Categories
Greinar

Hlutdeildarsetning á makríl

Deila grein

25/11/2013

Hlutdeildarsetning á makríl

Sigurður Ingi JóhannssonNokkur umræða hefur verið undanfarna daga vegna fyrirhugaðrar hlutdeildarsetningar á makríl. Mismálefnaleg er hún og ekki alltaf farið rétt með staðreyndir. Ég fagna þeim áhuga sem málið fær, mér finnst margt áhugavert hafa komið fram. Aftur á móti finnst mér líka mjög varhugavert að margir fara af stað með misstaðreyndar fullyrðingar sem haldið er fram af mikilli sannfæringu. Spurt hefur verið í sátt við hverja sé unnið í sjávarútvegi. Og hvort til álita komi að úthluta makríl á uppboðsmarkaði. Svarið er: ég vil að sem flestir verði sáttir, og já ég hef íhugað uppboðsleiðina. En það eru ríki sem hafa prófað að fara þá leið, til dæmis Eistland og Rússland, en bæði fallið frá henni.

Margar hugmyndir hafa skotið upp kollinum um sanngjarna deilingu makrílkvótans og tekjur af ráðstöfuninni. Reynsla okkar og annarra ríkja hefur sýnt að kvótakerfi, með framseljanlegum aflaheimildum á grundvelli veiðireynslu, er mjög hagkvæmt.

Það má benda ágætum fyrrverandi sjávarútvegsráðherrum á þá staðreynd að makrílveiðikerfinu var nánast læst á grundvelli veiðireynslu árið 2010. Nú, þegar sex ára veiðireynsla liggur fyrir og væntingar, sem meðal annars hafa skilað sér í verðmætri uppbyggingu og fjárfestingum í búnaði, er örðugt að stíga fram og segja að veiðireynslan hafi litla eða enga þýðingu. Það hefði á þessum tímapunkti, sem kerfinu var lokað, verið hægt að fara uppboðsleiðina hefðu menn haft til þess pólitískan kjark. Mér finnst líklegt að þessu verði svarað með því að ekki hafi verið til staðar samkomulag um makrílinn við önnur strandríki og því ekki hægt að fara í þá aðgerð. Þau rök halda ekki. Í kolmunna, sem er flökkustofn og stýrt með strandríkjasamningi, var aflahlutdeildum úthlutað til skipa áður en samningur um skiptingu milli strandríkjanna náðist.

Mér finnst aftur á móti spennandi að horfa að einhverju leyti til þess hvernig var skipt árið 2010 og hvort það geti að hluta til verið grunnur að skiptingu heimilda. Mjög gott starf var unnið á síðasta kjörtímabili í að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar með kröfum um vinnslu á makríl til manneldis. Mér finnst einnig áhugavert að horfa til þess við útdeilingu réttindanna. Hugað var að fjölbreytileika og byggðasjónarmiðum í þeim reglum sem í kerfinu hafa gilt. Mér finnst æskilegt að réttindaskiptingin taki mið af því.

Við skulum hafa í huga að hefðu stóru útgerðirnar ekki haldið til makrílveiða á undanförnum árum hefði samningsstaða Íslands í makríldeilunni nánast verið vonlaus. Við skulum einnig hafa í huga hvernig hagkvæmast er fyrir þjóðina að veiðunum sé stýrt. Það er nefnilega svo að makríllinn er ekki raunverulegt verðmæti fyrr en hann er kominn úr sjó. Þjóðin, sem eigandi auðlindarinnar, hlýtur að gera kröfu um hámarksarðsemi af henni. Þessum áhrifum vil ég ná fram með því að leggja til hlutdeildasetningu á makríl. Ég hyggst ekki leggja til að kvótinn verði seldur hæstbjóðanda á uppboði; líklegast yrðu það þá fáir stórir aðilar sem fengju allt. Ég hyggst leggja til að verðmætin verði leigð til þeirra sem þau hafa skapað; verði það niðurstaðan hefði þjóðin leigugjald af veiðum á makríl til framtíðar.

Það er almennt viðurkennt að hámarksarðsemi í kvótakerfum næst með framseljanlegum aflaheimildum. Það er mikilvægt að þeir sem hyggjast nýta þá auðlind sem makríllinn er hafi tækifæri til að nota til þess bestu skipin til að stýra veiðum á hagkvæmasta tíma og treysta markaði. Ég tek undir að huga þarf að öðrum þáttum, eins og hvort einhverjir sækist eftir heimildum, eingöngu til þess að hagnast á þeim með sölu, en ekki nýta þær til verðmætasköpunar. Ég er mjög tilbúinn í umræðu um hvernig við getum komið í veg fyrir slíkt.
Sigurður Ingi Jóhannsson

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi brást skjótt við

Deila grein

25/11/2013

Sigurður Ingi brást skjótt við

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur heimilað í ljósi þess að síld er gengin inn á Kolgrafafjörð síldveiðar séu frjálsar innan brúar í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi.Vonast er til þess að veiðar þessar geti hvoru tveggja bjargað verðmætum og haft mögulegan fælingarmátt þannig að síldin gangi fyrr út úr firðinum en ella. Þá mun Hafrannsóknarstofnun hefja tilraunir með að fæla síldina burt með sérstökum útbúnaði sem gefur frá sér háhyrningahljóð, sem vitað er að síldin forðast undir venjulegum kringumstæðum.
roskur-radherraÞað er rétt sem segir í leiðara Fréttablaðsins í dag að “á svona dögum er mikilvægt að stjórnvöld séu ekki föst í viðjum þunglamalegs kerfis. Yfirvöld verða að vera í stakk búin til að geta tekið skjótar ákvarðanir. Því miður gerist það of sjaldan að það er eins afdráttarlaust tekið af skarið og á föstudaginn. Lílega verður af nógu að taka í stórum ákvörðunum næstu daga.”
Tengill:
https://stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=0a74c363-05ac-41d4-8eac-b197996210e1

Categories
Greinar

Skuldaleiðréttingar, er umræðan sanngjörn?

Deila grein

24/11/2013

Skuldaleiðréttingar, er umræðan sanngjörn?

Elsa Lára ArnardóttirNú er ekki nema nokkrir dagar í að ríkisstjórnin kynni framkvæmd boðaðra skuldaleiðréttinga.

Heimilin eru orðin óþolinmóð eftir aðgerðum og undrar mig það ekki því biðin hefur verið löng. Gerum okkur samt grein fyrir að biðin hefur verið mun lengri en þetta kjörtímabil hefur staðið.

En um leið og óþolinmæði brýst fram, sem hefur vissulega gerst hjá mér, þá er ég um leið ánægð. Ég er ánægð með hversu mikil vinna hefur farið í undirbúning aðgerðanna, sem mun tryggja að komið verði fram með tillögur sem duga. Tillögur sem verða í takt við stjórnarsáttmála Framsóknar – og Sjálfstæðisflokksins. En þar stendur m.a. “Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.”

En ég verð að viðurkenna að það eru ákveðnir þættir sem skyggja á ánægju mína, vegna komandi aðgerða. Það er þegar nokkrir aðilar í samfélaginu leika sér að því að afvegaleiða umræðuna um skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Slá fram fullyrðingum um framkvæmd, sem enginn fótur er fyrir. Þessir aðilar hafa ekki hugmynd um hvernig farið verði að framkvæmd mála, en leika sér þess í stað að tala málefnið niður og reyna að auka á ótrúverðugleika þess sem koma skal.

Það finnst mér ekki fallega gert því í hvert sinn sem umræðan fer á þetta plan, þá grípur um sig ótti hjá hópi fólks sem býr inni á skuldsettum heimilum. Það veit ég því margir hafa hringt, sent mér póst og skilaboð og sagt mér frá áhyggjum sínum vegna þessara mála. Það gerist samhliða því þegar umræðunni um skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar er snúið á hvolf.

Mig langar því að óska eftir vandaðri umræðu um þessi mál. Þrátt fyrir að einhver sé ósammála um að fara skuli í þessar aðgerðir, þá verður það gert. Forsætisráðherra mun kynna tillögur skuldaleiðréttingahópsins í lok nóvember og þar á eftir koma tillögurnar til umræðu inni í þinginu.

Aukum ekki á kvíða og ótta íslenskra heimila, þeirra sem hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár með því að afvegaleiða umræðuna og koma röngum skilaboðum út í samfélagið. Stöndum frekar með heimilunum, því kominn er tími til.

Lokaorð mín eru þau, að gagnrýni á auðvitað rétt á sér, en munum þá, að mikilvægt er að fara með staðreyndir.
Elsa Lára Arnardóttir

Categories
Greinar

Beinn og breiður vegur – er á óskalistanum

Deila grein

24/11/2013

Beinn og breiður vegur – er á óskalistanum

Silja Dögg GunnarsdóttirSamgöngumál á landsbyggðinni eru víða í ólestri. Of litlu fé hefur verið varið til viðhalds vega síðustu ár og það er farið að segja verulega til sín. Ríkið mun þurfa að leggja í gríðarlegan kostnað eftir nokkur ár ef viðhaldi verður ekki betur sinnt. Svo virðist sem við séum að kasta krónunni fyrir aurinn.

Margra ára vanræksla
Viðhald á bundnum slitlögum endist í 7-10 ár í viðbót en víða er það orðið 10-12 ára. Hér áður fyrr var stitlaginu haldið við með því að leggja nýtt slitlag á nokkra kólómetra á hverju ári, en ef framheldur sem horfir þá þarf að leggja bundið slitlag á mjög langa kafla þegar þar að kemur. Vegirnir eru víða orðnir holóttir á þessum svæðum og fara að verða hættulegir, og sums staðar orðnir mjög hættulegir.

Skólaakstur og ferðamenn
Mjög margir tengivegir í sveitum landsins eru illa farnir sem ógnar umferðaröryggi. Þeir eru jafnvel ekki heflaðir reglulega. Börn sem búa í sveitum þurfa oft að sækja skóla um langan veg og þurfa þá að fara um þessa hættulegu vegi í alls konar veðrum. Aukinn straumur ferðamanna um þessi svæði skapar einnig álag á vegina og við því þarf að bregðast. Að mínu mati ættu tengivegir þar sem skólaakstur er, að vera á forgangslista hvað varðar viðhald og eftirlit.

Bundið slitlag á malarvegi
Ársþing Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi fór fram nýverið en í ályktun þingsins um samgöngumál kemur m.a. fram „að skynsamlegt sé að leggja áherslu á lagningu bundins slitlags á núverandi vegi með nauðsynlegum lagfæringum og spara þar með viðhald malarvega.” Ég tek undir þetta sjónarmið.

Einbreiðar brýr
Í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslu eru ennþá rúmlega tuttugu einbreiðar brýr á þjóðvegi 1, sem ég tel ekki vera boðlegt árið 2013. En í öðrum kjördæmum eru slíkar brýr sjaldséðar og heyra jafnvel sögunni til, sem er gott. Samkvæmt samgönguáætlun eru einbreiðar brýr ekki á áætlun fyrr en 2019-2022. Ég tel jafnvel að mögulegt sé að flýta slíkum framkvæmdum og kostnaður yrði jafnvel talsvert lægri, ef við nálgumst þær út frá nýjum forsendum. Af samtölum mínum við starfsmenn vegagerðinnar er hugsanlega mögulegt að setja ræsi undir nokkrar ár og losna þannig við brýrnar. Sumar brýr eru steyptar og í góðu standi. Það mætti jafnvel skoða að steypa við þær þar sem stál hefur hækkað mikið í verði, þannig að steypa gæti verið hagkvæmari. Sums staðar eru fyrirhugaðar breytingar á veglínu. Til dæmis þegar nýr vegur kemur um Hornafjarðarfljót þá detta þrjár brýr af listanum. Núverandi brú yfir Hornafjarðarfljót er stórvarasöm en samkvæmt samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir að framkvæmdir við nýja brú yfir fljótið, hefjist fyrr en árið 2018. Framkvæmdin er arðsöm og mun stytta hringveginn um 11 km.

Vilji til að auka viðhald vega
Greinarhöfundur hóf umræður um þessi mál á Alþingi í síðustu viku. Innanríkisráðherra tók undir þau sjónarmið að viðhaldi hafi verið ábótavant á umliðnum árum og segist muni leita leiða til að bæta þar úr. Ráðherrar sagðist líka ætla að skoða leiðir til að hraða ákveðnum nýframkvæmdum og mun kynna það síðar í vetur.

Samgönguráð vinnur nú að gerð fjögurra ára áætlunar og skilar henni til innanríkisráðherra fyrir áramót. Áætlunin verður í framhaldinu lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og þingið mun taka afstöðu til hennar. Næsta langtímaáætlun í vegagerð verður síðan fyrir tímabilið 2015-2026 og að sögn ráðherra mun það ráðast af fjármagni sem veitt verður til vegamála, hvort unnt sé að flýta framkvæmdum við einbreiðar brýr á Suðurlandi.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir, 3. þingmaður Suðurkjördæmis, Framsóknarflokki.

Categories
Fréttir

Öll fyrirheit uppfyllt

Deila grein

23/11/2013

Öll fyrirheit uppfyllt

sdg-midstjorn-selfossi“Munum uppfylla öll þau fyrirheit sem við höfum gefið. Við ætlum að leiðrétta fyrir sérstökum verðbólguáhrifum sem bankarnir bjuggu til. Við blöndum leiðum í samræmi við stjórnarsáttmálann og þingsályktunartillögu og úr því kemur besta niðurstaðan. Það verður ekki vandamál fyrir okkur vegna þess að við lögðum sjálf til að skattaleiðin yrði farin. Hún hefur ýmsa kosti og spilar vel saman við hitt”, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins í ræðu sinni á haustfundi miðstjórnar á Selfossi.
“Athuganir sérfræðinganna hafa staðfest hversu öfugir hvatar hafa verið á síðasta kjörtímabili. Ótal raunveruleg dæmi sýna hvernig þeir sem ákváðu að borga ekki af lánum sínum fengu mun meiri leiðréttingu en þeir sem höfðu verið í sömu stöðu en stóðu í skilum. Höfum ótal dæmi sem sýna að það munar milljónum á því hvort fólk stóð í skilum eða ekki. Auk þess er þekkt að minnst hefur verið komið til móts við þá sem fóru varlega fyrir efnahagshrunið. Við munum ekki leysa skuldavanda allra. Þetta er réttlætisaðgerð; þetta er jafnræðisaðgerð; þetta er er efnahagsleg aðgerð. Þetta er aðgerð sem mun marka efnahagslegan og samfélagslegan viðsnúning”, sagði Sigmundur Davíð jafnframt.
sdg-midstjorn-selfossi-03Sigmundur Davíð fagnaði því mjög hve þingflokkur Framsóknarmanna hafi staðið sig vel, það væri ekki sjálfgefið þegar svo stór hluti þingflokks væri nýtt fólk og allir reyndari þingmenn störfum hlaðnir sem formenn nefnda og ráðherrar.
Unnið er skipulega að framgangi allra mála sem fjallað er um í stjórnarsáttmála. Staðan var erfið er ríkisstjórnin tók við, enda einkenndu frestunaraðgerðir allt síðasta kjörtímabil. Nú er komið að viðsnúningi og skapa raunverulegan vöxt en ekki lántöku.

Categories
Fréttir

Reykjavík fyrir alla – efstu sjö sætin ákveðin

Deila grein

20/11/2013

Reykjavík fyrir alla – efstu sjö sætin ákveðin

Kjördæmaþing framsóknarfélaganna í Reykjavík hefur samþykkt tillögu kjörstjórnar um skipan í efstu sjö sæti framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík gengur til kosninga undir kjörorðunum Reykjavík fyrir alla.
FRAMSOKN-Reykjavik-efstu-4-saetin
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Efstu sjö sætin skipa:

  1. Óskar Bergsson, rekstrarfræðingur og húsasmíðameistari
  2. Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sjúkraliði og verkfræðingur
  3. Valgerður Sveinsdóttir, lyfjafræðingur
  4. Guðlaugur Gylfi Sverrisson, vélfræðingur
  5. Hafsteinn Ágústsson, kerfisstjóri
  6. Hallveig Björk Höskuldsdóttir, öryggisstjóri
  7. Trausti Harðarson, viðskiptafræðingur

Fjölmörg mál bíða úrlausnar í Reykjavík sem munu gera borgina að betri stað til að búa á.  Það er ekki nóg að hlusta á borgarbúa, en heyra  ekki hvað þeir segja. Ekki síst á það við skipulagsmál, en stórar ákvarðanir þarf að taka á næstunni svo þróun borgarinnar verði til hagsbóta fyrir alla Reykvíkinga, ekki bara suma. Liður í því er staðsetning flugvallarins í Reykjavík, en að mati Framsóknarflokksins  verður að tryggja núverandi staðsetningu hans, ekki síst ef borgin á að þjóna hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna.
Skipulagsmál eru umhverfismál og þau verður að nálgast með umræðu við þá sem í borginni búa. Skipuleggja þarf borgina þannig að búseta nærri vinnustað sé raunhæfur möguleiki. Sem dæmi má nefna að tæp 80% af öllum störfum í Reykjavík eru í vestur hluta hennar, þessu þarf að breyta.

Categories
Greinar

Stýritæki seðlabankans hefur kostað 28 milljarða frá hruni

Deila grein

19/11/2013

Stýritæki seðlabankans hefur kostað 28 milljarða frá hruni

Frosti SigurjónssonPeningaþenslan er komin af stað, aftur. Bankar hafa aukið laust fé í umferð um 10% á aðeins hálfu ári. Þessi þróun er áhyggjuefni og kallar á skjót viðbrögð. Í aðdraganda hrunsins óx peningamagn hratt, þrátt fyrir háa stýrivexti. Peningastefna Seðlabankans, sem á þeim tíma byggði á stýrivaxtatækinu, kom hvorki í veg fyrir gengdarlausa peningaþenslu bankanna, né það hrun er af henni leiddi.

Hvað getum við lært af þeirri reynslu?

Bindiskylda er stýritæki sem Seðlabanki gæti beitt til að draga úr peningaþenslu. Bindiskylda hefur verið óbreytt 2% allt frá árinu 2003 en þá var hún lækkuð úr 4%.

Aukin bindiskylda gæti verið ódýrara tæki til að draga úr peningaþenslu, en það tæki sem Seðlabankinn beitir. Nú hefur Seðlabanki selt bönkum 120 milljarða af innstæðubréfum sem bera 5.7% vexti. Tilgangurinn með því er að binda laust fé. En kostnaðurinn við þetta stýritæki er gríðarlegur fyrir Seðlabankann. Samkvæmt tölum DataMarket er kostnaðurinn frá því í janúar 2009 til dagsins í dag orðinn 28 milljarðar. Sá kostnaður leggst á Ríkissjóð og þar með skattgreiðendur og heimilin í landinu.
Með virkri notkun bindiskyldu gæti Seðlabanki dregið úr peningaþenslu og jafnframt lækkað útgjöld sín um nokkra milljarða árlega. Vissulega á Seðlabankinn að vera sjálfstæður í mótun peningastefnu, en það þýðir ekki að hann eigi að vera undanskilinn því markmiði að ná sem bestum árangri án óþarfa útgjalda.
Frosti Sigurjónsson
Categories
Fréttir

Nýjar aflahlutdeildir í útahfsrækju með sanngirni og heildarsýn að leiðarljósi

Deila grein

15/11/2013

Nýjar aflahlutdeildir í útahfsrækju með sanngirni og heildarsýn að leiðarljósi

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir frumvarpi á Alþingi í vikunni um að settar verði nýjar aflahlutdeildir í útahfsrækju. Er það gert vegna þeirrar ákvörðunar þáverandi ráðherra sjávarútvegsmála, Jóns Bjarnasonar, að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar frá og með fiskveiðiárinu 2010–2011. Sigurður Ingi fór yfir að það sé engin launung að styr stóð um þá ákvörðun á sínum tíma að gefa veiðarnar frjálsar. Því var haldið fram að aðrir kostir hefðu verið nærtækari til að bregðast við þeim aðstæðum eða þeirri gagnrýni sem á þeim tíma lá fyrir um veiðarnar. Sagði hann jafnframt að því hafi einnig verið haldið fram að ákvörðunin hafi verið á gráu svæði lagalega.
Sigurður Ingi sagði Alþingi verði að líta með sanngirni og af heildarsýn á þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi við veiðarnar og leysa úr þeim veruleika sem þarna skapaðist. Hér er um algjörlega einstaka stöðu að ræða innan fiskveiðistjórnarkerfisins og einangrað úrlausnarefni.
Endurtökum ekki fyrri mistök
„Frjálsar veiðar hafa leitt til of mikils sóknarþunga, offjárfestinga nýrra aðila í ótryggu umhverfi og er þá ekki tekið tillit til þeirra fjárfestinga sem um leið standa vannýttar hjá þeim útgerðum sem fyrr höfðu lagt í þær fjármuni. … Þeirri staðreynd verður þó ekki breytt að eins og staðan er núna mun rækjustofninn, sem því miður er í lægð, ekki standa undir fjölbreyttri atvinnu víðs vegar um landið, sama hvaða leið væri farin. Við þurfum að leita annarra leiða í þeim efnum og er það verðugt og mikilvægt verkefni.“
Með frumvarpinu er lagt til að „með hliðsjón af markmiðum laga um stjórn fiskveiða þykir eðlilegt að taka annars vegar ríkt tillit til þeirra sem ráða yfir fyrri hlutdeildum í úthafsrækju, ekki síst í því ljósi að ella væri grafið mjög undan þeirra langtímahugsun sem er aðalsmerki hlutdeildarkerfisins. Hins vegar þykir rétt að horfa til þess að það umhverfi sem varð til með frjálsum veiðum á úthafsrækju hefur laðað nýja aðila til veiðanna sem gefið hafa kröftum sínum viðnám við að byggja upp framleiðslutæki og aðstöðu,“ sagði Sigurður Ingi ennfremur.
Laugarvatnsyfirlýsingin kveður á um að grundvöllur fiskveiðistjórnar verði aflamarkskerfið
Í frumvarpinu er málamiðlun um hvernig verði náð því marki að tryggja að veiðarnar komi aftur undir aflamarksstýringu samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Það er í samræmi við Laugarvatnsyfirlýsinguna, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að grundvöllur fiskveiðistjórnar verði aflamarkskerfið. Það horfir til farsældar að þetta frumvarp verði afgreitt af Alþingi áður en við tökumst á við næsta skref í þeirri vinnu að efla sátt um framtíðarskipulag greinarinnar með boðuðu frumvarpi um innleiðingu svonefndrar samningaleiðar í sjávarútvegi sem nú er unnið að í ráðuneyti sjávarútvegsmála.
Rækjustofninn við Snæfellsnes verði sjálfstæður veiðistofn
Mikilvægt er að horfa til þess að með frumvarpinu er lagt til að rækjustofninn við Snæfellsnes, þ.e. í Kolluál, Jökuldjúpi og sunnanverðum Breiðafirði, verði hlutdeildarsettur sérstaklega og þannig meðhöndlaður sem sjálfstæður veiðistofn samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Er það að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem um árabil hefur veitt sérstaka ráðgjöf um þennan stofn sem þó hefur verið veiddur undir aflamarki úthafsrækju. Það er mikilvægt vegna þess að þótt Kolluáll og Jökuldjúp heyri til úthafsrækjuveiðisvæða telst rækjan þar ekki líffræðilega til úthafsrækju heldur er hún af sama stofni og rækjan í sunnanverðum Breiðafirði. Af þeim ástæðum er eðlilegt að hún verði meðhöndluð sem sjálfstæður veiðistofn samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.

Categories
Greinar

Enginn með lygaramerki á tánum

Deila grein

14/11/2013

Enginn með lygaramerki á tánum

Silja Dögg GunnarsdóttirStærsta mál Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar var að leiðrétta stökkbreytt fasteignalán íslenskra heimila. Forsætisráðherra lagði fram aðgerðaáætlun í tíu liðum þann 13. júní s.l. sem var samþykkt á Alþingi. Í henni kemur m.a. fram að: „Settur verði á fót sérfræðingahópur sem útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og geri tillögur þar að lútandi. Tillögur liggi fyrir í nóvember 2013.“ Vinna hópsins gengur vel og mun hann boða til blaðamannafundar og kynna niðurstöður sínar í lok nóvember. Á þeim tímapunkti getur fólk mátað sína stöðu við niðurstöðu sérfræðinganna. Leiðréttingin sjálf mun síðan taka nokkra mánuði enda um flókið verkefni að ræða.

Alið á ótta og óvissu

Það hefur verið mjög einkennilegt að fylgjast með umræðunni sl. mánuði. Svo virðist sem það vaki fyrir ákveðnum einstaklingum að grafa undan von fólks að skuldaleiðréttingaleiðin sé fær. Reynt hefur verið að ala á ótta og vantrú af einhverjum öflum, sem erfitt er að festa hönd á. Vanlíðan margra og óvissa er alveg nógu mikil án þess að vísvitandi sé alið á þessum erfiðu tilfinningum. Væri ekki eðlilegra að bíða eftir niðurstöðum sem eiga að liggja fyrir í nóvember í stað þess að tala um svik. Hver sveik annars hvern? Mitt mat er að þeir sem voru við stjórnvölinn í síðustu ríkisstjórn hafi svikið almenning. Ekki núverandi ríkisstjórn. Hún hefur ekki svikið gefin loforð og mun ekki gera það.

Ekki hlustað á tillögur Framsóknar 2009

Framsóknarflokkurinn fékk umboð sitt frá kjósendum í síðustu Alþingiskosningum. Þá vann flokkurinn sögulegan kosningasigur og undirritaði í framhaldinu stjórnarsáttmála ásamt Sjálfstæðiflokki. Í stjórnarsáttmála má lesa eftirfarandi: „Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007-2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði.“ Flokkarnir vinna nú samkvæmt þessu sáttmála og samstarfið gengur vel.

Í vor var kosið um skuldamálin. Það er ekki rétt að flokksmenn hafi lofað öllu fögru kortér í kosningar til að komast til valda, eins og sumar litlar sálir halda fram. Það er afbökun á sannleikanum. Hið rétta er að þingmenn flokksins töluðu fyrir skuldaleiðréttingu allt síðasta kjörtímabil, en á þá var ekki hlustað og lítið gert úr þeirra tillögum til skuldaleiðréttingar.

Staðfastur hópur að baki stórum verkefnum

Í þingflokki Framsóknar starfar fólk sem vill íslenskum heimilum vel og er tilbúið að leggja mikið á sig til að koma þeim til hjálpar. Fyrir margar er það því miður orðið of seint. Tillögurnar munu koma fram innan skamms og það er vitað að það verða ekki allir ánægðir með þær tillögur. Sumum mun eflaust finnast að niðurstaðan sé ekki rétt fyrir sig. Aðrir vilja fara allt aðrar leiðir í skuldaleiðréttingum og svo er þeir sem telja skuldaleiðréttingu óþarfa með öllu. Þingmenn Framsóknarflokksins voru kosnir til að leysa þetta verkefni og þeir ætla að halda áfram að standa með íslenskum heimilum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi

Deila grein

11/11/2013

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi

framsóknKjördæmisþing framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi, haldið í Hafnarfirði 9. nóvember 2013, fagnar þeim góða árangri sem náðist í síðustu alþingiskosningum um allt land. Í fjölmennasta kjördæmi landsins, Suðvesturkjördæmi, nær tvöfaldaði Framsóknarflokkurinn fylgi sitt og náði inn þremur öflugum þingmönnum; hefur Framsóknarflokkurinn aldrei fengið fleiri greidd atkvæði í neinum kosningum en í Suðvesturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum. Árangur náðist vegna sterkra frambjóðenda, einbeitts málflutnings þeirra og mikils sjálfboðaliðastarfs fjölmargra í baklandinu. Fyrir það ber að þakka. Mikilvægt er að hefja sem fyrst undirbúning fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og byggja á þeim góða árangri sem náðist í síðustu alþingiskosningum. Þingið hvetur því almenna flokksmenn til að huga í tíma að kosningum á vori komanda.

Þingið bindur miklar vonir við nýja ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Afar mikilvæg hagsmunamál s. s. skuldamál heimilanna, efling atvinnulífs og að standa vörð um velferðarkerfið eru stærstu verkefnin framundan. Eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. maí í vor eru heimilin undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins. Þingið fagnar því  áherslu stefnuyfirlýsingarinnar um að farið verði í markvissar aðgerðir til að taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Þar er tiltekið að um verði að ræða almennar aðgerðir með áherslu á jafnræði og skilvirkni. Ljóst er að forsendubrestur er verulegur og nauðsynlegt að leiðrétta hann til að koma íslenskum heimilum til hjálpar. Heimilin eru undirstaða samfélagsins og er bætt staða heimilana forsenda þess að hagvöxtur aukist og hjól atvinnulífsins fari að snúast. Þingið telur eðlilegt að þeir sem bjuggu til forsendubrestinn greiði fyrir leiðréttingu á lánum heimilanna.
Þingið fagnar þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi í sumar um framtíðarskipan húsnæðismála. Þar er félags- og húsnæðismálaráðherra falið að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi, meðal annars með það í huga að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem á þurfa að halda.
Oft var þörf en nú er brýn nauðsyn á aðgerðum til að bæta aðstæður á húsnæðismarkaði þannig að öllum verði gert kleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið og skapa sér og sínum öruggt heimili. Þær aðstæður eru ekki fyrir hendi núna, sérstaklega þarf að huga að eflingu leigumarkaðarins. Mikilvægt er að tryggja ólík búsetuform þar sem öryggi er lykilatriði.
Aðkoma hagsmunaaðila s.s. sveitarfélaganna skiptir einnig miklu máli. Skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélagana og þar með ráða þau áherslum við uppbyggingu húsnæðis, hvar skuli byggt og hvernig, samsetningu og fjölbreytni íbúðarhúsnæðis.

Þingið telur mikilvægt að standa vörð um velferðar og heilbrigðiskerfið. Áfram skal stefnt að því að árangur íslenska heilbrigðiskerfisins verði í fremstu röð. Áfram verði lögð áhersla á að bjóða þá bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni.

Breytingar og niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni á síðustu árum hafa sett allt heilbrigðiskerfið í uppnám.  Því er nauðsynlegt að snúið verði af þeirri braut og leitað allra leiða til að hlúa að og efla heilbrigðisþjónustuna og forvarnir almennt.

Þingið hvetur forsætisráðherra, ráðherra flokksins og þinglið til að hafa forystu um mótun heildarstefnu um bætta lýðheilsu íslensku þjóðarinnar, sbr. stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Þingið fagnar að kjaraskerðing aldraðra og öryrkja sem tók gildi 1. júlí 2009 sé afturkölluð. Einnig telur þingið mikilvægt að almannatryggingarkerfið verði endurskoðað þar sem sérstök áhersla verði lögð á sveigjanleg starfslok og starfsgetumat.
Fjölskyldan í fjölbreyttri mynd er meginstoð og hornsteinn íslensks samfélags.  Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að styðja við heimili landsins í þeim erfiðleikum sem á hafa dunið. Gott samspil fjölskyldu og samfélags er forsenda heilbrigðrar samfélagsþróunar.
Þingið áréttar einnig mikilvægi þess að virkja þann kraft sem býr í mannauði Íslendinga. Gamalkunna stef okkar framsóknarmanna vinna-vöxtur-velferð, lýsir í hnotskurn samhengi hlutanna. Án vinnu verður vöxtur takmarkaður og erfitt að standa undir velferð. Þingið hvetur því nýja ríkisstjórn til að leggja allt kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýtir undir fjárfestingu og fjölgun starfa, ekki síst hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
Þingið fagnar því að sú pólitíska óvissa sem einkenndi síðasta kjörtímabil, sérlega undir lokin, er á undanhaldi. Mikilvægt er að skapa ró um þau verkefni sem leysa þarf á næstu misserum og ná sem mestri samvinnu og sátt um þau úrræði sem gripið verður til. Þingið treystir nýrri ríkisstjórn og nýju Alþingi til að vinna í þeim anda.

Framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi leggja áherslu á mikilvægi umhverfismála. Ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála þarf að efla og skilgreina þarf betur verkefni þess. Mikilvægt er að ekki sé gengið á hina einstöku náttúru Íslands og að náttúruvernd og náttúrunýting fari vel saman. Um þetta er nauðsynlegt að sátt ríki í þjóðfélaginu og því styðja framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi heils hugar þá vinnu sem er að fara í gang við endurskoðun náttúruverndarlaga. Nauðsynlegt er að atvinnuuppbygging, þar á meðal í ferðaþjónustu, taki mið af jafnvægi náttúruverndar og náttúrunýtingar.

Íslendingar eru leiðandi í heiminum í nýtingu endurnýjanlegrar orku og til þess að svo verði áfram er mikilvægt að styðja við innlenda tækniþróun og nýsköpun tengdri nýtingu á grænni orku. Íslenskir vísindamenn og fyrirtæki eru í fremstu röð á sviði endurnýjanlegrar orku og vilja framsóknarmenn í Suðvesturkjördæmi kappkosta við að svo verði áfram.

Það var mikil afturför í umhverfismálum þegar rammaáætlun um vernd og nýtingu landsvæða var dregin í pólitískar deilur af síðustu ríkisstjórn. Þess vegna er mikilvægt að rammaáætlun verði endurskoðuð á grundvelli niðurstaðna faghópa sérfræðinga, út frá því sjónarmiði að náttúruvernd og náttúrunýting fari vel saman.

Framsóknarmenn í suðvesturkjördæmi telja það brýnt að draga úr losun allra mengandi efna, þar með talið gróðurhúsalofttegunda.  Með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka notkun innlendra og vistvænna orkugjafa, eins og t.d metans, raforku eða metanóls, getum við Íslendingar verið fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir í þessari vegferð. Í þeim tilgangi er mikilvægt að smám saman auka kröfur til innihalds vistvænna orkugjafa í eldsneyti og styðja við innlenda framleiðslu á vistvænum orkugjöfum. Íslendingar eru háðir því að lífríki hafsins sé heilbrigt, og því er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að það hljóti skaða af vegna mengandi efna. Einnig er mikilvægt að efla landgræðslu og skógrækt hér á landi.

Þingið telur að hefja beri endurskoðun á lífeyriskerfi landsmanna með það í huga að einfalda það til muna og jafna kjör. Skoða þarf kosti og galla þess að einn sjóður haldi utan um grunnlífeyrisréttindi allra landsmanna. Áfram verði tryggð réttindi til söfnunar séreignarlífeyris.
Lögð verði meiri áhersla á tækni-, iðn- og verkmenntun til að tryggja öflugt atvinnulíf í landinu. Gera verður slíkt nám eftirsóknarverðara en verið hefur með kynningarstarfi í grunnskólum. Fyrirtækjum verði auðveldað að taka nemendur á samning í slíkum greinum.

Þingið telur að endurskoðað verði nám á öllum skólastigum þannig að nemendur komist fyrr í sérnám og út á vinnumarkað.