Categories
Fréttir

10 staðreyndir um leiðréttinguna

Deila grein

16/10/2014

10 staðreyndir um leiðréttinguna

leidrettingin-sigmundurHér eru 10 staðreyndir um leiðréttinguna:

  1. Leiðréttingin snýst um sanngirni og réttlæti, að lántakendur sem urðu fyrir forsendubresti í kjölfar hrunsins fái stökkbreytt lán sín leiðrétt.
  2. Leiðréttingin mun bæta hag heimilanna, minnka greiðslubyrði og auka ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar.
  3. Heildarumfang leiðréttingarinnar og séreignarsparnaðarleiðarinnar eru um 150 milljarðar fyrir heimilin í landinu.
  4. Yfir 90% heimila með verðtryggð húsnæðislán sóttu um leiðréttingu. Þessi mikla þátttaka staðfestir að landsmenn voru sammála því að leiðrétta þyrfti verðtryggð húsnæðislán í kjölfar þess fjármálaáfalls sem dundi yfir.
  5. Framkvæmd leiðréttingarinnar er á áætlun og landsmenn munu sjá endurútreikning sinna lána á haustmánuðum.
  6. Tæplega helmingur fjármagnsins fer til heimila með tekjur undir 6 milljónir á ári. Það er t.d. heimili þar sem tveir aðilar eru hvor um sig með undir 250 þúsund krónur í mánaðarlaun.
  7. Um 60% fjármagnsins fer til heimila með tekjur undir 8 milljónir á ári. Það er t.d. heimili þar sem tveir aðilar eru hvor um sig með undir 335 þúsund í mánaðarlaun.
  8. Bankaskatturinn, sem nemur upphæð leiðréttingarinnar, var margfaldaður og undanþága þrotabúa var afnumin. Þar með er í fyrsta skipti lagður skattur á þrotabú föllnu bankanna. Vissulega fer skatturinn inní ríkissjóð og leiðréttingin útúr ríkissjóð á móti, það er eðlilegt ferli.
  9. Leiðréttingin er almenn aðgerð og dreifist jafnar á tekjuhópa en fyrri úrræði gerðu.
  10. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur tilkynnt að fylgst verði með framkvæmd leiðréttingarinnar og hvort í henni felist ríkisaðstoð til banka. Það er af og frá að svo sé. Miðað er að því að hvorki skapist hagnaður né tap hjá samningsaðilum vegna greiðslu leiðréttingarhluta láns.

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ný neysluviðmið, já takk!

Deila grein

16/10/2014

Ný neysluviðmið, já takk!

Elsa-Lara-mynd01-vefurFyrsta þingmannamál Framsóknarflokksins á þessum þingvetri, var að leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis, að fela félags – og húsnæðismálaráðherra, að hefja útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Mælt var fyrir þingmannamálinu í þingsal þann 25. september s.l.  og nú hefur málinu verið vísað til Velferðarnefndar þingsins.

Samkvæmt tillögunni er lagt til að útreikningarnir verði unnir í samráði við hlutaðeigandi aðila. Þessir hlutaðeigandi aðilar geta t.d. verið frá ríki, sveitarfélögum, Hagsmunasamtökum heimilanna og verkalýðshreyfingunni. Eflaust eru fleiri aðilar sem gagnlegt væri að fá að borðinu. Við útreikning nýrra neysluviðmiða skal taka tillit til þeirra þátta sem núverandi neysluviðmið byggjast á en auk þess verði húsnæðiskostnaður tekinn með inn í dæmið. Í því samhengi verði horft til mismunandi búsetuforma og staðsetningar húsnæðis. Með húsnæðiskostnaði er átt við allan kostnað sem fellur til vegna eigin húsnæðis og leiguhúsnæðis.

Í þingsályktunartillögunni er m.a. lagt til að gerð verði könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna í landinu. Þessi raunframfærslukostnaður verði síðan nýttur til að finna út lágmarksneysluviðmið. Reiknilíkanið verði opinbert eins og það er í þeim löndum sem við berum okkur oft saman við og má nefna Norðurlöndin í því samhengi.

Í störfum þingsins þann 15. október, minnti ég, fyrsti flutningsmaður tillögunnar á mikilvægi þess  að endurútreikningar á neysluviðmiðum fari fram. Ástæðan er sú að mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu og á samfélagsmiðlum undanfarna daga, m.a. vegna útreikninga á matarkostnaði í fjárlagafrumvarpi.  En fram hefur komið í fjölmiðlum að talsverður munur sé á milli þeirra útreikninga sem Fjármálaráðuneytið styðst við og þess sem Hagstofa Íslands miðar við. Það væri til bóta í allri umræðunni ef til væri tala sem hægt væri að vera sammála um að væri sú rétta um þennan kostnaðarlið sem öll heimili þurfa að bera.

Afar brýnt er að tillagan nái fram að ganga. Ný neysluviðmið eru mikilvæg fyrir heimilin í landinu.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Feyki 16. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Aukið framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Deila grein

15/10/2014

Aukið framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Þórunn EgilsdóttirAllt frá stofnun Atlantshafsbandalagsins árið 1949 hefur Ísland verið aðildarríki. Aðildin ásamt varnarsamningnum við Bandaríkin hefur því verið hornsteinn íslenskra öryggis- og varnarmála í 65 ár. Samstarf við okkar nánustu bandalags- og vinaríki hefur gert það að verkum að uppbygging varnargetu landsins hefur ekki orðið Íslandi ofviða.

Sem aðildarþjóð getum við ekki verið eingöngu í hlutverki þiggjandans heldur ber okkur að taka þátt í víðtæku samstarfi sem fram fer á vettvangi bandalagsins og leggja okkar af mörkum með ýmsu móti.

Á nýafstöðnum leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Wales tilkynnti forsætisráðherra um fyrirætlanir íslenskra stjórnvalda að efla þátttöku og framlög í þágu eigin varna og bandalagsins. Efld þátttaka Íslands verður á sviði borgaralegrar sérfræðiþekkingar á þeim sviðum sem okkur hugnast og farnast best.

Aukið framlag verður m.a. nýtt til eflingar þyrlubjörgunarsveitar Landhelgisgæslu vegna loftrýmisgæslu, sem einnig kemur til góða almennri björgunarþjónustu í landinu.

Boðnir verða fram borgaralegir sérfræðingar til starfa á vettvangi bandalagsins þar sem það á við, til dæmis á sviði almannavarna, jafnréttismála, sprengjuleitar, vefvarna, upplýsingamiðlunar og öryggis á hafi.

Einnig verður lagt til fé í sjóði til styrktar uppbyggingu í Úkraínu og til framfylgdar ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Þátttaka íslenskra starfsmanna í samstarfi af þessu tagi eykur þeim einnig þekkingu, innsýn og tengslanet sem aftur nýtist þegar heim er komið.

Þjóðaröryggi Íslands verður eingöngu tryggt með ábyrgum hætti með alþjóðasamstarfi við bandalagsríki okkar. Þó að engar beinar ógnir steðji að landi og þjóð væri það mikil skammsýni og beinlínis óábyrgt að standa berskjölduð gagnvart utanaðkomandi hættum.

Því hefur frá upphafi ríkt þverpólitísk samstaða um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, þó ekki hafi aðildin verið óumdeild.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Þorum að ræða viðkvæm mál

Deila grein

14/10/2014

Þorum að ræða viðkvæm mál

Sveinbjörg Birna SveinbjörnsdóttirÍ aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga lýsti ég því yfir að rétt væri að afturkalla ákvörðun Reykjavíkurborgar um að úthluta Félagi múslima á Íslandi lóð undir mosku. Afstaða mín sætti gagnrýni oddvita þeirra stjórnmálaflokka sem sóttust eftir því að halda meirihluta sínum í borgarstjórn. Viðbrögðin komu mér ekki á óvart enda þótt áhugi og pólitísk hagsmunagæsla sumra fjölmiðla kæmi mér í opna skjöldu. Oddvitarnir sögðust vera boðberar „umburðarlyndisins“ en markmiðið var að halda meirihlutanum.

Boðberar „umburðarlyndisins“
Hvað svo sem leið raunverulegum skoðunum oddvitanna er augljóst að mestu máli skipti fyrir þá að „misstíga sig ekki“ svo skömmu fyrir kosningar. S. Björn Blöndal kvað ummælin dæma sig sjálf á meðan Sóley Tómasdóttir taldi ummælin undarleg. Dagur B. Eggertsson og Halldór Auðar Svansson virtust líta svo á að lóðarúthlutunin tengdist trúfrelsi. Fylgismenn þeirra voru síðan sendir út af örkinni til að láta þau boð berast að afstaða mín fæli í sér fordóma. Þannig féllu margir í þá gryfju að „fordæma“ skoðanir mínar án þess að nokkur málefnaleg umræða færi fram. Á þennan hátt var reynt að gera mig tortryggilega í hugum kjósenda. Viðbrögðin báru vott um upphafna sjálfsmynd þeirra sem telja sig vera frjálslynda, upplýsta og víðsýna þegar raunveruleikinn er allt annar. Kjörnir fulltrúar almennings verða að þora að ræða viðkvæm mál og mega ekki láta hagsmuni einstakra aðila koma í veg fyrir að þeir fari að lögum í störfum sínum.

Viðbrögð oddvita þeirra stjórnmálaflokka sem sátu í meirihluta borgarstjórnar voru hins vegar skiljanleg í ljósi þess að lóðarúthlutunin var viðkvæm fyrir þá. Innan Samfylkingarinnar hafði lengi verið þrýst á að Félag múslima á Íslandi fengi úthlutað lóð undir mosku. Besti flokkurinn var hins vegar ekki jafn hallur undir trúfélagið auk þess sem hann hafði það að markmiði að gera Reykjavík að leiðandi borg í réttindum samkynhneigðra. Í samræmi við þessa stefnu hafði Besti flokkurinn staðið að því að synja Kristskirkjunni um styrk úr borgarsjóði vegna afstöðu trúfélagsins til samkynhneigðra. Það samræmdist því illa slíkri stefnu að úthluta ókeypis lóð úr borgarsjóði til trúarsafnaðar þar sem litið er á samkynhneigð sem synd.

Ólögmæt lóðarúthlutun
Samkvæmt lögum um Kristnisjóð er sveitarfélögum aðeins skylt að láta kirkjum þjóðkirkjunnar í té lóðir án endurgjalds. Skyldan nær ekki til lóða undir kirkjur eða bænahús annarra trúfélaga. Á þetta hafa fjölmargir valinkunnir lögfræðingar bent, meðal annars þeir Davíð Þór Björgvinsson, prófessor og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, og Brynjar Níelsson, hrl. og fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands.

Til að leysa þann vanda sem Samfylkingin og Besta flokkurinn voru komin í ákváðu þáverandi borgarstjóri og formaður borgarráðs að grípa til þess ráðs að bera undirmenn sína fyrir því að borginni væri skylt að úthluta öllum trúfélögum ókeypis lóðum. Af óútskýrðum ástæðum var lögfræðingum borgarinnar ekki kunnugt um að í máli Ásatrúarfélagsins höfðu hvort tveggja Hæstiréttur og Mannréttindadómstóll Evópu staðfest að heimilt væri að gera þjóðkirkjunni hærra undir höfði en öðrum trúfélögum. Eins og hendi væri veifað var „kirkja“ orðin að „mosku“. Þetta heimatilbúna leikrit meirihlutans fékk síðan trúverðugra yfirbragð er hann samþykkti að skora skyldi á Alþingi að breyta lögunum. Reykjavíkurborg hefur hins vegar ekki enn sent Alþingi slíka áskorun. Í borgarstjórn virtust sofandi sjálfstæðismenn ekki átta sig á því að verið var að leika á þá.

Lóðarúthlutunin hafði því ekkert með skyldu sveitarfélaga að gera. Saman hafa Samfylkingin og Besti flokkurinn (Björt framtíð) nú staðið fyrir því að fjölmargar lóðir hafa verið gefnar úr borgarsjóði án þess að gert sé ráð fyrir því í lögum. Ákvarðanir sem eru ekki reistar á lögum eru ógildanlegar og því heimilt að afturkalla þær.

Borgarstjóra ber að fara að lögum
Í ljósi þess að lóðarúthlutun til Félags múslima á Íslandi er ekki reist á lögum er ljóst að vilji er allt sem þarf svo afturkalla megi ákvörðunina sem og ákvarðanir um aðrar sambærilegar lóðarúthlutanir.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR eru 73,7% þeirra sem svara andvígir eða mjög andvígir því að sveitarfélög úthluti trúfélögum ókeypis lóðum. Áberandi stærsti hópur þeirra sem er fylgjandi slíkum lóðurúthlutunum kemur úr röðum Samfylkingarinnar. Ég spyr því hvort borgarstjóri ætli að fara að lögum eða hvort hann ætli að halda áfram á „ætluðum“ atkvæðaveiðum? Ekki kæmi á óvart þótt ákveðnir fjölmiðlar láti borgarstjóra komast upp með að fara með sömu þuluna um trúfrelsi og skyldu sveitarfélaga til að úthluta trúfélögum ókeypis lóðum án þess að spyrja hann hvort afstaða hans samræmist lögum svo sem þau hafa verið skýrð í úrlausnum dómstóla og af hálfu lögmanna og dómara.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

„Brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda“

Deila grein

09/10/2014

„Brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda“

lfkmerkiliturFramkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna (LFK) telur afar mikilvægt að lýðheilsusjónarmið séu umfram allt höfð að leiðarljósi við afgreiðslu frumvarps sem lagt hefur verið fram um breytingar á lögum um verslun með áfengi. Frumvarpið brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda frá því í janúar sl. í áfengis og vímuvörnum þar sem markmiðin eru, m.a:

  • Að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.
  • Að fækka þeim sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur áfengis eða annarra vímugjafa.
  • Að draga úr skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi eða öðrum vímugjöfum.

Framkvæmdastjórn LFK bendir á, í þessu sambandi, að alþjóðlegum rannsóknum ber saman um að afnám einkasölu á áfengi leiði til aukinnar neyslu þess og að samhliða aukinni áfengisneyslu mun samfélagslegur kostnaður aukast vegna neyslutengdra vandamála þeirra sem neyta áfengis.
Framkvæmdastjórn LFK skorar því á alþingismenn, alla sem einn, að huga að fyrrnefndum atriðum við afgreiðslu frumvarpsins.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Gegndi um daginn alls fimm ráðherraembættum

Deila grein

08/10/2014

Gegndi um daginn alls fimm ráðherraembættum

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, gegndi um daginn alls fimm ráðherraembættum, því hann bætti við sig embættum forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra. En Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra voru erlendis á ráðstefnum. Og þá var Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, einnig staddur erlendis og var því Sigurður Ingi staðgengill forsætisráðherra einnig einn af þremur handhöfum forsetavalds um stundarsakir.
Sigurður Ingi hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðustu daga og eru hér að neðan slóðir á ýmis viðtöl við hann sem gott er að deila áfram á flokksmenn og aðra stuðningsmenn flokksins.
eyjan.is – Sigurður Ingi hjólar í Kastljós: „Talið við kartöflubændur, talið um hver hefur ráðið markaðnum þar“
Í bítið – “Kerfið er í endurskoðun”, landbúnaðarráðherra ræddi MS málið
Kastljós – Vissi ekki um tengsl Ólafs
Fréttir RÚV – Flutningi Fiskistofu ekki breytt
Sprengisandur – Fór með rangt mál
Sprengisandur – Ver ekki samkeppnisbrot
 
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Ályktun frá stjórn Sambands ungra framsóknarmanna

Deila grein

07/10/2014

Ályktun frá stjórn Sambands ungra framsóknarmanna

logo-suf-forsidaStjórn Sambands ungra framsóknarmanna lýsir yfir fullum stuðningi við ríkisstjórnarsamstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og gerir alvarlegar athugasemdir við rangfærslur Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Athugasemdir við stjórnarsamstarfið byggja á rangfærslum
Athugasemdir SUS við stjórnarsamstarfið virðast ýmist byggðar á rangfærslum eða pólitískum öfgum. Svo dæmi sé tekið hafa Framsóknarmenn ekki lagst gegn komu verslunarkeðjunnar Costco, til landsins, þeir hafa þvert á móti fagnað möguleikanum á aukinni samkeppni í matvöruverslun. Framsóknarmenn hafa hins vegar hafnað því að landslögum sé breytt að kröfu eins fyrirtækis án frekari skoðunar. Ungir sjálfstæðismenn virðast hins vegar tilbúnir til að láta kröfur stórfyrirtækja ráða því hvernig lög landsins líta út.
Framsóknarmenn hafa heldur ekki lagst gegn skattalækkunum. Þvert á móti hafa þeir lýst efasemdum um hækkun neðra þreps virðisaukaskatts og viljað fá staðfestingu á því að heildarálögur á almenning, sérstaklega þá tekjulægri, komi til með að lækka með breytingum á skattkerfinu eins og forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa lagt áherslu á.
Þá lýsir Samband ungra framsóknarmanna yfir mikilli ánægju með skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar sem er til þess fallin að létta byrðar þeirra sem urðu fyrir forsendubresti með verðtryggð húsnæðislán sín eftir hrunið 2008 og þannig koma til móts við þann hóp sem setið hefur eftir.
Það er dapurlegt að sjá andstöðu ungra sjálfstæðismanna við að heimili landsins fái í einhverjum mæli að njóta þeirra afskrifta sem þegar hafa farið fram á lánum til heimilanna þegar þau voru færð milli fjármálastofnanna m.a. undir handleiðslu ríkisins. Samband ungra framsóknarmanna sér ástæðu til að benda á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins var ósammála SUS um þetta eins og margt annað, enda er það undarlegt viðhorf að fjármálakerfið eigi að hafa heimili landsins að féþúfu og innheimta að fullu lán sem þegar hafa verið færð niður.
Ungir sjálfstæðismenn hverfi frá öfgafullri hugmyndafræði
Samband ungra framsóknarmanna lýsir áhyggjum af þeirri öfgakenndu hugmyndafræði sem fram kemur í nýsamþykktri stefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna sem virðist gegnsýrð af óheftri nýfrjálshyggju.
SUF fordæmir þær hugmyndir sem þar koma fram um einkavæðingu mennta- og heilbrigðiskerfisins og bendir á að sagan hefur fyrir löngu afsannað þá bábilju að frjálshyggjan sé besta jafnréttisstefnan. Óheft nýfrjálshyggja og einkavæðingarstefna í þeim anda sem fram kemur í stefnu SUS hefur aldrei leitt til samfélagslegra framfara eða bættra kjara fyrir almenning.
Skammt er að minnast þess að SUS lagði fram fjárlagatillögur byggðar á svipuðum grundvelli undir yfirskriftinni „Sýnum ráðdeild“.
Í tillögunum lýsa ungir sjálfstæðismenn vilja sínum til að leggja niður jafnréttissjóð, Jafnréttisstofu, Raunvísindastofnun Háskólans,Þjóðminjasafnið, Þjóðleikhúsið, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Launasjóð listamanna, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Rannsóknarsjóð, Rannsóknarmiðstöð Íslands, Stofnun Árna Magnússonar, Fornleifavernd ríkisins, Fiskistofu, Hafrannsóknarstofnun, Verkefnasjóð sjávarútvegsins, Siglingastofnun og Flugmálastjórn, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga svo dæmi séu tekin.
Þá leggur SUS til að greiðslum til sérframlaga í fæðingarorlofssjóð, mæðra- og feðralauna, mannréttindamála, skógræktar, landgræðslu og þjóðgarðsins á Þingvöllum verði hætt og að Ísland leggi niður Þróunarsamvinnustofnun, hætti allri þróunaraðstoð og reyni þess í stað að auka velmegun í þróunarríkjum með því að ýta undir alþjóðaviðskipti.
Samband ungra framsóknarmanna telur ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur af því að ungliðahreyfing stærsta stjórnmálaflokks landsins sé föst í viðjum svo öfgakenndrar hugmyndafræði og skorar á SUS að hverfa frá henni.

Categories
Greinar

Sterkar stelpur – sterk samfélög

Deila grein

06/10/2014

Sterkar stelpur – sterk samfélög

Gunnar Bragi SveinssonTitill þessa greinarstúfs vísar í vikulangt kynningarátak um þróunarsamvinnu sem hefst í dag, þar sem unglingsstúlkur í þróunarríkjum verða í brennidepli.

Á hverjum degi glíma stúlkur í fátækari löndum heims við fjölmargar hindranir og víðast hvar verða þær fyrir kerfisbundnum mannréttindabrotum sökum kynferðis og aldurs. Félagsleg staða velflestra þeirra er veik, og fátækt og erfiðar aðstæður gera þær enn varnarlausari og rödd þeirra veikari. Í flestum þróunarlöndum hallar verulega á stúlkur þegar kemur að menntun. Þó þær gangi í vaxandi mæli í grunnskóla er brottfall algengt vandamál, enda gegna þær margvíslegum skyldum heima við sem látnar eru ganga fyrir, auk þess sem hjónaband og ótímabærar barneignir binda enda á skólagöngu þeirra. Framhaldsmenntun ljúka þær sjaldan og því tækifæri til atvinnu og tekjuöflunar takmarkaðar.

Þá getur þungun og barnsfæðing meðal unglingsstúlkna skapað mikla hættu, en ár hvert fæða 16 milljónir stúlkna á aldrinum 15-19 ára barn. Vandkvæði á meðgöngu og í fæðingu er meginástæða dauðsfalla meðal stúlkna í þessum aldurshópi. Þá eru ótalin varanleg heilsufarsvandamál svo sem fistill, auk þess sem ungar mæður og börn þeirra deyja frekar í fæðingu en þegar mæðurnar eru líkamlega tilbúnar til að ala barn.

Þess vegna er mikilvægt að réttindi ungs fólks og aðgangur að upplýsingum og þjónustu sé tryggður svo stuðla megi að bættu kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindum. Aukin þekking getur dregið úr ótímabærum þungunum stúlkubarna og átt þátt í að binda enda á kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og skaðlegar hefðir. Þar er átt við hefðir líkt og limlesting á kynfærum og nauðungarhjónabönd sem bitna oftast sérstaklega á stúlkum auk þess sem kynbundið og kynferðislegt ofbeldi gegn unglingsstúlkum er víða landlægt, látið óátalið og fær ekki meðferð í réttarkerfinu.

Á sama tíma og við gerum okkur grein fyrir því ójafnrétti sem viðgengst í garð unglingsstúlkna og þeim margvíslegu hindrunum sem þær takast á við dag hvern, vitum við að í valdeflingu þeirra felast mýmörg og mikilvæg tækifæri. Í rauninni má segja að unglingsstúlkur séu sjálfur lykillinn að framförum. Fyrir þær sjálfar og samfélagið í heild sinni.

Það hefur sýnt sig að menntun er ekki aðeins lykilþáttur í að bæta stöðu stúlkna heldur árangursrík leið til að draga úr fátækt og stuðla að þróun samfélaga. Hún hefur jafnframt margfeldisáhrif. Menntaðar stúlkur eru líklegri til að ganga seinna í hjónaband og eiga færri börn, sem aftur eru líklegri til að lifa af, búa við betra heilsufar og ganga menntaveginn. Menntaðar konur hafa betri tök á að þekkja og standa vörð um réttindi sín og stöðu og njóta fleiri tækifæra til að hafa áhrif og vera virkir þátttakendur innan veggja heimilisins og úti í samfélaginu.

Þá er lykilatriði að vinna markvisst að því að breyta viðhorfum sem víða eru ríkjandi í garð stúlkna og kvenna. Vinna þarf gegn mismunun og mannréttindabrotum og afnámi skaðlegra hefða sem standa jafnrétti og þróun samfélaga fyrir þrifum. Sérhver stúlka, óháð búsetu eða fjárhagsstöðu, á tilkall til að geta nýtt hæfileika sína og getu til fullnustu. Í dag er of mörgum stúlkum neitað um þann rétt. Vítahring misréttis og mismununar verður að rjúfa.

Það er því ánægjulegt að geta sagt frá því að stuðningur við unglingsstúlkur er mikilvægur þáttur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Bæði í gegnum stuðning við menntun þeirra og heilsufar í samstarfslöndum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sem og í gegnum verkefni alþjóðastofnana á borð við UNICEF og UN Women þar sem einnig er barist gegn ofbeldi gegn stúlkum og fyrir afnámi skaðlegra hefða líkt og limlestinga á kynfærum stúlkna.

Áfram stelpur!

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

Deila grein

06/10/2014

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október lýsir ánægju með góðan árangur sem náðst hefur í stjórn landsmála á því rúma ári sem liðið er frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum undir forsæti Framsóknarflokksins. Flestir mælikvarðar sem stuðst er við, til að vega og meta hagsæld þjóða, stefna upp á við. Það er ekki tilviljun. Þeirri stöðu hefur verið náð með forystu Framsóknarflokksins sem hefur haldið fast í gildi sín sem frjálslyndur félagshyggjuflokkur.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október hvetur almenna flokksmenn og sveitarstjórnarmenn til að halda á lofti þessum góða árangri, sérstaklega núna þegar hillir undir að leiðrétting húsnæðislána nái fram að ganga. Höfuðstólsleiðréttingin og skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar mun lækka greiðslubyrði og hækka ráðstöfunartekjur. Hraða verður vinnu við afnámi verðtryggingar á neytendalánum og afnámi hafta.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október hvetur ríkisstjórnina til að gera betur í málefnum hinna dreifðu byggða. Hraða skal uppbyggingu háhraðanets og annarar grunnþjónustu sem krafist er í nútímasamfélagi, þar með talin þriggja fasa rafmagns.
Þá fagnar kjördæmisþingið áformum ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Mjög hefur hallað á hana í þeim efnum á undanförum árum og fáir hreyft mótmælum þegar opinber störf hafa verið lögð niður á landsbyggðinni. Því kemur hin mikli órói, vegna áforma um flutning á höfuðstöðvum Fiskistofu, á óvart. Þar er um jákvætt skref að ræða og eru stjórnvöld eindregið hvött til að halda áfram á þessari braut.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október  leggur þunga áherslu á umferðaöryggi, styttingu vegalengda og viðhald vega svo að allir komist um landið með öruggum og greiðum hætti. Viðhaldi og uppbyggingu hafna er ábótavant og nauðsynlegar úrbætur eru brýnar, s.s. á Suðurnesjum og uppbygging Þorlákshafnar sem inn- og útflutningshafnar. Brýnt er að halda áfram rannsóknum við Landeyjarhöfn og Hornafjörð.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október leggur áherslu á trausta heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Mikilvægt er að samráð sé haft við heimamenn þegar ráðist er í breytingar á heilbrigðisþjónustunni. Standa þarf vörð um grunnþjónustu í heilbrigðismálum kjördæmisins, s.s. uppbyggingu hjúkrunarheimila.
Þingið leggur áherslu á að fundnar verði leiðir til að efla næringarvitund í átt að bættri lýðheilsu, með því að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttum. Góð lýðheilsa er beinn sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október leggur áherslu á að menntasetur í kjördæminu verði efld og þeim tryggður rekstrargrundvöllur. Það er nauðsynlegt að gera fólki kleift að stunda nám heima í héraði.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október hvetur stjórnvöld til að stuðla að aukinni matvælaframleiðslu. Hagræðing innan greinarinnar hefur skilað neytendum miklu á undanförnum árum, en hún má ekki verða á kostnað eðlilegri samkeppni.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október fagnar áformum landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um að leggja fram frumvarp um stjórn fiskveiða. Slíkar breytingar mega þó ekki þrengja að samkeppnis- og rekstrarhæfni greinarinnar. Tryggja verður fyrirsjáanleika í greininni, slíkt eykur byggðafestu og treystir stöðu sjávarútvegsfyrirtækja á erlendum mörkuðum. Þá hvetur kjördæmisþingið stjórnvöld til að tryggja hóflegt gjald fyrir aðgang að auðlindum hafsins er renni aftur heim í hérað, s.s. í uppbyggingu hafnarmannvirkja.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október leggur áherslu á að hlúð verði að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu í kjördæminu, einkum þó á Suðurnesjum og Skaftafellssýslum. Þingið hvetur til að vandað verði til uppbyggingar í ferðaþjónustu og lýsir yfir stuðningi við fyrirhugaða gjaldtöku af ferðamönnum.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október minnir á að standa beri vörð um náttúru Íslands. Um leið er rétturinn tryggður til að njóta hennar. Mikilvægt er að huga að sjálfbærri nýtingu til heilla fyrir samfélagið allt og komandi kynslóðir.
Þingið fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um aukna kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu og hvetur til þess að sem fyrst verði hafist handa við að vinna eftir þeim áformum.

*****

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Raunhæft val á húsnæðismarkaði

Deila grein

06/10/2014

Raunhæft val á húsnæðismarkaði

Elsa-Lara-mynd01-vefurÖrugg búseta skiptir okkur öll máli sama hvort við eigum eða leigjum húsnæði. Við viljum hafa raunhæft val um hvort við kaupum eða leigjum húsnæði. Því miður höfum við ekki haft þetta val á íslenskum húsnæðismarkaði. Einnig er það miður að stuðningur við búsetuformin hefur verið mjög misskiptur. Unnið er að úrbótum í þessum málaflokki í ráðuneyti félags – og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur.

Frumvörp í vinnslu

Þessa dagana er unnið hörðum höndum að gerð frumvarpa er varða húsnæðismarkaðinn, má þar nefna frumvörp er varða húsnæðisbætur, húsnæðismál, húsnæðissamvinnufélög og breytingar á húsaleigulögum. Frumvörpin eru byggð á tillögum Verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, sem skilaði af sér hugmyndum til ráðherra í vor. Verkefnisstjórnin var með víðtækt samráð í gegnum alla vinnuna, við alla þá aðila er koma að þessum málaflokki.

Undanfarin ár hafa margir starfshópar verið að störfum og rætt húsnæðismál og úrbætur í þeim efnum. Ótal skýrslur hafa verið skrifaðar og ýmsar góðar hugmyndir komið fram. Það er hins vegar fyrst núna, sem farið er að skrifa frumvörp þessa efnis og er vinnan á lokametrunum. Engin drög að frumvörpum voru til, þar sem taka átti á þessum stóra og mikilvæga málaflokki.

Það er því óhætt að halda því fram að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sé að stíga stór skref í átt að bættu húsnæðiskerfi, fyrir alla landsmenn.

Húsnæðisbætur

Unnið er að breytingum á vaxtabóta – og húsaleigubótakerfinu. Fyrirhugað er að sameina bæði kerfin í nýtt stuðningskerfi, húsnæðisbætur. Í nýju kerfi mun umfang stuðningsins m.a. taka mið af fjölskyldustærð og efnahag heimilanna, óháð búsetuformi. Unnið er að gerð frumvarps þessa efnis og stefnt er að því að leggja það fram á haustþingi.

Húsnæðismál

Unnið er að endurskipulagningu húsnæðismála og að gerð húsnæðisstefnu. Þar skal tilgreina hvert félagslegt hlutverk stjórnvalda eigi að vera á húsnæðismálamarkaði. Jafnframt skal skýra stefnu stjórnvalda er varðar húsnæðislán og hvaða lánaform verða í boði á markaðnum. Nauðsynlegt er að marka skýrar tillögur sem tryggi að jafnræði verði í lánveitingum til húsnæðiskaupa eða bygginga, um land allt. Unnið er að gerð frumvarps þessa efnis og stefnt er að því að leggja það fram á haustþingi.

Frumvörp sem koma fram á vorþingi

Unnið er að því að efla lagaumgjörð húsnæðissamvinnufélaga þannig að þau falli vel að nýju    framtíðarskipulagi húsnæðismála. Jafnfram er unnið að endurskoðun húsaleigulaga með það að markmiði að treysta umgjörð leigumarkaðar og efla úrræði leigusala og leigutaka. Vinnsla þessara mála er í fullum gangi og vinnsla frumvarpanna komin langt á leið. Stefnt er að því að koma þeim inn til þinglegrar meðferðar strax á vorþingi.

Komum málunum í gegn

Nauðsynlegt er að samstaða verði í þinginu að koma þessum málum í gegn. Það væri afar jákvætt fyrir okkur öll, sama hvaða búsetuformi við búum í. Í þessum frumvörpum munum við sjá skýra stefnu um jafnan stuðning við mismunandi búsetuform, reglur um lækkun leiguverðs, hvata til að fjölga leiguíbúðum og lagaumgjörð um bætt lánaumhverfi, neytendum í hag. Þetta eru stórir og mikilvægir þættir er varða heimilin í landinu.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 3. október 2014.

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.