Categories
Fréttir

Jafnrétti á vinnumarkaði – jafnréttisþing 2013

Deila grein

06/11/2013

Jafnrétti á vinnumarkaði – jafnréttisþing 2013

Eygló HarðardóttirFélags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, og jafnréttisráð buðu til jafnréttisþings síðastliðinn föstudag. Jafnréttisþingið var jafnframt lokaviðburður jafnréttisviku sem hófst á kvennafrídaginn, 24. október sl.

Hlutverk jafnréttisþingsins var að að efna til samræðu milli stjórnvalda og þjóðar um málefni kynjajafnréttis og gefa öllum áhugasömum kost á að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum. Fjallað var um fjölmargar hliðar jafnréttismála en megináhersla þingsins var að þessu sinni á jafnrétti á vinnumarkaði.

Fanný Gunnarsdóttir, formaður jafnréttisráðs, setti þingið og hófst dagskráin með ávarpi Eyglóar Harðardóttur sem fylgdi úr hlaði skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála árin 2011-2013.

Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals ÍST 85:2012 var einnig kynnt á þinginu af Önnu Kolbrúnu Árnadóttur formanns aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti. Verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi og komu fyrst hugmyndir fram um jafnlaunavottun árið 2005 í tíð Árna Magnússonar félagsmálaráðherra.

Fjölmargar málstofur voru haldnar á þinginu ásamt fyrirlestrum og pallborðsumræðum og endurspeglaðist efnisval framsögumanna í áherslum þingsins um á jafnrétti á vinnumarkaði.

Ísland skipar nú fimmta árið í röð efsta sæti lista Alþjóðaefnahagsráðsins á sviði kynjajafnréttis sem staðfestir þann góða árangur sem náðst hefur á sviði jafnréttismála á síðustu árum. Þótt enn sé nokkuð í land svo jafnri stöðu og jöfnum áhrifum kvenna og karla verði að fullu náð ber að halda því til haga sem vel er gert og hefur borið góðan árangur. Í skýrslu ráðherra er til að mynda fjallað um áhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof frá því þau tóku gildi í ársbyrjun 2001. Þrátt fyrir að breytingar hafi orðið á töku fæðingarorlofs í kjölfar efnhagsþrenginganna er ljóst er að enn tekur mikill meirihluti nýbakaðra mæðra og feðra á innlendum vinnumarkaði fæðingarorlof. Ennfremur sýna nýjar rannsóknir að hlutdeild feðra í umönnun barna hefur aukist verulega frá því að lögin tóku gildi en sú staðreynd verður að teljast til jákvæðra áhrifa laganna.

Eftir tvö ár verða 100 ár liðin frá því að íslenskar konur, 40 ára eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þessi tímamót verða nýtt til að beina sjónum að þeim verkefnum sem miða að því að auka kynjajafnrétti á sviðum þar sem enn hallar á annað kynið. Alþjóðlega fjármálakreppan, íslenska bankahrunið og efnahagsþrengingar sem fylgdu í kjölfarið hafa haft margræð áhrif á stöðu kvenna og karla og þróun jafnréttismála. Færa má rök fyrir því að jafnari þátttaka kynja í stjórnmálum, opinberri stjórnsýslu og í nefndum, stjórnum og ráðum hafi að einhverju leyti verið afleiðing þess að kallað var eftir breytingum í kjölfar efnahagsþrenginganna.  Konur eru nú um 40% kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu og á Alþingi. Hlutfall kvenna er nú sambærilegt því sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Þá hefur hlutur kvenna í stjórn atvinnulífsins aukist eftir að ákvæði um hlutfall kynja í stjórnun hlutafélaga var sett í í lög og áhrifa þeirra fór að gæta.

Í lok þingsins kom fram í  máli Kristínar Ástgeirsdóttur, framkvæmdastýru jafnréttisstofu, að brýnast væri að fræða ungt fólk og börn um jafnréttismál og að skólarnir gengdu þar lykilhlutverki. Það væri áhyggjuefni að íhaldssamasta viðhorfið væri að finna hjá ungu fólki sem hugsanlega endurspeglast í  því stöðuga áreiti sem það verður fyrir í formi efnis sem hamri mjög á íhaldssömum og hefðbundnum kynímyndum. Svo virðist sem meira sjáist af ákveðinni andstöðu við jafnrétti kynjanna og mikilvægt að stöðva þá óheillavænlegu þróun.

Jafnréttisþingið var vel sótt, rúmlega 300 þátttakendur sátu þingið.

Tenglar:

Skýrsla jafnréttisráðherra: https://www.velferdarraduneyti.is/media/Rit_2013/Jafnrettisskyrsla_2013.pdf

Jafnréttisþing 2013https://www.velferdarraduneyti.is/jafnrettisthing2013

 

Categories
Fréttir

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

Deila grein

05/11/2013

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

framsóknLandsstjórn Framsóknarflokksins boðar til haustfundar miðstjórnar 22.-23. nóvember á Hótel Selfossi í Árborg. Samkvæmt lögum flokksins skal á haustfundi taka félagsstarf flokksins á komandi starfsári sérstaklega til umræðu.

Drög að dagskrá:

Föstudagur 22. nóvember 2013

17.00  Setning

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,  forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins

17.05  Kosning embættismanna fundarins.

2 fundarstjórar og  2 fundarritarar

17.10  Skýrsla landsstjórnar, Eygló Harðardóttir félags og húsnæðisráðherra og ritari Framsóknarflokksins

17.30  Skýrsla málefnanefndar

17.40  Umræður um skýrslur

18.10  Reglur um framboðsleiðir til sveitarstjórna og sveitarstjórnarkosningarnar almennt

18.30  Skýrsla fræðslu- og kynningarnefndar

18.40  Hópastarf:

  • framboðsreglur

  • sveitarstjórnarmál

20.00  Kvöldverður

 

Laugardagur 23. nóvember 2013

08.30-09.30  Morgunverður

09.30  Hópastarf

11.30  Hópastarfi lokið

11.45  Hádegisverður

13.15  Ræða formanns Framsóknarflokksins. Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar forsætisráðherra

14.00  Almennar umræður

15.30  Kaffihlé

16.00  Niðurstöður hópastarfs

16.30  Kosið í fastanefndir miðstjórnar skv. lögum flokksins

  • Fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara

  • Fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara

17.00  Önnur mál og fundarslit
***
Fastanefndir miðstjórnar munu flytja skýrslu um störf sín og jafnframt skulu miðstjórnarmenn kjósa úr sínum hópi til eins árs í senn a) fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara og b) fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.
Miðstjórnarmenn eru hvattir til að gefa kost á sér í þessar nefndir og senda framboð á netfangið framsokn@framsokn.is.
Stefnt er að því að halda skemmtikvöld, föstudagskvöldið 22. nóvember, í samvinnu við framsóknarmenn í Árborg.
Aðalmenn í miðstjórn eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu eða forföll til skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Mikilvægt er að vita um forföll í tíma til að geta boðað varamenn á fundinn.
Nánari tilhögun verður kynnt síðar en miðstjórnarfulltrúar eru beðnir að taka dagana frá og gera ráðstafanir með gistingu sbr. tilkynningu þar að lútandi sem send var með tölvupósti.
 
 

Categories
Fréttir

Stjórnmálaskóli SUF

Deila grein

01/11/2013

Stjórnmálaskóli SUF

suf-logoEins og það getur verið misjafnlega gaman að setjast á skólabekk, þá hefur það aldrei verið eins gaman og að setjast á skólabekk í stjórnmálaskóla SUF.
Kennararnir eru hressir, námsefnið skemmtilegt og félagsskapurinn til mikillar fyrirmyndar.

  • 13:00 – Setning stjórnmálaskólans
  • 13:15 – Saga og hugmyndafræði Framsóknarflokksins
    • Einar Gunnar Einarsson, skrifstofustjóri Framsóknarflokksins
  • 14:30 – Kaffihlé
  • 14:45 – Fjölmiðlar og skrif
    • Karl Garðarsson, þingmaður og fyrrverandi fréttastjóri
  • 15:10 – Kynning á málefnum verkalýðsfélaga
    • Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness
  • 15:45 – Kaffihlé
  • 16:00 – Ræðumennska og framkoma
    • Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra
  • 17:00 – Heimsókn á Alþingi
    • Jóhanna María Sigmundsdóttir, yngsti þingmaður landsins

Og rétt eins og á öllum góðum dögum, verður endað á partý.
Þetta er einfaldlega skemmtun sem enginn ungur Framsóknarmaður (núverandi sem tilvonandi) má láta framhjá sér fara.
Stjórnmálaskólinn verður laugardaginn 2. nóvember frá kl. 13:00-17:00 í Framsóknarhúsinu við Hverfisgötu 33 í Reykjavík.
Skráningar sendis á netfögin brekkubraut5@gmail.com eða bjarkiadal@nordural.is.
Samband ungra framsóknarmanna er 75 ára á þessu ári og er mikilvægt að ungir framsóknarmenn viðhaldi pólitísk styrk sambandsins og fjölmenni í stjórnmálaskólann.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð kynnir formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni

Deila grein

30/10/2013

Sigmundur Davíð kynnir formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sat í dag þing Norðurlandaráðs og tók þátt í umræðu um ungt fólk og samkeppnishæfni á Norðurlöndunum. Þá kynnti forsætisráðherra formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2014 sem ber yfirskriftina „Gróska og lífskraftur“.
Í ræðu sinni fjallaði Sigmundur Davíð um þau verkefni sem Ísland hyggst setja á oddinn í formennskutíð sinni, líkt og norræna lífhagkerfið, norræna spilunarlistann og norrænu velferðarvaktina, auk þess að leggja aukna rækt við vestnorrænt samstarf. Þá mun á formennskuárinu fara fram endurskoðun á norðurskautsáætlun Norrænu Ráðherranefndarinnar og starfrækt verður sérstakt norrænt landamæraráð sem ætlað er að vinna áfram að afnámi stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndunum.

Categories
Fréttir

Samband eldri framsóknarmanna stofnað

Deila grein

29/10/2013

Samband eldri framsóknarmanna stofnað

sef-stjornSamband eldri framsóknarmanna, SEF, var stofnað í dag í Framsóknarhúsinu við Hverfisgötu. Tilgangur SEF verður m.a. að efla og samræma starf félagsmanna sinna, 60 ára og eldri, og vinna að málefnum eldri borgara með virku starfi að stefnumótun og samþykktum á flokksþingum. Jafnframt er því ætlað að vera stofnunum Framsóknarflokksins til ráðgjafar í öllum málum sem varða eldra fólk og hagsmuni þess.
Fyrsti formaður SEF er Hörður Gunnarsson og með honum í aðalstjórn voru kjörin, Hákon Sigurgrímsson, Ragnhildur Jónasdóttir, Einar G. Harðarson og Ólafía Ingólfsdóttir.
Einnig var kosið í trúnaðarráð með fulltrúum úr hverju kjördæmi og er því ætlað að vera stjórn til ráðgjafar og liðssinnis, eftir því sem þurfa þykir, um málefni, er snerta einstök kjördæmi eða landið í heild.
Var það rómur manna að sambandið gæti orðið Framsóknarflokknum til farsældar og eðlilegt að fylgja eftir góðum árangri flokksins í kosningunum í vor því baráttumál hans snertu ekki síst þann hóp borgara, sem studdu Framsóknarflokkinn frekar en áður.
Á myndinni er nýkjörin stjórn SEF ásamt formanni þingflokks Framsóknarmanna, Sigrúnu Magnúsdóttur.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Deila grein

28/10/2013

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson var á Sprengisandi á Bylgjunni í gær, sunnudag. Hann ræddi þar um stjórnmálaviðhorfið, þær aðgerðir sem framundan eru í skuldamálum heimilanna og sagði mjög ofsagt að deilur væru millum stjórnarflokkanna í þeim efnum. Þeir sem helst hefðu áhyggjur af því að ekki yrði staðið við gefin fyrirheit, væru mestu andstæðingar hugmyndanna um aðstoð við skuldsett heimili.
Enginn ágreiningur er um aðgerðir vegna skuldugra heimila innan ríkisstjórnarinnar sagði Sigmundur Davíð, hann sagði jafnframt að sá kostnaður sem talað væri um vegna leiðréttingar til handa heimilum væri undir þeim tölum sem hafa verið í umræðunni og svigrúmið sem myndast samhliða afnámi hafta rúmaði þá upphæð og vel það.
Sigmundur Davíð var spurður út í fjölmargar kjaftasögur sem hafa grasserað um hann í þjóðfélaginu upp á síðkastið. Hann kvaðst orðinn ýmsu vanur í þeim efnum, þetta hafi verið töluvert áberandi fyrst í stað, svo hafi það lagast, en undanfarið hafi rógurinn og kjaftasögurnar aftur komist í hæstu hæðir. „Þetta á ekkert bara við um mig, heldur stjórnmálamenn almennt. Ég get bara talað út frá eigin reynslu og sé að menn nýta sér þetta sem tæki í pólitískri baráttu. Þannig er ekki langt síðan skipulega var hringt inn á fréttastofur til að reyna að koma því á kreik að ég ætti von á barni með einhverri annarri konu en konunni minni.“ Umsjónarmaður Sprengisands greip þá inn í og staðfesti þetta og sagðist meðal annars að hringt hefði verið í sig með slíkar sögur.
Hér er hægt að nálgast upptökur af viðtalinu við Sigmund Davíð:
Sprengisandur: SDG 1. hluti. Sigmundur ætlar að standa við allt
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir ekki vafa um að staðið verði við gefin loforð.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=21945
Sprengisandur: SDG 2. hluti. Sigmundur og kjaftasögurnar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að um sig gangi vondar kjaftasögur og umræðunnar vegna sé erfitt að fá fólk til að taka þátt í stjórnmálum.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=21946
Sprengisandur: SDG 3. hluti. Ráðherrar ráða niðurskurði
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að hagræðingarnefndin skili tillögum til ráðherranefndar sem ákveði síðan hvað verði skorið og hvað ekki.
https://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=21947

Categories
Greinar

Njóta stóru bankarnir þrír ríkisábyrgðar í reynd?

Deila grein

28/10/2013

Njóta stóru bankarnir þrír ríkisábyrgðar í reynd?

Frosti SigurjónssonLandsbankinn, Arionbanki og Íslandsbanki eru taldir of stórir til að falla. Það þýðir að ef einhver þessara þriggja banka yrði gjaldþrota, þá myndi ríkissjóður koma til bjargar og lýsa yfir ríkisábyrgð á innstæðum.

Það má segja að á innstæðum í þessum þrem stærstu bönkum verði ekki komist hjá ríkisábyrgð. Eðlilegt væri því að þessir bankar greiddu ríkisábyrgðargjald í ríkissjóð í samræmi við lög um ríkisábyrgðir. Slíkt gjald myndi skila nokkrum milljörðum í ríkissjóð og jafna aðstöðu á bankamarkaði.

Njóti banki ríkisábyrgðar í reynd, án þess að greiða ríkisábyrgðargjald, þá má jafna ábyrgðinni við ríkisstyrk. Það er vafamál hvort tilefni sé til að ríkið styrki stærstu bankana sérstaklega og spurning hvort smærri bankar, sem ekki njóta sömu fyrirgreiðslu, eigi að sætta sig við slíka mismunun á markaði.

Í hruninu lýsti þáverandi ríkisstjórnin því yfir á ögurstundu að ríkisábyrgð væri á öllum innstæðum í innlendum bönkum. Yfirlýsingin dugði til þess að stöðva peningaflótta úr bönkunum. Hún bindur þó vart ríkissjóð, þar sem hún var aldrei samþykkt sem lög frá Alþingi. Ekki veit ég til þess að bankar hafi greitt ríkisábyrgðargjald vegna yfirlýsingarinnar. Yfirlýsinguna mætti afturkalla til að taka af allan vafa í hugum fólks.

Innstæðutryggingasjóði er ætlað að koma innstæðuhöfum til bjargar ef banki fellur. Sjóðurinn er fjármagnaður með iðgjöldum sem bankar greiða og á honum er ekki bakábyrgð ríkisins. Í hruninu voru um 20 milljarðar í sjóðnum, sem hefði kannski dugað til að bjarga litlum banka eða sparisjóði, en ekki neinum af stóru bönkunum.

Ríkissjóður mun því þurfa að hlaupa undir bagga ef stór banki fellur, jafnvel þótt bankinn hafi greitt samviskusamlega í tryggingasjóð innstæðna.

Ríkisábyrgð á innstæðum í stóru bönkunum virðist því miður óumflýjanleg hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Best væri því að horfast í augu við þá staðreynd, skilgreina ríkisábyrgðina nánar og sjá til þess að stóru bankarnir greiði vegna hennar sanngjarnt gjald í ríkissjóð.

Innstæður í stóru bönkunum 30.6.2013 

Arion banki        467 milljarðar
Íslandsbanki      476 milljarðar
Landsbanki       449 milljarðar
Samtals:       1.392 milljarðar

Ríkið þyrfti ekki að ábyrgjast allar þessar innstæður. Líklega gæti meiri hluti þessara innstæðna beðið á meðan fallinn banki væri settur í gjaldþrotameðferð. Takmarka þyrfti ábyrgðina við þær innstæður sem brýnast væri að tryggja. Til dæmis mætti hugsa sér að hámarkstrygging á hvern einstakling væri 3 milljónir kr. og hjá lögaðilum mætti tryggja innstæður að hámarki 3 milljónir á hvert stöðugildi hjá fyrirtækinu. Þannig gæti stór hluti einstaklinga og fyrirtæki þraukað, kannski í 3-6 mánuði, á meðan greitt væri úr mesta vanda bankans, eða eignir hans seldar upp í forgangskröfur.

Mjög gróft áætlað, mætti líklega takmarka ríkisábyrgð á innstæðum stóru bankanna við 4-500 milljarða í heild. Með því mætti afstýra mesta tjóninu af falli stórs banka. Væri ríkisábyrgðargjaldið 1% af þeirri fjárhæð myndi það skila 4-5 milljörðum árlega í ríkissjóð.

 

Frosti Sigurjónsson

 

 

Categories
Fréttir

Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni

Deila grein

25/10/2013

Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni

photo-2Forsætisráðherra, innanríkisráðherra, borgarstjóri, formaður borgarráðs og forstjóri Icelandair Group undirrituðu samkomulag um að norður-suðurflugbraut Reykjavíkurflugvallar verður ekki lokað árið 2016, eins og ráðgert hafði verið.
Þetta er þáttur í nýju samkomulagi ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um framtíð innanlandsflugs. Samkvæmt því fær norður-suður-brautin að halda sér allt til 2022 en jafnframt verður farið í úttekt á framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs, með áherslu á að miðstöð þess verði á höfuðborgarsvæðinu. Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, mun nú stýra starfshóp sem mun reyna að finna nýjan stað fyrir flugvöllinn.
Á flokksþingi framsóknarmanna í febrúar var ályktað mjög skýrt um að flugvöllurinn í Reykjavík verði áfram í Vatnsmýrinni sem hornsteinn fyrir samgöngur landsmanna, vegna almennings- og öryggishagsmuna.

Categories
Greinar

Helgi og kröfuhafar

Deila grein

25/10/2013

Helgi og kröfuhafar

Eygló HarðardóttirÍ nýlegri fyrirspurn til fjármálaráðherra spurði Helgi Hjörvar hvort skuldaleiðrétting verðtryggðra húsnæðislána ætti að vera hluti af samningum við erlenda kröfuhafa um afnám gjaldeyrishaftanna.

Þessi fyrirspurn hefur angrað mig nokkuð síðustu daga.

Ekki þó vegna áhuga Helga á skuldaleiðréttingunni. Ég er sannfærð um að hann hefur raunverulegan áhuga á skuldamálum heimilanna, ólíkt ýmsum öðrum í hópi fyrrverandi stjórnarliða. Nei, heldur því að hann skuli gefa sér að erlendir fjármagnseigendur hafi eitthvað með ákvarðanir íslenskra stjórnvalda að gera.

Við erum ekki í neinum samningum við þá um uppgjör þrotabúanna. Líkt og Seðlabankinn, fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa sagt er hlutverk slitastjórna hinna föllnu banka að koma með tillögur að nauðasamningum sem ógna ekki fjármálalegum stöðugleika landsins.

Sem ógna ekki fjárhagslegu sjálfstæði Íslands.

Slitastjórnirnar eiga að vinna sitt starf, að ljúka uppgjöri gömlu bankanna með einum eða öðrum hætti.

Ríkisstjórn Íslands mun vinna sitt starf, – að stjórna landinu.

Kannski er þetta ný hugsun fyrir suma, en hún fellur mér mun betur en að sitja og standa eins og kröfuhafar vilja.

 

Eygló Harðardóttir

 

Categories
Greinar

Þekking til framfara

Deila grein

24/10/2013

Þekking til framfara

Sigmundur Davíð GunnlaugssonKvennafrídagurinn 24. október er merkilegur dagur í sögu íslenskrar kvennahreyfingar því segja má að þann dag árið 1975 hafi hún á ný risið upp sem hin öfluga, fjölmenna samstöðuhreyfing sem hefur mótað samfélag okkar æ síðan. Framlag hennar er mikilvægt fyrir þróun jafnréttisbaráttunnar, en ekki síður fyrir þróun stjórnmálanna og lýðræðisins.

Frá upphafi hefur áherslan verið á réttindi kvenna á vinnumarkaði, launajafnrétti og aðgengi að menntun, störfum og valdastöðum innan atvinnulífs og stjórnmála. Þess vegna er 24. október hátíðar- og baráttudagur og mikilsvert tilefni til að minna okkur öll á ríkulegt framlag kvenna til lífsgæða, mannréttinda og auðlegðar Íslands.

Í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins á sínum tíma og í þakkarskyni við framlag jafnréttishreyfingarinnar til þróunar samfélagsins var stofnað til Jafnréttissjóðs til að styrkja nýsköpun þekkingar á sviði jafnréttis- og kynjafræða með sérstakri áherslu á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Í því fólst viðurkenning á nauðsyn þess að efla rannsóknir á hlutskipti kvenna og karla og að skjóta sterkari stoðum þekkingar undir starf að jafnrétti kynjanna á margvíslegum vettvangi, bæði á vegum stjórnsýslunnar sem annarra.

Sérstaklega skyldi styðja ungar fræðikonur við uppbyggingu á fræðimannsferli sínum. Að auki höfðu sterkar líkur verið leiddar að því að konur sem umsækjendur eða rannsóknarverkefni á sviði jafnréttis kynja gætu borið skarðan hlut frá borði við samkeppni um fé í rannsóknarsamfélaginu í heild.

Jafnréttissjóður hefur nú styrkt hátt á þriðja tug rannsóknarverkefna. Í dag er úthlutað styrkjum til fimm ólíkra rannsókna sem öll munu nýtast í jafnréttisstarfinu. Rannsóknirnar snúa að launajafnrétti kynjanna, viðhorfum unglinga til verkaskiptingar kynja, ólíkum áhrifum atvinnuleysis á sálræna líðan karla og kvenna auk þess sem sjónum verður beint að orðræðu samfélagsins sem tengist móðurhlutverkinu.

Loks ber að nefna rannsóknarverkefni þar sem kastljósinu verður beint að fjarveru kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna. Með þessu leggur Jafnréttissjóður sitt lóð á vogarskálarnar til eflingar þekkingar sem nýtist jafnréttisbaráttunni og samfélaginu öllu.
Til hamingju með daginn.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

(Greinin birtist í FRÉTTABLAÐINU 24. október 2013)