Categories
Fréttir Greinar

Lægjum öldurnar

Deila grein

28/04/2025

Lægjum öldurnar

Er sanngjarnt að greitt sé gjald fyrir notkun á sjávarauðlind þjóðarinnar? Já það er sanngjarnt. Auðlindagjöld sem nálgun í nýtingu takmarkaðra auðlinda er alþjóðlega viðurkennd leið og það er réttlátt að þjóðin fái arð af verðmætum náttúruauðlindum sínum líkt og fisknum í sjónum.

Þá er það næsta stóra spurning: Er svigrúm til að hækka veiðigjaldið? Já, það er svigrúm. Það er hins vegar mjög misjafnt eftir stærð útgerða, eðli vinnslunnar – og ekki sama hvernig það er útfært. Útfærslan hefur ólík áhrif á bæjarfélög og landshluta sem ríkisstjórninni ber skylda að horfa til.

Greiningar og gögn skipta máli

Þess vegna skipta greiningar og gögn máli; þær eru grunnur að því hvert ákvarðanir leiða okkur og hvort markmið, sem verða að vera vel skilgreind, náist. Þessu þarf ríkisstjórnin að sinna þannig að vel sé að verki staðið. Í rekstri er fyrirsjáanleiki líka grundvallaratriði. Því er eðlilegt að mikil breyting á veiðigjaldi með stuttum fyrirvara valdi titringi. Við verðum að tryggja að útflutningsgreinar Íslands séu sterkar, ekki síst nú þegar að óvissa í heiminum er mikil. Samkeppnishæfur aðgangur að alþjóðamörkuðum þrífst best í lygnu viðskiptaumhverfi en ekki í ólgusjó.

Hótanir og herská orðræða er engum til gagns

En það að útgerðin hóti lokun vinnslu; að skella í lás á landsbyggðinni um leið og hækkun gjalda eru nefnd á nafn myndar djúpa gjá í umræðunni og sú gjá er engum til góða. Hún er vatn á myllu frekari deilna. Hún mun ýta undir að sjávarútvegurinn verði talaður niður, í stað upp, í samfélaginu og auka pólitískt umrót hans og áskoranir. Saga margra byggðarlaga, eftir að kvótakerfinu var komið á, er oftar en ekki saga missis og deilna í stað sögu sóknar og trausts. Því þarf sjávarútvegurinn að nálgast orðræðu um gjöld af nýtingu auðlindarinnar af auðmýkt.

Stjórnmálin mega heldur ekki með orðræðu sinni og yfirlýsingum nánast vinna að því að gera sjávarútveginn, hryggjarstykki í efnahagslífi Íslands, að einhvers konar sameiginlegum óvin þjóðarinnar. Það er hvorki gagnlegt né við hæfi. Það að hræða fólk – hvort sem er af útgerðinni eða ríkisstjórninni eins og umræðan er núna – er ekki góð leið til sátta almennt.

Kjölfesta byggðarlaga á marga vegu

Þar sem útgerðir hafa byggt upp og fest rætur hafa samfélög vissulega dafnað á marga vegu. Nægir að nefna Höfn, Dalvík og Vestmannaeyjar. Tekjur sveitarfélaga eru meiri vegna afleiddra starfa sem tengjast sjávarútvegi svo sem í vinnslu, hafnarstarfsemi og iðnaði. Þá eru fjölmargar þjónustugreinar, mennta- og menningarlíf háðar blómlegu atvinnulífi í sjávarbyggðum. Þetta víðfeðma net sem samfélög um allt land treysta á hvílir á grunni sjávarútvegsins og hefur þróun hans og styrkur til skemmri og lengri tíma því áhrif langt út fyrir starfsemi sjálfar útgerðirnar. Þess vegna skipta greiningar og samvinna máli svo að ákvarðanataka sé upplýst og vönduð, og áhættur við allar breytingar lágmarkaðar.

Finnum farveg til samvinnu og samheldni

Því miður er tilfinningin sú að endurtekin átök tengd þessum grunnatvinnuvegi hafi leitt af sér að fólki almennt þyki almennt minna vænt um sjávarútveginn en áður; grein sem ætti að vera sterkara sameinandi afl. Saga okkar er samofin sjósókn og þar höfum við höfum byggt upp einstaka þekkingu á heimsvísu. Í störfum mínum hjá utanríkisráðuneytinu og Harvard sótti ég reglulega stærstu sjávarútvegssýningar heims, fyrst í Brussel og síðar Boston, og upplifði svo sterkt að það horfa allir til Íslands í þessari mikilvægu grein.

Verðmætasköpun og hátækni fyrir Ísland

Mörg af áhugaverðustu hátæknifyrirtækjum sem Ísland hefur gefið af sér, svo sem Marel og Kerecis, hafa einmitt sprottið fram í gegnum sjávarútveginn. Sjá má gróskuna í nýsköpun tengd sjávarauðlindinni í starfsemi Sjávarklasans sem hýsir fjölmörg fyrirtæki. Sóknartækifærin eru mörg ekki síst á landsbyggðinni líkt og líftæknifyrirtækin Genís og Primex á Siglufirði, sem bæði bæta nýtingu sjávarafurða og auka verðmætasköpun, eru dæmi um. Greinin hefur líka náð árangri í loftslagsmálum í gegnum bætta orkunýtni fiskiskipa og er sú vegferð rétt að hefjast. Margt hefur áunnist og tækifærin sem rækta má og þróa eru óteljandi.

Lægjum öldurnar

Við höfum verið og verðum að vera áfram stolt af sjávarútveginum. Dýpri gjá og átök munu ekki leiða það af sér. Deilurnar snúast fyrst og fremst um veiðigjöldin; gjöld fyrir aðgengi að sameiginlegri auðlind íslensku þjóðarinnar og þangað á umræðan umfram allt að beinast. Þar bera ríkisstjórn og hagaðilar mikla ábyrgð á að ná lendingu sem stækkar kökuna fyrir samfélagið.

Lægjum öldurnar. Hættum herskárri orðræðu og leitum vandaðra lausna í samvinnu og af yfirvegun. Fyrir þá sem sótt hafa sjóinn og þá sem sækja hann enn. Fyrir atvinnulíf um allt land. Fyrir okkur öll; fólkið í landinu, en ekki síst fyrir framtíðina.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greini birtist fyrst á visir.is 27. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Spá 15% samdrætti í hagvexti 2025

Deila grein

26/04/2025

Spá 15% samdrætti í hagvexti 2025

Alþjóðamarkaðir ein­kenn­ast nú af mikl­um sveifl­um og tauga­titr­ingi. Helsta ástæða er ný og óstöðug tolla­stefna Banda­ríkja­stjórn­ar, ásamt óvissu í efna­hags­stjórn og stjórn­festu. Af­leiðing­arn­ar eru víðtæk­ar, enda hef­ur heims­mynd alþjóðaviðskipta verið gjör­bylt á fáum vik­um og í raun 100 ár aft­ur í tím­ann.

Í þess­um aðstæðum fer fram vor­fund­ur Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins (AGS), þar sem kynnt var ný hag­vaxt­ar­spá. AGS spá­ir nú að hag­vöxt­ur á heimsvísu verði 2,8% árið 2025 og 3,0% árið 2026 – niður úr 3,3%. Þetta jafn­gild­ir sam­tals 0,8 pró­sentu­stiga lækk­un, eða um 15% sam­drætti, sem er veru­lega und­ir meðaltali ár­anna 2000-2019, sem nam 3,7%. Þetta eru mik­il tíðindi, einkum í kjöl­far efna­hags­legs áfalls covid-19 og stríðsins í Úkraínu.

Krist­al­ina Georgieva fram­kvæmda­stjóri AGS nefndi þrjár megin­á­stæður þessa sam­drátt­ar:

Í fyrsta lagi, þá er óvissa kostnaðar­söm. Nú­tíma­fram­leiðsla bygg­ist á flókn­um virðiskeðjum, þar sem inn­flutt hrá­efni og hlut­ir koma frá mörg­um ríkj­um. Verð á einni vöru get­ur ráðist af toll­um í tug­um landa. Þegar toll­ar hækka eða lækka fyr­ir­vara­laust verður skipu­lagn­ing erfið. Skip á hafi úti vita jafn­vel ekki í hvaða höfn þau eiga að leggj­ast. All­ir verða óör­ugg­ir, fjár­fest­ar fresta ákvörðunum og all­ur viðnámsþrótt­ur er auk­inn.

Í öðru lagi, þá hafa aukn­ar viðskipta­hindr­an­ir strax nei­kvæð áhrif á hag­vöxt. Toll­ar, líkt og aðrir skatt­ar, afla tekna en minnka fram­leiðslu. Hag­sag­an sýn­ir að toll­ar bitna ekki aðeins á viðskipta­lönd­um held­ur einnig á inn­flytj­end­um og neyt­end­um, þ.e. með lægri hagnaði og hærra vöru­verði. Þegar kostnaður aðfanga hækk­ar minnk­ar hag­vöxt­ur.

Í þriðja lagi, þegar fram­leiðsla fær skjól fyr­ir sam­keppni minnka hvat­ar til hagræðing­ar og ný­sköp­un­ar. Frum­kvöðla­starf­semi vík­ur fyr­ir beiðnum um und­anþágur, rík­isaðstoð og vernd. Þetta bitn­ar sér­stak­lega á litl­um, opn­um hag­kerf­um, eins og Íslandi. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hvet­ur aðild­ar­rík­in sín að greiða fyr­ir alþjóðaviðskipt­um, tryggja efna­hags­leg­an og fjár­mála­leg­an stöðug­leika og hrinda af stað um­bót­um sem stuðla að hag­vexti.

Ég hvet for­sæt­is­ráðherra til að taka mið af þess­ari ráðgjöf Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins og gjör­breyttu lands­lagi heimsviðskipta. Nauðsyn­legt er að minnka þá óvissu sem rík­ir í lyk­ilút­flutn­ings­grein­um þjóðar­inn­ar. Eðli­legt er að auðlinda­gjöld séu sann­gjörn en um­gjörðin verður að byggj­ast á gagn­sæi og fyr­ir­sjá­an­leika. Far­sæl­ast er að vinna með fólki og aðilum vinnu­markaðar­ins. Þannig er hægt að ná sam­eig­in­leg­um mark­miðum sam­fé­lags­ins um að auka vel­sæld á Íslandi.

Þessi heima­til­búna óvissa rík­is­stjórn­ar­inn­ar mun draga úr fjár­fest­ingu og minnka hag­vöxt, því geta tekj­ur rík­is­sjóðs lækkað í stað þess að hækka. Hið fornkveðna á hér við: „Í upp­hafi skal end­inn skoða.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Af hverju er Framsóknarfólk hamingjusamast?

Deila grein

23/04/2025

Af hverju er Framsóknarfólk hamingjusamast?

Í nýlegri könnun Gallup kom fram að Framsóknarfólk er hamingjusamast þeirra er svöruðu, þrátt fyrir tímabundið lélegt gengi í skoðanakönnunum og síðstu kosningum. Þetta vakti athygli mína.

Hverjir eru hamingjusamir?

Fyrst ber að nefna hvað einkennir fólk sem er almennt hamingjusamt? Það er sátt, hefur náð árangri í lífi og starfi, er í góðum samskiptum við aðra og líður almennt vel. Þegar fólk er með gott sjálfstraust, er jákvætt og líður vel tekur það betri ákvarðanir.

Hamingjan er öfgalaus

Framsókn hefur á löngum ferli sínum haft veruleg áhrif á íslenskt samfélag. Flokkurinn hefur tekið þátt í mörgum ríkisstjórnum og haft mótandi áhrif á íslenskt samfélag. Framsókn er miðjuflokkur sem byggir stefnu sína á frjálslyndri félagshyggju, jöfnuði, samvinnu og hófsemi. Flokkurinn leggur áherslu á að finna raunhæfar lausnir í gegnum samráð og samvinnu ólíkra hagsmuna. Framsóknarfólk hefur oftar en ekki verið límið á miðjunni sem sættir ólík sjónarhorn innan ríkisstjórna og sveitastjórna öfgalaust.

Framsókn hefur tekið þátt í að skapa stöðugt og traust efnahagsumhverfi sem styður við atvinnusköpun. Hann hefur lagt áherslu á að efla innviði og tryggja jafnvægi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Þannig hefur hann stutt við ferðaþjónustu, landbúnað og sterkar byggðir. Matvælaframleiðsla er um þessar mundir eitt mikilvægasta öryggis- og varnarmál landsins. Flokkurinn hefur verið leiðandi í málefnum innflytjenda á Íslandi. Framsóknarfólk velur að vera hófsamt, skynsamt og ná árangri.

Hamingjan felst í góðum samskiptum

Frá vöggu til grafar þurfum við á hvort öðru að halda. Mest við upphaf og lok ævinnar. Hamingja okkar veltur að stórum hluta á hversu vel okkur gengur að tengjast fólkinu í kringum okkur. Framsókn í Reykjavíkur hefur lagt áherslu á að byggja upp leikskóla með raunhæfum markmiðum. Húsnæðisuppbyggingu sem bíður fólki upp á valkosti og að tryggja samgöngur miðað við núverandi ástand. Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á mannréttindi og velferð. Tryggja heimilislausum þak yfir höfuðið og stóreflt forvarnastarf gagnvart auknu ofbeldi ungmenna. Framsókn stuðlar að því að fólk eigi í góðum samskiptum með menningu, menntun og umbyrðarlyndi.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Passíusálmarnir eru þjóðarauður

Deila grein

19/04/2025

Passíusálmarnir eru þjóðarauður

Ísland er auðugt land. Ríki­dæmi okk­ar felst meðal ann­ars í tungu­mál­inu okk­ar sem sam­ein­ar þjóðina og varðveit­ir heims­bók­mennt­ir miðalda. Þessi stór­brotni menn­ing­ar­arf­ur hef­ur lagt grunn að þeirri vel­sæld og vel­ferð sem við njót­um í dag. Það er lofs­vert að sjá hversu mikla rækt Íslend­ing­ar leggja við skap­andi grein­ar og hvað við njót­um þeirra ríku­lega í okk­ar dag­lega lífi. Einnig er til­komu­mikið að fylgj­ast með lista­mönn­um okk­ar ná góðum ár­angri á sínu sviði, hvort held­ur hér heima eða á heimsvísu. All­ar list­grein­ar okk­ar eiga framúrsk­ar­andi ein­stak­linga – hvort sem um er að ræða mynd­list, tónlist, bók­mennt­ir, kvik­mynd­ir eða hönn­un.

Páska­hátíðin er kjör­inn tími fyr­ir sam­vist­ir við sína nán­ustu og njóta þess sem er í boði á vett­vangi hinna skap­andi greina. Vita­skuld er þetta einnig til­val­inn tími til að íhuga boðskap þess­ar­ar trú­ar­hátíðar. Pass­íusálm­ar Hall­gríms Pét­urs­son­ar eru órjúf­an­lega tengd­ir pásk­um og hafa fylgt ís­lensku þjóðinni um ald­ir. Að mínu mati eru þetta feg­urstu sálm­ar sem ort­ir hafa verið. Ég les þá ávallt í aðdrag­anda hátíðar­inn­ar, enda fjalla þeir um síðustu daga Jesú Krists – píslar­sög­una, dauðann og upprisuna.

Eitt af því sem heill­ar mig við sálm­ana er hversu per­sónu­leg­ir þeir eru. Það er eins og höf­und­ur­inn vefji eig­in ör­lög og reynslu inn í text­ann. Í Pass­íusálm­un­um öðlast ís­lenskt mál nýj­ar vídd­ir feg­urðar og næmni, sem skýr­ir djúp áhrif þeirra á þjóðarsál­ina. Orð eins og ást­vina­hugg­un, hjarta­geð, dá­semd­ar­kraft­ur, kær­leiks­hót og hryggðarspor fylla text­ann af hlýju og von um betri tíð.

Pass­íusálm­arn­ir eru mikið verk. Í fimm­tíu sálm­um er dreg­in upp drama­tísk mynd af síðustu dög­um Jesú Krists. Hápunkt­ur verks­ins er í 25. sálm­in­um, þar sem Jesús er leidd­ur út og Pílatus legg­ur til að hann verði náðaður, en mann­fjöld­inn heimt­ar að hann verði kross­fest­ur. Þetta er jafn­framt talið eitt feg­ursta versið í öll­um sálm­un­um og dreg­ur það sam­an meg­in­boðskap verks­ins – að mann­kynið allt hlaut þá gjöf að vera leitt inn til Guðs með fórn son­ar­ins. Hér kem­ur 25. sálm­ur­inn, 10. vers:

Út geng ég ætíð síðan

í trausti frels­ar­ans

und­ir blæ him­ins blíðan

blessaður víst til sanns.

Nú fyr­ir nafnið hans

út borið lík mitt liðið

leggst og hvíl­ist í friði,

sál fer til sælu­ranns.

Við erum rík sem þjóð að geta hallað okk­ur aft­ur um páska­hátíðina og notið þessa auðuga menn­ing­ar­arfs. Við erum líka afar lán­söm að búa í landi þar sem friður og frelsi eru ríkj­andi.

Gleðilega páska!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. apríl 2025.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun KFNV

Deila grein

14/04/2025

Stjórnmálaályktun KFNV

25. Kjördæmisþing Kjördæmissambands Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi ályktar:

Fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur hafa verið landsbyggðarfólki gríðarleg vonbrigði þrátt fyrir fögur loforð um að hagsmunum landsbyggðar yrði gætt.

Á þeim tíma síðan ný ríkisstjórn tók við má sjá að stór hluti þeirra mála sem hún hefur kynnt eru í raun mál frá fyrri ríkisstjórn, sem hún virðist tileinka sér. Þau mál sem eiga rætur að rekja til núverandi ríkisstjórnar eru hins vegar illa unnin, lítt ígrunduð og skortir greiningu og mat á áhrifum.

Sem dæmi má nefna nýja fjármálaáætlun, sem bersýnilega var unnin í flýti en henni fylgja hvorki lögbundnir mælikvarðar né mat á áhrifum. Ríkisstjórnin hefur nú þegar boðað niðurskurð í mikilvægum málaflokkum. Fjárframlög til vegamála og menntamála verða skert, auk – þess sem góð verkefni fyrri ríkisstjórnar verða stöðvuð, eins og í heilbrigðisþjónustu, samanber stuðning við Janus endurhæfingu.

Norðvesturkjördæmi er víðfemt svæði þar sem margir hafa lífsviðurværi sitt af landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og iðnaði. Á fyrstu mánuðum nýrrar ríkisstjórnar hafa verið teknar ákvarðanir sem gera rekstur í þessum atvinnugreinum enn erfiðari. Þar má nefna illa útfært veiðigjald, aukna skattlagningu á ferðaþjónustu sem bitnar sérstaklega á litlum og meðalstórum ferðaþjónustufyrirtækjum, og nýlega hækkun raforkuverðs sem hefur sérstaklega neikvæð áhrif á iðnað, garðyrkjubændur og köld svæði.

Þá hafa verið teknar ákvarðanir – og fleiri eru í burðarliðnum – sem munu leiða til fækkunar sérhæfðra opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Það kemur sérlega illa við íbúa í Norðvesturkjördæmi og má þar meðal annars nefna uppsagnir hjá Vinnumálastofnun og sameiningu sýslumannsembætta.

Kjördæmisþingið vill sérstaklega árétta að það harmar þá neikvæðu umræðu á Alþingi er varðar kynjajafnrétti og stöðu minnihlutahópa. Bakslag hefur orðið í mannréttindabaráttunni, einkum á Vesturlöndum, og hafa neikvæðar breytingar í því samhengi orðið augljósari.

Ísland hefur unnið mikilvægt starf til að jafna stöðu kynjanna og bæta réttindi minnihlutahópa. Því skiptir miklu máli að kjörnir fulltrúar sýni ábyrgð og stuðli ekki að hatursorðræðu. Kjörnir fulltrúar eru fyrirmyndir . og bera ríka ábyrgð á málflutningi sínum. Alþingismenn eiga ekki að vera boðberar bakslags í mannréttindum.

Samþykkt á 25. Kjördæmisþingi Kjördæmissambands Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi 12. apríl 2025 í Dæli í Víðidal.

Categories
Fréttir

Framsókn krefst svara fyrir niðurskurð í framhaldsskólum

Deila grein

11/04/2025

Framsókn krefst svara fyrir niðurskurð í framhaldsskólum

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, kallar eftir því að mennta- og barnamálaráðherra útskýri fyrirhugaðan niðurskurð á framhaldsskólastiginu. Hún lagði fram beiðni á fundi allsherjar- og menntamálanefndar þess efnis að ráðherra mætti tafarlaust á fund nefndarinnar – en beiðninni var hafnað.

„Tillögur hagræðingarhóps stjórnvalda fela í sér breytingar sem gætu raskað starfsemi framhaldsskóla verulega ef þær eru innleiddar án samráðs og stuðnings,“ segir Ingibjörg.

Samkvæmt áætlunum fjölgar nemendum um tæplega 650 næstu tvö ár – sem samsvarar einum meðalstórum skóla. Þetta gerist á sama tíma og skerðing framlaga stendur fyrir dyrum, þrátt fyrir auknar kröfur um kennslu í íslensku, einstaklingsmiðaðan stuðning og aðlögun nemenda.

Ég óskaði eftir því í morgun á fundi Allsherjar – og menntamálanefndar að mennta- og barnamálaráðherra myndi mæti á fund…

Posted by Ingibjörg Isaksen on Fimmtudagur, 10. apríl 2025

***

Minnisblað

– Niðurskurður á framhaldsskólastiginu í fjármálaáætlun 2026–2030

Helstu niðurstöður úr fjármálaáætlun
  • Gert er ráð fyrir niðurskurði upp á 2,5 milljarða kr. á tímabilinu 2026–2030.
  • Þetta samsvarar meira en 5% samdrætti í fjárframlögum til framhaldsskólanna, miðað við núverandi útgjöld.
  • Á sama tíma er gert ráð fyrir fjölgun nemenda – um 650 nemendur á næstu tveimur árum – auk aukins kostnaðar við verknám og stuðning við fjölbreyttan nemendahóp.

Gagnrýni og áhyggjur
  • Félag framhaldsskólakennara hefur lýst yfir miklum áhyggjum og telur að niðurskurðurinn geti haft áhrif á:
    • gæði kennslu
    • framboð námsleiða og valfaga
    • starfsskilyrði kennara
    • aðgengi að sértækum úrræðum fyrir nemendur með sérþarfir
  • Stefán Vagn Stefánsson alþingismaður hefur bent á alvarlegan skort á markmiðum og mælikvörðum í fjármálaáætluninni, sem brýtur gegn lögum um opinber fjármál.

Viðbótarathuganir og samhengi
Samanburður við önnur skólastig
  • Nauðsynlegt er að meta hvort sambærilegur niðurskurður sé fyrirhugaður í grunn- og háskólastigi – ef ekki, þarf að skýra hvers vegna framhaldsskólar dragast sérstaklega saman.
Áhrif á framtíðarmöguleika
  • Gæti dregið úr möguleikum nemenda til að velja fjölbreyttar námsleiðir, sérstaklega í verknámi.
  • Aukið brottfall eða lakari námsárangur til lengri tíma, sem getur haft áhrif á atvinnulíf og samfélag.
Starfsskilyrði kennara
  • Hætta á auknu álagi, fækkun starfa og minni sveigjanleika í skipulagi náms.

***

Categories
Fréttir

Gjaldtaka fyrir nýtingu á heitu vatni

Deila grein

11/04/2025

Gjaldtaka fyrir nýtingu á heitu vatni

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi Alþingi um deilur ríkisins og Landsvirkjunar varðandi rentu fyrir nýtingu auðlinda vatns og vinds í tilfelli Hvammsvirkjunar og Búrfellslundar. Hún spurði í óundirbúnum fyrirspurnum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, um gjaldtöku fyrir nýtingu á heitu vatni.

Halla Hrund benti á að heita vatnið hefur að ákveðnu leyti verið undanskilið í umræðunni um auðlindagjaldtöku. Hún spurði ráðherra hvernig gjaldtöku fyrir nýtingu á heitu vatni verði háttað, sérstaklega á þjóðlendum og ríkisjörðum.

„Hver er sýn ráðherra þegar kemur að gjaldtöku fyrir nýtingu á heitu vatni, ekki síst á þjóðlendum sem eru um 40% af landinu okkar og þeim hundruðum ríkisjarða sem við eigum?“ spurði Halla Hrund.

Hún vísaði til uppbyggingar baðlóna sem nota töluvert magn af heitu vatni og spurði hvort sömu lögmál gildi um rentu fyrir heita vatnið og í tilfelli vatnsafls og vindorku.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra svaraði að gjaldtakan fyrir heita vatnið heyri undir fleiri ráðherra og kalli á samhæfða stefnu þvert á ríkisstjórn. Ráðherra viðurkenndi að skýr, heildstæð sýn á gjaldtöku fyrir heita vatnið vanti enn og að stefnumótunarvinna sé nauðsynleg. Hann benti á að í stjórnarsáttmála sé kveðið á um mótun heildrænnar auðlindastefnu á þessu kjörtímabili.

Halla Hrund hvatti ráðherra í andsvari til að horfa á heita vatnið í heildarsamhengi. Hún benti á mikilvægi skýrleika fyrir fjárfesta, sveitarfélög og almenning. Hún spurði einnig um rentu af jarðefnanýtingu og benti á að ásókn í jarðefni sé að aukast á heimsvísu. Ráðherra svaraði að skýr lagarammi um jarðefnanýtingu vanti og að það sé nauðsynlegt að horfa til lagaumgjarðarinnar í heildstæðri auðlindastefnuvinnu.

Categories
Fréttir

Aukið álag á lögregluna

Deila grein

10/04/2025

Aukið álag á lögregluna

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins um áhyggjur sínar vegna stöðu lögreglunnar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Hann benti á að verkefni lögreglunnar hafi breyst verulega á síðustu árum með aukinni hörku, ofbeldi og flóknari málum.

Trygging öryggis lögreglumanna

Stefán Vagn lagði áherslu á að öryggi lögreglumanna þurfi að vera tryggt og að lögreglan fái nægilegt fjármagn og mannafla til að sinna sínum verkefnum.

Álag og hætta á brotthvarfi

„Í samtölum við lögregluna er ljóst að við núverandi ástand verður ekki unað öllu lengur enda eykur þetta aukna álag á starfsmenn lögreglunnar, sem þeir finna fyrir á hverjum degi, hættu á brotthvarfi úr starfi, kulnun og óöryggi í vinnunni þar sem óvíst er hvenær liðsauki berst í þeim málum sem eru þess eðlis að þess sé þörf.“

Nýjar lausnir og endurskoðun inntökukerfis

Stefán Vagn kallaði eftir því að horfa út fyrir kassann og skoða nýjar lausnir, þar á meðal að endurskoða inntökukerfi í lögreglunám og gefa ómenntuðum lögreglumönnum tækifæri til að mennta sig.

Framtíðarsýn fyrir lögregluna

Stefán Vagn lagði áherslu á mikilvægi þess að tryggja öryggi lögreglumanna og bæta starfsumhverfi þeirra til að mæta auknum kröfum og verkefnum. Hann hvatti til þess að leita lausna til framtíðar til að bæta stöðu lögreglunnar.

Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Ofbeldi gegn börnum í brennidepli á Alþingi

Deila grein

10/04/2025

Ofbeldi gegn börnum í brennidepli á Alþingi

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi um alvarlegt ástand kynferðisofbeldis gegn börnum á í störfum þingsins á Alþingi. Hún benti á átakið „Ég lofa“ sem Barnaheill hefur staðið fyrir, þar sem kynferðisofbeldi gegn börnum er sérstaklega tekið fyrir.

Sláandi tölur

Samkvæmt nýjustu rannsóknum frá 2024, sem Barnaheill hefur tekið saman, eru tölurnar sláandi. Um 700 börn í 8.-10. bekk hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu jafnaldra og 250 börn af hálfu fullorðinna. Innan við helmingur þessara barna hefur sagt frá ofbeldinu.

Áhrif á stúlkur í 10. bekk

Halla Hrund lagði áherslu á að yfir 50% stelpna í 10. bekk hafa verið beðnar um að senda nektarmyndir og fengið óumbeðið klámfengið efni sent til sín. „Mörg mál eru tilkynnt til lögreglu en þó langt í frá stór hluti þeirra, um tvö á viku eða 126 á árinu 2024.“

Samkvæmt skýrslu Stígamóta frá 2023 voru 52,1% þeirra sem leituðu til samtakanna á barnsaldri þegar ofbeldið átti sér stað og 27,4% undir tíu ára.

Kallað eftir aukinni fræðslu

Halla Hrund kallaði eftir aukinni fræðslu og umræðu um kynferðisofbeldi gegn börnum. „Þetta er einfaldlega hræðileg staða. Hvert og eitt barn sem verður fyrir slíku ofbeldi glímir við afleiðingarnar út ævina og það er okkar skylda að tala meira um þetta og efla fræðslu.“ 

Hún skoraði á þingmenn og ráðherra málaflokksins að setja þetta mál á oddinn og tryggja að börn fái þá vernd sem þau eiga rétt á.

Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir Greinar

Aldrei fleiri klárað iðnnám

Deila grein

10/04/2025

Aldrei fleiri klárað iðnnám

Braut­skrán­ing­um úr iðnnámi hjá ein­stak­ling­um yngri en 21 árs hef­ur fjölgað um 150% frá ár­inu 2016, sam­kvæmt töl­fræði Hag­stofu Íslands. Al­gjör straum­hvörf hafa orðið í áhuga á námi í iðngrein­um.

Eitt af áherslu­mál­um síðustu rík­is­stjórn­ar var að efla iðnnám á Íslandi, og því má með sanni segja að það hafi tek­ist í góðu sam­starfi við skóla­sam­fé­lagið, at­vinnu­lífið og sveit­ar­fé­lög­in. Mennta­stefna til árs­ins 2030 legg­ur sér­stak­an metnað í iðnnám og fram­kvæmda­áætl­un um stefn­una. Megin­á­stæða þess að ráðist var í metnaðarfulla stefnu­gerð og aðgerðir var sú staðreynd að mun færri sóttu iðnnám á Íslandi en í öðrum OECD-ríkj­um. Skýr vilji stjórn­valda stóð til þess að fleiri sæktu sér starfs- og tækni­mennt­un til að koma bet­ur til móts við þarf­ir sam­fé­lags­ins.

Stjórn­völd og skóla­sam­fé­lagið gerðu sam­komu­lag árið 2020 við Sam­tök iðnaðar­ins og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um að fara í sam­stillt­ar aðgerðir til að efla iðnnám í fimm liðum: Í fyrsta lagi var ráðist í um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar á iðnnámi með það að mark­miði að ein­falda skipu­lag starfs- og tækni­náms. Ný reglu­gerð var sett um vinnustaðanámið, þar sem helsta breyt­ing­in var að fram­halds­skól­ar báru ábyrgð á gerð og staðfest­ingu vinnustaðanáms­samn­inga fyr­ir iðnnema í gegn­um ra­f­ræna ferl­ibók. Í stuttu máli: Fram­halds­skól­arn­ir tóku í aukn­um mæli ábyrgð á öllu nám­inu – frá inn­rit­un til út­skrift­ar. Í öðru lagi var ráðist í breyt­ing­ar á lög­um um há­skóla­stigið, þannig að iðnmenntaðir skyldu njóta sömu rétt­inda og þeir sem lokið hafa stúd­ents­prófi til að sækja um há­skóla­nám. Í þriðja lagi var mark­visst unnið að því að bæta aðgengi að starfs- og tækni­námi á lands­byggðinni, enda ræður náms­fram­boð í heima­byggð miklu um námsval ung­menna að lokn­um grunn­skóla. Nýr Tækni­skóli er á teikni­borðinu og aðstaða bætt víða um land. Í fjórða lagi skyldi náms- og starfs­ráðgjöf í grunn­skól­um styrkt, bæði fyr­ir ung­menni og for­eldra.

Far­sæl sam­vinna og sam­starf allra lyk­ilaðila skilaði góðum ár­angri fyr­ir land og þjóð. Ég vil þakka öll­um þeim sem lögðu hönd á plóg til að efla iðnnám á Íslandi fyr­ir gott sam­starf.

Í rík­is­fjár­mála­áætl­un nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar er boðaður stór­felld­ur niður­skurður í mennta­mál­um. Sér­stakt áhyggju­efni er fram­halds­skóla­stigið, þar sem veru­lega á að lækka fjár­fram­lög­in. Með þess­um áform­um er hætta á að rík­is­stjórn­in sé að fresta framtíðinni og grafa und­an framtíðar­hag­vexti sem byggður er á mennt­un.

Ljóst er í mín­um huga að ef hand­verk iðnmenntaðra væri ekki til staðar í ís­lensku sam­fé­lagi væri afar tóm­legt um að lit­ast. Full­yrðing Njáls á Bergþórs­hvoli, um að land vort skuli byggt með lög­um, er ljóðræn og fög­ur – en raun­in er sú að miklu meira en laga­bók­staf­inn þarf til að byggja sam­fé­lag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherralilja­alf@gmail.com

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. apríl 2025.