Categories
Fréttir

Það ver enginn dýraníð

Deila grein

08/09/2016

Það ver enginn dýraníð

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Umfjöllun fjölmiðla undanfarinn sólarhring um að þingmenn séu að verja dýraníð er með eindæmum undarleg, í raun fráleit, og gefur villandi mynd af stöðu mála. Enginn þingmaður hefur tekið þátt í því að verja dýraníð. Tillögur sem fyrir atvinnuveganefnd lágu voru báðar ófullkomnar og miklu meiri undirbúning þurfti til að standa að slíkri breytingu. Að fella niður stuðning eða beingreiðslur til bænda út af slíkum brotum er flókið verkefni og við viljum að sú lagasetning verði vönduð. Þess vegna var málið tekið aftur inn milli umræðna og nú hefur meiri hluti atvinnuveganefndar unnið málið áfram og útfært tillögu sem nú liggur fyrir.
Það er hins vegar rétt að vekja athygli á því að MAST hefur ríkar heimildir og úrræði til að beita í slíkum málum. Eitt af þeim er vörslusvipting. Hafi bóndi verið sviptur bústofni fær hann eðlilega ekki greiðslur samkvæmt búvörusamningi. Þá hefur MAST sektarheimildir sem beitt er til að þrýsta fram endurbótum, þær sektarheimildir geta hæglega gert allar greiðslur til bænda upptækar.
Hæstv. forseti. Það ver enginn dýraníð. Við lifum í siðuðu samfélagi þar sem við samþykkjum ekki slíkt. Almennt eru velferðarmál dýra í góðu lagi á Íslandi og eigendur búfjár mjög meðvitaðir um ábyrgð sína.
Með nýrri löggjöf um velferð dýra komu nýjar reglur um aðbúnað þeirra. Margir bændur í öllum búgreinum standa nú frammi fyrir því að gera dýrar úrbætur á húsum til að bæta aðbúnað. Nemur kostnaður við þær úrbætur mörgum milljörðum króna. Það er allt frá því að þurfa að byggja nýjar byggingar til þess að gera endurbætur sem eru umfangsminni.
Hæstv. forseti. Enginn vill loka augunum fyrir því að upp hafa komið alvarleg tilfelli þar sem skepnur líða fyrir slæman aðbúnað. Þau tilfelli munu því miður koma áfram upp. Það sem skiptir máli er að við látum okkur öll slíkt varða. Þau tilfelli eru oftar en ekki með rót í öðrum vandamálum, svo sem félagslegri stöðu, veikindum og öðrum þáttum en þeim sem endilega blasa við þegar slík mál koma upp. Eftirlit og reglur koma aldrei í staðinn fyrir alla hluti, eftirlitsstofnanir eins og Matvælastofnun hafa líka skyldur og ber líka að vera leiðbeinandi í störfum sínum.
Ég hafna því umræðu um að þingmenn verji dýraníð þegar þeir vilja vanda til lagasetningar.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 7. september 2016.

Categories
Fréttir

Án þess að gera neitt nema bútasauma

Deila grein

08/09/2016

Án þess að gera neitt nema bútasauma

160218-Þorsteinn Sæmundsson„Hæstv. forseti. Ég finn mig knúinn til að ræða lítillega frumvarp til laga um breytingu á almannatryggingalögunum, ekki síst út af þeim orðum sem voru viðhöfð áðan af hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur.
Það þarf ekki að koma neinum á óvart að þetta frumvarp hafi komið fram nú eftir þrjú og hálft ár vegna þess að fyrstu tvö ár þessa kjörtímabils var starfandi nefnd um endurskoðun þessa kerfis, stór og fjölmenn nefnd sem vann vel saman lengst af og skilaði niðurstöðum 29. febrúar sl. Í þeirri nefnd var, eins og ég sagði, góður starfsandi lengstum en það dróst um tvo mánuði að nefndin skilaði af sér vegna þess að starfandi formaður hennar þá, sá sem hér stendur, reyndi að ná sem flestum saman um tillögur nefndarinnar. Illu heilli tókst það ekki vegna þess að einn stór hagsmunahópur, þ.e. bandalag öryrkja, ákvað undir lokin að fara frekar veg með stjórnarandstöðuflokkunum á þingi en að reyna að hafa áfram áhrif á störf nefndarinnar og niðurstöðu hennar. Það er að sjálfsögðu slæmt. Engu að síður komu þessar tillögur fram í febrúarlok síðastliðnum og tillögurnar eru í raun og sann stærsta breyting sem orðið hefur á þessu kerfi áratugum saman. Þess vegna kann ég ekki við að fulltrúi þess flokks sem lengst hefur sýslað með velferðarmál á Íslandi, áratugum saman, án þess að gera neitt nema bútasauma skuli svo koma hér og gera lítið úr því sem gert er nú með þessu frumvarpi, sem er fyrsta skrefið í þá átt að tillögur nefndarinnar téðrar komi fram öllum til hagsbóta sem eiga hlut að máli og til þess að rétta hlut þeirra sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 7. september 2016.

Categories
Fréttir

Mikilvægur fundur með umboðsmanni Alþingis

Deila grein

08/09/2016

Mikilvægur fundur með umboðsmanni Alþingis

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að víkja að opnum fundi hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með umboðsmanni Alþingis í gær þar sem árleg skýrsla var til umfjöllunar. Þessi viðburður í samskiptum nefndarinnar og umboðsmanns er afar mikilvægur og fundurinn í gær var sérstaklega vel heppnaður, ekki einvörðungu um það að draga fram helstu áherslur og verkefni í starfi umboðsmanns í þágu borgaranna heldur ekki síður að koma þeim upplýsingum á framfæri opinberlega. Margt má draga af þeim fundi eins og fyrirkomulag og þróun úrskurðarnefnda, flokkun viðfangsefna og árangur embættisins í innra skipulagi og úrvinnslu mála og fækkun kvartana.
Það er þó einkum tvennt sem ég vil nefna og er einlægur vilji til að bæta úr. Hið fyrra er möguleiki embættisins til að sinna frumkvæðisathugunum, sem hefur auðvitað óumdeilt forvarnavægi og er í senn öflugt aðhaldstæki ásamt og til viðbótar öðrum þeim leiðum sem til að mynda þingið hefur til þess að halda uppi virku aðhaldi með framkvæmdarvaldinu. Þess utan að umboðsmaður sem trúnaðarmaður Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu geti sinnt því mikilvæga hlutverki sínu og til hins ýtrasta. Frumkvæðiseftirlitið í þessu formi er þá til þess fallið að stuðla enn frekar að umbótum í stjórnsýslunni og tryggja betur rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.
Hitt málið er framkvæmdir við aðgengi að embættinu, aðgengi hreyfihamlaðra að skrifstofum umboðsmanns. Í hinu stærra samhengi er jafnrétti kjarni sjálfsagðra mannréttinda og það á við um hina lagalegu vernd, eins og kemur fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um jafnt aðgengi. Umboðsmaður sagði og gerði að lokaorðum sínum að ekki færi vel á því að embættið byggi við slíkt aðstöðuleysi og kallaði sérstaklega eftir fjármagni til úrbóta.
Virðulega forseti. Við ættum að svara þessu kalli hið fyrsta.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 7. september 2016.

Categories
Fréttir

Vinna þarf heilbrigðisáætlun fyrir Ísland

Deila grein

08/09/2016

Vinna þarf heilbrigðisáætlun fyrir Ísland

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Í morgun fór fram kynning á skýrslu McKinsey um stöðuna í heilbrigðismálum. Í þeirri skýrslu var kastljósinu beint að afköstum á Landspítalanum, rekstrarhagkvæmni hans og framleiðni starfsmanna á spítalanum. Jafnframt var fjallað um nýtingu fjármuna og gæði veittrar heilbrigðisþjónustu. Þar að auki var fjallað um samspil Landspítalans við aðra hluta heilbrigðiskerfisins þar á meðal heilsugæsluna og sérfræðinga á eigin stofum. Þar kom fram að stór hluti veittrar þjónustu á Landspítala sé bráðaþjónusta vegna einfaldra vandamála og ýmis starfsemi hafi færst á einkastofur á árunum 2012–2015. Í stuttu máli má segja að íslenska heilbrigðiskerfið þarfnist skýrari stefnu með tilliti til hvar og í hvaða magni skuli veita þjónustu. Þjónustu Landspítalans ætti að skipuleggja í samræmi við þá stefnu. Fram kom að nú þegar yfirvöld á Íslandi eru á ný að setja aukna fjármuni í heilbrigðiskerfið eftir niðurskurðarárin gefist einstakt tækifæri til að endurmeta kerfið og tryggja að auknar fjárveitingar nýtist sem best með tilliti til gæða heilbrigðisþjónustu. Í því samhengi sé nauðsynlegt að líta til land- og líffræðilegra þátta sem áhrif hafa á þörf landsmanna fyrir aukna heilbrigðisþjónustu.
Þessar niðurstöður eru í miklu samræmi við það sem við framsóknarmenn höfum haldið fram og talað fyrir í nokkurn tíma. Það þarf að vinna heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Það þarf að fara í stefnumótun og skýra hvaða þjónustu eigi að veita í heilbrigðiskerfinu um land allt. Þar þarf m.a. að taka tillit til aldurssamsetninga íbúa, samgangna, fjarlægða og ýmissa annarra þátta. Tengja þarf byggðaaðgerðir við þessa heilbrigðisáætlun með það að markmiði að fá heilbrigðisstarfsfólk til fastra starfa víða um landið. Með því að styrkja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og færa þeim aukin verkefni með því að styrkja betur við hjúkrunarheimili víða um land getum við með góðu móti létt því álagi sem er á Landspítalanum og án efa aukið skilvirkni í kerfinu.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 7. september 2016.

Categories
Fréttir

Fullgilding Parísarsamningsins rædd á Alþingi

Deila grein

07/09/2016

Fullgilding Parísarsamningsins rædd á Alþingi


Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu Parísarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Samningurinn, sem samþykktur var í desember síðastliðinn og undirritaður í apríl, skuldbindur ríki heims til að vinna saman að því að bregðast við loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. „Parísarsamningurinn er metnaðarfyllsti loftslagssamningur sem ríki heims hafa gert til þessa og leggur hornstein að stefnu ríkja í loftslagsmálum til framtíðar. Hann snýst um framtíðina og ábyrgð okkar á því hvernig jörð við skilum til barnanna okkar,“ segir Lilja.
„Fullgilding Íslands á Parísarsamningnum nú sendir skilaboð um að við viljum sýna metnað við framkvæmd samningsins og leggja okkar af mörkum til þess að hann hljóti gildi sem fyrst á heimsvísu. Ég vonast því til að Ísland geti fullgilt samninginn sem fyrst,“ segir Lilja. Samningurinn öðlast gildi þegar a.m.k. 55 ríki með 55% af heimslosun hafa fullgilt hann. Nú þegar hafa rúmlega 20 ríki fullgilt, en mikilvægum áfanga var náð í síðustu viku þegar Bandaríkin og Kína lýstu því yfir að þau væru að fullgilda samninginn.
Aðildarríki Parísarsamningsins setja sér markmið um minnkun losunar, svonefnd landsákvörðuð framlög, og myndar Parísarsamningurinn lagalegan ramma utan um þessar skuldbindingar. Ísland sendi inn sín markmið þann 30. júní 2015 þar sem stefnt er að 40% minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2030, miðað við 1990, í samstarfi við aðildarríki ESB og Noreg. Endanlegar skuldbindingar Íslands ákvarðast af samningi þessara þriggja aðila. Stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki á næsta ári.
„Við höfum góða reynslu af þessu samstarfi á öðru skuldbindingartímabili Kýótó og hér er um eðlilegt framhald á því að ræða. Ísland starfar þarna með mörgum af metnaðarfyllstu ríkjum heims í loftslagsmálum og þar viljum við halda áfram að staðsetja okkur,“ segir utanríkisráðherra. Lilja segir jafnframt sérstakt ánægjuefni að Parísarsamningurinn hafi að geyma ákvæði um að mæta skuli kynjajafnréttissjónarmiðum í tengslum við aðlögun að loftslagsbreytingum og styrkingu innviða, en Ísland hélt þeim sjónarmiðum mjög á lofti í samningaviðræðunum.
Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu Parísarsamningsins og texti samningsins
Nánari upplýsingar um loftslagsmál og Parísarfundinn COP21

Lilja Alferðsdóttir – utanríkisráðherra — Photo: Geirix

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Styðja unga afbrotamenn

Deila grein

07/09/2016

Styðja unga afbrotamenn

flickr-Líneik Anna Sævarsdótir„Virðulegi forseti. Í gær kom fram í fréttum að tæplega 500 börn 18 ára og yngri voru kærð fyrir brot á hegningarlögum á síðasta ári. Af þeim börnum eru 169 14 ára og yngri og því ósakhæf. 11 börn fengu skilorðsbundinn dóm á síðasta ári og lögreglan kemur árlega að 20–40 sáttamiðlunum vegna brota ungmenna. Mikilvægi þess að börn og ungmenni fái tækifæri til að læra af mistökum sem þau gera, bæta sig og taka ábyrgð á gerðum sínum verður seint ofmetið, enda hefur umboðsmaður barna ítrekað beint á nauðsyn þess að efla sáttamiðlun sem úrræði fyrir börn sem brotið hafa af sér. Ég get því ekki annað en hrifist af því viðhorfi sem birtist í viðtali við Hörð Jóhannesson lögreglumann sem birtist í Fréttablaðinu 3. september. Þar kemur skýrt fram að mannlegur skilningur, stuðningur, virðing og manneskjuleg nálgun á brot barna og ungmenna geta skilað miklu meiri árangri en refsingar. Sem betur fer höfum við fólk eins og Hörð um allt samfélagið sem beitir þessum aðferðum dags daglega. Viðfangsefni okkar hér er hins vegar að velta fyrir okkur hvernig við getum byggt samfélagið þannig að þetta viðhorf endurspeglist í gegnum öll okkar kerfi sem vinna með börnum og ungmennum. Ein leið til þess er víðtækari innleiðing sáttamiðlunar ásamt viðeigandi stuðningi.
Á vorþingi samþykkti Alþingi að beina frumvarpi hv. þm. Helga Hjörvars um breytingu á almennum hegningarlögum til ríkisstjórnar og fela þar með refsiréttarnefnd að skoða samfélagsþjónustu ungra brotamanna ásamt viðeigandi stuðningi og meðferðarúrræðum til betrunar. Ég vænti þess að sú vinna muni skila okkur skrefum í rétta átt.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 6. september 2016.

Categories
Fréttir

Hindranir við rafbílavæðingu

Deila grein

07/09/2016

Hindranir við rafbílavæðingu

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Yfirvöld hafa stefnt að því að hverfa frá brennslu jarðefnaeldsneytis í samgöngum á Íslandi og lögð hefur verið áhersla á eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu. Sú uppbygging er komin nokkuð á veg og er töluverð eftirspurn eftir að hraða henni því áhugi manna og meðvitund um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hefur vissulega vaxið. En til að þetta sé raunhæfur möguleiki fyrir alla landsmenn þarf bæði að veita rafmagni til hleðslustöðvanna sem reisa á víða um land og leggja línur í vinnslustöðvar útgerðanna sem vilja geta veitt rafmagni úr landi um borð í skip sem liggja við bryggju. Fjölgun hefur orðið á rafknúnum bílum í landinu en það liggur fyrir að einhverjar breytingar þarf að gera á regluverki og umgjörð, t.d. þarf að ákveða hvort tilskipun EES um innviði fyrir vistvænar samgöngur á að gilda hér og hvaða staðla á að innleiða varðandi hraðhleðslustöðvar. Þá þarf að taka af öll tvímæli um að rekstraraðilar hraðhleðslustöðva sé heimilt að afhenda raforku gegn gjaldi án þess að teljast orkusölufyrirtæki í skilningi laganna. Einnig þurfa dreifiveitur að huga að aðferðum við álagsstýringu þegar rafbílavæðing hefur átt sér stað. Þessu fylgir því líka að huga þarf að byggingarreglugerðum þannig að gert verði ráð fyrir hleðslustöðvum á bílaplönum fjölbýlishúsa og á bílastæðum svo dæmi séu tekin.
Það eru vissulega ýmis úrlausnarefni sem tengjast orkuskiptum í samgöngum og þau eru síst minni þegar kemur að skipaflotanum. Landtengingar hafa lengi verið í boði. Um tíma var rafmagn til skipa sérstakur gjaldskrárliður, en síðan árið 2005 má ekki mismuna eftir því í hvað orkan er notuð. Eitthvað þarf að skoða þetta svo liðka megi fyrir framgangi þessa máls. En kannski er það til lítils ef horft er til þess að ekki hafa verið reistar loftlínur á landinu síðan 2006 og fréttir berast af því að hótel sem verið er að reisa séu keyrð á dísil. Við þurfum að geta flutt rafmagnið sem við framleiðum til notenda.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 6. september 2016.

Categories
Fréttir

Gamaldags aðferðir í Seðlabankanum

Deila grein

07/09/2016

Gamaldags aðferðir í Seðlabankanum

160218-Þorsteinn Sæmundsson„Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli á grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær eftir dr. Eric Stubbs. Hún heitir, með leyfi forseta: „Ísland myndi hagnast á öðruvísi vaxtastefnu“. Sá ágæti maður er fjármálaráðgjafi hjá Royal Bank of Canada í New York. Hann hefur oft verið hér á undanförnum árum og fylgst með íslensku efnahagslífi. Hann segir að það sé út af fyrir sig gamaldags aðferð að reyna að hafa áhrif á neyslu með vöxtum og mælir í staðinn með því að reynt sé að halda ákveðnu gengisstigi með vaxtaákvörðunum. Hann nefnir m.a. hvað Ísland sé útsett fyrir flæði fjármagns og alþjóðaviðskiptum. Það eru hlutir sem ég er búinn að margvara við á undanförnum missirum, þ.e. sú hávaxtastefna sem Seðlabanki Íslands rekur hefur orðið til þess að hingað inn hefur flætt kvikt fjármagn sem getur þegar minnst varir leitað út aftur, og þá á tímum sem koma eigendum þessa fjár vel en okkur mögulega illa.
Þessi ágæti maður bendir á að þau líkön sem nú eru notuð af stjórnendum Seðlabankans séu út af fyrir sig gamaldags, þau hafi verið notuð í 25 ár og að kominn sé tími til að fara nýjar leiðir. Ég held að það væri vel þess virði fyrir stjórnendur Seðlabanka Íslands að gaumgæfa orð þessa ágæta manns ásamt gagnrýni fleiri málsmetandi hagfræðinga sem komið hafa fram á undanförnum vikum og mánuðum og haldið fram nákvæmlega sama hlut, þ.e. að stýrivextir á Íslandi séu einfaldlega alltof háir.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 6. september 2016.

Categories
Fréttir

Hvar eru þessar lækkanir?

Deila grein

07/09/2016

Hvar eru þessar lækkanir?

160218-Karl Garðarsson-02„Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að auglýsa eftir verðlækkunum á innfluttum vörum vegna styrkingar krónunnar og lækkunar á sköttum og gjöldum sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Hvar eru þessar lækkanir? Ég hef ekki séð þær nema að litlu leyti. Þannig bendir Alþýðusamband Íslands á að afnám vörugjalda á byggingarvörur, lægri virðisaukaskattur og styrking krónunnar, hafi ekki skilað sér til neytenda. Þvert á móti hefur vísitala byggingarvara hækkað þrátt fyrir að ætla mætti að vörurnar hefðu lækkað umtalsvert. Það er ekki langt síðan 1 evra var skráð á um 145 krónur. Í morgun var hún skráð á 129 krónur. Það er ekki langt síðan dollarinn stóð í rúmum 130 krónum. Í morgun var hann í um 116 krónum. Pundið hefur síðan hrunið í kjölfar Brexit. En hvar eru verðlækkanir til neytenda?
Staðreyndin er sú að skatta- og gjaldahækkanir skila sér yfirleitt fljótt og vel út í verðlagið með hækkun vöruverðs, skattalækkanir og styrking krónunnar seint og illa. Aðgerðir sem ekki síst eru ætlaðar til að styðja við heimilin í landinu gagnast fyrst og fremst þeim sem stunda innflutning og smásölu. Þannig sýndu kannanir að verðlækkanir á heimilistækjum vegna afnáms vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts á sínum tíma voru mun minni en gera mátti ráð fyrir. Skilaði afnám tolla á fatnað og skóm sér til neytenda? Nei, ekki nema að litlu leyti. Oft lækkar vöruverð tímabundið í kjölfar skattalækkana en leitar fljótt í sama horf aftur. Þetta er ekki bara spurning um viðhorf þeirra sem reka fyrirtæki, þetta er líka dæmi um lítinn og óþroskaðan markað þar sem samkeppni er lítil. Í guðs bænum höfum það hugfast að þó að excel-skjalið segi okkur að verð á vöru og þjónustu eigi að lækka er raunveruleikinn oftar en ekki allt annar.“
Karl Garðarsson í störfum þingsins 6. september 2016.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi

Deila grein

06/09/2016

Stjórnmálaályktun kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi

logo-framsokn-gluggi

Stjórnmálaályktun
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi
haldið að Bifröst Borgarfirði 3. og 4. september 2016

Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar góðum árangri í mörgum stórum málum undir forystu Framsóknarflokksins. Má þar nefna aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna, viðsnúning á rekstri ríkissjóðs, hvernig tekið var á kröfuhöfum hinna föllnu banka og aukin framlög til rannsókna og nýsköpunar.
Þingið fagnar því að nýverið hækkaði eitt hinna alþjóðlegu matsfyrirtækja lánshæfismat Íslands um tvo flokka sem er mikil viðurkenning á þeim árangri sem náðst hefur.
Sá árangur sem náðst hefur á kjörtímabilinu byggir undir þau fjölmörgu verkefni sem bíða úrlausnar á næsta kjörtímabili.
Betur má ef duga skal og áréttar þingið að nauðsynlegt er að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum. Þar er lögð áhersla á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi. Þingið fagnar hugmyndum um að nýta skattkerfið til jöfnunar búsetu. Þá er nauðsynlegt að samræming í ákvarðanatöku sé til staðar svo markmið byggðastefnu nái fram að ganga.
Þingið mótmælir harðlega samþjöppun og skerðingu á heilbrigðisþjónustu sem orðin er og hvetur til þess að eitt helsta kosningamál Framsóknarflokksins verði aukin heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni. Þá fagnar þingið hugmyndum um mótun heilbrigðisstefnu fyrir Ísland þar sem þarfir landsbyggðarinnar verði metnar með íbúum og útfrá landfræðilegum aðstæðum.
Kjördæmisþingið vill leggja áherslu á löggæslumál á landsbyggðinni. Skortur á fjármagni og sameining lögregluumdæma má aldrei verða til þess að íbúar á landsbyggðinni hljóti af skerta þjónustu í formi lengri útkallstíma eða manneklu.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að frumvarp um almannatryggingar nái fram að ganga. Jafnframt verða bætur almannatrygginga að hækka í samræmi við laun í landinu. Við afgreiðslu frumvarpsins þarf að leggja fram áætlun er sýnir hvernig bætur munu fylgja launaþróun.
Þingið krefst þess að stóraukið fé verði sett í samgöngur. Vegir eru hluti af innviðum landsins og óásættanlegt að ekki fáist fé til bráðnauðsynlegs viðhalds og nýframkæmda. Í kjördæminu eru þúsundir kílómetra án slitlags um leið og umferð hefur stóraukist um þessa vegi m.a. vegna aukinnar ferðamennsku.
Tryggja þarf áætlunarflug til Bíldudals, Gjögurs og Sauðárkróks með framlagi úr ríkissjóði. Jafnframt er mikilvægt að áætlunarflug til Ísafjarðar verði raunhæfur kostur til framtíðar. Áætlunarflug frá höfuðborginni til allra landshluta utan áhrifasvæðis hennar skiptir sköpum fyrir framtíðaruppbyggingu þeirra. Þá minnir þingið á mikilvægi þess að ríkissjóður komi betur til móts við sveitarfélög með framlögum til hafnarmannvirkja.
Kjördæmisþingið gagnrýnir harðlega lokun neyðarbrautarinnar. Lending á henni getur skipt sköpum varðandi sjúkraflug utan af landi, oft í erfiðum aðstæðum. Þingið krefst þess að Alþingi beiti sér fyrir framtíð neyðarbrautar og tryggi þar með áframhaldandi sjúkraflug um Reykjavíkurflugvöll.
Kjördæmisþingið fagnar því að sk. Norðvesturnefnd skilaði tillögum til atvinnuuppbyggingar og byggðarþróunar og hvetur ráðamenn til að fylgja eftir tillögum nefndarinnar og nýta þá fjármuni sem veittir voru í verkefnin. Þá bindur þingið miklar vonir við að nefnd um atvinnuuppbyggingu og byggðarþróun á Vestfjörðum skili tillögum fljótlega.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi leggur áherslu á að tryggt verði aðgengi nemenda að framhaldsskólum í kjördæminu og fjármunir til að standa undir fjölda nemendaígilda til að mæta þeirri eftirspurn. Mjög mikilvægt er að styrkja stoðir menntastofnana og dreifnáms í Norðvesturkjördæmi. Þá þarf að tryggja fjárhagsstöðu, rekstrargrundvöll og framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Hólum,   Háskólans á Bifröst og Háskólaseturs Vestfjarða auk þess að styðja öflugt starf símenntunarmiðstöðvanna. Grundvallaratriði í byggðaþróun og grunnþjónustu íbúa er aðgengi þeirra að menntastofnunum.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar því skrefi sem tekið var í ljósleiðaravæðingu landsins en leggur um leið þunga áherslu á að auknir fjármunir verði settir í verkefnið og því hraðað.
Þingið leggur áherslu á að ríkisfyrirtækin Landsnet, Orkubú Vestfjarða og Rarik sem eiga og reka allar meginflutningslínur og dreifikerfi rafmagns á Íslandi tryggi fullnægjandi flutning og afhendingaröryggi raforku um landið. Á þetta ekki hvað síst við um hina ýmsu þéttbýlisstaði á landsbyggðinni sem búa við ófullnægjandi aðstæður hvað þetta varðar sem hamlar rekstri og vaxtarmöguleikum atvinnulífs. Einnig að lokið verði við uppbyggingu á þriggja fasa rafmagni til að tryggja nýsköpun, atvinnu- og byggðarþróun í dreifðari byggðum kjördæmisins. Þingið hafnar alfarið áformum Landsvirkjunar um raforkusölu um sæstreng til annarra landa og telur hugmyndina fjarstæðukennda í ljósi þess að Landsvirkjun getur ekki útvegað nauðsynlega orku til atvinnuuppbyggingar í dag. Þingið beinir því til þingmanna flokksins að leggjast alfarið gegn hugmyndum Landsvirkjunar um sæstreng.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi hvetur til áframhaldandi uppbyggingar ferðaþjónustu í landinu. Finna verður leið til að afla aukinna tekna af ferðamönnum ekki síst til að standa undir uppbyggingu ferðamannastaða um land allt.
Þingið telur rétt að endurskoða skiptingu tekna af ferðamönnum milli ríkis og sveitafélaga þannig að sveitafélög fái tekjur til að standa að uppbyggingu ferðaþjónustunnar.
Landbúnaður er og verður hornsteinn byggðar um allt land og það menningarlandslag ber þjóðinni skylda til að vernda. Þá hvetur þingið ríkisvaldið til að efla eftirlit með innfluttum matvælum og gera reglur um upprunamerkingar skýrari en nú er. Óásættanlegt er, fyrir íslenska neytendur, að við flytjum inn búvörur frá löndum þar sem gerðar eru minni kröfur um framleiðsluaðstæður, lyfjanotkun og aðra þætti er lúta að heilbrigði afurða, en gerðar eru hér á landi.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar þeirri tæknibyltingu sem er að verða í veiðitækni, aflameðferð og fullvinnslu afurða um þessar mundir. Mikilvægt er að staðinn verði vörður um samkeppnis- og rekstrarhæfi íslensks sjávarútvegs á sama tíma og arður sem fæst úr greininni og sameiginlegum auðlindum landsmanna verði nýttur til uppbyggingar innviða og eflingar byggðarlaga vítt og breytt um landið. Þingið leggur jafnframt áherslu á að auðlindir landsins skulu vera í þjóðareign og gjald eigi að innheimta fyrir nýtingu auðlinda. Þingið minnir á að engin ein löggjöf hefur haft viðlíka jákvæð áhrif á umhverfið á Íslandi og lög um stjórn fiskveiða sem sett voru undir forystu Framsóknarflokksins.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi íterkar að stórauka þarf rannsóknir á sviði fiskeldis en alþjóðlegar spár segja að fiskeldi muni sjá fyrir tveimur þriðju af fiskneyslu í heiminum árið 2030. Mikilvægt er að Íslendingar taki þátt í þeirri þróun og leitist við að hámarka afrakstur og arð úr greininni á sjálfbæran hátt. Tryggja verður að opinbert rannsóknarfé renni beint til fiskeldis- og umhverfis rannsókna. Þá þarf leyfiskerfi vegna eldismála að vera gegnsætt og skýrt og gjaldtaka fyrir leyfi svipað og gerist t.d. í Noregi.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi fagnar breytingum á húsnæðislögum en leggur jafnframt áherslu á að áfram verði haldið í þá átt að tryggja að allir hafi val um búsetuform, hvort sem það er eign, leiga eða húsnæðissamvinnufélög.
Kjördæmisþingið fagnar því að frumvarp um húsnæðisbætur hafi verið samþykkt, en nú eiga nemendur í framhaldsskólum rétt á húsnæðisbótum vegna dvalar á heimavist eða nemendagörðum. Auk þess fagnar þingið því að frumvarp um almennar íbúðir hafi verið samþykkt en samkvæmt því geta ríki og sveitafélög farið í uppbyggingu á heimavistum eða nemendagörðum.
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi harmar að í nýjum lögum um dómstóla er reiknað með að dómstóllinn sé eingöngu í Reykjavík. Þingið telur að dómstóllinn ætti einnig að vera utan Reykjavíkur.
Þingið telur að frumvörp um fyrstu eign og breytingar á verðtryggðum lánum lítið skref í jákvæða átt. Mikilvægt er að tekið verði af alvöru á áhrifum verðtryggingar á kjör heimila og krefst þingið þess að þingmenn flokksins geri breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi í þá veru. Þá minnir þingið á að afnám verðtrygginar af nýjum neytendalánum var eitt helsta kosningamál flokksins 2013.