Categories
Fréttir

Vonbrigði að málið sé ekki enn komið fyrir Alþingi

Deila grein

08/10/2019

Vonbrigði að málið sé ekki enn komið fyrir Alþingi

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, var  málshefjandi í sérstakri umræðu um jarðamál og eignarhald lands á Alþingi í dag.
„Land er auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Fyrir tæpu ári átti ég hér orðastað við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eignarhald á bújörðum og mögulegar takmarkanir á því samkvæmt ákvæðum ábúðar- og jarðalaga. Sú umræða fór fram í kjölfar þess að starfshópur um endurskoðun eignarhalds á bújörðum skilaði af sér tillögum og skýrslu. Í framhaldinu var sett af stað vinna á vegum forsætisráðuneytisins,“ sagði Líneik Anna.
Um mitt þetta ár átti Líneik Anna orðastað við forsætisráðherra í fyrirspurnatíma og lýsti hún nú því yfir að það væru vonbrigði að vinna ráðuneytisins væri ekki enn komin til umræðu á Alþingi. Hún taldi sér kunnugt um að vinnan væri enn í gangi og kærkomið tækifæri nú að ræða framvindu vinnunnar í þingsal og fá frekari upplýsingar.
„Mig langar því að spyrja:

Hver er staðan í vinnu á vegum forsætisráðuneytisins við gerð skýrari lagaramma fyrir jarða- og landaviðskipti?
Er vinnan sem fram fer bundin við jarða- og ábúðarlög eða falla fleiri aðgerðir og verkefni þar undir?“

Minnti hún á að þingflokkur Framsóknarmanna hafi lagt fram þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Aðgerðaáætlunin hafi það að markmiði að tryggja eignarhald landsmanna á jörðum, þ.e. auðlindum á Íslandi, ásamt því að skapa frekari tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli og til fjölbreyttrar, sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu.
„Tillagan felur í sér sjö verkefni og aðgerðir sem öllum er ætlað að bæta umsýslu lands því að það eru ekki til nein ein töfralausn til að bæta umgjörðina. Lög, stjórntæki og verklag verður að mynda eina heild ef vel á að takast til. Verkefnin eru:

1. Lögfestar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi og um takmarkanir á fjölda jarðeigna í eigu sama aðila.
2. Jarðakaup verði leyfisskyld.
3. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið flýti gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands og móti leiðir til að skilgreina búsetuskyldu í dreifbýli við skipulagsgerð.
4. Löggjöf á sviði skráningar landeigna og eignarmarka verði endurskoðuð og bætt.
5. Fasteignamat í dreifbýli verði uppfært en dæmi er um að fasteignamat jarða hafi ekki verið uppfært í áratugi. Það mætti nýta sem stjórntæki.
6. Komið verði á lánasjóði vegna jarðakaupa.
7. Lög er varða ráðstöfun jarða og auðlinda á landi verði endurskoðuð í ljósi framvindu annarra aðgerða og reynslu af lögunum. Það þarf m.a. að tryggja betur að tekjur af landi og hlunnindum skili sér til þeirra sem vilja búa í dreifbýli og til dreifbýlissamfélaganna.

Mér leikur því einnig forvitni á að vita að hve miklu leyti vinna forsætisráðuneytisins nær yfir eða skarast við þessar aðgerðir,“ sagði Líneik Anna.
(Svör forsætisráðherra koma inn síðar)

Categories
Fréttir

Rödd hins þögla sjúkdóms

Deila grein

07/10/2019

Rödd hins þögla sjúkdóms

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um fræðslu um vefjagigt og endurskoðunar á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu.
„Þingsályktunartillagan felur í sér að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og bjóða upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna,“ sagði Halla Signý.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og bjóða upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna.

„Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á síðasta þingi og er nú endurflutt með viðbótarumfjöllun í greinargerð. Við umfjöllun málsins á 149. löggjafarþingi bárust fimm umsagnir um málið en í þeim öllum var tekið undir markmið þingsályktunartillögunnar og þörfin á vitundarvakningu um vefjagigt undirstrikuð. Í umsögn frá embætti landlæknis er tekið undir mikilvægi þess að fram fari endurskoðun á heildarskipulagi þjónustu fyrir einstaklinga með vefjagigt og áhersla lögð á að hún nái til allra þjónustustiga. Félag sjúkraþjálfara benti á að skortur væri á umgjörð fyrir börn með vefjagigt og Þraut ehf. benti á mikilvægi þess að vinnufært fólk með vefjagigt á vægari stigum hefði betri aðgang að þeirri þjónustu sem er í boði,“ sagði Halla Signý.
„Vefjagigt er langvinnur sjúkdómur sem samanstendur af fjölmörgum einkennum frá hinum ýmsu líffærakerfum. Helstu einkenni eru langvarandi og útbreiddir stoðkerfisverkir, stirðleiki, yfirþyrmandi þreyta og svefntruflanir. Önnur algeng einkenni eru fótapirringur, kuldanæmi, órólegur ristill, ofurnæm þvagblaðra, dauðir fingur, einbeitingarskortur og depurð.“
„Árið 1993 var vefjagigt formlega skilgreind sem sjúkdómur af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Töluverðan tíma tók uns sjúkdómurinn öðlaðist almenna viðurkenningu innan læknasamfélagsins en framan af var algengt að litið væri á vefjagigt sem eins konar ruslakistugreiningu. Í gegnum tíðina hafa fordómar verið tengdir sjúkdómnum sem mikilvægt er að eyða með markvissri fræðslu um hann. Vefjagigt mælist hvorki með blóðprufum né röntgenrannsóknum og er það vafalaust ein helsta ástæða fordóma í garð sjúkdómsins.“
„Ef tillagan nær í gegn tel ég að hér sé komin rödd þessa þögla sjúkdóms sem hefur hrjáð svo margar konur og er stór orsakaþáttur í örorku kvenna hér á landi. Það skiptir ekki bara máli að haldið sé utan um þennan hóp og að hann fái rödd heldur skiptir líka gríðarlega miklu máli að konur, og karlar sem hafa líka sjúkdóminn, komist sem fyrst til meðferðar svo að þau komist aftur út á vinnumarkaðinn. Bæði konur og karla eru með þennan sjúkdóm svo að þetta skiptir máli fyrir samfélagið í heild,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Aðgerðaáætlun í jarðamálum – enda land ekki eins og hver önnur fasteign

Deila grein

01/10/2019

Aðgerðaáætlun í jarðamálum – enda land ekki eins og hver önnur fasteign

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um „aðgerðaáætlun í jarðamálum“.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi, ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Aðgerðaáætlunin hafi það að markmiði að tryggja eignarhald landsmanna á jörðum á Íslandi, ásamt því að skapa frekari tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli og fjölbreyttrar sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu.
Aðgerðaáætlun þessi feli í sér eftirfarandi verkefni og aðgerðir:
1. Lögfestar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi og um takmarkanir á fjölda jarðeigna í eigu sama aðila.
2. Jarðakaup verði leyfisskyld.
3. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið flýti gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands og móti leiðir til að skilgreina búsetuskyldu í dreifbýli í skipulagi.
4. Löggjöf á sviði skráningar landeigna og eignarmarka verði endurskoðuð.
5. Fasteignamat í dreifbýli verði uppfært.
6. Komið verði á lánasjóði vegna jarðakaupa.
7. Lög er varða ráðstöfun jarða og auðlinda á landi verði endurskoðuð í ljósi annarra aðgerða í áætlun þessari og reynslu af framkvæmd þeirra svo sem jarðalög, ábúðarlög og lög um veiðifélög.
Forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar fyrir 1. febrúar 2021.

„Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórnin hrindi í framkvæmd aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna.
Land er takmörkuð auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Auk þess geta fylgt landi verðmætar viðbótarauðlindir.
Meðferð og notkun lands skiptir máli nú og til framtíðar. Það felast því miklir almannahagsmunir í ákvörðunum um ráðstöfun lands og öll ákvarðanataka um eignarhald og landnýtingu hefur áhrif á almannahagsmuni til framtíðar. Það geta því ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign,“ sagði Líneik Anna.
„Gildandi lagaumhverfi leiðir af sér að rúmlega 500 milljón manns geta keypt land og aðrar fasteignir hér á landi með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Flutningsmenn telja brýnt að settar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi enda hefur ásókn fólks sem ekki er búsett á Íslandi eftir eignarhaldi á jörðum aukist á síðustu árum. Þá eru dæmi um að sami aðili eigi fjölda jarða og fyrirsvar jarða sé óþekkt og óljóst, sagði Líneik Anna.
„Á síðustu árum hafa ýmsir starfshópar skoðað þessi mál, einkum út frá eignarhald á bújörðum og landbúnaðarlandi. Í september 2018 skilaði slíkur starfshópur áliti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar voru settar fram átta tillögur að leiðum til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins með breytingum á jarðalögum og ábúðarlögum. Nú stendur yfir frekari vinna á vegum forsætisráðherra með tillögurnar þar sem leitað er leiða til að skýra lagarammann fyrir jarða- og landaviðskipti, þar á meðal stöðu landsréttinda og vatnsréttinda, eins og kom fram í stefnuræðu forsætisráðherra. Auk þess er unnið að upplýsingaöflun um eignarhald á landi.
Tillagan sem við ræðum er unnin til að draga það fram að verkefnið er enn víðtækara en sú vinna sem þegar er hafin og mikilvægt að fylgja málinu eftir á mörgum sviðum,“ sagði Líneik Anna.
„Við gerð reglnanna verður að gæta að þeim takmörkunum sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar sem og þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með aðild sinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og verður þar einkum að líta til 40. gr. samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga innan svæðisins. Flutningsmenn benda þó á að svo virðist sem gengið hafi verið lengra í að opna heimildir til kaupa á landi en skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum gera ráð fyrir. Það leiði af samningnum að heimilt sé að takmarka eignarhald á fasteignum með lögum og án bótaskyldu á grundvelli skilgreindra markmiða byggðra á almannahagsmunum,“ sagði Líneik Anna.
„Með því að gera jarðakaup leyfisskyld verður einnig tryggð nauðsynleg aðkoma ríkis og sveitarfélaga að aðilaskiptum að landi svo að mögulegt verði að fylgja eftir lögum, reglum og ákvæðum aðal-, svæðis- og deiliskipulaga. Að mati flutningsmanna er jafnframt brýnt að skoðað verði sérstaklega hvort rétt sé að endurvekja forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðum sem afnuminn var með samþykkt jarðalaga, nr. 81/2004, en leyfisskyldan og forkaupsrétturinn gætu að einhverju leyti náð sömu markmiðum.“
„Það er mjög mikilvægt að fyrstu skrefin í framfylgd áætlunarinnar verði stigin sem fyrst því að það þarf að byrja að púsla saman betri umgjörð um landið, um jarðir og auðlindir á landi, til að reglur, framkvæmd og eftirfylgni batni. Góð og ígrunduð stjórnun lands og eigna er einn af grundvallarþáttum í efnahagslegri þróun samfélaga og sjálfbærri nýtingu náttúrunnar og því óhjákvæmilegt verkefni stjórnvalda. Ekki má ríkja sinnuleysi á þessu sviði eins og hefur að mörgu leyti verið á síðustu árum,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Categories
Fréttir

Aðgerðaáætlun í jarðamálum – enda land ekki eins og hver önnur fasteign

Deila grein

01/10/2019

Aðgerðaáætlun í jarðamálum – enda land ekki eins og hver önnur fasteign

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um „aðgerðaáætlun í jarðamálum“.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi, ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Aðgerðaáætlunin hafi það að markmiði að tryggja eignarhald landsmanna á jörðum á Íslandi, ásamt því að skapa frekari tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli og fjölbreyttrar sjálfbærrar landnýtingar og matvælaframleiðslu í landinu.
Aðgerðaáætlun þessi feli í sér eftirfarandi verkefni og aðgerðir:
1. Lögfestar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi og um takmarkanir á fjölda jarðeigna í eigu sama aðila.
2. Jarðakaup verði leyfisskyld.
3. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið flýti gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands og móti leiðir til að skilgreina búsetuskyldu í dreifbýli í skipulagi.
4. Löggjöf á sviði skráningar landeigna og eignarmarka verði endurskoðuð.
5. Fasteignamat í dreifbýli verði uppfært.
6. Komið verði á lánasjóði vegna jarðakaupa.
7. Lög er varða ráðstöfun jarða og auðlinda á landi verði endurskoðuð í ljósi annarra aðgerða í áætlun þessari og reynslu af framkvæmd þeirra svo sem jarðalög, ábúðarlög og lög um veiðifélög.
Forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um framgang áætlunarinnar fyrir 1. febrúar 2021.

„Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórnin hrindi í framkvæmd aðgerðaáætlun til styrkingar á lagaumgjörð og reglum um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á landi ásamt aðgerðum til að styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna.
Land er takmörkuð auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Auk þess geta fylgt landi verðmætar viðbótarauðlindir.
Meðferð og notkun lands skiptir máli nú og til framtíðar. Það felast því miklir almannahagsmunir í ákvörðunum um ráðstöfun lands og öll ákvarðanataka um eignarhald og landnýtingu hefur áhrif á almannahagsmuni til framtíðar. Það geta því ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign,“ sagði Líneik Anna.
„Gildandi lagaumhverfi leiðir af sér að rúmlega 500 milljón manns geta keypt land og aðrar fasteignir hér á landi með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Flutningsmenn telja brýnt að settar verði reglur um að skilgreind tengsl við Ísland séu forsenda fyrir eignarhaldi á jörðum hér á landi enda hefur ásókn fólks sem ekki er búsett á Íslandi eftir eignarhaldi á jörðum aukist á síðustu árum. Þá eru dæmi um að sami aðili eigi fjölda jarða og fyrirsvar jarða sé óþekkt og óljóst, sagði Líneik Anna.
„Á síðustu árum hafa ýmsir starfshópar skoðað þessi mál, einkum út frá eignarhald á bújörðum og landbúnaðarlandi. Í september 2018 skilaði slíkur starfshópur áliti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar voru settar fram átta tillögur að leiðum til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins með breytingum á jarðalögum og ábúðarlögum. Nú stendur yfir frekari vinna á vegum forsætisráðherra með tillögurnar þar sem leitað er leiða til að skýra lagarammann fyrir jarða- og landaviðskipti, þar á meðal stöðu landsréttinda og vatnsréttinda, eins og kom fram í stefnuræðu forsætisráðherra. Auk þess er unnið að upplýsingaöflun um eignarhald á landi.
Tillagan sem við ræðum er unnin til að draga það fram að verkefnið er enn víðtækara en sú vinna sem þegar er hafin og mikilvægt að fylgja málinu eftir á mörgum sviðum,“ sagði Líneik Anna.
„Við gerð reglnanna verður að gæta að þeim takmörkunum sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar sem og þeim skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist með aðild sinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og verður þar einkum að líta til 40. gr. samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga innan svæðisins. Flutningsmenn benda þó á að svo virðist sem gengið hafi verið lengra í að opna heimildir til kaupa á landi en skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum gera ráð fyrir. Það leiði af samningnum að heimilt sé að takmarka eignarhald á fasteignum með lögum og án bótaskyldu á grundvelli skilgreindra markmiða byggðra á almannahagsmunum,“ sagði Líneik Anna.
„Með því að gera jarðakaup leyfisskyld verður einnig tryggð nauðsynleg aðkoma ríkis og sveitarfélaga að aðilaskiptum að landi svo að mögulegt verði að fylgja eftir lögum, reglum og ákvæðum aðal-, svæðis- og deiliskipulaga. Að mati flutningsmanna er jafnframt brýnt að skoðað verði sérstaklega hvort rétt sé að endurvekja forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðum sem afnuminn var með samþykkt jarðalaga, nr. 81/2004, en leyfisskyldan og forkaupsrétturinn gætu að einhverju leyti náð sömu markmiðum.“
„Það er mjög mikilvægt að fyrstu skrefin í framfylgd áætlunarinnar verði stigin sem fyrst því að það þarf að byrja að púsla saman betri umgjörð um landið, um jarðir og auðlindir á landi, til að reglur, framkvæmd og eftirfylgni batni. Góð og ígrunduð stjórnun lands og eigna er einn af grundvallarþáttum í efnahagslegri þróun samfélaga og sjálfbærri nýtingu náttúrunnar og því óhjákvæmilegt verkefni stjórnvalda. Ekki má ríkja sinnuleysi á þessu sviði eins og hefur að mörgu leyti verið á síðustu árum,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Categories
Fréttir

Klasastefna er til að ráðstafa fjármunum markvissar og efla samvinnu, nýsköpun, samkeppnishæfni og hagsæld

Deila grein

01/10/2019

Klasastefna er til að ráðstafa fjármunum markvissar og efla samvinnu, nýsköpun, samkeppnishæfni og hagsæld

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um „mótun klasastefnu“. „Ég hef flutt þetta mál nokkrum sinnum áður, fyrst á 144. löggjafarþingi árið 2014 og eiginlega á flestum þingum síðan þá; 145., 146., 149. og nú á 150. löggjafarþingi,“ sagði Willum Þór.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan feli í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir. Stefnan verði unnin í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017–2019. Markmið nýrrar klasastefnu verði:

a. að ráðstafa fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar með markvissum hætti,

b. að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs,

c. að efla nýsköpun,

d. að efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina og þjóðarinnar,

e. að efla hagsæld.

Ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps í lok maí 2020.

Willum Þór sagðist vilja beina því til atvinnuveganefndar Alþingis að skoða sérstaklega að sækja þekkingu á klasastefnu og klasastarfi erlendis frá og sækja þá reynslu sem er til staðar víða erlendis þar sem unnið er eftir slíkri opinberri stefnu. Og að ríkisstjórninni ætti að skipa slíkan starfshóp og að verkefnið heyrði undir iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðuneyti.
„Ég er þeirrar skoðunar þegar við ræðum nýsköpun og nýsköpunarstefnu að opinber klasastefna ætti að vera hluti slíkrar heildarstefnumótunar. Það er líka fyllilega í samræmi við stjórnarsáttmála og stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar að móta slíka stefnu, opinbera klasastefnu, og í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að hvetja til hvers konar nýsköpunar og segir þar orðrétt, með leyfi forseta:

„Sett verður af stað vinna við að undirbúa klasastefnu fyrir Ísland þar sem unnið er með styrkleika ólíkra atvinnugreina í samvinnu menntakerfis, rannsóknastofnana, atvinnulífs, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila.“

Það segir svo í greinargerð með þingsályktunartillögunni að lagt sé til að slík opinber klasastefna verði mótuð í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs. Ég vil í því samhengi vitna í fyrstu umsögn við málið sem kom fram árið 2014 en sú umsögn kom frá Bændasamtökunum. Í henni var einmitt lögð áhersla á þessa tengingu við aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, enda er mjög margt að finna í þeirri aðgerðaáætlun sem hefur samhljóm með hugmyndafræði klasastefnu. Í umsögninni segir m.a., með leyfi forseta:

„Samtökin styðja tillöguna og leggja til að hún verði samþykkt. Það er jákvætt að stjórnvöld nýti sér kosti klasahugmyndafræðinnar til að efla og styrkja stoðkerfi atvinnulífsins og efla nýsköpun. Mörg dæmi, bæði hér heima og erlendis, eru um góðan árangur af klasasamstarfi og má nefna Sjávarklasann sem dæmi.
Bændasamtökin vilja þó leggja áherslu á að stefnumótun sem þessi sé samræmd annarri stefnumótun stjórnvalda á sama sviði, þ.e. áætlun Vísinda- og tækniráðs eins og fram kemur í tillögunni, en einnig byggðaáætlun, sóknaráætlunum landshluta og öðrum þeim áherslum sem taka til þeirra verkefna sem tillagan fjallar um.“

Mér finnst þetta mjög góð athugasemd vegna þess að í tillögugreininni kemur fram að við ráðstöfum fjármunum markvissar,“ sagði Willum Þór.
„Hugmyndafræðin um klasa er alls ekki ný og má rekja sögulega aftur til kenninga Michaels Porters. Hún er auðvitað þekkt hér á landi og Nýsköpunarmiðstöð Íslands er leiðandi stofnun á sviði rannsókna- og þróunarstarfs á því sviði og auk þess að standa að mjög fróðlegu árlegu riti um klasa hefur Nýsköpunarmiðstöðin gefið út leiðbeiningarhandbók um klasastjórnun sem er í tilvísunargrein með tillögunni. Þar er jafnframt að finna skilgreiningu á hugmyndafræðinni þar sem segir að klasi sé

„landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana á sérhæfðum sviðum sem eiga í samkeppni og einnig í samvinnu“.

Þegar ég les þá skilgreiningu dettur mér þegar í hug jarðvarmaklasinn. Við höfum náð gríðarlegum árangri með samvinnu ólíkra aðila á ólíkum sviðum. Sprottið hafa upp nýjar hugmyndir og klasinn hefur jafnframt, sem ekki allir klasar þurfa eða hafa endilega, alþjóðlega tengingu. Það er ekki bara að nýsköpunin nýtist innan lands heldur getur það skapað nýjar hugmyndir, nýja tækni, nýja hugsun sem hefur alþjóðlega skírskotun og mun efla þess vegna, eins og kemur fram í tillögugreininni, samkeppnishæfni þjóðarinnar,“ sagði Willum Þór.
Bryndís Haraldsdóttir, alþingismaður, þakkaði Willum Þór fyrir framlagningu tillögunnar.

„Hún hefur komið fram allt of oft og nú þurfum við bara að klára hana svo ekki þurfi að leggja hana fram enn á ný.“

Síðar í ræðu sinni sagði hún,

„ég styð þetta mál eins og fram hefur komið og vona að ég þurfi ekki að fara oftar í pontu Alþingis til að mæla því bót vegna þess að við klárum málið á þessu þingi.“

Categories
Fréttir

„Breytingar í þágu barna“ – til batnaðar!

Deila grein

01/10/2019

„Breytingar í þágu barna“ – til batnaðar!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur boðað til ráðstefnu undir yfirskriftinni „Breytingar í þágu barna“ á morgun miðvikudag, 2. október. Ráðstefnan, sem haldin er í samvinnu við Landssamband ungmennafélaga, fer fram í Norðurljósasal Hörpu. Hún hefst klukkan 8:30 og stendur til klukkan 15:00. Skráning er hafin.

„Breytingar í þágu barna er yfirskrift ráðstefnu sem ég hef boðað til miðvikudaginn 2. október næstkomandi en þar verða fyrstu tillögur að nýju velferðarkerfi fyrir börn og fjölskyldur kynntar. Mikilvægur hlekkur í því kerfi er svokallað mælaborð sem ætlað er að varpa ljósi á velferð barna.
Það hefur verið eitt af aðaláherslumálum mínum sem ráðherra að auka velferð barna og gera breytingar á kerfinu til þess að það þjóni börnunum okkar sem best. Ég setti mér það markmið strax í upphafi, hef róið að því öllum árum og nú er komið að vendipunkti í þeirri vinnu,“ segir Ásmundur Einar í grein Fréttablaðinu í gær.

Velferðarráðuneytið boðaði til ráðstefnu um snemmtæka íhlutun í málefnum barna á Íslandi í maí 2018. Þangað mættu 350 manns. Markmiðið var að fá fram samtal um það hvernig samfélagið gæti gripið fyrr inn í þegar kemur að börnum og ungmennum sem þarfnast aðstoðar. Þátttakendur ráðstefnunnar voru sammála um að gera þyrfti kerfisbreytingar í þágu barna.
Í framhaldinu skrifuðu félags- og barnamálaráðherra, dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra auk sambands íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu um að auka ætti samstarf á milli málefnasviða sem snúa að börnum og í kjölfarið var skipaður sérstakur stýrihópur stjórnarráðsins í málefnum barna. Samhliða því skipaði félags- og barnamálaráðherra nefnd þingmanna með fulltrúum allra þingflokka sem falið var, í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og stýrihóp stjórnarráðsins í málefnum barna, að móta tillögur að breyttri skipan velferðarmála til að ná betur utan um börn og ungmenni.
Óskað var víðtæks samráðs í þessari vinnu og mikið lagt upp úr því að fá sem flesta að borðinu. Frá upphafi var skýrt að öllum sem vildu væri velkomið að taka þátt. Fjölmargir sérfræðingar, fulltrúar félagasamtaka og notendur kerfisins svöruðu kallinu og lögðu sitt af mörkum. Þátttakendum var skipt niður í átta hliðarhópa sem fjölluðu um:

  • samtal þjónustukerfa
  • barnaverndarlög
  • forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir
  • skipulag og skilvirkni úrræða
  • tækni og jöfnun þjónustu um allt land
  • gagnagrunnur og upplýsingamál
  • börn í sérstaklega viðkvæmri stöðu
  • velferð og virkni ungs fólks 18-24 ára

Á stórum vinnufundi síðastliðið vor greindu fulltrúar hliðarhópanna frá störfum sínum og fyrstu tillögum. Frá þeim tíma hefur farið fram vinna innan félagsmálaráðuneytis við að forma þær niðurstöður í útlínur að nýju heildstæðu kerfi. Þar hefur þverpólitíska þingmannanefndin auk stýrihóps stjórnarráðsins í málefnum barna gegnt lykilhlutverki.
Þessi heildarendurskoðun á þjónustu við börn hófst á stórri ráðstefnu í samtali og með þátttöku lykilaðila. Það er því ánægjulegt að bjóða að nýju til ráðstefnu 2. október þar sem fyrstu tillögur að nýju velferðarkerfi fyrir börn og fjölskyldur verða kynntar og einstaka þættir þeirra ræddir frekar.

„Ég þykist vita að flestir hugsi breytingar þannig að þær eigi að vera til batnaðar. Hér er um að ræða mjög viðamiklar breytingar og til þess að vera viss um að þær skili árangri þótti mér nauðsynlegt að styðjast við mælitæki sem gæfi til kynna hvernig staðan er, hvaða breytinga er þörf og hvernig svo tekst til með þær aðgerðir sem framkvæmdar eru.
Í því skyni var í júní síðastliðinn samið um þróun mælaborðs sem ætlað er að tryggja betri yfirsýn yfir velferð barna. Aðilar samningsins eru auk félagsmálaráðuneytisins, Kópavogsbær, UNICEF á Íslandi og hugbúnaðarfyrirtækið Kara Connect. Mælaborðinu er ætlað að vinna og greina gögn í þeim tilgangi að mögulegt verði að sjá sem allra best á hvaða sviðum þurfi að bregðast við og hvort viðbrögðin skili tilætluðum árangri. Því er ætlað að tryggja rétta stýringu aðgerða og þar með betri nýtingu fjármuna.
Vonir standa til þess að í náinni framtíð muni mælaborðið geta nýst hverju og einu sveitarfélagi og þar með landinu öllu. Á ráðstefnunni 2. október verður mælaborðið kynnt frekar og gefst þátttakendum kostur á að leggja sitt af mörkum við að þróa það áfram. Auk þess verður farið yfir fyrirhugaðar kerfisbreytingar í þágu barna í heild. Fullt er á ráðstefnuna en áhugasömum er bent á að fylgjast með beinu streymi á vef Stjórnarráðsins,“ segir Ásmundur Einar.

Categories
Fréttir

Vefjagigt hrjáir fólk á öllum aldri – hinn þögli sjúkdómur

Deila grein

25/09/2019

Vefjagigt hrjáir fólk á öllum aldri – hinn þögli sjúkdómur

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, endurflutti þingsályktun um vefjagift á Alþingi í gær. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
„Þar sem ég skora á heilbrigðisráðherrann að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og bjóða upp á heildræna meðferð.
Vefjagigt getur lagst mjög hart á fólk og dregið verulega úr lífsgæðum og færni til daglegra athafna. Vefjagigt hrjáir fólk á öllum aldri en er algengust hjá konum á miðjum aldri. Oft nefndur hinn þögli sjúkdómur enda nokkuð erfitt að greina hann og fólk ber þetta ekki utan á sér,“ segir Halla Signý.
 

Categories
Fréttir

Gróska í notkun stafrænnar tækni

Deila grein

25/09/2019

Gróska í notkun stafrænnar tækni

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar, segir mikla grósku í notkun stafrænnar tækni í Snælandsskóla. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í gær.
„Það var frábært að sjá þessa öflugu og kláru nemendur fara yfir forritunarverkefnin sín og kynnast þessum fjölbreyttu notkunarmöguleikum!“
Í Snælandsskóla „er lögð rík áhersla á skapandi greinar, svo sem forritun, kvikmyndagerð og sýndarveruleika,“ segir Lilja Dögg.
 

Categories
Fréttir

„Upplifi ákveðið tómarúm og djúpa þrá eftir því að vita meira“

Deila grein

25/09/2019

„Upplifi ákveðið tómarúm og djúpa þrá eftir því að vita meira“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, hefur lagt fram þingsályktun á Alþingi „um að dómsmálaráðherra tryggi það að börn sem getin eru með tæknifrjóvgun eigi rétt á upplýsingum um uppruna sinn. Réttindi barns til að vita uppruna sinn vegi þyngra en nafnleynd sæðis- og eggjagjafa.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar á dögunum.

„Lögin eins og þau eru í dag kveða á um algjöra nafnleynd sæðis- og eggjagjafa. Hvorki má veita gjafa upplýsingar um parið sem fær kynfrumurnar eða barnið né veita parinu eða barninu upplýsingar um gjafa,“ segir Silja Dögg.
„Silja Dögg segir að frumvarpið sé mikilvægt til að tryggja hagsmuni þessara barna. Mörg þeirra upplifi ákveðið tómarúm og djúpa þrá eftir því að vita meira um uppruna sinn,“ segir í frétt á vef Ríkisútvarpsins.

 

Categories
Fréttir

„Ein stærsta uppbygging atvinnulífsins í hinum dreifðu byggðum“

Deila grein

25/09/2019

„Ein stærsta uppbygging atvinnulífsins í hinum dreifðu byggðum“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir að það skipti „máli að unnið verði að afli að uppbyggingu og utanumhald um þessi grein, sem er ein stærsta uppbygging atvinnulífsins í hinum dreifðu byggðum síðara ára.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
„Ekki hefur ríkt einhugur hér á landi um fiskeldi og hefur uppbygging atvinnugreinarinnar sætt mikilli gagnrýni, ekki síst frá hagsmunasamtökum laxveiðimanna og veiðifélögum. Engu að síður hafa framleiðsluheimildir í fiskeldi nær tvöfaldast á þessu ári og eru nú um 85 þúsund tonn miðað við útgefin starfsleyfi Umhverfisstofnunar,“ segir í frétt á vef Viðskiptablaðsins í dag.
„Útflutningsverðmæti fiskeldis gæti þá orðið um 40 milljarðar króna árið 2021 og á þessu ári er reiknað með að útflutningsverðmæti fiskeldis verði hátt í 20 milljarðar,“ segir Halla Signý.