Categories
Fréttir

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

Deila grein

01/06/2015

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði

11136645_10153164142029351_604831424646714004_nRíkisstjórn Íslands samþykkti í dag ráðstafanir í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Aðgerðirnar eru í 11 liðum og lúta að ýmsum sviðum skatta- og velferðar- og húsnæðismála sem og úrbótum á sviði hagstjórnar og opinberra fjármála. Mikilvæg forsenda fyrir ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar er að kjarasamningar á almennum og opinberum markaði leiði ekki til óstöðugleika í efnahagsmálum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar taka mið af því að í fyrirhuguðum samningum á almennum vinnumarkaði er hugað sérstaklega að þeim tekjulægstu og að lágmarkslaun hækki í 300 þúsund krónur á samningstímanum.

  • Aðgerðir í 11 liðum vegna kjarasamninga
  • Breytingar á tekjuskatti leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega
  • Heildarlækkun á tekjuskatti einstaklinga á kjörtímabilinu allt að 16 milljarðar
  • Átak um byggingu 2300 félagslegra íbúða
  • Komið til móts við efnaminni leigjendur og þá sem kaupa fyrstu íbúð
  • Aukið samstarf við aðila vinnumarkaðar með stofnun þjóðhagsráðs

Ríkisstjórnin mun meðal annars beita sér fyrir breytingum á tekjuskatti einstaklinga sem munu leiða til hækkunar á ráðstöfunartekjum allra launþega, en þó sérstaklega millitekjuhópa. Sem dæmi má nefna að ráðstöfunartekjur um 65% fullvinnandi launamanna munu aukast um 50 þúsund eða meira á ári og ráðstöfunartekjur launþega með meðaltekjur munu aukast um tæpar 100 þúsund á ári. Breytingarnar munu einnig leiða til einföldunar tekjuskattkerfisins og aukins gagnsæis og skilvirkni, en skattþrepum verður fækkað úr þremur í tvö. Þá mun persónuafsláttur hækka til samræmis við verðlagsbreytingar.
Með aðgerðunum mun heildarlækkun á tekjuskatti einstaklinga því nema um allt að 16 milljörðum króna á kjörtímabilinu. Það samsvarar tæpum 13% af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga miðað við áætlun fjárlaga 2015.
Ríkisstjórnin skuldbindur sig einnig, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins, til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Þannig verði stuðlað að fjölgun ódýrra og hagkvæmra íbúða með það að markmiði að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma og ráðist í átak um byggingu 2.300 félagslegra íbúða á tímabilinu 2016-19.
Einnig verði stuðlað að lækkun byggingarkostnaðar, meðal annars með endurskoðun byggingarreglugerðar og gjaldtöku sveitarfélaga. Húsnæðisbætur verði hækkaðar til að styðja við almennan leigumarkað og lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og skattlagningu breytt í þeim tilgangi að lækka leiguverð og auka framboð á leigumarkaði. Þá verði komið sérstaklega til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð, m.a. með því að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignarsparnað til þess. Unnið verður að framangreindum markmiðum í samráðshópi ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka aðila á vinnumarkaði með hliðsjón af fyrirliggjandi vinnu stjórnvalda við umbætur á húsnæðismarkaði og hugmyndum sem komið hafa upp í samráðshópnum.
Í því skyni að bæta samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar lýsir ríkisstjórnin sig reiðubúna að stofna sérstakt þjóðhagsráð þar sem aðild eigi oddvitar ríkisstjórnar og fulltrúar Seðlabankans, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.
Aðrar aðgerðir lúta að jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða, niðurfellingu tolla á fatnað og skó, lækkun á kostnaði sjúklinga, auknum framlögum til framhaldsfræðslu og starfsmenntunar, átaki gegn skattaundanskotum, einföldun og endurskoðun regluverks og eftirlits með atvinnustarfsemi, stefnumörkun í opinberum fjármálum og samstarfi um mótun vinnumarkaðsstefnu og skipulag vinnumarkaðsmála.

Yfirlýsing ríkisstjórnar um ráðstafanir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga:

Ríkisstjórnin er reiðubúin til að liðka fyrir gerð kjarasamninga sem ekki fela í sér ógn við stöðugleika í efnahagsmálum. Mikilvægt er að niðurstöður kjaraviðræðna ásamt og með áhrifum þeirra ráðstafana sem stjórnvöld beita sér fyrir í tengslum við þær stuðli að því að Seðlabanki Íslands geti staðið við verðbólgumarkmið sitt. Það er því forsenda fyrir ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar að kjarasamningar á almennum og opinberum vinnumarkaði leiði ekki til óstöðugleika í efnahagsmálum.
Í minnisblaði þessu er gerð grein fyrir beinum fjárhagslegum ráðstöfunum stjórnvalda á tilteknum sviðum skatta- og velferðarmála og úrbótum á sviði hagstjórnar og opinberra fjármála.
I. Tekjuskattur. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir breytingum á tekjuskatti einstaklinga sem fela í sér minni skattheimtu af almennum launatekjum. Jafnframt miða þær breytingar að einföldun tekjuskattskerfisins, skilvirkari skattaframkvæmd og auknu gagnsæi varðandi jaðaráhrif.
Í þessu skyni verður skattþrepum fækkað úr þremur í tvö í tveimur áföngum. Verður skattprósenta í lægra þrepi lækkuð úr 22,86% í 22,68% frá ársbyrjun 2016 og í 22,50% frá ársbyrjun 2017. Álag í milliþrepi verður helmingað frá ársbyrjun 2016 (fer í 1,22%) og það að fullu afnumið frá árslokum þess árs. Munur á milli þrepa í tveggja þrepa kerfi verður 9,30% þegar breytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda. Miðað er við að fjárhæðarmörk við efsta þrep verði lækkuð í 770 þús. kr. við árslok 2015 og að skil milli þrepanna tveggja verði við 700 þús.kr. tekjumark þegar breytingarnar eru að fullu komnar fram. Þessar fjárhæðir eru háðar breytingum á launavísitölu.
Persónuafsláttur mun hækka til samræmis við verðlagsbreytingar.
Beint tekjutap ríkissjóðs vegna framangreindra ákvarðana er áætlað u.þ.b. 9-11 ma.kr. þegar breytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda. Vegna þessa er ekki gert ráð fyrir að svigrúm verði til lækkunar tryggingargjalds líkt og verið hefur til skoðunar. Af sömu ástæðum verður hlutdeild sveitarfélaga í tekjuskatti (útsvar) endurskoðuð að höfðu samráði við sveitarfélög.
Heildarlækkun á tekjuskatti einstaklinga mun þannig nema um allt að 16 ma.kr. á tímabilinu 2014-2017, en það svarar til tæpra 13% af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga m.v. áætlun fjárlaga 2015.
Sá almenni fyrirvari er hafður á síðari áfanga þessara breytinga að þær muni því eingöngu koma til framkvæmda að það geti talist forsvaranlegt með tilliti til þróunar og horfa um þróun efnahagsmála eins og þær verða metnar um mitt ár 2016.
Stefnt er að því að lögfesta framangreindar breytingar á haustþingi.
II. Húsnæðismál. Vísað er til sérstakrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög frá 28. maí 2015 um húsnæðismál þar sem markmiðið er að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum, styðja við leigumarkað og kaup á fyrstu íbúð og tryggja aukið framboð á íbúðarhúsnæði samkvæmt ráðstöfunum sem nánar er kveðið á um í yfirlýsingunni. Þær ráðstafanir sem fram koma í yfirlýsingunni miða fyrst og fremst að því að bæta hag tekjulágra fjölskyldna og ungs fólks á húsnæðismarkaði. Þannig verði tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði.
III. Jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóða. Stjórnvöld munu beita sér fyrir því að draga til baka þá ákvörðun sem tekin hefur verið um lækkað framlag úr ríkissjóði til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Tengist sú ákvörðun áformum um breytingar á tryggingargjaldi. Áframhaldandi jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða er mikilvæg en æskilegt er að finna fyrirkomulag sem byggir á skýrum hlutlægum forsendum, sem er sjálfbært og ekki háð framlögum á fjárlögum.
IV. Niðurfelling tolla á fatnað og skó. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að tollar á fatnað og skó verði lagðir niður við árslok 2015 í því skyni að auka ráðstöfunartekjur heimila og stuðla að aukinni verslun á Íslandi.
V. Kostnaður sjúklinga. Á vegum stjórnvalda er unnið að nýju heildstæðu greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu. Nú er unnið að nauðsynlegri greiningarvinnu með það að markmiði að verja þá sjúklinga sem mest greiða og setja fjárhæðarþak á kostnað þeirra sem þurfa á mikilli þjónustu að halda.
VI. Framhaldsfræðsla og starfsmenntun. Tryggt verður fjármagn til að fylgja eftir sameiginlegum áherslum menntayfirvalda og aðila vinnumarkaðarins sem lúta að því að tryggja starfsemi símenntunarmiðstöðva og námstækifæri fyrir nemendur yfir 25 ára aldri, bætt skilyrði til starfsnáms með reglulegum og auknum framlögum til vinnustaðanámssjóðs og til að hefja vinnu við að skilgreina fagháskólastig og hvernig það gæti tengist bæði framhalds- og háskólakerfinu. Aukin framlög á fjárlögum vegna þessara áherslna munu nema 200 m.kr. á ári hverju.
VII. Undanskot frá skatti. Ráðist verður í átaksverkefni fjármála- og efnahagsráðuneytisins, embættis ríkisskattstjóra, sveitarfélaga, ASÍ og SA til að sporna gegn svartri atvinnustarfssemi og tryggja hinu opinbera auknar tekjur með bættu skattskilum. Slíku átaki er ennfremur ætlað að stuðla að auknu jafnræði í samkeppnisrekstri.
VIII. Eftirlit með atvinnustarfsemi. Ríkisstjórnin ítrekar vilja sinn til að taka til endurskoðunar löggjöf sem áhrif hefur á atvinnulífið með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi. Markmiðið er að draga úr reglubyrði og einfalda samskipti við opinbera aðila. Með þessu er stefnt að því að draga úr kostnaði fyrirtækja, auka framleiðni í atvinnulífinu, bæta samkeppnishæfni þess og stuðla að auknum kaupmætti. Ríkisstjórnin mun skipa samstarfsnefnd sem hafi það hlutverk að semja tillögur til breytinga á löggjöf sem miði að sameiningu eftirlitsstofnana, endurskoðun leyfisveitinga og eftirlits með atvinnurekstri.
IX. Vinnumarkaðsaðgerðir. Í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 15. nóvember 2013 um gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hefur verið starfandi nefnd félags- og húsnæðismálaráðherra um mótun vinnumarkaðsstefnu og skipulagi vinnumarkaðsmála. Ríkisstjórnin mun stuðla að því að ákveðnum verkefnum sem tengjast þessari stefnumörkun verði hrundið af stað í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og verja til þess nauðsynlegum fjármunum, allt að 25 m.kr. á ári.
X. Þjóðhagsráð. Í tillögum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld er kveðið á um að bæta þurfi samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar ef takast eigi að skapa hagfelld skilyrði til hagvaxtar. Ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna til að slíkt Þjóðhagsráð verði stofnað. Aðild að því eigi oddvitar ríkisstjórnar á hverjum tíma (nú forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra) og fulltrúar Seðlabanka Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og sameiginlegur fulltrúi samtaka launþega á opinberum vinnumarkaði. Hlutverk Þjóðhagsráðs verði að leggja heildarmat á stöðu efnahagsmála hverju sinni með hliðsjón af hinum þremur fyrrgreindu meginstoðum hagstjórnar og meta svigrúm til kjarabreytinga á vinnumarkaði. Þjóðhagsráð tekur ekki ákvarðanir í efnahagsmálum og stofnun þess breytir í engu hinum lögbundnu hlutverkum þeirra aðila sem að því standa.
XI. Stefnumörkun í opinberum fjármálum. Frumvarp til laga um opinber fjármál felur í sér mikilvæg nýmæli sem varða stefnumörkun um opinber fjármál og því er ætlað að stuðla að góðri hagstjórn og betri stjórn opinberra fjármála, m.a. með nánari samvinnu ríkis og sveitarfélaga. Ríkisstjórnin telur mikilvægt að við undirbúning fjármálaáætlunar, sem lögð er fyrir Alþingi að vori hvers árs samkvæmt frumvarpinu, verði haft samráð við aðila vinnumarkaðarins. Það samráð verður formfest í samvinnu við samtök vinnuveitenda og launþega.

Yfirlýsing ríkisstjórnar um húsnæðismál:

Ríkisstjórn Íslands, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands og Samtök atvinnulífsins, skuldbindur sig til að skapa bætt skilyrði fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Stuðlað verður að því að landsmenn hafi aukið val um búsetuform og búi við meira öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins, einkum tekjulágar fjölskyldur. Ríkisstjórnin lýsir því yfir að hún muni taka upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög með það að markmiði að hrinda í framkvæmd eftirfarandi aðgerðum:
1. Fjölgun hagkvæmra og ódýrra íbúða
Lagður verður grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi þar sem lögð verður áhersla á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma. Félagslega leigukerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum rikisins sem nema núvirt um 30% af stofnkostnaði. Slíkt framlag ríkis og sveitarfélaga ætti að jafnaði að leiða til þess að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20-25% af tekjum. Lögaðilum sem hyggjast byggja og reka félagslegt leiguhúsnæði geta verið sveitarfélög og félög eða félagasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis sem eingöngu er ætlað leigjendum undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Settar verði skorður fyrir því að hægt verði að taka íbúðir út úr félagslega leigukerfinu en verði slíkt heimilt verða sett inn ákvæði um ráðstöfun söluhagnaðar.
Ráðist verði í átak um byggingu félagslegra leiguíbúða. Stefnt er að því að byggja 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum, þ.e. á árunum 2016-2019, þó að hámarki 600 íbúðir á ári. Að því loknu verður metin þörf á áframhaldandi uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis, m.a. að teknu tilliti til stöðu opinberra fjármála. Áhersla verður á íbúðir af hóflegri stærð og að tryggð verði félagsleg blöndun í leiguíbúðunum.
Miðað verður við að tekjur íbúa verði í lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn í húsnæðið. Þannig verði tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á núverandi forgangsröðun sveitarfélaganna gagnvart skjólstæðingum félagsþjónustunnar eða forgangsröðun gagnvart námsmannaíbúðum, en við frekari forgangsröðun við úthlutun húsnæðis til fólks á vinnumarkaði verður horft sérstaklega til barnafjölskyldna og heimila í verulegum fjárhagsvanda. Settar verða reglur um það, með hvaða hætti heildarfjölda heimilaðra félagslegra íbúða verði skipt milli ólíkra markhópa og framkvæmdaaðila.
2. Aukið framboð húsnæðis og lækkun byggingakostnaðar
Af hálfu hins opinbera verður á allan hátt greitt fyrir að hægt verði að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar í því skyni að lækka byggingarkostnað. Endurskoðun á byggingareglugerð er þar á meðal og skipulagslög.
Við endurskoðun byggingareglugerðar verði tekinn inn nýr flokkur mannvirkja sem undanþeginn verði ákvæðum reglugerðar um altæka hönnun. Þar verði einkum horft til smærri og ódýrari íbúða.
Gjaldtaka sveitarfélaga vegna lóða og gatnagerðargjalda verður skoðuð með það fyrir augum að lækka byggingarkostnað.
3. Stuðningur við almennan leigumarkað
Til að lækka frekar húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar á árunum 2016 og 2017. Grunnfjárhæð og frítekjumark verða hækkuð með hliðsjón af tillögum sem hafa verið til meðferðar hjá stjórnvöldum. Húsnæðisbætur og frítekjumörk munu taka mið af fjölda heimilismanna.
Skattlagningu tekna af leigu íbúða í eigu einstaklinga verður breytt í þeim tilgangi að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða.
Stefnt verður að sérstökum lagalegum ráðstöfunum fyrir fyrirtæki til að hvetja til langtímaleigusamninga og bæta þannig búsetuöryggi á almennum markaði.
4. Stuðningur við kaup á fyrstu íbúð
Komið verður til móts við þá sem kaupa sína fyrstu íbúð. Hvatt verður til sparnaðar með því að þeir sem sparað hafa tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn út skattfrjálst, t.d. þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignasparnað sem eiginfjárframlag við kaup á fyrstu íbúð. Mikilvægt er að upphæð vaxtabóta og skerðingarákvæði aðstoði einkum fjölskyldur undir meðaltekjum.
Um fasteignalán til neytenda verði sett sérlög og lánveitendum veitt svigrúm til að horfa til fleiri þátta en niðurstöðu greiðslumats við ákvörðun um lántöku.
Unnið verður að framangreindum markmiðum í samráðshópi ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka aðila á vinnumarkaði með hliðsjón af fyrirliggjandi vinnu stjórnvalda við umbætur á húsnæðismarkaði og hugmyndum sem komið hafa upp í samráðshópnum. Við það er miðað að frumvarp um húsnæðisbætur verði lagt fyrir vorþing 2015 og að önnur frumvörp sem nauðsynleg eru til að framangreind markmið nái fram að ganga verði lögð fram á haustþingi 2015 og afgreidd fyrir áramót.
Unnið verður áfram að breyttu fyrirkomulagi fjármögnunar almennra húsnæðislána. Í því efni verður tekið mið af tillögum verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, nýrri veðlánatilskipun ESB og gögnum um rekstrarforsendur nýrra húsnæðislánafélaga og stöðu Íbúðalánasjóðs.

Categories
Fréttir

Viljum við nýtt bónusland?

Deila grein

29/05/2015

Viljum við nýtt bónusland?

Karl_SRGBKarl Garðarsson, alþingismaður, vakti athygli á hvort að Íslendingar værum ekkert búnir að læra af bónuskerfi í íslensku fjármálalífi. Hann spurði sig hvort að áhugi væri á að viðhalda bónuskerfi í íslensku fjármálalífi hvort sem bónusinn er 25%, 50% eða 100%? Þetta kom fram í störfum þingsins á Alþingi í vikunni.
„Virðulegur forseti. Við lifum í sannkölluðu bónuslandi. Fyrir nokkrum dögum skýrði DV frá því að íslenska umsýslufélagið ALMC, áður Straumur-Burðarás, hefði lagt til hliðar 3.400 millj. kr. sem félagið hygðist greiða í bónusa til lykilstarfsmanna og stjórnarmanna. Að meðaltali nema þessar greiðslur um 100 millj. kr. á hvern starfsmann. Sumir munu fá meira, aðrir minna. 20–30 starfsmenn ALMC eiga von á slíkum bónusum að sögn DV. Í þessum hópi eru bæði Íslendingar og útlendingar,“ sagði Karl.
„Í dag skýrði sami fjölmiðill frá því að tugir núverandi og fyrrverandi starfsmanna Kaupþings eigi von á bónusum sem geti numið tugum milljóna í einstaka tilvikum verði nauðasamningar samþykktir. Samtals er um að ræða hundruð millj. kr. Höfum í huga að þetta eru ekki sérstaklega illa haldnir starfsmenn því að samkvæmt ársreikningi síðasta árs voru þeir með 1,6 millj. kr. að meðaltali í mánaðarlaun.“
Ræða Karls Garðarssonar:

Categories
Fréttir

Minningarbók um Halldór Ásgrímsson

Deila grein

20/05/2015

Minningarbók um Halldór Ásgrímsson

IMG_1731Á skrifstofu Framsóknarflokksins liggur frammi minningarbók þar sem þeir sem vilja heiðra minningu Halldórs Ásgrímssonar geta ritað nafn sitt.
Hægt verður að koma við á skrifstofu Framsóknarflokksins í dag, miðvikudag, á fimmtudaginn og á föstudaginn frá kl. 10:00-16:00, og á þriðjudag og miðvikudag í næstu viku á sama tíma.
Framsóknarflokkurinn.

Categories
Fréttir

Halldór Ásgrímsson látinn

Deila grein

19/05/2015

Halldór Ásgrímsson látinn

flokksthing2015-HalldórÁsgrímssonHalldór Ásgrímsson, fyrrv. forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er látinn. Halldór lést í gær, á Landsspítalanum í Reykjavík. Hann var 67 ára.
Halldór fæddist á Vopnafirði 8. september 1947. Hann var sonur hjónanna Ásgríms Halldórssonar, framkvæmdastjóra á Höfn á Hornafirði og Guðrúnar Ingólfsdóttur. Eftirlifandi kona Halldórs er Sigurjóna Sigurðardóttir, læknaritari. Dætur þeirra eru Helga, Guðrún Lind og Íris Huld.
Halldór lauk samvinnuskólaprófi 1965. Varð löggiltur endurskoðandi 1970. Halldór fór í framhaldsnám við verslunarháskólana í Björgvin og Kaupmannahöfn 1971–1973. Lektor var hann við viðskiptadeild Háskóla Íslands 1973–1975.
Halldór var varaformaður Framsóknarflokksins 1980–1994 og formaður hans 1994–2006.
Halldór var alþingismaður Austurlandskjördæmis 1974–1978 og 1979–2003 og Reykjavíkurkjördæmis norður 2003–2006.
Halldór var skipaður sjávarútvegsráðherra 1983–1991 og samstarfsráðherra um norræn málefni 1985–1987, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988–1989, samstarfsráðherra Norðurlanda 1995–1999, utanríkisráðherra 1995–2004, forsætisráðherra 2004–2006.
Gegndi Halldór fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum bæði á Íslandi og erlendis. Halldór var síðast framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, 2007-2013.
Framsóknarmenn minnast mikils foringja með djúpri virðingu og þakklæti. Aðstandendum er vottuð samúð og þakkir fyrir ómældar fórnir í þágu Framsóknarflokksins og íslensku þjóðarinnar.
Myndatexti: Halldór Ásgrímsson á flokksþingi Framsóknarmanna í apríl 2015.

Categories
Fréttir

Ingvar Mar nýr formaður FR

Deila grein

15/05/2015

Ingvar Mar nýr formaður FR

Nýr formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, Ingvar Mar Jónsson 41 árs gamall flugstjóri hjá Icelandair, var kjörinn á aðalfundi félagsins á miðvikudaginn. Ingvar Mar hefur verið flugmaður og síðar flugstjóri hjá Icelandair frá árinu 1996. Ingvar er menntaður atvinnuflugmaður og flugkennari frá Flugskóla Íslands.
Ingvar Mar hefur verið fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í Menningar- og ferðamálaráði borgarinnar frá 2014 og er stjórnarformaður tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Ingvar Mar er kvæntur Sigríði Nönnu Jónsdóttur flugfreyju og eiga þau fjögur börn.
ingvarMyndatexti: Ingvar Mar Jónsson, nýr formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur.
Talsverð endurnýjun varð í stjórninni en auk Ingvars sitja þau Ásgerður Jóna Flosadóttir, varaformaður, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Dorata Zaorska, Kristinn Jónsson, Stefán Þór Björnsson, Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, Trausti Harðarsson og Hólmfríður Þórisdóttir í nýrri stjórn félagsins.

Categories
Fréttir

Biðlistar allt að 18 mánuðir á BUGL

Deila grein

13/05/2015

Biðlistar allt að 18 mánuðir á BUGL

Elsa-Lara-mynd01-vefurElsa Lára Arnardóttir, alþingismaður, gerði að umtalsefni í störfum þingsins á Alþingi í gær nýja úttekt á barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) er landlæknisembættið framkvæmdi.
„Markmið úttektarinnar var að skoða öryggi og gæði valinna þjónustuþátta í þeim tilgangi að koma með leiðir til úrbóta,“ sagði Elsa Lára.
Og hún hélt áfram, „í úttektinni kom fram að biðlistar eftir greiningu séu allt að 18 mánuðir. Þetta er ekki nýtt vandamál og þetta er ekki eitthvað sem er að gerast fyrst núna.“
Elsa Lára vill að við þessu verði að brugðist en ánægjulegt var að ríkisstjórnin gaf í er varðar heilbrigðismálin í síðustu fjárlögum og hefur landlæknir staðfest það í ýmsum þáttum.
„Við sjáum það að ef við komum fram og hjálpum þeim einstaklingum sem eiga í vanda fyrr en síðar þá skilar það sér í auknum lífsgæðum fyrir viðkomandi einstaklinga,“ sagði Elsa Lára.
Ræða Elsu Láru Arnardóttur:

Categories
Fréttir

ÖBÍ á flokksþingi framsóknarmanna

Deila grein

13/05/2015

ÖBÍ á flokksþingi framsóknarmanna

Öryrkjabandalag Íslands var með kynningu á starfsemi sinni á flokksþingi framsóknarmanna í apríl.
Var skrifstofu flokksins gefin vegleg gjöf af ÖBÍ, „Eitt samfélag fyrir alla“ hálfrar aldar saga Öryrkjabandalags Íslands sem stofnað var 5. maí 1961. Friðrik G. Olgeirsson, sagnfræðingur, er höfundur bókarinnar og greinir hann frá þrotlausri baráttu fatlaðs fólks, starfsfólks bandalagsins og annarra velunnarar fatlaðra fyrir bættum kjörum þeirra og auknum möguleikum til þátttöku í samfélaginu. Jafnframt var skrifstofu afhent heimildamynd um 50 ára saga bandalagsins.
ÖBÍ leggur núna mesta áherslu á að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) verði fullgiltur sem allra fyrst. SRFF er leiðarvísir að því hvernig tryggja skal fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra í lífinu og gera því þannig kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Samningurinn markar tímamót í allri mannréttinda- og frelsisbaráttu fatlaðs fólks. Samkvæmt framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks átti að leggja fram frumvarp á vorþingi Alþingis 2013 til fullgildingar samningsins en það hefur ekki enn verið gert.
obiaflokksthingi2015
Hér á myndinni má sjá þau Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur og Sigurjón Unnar Sveinsson frá ÖBÍ.

Categories
Fréttir

Matarsóun

Deila grein

06/05/2015

Matarsóun

ÞórunnÞórunn Egilsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins á Alþingi í gær, sóun á ýmsum verðmætum og minnti á að allsnægtirnar gefi okkur ekki leyfi til að fara illa með.
„Samkvæmt upplýsingum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna er áætlað að árlega fari 1,3 milljarðar tonna matvæla til spillis. Þetta er álíka mikill matur og framleiddur er árlega í Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Á sama tíma fer ein af hverjum sjö manneskjum í heiminum svöng að sofa og yfir 20 þús. börn deyja daglega úr næringarskorti,“ sagði Þórunn.
„Þessar staðreyndir endurspegla verulegt ójafnvægi þegar kemur að lífsstíl fólks sem aftur hefur stórfelld áhrif á umhverfið, meðal annars vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, land- og vatnsnotkunar og ýmissar mengunar sem hlýst af matarframleiðslu. Þetta virðist allt vera langt í burtu frá okkur en auðvitað er það ekki svo. Sem betur fer höfum við Íslendingar nú tekið þessi mál á dagskrá og reynt að spyrna fótum við matarsóun hér á landi. Haldnar hafa verið ráðstefnur og fundir á vegum ýmissa félagasamtaka eins og Kvenfélagasambands Íslands þar sem málefnið hefur verið tekið fyrir. Eins og fram hefur komið er umfang matarsóunar hér á landi því miður ansi mikið,“ sagði Þórunn.
Ræða Þórunnar Egilsdóttur:

Categories
Fréttir

„Svo virðist sem nokkur siðferðisbrestur þjaki stjórnendur fyrirtækisins“

Deila grein

06/05/2015

„Svo virðist sem nokkur siðferðisbrestur þjaki stjórnendur fyrirtækisins“

Þorsteinn-sæmundssonÞorsteinn Sæmundsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismenn, hafa lagt fram beiðni um að Ríkisendurskoðun annist úttekt á rekstri Isavia. Þetta kom fram í umræðum um störf þingsins á Alþingi í gær.
Beiðnin var lögð fram fyrir nokkrum vikum og verður rædd í dag á fundi forsætisnefndar þingsins.
„Svo virðist sem nokkur siðferðisbrestur þjaki stjórnendur fyrirtækisins. Þeir hafa gengið fram af fruntaskap í starfsmannamálum þannig að eftir hefur verið tekið. Þeir hafa notað skattfé almennings til að greiða niður árshátíð starfsmanna og stjórnenda í áður óþekktum mæli. Og nú síðast hafa þeir lagt sérstakan skatt á eina stétt sem stundar þjónustu við Leifsstöð, leigubílstjóra. Sá skattur nemur 120 þús. kr. á ári eða 15 þús. kr. á mánuði eða að menn borga tæpar 500 kr. í hvert einasta skipti sem farþegi er sóttur í Leifsstöð,“ sagði Þorsteinn.
„Það segir sig sjálft að það liggur ekki fyrir hvort þessi ráðstöfun stenst lög eða reglur. Það segir sig líka sjálft að það er ekki gæfulegt að leggjast á eina stétt þjónustuaðila þar syðra og láta hana greiða niður kostnað við rekstur þessa fyrirtækis. Í rekstri af þessari stærð hljóta að vera aðrar leiðir til að leita hagræðingar en sú að skattleggja þessa þjónustu. Þessi þjónusta mun þá væntanlega hækka líka fyrir þá sem nota hana, þ.e. farþega,“ sagði Þorsteinn ennfremur.
Ræða Þorsteins Sæmundssonar:

Categories
Fréttir

„Eins og að kasta steini úr glerhúsi“

Deila grein

30/04/2015

„Eins og að kasta steini úr glerhúsi“

Elsa-Lara-mynd01-vefurElsa Lára Arnardóttir, alþingismaður, minnti Samfylkinguna á að hún verði nú að gæta allrar sanngirni í gagnrýni á hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttur, á Alþingi.
„Þingmenn Samfylkingarinnar voru ráðherrar í félagsmálaráðuneytinu, síðar velferðarráðuneytinu, árin 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og fram að kosningum árið 2013. Á því kjörtímabili sem nú er hefur hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir verið félags- og húsnæðismálaráðherra og þegar hún kom inn í ráðuneytið og byrjaði að vinna að frumvörpum er varða bættan leigumarkaði kom fram að það voru ekki til nein frumvörp er varða bættan leigumarkað frá þeim árum sem upp voru talin áðan, ekki einu sinni drög að frumvörpum þessa efnis,“ sagði Elsa Lára.
Tilefni þessara orða Elsu Láru var gagnrýni Kristjáns L. Möller, alþingismanns, hversu langur tími hafi nú liðið frá því að verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála hafi skilað af sér eða rétt tæpt ár. En nú eru tvö af fjórum húsnæðisfrumvörpum Eyglóar, húsaleigulög og húsnæðissamvinnufélög, komin til velferðarnefndar.
„Til að gæta allrar sanngirni í umræðunni verður að koma fram að mikið samráð var innan velferðarráðuneytisins við vinnslu frumvarpanna. Þar komu fram mismunandi sjónarhorn frá mörgum aðilum sem horfa þurfti til,“ bætti Elsa Lára við.
„Síðasta kjörtímabil var fjögur ár eins og flest önnur kjörtímabil hingað til. Að hæstvirtur þingmaður gagnrýni núverandi ríkisstjórn fyrir seinagang í þessum málum kemur úr hörðustu átt, það er eins og að kasta steini úr glerhúsi,“ sagði Elsa Lára.
Ræða Elsu Láru Arnardóttur: