Góður námsárangur er liður í því að tryggja farsæld barna og farsæld einstaklinga er mikilvæg undirstaða árangurs í námi. Þess vegna verður metnaður alls starfsfólks í skólakerfinu að snúast um hvort tveggja; gæði náms og farsæld.
Stefna og forysta stjórnvalda
Sveitarfélögin bera ábyrgð á skólastarfi í leik- og grunnskólum en ríkið í framhaldsskólum og háskólum, engu að síður verður ríkisvaldið að axla ábyrgð á forystu í menntamálum í samvinnu við hagaðila. Í þeim efnum hafa mikilvæg skref verið stigin á síðustu árum og verið er að stíga enn fleiri mikilvæg skref. Þessi vinna hefur í sumar vakið mikilvæga þjóðfélagsumræðu um skólamál. Umræðan hefur til þessa einkum snúist um námsmat en mikilvægt er að umræðan haldi áfram og að hún víkki út til fleiri viðfangsefna.
Umbótaskref í samræmi við stefnu
Menntastefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi árið 2021, og er hún bæði byggð á alþjóðlegu samstarfi og víðtæku samráði innanlands. Nú er unnið að innleiðingu stefnunnar í samræmi við fyrstu aðgerðaáætlunina. Ein af aðgerðunum í innleiðingunni er uppbygging heildstæðrar skólaþjónustu um land allt sem styður við nám og farsæld barna og ungmenna.
Markmiðið er að stuðla að öflugri skólaþróun með fjölbreyttum verkefnum sem kennarar, skólastjórnendur, annað fagfólk og nemendur hafa frumkvæði að. Með öðrum orðum: það á að byggja upp öfluga stoðþjónustu til að styðja við starfið í skólunum en við megum aldrei missa sjónar á því að grunnþjónustan fer fram í skólunum og þar þarf barnið að ná árangri.
Á síðasta ári samþykkti Alþingi ný lög um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og tók stofnunin til starfa 1. apríl sl. Miðstöðin er þjónustustofnun með skýrt stuðnings- og samræmingarhlutverk vegna skólastarfs á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi og hún er í lykilhlutverki við innleiðingu menntastefnu.
Árið 2021 voru líka samþykkt lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, lögin tóku gildi árið 2022 og áætlað er að ljúka innleiðingu þeirra á þremur til fimm árum.
Þannig helst innleiðing menntastefnu og laga um farsæld barna í hendur undir forystu mennta- og barnamálaráðuneytis, enda farsæld og árangur í námi órjúfanlega tengd eins og áður sagði.
Næstu skref
Kynnt hefur verið að í vetur fái Alþingi til umfjöllunar frumvörp til laga um námsgögn, breytingar á ákvæðum laga um námsmat í grunnskólum og frumvarp um inngildandi menntun þar sem stefna um skólaþjónustu er útfærð. Einnig er áætlað að leggja fram stefnu og framkvæmdaáætlun um farsæld barna, og mun sú stefna marka ákveðin þáttaskil í innleiðingu farsældarlaganna.
Það er því alveg ljóst að það er margt sem við þurfum að ræða auk námsmatsins, s.s. náms- og kennslugögn fyrir allt menntakerfið, ytra og innra mat á skólastarfi, áframhaldandi fjölgun kennaranema og inntak náms fagfólks sem vinnur með börnum og ungmennum, nemendalýðræði, íslenskuna og menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn sem og starfsþróun skólafólks.
Það er sannarlega verið að bæta heildarsýn í menntamálum og stíga mikilvæg og nauðsynleg framfara- og umbótaskref.
Við þurfum að halda áfram að ræða um yfirstandandi breytingar, markmið, gæði og árangur í menntamálum.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og situr í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. september 2024.
Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Um er að ræða mikilvæga og árlega vitundarvakningu þar sem fjölmargir taka höndum saman og vekja athygli á mikilvægi geðheilbrigðis og sjálfsvígsforvarna. Í gulum september sameinumst við á þeirri vegferð að vekja upp von.
Gulur er litur sjálfsvígsforvarna, táknrænn fyrir þá vitundarvakningu sem á sér stað, táknar von, hlýju og birtu ásamt því að vekja upp jákvæðar tilfinningar. Slagorð mánaðarins „er ekki allt í gulu?“ vísar til samkenndar; þess að láta sig náungann varða og hlúa að geðheilsunni.
Fjölbreytt dagskrá verður í tengslum við Gulan september sem hefst með formlegri opnun í ráðhúsi Reykjavíkur. Þann 10. september er alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna og eru landsmenn hvattir til að taka þátt og klæðast gulu.
Lífsbrú
Margt jákvætt hefur gerst á undanförnum árum þegar kemur að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum hér á landi. Verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna vinnur með miðstöð sjálfsvígsforvarna sem ber heitið Lífsbrú. Markmið miðstöðvarinnar er að vinna að sjálfsvígsforvörnum í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda.
Nafnið Lífsbrú vísar til vitundarvakningar á breiðum grunni um mikilvægi uppbyggilegs og heilbrigðs lífs, allt frá frumbernsku og leggur einnig huglæga brú yfir til þeirra sem haldnir eru sjálfsvígshugsunum; það er alltaf von.
Samhliða opnun miðstöðvarinnar var settur á laggirnar Lífsbrú-sjóður sem ætlað að byggja enn frekar undir sjálfsvígsforvarnir í samræmi við aðgerðaráætlun stjórnvalda.
Uppfærð aðgerðaráætlun
Forvarnir eru viðvarandi verkefni. Starfshópur vinnur nú að því að uppfæra aðgerðaráætlun í sjálfsvígsforvörnum í samræmi við lýðheilsu- og geðheilbrigðisstefnu.
Jafnframt er Ísland þátttakandi í Evrópuverkefninu ,,Joint Action ImpleMENTAL 2022-2024“ sem meðal annars snýr að innleiðingu gagnreyndra sjálfsvígsforvarna og nýtist vel í mótun framtíðarsýnar og aðgerðaráætlunar í sjálfsvígsforvörnum.
Samvinnuverkefni
Geðrækt og forvarnir eru samvinnuverkefni sem er samofið samfélaginu og snertir flesta anga þess. Þannig geta kraftar öflugs hugsjónafólks, félagasamtaka og stjórnvalda komið saman að umbótum og er Lífsbrú vettvangur slíkrar samvinnu. Framlag þessa hugsjónafólks og félagasamtaka er þakkarvert.
Ég vil hvetja sem flest til að taka þátt í gulum september og kynna sér dagskrána sem finna má á vef Embættis Landlæknis.
Við skulum stöðugt minna okkur á að það er alltaf von. Réttum út hjálparhönd, sýnum hlýju, skilning og samhug; framhald seiglu og vonar; allt í gulu.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Greinin birtist fyrst á visir.is 1. september 2024.
Framsóknarflokkurinn tryggir heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ
Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa lengi kallað eftir því að heilsugæsluþjónusta verði veitt í sveitarfélaginu. Við í Framsókn hófum tafarlaust samtöl við þingmenn okkar í Suðurkjördæmi, Sigurð Inga, fjármálaráðherra, Jóhann Friðrik og Hafdísi Hrönn, til að þrýsta á málið. Einnig höfum við átt fundi og samtöl við Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Með miklum samtakamætti og samvinnuhugsjónina að leiðarljósi er þetta mikilvæga réttlætismál nú að raungerast – heilbrigðisþjónusta verður brátt í boði í heimabyggð fyrir okkar íbúa. Með tvo bæjarfulltrúa í Suðurnesjabæ, þrjá þingmenn í Suðurkjördæmi og heilbrigðisráðherra er slagkraftur okkar í Framsókn mikill.
Ráðherra sem lætur verkin tala
Framsóknarflokkurinn hefur tekið mikilvægt skref í átt að því að tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa Suðurnesjabæjar. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur unnið þrekvirki í því að efla heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.
Í nýlegri viljayfirlýsingu, sem undirrituð var á dögunum, kemur fram að unnið verði markvisst að því að opna heilbrigðisþjónustu í Suðurnesjabæ. Starfsemin mun fara fram í húsnæði Suðurnesjabæjar að Miðnestorgi 3 eigi síðar en 1. maí 2025 og tryggja þannig íbúum aðgengi að þjónustunni í heimabyggð. Grundvöllur skipulags heilbrigðisþjónustunnar er að allir íbúar séu skráðir á heilsugæslustöð sem næst lögheimili, þannig verður heilsugæslan sterk undirstaða heilbrigðiskerfisins. Willum Þór heilbrigðisráðherra hefur sagt að það sé algjört forgangsatriði að bæta heilsugæsluna á Suðurnesjum, og það hefur hann sýnt í verki.
Samtal sveitarstjórnarmanna við þingmenn og ráðherra skiptir máli
Það er staðföst trú mín að samtal á milli sveitarstjórnarmanna, þingmanna og ráðherra skipti gríðarlega miklu máli. Við, sem sveitarstjórnarfólk, skynjum betur nærumhverfið og erum í nánari tengslum við byggðarkjarnana sem við störfum í og þarfir þeirra. Þess vegna er mikilvægt að miðla þessum upplýsingum áfram inn í landsmálin, svo að allir rói í sömu átt. Samtal við þingmenn og ráðherra Framsóknarflokksins hefur verið einstaklega gott, og mikill skilningur hefur verið á því að veita þessu stóra og mikilvæga málefni framgöngu. Einnig hafa Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS), og Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, unnið frábæra vinnu og sett mikinn kraft í verkefnið svo það geti raungerst með skjótum hætti.
Stefna Framsóknarflokksins um heilbrigðismál undirstrikar þetta vel: „Heilbrigðiskerfið er hornsteinn samfélagsins og byggir undir hagsæld þjóðarinnar. Heilbrigðiskerfið byggir á félagslegum grunni þar sem hið opinbera tryggir landsmönnum jafnt aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Framsókn leggur áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um heilbrigðiskerfið og umfram allt tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að öflugri heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu.“
Framsóknarflokkurinn er flokkur samvinnu og frjálslyndis og er hreyfiafl framfara í samfélaginu. Þetta hefur Willum Þór heilbrigðisráðherra sýnt í verki.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.
Við erum stöðugt að velta því fyrir okkur hvar sé hægt að gera betur í ríkisrekstri og spara fjármuni. Hvar má fara betur með fjármuni almennings? Það hafa ýmsir uppi miklar hugmyndir sem þó eru settar í þann eina búning að báknið sé stöðugt að þenjast út og það þurfi að koma í veg fyrir það án nokkurra tillagna. Vissulega er umfang hins opinbera meira þegar fólki fjölgar jafn hratt og verið hefur undanfarin ár. Það sést best á auknu álagi á heilbrigðis- og velferðarkerfi þjóðarinnar, auknum starfsmannafjölda á öllum skólastigum og svo framvegis. Ég held samt sem áður að víða sé hægt að gera betur og hef m.a. á síðustu árum lagt fram tillögu þess efnis.
Aukið samstarf og sameiningar opinberra stofnana og fyrirtækja
Á liðnum þingum hef ég lagt fram tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu klasa opinberra fyrirtækja og stofnana. Það er rétt að fara stuttlega yfir innihalda tillögunnar því á yfirskrift hennar mætti gera ráð fyrir að hér væri á ferð tillaga þess efnis að setja á fót nýja stofnun, þá til viðbótar við þær fjölmörgu sem nú þegar eru til staðar; sem margar eru tiltölulega litlar. En þvert á móti er hér um að ræða tillögu þess efnis að stjórnvöldum verði falið að koma opinberum stofnum og fyrirtækjum fyrir á sama stað (undir einu þaki) til þess að ná fram rekstrarlegri hagræðingu og öðrum samlegðaráhrifum. Hér má nýta hugmyndafræði klasasamstarfs, sem farið hefur vaxandi á undanförnum árum, til að efla samvinnu og samstarf opinberra stofnana og fyrirtækja ásamt því að ná fram hagræðingu. Síðast en ekki síst að færa núverandi ástand til betri vegar. Hin augljósa hagræðing og þau samlegðaráhrif sem myndu nást fram væru til að mynda með sameiginlegum rekstri tölvukerfa, móttöku, mötuneytis, húsnæðis og betri nýtingu mannauðs. Í mínum huga er hér algjörlega vannýtt dauðafæri til að hagræða enn frekar í ríkisrekstri og bæta skipulag á mörgum sviðum með sameiningu og auknu samstarfi opinberra stofnana og fyrirtækja.
Samgöngu- og umhverfismál
Skynsamlegast væri að staðsetja slíka klasa þar sem umferðarmannvirki nýtast betur, í þeim skilningi að umferð verði vísað í gagnstæða átt við mestan umferðarþunga snemma morguns og síðdegis. Hver kannast ekki við það ástand? Þá er rétt að horfa til staðsetningar þar sem finna má hágæðaalmenningssamgöngur. Þannig nýtast umferðarmannvirki vel og við minnkum álag og spörum tíma fólks. Hér er því ekki bara um almenna hagræðingu að ræða, eða stórt samgönguverkefni, heldur einnig mikilvægt innlegg í umhverfismálin. Talandi um dauðafæri, þá væri það í raun sjálfsmark ef Alþingi samþykkir ekki tillögu sem þessa.
Í lokin er rétt að nefna að ég hef tekið vel í allar tillögur sem miða að sama markmiði og hér er farið yfir. Þær hafa hins vegar verið of fáar og of litlar.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.
Coca Cola, eitt verðmætasta vörumerki heims um áratuga skeið, náði framúrskarandi árangri með ákaflega einfaldri hugmyndafræði. Ofuráhersla á dreifingu, að vera ætíð innan seilingar (e. within arm‘s reach). Við þekkjum þetta frá sjálfsölum, þegar við ferðumst um heiminn og hvert sem litið er má sjá vörur þeirra, en einnig hér heima á Íslandi þegar við förum í verslanir, sjoppur, bensínstöðvar, sundlaugar og svo framvegis. Að margra mati er þetta einhver árangursríkasta áhersla í sögu markaðsmála, enda árangur Coca Cola óumdeildur. Fyrirtækið er nú verðmetið á ríflega 43 þúsund milljarða króna.
Lögmálin
Þegar kemur að árangri í sölu á vörum er í megin atriðum fernt sem máli skiptir. Varan sjálf og eiginleikar hennar, verðið, kynningar- og markaðsstarf og dreifing. Þetta er þaulrannsakað og litið á sem lögmál í markaðsfræðum. Áherslur Coca Cola komu upp í huga undirritaðs í tengslum við umræðu um sölu og dreifingu á áfengi í Íslandi. Sögu Coca Cola og lögmál markaðsfræðinnar þekkja auðvitað hagsmunaöfl sem vilja auka aðgengi og dreifingu á áfengi þó oft sé leitast við í umræðunni að skauta fram hjá þeirri staðreynd og því slegið fram að hér sé um einhvers konar mannréttindi að ræða. Að frelsið standi og falli með auknu aðgengi að áfengi sem nú þegar er all nokkuð og að þetta skipti í raun engu máli. Þá er því gjarnan slegið fram að takmörkun á aðgengi og dreifingu sé tímaskekkja og gamaldags, en því fer sannarlega fjarri, enda dreifing eitt allra mikilvægasta verkfærið þegar kemur að sölu á vörum. Það lögmál stendur og hefur ekkert breyst.
Íslenska forvarnamódelið
Um árabil hefur hér á landi ríkt fyrirkomulag og stefna sem byggir á því að virkja allt samfélagið með forvörnum, takmörkuðu aðgengi og stýringu í gegnum ÁTVR. Það fyrirkomulag, sem aðrar þjóðir líta öfundaraugum, hefur tryggt okkur einhverja bestu stöðu í heimi þegar kemur að áfengisneyslu, ekki síst meðal ungmenna. Ástæður þess hafa verið tíundaðar í fjölda greina meðal annars eftir heilbrigðisráðherra og sérfræðinga á sviði forvarna og óþarft að fara nánar út í hér, en það er ekki tilviljun að hvergi bólar á aðilum sem koma að heilbrigðismálum eða félagasamtökum á sviði heilbrigðismála sem tala fyrir auknu aðgengi og þar með aukinni neyslu á áfengi.
Þegar allt kemur til alls
Þegar allt kemur til alls er málið í raun einfalt. Baráttan um aukið aðgengi og dreifingu á áfengi snýst aðeins um hagsmuni. Annars vegar er um að ræða hagsmuni samfélagsins, kostnað sem leggst á samfélagið vegna áfengisneyslu og harm sem áfengisneysla veldur og við þekkjum svo mörg. Hins vegar eru þarna undir gífurlegir einkahagsmunir aðila sem sjá hag í því að auka dreifingu og þar með neyslu á áfengi. Við þurfum einfaldlega að velta því fyrir okkur hvort við viljum verja það fyrirkomulag sem reynst hefur vel og skipað okkur í fremstu röð meðal þjóða í þessum málaflokki, eða láta undan einkahagsmunum og talsmönnum þeirra.
Helgi Héðinsson, markaðsfræðingur og framkvæmdastjóri Framsóknar.
Varhugaverð þróun hefur átt sér stað undanfarin misseri í sölu og afhendingu áfengis hér á landi í formi netsölu. Um einkasölufyrirkomulag með áfengi á smásölustigi gilda lög. Markmið þeirra er að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist m.a. á bættri lýðheilsu, samfélagslegri ábyrgð og vernd ungs fólks.
Fyrr í sumar sendi undirritaður bréf, til fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með framkvæmd laga um verslun með áfengi og tóbak (afrit á dómsmálaráðherra), til þess að vekja máls á markmiðsákvæðum laganna, stefnu ríkisstjórnarinnar og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Ásamt því að koma áfram ákalli félagasamtaka, heilbrigðisstétta og breiðfylkingu foreldrasamtaka um aðgerðir í þágu lýðheilsu.
Íslenska forvarnarmódelið
Síðustu áratugi hefur hér á landi verið unnið öflugt forvarnarstarf á sviði áfengis og tóbaksforvarna sem kallað er íslenska módelið. Meginmarkmið íslenska forvarnarmódelsins er að ná að virkja allt samfélagið í baráttunni gegn vímuefnum með samvinnu og verndandi þáttum. Okkur tókst, í samvinnu fjölmargra aðila sem starfa í nærumhverfi barna og með þátttöku ungmenna, foreldra og forráðamanna, að byggja undir fjölmarga verndandi þætti í umhverfi ungmenna sem rannsóknir sýna að hafi jákvæð og verndandi áhrif og draga þannig úr áhættuhegðun.
Árangur okkar í áfengis-, vímuefna- og reykingaforvörnum ungmenna hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og þar er aðgangsstýring sterkasta vopnið. Þennan árangur megum við ekki gefa eftir því í honum felast ómæld verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Íslenska forvarnarmódelið er ekki tímabundið átaksverkefni eða afmörkuð aðgerð heldur er það samofið samfélaginu og þeim viðhorfum sem við höfum tileinkað okkur.
Íslensku samfélagi hefur, umfram flestar aðrar þjóðir, tekist að viðhalda einkasölufyrirkomulagi ríkisins á áfengi og hefur það sett okkur í öfundsverða stöðu. Fyrirkomulagið byggir á augljósum lýðheilsu- og samfélagsrökum sem felast í að takmarka aðgengi og draga þannig úr skaða af völdum neyslu áfengis. Í lögfræðiáliti sem unnið var að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra kemur skýrt fram að það fyrirkomulag netverslana sem þróast hefur hér á landi síðustu misseri sé í andstöðu við lög.
Ákall samfélagsins
Ákall samfélagsins um viðbrögð stjórnvalda er skýrt. Áskoranir hafa borist stjórnvöldum frá fjölmörgum fagfélögum og samtökum sem hafa látið þetta mikilvæga mál sig varða. Nú síðast hafa á annan tug félaga innan heilbrigðisstétta á Íslandi skorað á ríkisstjórnina að skera úr um lögmæti netsölu, fylgja eftir markmiðum gildandi laga um einkasölu ÁTVR á áfengi og hvika ekki frá gildandi lýðheilsustefnu til ársins 2030.
Læknafélag Íslands hefur sent frá sér áskorun til alþingismanna um að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að minnka skaða af áfengisneyslu og tekur fram að þar sé stýring á aðgengi að áfengi sterkasta vopnið. Í áskorun félagsins er einnig tekið fram að aukið aðgengi að áfengi, eins og netverslun og heimsending, sé til þess fallið að valda enn meiri skaða í samfélaginu.
Þá hefur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skorað á bæði Alþingi að standa vörð um lýðheilsustefnu og heilbrigðisstefnu til 2030 og hvatt ríkisstjórnina til að halda sig við lýðheilsumarkmið stjórnarsáttmálans og standa þannig með heilsu og velferð þjóðarinnar. Sömu sögu er að segja af Félagi lýðheilsufræðinga sem hvetur alla alþingismenn til að standa vörð um lýðheilsu.
Breiðfylking foreldrasamtaka hefur barist ötullega fyrir því að brugðist verði við þessari þróun og hafa jafnframt skorað á alþingismenn að standa vörð um einkasölu ríkisins á áfengi.
Verjum góðan árangur
Það verða alltaf sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar að leggja aukna áherslu á lýðheilsu og forvarnir. Rannsóknir á sviði lýðheilsumála hafa sýnt að takmarkanir á aðgengi að áfengi eru meðal öflugustu forvarnaraðgerða sem við eigum og hefur verið staðfest að þær hafa áhrif til að draga úr neyslu áfengis.
Verjum þann góða árangur sem við höfum náð og viðhöldum því einkasölufyrirkomulagi sem reynst hefur vel. Brýnt er að herða framkvæmd gildandi reglna með það að markmiði að snúa við þeirri þróun sem átt hefur sér stað varðandi aðgengi að áfengi. Sama hvernig á það er litið, þá hlýtur lýðheilsa þjóðarinnar að vega mun þyngra en verslunarfrelsi og markaðsvæðing EES á áfengissölu.
Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, segir lagaumgjörð um jarðir og auðlindir grundvallarmál sem verði að vera sífellt á dagskrá. „Mikil ásókn er í auðlindir á landi og mikilvægt að við seljum þær ekki frá okkur. Komandi kynslóðir eiga að erfa land sem er vel búið til sjálfbærrar nýtingar og verðmætasköpunar.“
Jarðir þurfa að vera í eigu fólks sem býr á Íslandi.
Það þarf að tryggja að landið sem hentar best til matvælaframleiðslu verði ekki tekið í annað.
Það þarf að tryggja að þeir sem vilja búa í dreifbýlinu og byggja sína afkomu á landnýtingu njóti forgangs að landi.
Hvað verði að gera að mati Líneikar Önnu er: „að skapa umhverfi sem styður miklu betur við nýliðun og ættliðaskipti á bújörðum og styðja við verkefni bænda um kolefnisbindingu. Bændur verði að geta nýtt hluta af sínu landi til kolefnisbindingar ef það hentar með öðrum búskap.“
Jafnframt segir Líneik Anna að meta verði árangur af breytingunum á jarðalögum sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili og að halda verði áfram vinnu við að skilgreina það land sem best hentar til matvælaframleiðslu.
Jarðir – (af gefnu tilefni)
1. Jarðir þurfa að vera í eigu fólks sem býr á Íslandi.
2. Það þarf að tryggja að…
Haldið er upp á það í dag að Reykjavíkurborg fékk kaupstaðarréttindi hinn 18. ágúst 1786. Af því tilefni er venju samkvæmt blásið til Menningarnætur í Reykjavík þar sem íslensk menning í víðum skilningi fær notið sín fyrir augum og eyrum gesta. Í hugum margra markar Menningarnótt endalok sumarsins og þar með upphaf haustsins sem vonandi verður okkur öllum gæfuríkt. Eitt af því sem erlendir gestir nefna við mig í samtölum um Ísland er hversu blómlegt menningarlíf fyrirfinnst í Reykjavík. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér eins og við vitum. Um aldir hafa Íslendingar verið framsýnir þegar kemur að því að styðja við listamenn og búa menningunni sterka umgjörð til þess að vaxa og dafna. Með hverju árinu sem líður njótum við ríkari ávaxta af þeirri stefnu, með hverjum listamanninum sem stígur fram á sjónarsviðið og fangar athygli okkar sem hér búum, en ekki síður umheimsins.
Ragnar Kjartansson, Laufey, Björk, Kaleo, Hildur Guðnadóttir, Víkingur Heiðar og Of Monsters and Men hafa til dæmis getið sér stórgott orð erlendis og rutt brautina fyrir íslenska menningu í heiminum. Okkur Íslendingum leiðist ekki að fagna velgengni okkar fólks á erlendri grundu. Árangur sem þessi sameinar okkur og fyllir okkur stolti. Fyrrnefndir listamenn eiga það sammerkt að hafa sprottið upp úr frjóum jarðvegi lista- og menningar sem hlúð hefur verið að áratug eftir áratug hér á landi. Á Menningarnótt í Reykjavík gefst fólki kostur á að kynna sér þá miklu grósku sem grasrót menningarlífs hér á landi hefur upp á að bjóða. Myndlist og tónlist, hönnun og arkitektúr, sviðslistir og bókmenntir – það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi.
Á undanförnum árum hafa stjórnvöld stigið veigamikil skref á þeirri vegferð að styrkja umgjörð menningarlífsins í landinu enn frekar. Nýtt ráðuneyti þar sem menningarmál fengu aukið vægi varð loksins að veruleika, stefnur og alvöruaðgerðir til að styðja við hin ýmsu listform hafa raungerst – og fleiri slíkar eru á leiðinni. Ný tónlistarmiðstöð og ný sviðlistamiðstöð sem hafa tekið til starfa, unnið hefur verið að uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni, fjölgun listamannalauna og aukinn stuðningur við kynningu á íslenskri menningu hérlendis og erlendis eru aðeins örfá dæmi um það sem hefur verið áorkað. Listinn er langur. Menningarnótt er eitt af þeim sviðum þar sem afrakstur vinnunnar brýst fram og framkallar gleði og eftirminnilegar stundir hjá fólki. Ég óska Reykvíkingum og gestum þeirra gleðilegrar Menningarnætur og hvet sem flesta til þess að mæta og taka þátt.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. ágúst 2024.
Styttri ferðatími, minni tafir, aukið umferðaröryggi, áhersla á að draga úr kolefnisspori, stórbættar almenningssamgöngur, fjölgun hjóla- og göngustíga og uppbygging stofnvega eru kjarninn í uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem undirritaður var í dag.
Sáttmálinn felur í sér sameiginlega sýn fyrir allt höfuðborgarsvæðið, þar sem lögð verður höfuðáhersla á skilvirka og hagkvæma uppbyggingu samgönguinnviða. Markmiðið er að samgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði í fremstu röð þannig að svæðið og Ísland allt sé samkeppnishæft um bæði fólk og fyrirtæki.
Aukin lífsgæði, greiðari umferð og minni ferðatími í öllum samgöngumátum
Verulegur samfélagslegur ábati og aukið umferðaröryggi
Almenningssamgöngur stórefldar með auknum stuðningi ríkisins
Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, gerðu í dag samkomulag um uppfærðan sáttmála sem felur í sér uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á svæðinu til ársins 2040.
Á sama tíma var undirritað samkomulag um samvinnu um rekstur og stjórnskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að efla almenningssamgöngur, m.a. með auknum stuðningi ríkisins, en sameiginlegt félag verður stofnað um skipulag og rekstur.
Raunhæf áætlun til 2040
Ráðist var í uppfærslu sáttmálans á síðasta ári vegna aukins umfangs og mikilla almennra kostnaðarhækkana. Kostnaðaráætlanir hafa verið endurskoðaðar með fenginni reynslu og mörg verkefni komin nær framkvæmdatíma. Gildistími sáttmálans hefur verið lengdur til ársins 2040 til að tryggja raunhæfan tímaramma fyrir undirbúning og fjármögnun.
Hagkvæmni og samfélagslegur ábati
Sjálfstæð greining á samfélagslegum ábata á verkefnum samgöngusáttmálans (Cowi 2024) bendir til verulegs ávinnings vegna styttri og áreiðanlegri ferðatíma og minni umferðartafa. Heildarfjárfesting samgöngusáttmálans nemur 311 milljörðum kr. Ábatinn er metinn 1.140 milljarðar kr. til 50 ára, innri vextir 9,2% og ábati sem hlutfall af kostnaði er um 3,5. Það þýðir að fyrir hverja krónu sem lögð er í verkefnið fær samfélagið þrjár krónur til baka.
Aukið valfrelsi í samgöngum er lykilatriði í greiningunni, m.a. þar sem fleiri eigi þess kost að nýta almenningssamgöngur með tilheyrandi minnkun umferðartafa og mengunar auk lægri rekstrarkostnaðar heimila.
Stofnvegir, almenningssamgöngur, hjóla- og göngustígar og snjallari umferðarstýring
Allar lykilframkvæmdir eru þær sömu og áður í samgöngusáttmálanum en breytingar eru gerðar á einstökum verkefnum.
Heildarfjárfesting á fyrsta tímabili í uppfærðum samgöngusáttmála, til ársins 2029, er að jafnaði rúmlega 14 ma. kr. á ári. Það samsvarar þriðjungi af árlegum samgöngufjárfestingum á fjárlögum. Á tímabilinu 2030-2040 er heildarfjárfesting að jafnaði 19 ma. kr. á ári. Heildarfjárfesting til ársins 2040 er áætluð 311 ma. kr.
Verkefni samgöngusáttmálans skiptast í fjóra meginflokka sem eru: Stofnvegir, Borgarlína og strætóleiðir, göngu- og hjólastígar og verkefni tengd umferðarstýringu, flæði og öryggi. Eftirfarandi er nánari lýsing á verkefnaflokkunum og hlutdeild í samgöngusáttmálanum:
Stofnvegir – 42%. Ráðist verður í sex stór verkefni við stofnvegi á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar við þau þrjú sem lokið er á vegum sáttmálans (stofnvegaverkefni á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut).
Borgarlína og strætóleiðir – 42%. Almenningssamgöngur verða stórbættar með uppbyggingu Borgarlínu í sex lotum. Þjónusta við íbúa verður stöðugt bætt með samþættu leiðaneti strætisvagna og Borgarlínu.
Hjóla- og göngustígar – 13%. Hjóla- og göngustígum verður fjölgað og þeir bættir verulega í uppfærðum sáttmála, en lagðir verða um 80 km af nýjum stígum til viðbótar við 20 km sem þegar hafa verið lagðir á vegum sáttmálans.
Umferðarstýring, umferðarflæði og öryggisaðgerðir – 3%. Fjárfest verður áfram í nýrri tækni og búnaði til að bæta umferðarflæði og -öryggi á stofnvegum
Miklabraut í jarðgöng og ný gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegs
Stærstu breytingarnar á einstökum verkefnum frá fyrri samgöngusáttmála eru að Miklabraut verði lögð í um 2,8 km jarðgöng með tengigöngum við Kringlumýrarbraut í stað 1,8 km Miklubrautstokks og að Sæbraut verði lögð í stokk í stað fyrri áforma um ein mislæg gatnamót. Þá hafa ný gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar verið útfærð með frjálsu flæði bílaumferðar auk sérrýmis Borgarlínu til að tengja Mjódd við almenningssamgöngukerfið. Loks flytjast framkvæmdir við Suðurlandsveg milli Norðlingavaðs og Bæjarháls yfir á samgönguáætlun. Stöðugt mat er lagt á valkosti sem leiða til aukinnar hagkvæmni og umferðaröryggis.
Aukið framlag í fjármálaáætlun
Skipting fjármögnunar milli ríkis og sveitarfélag verður hin sama og áður, þ.e. sveitarfélög með 12,5% og ríkið 87,5%.
Beint framlag ríkisins í samgöngusáttmálann verður 2,8 ma. kr. á ári frá 2024 til og með ársins 2040. Auk þess er gert ráð fyrir árlegu viðbótarframlagi að fjárhæð 4 ma. kr. í nýsamþykktri fjármálaáætlun ríkisins frá 2025 til og með 2029. Þá er gert ráð fyrir auknum ábata af þróun og sölu Keldnalands sem ríkið lagði inn í verkefnið við undirritun samgöngusáttmálans 2019.
Beint framlag sveitarfélaganna verður 1,4 ma.kr. á ári frá 2024 til og með ársins 2040. Auk þess mun árlegt viðbótarframlag að fjárhæð 555 miljónir kr. bætast við bein framlög sveitarfélaganna frá og með 2025. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu skipta með sér kostnaði á hverju ári miðað við hlutfallslegan íbúafjölda 1. desember árið á undan.
Frá og með árinu 2030 er gert er ráð fyrir tekjum af umferð eða annarri fjármögnun ríkisins. Stjórnvöld vinna að nýrri nálgun á fjármögnun vegakerfisins sem innleidd verður í skrefum á næstu árum. Stefnt er að því að laga fjármögnunarkerfið að orkuskiptum og minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis, þar sem gjaldtaka miðast við notkun í stað sértækra gjalda á borð við olíu- og bensíngjöld. Fyrstu skrefin hafa þegar verið tekin með upptöku kílómetragjalds á rafmagnsbíla, sem áður greiddu afar takmarkað fyrir notkun vegakerfisins.
Sameiginlegt félag um stórbættar almenningssamgöngur
Ríkið og sveitarfélögin undirrituðu samkomulag um samvinnu um rekstur og stjórnskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Samkomulagið felur í sér aukinn fjárstuðning ríkisins og virkari aðkomu að stjórnskipulagi. Ríkið mun bera þriðjung af rekstrarkostnaði að frádregnum farþegatekjum á móti sveitarfélögunum. Þá mun ríkið veita framlög til orkuskipta í almenningssamgöngum.
Samkomulagið felur í sér að sveitarfélögin og ríkið stofni sameiginlegt félag sem beri ábyrgð á skipulagi og rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Rekstur nýja félagsins mun taka hvort tveggja til hefðbundinna strætisvagnaleiða og Borgarlínu. Stefnt er að því að félagið taki til starfa um næstu áramót.
Þjónusta almenningssamgangna verður efld verulega þangað til nýtt leiðanet kemur að fullu til framkvæmda með Borgarlínunni. Með nýju leiðaneti og Borgarlínu er stefnt að því að sjö af hverjum tíu íbúum verði í göngufjarlægð (400 m frá stoppistöð) frá hágæða almenningssamgöngum sem ganga á sjö-tíu mínútna fresti. Bættar almenningssamgöngur eru lykill að því að bæta lífsgæði íbúa og minnka samgöngukostnað þeirra, bæta flæði umferðar og draga úr mengun.
Um starf viðræðuhóps
Viðræðuhópur ríkis og sveitarfélaga hóf uppfærslu samgöngusáttmálans í mars 2023. Viðræðuhópnum var m.a. falið að uppfæra samgöngusáttmálann og framkvæmdaáætlun, vinna áhrifamat af verkefnasafni sáttmálans og gera drög að samningi um eflingu almenningssamgangna til að tryggja rekstur þeirra á höfuðborgarsvæðinu.
Viðræðuhópur ríkis og sveitarfélaga kallaði til fjölda aðila sem sóttu fundi hópsins auk þess sem haft var umfangsmikið samstarf við Betri samgöngur og Vegagerðina. Ragnhildur Hjaltadóttir, stjórnarformaður Betri samgangna, stýrði viðræðuhópnum.
Á undanförnum árum hefur verið lögð sérstök áhersla á að efla og bæta aðgengi heilsugæslu á Akureyri sem og efla heilsugæslur á landinu öllu sem fyrsta viðkomustað. Breytingar hafa orðið á skipulagi heilsugæslna til að mæta einstaklingum með betri hætti en starf heimilislækna er fjölbreytt, samskiptafjöldi mikill og vinna utan dagvinnutíma töluverð.
Fjölgun heimilislækna
Aðgengi að fast skráðum heimilislækni, sem þekkir skjólstæðing sinn og sögu hans vel, hefur jákvæð áhrif á lífsgæði og ævilengd.
Rannsóknir hafa sýnt þá mörgu kosti við að einstaklingur hafi skráðan heimilislækni um lengri tíma. Það styttir biðtíma eftir viðtali, minnkar vinnuálag á heimilislæknum og í heilbrigðiskerfinu öllu ásamt því að fækka samskiptum utan dagvinnutíma og komum á síðdegis- og vaktmóttökur. Komum á bráðamóttökur sjúkrahúsa og innlögnum fækkar einnig auk þess að eftirfylgd með lyfjameðferð verður betri.[1]
Aðgengi að heimilislæknum á Akureyri hafði á undanförnum árum ekki verið nægilega gott en því hefur nú verið snúið við. HSN var lánsamt í sumar að fá til sín heilsugæslulæknanema, sem stytti bið eftir þjónustu umtalsvert. Einnig hafa breytingar á sérnámi í heimilislækningum orðið til þess að yfir 100 sérnámslæknar eru í sérnámi í dag og munu skila sér inn í kerfið jafnt og þétt á næstu árum. Framtíðin er því alls ekki eins svört og einhverjir vilja láta uppi.
Ég hef í gegnum tíðina verið ötull talsmaður þess að fjölga tækifærum fyrir heilbrigðismenntað fólk til þess að setjast að og starfa á landsbyggðinni. Það getur þó aldrei verið sjálfstætt markmið þegar kemur að skipulagningu þjónustu heldur þarf fyrst og fremst að horfa til aðgengis, gæða og þjónustu við notendur þar sem þeir eru í fyrsta sæti.
Ný heilsugæsla í Sunnuhlíð
Síðasta vetur var opnuð ný og glæsileg heilsugæslustöð á Akureyri í sérhönnuðu 1800 fermetra húsnæði og nú hefur Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, heimilað Heilbrigðisstofnun Norðurlands að taka um 250 fermetra húsnæði til leigu í Sunnuhlíð til að skapa enn meira rými fyrir starfsemina.
Það má með sanni segja að þessi nýja heilsugæsla hafi umbylt allri aðstöðu fyrir bæði starfsfólk og íbúa og verið lyftistöng fyrir svæðið. Með bættum húsnæðiskosti og stærri húsakynnum hefur verið mögulegt að færa ýmsa starfsemi sem rekin hefur verið í leiguhúsnæði annars staðar í bænum undir einn hatt, til bóta fyrir starfsfólk og þá sem þurfa að sækja sér þjónustu.
Þessu til viðbótar er rétt að geta þess að stefnt er að stækkun að Hvannarvöllum um 320 fermetra. Það má því segja að HSN sé með á leigu eða hafi í hyggju að leigja húsnæði sem samsvarar fyrirhugaðri suðurstöð en þegar heilsugæslustöð suður opnar þá verður starfsemin rekin frá tveimur starfsstöðum.
Áframhaldandi umbætur
Unnið er að því þessa dagana að koma nýrri heilsugæslustöð fyrir á lóð Sjúkrahússins á Akureyri, en klínískri þjónustu verður skipt jafnt á milli stöðvanna auk þess að heimahjúkrun og heimaþjónusta munu hafa aðstöðu í Suðurstöðinni. Ákvörðun um rekstrarfyrirkomulag þessara nýju stöðvar hefur ekki verið tekin, enda væri það ótímabært en samkvæmt lögum er Heilbrigðisstofnunar Norðurlands falið að skipuleggja og veita heilsugæsluþjónustu á svæðinu.
Eins og sést þá hefur markvisst verið unnið að því að bæta þjónustu við íbúa á svæðinu og áfram er unnið að því markmiði. Við erum hvergi nærri hætt og höldum ótrauð áfram með verkefnin sem liggja fyrir, enda eru sum þeirra löngu orðin tímabær.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis
[1]University of Cambridge, June 2, 2023: Having a „regular doctor“ can significantly reduce GP workload, study finds.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.