Categories
Fréttir

Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni

Deila grein

25/10/2013

Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni

photo-2Forsætisráðherra, innanríkisráðherra, borgarstjóri, formaður borgarráðs og forstjóri Icelandair Group undirrituðu samkomulag um að norður-suðurflugbraut Reykjavíkurflugvallar verður ekki lokað árið 2016, eins og ráðgert hafði verið.
Þetta er þáttur í nýju samkomulagi ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um framtíð innanlandsflugs. Samkvæmt því fær norður-suður-brautin að halda sér allt til 2022 en jafnframt verður farið í úttekt á framtíðarstaðsetningu innanlandsflugs, með áherslu á að miðstöð þess verði á höfuðborgarsvæðinu. Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, mun nú stýra starfshóp sem mun reyna að finna nýjan stað fyrir flugvöllinn.
Á flokksþingi framsóknarmanna í febrúar var ályktað mjög skýrt um að flugvöllurinn í Reykjavík verði áfram í Vatnsmýrinni sem hornsteinn fyrir samgöngur landsmanna, vegna almennings- og öryggishagsmuna.

Categories
Greinar

Helgi og kröfuhafar

Deila grein

25/10/2013

Helgi og kröfuhafar

Eygló HarðardóttirÍ nýlegri fyrirspurn til fjármálaráðherra spurði Helgi Hjörvar hvort skuldaleiðrétting verðtryggðra húsnæðislána ætti að vera hluti af samningum við erlenda kröfuhafa um afnám gjaldeyrishaftanna.

Þessi fyrirspurn hefur angrað mig nokkuð síðustu daga.

Ekki þó vegna áhuga Helga á skuldaleiðréttingunni. Ég er sannfærð um að hann hefur raunverulegan áhuga á skuldamálum heimilanna, ólíkt ýmsum öðrum í hópi fyrrverandi stjórnarliða. Nei, heldur því að hann skuli gefa sér að erlendir fjármagnseigendur hafi eitthvað með ákvarðanir íslenskra stjórnvalda að gera.

Við erum ekki í neinum samningum við þá um uppgjör þrotabúanna. Líkt og Seðlabankinn, fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa sagt er hlutverk slitastjórna hinna föllnu banka að koma með tillögur að nauðasamningum sem ógna ekki fjármálalegum stöðugleika landsins.

Sem ógna ekki fjárhagslegu sjálfstæði Íslands.

Slitastjórnirnar eiga að vinna sitt starf, að ljúka uppgjöri gömlu bankanna með einum eða öðrum hætti.

Ríkisstjórn Íslands mun vinna sitt starf, – að stjórna landinu.

Kannski er þetta ný hugsun fyrir suma, en hún fellur mér mun betur en að sitja og standa eins og kröfuhafar vilja.

 

Eygló Harðardóttir

 

Categories
Greinar

Þekking til framfara

Deila grein

24/10/2013

Þekking til framfara

Sigmundur Davíð GunnlaugssonKvennafrídagurinn 24. október er merkilegur dagur í sögu íslenskrar kvennahreyfingar því segja má að þann dag árið 1975 hafi hún á ný risið upp sem hin öfluga, fjölmenna samstöðuhreyfing sem hefur mótað samfélag okkar æ síðan. Framlag hennar er mikilvægt fyrir þróun jafnréttisbaráttunnar, en ekki síður fyrir þróun stjórnmálanna og lýðræðisins.

Frá upphafi hefur áherslan verið á réttindi kvenna á vinnumarkaði, launajafnrétti og aðgengi að menntun, störfum og valdastöðum innan atvinnulífs og stjórnmála. Þess vegna er 24. október hátíðar- og baráttudagur og mikilsvert tilefni til að minna okkur öll á ríkulegt framlag kvenna til lífsgæða, mannréttinda og auðlegðar Íslands.

Í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins á sínum tíma og í þakkarskyni við framlag jafnréttishreyfingarinnar til þróunar samfélagsins var stofnað til Jafnréttissjóðs til að styrkja nýsköpun þekkingar á sviði jafnréttis- og kynjafræða með sérstakri áherslu á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Í því fólst viðurkenning á nauðsyn þess að efla rannsóknir á hlutskipti kvenna og karla og að skjóta sterkari stoðum þekkingar undir starf að jafnrétti kynjanna á margvíslegum vettvangi, bæði á vegum stjórnsýslunnar sem annarra.

Sérstaklega skyldi styðja ungar fræðikonur við uppbyggingu á fræðimannsferli sínum. Að auki höfðu sterkar líkur verið leiddar að því að konur sem umsækjendur eða rannsóknarverkefni á sviði jafnréttis kynja gætu borið skarðan hlut frá borði við samkeppni um fé í rannsóknarsamfélaginu í heild.

Jafnréttissjóður hefur nú styrkt hátt á þriðja tug rannsóknarverkefna. Í dag er úthlutað styrkjum til fimm ólíkra rannsókna sem öll munu nýtast í jafnréttisstarfinu. Rannsóknirnar snúa að launajafnrétti kynjanna, viðhorfum unglinga til verkaskiptingar kynja, ólíkum áhrifum atvinnuleysis á sálræna líðan karla og kvenna auk þess sem sjónum verður beint að orðræðu samfélagsins sem tengist móðurhlutverkinu.

Loks ber að nefna rannsóknarverkefni þar sem kastljósinu verður beint að fjarveru kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna. Með þessu leggur Jafnréttissjóður sitt lóð á vogarskálarnar til eflingar þekkingar sem nýtist jafnréttisbaráttunni og samfélaginu öllu.
Til hamingju með daginn.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

(Greinin birtist í FRÉTTABLAÐINU 24. október 2013)

Categories
Fréttir

Auglýst eftir framboðum í Árborg

Deila grein

22/10/2013

Auglýst eftir framboðum í Árborg

xblogo2013Á almennum félagsfundi í Framsóknarfélagi Árborgar í byrjun október var ákveðið að stilla upp á lista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí 2014. Á fundinum var jafnframt kjörin fimm manna uppstillingarnefnd undir forystu Gissurar Jónssonar.
Við sama tækifæri tilkynntu Helgi S. Haraldsson, núverandi bæjarfulltrúi flokksins, og Íris Böðvarsdóttir, varabæjarfulltrúi, að þau gefi áfram kost á sér til starfa fyrir sveitarfélagið Árborg í kosningunum næsta vor.
Framsóknarfélag Árborgar auglýsir hér með eftir framboðum og ábendingum um áhugasamt og hæfileikaríkt fólk með brennandi áhuga á málefnum sveitarfélagsins til að taka sæti á lista Framsóknarflokksins í Árborg.
Ef þú hefur hefur áhuga að taka sæti á listanum eða tillögu um fólk á listann biðjum við þig að vera í sambandi við uppstillinganefnd á netfangið xb.arborg@gmail.com. Frambjóðendur geta þeir einir orðið sem hafa kjörgengi til sveitarstjórnar Árborgar.
Framboðsfrestur er til fimmtudagsins 31. október 2013. Stefnt er að því að samþykkja framboðslista á félagsfundi í lok nóvember.
Nánari upplýsingar eru veittar hjá Gissuri í síma 894-5070.
Takk fyrir aðstoðina og munum að það er gaman saman í Framsókn.

Categories
Fréttir

Náttúruverndarlög – endurskoðun

Deila grein

21/10/2013

Náttúruverndarlög – endurskoðun

ege-jokulsarlonid
Í undirbúningi er innan umhverfisráðuneytisins að mynda hóp með sérfræðingum og fagaðilum til að endurskoða náttúruverndarlög nr. 60/2013. Umhverfisráðherra mun leggja frumvarp til endurskoðaðra laga fyrir Alþingi áður en lög nr. 60/2013 taka gildi.
Markmiðið verður að ná sem víðtækastri sátt um lögin og ná lausnamiðari sátt sem yrði til jákvæðra breytinga fyrir okkur öll sem una okkar fallega landi sem og hinna fjöldamarga ferðamanna sem til landsins koma. Lögð verður áhersla á að horfa á málið út frá lausnum, hugsa fram á við og setja sér eftirsóknarverð markmið. Í þeirri vinnu verður tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram um að ekki hafi verið nægjanlegt samráð við fjölmarga hagsmunaaðila. Það þarf að fara í vinnu með ýmis sjónarmið t.d. skógræktarinnar, sveitarfélaganna, Ferðafrelsis og Landsambands landeigenda.
Tryggja þarf nægilegt samráð við fjölmarga aðila og sérfræðinga við vinnuna. Fara vel yfir athugasemdir sem bárust og ekki var tekið tillit til. Frumvarpið fékk afar knappan tíma til umfjöllunar og á endanum fannst lausn sem enginn var fyllilega sáttur við og var það afgreitt undir lok þingsins undir mikilli tímapressu.
Helstu ágreiningsefni snérust að ákvæðum um almannarétt, umferð um hálendið og óskýrar orðaskilgreiningar. Heildstæðari sýn þarf að vera á umhverfismál í lagaumhverfinu, einnig snerist gagnrýnin um ákvæði um framandi tegundir, heimild til að tjalda, hlutverki einstakra stofnanna við framkvæmd laganna og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þá þarf að stíga viðráðanleg skref, hvað kostnað varðar.
Verður hér gerð grein fyrir nokkrum athugasemdum sem þarf að skoða frekar.

Eignarréttur – almannaréttur.

Vernd eignarréttar og umráðaréttur landeigenda yfir landi sínu er mikilvægur grundvallarréttur sem ber að vernda, en með sama hætti er nauðsynlegt að tryggja eðlilegan rétt almennings og ferðafólks til að njóta náttúru landsins, svo fremi að ekki sé gengið á rétt og hagsmuni landeigenda með spjöllum, ónæði eða öðru slíku. Augljóst er að hér er um að ræða vaxandi vandamál víða um landið, samhliða mikilli fjölgun ferðamanna. Hér er um að ræða viðfangsefni sem leiða þarf til lykta með víðtækara og nánara samráði við landeigendur, útivistarsamtök, ferðaþjónustuaðila og aðra hagsmunaaðila svo að löggjöfin og breytingar á henni verði ekki uppspretta endalausra deilna á komandi árum.

Umferð hjólreiðamanna.

ege-umferdinÍ lögunum segir: „Þegar farið er á reiðhjólum um landið skal fylgt vegum og skipulögðum reiðhjólastígum eins og kostur er.“
Sífellt fleiri nýta sér fjallahjól til ferðalaga og útivistar. Hjólin eru orðin mun betri en áður og fleiri geta nú hjólað erfiðar fjallahjólaleiðir. Það má velta því fyrir sér hvort hjólreiðar fara nokkuð verr með stíga, þegar allt er tekið með í reikninginn eða annað í náttúrinni heldur en umferð gangangi fólks. Lítið er um skipulagða reiðhjólastíga á hálendinu og því er búið að útiloka þennan ferðamöguleika. Koma verður til móts við þennan hóp.

Akstur utan vega.

Öllum er ljóst hvaða skaða akstur utan vega getur valdið fyrir náttúru landsins, skýrar reglur þurfa því að vera um akstur utan vega. Útfæra þarf slíkt vel svo það gangi upp bæði lagalega og í framkvæmd. Mikil gagnrýni hefur komið frá útivistarfólki, vönum ferðamönnum og bændum, sem vel þekkja til aðstæðna og bera mikla umhyggju fyrir náttúru landsins.
Margir umsagnaraðilar hafa gagnrýnt það að í lagatexta komi ekki skýr ákvæði um undanþágur vegna aksturs utan vega. Það er mikilvægt að slíkar undanþágur sé skýrar og að þær séu samdar í samráði við þá aðila sem málið varða. Fjölmargir aðilar þurfa starfs síns vegna að aka utan vega og yfirleitt er um að ræða akstur á léttum fjórhjólum sem ekki skemma land sé þeim ekið af skynsemi. Dæmi sem okkur er öllum umhugað um er að björgunarsveitir séu ávallt í stakk búnar til að bjarga öllum í krefjandi aðstæðum, hvar og hvenær sem er. Útköll björgunarsveita á hálendinu hafa margfaldast með tilkomu vaxandi útivistar almennings sem og ferðamanna sem sækja okkur heim. Skv lögum þessum fá björgunarsveitir einungis heimild til aksturs utan vega við björgunarstörf en að öðru leyti eiga æfingar að fara fram á sérstökum æfingasvæðum. Æfingar björgunarsveita við raunverulegar aðstæður eru mikilvægur þáttur í starfsemi þeirra og getur reynsluleysi við raunverulegar aðstæður verið dýrkeypt. Mikilvægt er að björgunarsveitum sé veitt rýmri heimild til æfinga utan vega.

ege-thjodveginumKortagrunnur um vegi og vegslóða.

Í lögunum segir að ráðherra skuli í reglugerð kveða á um gerð kortagrunns þar sem merktir skulu vegir og vegslóðar sem heimilt er að aka vélknúnum ökutækjum um.
Mikil gagnrýni og tortryggni hefur komið fram og snúast áhyggjurnar um hömlur á ferðafrelsi sem eru ekki í samræmi við ferðavenjur um náttúru landsins. Menn hafa farið um hálendið um árabil, til að njóta landsins og náttúrinnar en ekki til að skaða hana. Fara þarf betur yfir hvernig menn ætla að nálgast markmiðið. Hugsa í lausnum. Eins og lagt er upp með í lögunum þá er hættan sú að slóðar sem eru settir inn verða öllum kunnir, það þýðir meiri átroðning og þá er markmiðið fallið um sjálft sig og engin náttúruvernd í því. Einnig hafa menn áhyggjur af því að mat á refsinæmi sé óraunhæft og of þrengjandi að byggja á því að tæmandi séu allir þeir vegir og slóðar sem heimilt er að aka um. Skilja verði eftir svigrúm fyrir þá sem ferðast um landið til að taka tillit til aðstæðna hverju sinni og á hverjum stað um leið og lögð sé á þá almenn kvöð um að virða náttúru landsins og valda ekki skaða á viðkvæmri náttúru.

Óskýrar orðaskilgreiningar.

Ýmsar orðaskilgreiningar eru óljósar, villandi og eða rangar, úr því þarf að bæta. Óskýr lagasetning skilar ekki tilsettum árangri, leiðir til ágreinings og færir dómstólum aukin völd.
Dæmi:

  • 5. töluliður 5. gr.  Ræktað land: Land sem nýtt er til framleiðslu nytjajurta með íhlutun, svo sem sléttun, þurrkun, áburðargjöf, jarðvinnslu, sáningu eða öðrum ræktunaraðgerðum. Land telst óræktað eftir langvarandi notkunarleysi. Skóglendi telst ræktað land þangað til trén hafa náð þeim þroska að venjuleg umferð sakar ekki. Ýmsar spurningar vakna hér. Hættir skóglendi að vera ræktað land þegar trén hafa náð þroska? Hvað með land sem er nýtt til beitar fyrir búfénað, t.d. hross og nautgripi, og ætti því að flokkast sem „ræktað land“ eða land í notkun? Í þessum lögum væri til dæmis heimild tjöldun almennings til skamms tíma á slíkum landsvæðum enda væri þetta svæði flokkað sem „óræktað land“. Það er mikilvægt að skilgreina hvað er óræktað land. Skynsamlegra væri að nota hugtökin nytjaland og land sem ekki er nytjað í stað orðanna ræktað og óræktað land.
  • 28. töluliður 5. gr. Þéttbýli: Svæði afmarkað með sérstökum merkjum sem tákna þéttbýli. Virðist eingöngu miða að því að skilgreina hvar þéttbýli endar við þjóðvegi en eðli málsins skv. hlýtur það að vera þar sem byggðin endar. Eðlilegra væri að vísa til samþykkts skipulags.
  •  Í kafla IV Almannaréttur, útivist og umgengni. 25. gr. Takmörkun umferðar. „Umhverfisstofnun getur í verndarskyni takmarkað umferð um eða lokað svæðum í óbyggðum ef hætta er á verulegu tjóni af völdum ágangs á svæðið.“ Þegar svona tilvik koma upp þá þarf að hafa samráð við sveitarfélög áður en ákvörðun er tekin.
  • Í VI. kafla um Náttúruminjaskrá. 37. gr. Réttaráhrif skráningar minja á náttúruminjaskrá. „Ráðherra er heimilt að kveða á um tímabundið bann við framkvæmdum eða nýtingu sem skaðað getur verndargildi náttúruminja sem teknar eru á framkvæmdaáætlun (B-hluta).“ Sama sagan, vantar að tryggja aðkomu sveitarfélaga.
  • Í X. kafla um Vernd jarðminja, vistkerfa, vistgerða og tegunda. 57. gr. 3. mgr. Sérstök vernd tiltekinna vistkerfa og jarðminja. Orðalag getur orðið til þess ákvarðanir sveitarfélaga geta verið kærðar á þeim grundvelli að framkvæmd þyki ekki nauðsynleg. Orðalagið má ekki verða til þess að nánast allar ákvarðanir sveitarfélaga um leyfisveitingar verði kærðar á þeim grundvelli að framkvæmd þyki ekki nauðsynleg.

Fleiri greinar skarast á við skipulagsvald sveitarfélaga. Lögin varða þau á margan hátt og sveitarfélögin eru dæmi um aðila sem hefðu átt að koma fyrr að málinu heldur en þau gerðu.

Categories
Greinar

Að gefnu tilefni – ekki stutt í fullbúinn samning við ESB

Deila grein

17/10/2013

Að gefnu tilefni – ekki stutt í fullbúinn samning við ESB

Gunnar Bragi SveinssonÍ tilefni af því að framkvæmdastjórn ESB gaf í gær út skýrslur sínar um einstök ríki sem eru í aðildarferli að ESB lýsti stækkunarstjóri ESB því mati sínu að „…við höfum ekki verið það langt frá því að leggja fyrir Íslendinga samning sem hefði tekið tillit til sérstöðu Íslands en um leið grundvallarreglna Evrópusambandsins og allra reglna leiksins.“

Hér er farið heldur frjálslega með. Staðreynd málsins er sú að öll stærstu málin í þessum viðræðum stóðu enn út af þegar hlé var gert á þeim. Þrátt fyrir að margir samningskaflar höfðu verið opnaðir og um þriðjungi lokað, þá fær það ekki staðist að stutt hafi verið í samningsniðurstöðu þegar kaflar um sjávarútveg og landbúnað höfðu ekki verið opnaðir svo ekki sé minnst á þá staðreynd að ESB hafði ekki einu sinni afgreitt sína eigin rýniskýrslu um sjávarúvegskaflann.

Þessi fullyrðing stækkunarstjórans sýnir að það er brýnt að réttar upplýsingar um stöðu viðræðnanna við ESB séu á borðinu. Þess vegna mun sá þáttur einmitt verða hluti af þeirri úttekt sem ég mun kynna fljótlega á nýju ári.

 

Gunnar Bragi Sveinsson

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Suðurkjördæmi

Deila grein

17/10/2013

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Suðurkjördæmi

Stjórnmálaályktun Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi Vík í Mýrdal 11.-12. október 2013

framsóknKjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi lýsir ánægju með góðan árangur sem flokkurinn náði í kjördæminu og á landsvísu í alþingiskosningum í vor. Sá árangur er ekki síst að þakka sterku baklandi, öflugum frambjóðendum og skynsamlegum máflutningi. Þingið fagnar myndun ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, en telur mikilvægt að hún lúti forystu Framsóknarmanna.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi hvetur almenna flokksmenn og sveitarstjórnarmenn að huga í tíma að kosningum á vori komandi. Í þeirri vinnu skal gildum Framsóknarflokksins haldið á lofti og byggja skal á góðum árangri sem náðist í alþingiskosningunum í vor.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna á Suðurkjördæmi leggur áherslu á að vinnu við leiðréttingu á forsendubresti húsnæðislána verði hraðað eftir því sem kostur er. Með því móti er brugðist við réttmætum væntingum kjósenda Framsóknarflokksins. Um leið munu eignastaða og lífskjör batna.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi leggur áherslu á að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum sem samþykkt var á síðasta flokksþingi og er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Aukin forgangsröðun verkefna í héraði og mikilvægara hlutverk sveitastjórna og heimamanna á hverjum stað. Lögð verði áhersla á jafnrétti til búsetu og íbúar fái notið þeirrar grunnþjónustu sem krafist er í nútímasamfélagi. Trygg raforka, jöfnuður í orkukostnaði og aðgangur að hágæða netsambandi er meginforsenda fjölbreyttrar atvinnuuppyggingar á landsvísu.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi fagnar vegabótum sem gerðar hafa verið á þjóðveginum með tvöföldun hluta vegarins um Suðurlandsveg. En gera þarf betur í þessum efnum og klára verkefnið. Brýnt er að bæta veglínur við Höfn í Hornafirði og Vík í Mýrdal. Einnig er mikil þörf á að útrýma einbreiðum brúm á hringveginum og byggja upp mikið ekna tengivegi kjördæmisins. Stóraukin fjöldi ferðamanna og almenn umferð um kjördæmið útheimtir betri samgöngur , auknar áherslur á umferðaröryggi og öflugri löggæslu.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi fagnar forgangsröðun ríkisstjórnar í uppbyggingu löggæslunnar í landinu. Þingið hvetur þingmenn flokksins og ríkisstjórn að standa vörð um grunnþjónustu löggæslunnar.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi leggur áherslu á trausta heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Mikilvægt er að samráð sé haft við heimamenn þegar ráðist er í breytingar á heilbrigðisþjónustunni. Stjórnvöld eru hvött til að endurskoða áform um innritunargjald á sjúkrahús. Kjördæmisþingið lýsir sérstökum áhyggjum af ástandinu á Heilbrigðisstofnunum í kjördæminu. Standa þarf vörð um grunnþjónustu í heilbrigðismálum kjördæmisins. Huga þarf að sjúkraflutningum í þessu samhengi.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi leggur áherslu á að menntasetur í kjördæminu verði efld. Markmiðið ætti að vera að sem flestir ljúki framhaldsskólamenntun sem næst sinni heimabyggð. Kjördæmisþingið hvetur stjórnvöld til að skoða þann möguleika að niðurgreiða námslán þeirra sem ljúka háskólanámi og vilja setjast að og starfa í jaðarbyggðum á landsbyggðinni. Sérstaklega ef skortur er á einstaklingum með viðkomandi menntun, eins og til dæmis læknum.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi fagnar ákvörðun um hærra ásetningshlutfall í sauðfjárrækt og að greiðslumark mjólkurframleiðslu verði aukið á næsta ári. Kjördæmisþingið telur að mikil tækifæri felist í íslenskri matvælaframleiðslu og hvetur stjórnvöld í samstarfi við framleiðendur að tryggja að þau tækifæri fari ekki forgörðum. Kjördæmisþingið lýsir ánægju sinni með aukinn hlut innlendrar framleiðslu í fóðuröflun og skorar á stjórnvöld að hlúa sérstaklega að tækifærum í þeim efnum.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi fagnar áformum landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um að setja af stað vinnu við endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Við lagasetninguna er brýnt að Alþingi tryggi að samningstími um nýtingu auðlindarinnar verði hæfilega langur. Og að afgjald til þjóðarinnar fyrir sameiginlega auðlind verði sanngjarnt og þrengi ekki um of að rekstrarhæfi atvinnugreinarinnar.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í suðurkjördæmi leggur áherslu á að hlúð verði að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu í kjördæminu og þó sérstaklega á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi er hvað mest. Þingið hvetur til áframhaldandi uppbyggingar í ferðaþjónustu og lýsir yfir stuðningi við fyrirhugaða gjaldtöku af ferðamönnum og gjaldi fyrir auðlindanýtingu.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi minnir á rætur Framsóknarflokksins; hann er grænn umhverfissinnaður flokkur. Standa ber vörð um náttúru Íslands, en um leið og rétturinn er tryggður til að njóta hennar, er mikilvægt að hugað sé að nýtingu til heilla fyrir samfélagið allt. Í þeim efnum er sjálfbærni lykilatriðið svo ekki sé gengið á rétt komandi kynslóða.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi fagnar vegabótum sem gerðar hafa verið á þjóðveginum með tvöföldun hluta vegarins um Suðurlandsveg. En gera þarf betur í þessum efnum og klára verkefnið. Brýnt er að bæta veglínur við Höfn í Hornafirði og Vík í Mýrdal. Einnig er mikil þörf á að útrýma einbreiðum brúm á hringveginum og byggja upp mikið ekna tengivegi kjördæmisins. Stóraukin fjöldi ferðamanna og almenn umferð um kjördæmið útheimtir betri samgöngur , auknar áherslur á umferðaröryggi og öflugri löggæslu.

Categories
Fréttir

Auglýst eftir framboðum í Reykjavík

Deila grein

17/10/2013

Auglýst eftir framboðum í Reykjavík

xblogo2013Auglýst er eftir framboðum á framboðslista Framsóknar í Reykjavík.

Ákveðið hefur verið að viðhafa uppstillingu til vals á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 31. maí 2014.
Hér með er auglýst eftir framboðum.
Frambjóðendur geta þeir einir orðið sem hafa kjörgengi til borgarstjórnar Reykjavíkur og eru félagsmenn í Framsóknarflokknum.
Framboðum skal skila til kjörstjórnar á netfangið: snorri10@internet.is. Yfirlýsingu um framboð skal fylgja mynd og stutt æviágrip. Framboðsfrestur er til föstudagsins 1. nóvember 2013.
Nánari upplýsingar eru veittar hjá Snorra Þorvaldssyni, formanni kjörstjórnar, í síma 897-9899.
 
KJÖRSTJÓRN Í REYKJAVÍK
Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi

Deila grein

14/10/2013

Stjórnmálaályktun framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi

Stjórnmálaályktun Kjördæmisþings framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi á Sauðárkróki 12.-13. október 2013

 
framsóknKjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar þeim góða árangri sem flokkurinn náði í kjördæminu og á landsvísu í síðustu alþingiskosningum. Þingið styður núverandi ríkisstjórn undir forystu framsóknarmanna til allra góðra verka.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar því að undirbúningur aðgerða til lausnar skuldavanda heimilanna er í góðum farvegi. Leiðrétting vegna forsendubrests í kjölfar bankahrunsins er lykilatriði til að auka lífsgæði fjölskyldna í landinu og lykilatriði í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum sem samþykkt var á síðasta flokksþingi. Áframhaldandi uppbygging vegakerfisins er nauðsynleg samhliða almennu viðhaldi. Aukin umferð ferðamanna kallar víða á úrbætur á héraðsvegum af öryggissjómarmiðum og því er mikilvægt að horfa sérstaklega til þess að héraðs- og tengivegir verði lagðir bundnu slitlagi. Lögð verði áhersla á að koma öruggum vegasamgöngum um Vestfjarðaveg nr. 60 og bættum vegasamgöngum milli suður- og norðurhluta Vestfjarða. Einnig þarf að finna lausn, í samráði við íbúa Árneshrepps, að bættum samgöngum. Sérstaklega verði hugað að niðurgreiðslu flugsamgangna til hinna dreifðu byggða landsins.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á trausta heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og minnir á að heilbrigðisþjónusta er grunnurinn að búsetu. Mikilvægt er að hagræðing í heilbrigðisþjónustu á landsvísu sé byggð á raunhæfum forsendum og unnin í samráði við heimamenn. Standa þarf vörð um starfsemi heilbrigðisstofnanna í kjördæminu. Taka þarf tillit til þess hvað hentar byggðarlögum hverju sinni og hvetur þingið heilbrigðisráðherra til að vinna heilbrigðisstefnu fyrir allt landið í samvinnu við sveitarfélög. Þingið hafnar alfarið fyrirhuguðum sameiningum heilbrigðisstofnana og minnir á lögbundið samráð við sveitarstjórnarmenn og íbúa.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að þingmenn standi vörð um menntastofnanir á framhalds- og háskólastigi, í kjördæminu og að þær haldi sjálfstæði sínu. Jafnframt bendir þingið á að nauðsynlegt er að tryggja áframhaldandi dreifnám, í þeim byggðum þar sem því hefur verið komið á og koma því á þar sem kostur er.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi skorar á ríkisstjórn að hraða áformum í stefnuyfirlýsingu sinni um að jafna raforkukostnað til húshitunar en þau koma ekki fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014. Kjördæmisþingið gerir kröfu um að afhendingaröryggi raforku til Vestfjarða verði tryggt.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur til að í stað almennra skattalækkana verði persónuafsláttur hækkaður. Slíkt kemur öllum til góða sérstaklega þeim sem minnst hafa. Þingið fagnar þeim áfanga sem náðst hefur með afnámi skerðinga sem lagðar voru á eldri borgara og öryrkja. Það er grunnmarkmið og stefna Framsóknarflokksins að hlúa að þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu með öllum tiltækum ráðum.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi hvetur til áframhaldandi uppbyggingar í ferðaþjónustu, hugbúnaðargerð og annari nýsköpun. Mikil sóknarfæri eru í útflutningi á íslenskum afurðum, t.d. sjávar- og landbúnaðarafurðum ekki síst á nýja markaði og hvetur þingið til sameiginlegs átaks framleiðenda og stjórnvalda. Hærra söluverð á gæðavöru bætir hag og stöðu bænda. Þannig ber að efla sjávarútveg og landbúnað með það að markmiði að auka framleiðslu og virðisauka. Þá hvetur þingið til áframhaldandi stuðning við skapandi greinar og minnir á að Framsóknarflokkurinn átti frumkvæði að stuðningi við útflutning á tónlist og skatta endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar hér á landi.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að trygg raforka og aðgangur að háhraða netsambandi er meginforsenda fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar á landsvísu, vinna þarf áfram að því að allir landsmenn búi við jafnt öryggi er kemur að raforku- og samskiptaþjónustu.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi ítrekar að Framsóknarflokkurinn er grænn flokkur og styður atvinnuuppbyggingu og orkunýtingu í sátt við náttúru landsins.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi bendir á að núverandi staðsetning Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni er mikilvægt byggðamál og grundvallarforsenda þess að Reykjavík viðhaldi hlutverki sínu sem höfuðborg landsins og þjónustustigi fyrir landsbyggðina.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar nýjum áherslum í utanríkismálum undir forystu Framsóknarflokksins sem m.a. fram komu í ræðu utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna nú nýlega.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að aukið fjármagn til löggæslu, sérstaklega á landsbyggðinni. Niðurskurður undanfarinna ára hefur skert getu lögreglunnar til að sinna þeim lögbundnu verkefnum sem henni er falið.

Categories
Greinar

Íslenskur raunveruleiki?

Deila grein

10/10/2013

Íslenskur raunveruleiki?

Elsa Lára ArnardóttirFjármálastöðugleikarit Seðlabanka Íslands kom út í gær og greint var frá því í kvöldfréttum. Þar kom fram að samkvæmt mati Seðlabankans væri fjárhagsleg staða íslenskra heimila að styrkjast vegna þess að skuldir þeirra hafi lækkað og eignir hafi aukist. Fram kom að skuldir íslenskra heimila hafi lækkað um 3,2% að raunvirði og mætti meðal annars rekja hækkunina til hærra fasteignaverðs.

Jafnframt kom fram að vanskil heimila væru enn mikil og gætu aukist ef efnahagslífið yrði fyrir áföllum.

Ég set stórt spurningamerki við þetta mat Seðlabankans og hef miklar efasemdir um að íslensk heimili hafi það betra nú en fyrir einhverjum árum eða mánuðum síðan. Það sýnir sig best í þeim fjölda heimila sem boðin eru upp en það eru um það bil þrjú heimili á dag hvern einn einasta dag ársins.

Ég veit vel, og ég heyri það í kringum mig, að róðurinn þyngist stöðugt þar sem verðtryggðar skuldir heimilanna aukast dag frá degi. Heimilin hafa beðið aðgerða, aðgerða sem munu leiða af sér réttlæti. Því miður hafa margir gefist upp, sumir reynt að selja eignir í þeirri von að losna undan skuldum og þá er húsnæðisverðið sprengt upp úr öllu valdi til að reyna að dekka það sem hvílir á eignunum.

Einnig er spurningin hvort þær eignir sem fjármálastofnanir hafa eignast á undanförnum mánuðum séu teknar með í reikninginn en það eru talsvert háar upphæðir sem liggja þar að baki.

Ég vara því við umræðunni um að íslensk heimili hafi það betra nú en áður. Róðurinn þyngist enn. Enn banka erfiðleikar upp á og ekki batnar ástandið þegar fjöldi lána hrúgast inn úr frystingum eða sértækum skuldaaðlögunum; aðgerða sem gerðu ekkert annað en að lengja aðeins í hengingarólinni ef þannig má að orði komast.

Ég vildi svo sannarlega óska þess að þessi jákvæði tónn sem finna má í riti Seðlabankans ætti við rök að styðjast en þetta er ekki íslenski raunveruleikinn.

Pössum umræðna, verum raunsæ og stöndum með íslenskum heimilum. Það ætlum við framsóknarmenn að gera!

 

ELSA LÁRA ARNARDÓTTIR