Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, mælti á Alþingi fyrir tillögu til þingsályktunar um bókmenntastefnu fyrir árin 2025–2030 og aðgerðaáætlun.
Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá því í nóvember 2021 er fjallað um áhersluatriði ríkisstjórnarinnar. Þar segir: „Menning og listir eru bæði uppspretta og birtingarmynd fjölbreytts og sterks samfélags. Við ætlum áfram að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa ný tækifæri fyrir íslenska listamenn. … Íslensk tunga er dýrmæt auðlind og á stóran þátt í að skapa sterkt samfélag. Íslenskan er tenging okkar við sögu okkar og menningu og mikilvægt að huga enn betur að íslenskukennslu. Við ætlum að styðja við tunguna með því að leggja áherslu á að íslenskan sé skapandi og frjór hluti af umhverfi okkar.“
„Framtíðarsýn okkar er sú að íslensk ritmenning verði áfram kröftug og metnaðarfull og byggist á sköpunarkraftinum sem í okkur býr. Við viljum að á Íslandi þrífist fjölbreytt útgáfustarfsemi sem treystir stoðir íslenskrar tungu og lætur okkur í té bækur og bókmenntir á heimsmælikvarða. Við viljum að starfsumhverfi rithöfunda og myndhöfunda sé hvetjandi og við viljum stuðla að framgangi íslenskra bókmennta á innlendum og erlendum vettvangi. Lykilatriðið fyrir okkur sem bókaþjóð er að lesendur á öllum aldri hafi aðgang að margvíslegu og vönduðu lesefni og að lestur verði hluti af daglegu lífi okkar. Það skiptir svo miklu máli fyrir allt samfélagið að landsmenn séu vel læsir á upplýsingar, stundi gagnrýna hugsun, skilji og virði mikilvægi málfrelsis og sjái í gegnum upplýsingaóreiðuna sem á okkur hefur dunið,“ sagði Lilja Dögg.
Ræða Lilju Daggar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um bókmenntastefnu fyrir árin 2025–2030 og meðfylgjandi aðgerðaáætlun. Það er ekki ofsögum sagt að við Íslendingar séum bókaþjóð og höfum löngum verið. Við vorum bókaþjóð þegar bækur okkar voru skrifaðar á skinn og við vorum líka bókaþjóð þegar við skiptum bókfellinu út fyrir pappír. Af þessu megum við vera stolt. En nú eru að mörgu leyti breyttir tímar og bókin komin í varnarstöðu. Sótt er að henni úr ýmsum áttum. Hljóðbækur og rafbækur gera það, breyttar lestrarvenjur gera það líka og breytt viðskiptamódel á bókamarkaði er alveg ný áskorun. Við þessum áskorunum ætlum við að bregðast í nýrri bókmenntastefnu. Framtíðarsýn okkar er sú að íslensk ritmenning verði áfram kröftug og metnaðarfull og byggist á sköpunarkraftinum sem í okkur býr. Við viljum að á Íslandi þrífist fjölbreytt útgáfustarfsemi sem treystir stoðir íslenskrar tungu og lætur okkur í té bækur og bókmenntir á heimsmælikvarða. Við viljum að starfsumhverfi rithöfunda og myndhöfunda sé hvetjandi og við viljum stuðla að framgangi íslenskra bókmennta á innlendum og erlendum vettvangi. Lykilatriðið fyrir okkur sem bókaþjóð er að lesendur á öllum aldri hafi aðgang að margvíslegu og vönduðu lesefni og að lestur verði hluti af daglegu lífi okkar. Það skiptir svo miklu máli fyrir allt samfélagið að landsmenn séu vel læsir á upplýsingar, stundi gagnrýna hugsun, skilji og virði mikilvægi málfrelsis og sjái í gegnum upplýsingaóreiðuna sem á okkur hefur dunið.
Virðulegi forseti. Aðgerðunum sem fylgja bókmenntastefnunni er ætlað að stuðla að þessu og að þessu sinni leggjum við sérstaka áherslu á börn og ungmenni. Hugað verður að verkefnum sem hvetja til lesturs og sköpunar, starfsumhverfi höfunda barna- og ungmennabóka verður styrkt sérstaklega, þýðingar á bókum fyrir börn og ungmenni, jafn mikilvægar og þær eru, verða skoðaðar og hugað verður að tengslum við sagnaarfinn og hvernig við miðlum honum áfram í nútímanum. Í kjölfarið á bókmenntastefnunni verður hafin vinna við heildarendurskoðun á regluverki í kringum bókmenntir.
Lög um bókmenntir eru komin til ára sinna og fyrir liggur að taka þarf lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku til endurskoðunar. Sama gildir um bókasafnslög og fleiri þætti í umhverfi bókanna. Ör tækniþróun og tilkoma gervigreindar inn í þennan geira kallar á að brugðist verði við og vandað til verka. Rétt er að nefna að bókmenntastefnan nær til allra tegunda bókmennta og fræðibækur eru ekki undanskildar. Við þurfum að skoða sérstaklega hvernig hægt er að skjóta tryggum stoðum undir ritun fræðibóka á íslensku, hvort sem það er gert með beinum styrkjum til þeirra sem skrifa bækurnar eða stuðningi við félög sem gefa þær út.
Virðulegi forseti. Bókmenntastefnan sem hér liggur fyrir er afrakstur fjölbreytts samráðs við hagsmunaaðila vítt og breitt í bókmenntalandslaginu. Óskað var eftir sjónarmiðum úr fjölmörgum áttum og eiga margar aðgerðir beinlínis rót að rekja þangað. Sérstakur faglegur rýnihópur var fenginn til að skoða stefnuna gagnrýnum augum og að endingu voru drögin birt í samráðsgátt þangað sem 23 umsagnir bárust. Afrakstur þessarar vinnu liggur nú fyrir í þinginu. Bókmenntastefna var áður lögð fram á síðasta löggjafarþingi vorið 2024 en náði ekki framgangi. Hún er hér lögð fram aftur í óbreyttri mynd.
Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir meginþáttum í þingsályktunartillögu um bókmenntastefnu fyrir árin 2025–2030 og legg til að henni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og svo til síðari umræðu.“
04/10/2024
Opnað á ný fyrir umsóknir um hlutdeildarlánHúsnæðis- og mannvirkjastofnun tekur á ný á móti umsóknum um hlutdeildarlán. Lánin eru veitt fyrir allt að 20% kaupverðs og koma þá til viðbótar lánum frá öðrum lánastofnunum. Hlutdeildarlán eru hluti af aðgerðum ríkisins til stuðnings fjögurra ára kjarasamningum á vinnumarkaði.
Ríkisstjórnin samþykkti í sumar að setja auka milljarð í hlutdeildarlán sem eiga að auðvelda tekjulágum fyrstu kaupendum að eignast hagkvæmt húsnæði.
Hlutdeildarlánum ætlað að hjálpa fólki að komast af leigumarkaði
Hlutdeildarlán eru veitt fyrir allt að 20% kaupverðs og þarf lántaki sjálfur að reiða fram a.m.k. 5% í eigið fé. Lánin bera ekki vexti og ekki þarf að greiða af þeim mánaðarlegar greiðslur. Lán eru greidd til baka eftir 10-15 ár, eða við sölu íbúðar.
Markmið lánanna er að auðvelda kaupendum að brúa bilið við fasteignakaup og komast af leigumarkaði. Þau standa þeim til boða sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign, hafa ekki átt fasteign síðastliðin fimm ár og eru undir ákveðnum tekjumörkum.
„Skref í þá átt að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra“
Við samþykkt laga um hlutdeildarlán á Alþingi í september 2020, sagði Ásmundur Einar Daðason, þáverandi félags- og barnamálaráðherra:
„Ég er gríðarlega ánægður með að hlutdeildarlánin hafi verið samþykkt á Alþingi í dag og með því erum við að stíga mikilvægt skref í þá átt að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á fasteignamarkaðinn, og þar með auka öryggi fjölskyldna landsins þegar kemur að húsnæðismálum. Þessi aðgerð hefur reynst afskaplega vel í Skotlandi og lánin munu hafa jákvæð áhrif á byggingu húsnæðis á landsbyggðinni.“
03/10/2024
Hvernig tryggjum við farsæld unga fólksins okkar?Menntaþing var haldið á mánudag þar sem næstu aðgerðir í menntastefnu til ársins 2030 voru kynntar.
„Ástæðan fyrir því að við erum hér er að til þess að ná utan um unga fólkið okkar, og hvernig við getum stuðlað að því að það nái árangri í námi, hvernig við tryggjum farsæld þess, vegna þess að þau eru þau sem ætla að byggja landið okkar,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í opnunarávarpi sínu á Menntaþingi í morgun.
Ásmundur fór yfir ýmsa tölfræði sem liggur fyrir hjá ráðuneytinu, til að mynda PISA og norrænu rannsóknina QUINT, kennaraskort í grunnskólum, brotthvarf úr framhaldsskóla og stöðutöku nemenda og kennara með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn.
Helstu atriði:
- Íslensk skólabörn fengu færri stig í niðurstöðum PISA-könnunar 2022 en meðaltal OECD-ríkjanna er. Mæld eru náttúruvísindi, lesskilningur og stærðfræði meðal grunnskólanemenda. Grunnhæfni er lægri.
- Frá 2008 til 2023 hækkaði hlutfall barna með erlendan bakgrunn í leikskólum úr 19 í 27 prósent og úr 16 í 29 prósent í grunnskólum.
- Hlutfall ófaglærðra við kennslu er hátt og hlutfall fyrstu kynslóðar innflytjenda sem starfar í leikskólum 2016 til 2022 hefur hækkað. 2016 var það mest 43 prósent en árið 2022 var það orðið 88 prósent.
- Ráðherra nefndi líka að kennarar skili sér síður í kennslu eftir nám eða hverfi oftar frá kennslu í aðra vinnu. Þeir hafa hins vegar fyllt stækkandi hóp deildarstjóra og millistjórnenda í skólum. Frá 2016 til 2023 hefur stöðugildum deildarstjóra í grunnskólum fjölgað um 95 prósent en á sama tíma fjölgaði nemendum um tæp 7 prósent.
„Við sjáum að fleiri börnum gengur verr í námi. Við vitum að það skortir kennara og fagfólk, sjáum að börnum sem þurfa umfangsmeiri stuðning í skóla hefur fjölgað og á sama tíma eru vísbendingar um að uppruni og félagslegar aðstæður séu að hafa meiri áhrif á námsárangur og tækifæri þeirra í námi.“
Opnunarávarp ungmenna á Menntaþingi
Á þinginu var rætt um stöðu menntakerfisins, hvað verið er að gera og næstu skref í menntaumbótum. Fyrirhugaðar aðgerðir voru kynntar fyrir fullum sal á Hilton Reykjavík Nordica.
Fagmennska, kennaramenntun, virðing og samvinna stóðu upp úr í könnun meðal þinggesta um hvað sé mikilvægast til að efla menntakerfið.
Að lokinni kynningu á fyrirhuguðum aðgerðum komu fram sjónarmið ungmenna, foreldra, kennara, fræðafólks, sveitarfélaga og atvinnulífsins. Í kjölfarið hófst hópvinna um aðgerðirnar.
Hópvinna á Menntaþingi
Áhugasamir sem ekki sáu sér fært að taka þátt eru hvattir til að kynna sér upptökuna og koma tillögum og áherslum á framfæri hér að neðan fyrir 10. október:
Eftir að unnið hefur verið úr niðurstöðum þingsins verður önnur aðgerðaáætlun kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda.
03/10/2024
Eflum neytendavernd á sviði fjármálaþjónustuLilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði á síðasta ári starfshóp um greiningarvinnu í tengslum við ákveðna þætti fasteignalána til neytenda og neytendalána með það að markmiði að efla neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu og auka fjármálalæsi. Starfshópurinn fór m.a. yfir skjal frá Neytendastofu varðandi upplýsingar sem lánveitendum ber að veita lántökum skv. lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán og er lokaafurð hópsins nýtt og endurbætt upplýsingaskjal.
Starfshópinn skipuðu Axel Hall, lektor við Háskólann í Reykjavík (formaður), Einar B. Árnason, hagfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneyti, Rósa Björk Sveinsdóttir, sérfræðingur í Seðlabanka Íslands og Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu.
Verkefni starfshópsins var margþætt og var lögð áhersla á að skoða hvaða upplýsingum og leiðbeiningum þarf að koma á framfæri til neytenda um mismunandi lánaform, áhrif vaxta og verðbólgu og hvernig megi miðla þeim upplýsingum með skilvirkum hætti. Starfshópurinn kannaði einnig hvernig staðið er að upplýsingamiðlun og leiðbeiningum til lántaka, sem og eftirlitshlutverk Neytendastofu og Seðlabanka Íslands í því samhengi. Greinagerð starfshópsins má finna hér.
Með það að markmiði að efla og samræma upplýsingagjöf til lántaka endurskoðaði og uppfærði starfshópurinn skjal Neytendastofu varðandi upplýsingar til lántaka, samanber framangreint.
Uppfært upplýsingaskjal Neytendastofu
Með aukinni tækniþróun, breyttu neyslumynstri og tíðari lánveitingum, m.a. vegna endurfjármögnunar, hefur lánveitendum fjölgað síðustu ár. Aukin samkeppni í þeim efnum kallar á að lánveitendur vilja geta afgreitt lán hratt og sem mest rafrænt. Því fylgir aukin krafa til neytenda um að kynna sér mismunandi lánsform og gaumgæfa það efni sem lánveitendum er skylt að leggja fram, þar á meðal upplýsingaskjal Neytendastofu. Í vinnu starfshópsins var áhersla lögð á að gera þær upplýsingar eins aðgengilegar og skýrar og mögulegt er.
Til að mæta þeim breiða og fjölbreytta hópi sem tekur fasteignalán var útbúið yfirlit fremst í upplýsingaskjalinu. Skjalið var þannig einfaldað og gert heildstæðara og um leið m.a. lagað að efni sem Evrópusambandið hefur útbúið til að efla fjármálalæsi.
Við yfirferð starfshópsins var lögð áhersla á að skýrður væri munurinn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Leitast var við að búa til stuttar skýringar sem fjármálastofnanir gætu notað til að veita lántökum upplýsingar.
Upplýsingaskjalinu er ætlað að veita neytendum tilteknar upplýsingar um sögulega þróun verðlags og breytilegra vaxta og áhrif þeirra á höfuðstól og greiðslubyrði auk upplýsinga um þróun verðlags og ráðstöfunartekna s.l. 10 ár. Í skjalinu er þannig m.a. útskýrður munur á lánsformum eins og verðtryggðum og óverðtryggðum lánum og munurinn á jöfnum greiðslum og afborgunum.
Aukið samstarf við eftirlit
Neytendastofa hefur eftirlit með upplýsingagjöf samkvæmt lögum um neytendalán og fasteignalán til neytenda en Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur almennt eftirlit með viðskiptaháttum fjármálafyrirtækja. Starfshópurinn leggur til að gengið verði frá samstarfssamningi milli stofnananna með það að markmiði að stuðla að skilvirkari neytendavernd í opinberu eftirliti á fjármálamarkaði.
Neytendastofa mun í kjölfar vinnu starfshópsins taka til nánari skoðunar upplýsingagjöf lánveitenda til neytenda og fylgja því eftir að lánveitendur uppfylli skilyrði laga með fullnægjandi hætti. Búið er að uppfæra vefsíðu Neytendastofu varðandi fjármálalæsi og útskýringar á lánaformum auk þess sem samstarfsamningur við Seðlabankann er í undirbúningi, líkt og starfshópurinn lagði til.
Neytendavernd á dagskrá stjórnmála
Menningar- og viðskiptaráðherra lagði nýverið fyrir Alþingi fyrstu heildstæðu neytendastefnu landsins þar sem lögð er áhersla á að auka neytendavernd á Íslandi.
„Þessi vinna er dæmi um slíka aðgerð og er liður í að setja neytendavernd á dagskrá stjórnmála. Fjármalalæsi er ábótavant hérlendis og það er lykilatriði að neytendur séu ekki í uppgjöf gagnvart lánaumhverfinu og séu hreinlega farnir að sætta sig við að skilja ekki svo mikilvæg málefni. Fasteignalán eru stærsta fjárfesting flestra á lífsleiðinni, því hvet ég fólk eindregið til þess að lesa uppfært upplýsingaskjal Neytendastofu og leita eftir frekari fjármálaráðgjöf ef þarf og finna kraftinn sem fylgir því að öðlast dýpri skilning á fjármálaumhverfinu og um leið eigin valkostum,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
01/10/2024
Neytendavernd viðkvæmra hópaNeytendamál hafa verið í forgangi í menningar- og viðskiptaráðuneytinu á kjörtímabilinu. Þannig hefur viðskiptabönkunum til að mynda verið veitt aðhald með úttekt á gjaldtöku þeirra og arðsemi, stutt hefur verið við verðlagseftirlit á dagvörumarkaði, niðurstaða úttektar á tryggingamarkaðnum er væntanleg fyrir áramót og nýverið mælti ég fyrir heildstæðri stefnu í neytendamálum til ársins 2030. Ein aðgerðanna í þeirri stefnu snýr að neytendavernd viðkvæmra hópa, en ákveðnir hópar neytenda í tilteknum aðstæðum geta verið viðkvæmir fyrir markaðssetningu og auglýsingum og þurfa því sérstaka vernd, svo sem börn, eldri borgarar og fatlað fólk.
Við höfum m.a. litið til samanburðarríkja í þessum efnum þar sem ýmislegt hefur verið til skoðunar, eins og t.d. endurskoðun á stöðlum fyrir barnavörur, fjármálaráðgjöf til neytenda sem standa höllum fæti fjárhagslega og aukið gagnsæi og ráðgjöf til að nálgast upplýsingar. Á þingmálaskrá minni er m.a. að finna frumvarp til markaðssetningarlaga sem inniheldur ákvæði sem snúa að viðskiptaháttum sem beinast að börnum og unglingum undir 18 ára aldri. Ákvæðið byggist á sambærilegum ákvæðum í dönsku og norsku markaðssetningarlögunum sem byggjast að miklu leyti á siðareglum Alþjóðaviðskiptaráðsins um auglýsingar og markaðssetningu að því er varðar vernd barna og unglinga.
Á Íslandi hafa málefni smálána verið til sérstakrar skoðunar undanfarin ár og hafa stjórnvöld, með Neytendastofu í broddi fylkingar, lagt talsvert kapp á að koma smálánastarfsemi í lögmætt horf. Þannig hefur smálánastarfsemi tekið miklum breytingum í kjölfar eftirlitsaðgerða m.a. með skilgreiningu viðbótarkostnaðar, útgáfu rafbóka, lánastarfsemi frá Danmörku o.s.frv. Eftir nauðsynlegar lagabreytingar hefur ekki borið jafn mikið á ólögmætum smálánum og var fyrir breytinguna. Hins vegar hafa viðskiptahættir tengdir smálánum breyst og tekjulindin virðist hafa færst yfir í löginnheimtu tengda smálánum með tilheyrandi vandamálum fyrir viðkvæma neytendur. Neytendur, og sérstaklega neytendur í viðkvæmri stöðu, leita oft ekki réttar síns þar sem þá skortir fjármagn, tíma og þekkingu, auk þess sem málaferlum fylgir oft óhagræði. Til skoðunar er að innheimtuhættir á þessum markaði verði kortlagðir og að fyrirkomulag eftirlits með frum-, milli- og löginnheimtu verði endurskoðað heildstætt til að unnt sé að taka á óréttmætum innheimtuháttum.
Í neytendamálum líkt og öðrum málum skiptir máli að huga sérstaklega að viðkvæmustu hópum samfélagsins. Það viljum við gera með aukinni fræðslu, aðhaldi og eftirliti til þess að efla rétt neytenda á breiðum grunni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. október 2024.
27/09/2024
Innleiðing lýðheilsumats í íslenska löggjöfJóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf. Markmið tillögunnar er að fest verði í sessi lýðheilsumat hér á landi og lýðheilsa þannig gerð að föstum hluta stjórnsýslunnar.
Lýðheilsumat er í senn áhrifarík og einföld aðgerð þar sem hægt er að leggja mat á bein og óbein áhrif stjórnsýsluákvarðana og lagasetningar á lýðheilsu. Lífslíkur landsmanna hafa aukist verulega á síðustu áratugum og er aldurssamsetning þjóðarinnar að taka breytingum. Sífellt færri verða á vinnufærum aldri á bak við hvern 65 ára og eldri. Samhliða eykst byrði langvinnra sjúkdóma og ýmsar áskoranir eru fyrirliggjandi, m.a. vegna loftslagsbreytinga. Ef ekki er brugðist við þessari stöðu með markvissum hætti er ljóst að áhrif á kostnað og þjónustuþörf í heilbrigðiskerfinu sem og öðrum kerfum aukast verulega og áhrif heilsuleysis leiða af sér verulega neikvæð áhrif á samfélagið í heild. Flutningsmenn telja því mikilvægt að innleiða lýðheilsumat til þess að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna þessa.
Tillögugreinin orðast svo:
„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að ljúka vinnu við að festa í sessi lýðheilsumat hér á landi. Sérfræðihópur verði skipaður með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags, sveitarfélaga og embættis landlæknis er leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar. Hópurinn skal skila stöðuskýrslu sem kynnt verði Alþingi eigi síðar en 1. maí 2025.“
Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:
27/09/2024
Breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um sjúkraskrárWillum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, mælti fyrir á Alþingi í gær frumvarpi sínu til nýrra sóttvarnalaga og frumvarpi sem fjallar um heilbrigðisskrár og felur í sér breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um sjúkraskrár. Frumvörpunum hefur nú verið vísað til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis. Heilbrigðisráðherra hyggst leggja fram 15 lagafrumvörp á 155. löggjafarþingi, þar af tólf á haustþinginu.
Frumvarp til nýrra sóttvarnalaga er nú lagt fram á Alþingi í fjórða sinn. Gerðar hafa verið á því minniháttar breytingar frá 154. löggjafarþingi, einkum með hliðsjón af ábendingum sem þá komu fram í þinglegri meðferð velferðarnefndar. Þar ber helst að nefna breytingar sem lúta að ákvörðunum ráðherra um sóttvarnaráðstafanir vegna samfélagslega hættulegs sjúkdóms í 28. gr., um að reglugerðir settar samkvæmt ákvæðinu hafi að hámarki átta vikna gildistíma.
Frumvarp um heilbrigðisskrá
Frumvarp ráðherra sem snýr að heilbrigðisskrám var áður flutt á 154. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú endurflutt lítið breytt með hliðsjón af sjónarmiðum Landspítala og Persónuverndar í umsögnum sem velferðarnefnd aflaði við meðferð málsins. Meginmarkmið frumvarpsins eru þríþætt:
- Setja ítarleg ákvæði um tilgang heilbrigðisskráa, öflun upplýsinga í slíkar skrár, rekstur þeirra og notkun.
- Tryggja lagastoð fyrir stofnun og rekstri gæðaskráa af hálfu heilbrigðisstofnana og starfsstofa heilbrigðisstarfsfólks.
- Lagðar til breytingar er varða aðgang heilbrigðisyfirvalda að sjúkraskrám við meðferð kvörtunar- eða kærumála vegna veittrar meðferðar og við rannsóknir á atvikum í heilbrigðisþjónustu.
Aukin verðmætasköpun við nýtingu þörunga
27/09/2024
Aukin verðmætasköpun við nýtingu þörungaHalla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunar um aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Markmið tillögunnar er að starfshópur kanni möguleika á aukinni nýtingu og verðmætasköpun þörunga og setji í því skyni fram tillögur í skýrslu til Alþingis með skilgreindum verkefnum og aðgerðum. Sjálfbærnimarkmið verði höfð að leiðarljósi í skýrslunni, þ.e. að skapa tækifæri fyrir fólk til að nýta þörunga til framleiðslu á t.d. lífeldsneyti, matvælum, lífefnavörum eða fóðurbæti fyrir dýr sem og líförvandi efnum til ræktunar. Eins segir í greinargerð að mikilvægt verði að í tillögum sé miðað að því að skapa störf á þeim svæðum þar sem ræktun eða sláttur á sér stað.
Tillögugreinin orðast svo:
Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Starfshópurinn leggi áherslu á eftirfarandi:
1. Hvernig lög og reglur styðji við sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxa villtir eða eru ræktaðir í sjó eða á landi.
2. Hvernig efla megi rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varði öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim.
3. Hvernig styrkja megi eftirlitsaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungaræktun innan viðeigandi stofnana.
Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til Alþingis eigi síðar en 1. mars 2025.
Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:
26/09/2024
Okkar að tryggja góða þjónustu, gott vinnuumhverfi og aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu um allt landLilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins hversu stór skref hafi verið stigin sem styrkja sérstaklega heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, s.s. fjarheilbrigðisþjónustu og undirbúning fyrir ívilnun í Menntasjóðnum fyrir svæði þar sem vantar sérfræðinga, eins og í heilbrigðiskerfinu. Það mun allt hjálpa til við að fá sérfræðinga til að flytja út á land.
„Við viljum búa heilbrigðisstarfsmönnum okkar gott vinnuumhverfi. Við sjáum dæmi um að það eru sjúkrabílaskýli þar sem hefur þurft að brjóta úr veggjum til að koma nútíma sjúkrabílum fyrir. Á sumum landsvæðum er heimahjúkrun enn ekki til staðar og stundum þurfa foreldrar að ferðast langar vegalengdir til að fara í mæðravernd og ungbarnavernd. Einnig vitum við að hægt væri að nýta húsnæði heilbrigðisstofnana mun betur sums staðar og jafnvel samnýta með öðrum opinberum stofnunum,“ sagði Lilja Rannveig.
„Við sem búum úti á landi finnum vel fyrir því að mannauðurinn í heilbrigðiskerfinu, sem er til staðar, er mjög góður. En við þurfum að sjá til þess að vinnuumhverfi þeirra standist nútímakröfur og því er úrbóta þörf á mörgum heilsugæslum.“
„Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hafa tekið vel í ábendingar mínar varðandi úrbætur sem þarf að fara í á heilsugæslum í kjördæminu. Heilbrigðismál skipta okkur öll miklu máli og því þurfum við stöðugt að hafa augun á boltanum til að tryggja góða þjónustu, gott vinnuumhverfi og aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu um allt land,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.
26/09/2024
„Svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði og íslensku samfélagi“Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, sagði það hafa verið átakanlegt að horfa á Kveik um daginn þar sem fjallað var um aðbúnað erlendra verkamanna, vinnumansal, í störfum þingsins.
„Þetta er svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði og íslensku samfélagi. Við eigum að gera miklu, miklu betur hvað þetta varðar. Fyrir sex árum síðan var fjallað um nákvæmlega sömu stöðu og það kemur mér á óvart að við skulum ekki vera komin lengra,“ sagði Jóhann Friðrik.
Sagði hann það eðlilegt að þingheimur kallaði eftir sterkari viðbrögðum frá Vinnumálastofnun, Vinnueftirliti og Skattinum en að verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins væru svo sannarlega að hlusta.
„Í dag fer fram í Hörpu sameiginlegur fundur, sameiginleg ráðstefna þeirra til þess að reyna að stemma stigu við þessu vandamáli. Mér finnst það virðingarvert, virðulegi forseti, en ég kalla eftir miklu sterkari viðbrögðum íslenskra stjórnvalda. Við verðum að klára að uppfæra viðbragðsáætlun. Við verðum að stíga miklu fastar niður hvað varðar vinnumansal og mansal almennt á Íslandi. Við þurfum að klára að uppfæra aðgerðaáætlun og hrinda henni í framkvæmd. Ég kalla eftir því að stjórnvöld stígi fastar niður. Ég held að allt samfélagið sé að krefjast þess og við eigum að hlusta og bregðast við,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.