Categories
Forsíðuborði Fréttir

Ályktanir vorfundar miðstjórnar 2017

Deila grein

23/05/2017

Ályktanir vorfundar miðstjórnar 2017

Hér að neðan má lesa ályktanir vorfundar miðstjórnar Framsóknarflokksins haldinn í Reykjavík 20. maí 2017:
Vorfundur miðstjórnar Framsóknar haldinn í Reykjavík 20. maí 2017 ályktar að hvorki Alþingi né ríkisstjórn geta vikið sér undan ábyrgð á því að Neyðarbrautinni sé lokað án þess að aðrir kostir séu í boði.
Vorfundur miðstjórnar Framsóknar haldinn í Reykjavík 20. maí 2017 lýsir áhyggjum yfir stefnuleysi núverandi ríkisstjórnar í skóla-, heilbrigðis- og atvinnumálum.
Vorfundur miðstjórnar Framsóknar haldinn í Reykjavík 20. maí 2017 ályktar að settur verði á fót vinnuhópur til að móta stefnu í málefnum ferðaþjónustunnar. Sú nefnd skal vera fullskipuð innan fjögurra vikna frá 20. maí 2017.
Vorfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins haldinn í Reykjavík 20. maí 2017 felur haustfundi miðstjórnar sem haldinn verður 17.-18. nóvember að boða til flokksþings í fyrrihluta janúar 2018. Leggja á áherslu á undirbúning sveitarstjórnarkosninga. Þær kosningar eru næsta verkefni Framsóknarflokksins.
Yfirlitsræða formanns á vorfundi miðstjórnar.
Myndasafn af Facebook frá fundinum.

Categories
Forsíðuborði Greinar

Hvert skal stefna í heilbrigðismálum?

Deila grein

16/05/2017

Hvert skal stefna í heilbrigðismálum?

Undanfarið hefur samfélagið kallað á bætt heilbrigðiskerfi og var það mjög áberandi í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Ákall samfélagsins sýnir fram á mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fé til málaflokksins með markvissum hætti.

Þingflokkur Framsóknarflokksins tekur undir þetta ákall og því var þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun forgangsmál þingflokksins á yfirstandandi þingi. Tillagan gekk til velferðarnefndar Alþingis og hefur nú verið afgreidd þaðan í þverpólitískri sátt og bíður nú seinni umræðu. Vegna þeirrar umræðu sem uppi hefur verið í samfélaginu um mikilvægu stefnumótunar í heilbrigðismálum þá er nauðsynlegt að tillagan komist sem fyrst á dagskrá og verði afgreidd frá Alþingi.

Framsóknarmenn lögðu fram umrædda heilbrigðisáætlun þar sem enga áætlun í heilbrigðismálum var að finna á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra á þessu þingi, þó að talsverð vinna hafi farið fram í þeim efnum á síðasta kjörtímabili.

Eftir afgreiðslu málsins frá velferðarnefnd þingsins þá fjallar tillaga okkar Framsóknarmanna um að heilbrigðisráðherra haldi áfram vinnu við gerð heilbrigðisáætlunar og leggi hana fyrir á Alþingi eins fljótt og mögulegt er. Í áætluninni verði verkferlar innan heilbrigðiskerfisins skýrðir og þar komi fram hvaða aðilar eigi að veita þjónustu innan kerfisins. Skilgreint verði hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum, hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að hafa möguleika til að sinna og hvort það sé hagkvæmt og æskilegt.

Áætlunin skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Einnig skal tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu með utanspítalaþjónustu. Jafnframt skal taka tillit til forvarna, lýðheilsu, íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða.

Í áætluninni skal koma fram hvort og hvaða sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala. Við gerð heilbrigðisáætlunar verði haft samráð við fagfólk víðs vegar af landinu, helstu hagsmunaaðila og notendur.

Auk þessa verði Velferðarnefnd Alþingis reglubundið upplýst um framgang málsins, eigi síðar en í upphafi haustþings 2017 og síðan með reglulegu millibili þar til verkinu er lokið. Að lokum er skýrt kveðið á um að fjármálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið komi að vinnu heilbrigðisáætlunar til að tryggja fjármagn til málaflokksins og menntun fagfólks í heilbrigðisgreinum.

Hér er nefndarálitið sem bíður seinni umræðu.

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður

Tanja Rún Kristmannsdóttir, varaformaður SUF

Categories
Forsíðuborði Greinar

Fjármálaráðherra bregður fæti fyrir ferðaþjónustu

Deila grein

29/04/2017

Fjármálaráðherra bregður fæti fyrir ferðaþjónustu

Í umræðunni um fjölgun ferðamanna gleymist iðulega að landið nýtur ekki allt sama ferðamannastraumsins. Það er öðru nær. Á meðan umræða um ferðamenn á suðvesturhorninu snýst um álag og erfiðleika vegna mikils fjölda og jafnvel aðgangsstýringu veitir stórum hlutum landsins ekki af umtalsverðri fjölgun.

Í Norðausturkjördæmi leita menn allra leiða til að fá fleiri ferðamenn á Norður- og Austurland, alls ekki færri. Á því byggist rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna sem og atvinna og lífsviðurværi þeirra sem þar starfa. Sömu sögu er að segja víðar af landinu.

Á þessu virðist vera lítill skilningur hjá stjórnvöldum, meðal annars hjá fjármálaráðherra og þingmanni kjördæmisins. Reglulega er minnt á mikilvægi þess að ferðamenn dreifist betur um landið. Allir hafa hag af því að dreifa álaginu og uppbyggingunni betur og nýta auðlindina sem í landinu liggur. Áform ríkisstjórnarinnar um að stórhækka skatta á ferðaþjónustu ganga hins vegar þvert á þessi markmið.

Ljóst er að ferðaþjónusta getur skilað enn meiri tekjum en nú er. Sú aðferð sem ríkisstjórnin boðar myndi hins vegar bitna verst á greininni á þeim svæðum þar sem hún á erfiðast uppdráttar og þörfin fyrir fjölgun ferðamanna er mest. Það á til dæmis við um þá fjölmörgu aðila sem reka litlar einingar en hafa lagt mikið undir til að bjóða upp á gistingu eða aðra þjónustu fjarri höfuðborgarsvæðinu.

Uppbygging á landsbyggðinni er öllum í hag

Uppbygging ferðaþjónustu á landsbyggðinni snýst ekki bara um að veita ferðafólki gistingu eða aðra þjónustu. Slík uppbygging, eins og öll önnur atvinnuuppbygging utan höfuðborgarsvæðisins, snýst líka um að styrkja byggðir landsins, jafna kjör og aðstæður fólks til búsetu á landinu öllu og treysta í sessi samfélög í hinum dreifðu byggðum. Landsmenn allir njóta góðs af því.

Sú uppbygging sem ferðaþjónustan hefur fært fjölmörgum stöðum um allt land hefur haft mjög margt gott í för með sér. En því miður virðist skilningur á mikilvægi og eðli þessarar vaxandi starfsgreinar vera takmarkaður þegar kemur að ákvörðunum um starfsumhverfi hennar.

Það gerist ekki á hverjum degi að ég vitni í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn máli mínu til stuðnings. En hvað varðar starfsumhverfi ferðaþjónustunnar hefur AGS gert góða grein fyrir mikilvægi þess að atvinnugreinin njóti stöðugleika og »sjálfbærs vaxtar«. Sérstaklega hefur verið minnt á mikilvægi þess að varðveita samkeppnishæfni greinarinnar.

Það vekur manni því ugg að heyra forsætisráðherrann lýsa því yfir í viðtali að það síðasta sem hann hafi áhyggjur af sé samkeppnisstaða íslenskrar ferðaþjónustu. Fjármálaráðherrann skákar í þessu skjóli og virðist líta á greinina sem ótæmandi gullkistu sem hægt sé að ausa úr til að fylla í götin á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Traðkað á ferðaþjónustu í Norðausturkjördæmi

Það er áhyggjuefni að fjármálaráðherra, sem er þingmaður Norðausturkjördæmis, skuli skorta skilning á aðstæðum greinarinnar í kjördæminu. Norður- og Austurland geta sannarlega tekið við miklu fleiri ferðamönnum en nú er og gert það vel. Tækifærin til uppbyggingar áningarstaða og afþreyingar eru óteljandi. Samkeppnin við suðvesturhorn landsins og restina af heiminum er hins vegar erfið, nýtingarhlutföll lægri en þau þyrftu að vera og framlegðin of lítil, minni en svo að menn ráði við skyndilega tvöföldun virðisaukaskatts og rúmlega það. Á sama tíma er greinin að takast á við verulega styrkingu krónunnar.

Áform fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu munu hafa mjög neikvæð áhrif á greinina á stórum hluta landsins og þar með á byggðaþróun, atvinnuþróun og lífskjör. Nefna má Breiðdalsvík sem dæmi. Eftir langvarandi öfugþróun í atvinnumálum hafa íbúar og aðkomufólk náð árangri í að snúa þróuninni við. Þeir bundu miklar vonir við að stærsta útflutningsgrein landsins myndi renna stoðum undir vöxt og viðgang byggðarlagsins. Verði sú leið sem ríkisstjórnin boðar við gjaldtöku af ferðaþjónustunni farin munu brothættustu byggðirnar líða mest fyrir það. Það er staðreynd sem meira að segja er hægt að sannreyna í töflureikni.

Á mörgum stöðum í Norðausturkjördæmi hefur harðduglegt fólk lagt eigur sínar og lánsfé í að byggja upp ferðaþjónustu á undanförnum árum. Aðstandendur flestra þessara verkefna munu nú horfa nú fram á fullkomna óvissu verði virðisaukaskattshækkunin að veruleika.
Ferðaþjónustufyrirtæki í Norðausturkjördæmi þurfa ekki óljós tilboð um bitlinga eins og fjármálaráðherra otaði að þeim á fundi á Austurlandi nýverið. Ferðaþjónustan og fólkið sem treystir á hana sem lífsviðurværi þarf stöðugt starfsumhverfi sem tryggir samkeppnishæfni og styður við uppbyggingu og fjárfestingu. Á því byggir sjálfbær atvinnustarfsemi.

Flöt hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna gengur þvert gegn öllum þessum markmiðum og mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar á landsbyggðinni til framtíðar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. apríl 2017.