skipulagningu þessa verkefnis. Í honum sitja tveir starfsmenn ráðuneytisins og þrír starfsmenn Fiskistofu. Verkefnið felst ekki í því að flytja alla starfsemina. Stefnt er að því að tölvudeild Fiskistofu verði áfram rekin á höfuðborgarsvæðinu og reiknað er með að þar verði starfsstöð sem þjónar suðvestursvæðinu.

Það er von mín að starfsemi á öllum starfsstöðvum stofnunarinnar, þ.e. í Vestmannaeyjum, Stykkishólmi, á Akureyri, Ísafirði, Höfn og í Reykjavík farnist vel og þær komi enn sterkari út úr þessi ferli.

Að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar er áskorun og vil ég óska öllum þeim sem að því verkefni koma góðs gengis.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júlí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.