Categories
Greinar

Fruman sem varð fullorðin

Deila grein

14/10/2019

Fruman sem varð fullorðin

Börnum eiga að vera tryggð mannréttindi með lögum, en svo er ekki í öllum tilfellum. Kynfrumugjafi getur í dag óskað eftir nafnleynd og börn hafa því ekki sjálfstæðan rétt til að vita um líffræðilegan uppruna sinn. Uppfæra þarf íslensk lög svo réttindi barna verði tryggð til að þekkja uppruna sinn, ef þau óska þess.

Nú eru til sýninga á Stöð 2 þættir sem heita Leitin að upprunanum. Þar eru sjónvarpsáhorfendur kynntir fyrir fólki sem leitar að líffræðilegum foreldrum sýnum. Í þáttunum fær áhorfandinn innsýn í hversu djúpstæð þráin eftir því að finna líffræðilegan skyldleika getur verið. Þeir sem getnir eru með tæknifrjóvgun með aðstoð kynfrumugjafa, kunna að hafa sömu þrá eftir því að þekkja uppruna sinn og einnig vilja til að fá vitneskju um arfgenga sjúkdóma.

Nágrannaríkin komin lengra

Tæknifrjóvganir eru nýtt fyrirbæri í sögulegu samhengi. Því hefur umræðan um kynfrumugjafir ekki verið áberandi í íslenskri umræðu. Rökin sem færð hafa verið fyrir því að leyfa nafnleynd kynfrumugjafa hafa til dæmis verið þau að ef nafnleynd yrði afnumin væri ólíklegra að fólk gæfi kynfrumur til tæknifrjóvgunar og fólk sem þyrfti á þjónustunni að halda hefði því ekki aðgengi að henni vegna ónógs framboðs. Trompar lögmálið um framboð og eftirspurn á kynfrumum réttindi barns til að þekkja uppruna sinn? Ég tel svo ekki vera. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð fullgildur árið 1992 og lögfestur 2013. Í sáttmálanum felst viðurkenning á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi óháð réttindum fullorðinna.

Það er tími til kominn að löggjafinn hér fylgi fordæmi nágrannaríkja okkar og tryggi réttindi allra barna á Íslandi til að þekkja uppruna sinn. Undirrituð hefur lagt fram tillögu ásamt fleiri þingmönnum, um að dómsmálaráðherra setji slíka vinnu af stað og að frumvarp verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en í janúar 2020.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. október 2019.

Categories
Greinar

Framtíðarsýn um starfsþróun kennara

Deila grein

12/10/2019

Framtíðarsýn um starfsþróun kennara

Störf kenn­ara og skóla­stjórn­enda eru margþætt og í skóla­starfi er stöðugt unnið með nýj­ar hug­mynd­ir og áskor­an­ir. Við vit­um að öfl­ug mennta­kerfi á alþjóðavísu hafa keppt að því að gera starfs­um­hverfi sinna kenn­ara framúrsk­ar­andi en liður í því er öfl­ug framtíðar­sýn fyr­ir starfsþróun stétt­ar­inn­ar.Á dög­un­um skilaði sam­starfs­ráð um starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda til­lög­um að slíkri framtíðar­sýn. Til­lög­ur þess­ar eru ný­mæli þar sem ekki hef­ur legið fyr­ir sam­eig­in­leg sýn á mál­efni starfsþró­un­ar, t.d. milli ólíkra skóla­stiga og rekstr­araðila skóla. Þetta er að mörgu leyti tíma­móta­skref sem ég tel að muni leiða til skýr­ari stefnu og stuðla að metnaðarfullu skóla­starfi. Ég fagna til­lög­um ráðsins og þeim sam­hljómi sem ein­kenn­ir vinnu þess en í því sátu full­trú­ar Kenn­ara­sam­bands Íslands, Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, há­skóla og mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­is. Til­lög­urn­ar eru fjöl­breytt­ar og tengj­ast m.a. ráðuneyt­inu, sveit­ar­fé­lög­um, mennt­un kenn­ara og skól­un­um sjálf­um. Það er mjög dýr­mætt að fá þær til um­fjöll­un­ar og út­færslu, ekki síst í sam­hengi við ný lög um mennt­un og hæfni kenn­ara og skóla­stjórn­enda sem taka munu gildi í árs­byrj­un 2020.

Starfsþróun kenn­ara get­ur m.a. falið í sér form­legt nám og end­ur­mennt­un, nám­skeið, þátt­töku í þró­un­ar­verk­efn­um, ráðgjöf, ráðstefn­ur og heim­sókn­ir í aðra skóla. Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að auk­inni starfs­ánægju kenn­ara og hef­ur já­kvæð áhrif á ár­ang­ur þeirra í starfi. Niður­stöður út­tekta og mennt­a­rann­sókna gefa okk­ur góðar vís­bend­ing­ar um hvar mik­il­væg­ast er að efla starfsþróun og fjölga tæki­fær­um í símennt­un fyr­ir kenn­ara. Sam­kvæmt alþjóðlegu TAL­IS-mennt­a­rann­sókn­inni telja ís­lensk­ir kenn­ar­ar á ung­linga­stigi mesta þörf nú vera fyr­ir starfsþróun um hegðun nem­enda og stjórn­un í kennslu­stof­um, ásamt starfsþróun í kennslu fyr­ir börn með annað móður­mál en ís­lensku. At­hygli­vert er einnig að sam­kvæmt TAL­IS er al­geng­ara í sam­an­b­urðarríkj­um Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (e. OECD) að kenn­ar­ar þjálfi eða fylg­ist með kennslu sam­kenn­ara eða greini eig­in kennslu, en hér á landi.

Það fel­ast mörg tæki­færi í öfl­ugri sam­vinnu og skýrri heild­ar­sýn þegar kem­ur að starfsþróun kenn­ara í leik-, grunn-, fram­halds- og tón­list­ar­skól­um. Ég vil þakka þeim fjöl­mörgu sem lagt hafa hönd á plóg í því verk­efni sem býr að baki til­lög­un­um, þær eru okk­ur gott leiðarljós í þeirri vinnu sem nú stend­ur yfir við mót­un nýrr­ar mennta­stefnu til árs­ins 2030.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2019

Categories
Greinar

Styrking sveitarstjórnarstigsins er stórt mál

Deila grein

11/10/2019

Styrking sveitarstjórnarstigsins er stórt mál

Með breytingum á sveitarstjórnarlögum 2018 var sett inn ákvæði um að sveitarstjórnarráðherra geri áætlun um framtíðarsýn ríkisins í málefnum sveitarfélaganna, skal áætlunin gerð til 15 ára með aðgerðaráætlun til 5 ár. Nú hefur sveitarstjórnarráðherra lagt fyrir Alþingi slíka áætlun í formi þingsáætlunartillögu.

Áætlun þessari er ætlað að setja ramma um fjölmörg atriði og áherslur ríkisins um starfsemi sveitarfélaga sem þeim ætlað að starfa eftir. Einnig er fjallað um samstarf ríkis og sveitarfélaga.

Megin markmið áætlunarinnar er að efla sveitarstjórnarstigið þannig að sveitarfélögin verði öflug stjórnsýslueining sem geti borið ábyrgð á rekstri nærþjónustu byggðanna þannig að öllum íbúum landsins sé tryggð sambærileg grunnþjónusta auk þess að tryggja lýðræðislega stjórnun þeirra ásamt því að auka aðkomu íbúanna til að hafa áhrif á starfsemi sveitarfélaganna.

Til að ná þessum markmiðum verða sveitarfélögin að stækka og stjórn þeirra að eflast, þess vegna er lagt til að settar verði reglur um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögunum og þannig að ekkert sveitarfélag verði með minna en 1000 íbúa árið 2026.

Þá er lögð áhersla á aukið íbúalýðræði en nú er tækniþróunin orðin þannig að öll mannleg samskipti  verða mun auðveldari.

Eitt af áhyggjuefnunum er starfsumhverfi sveitarstjórnarmanna í minni sveitarfélögunum þar sem erfitt er að sinna þeim störfum með fullri vinnu, það verður til þess að fólk endist mjög stutt í sveitarstjórnarstörfunum. Ef styrking sveitarfélaganna gengur eftir yrði auðveldara að greiða sveitarstjórnarmönnum eðlilega fyrir sína vinnu og þar með yrðu störf þeirra áhugaverðari.

Þá er lögð áhersla á fjárhagslega styrkingu sveitarstjórnarstigsins með bættri fjárhagslegri stöðu þeirra.

Jöfnunarsjóði er ætlað að koma myndarlega að verkefninu með sérstökum framlögum til þeirra sveitarfélaga sem sameinast.

Þessar tillögur munu hafa veruleg áhrif að eflingu sveitarfélaganna til að takast á við þróun og eflingu byggðarlaganna, sveitarfélögin eru sterkasta aflið til að berjast fyrir hagsmunum og eflingu byggðanna þess vegna er mjög mikilvægt að efla og styrkja stöðu sveitarfálaganna.

Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur lagt áherslu á framgang málsins og auka Landsþing sambandsins samþykkt að mæla með samþykkt þingnáætlunartilögunnar með miklum meirihluta.

Nú er komið að alþingi að afgreiða málið og trúi ég að alþingismenn klári það með myndar brag og átti sig á mikilvægi þess að sveitarstjórnarstigið taki breytingum í samræmi við þær miklu breytingar sem hafa orðið í þjóðfélaginu á síðustu áratugum ekki síst í rekstri og umfangi sveitarfélaganna.

Þessi breyting er nauðsynleg, ef hún gengur ekki eftir er hætta á að til verði þriðja stjórnsýslustigið sem mér heyrist enginn vilji að gerist. Sú þróun hefur verið vaxandi að ríkiskerfið snúi sér að landshlutasamtökum sveitarfélaga þegar um er að ræða stærri mál og gangi þá fram hjá sveitarfélögunum vegna þess flækjustigs sem er að ná og hafa samband við mörg og jafnvel sundurleit sveitarfélög.

Austfirðingar eru á undan öðrum svæðum að hugsa til framtíðar og leifa sér að vera með nýja sýn á þessum málum þar sem þeir skynja þörfina fyrir samtakamættinum og ætla að nýta tæknina til að auðvelda að hugsa út fyrir boxið, ég tek ofan fyrir þeim.

Að lokum vil ég hvetja sveitarstjórnir til að grípa þetta tækifæri og setja fram tillögur á sínum svæðum í samráði víð íbúa um sameiningu og eflingu sveitarfélaganna þannig að íbúarnir geti tekið upplýsta ákvörðun um ný mörk sveitarfélaganna það yrði stórt skref í eflingu byggðarlaganna.

Valgarður Hilmarssonfyrverandi sveitarstjórnarmaður og formaður starfshóps um málefni sveitarfélaga.

Categories
Greinar

Betri samgöngur, sterkara samfélag

Deila grein

10/10/2019

Betri samgöngur, sterkara samfélag

Þörf er á sam­göngu­bót­um um land allt og það er trú mín að með betri og fjöl­breytt­ari sam­göng­um verði sam­fé­lagið sterk­ara. Aukið ör­yggi á veg­um skipt­ir höfuðmáli en sömu­leiðis fram­kvæmd­ir sem stytta ferðatíma og leiðir á milli byggðarlaga sem aft­ur efl­ir at­vinnusvæðin.

Við stönd­um frammi fyr­ir því að á næsta ald­ar­fjórðungi er brýnt að sinna 200 vega­tengd­um verk­efn­um um land allt og er kostnaður áætlaður yfir 400 millj­arðar. Upp­hæðirn­ar eru æv­in­týra­leg­ar háar, sem kall­ar á nýja hugs­un í fjár­mögn­un fram­kvæmda. Um­ferðin er víða mik­il og hef­ur auk­ist í takt við fjölg­un ferðamanna. Unnið er að úr­bót­um en bet­ur má ef duga skal. Breytt for­gangs­röðun á sam­göngu­fram­kvæmd­um mun sjást í end­ur­skoðaðri sam­göngu­áætlun í nóv­em­ber þar sem um­ferðarör­yggi er haft að leiðarljósi. Á næstu sjö árum mun fram­kvæmd­um sem metn­ar eru að fjár­hæð í heild um 130 millj­arða króna verða flýtt fyr­ir utan höfuðborg­ar­svæðið.

Aðskilnaður akst­urs­stefnu

Í sam­göngu­áætlun er lagt til að á tíma­bili henn­ar verði lokið við að aðskilja akst­urs­stefn­ur á um­ferðarþyngstu veg­un­um sem eru út frá höfuðborg­ar­svæðinu, þ.e. Reykja­nes­braut­in að Flug­stöð, Suður­lands­veg­ur aust­ur fyr­ir Hellu og Vest­ur­lands­veg­ur að Borg­ar­nesi. Fram­kvæmd­um á um­ferðarþyngstu köfl­un­um verður lokið á fyrsta tíma­bili.

Stytt­ing og minni bið

Ávinn­ing­ur­inn af flýt­ingu fram­kvæmda er efna­hags- og sam­fé­lags­leg­ur. Brú yfir Horna­fjarðarfljót stytt­ir suður­leiðina til Hafn­ar um tæpa 12 km og los­ar um þrjár ein­breiðar brýr. Lág­lendis­veg­ur um Mýr­dal/​jarðgöng um Reyn­is­fjall bæt­ir ör­yggi fjöl­margra farþega sem fara þar um og ný brú yfir Ölfusá dreg­ur úr um­ferðarteppu sem mynd­ast gjarn­an við Sel­foss. Sömu­leiðis mun tvö­föld­un Hval­fjarðarganga og ný Sunda­braut bæta flæði um­ferðar. Þá mun veg­ur yfir Öxi stytta hring­veg­inn um 70 km.

Með sér­stöku gjaldi fyr­ir staðbund­in mann­virki eft­ir að fram­kvæmd­um lýk­ur, t.d. 20-30 ár, líkt og Hval­fjarðarganga­mód­elið gekk út á, geta sam­göngu­mann­virki orðið að veru­leika fyrr en ella. For­senda þess er að val sé um aðra leið. Að því loknu fell­ur gjald­tak­an niður.

Breytt for­gangs­röðun og aukið fjár­magn

Við val á flýtifram­kvæmd­um voru skoðuð verk­efni sem til­heyra grunnn­eti sam­gangna með hliðsjón af um­ferðarör­yggi, um­ferðarþunga og þjóðfé­lags­leg­um sparnaði af fækk­un um­ferðarslysa. Árleg­ur sam­fé­lags­leg­ur kostnaður af um­ferðarslys­um er met­inn um 40 til 60 ma.kr. og er þá ómælt til­finn­inga­legt tjón í viðbót sem fólk upp­lif­ir í tengsl­um við slys. Þannig mætti hugsa sér að ef hægt væri að fækka um­ferðarslys­um um 10% gætu spar­ast 4 til 6 millj­arðar ár­lega sem nýta mætti til vega­gerðar. Ávinn­ing­ur­inn er ótví­ræður.

For­gangs­röðunin birt­ist í að stór­aukið fjár­magn hef­ur verið sett í vega­kerfið og birt­ist í fjár­mála­áætl­un. Um 5,5 millj­arða króna hækk­un er núna á milli ára, 2019-2021 ásamt ríf­lega 10 millj­arða hækk­un síðustu tveggja ára, 2018 og 2019. Til að mæta auk­inni um­ferð renna 27 millj­arðar til ým­issa verk­efna, sem er aukn­ing um 16,8% á milli ára. Þetta eru háar fjár­hæðir sem gera okk­ur kleift að taka risa­stökk inn í framtíðina og renna styrk­ari stoðum und­ir sam­keppn­is­hæft at­vinnu­líf og góð efna­hags­leg lífs­kjör.

Sam­vinnu­verk­efni flýta fyr­ir

En bet­ur má ef duga skal. Fjár­magn til vega­fram­kvæmda ræðst á hverj­um tíma af svig­rúmi í fjár­mála­stefnu. Nauðsyn­legt fjár­magn um­fram svig­rúm verður því best tryggt með sam­vinnu á milli op­in­berra aðila og einkaaðila. Sér­stakt fé­lag, líkt og Hval­fjarðarganga­mód­elið, héldi utan um bæði hvaðan tekj­ur koma og hvert þær fara. Þannig yrði tryggt að inn­heimt veg­gjöld renni með gagn­sæj­um hætti til þeirra fram­kvæmda sem þeim er ætlað að fara. Ábyrgð ut­anaðkom­andi aðila nær til fjár­mögn­un­ar á mann­virk­inu, í heild eða að hluta þar til gjald­töku lýk­ur. Í lok samn­ings­tíma tek­ur Vega­gerðin við eign­inni. Við höf­um ein­fald­lega ekki tíma til að bíða með sum verk­efni, stærsta verk­efnið er að auka ör­yggið í um­ferðinni.

Jarðganga­áætl­un

Jarðganga­gerð er dýr og með um­fangs­mestu op­in­beru fram­kvæmd­un­um hér á landi. Jarðgöng eru þeim kost­um gædd að þau geta um­bylt heil­um svæðum og eflt at­vinnu­líf á fá­menn­um svæðum sem hafa búið við fólks­fækk­un og hnign­un.

Hval­fjarðarganga­mód­elið er dæmi um vel heppnaða fram­kvæmd sem styrkti svæðið sér­stak­lega norðan gang­anna á marg­vís­leg­an hátt og tekj­ur af um­ferð stóðu straum af fram­kvæmd­inni. Dýra­fjarðargöng klár­ast á næsta ári og eru Aust­f­irðing­ar næst­ir í röðinni. Halda þarf áfram og mik­il­vægt er að hafa sýn til lengri tíma. Sér­stök jarðganga­áætl­un verður því hluti af sam­göngu­áætlun. Í henni verður einnig til­greint hvaða jarðgöng falla und­ir gjald­töku, en rekst­ur og viðhald jarðganga er al­mennt dýr­ara en rekst­ur og viðhald vega.

Drög að end­ur­skoðaðri sam­göngu­áætlun liggja fyr­ir og verða brátt til um­sagn­ar á vef ráðuneyt­is­ins. Með henni eru tek­in brýn skref til að svara ákalli um að hraða upp­bygg­ingu vega­kerf­is­ins. Með því er lagður grunn­ur að sterk­ara sam­fé­lagi um allt land.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2019.

Categories
Greinar

Samvinna er svarið

Deila grein

10/10/2019

Samvinna er svarið

Mál­efni norður­slóða eru for­gangs­mál í ís­lenskri ut­an­rík­is­stefnu og má þá áherslu greina glöggt í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Hags­mun­ir Íslands eru mikl­ir en augu alþjóðasam­fé­lags­ins bein­ast í aukn­um mæli að norður­slóðum og sum­ir ræða um að ákveðið kapp­hlaup sé hafið um yf­ir­ráð á þessu víðfeðma svæði. Ísland tók við for­mennsku í Norður­skauts­ráðinu á þessu ári en ráðið er þunga­miðja í okk­ar alþjóðasam­starfi á norður­slóðum. Megin­á­hersl­ur ráðsins á um­hverf­is­mál og sjálf­bæra þróun gera það að verk­um að vís­indi og rann­sókn­ir skipa stór­an sess í störf­um ráðsins. Í ljósi þró­un­ar síðustu miss­era verður æ brýnna að stefnu­mót­un stjórn­valda á norður­slóðum bygg­ist á vís­inda­leg­um grunni og virkri sam­vinnu.

Árang­urs­rík sam­vinna

Ísland og Jap­an hafa um ára­tuga skeið átt frjótt vís­inda­sam­starf á norður­slóðum og það sam­band hyggj­umst við treysta til framtíðar. Ísland og Jap­an standa sam­eig­in­lega að alþjóðleg­um ráðherra­fundi um vís­indi á norður­slóðum í Tókýó í nóv­em­ber 2020. Fund­ur­inn verður sá þriðji í fundaröð sem hófst árið 2016 í Washingt­on, D.C. Ráðherr­ar vís­inda­mála, hvaðanæva úr heim­in­um, munu koma sam­an til að ræða aðgerðir og stefnu­mót­un í mál­efn­um norður­slóða. Það er þörf á auknu alþjóðlegu sam­starfi um rann­sókn­ir á norður­slóðum og ráðherra­fund­irn­ir eru þýðing­ar­mik­ill vett­vang­ur fyr­ir umræðu um sam­eig­in­leg­ar áskor­an­ir okk­ar. Við þurf­um að þekkja stefnu, áhersl­ur og innviði sam­starfs­ríkja til þess að þróa ár­ang­urs­ríka sam­vinnu á sviði vís­inda og rann­sókna, ekki síst í sam­hengi við hlýn­un á norður­slóðum og að mínu mati hvíl­ir á okk­ur ákveðin skylda til þess að vinna sam­an.

Mik­il­vægi mennt­un­ar og vís­inda

Íslensk­ir vís­inda­menn og stofn­an­ir búa yfir dýr­mætri reynslu og þekk­ingu á fjöl­mörg­um sviðum norður­slóðarann­sókna, má þar sem dæmi nefna jökla­rann­sókn­ir, rann­sókn­ir á sam­fé­lags­leg­um áhrif­um lofts­lags­breyt­inga, breyt­ing­um á vist­kerfi sjáv­ar og kort­lagn­ingu hafs­botns­ins. Þá gegn­ir mennta­kerfið lyk­il­hlut­verki í að miðla þekk­ingu til kom­andi kyn­slóða og kveikja áhuga ungs fólks á mál­efn­um norður­slóða, til að mynda með auk­inni áherslu á raun­greina­kennslu og með því að efla vís­inda­áhuga barna og ung­linga á fjöl­breytt­um sviðum.

Gagn­sæi og virk þátt­taka

Við erum þakk­lát fyr­ir það góða sam­band sem er milli Íslands og Jap­an. Sem eyjaþjóðir deil­um við meðal ann­ars áhyggj­um af heil­brigði og lífsþrótti sjáv­ar. Sam­eig­in­lega fleti má einnig finna í áhersl­um ríkj­anna á um­hverf­is­vernd og sjálf­bærni. Leiðarljós í sam­vinnu land­anna í tengsl­um við ráðherra­fund­inn og í áfram­hald­andi sam­starfi okk­ar er gagn­sæi, hag­nýt­ing vís­inda og miðlun. Lögð verður rík áhersla á virkja sem flesta í aðdrag­anda fund­ar­ins og hefst það ferli form­lega í dag, í tengsl­um við Hring­borð norður­slóða. Við finn­um þegar fyr­ir mikl­um áhuga á ráðherra­fund­in­um og trú­um því að hann verði mik­il­væg­ur vett­vang­ur fyr­ir leiðtoga, bæði á hinu póli­tíska sviði og inn­an vís­inda­heims­ins, til þess að ræða aðgerðir og for­gangs­röðun.

Sam­vinna við alla aðila, jafnt inn­an sem utan norður­slóða, mun skipta miklu fyr­ir hag­sæld og ör­yggi á svæðinu. Með aukn­um sigl­ing­um og starf­semi gæti áhersla á sjálf­bæra þróun orðið mik­il­væg­ur liður í að draga úr spennu á svæðinu, t.d. vegna auk­inna hernaðar­um­svifa. Í ljósi þess hve viðkvæmt og marg­brotið svæði norður­slóðir eru, hvort sem litið er til um­hverf­is, ör­ygg­is­mála, efna­hags­legra eða fé­lags­legra þátta, er brýnt að stefnu­mót­un fyr­ir svæðið í heild sinni ein­kenn­ist áfram af stöðug­leika, sjálf­bærni og sam­vinnu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2019.

Categories
Greinar

Netógnir í nýjum heimi

Deila grein

08/10/2019

Netógnir í nýjum heimi

Einstaklingar og fyrirtæki hér á landi hafa nú þegar orðið fyrir verulegu fjártjóni og ýmsu öðru tjóni þegar viðkvæmar upplýsingar komast í hendur óviðkomandi. Margt bendir til þess að atvikum af þessu tagi muni halda áfram að fjölga á næstu árum. Talið er að íslensk fyrirtæki hafi orðið fyrir tugmilljarða króna tapi, en aðeins lítið brot er tilkynnt til lögreglu og rannsakað. Fyrirtæki upplifa sig mörg nokkuð varnarlaus gagnvart vaxandi ógnum á netinu. Hið sama má segja um heimilin í landinu sem eru að taka í notkun margs konar snjalltæki, svo sem reykskynjara, hitastilla, öryggiskerfi, eftirlitsmyndavélar og læsingar, sem tengd eru Internetinu með tilheyrandi hættu á að óviðkomandi geti farið að stýra þeim sé ekki gætt fyllsta öryggis.

Októbermánuður er tileinkaður netöryggismálum og hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birt hagnýtar leiðbeiningar fyrir almenning og fyrirtæki á stjornarradid.is/netoryggi til að auðvelda fólki og fyrirtækjum að verjast í netheimum. Einföld atriði geta stóraukið öryggi við notkun snjalltækja svo sem:

  • Að nota ólík lykilorð fyrir mismunandi þjónustur.
  • Að spyrja sölu- eða þjónustuaðila snjalltækja um hvaða öryggisráðstafanir séu mögulegar við uppsetningu og notkun tækjanna.
  • Að breyta upphaflegu lykilorði WiFi-neta og snjalltækja þegar þau eru tekin í notkun.
  • Að breyta persónuverndar- og öryggisstillingum tækis miðað við þarfir og gera þá eiginleika óvirka sem ekki á að nota.
  • Að setja inn öryggisuppfærslur um leið og þær eru fáanlegar.

Nýsamþykkt lög um netöryggismál ásamt nýrri stefnu og aðgerðaáætlun leggja grunn að verkefnum stjórnvalda á þessu sviði. Net- og upplýsingaöryggismál varða samfélagið allt, einstaklinga, fyrirtæki og opinbera aðila.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. október 2019.

Categories
Greinar

Ljósið í bæjarlæknum

Deila grein

07/10/2019

Ljósið í bæjarlæknum

Orkuauðlindir landsins eru í eigu landeigenda. Ríkið er  stærsti eigandi en þar á eftir koma sveitarfélög og aðrir landeigendur svo sem bændur. Flutningskerfi raforku eru í sameign þjóðar en landsmenn sitja ekki við sama borð er kemur að flutningi á raforkunni til síns heima, það fer nefnilega eftir því hvar þeir búa. En erum við að fara yfir lækinn til að nálgast vatnið?

Flutningskostnaður raforku

Í landinu eru tvær gjaldskrár á flutningi rafmagns, þ.e. dreifbýlis­verð og þéttbýlisverð. Dreif­kostnaður raforku hefur hækkað meira í dreifbýli en þéttbýli á undanförnum árum og ljóst er að stöðugt dregur í sundur og núverandi jöfnunargjald er langt frá því að jafna þennan mun. Nú er svo komið að það er u.þ.b. fjórðungi hærra í dreifbýli þrátt fyrir jöfnunargjaldið sem var sett á til að jafna dreifikostnað raforku í landinu.

Skýringin á sífellt hækkandi kostnaði á dreifingu raforku er að kaupendum raforku fækkar í dreifbýlinu og fjárfestingaþörf og endurnýjunarþarfir er meiri í dreifbýli en þéttbýli og einnig átaksverkefni eins og þrífösun rafmagns.  Þetta leiðir af sér aukinn mun á meðalverði í þéttbýli og dreifbýli.

Smávirkjanir styrkja dreifikerfi raforku

Smávirkjanir eru skilgreindar svo sem eru minni en 10MW. Þeim hefur fjölgað á undanförnum árum og eru kostir þeirra margir. Þarna flæðir umhverfisvæn orka og bæði mannvirki og náttúrurask eru oft að fullu afturkræfar framkvæmdir. Smávirkjanir tengjast kerfinu um dreifiveitur landsins og styrkja þannig þær flutningsleiðir, auk þess sem þær lækka flutningstöp raforku og lækka rekstrarkostnað dreifiveita.

Stefna núverandi stjórnvalda er að styrkja byggð í öllu landinu, jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Þar undir fellur það verkefni að stuðla að aukinni jöfnun orkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli.

Gerð smávirkjana stórmál

Virkjunarkostir fyrir smávirkjanir hér á landi eru margir, sérstaklega á Vestfjörðum, Norðurlandi og fyrir austan, eða nánast alls staðar þar sem styrkja þarf dreifikerfið. En skiplags- og leyfismál smávirkjana eru flókin og reglugerðir íþyngjandi. Ferlið frá hugmynd að tengingu er kostnaðarsamt og tímafrekt og langt frá samsvarandi ferli fram­kvæmda t.d. í landbúnaði þar sem framkvæmdir bæði á landi og mann­virkjum geta kostað umtalsvert rask.

Einfalda þarf kerfið

Ljóst er að smávirkjanir eru ein leið til að styrkja dreifikerfi landsins og lækka kostnað við rekstur þess. Með einföldun leyfis- og skipulagsmála smávirkjana er opnað á leið til að ná niður dreifingarkostnaði raforku í dreifbýli og þar með leið að frekari jöfnun á raforkukostnaði og jafnar tækifærin til atvinnu og stuðlar að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Já, við þurfum ekki að vaða bæjarlækinn til að nálgast ljósið.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 4. október 2019.

Categories
Greinar

Öflugir tónlistarskólar

Deila grein

03/10/2019

Öflugir tónlistarskólar

Tón­list­ar­líf hér á landi er öfl­ugt og frjótt. Íslensk tónlist hef­ur átt drjúg­an þátt í að auka orðspor Íslands á alþjóðavett­vangi enda finn­ur ís­lensk menn­ing og sköp­un­ar­kraft­ur sér far­veg um all­an heim. Vel­gengni ís­lenskr­ar tón­list­ar og tón­list­ar­manna hef­ur þó ekki sprottið úr engu. Þar eig­um við tón­list­ar­kenn­ur­um og starfs­fólki tón­list­ar­skóla lands­ins margt að þakka. Fólki sem hef­ur metnað, trú og ástríðu fyr­ir sínu fagi og sí­vax­andi mögu­leik­um mennt­un­ar á því sviði, og ber öfl­ugu starfi tón­list­ar­skól­anna fag­urt vitni.

Starf­semi flestra tón­list­ar­skóla er sam­starfs­verk­efni rík­is og sveit­ar­fé­laga en í gildi er sam­komu­lag um greiðslu fram­lags rík­is­ins til Jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­laga vegna þess. Nem­end­ur í fram­halds­námi í hljóðfæra­leik og á fram­halds- og miðstigi í söng, og aðrir nem­end­ur sem þurfa af gild­um ástæðum að sækja tón­list­ar­skóla utan lög­heim­il­is sveit­ar­fé­lags, njóta stuðnings sam­kvæmt ákveðnum regl­um. Á þessu ári nær sam­komu­lagið til tæp­lega 600 nem­enda í 35 tón­list­ar­skól­um og nema fram­lög­in rúm­lega 550 millj­ón­um kr. eða um 935.000 kr. á hvern nem­anda. Sam­komu­lagið var end­ur­nýjað í lok síðasta árs og gild­ir til árs­loka 2021.

Með til­komu Mennta­skól­ans í tónlist árið 2017 fækkaði nem­end­um sem sam­komu­lagið nær yfir en ákvörðun var tek­in að lækka þó ekki fram­lög til þess. Með þeirri aðgerð varð því um­tals­verð hækk­un á fram­lagi til hvers nem­enda. Fram­lög til Mennta­skól­ans í tónlist nema 390 millj­ón­um kr. á þessu ári. Því má segja að fjár­mögn­un tón­list­ar­kennslu hér á landi hafi sjald­an verið betri en nú.

Framund­an eru mik­il­væg verk­efni sem unn­in verða í góðri sam­vinnu við hagaðila. Ráðgert er að end­ur­skoða lagaum­hverfi tón­list­ar­skóla og aðal­nám­skrá þeirra sem ekki hef­ur enn verið upp­færð í takt við gild­andi aðal­nám­skrár grunn- og fram­halds­skóla. Þá verður einnig metið hvort ástæða sé til að setja heild­stæð lög um list­kennslu hér á landi. Við treyst­um á gott sam­starf um þau mik­il­vægu verk­efni sem verða án efa til þess að efla enn frek­ar tón­listar­fræðslu og starf tón­list­ar­skóla hér á landi.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2019.

Categories
Greinar

Mælaborð mikilvægt í breytingum í þágu barna

Deila grein

30/09/2019

Mælaborð mikilvægt í breytingum í þágu barna

Breytingar í þágu barna er yfirskrift ráðstefnu sem ég hef boðað til miðvikudaginn 2. október næstkomandi en þar verða fyrstu tillögur að nýju velferðarkerfi fyrir börn og fjölskyldur kynntar. Mikilvægur hlekkur í því kerfi er svokallað mælaborð sem ætlað er að varpa ljósi á velferð barna.

Það hefur verið eitt af aðaláherslumálum mínum sem ráðherra að auka velferð barna og gera breytingar á kerfinu til þess að það þjóni börnunum okkar sem best. Ég setti mér það markmið strax í upphafi, hef róið að því öllum árum og nú er komið að vendipunkti í þeirri vinnu.

Ég þykist vita að flestir hugsi breytingar þannig að þær eigi að vera til batnaðar. Hér er um að ræða mjög viðamiklar breytingar og til þess að vera viss um að þær skili árangri þótti mér nauðsynlegt að styðjast við mælitæki sem gæfi til kynna hvernig staðan er, hvaða breytinga er þörf og hvernig svo tekst til með þær aðgerðir sem framkvæmdar eru.

Í því skyni var í júní síðastliðinn samið um þróun mælaborðs sem ætlað er að tryggja betri yfirsýn yfir velferð barna. Aðilar samningsins eru auk félagsmálaráðuneytisins, Kópavogsbær, UNICEF á Íslandi og hugbúnaðarfyrirtækið Kara Connect. Mælaborðinu er ætlað að vinna og greina gögn í þeim tilgangi að mögulegt verði að sjá sem allra best á hvaða sviðum þurfi að bregðast við og hvort viðbrögðin skili tilætluðum árangri. Því er ætlað að tryggja rétta stýringu aðgerða og þar með betri nýtingu fjármuna.

Vonir standa til þess að í náinni framtíð muni mælaborðið geta nýst hverju og einu sveitarfélagi og þar með landinu öllu. Á ráðstefnunni 2. október verður mælaborðið kynnt frekar og gefst þátttakendum kostur á að leggja sitt af mörkum við að þróa það áfram. Auk þess verður farið yfir fyrirhugaðar kerfisbreytingar í þágu barna í heild. Fullt er á ráðstefnuna en áhugasömum er bent á að fylgjast með beinu streymi á vef Stjórnarráðsins.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. september 2019.

Categories
Greinar

Betri tímar í umferðinni

Deila grein

27/09/2019

Betri tímar í umferðinni

Í gær skrifuðu rík­is­stjórn og stjórn­end­ur sveit­ar­fé­lag­anna á höfuðborg­ar­svæðinu und­ir tíma­móta­sam­komu­lag um stór­sókn til bættra sam­gangna. Tíma­mót­in fel­ast ekki síst í því að ríkið og sveit­ar­fé­lög­in á höfuðborg­ar­svæðinu hafa náð sam­an um sam­eig­in­lega sýn um fjöl­breytt­ar sam­göng­ur á höfuðborg­ar­svæðinu en sam­skipti þess­ara aðila hafa nán­ast verið í frosti ára­tug­um sam­an þegar kem­ur að sam­göng­um. Borg­in hef­ur bar­ist fyr­ir einni leið og Vega­gerðin fyr­ir ann­arri en báðir hafa haft sama mark­mið: að bæta og auðvelda um­ferð á svæðinu.

Ekki lausn, held­ur lausn­ir

Niðurstaðan sem kynnt var í gær er ávöxt­ur þess að strax þegar ég sett­ist stól ráðherra sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­mála ákvað ég að leiða sam­an þessa and­stæðu póla til að vinna að lausn máls­ins. Útkom­an er hag­stæð fyr­ir alla, hvort sem þeir vilja aka sín­um fjöl­skyldu­bíl, nýta al­menn­ings­sam­göng­ur, ganga eða hjóla. Ríf­lega 52 millj­arðar króna fara í stofn­vegi, tæp­lega 50 millj­arðar í upp­bygg­ingu innviða fyr­ir hágæða al­menn­ings­sam­göng­ur, rúm­lega 8 millj­arðar í göngu- og hjóla­stíga, brýr og und­ir­göng og rétt rúm­ir sjö millj­arðar í um­ferðar­stýr­ingu.

Fjöl­breytt fjár­mögn­un

Lyk­ill­inn að því að hægt sé að ráðast í svo stór­kost­leg­ar fram­kvæmd­ir er að fjár­magn sé tryggt. Ríkið legg­ur til 45 millj­arða, sveit­ar­fé­lög­in 15 millj­arða og sér­stök fjár­mögn­un verður 60 millj­arðar. Sér­stök fjár­mögn­un verður að ein­hverju leyti í formi um­ferðar­gjalda sem verður hluti af þeirri vinnu sem unnið er að í fjár­málaráðuneyt­inu varðandi end­ur­skipu­lagn­ingu fjár­mögn­un­ar­kerf­is í sam­göng­um vegna orku­skipt­anna. Sam­göngu­kerfið er nú fjár­magnað með bens­ín- og ol­íu­gjöld­um sem fara hratt minnk­andi vegna örr­ar fjölg­un­ar vist­vænna öku­tækja.

Sunda­braut

Eitt af því sem sam­komu­lagið renn­ir stoðum und­ir er bygg­ing Sunda­braut­ar sem lengi hef­ur verið í umræðunni en ekki hef­ur náðst sam­komu­lag um. Með þess­um fram­kvæmd­um er lagður grunn­ur að betri teng­ingu höfuðborg­ar­svæðis­ins við lands­byggðina með veglagn­ingu yfir sund­in upp á Kjal­ar­nes. Sú teng­ing myndi létta á um­ferð í Ártúns­brekku og með sterk­ari stofn­veg­um á höfuðborg­ar­svæðinu auðvelda mjög um­ferð í gegn­um svæðið til Kefla­vík­ur­flug­vall­ar.

Tím­inn er dýr­mæt­ur

Sam­göng­ur snú­ast fyrst og fremst um lífs­gæði. Tím­inn er stöðugt mik­il­væg­ari þátt­ur í lífs­gæðum, við vilj­um ráða því sem mest sjálf hvernig við verj­um tíma okk­ar. Tím­inn sem fer í um­ferðarflækj­ur er ekki aðeins óhag­stæður fyr­ir efna­hag­inn held­ur geng­ur hann á þann tíma sem við ætl­um okk­ur með fjöl­skyldu og vin­um. Betri um­ferðarmann­virki stuðla einnig að bættri um­ferðar­menn­ingu og ör­ugg­ari um­ferð, færri slys­um. Áhersla mín á öfl­ug­ar sam­göng­ur um allt land er kom­in til vegna þess að ég trúi því að öfl­ug­ar sam­göng­ur séu hluti af sterk­ara sam­fé­lagi. Sam­göngusátt­máli höfuðborg­ar­svæðis­ins er mik­il­væg­ur hluti af þeirri sýn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. september 2019.