Categories
Fréttir

Ofanflóðavarnir til að verja íbúðabyggð hafa sannað gildi sitt

Deila grein

21/08/2023

Ofanflóðavarnir til að verja íbúðabyggð hafa sannað gildi sitt

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, var í liðinni viku á ferð um Múlaþing og Fjarðabyggð og átti ánægjuleg samtöl við sveitarstjórnarfólk og aðra fulltrúa byggðarlaganna.

„Við Íslendingar þekkjum flestum betur hvernig er að búa við náttúruvá. Hér verða reglulega stórir jarðskjálftar, eldsumbrot og aftakaveður koma hér af og til. Landsmenn hafa aðlagað sig þessum aðstæðum og umfangsmikið rannsóknar- og vöktunarstarf er unnið í því skyni að tryggja hér lífvænleg skilyrði til búsetu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson

Ofanflóðavarnir til að verja íbúðabyggð hafa sannað gildi sitt. Slíkar aðgerðir munu áfram vera í forgangi stjórnvalda. Jafnframt er nú tímabært og nauðsynlegt að huga að undirbúningi á atvinnusvæðum og skipulagi m.t.t. náttúruvá ásamt aukinni vöktun á snjóflóðahættusvæðum.

„Því er mikill fengur að vandaðri samantekt frá Veðurstofunni um þörf fyrir varnir á atvinnusvæðum og eiga fundi með íbúum um niðurstöður hennar. Auk þess gæti eldri þekking sem er við það að falla í gleymskunar dá komið að góðum notum. Útfærslan er eftir, áskorunin stór sem unnin er í samráði við heimamenn,“ segir Sigurður Ingi.

Við Íslendingar þekkjum flestum betur hvernig er að búa við náttúruvá. Hér verða reglulega stórir jarðskjálftar,…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Föstudagur, 18. ágúst 2023
Categories
Fréttir Greinar

Afl til allra átta

Deila grein

16/08/2023

Afl til allra átta

Margs konar tækifæri og áskoranir fylgja aukinni ferðaþjónustu. Áherslur hafa breyst og uppbygging hefur á sér ýmsar myndir líkt og fjölbreytt verkefni hringinn í kringum landið bera með sér. Við getum nú skoðað fleiri minjar, höfum aðgengi að nýjum stöðum og aðkoma að dýrmætum náttúruperlum hefur bæst til muna. Ásamt þessu hefur aðstaða fyrir gesti aldrei verið betri.

Mikilvægt er að brugðist sé við óskum um innspýtingu vegna uppbyggingar efnislegra innviða á ferðamannastöðum í kjölfar mikillar fjölgunar ferðamanna. Frá árinu 2018 hefur yfir 4,7 milljörðum verið veitt úr landsáætlun til uppbyggingar í fjölmörgum verkefnum. Því fjármagni hefur verið skipt á um 170 staði um allt land. Umsjónaraðilar hafa unnið vel að því undirbúa svæðin betur svo þau geti tekið á móti þeim aukna gestafjölda sem framtíðin ber í skauti sér. Það er því gott að sjá að gert er ráð fyrir um 2,7 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára, en betur má ef duga skal.

Mikilvægt fjármagn

Þann 11. ágúst sl. bárust fréttir frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu um að 908 milljónum króna yrði úthlutað úr Landsáætlun til uppbyggingar innviða á þessu ári skv. úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum. Fjármagnið veitir mikilvæg tækifæri til að setja fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, eflingu öryggis, skipulag og hönnun við ferðamannastaði. Hins vegar er þörf á endurskoðun á skiptingu þess milli landshluta.

Þörf á jafnri skiptingu

Þegar litið er til úthlutunar fjármagns úr Landsáætlun eftir landshlutum kemur í ljós að veruleg misskipting er milli landsvæða. Bróðurpartur fjármagnsins, 71%, hefur farið í eina átt, þ.e. til Suðurlands. Þetta er annað árið í röð sem meirihluti fjármagnsins er úthlutað til Suðurlands. Árið 2022 fór rétt um 50% af 908 milljónum króna í verkefni tengd uppbygginu innviða á Suðurlandi.

Barist er fyrir stöndugri ferðaþjónustu um allt land, en á mörgum stöðum er nauðsynlegt að frekari uppbygging innviða eigi sér stað á fjölförnum stöðum svo að það gangi upp. Það á við á allri landsbyggðinni þar sem auðlindir eru víða og tækifæri í ferðaþjónustu eru fjölmörg en að mörgu leyti vanýtt. Tenging milli úthlutunarinnar og stefnu stjórnvalda um dreifingu ferðamanna er ekki auðsýnileg. Sérstaklega ekki þegar kemur að þeim verkefnum, sem finnast um land allt og kalla á frekari uppbyggingu. Fjölmörg verkefni bíða okkar og ákallið kemur úr öllum áttum. Það skiptir sköpum að fjármunir séu nýttir með þeim hætti að þeir efli spennandi uppbyggingu í öllum landshlutum á jafnan máta.

Samfélagið, þingmenn og ráðherrar þurfa að átta sig á að misskipting fjármagns á milli landshluta af þessu tagi ýtir sannarlega ekki undir það markmið að allir hafi jöfn tækifæri óháð búsetu.

Þarna þurfum við að gera betur.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. ágúst 2023.

Categories
Fréttir

Ný Tónlistarmiðstöð!

Deila grein

16/08/2023

Ný Tónlistarmiðstöð!

Tónlistarmiðstöðin mun verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og tónlistariðnaðar, sinna bæði fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Til hamingju með daginn íslenskt tónlistarfólk – og við öll!

Í dag fór fram stofnfundur Tónlistarmiðstöðvar í Hörpu. Stjórn Tónlistarmiðstöðvar var kynnt á fundinum en formaður stjórnar miðstöðvarinnar er Einar Bárðarson.

Stjórnina skipa auk Einars þau Sólrún Sumarliðadóttir, Ásmundur Jónsson, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Gunnar Hrafnsson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal. Varamenn í stjórn verða Arna Kristín Einarsdóttir, Baldur Þórir Guðmundsson, Sölvi Blöndal, Bragi Valdimar Skúlason, Margrét Eir Hönnudóttir, Bergrún Snæbjörnsdóttir og Aron Örn Óskarsson.

Á viðburðinum í Hörpu tóku meðal annars til máls Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Steindór Dan Jensen formaður bráðabirgðastjórnar og Einar Bárðarson nýr formaður Tónlistarmiðstöðvar. Einnig ávarpaði Jakob Frímann Magnússon gesti fyrir hönd starfshópsins sem vann að nýsamþykktri tónlistarstefnu og stofnun Tónlistarmiðstöðvar.

„Þetta er mikill gleðidagur og einstaklega mikilvægur áfangi fyrir tónlist og tónlistarfólk hér á landi. Þetta er löngu tímabært skref sem mun styrkja tónlistargeirann til framtíðar. Tónlistarmiðstöðin getur orðið einn af hornsteinum tónlistarlífs og -iðnaðar og það er mín von og trú að tónlistarsenan hér á landi muni blómstra sem aldrei fyrr,“ sagði menningar- og viðskiptaráðherra í Hörpu í dag.

Stofnaðilar Tónlistarmiðstöðvar eru STEF, Félag hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Tónskáldafélag Íslands auk menningar- og viðskiptaráðherra f.h. ríkissjóðs. Öll félögin eiga fulltrúa í stjórninni. Tónlistarmiðstöð starfar samkvæmt nýjum tónlistarlögum, nr. 33/2023.

Hornsteinn í íslensku tónlistarlífi

Tónlistarmiðstöð er stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Á árunum 2023-2025 er ráðgert að samtals 600 milljónir renni af fjárlögum til stofnunar Tónlistarmiðstöðvar og til eflingar sjóða tónlistar til viðbótar við þau framlög sem renna nú þegar til tónlistar.

„Ég þakka starfshópnum og bráðabirgðastjórninni fyrir vel unnið starf. Tónlistarmiðstöð er afrakstur samstarfs tónlistargeirans og ráðuneytisins og byggir á tillögum grasrótarinnar. Með góðu samstarfi má svo sannarlega hrinda stórum hugmyndum í framkvæmd á tiltölulega skömmum tíma,“ sagði ráðherra meðal annars í ávarpi sínu í dag.

Ný stjórn Tónlistarmiðstöðvar tekur við af bráðabirgðastjórn en hana skipuðu Steindór Dan Jensen, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Gunnar Hrafnsson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal.

Starfshópinn sem vann að undirbúningi stofnunar Tónlistarmiðstöðvar skipuðu Jakob Frímann Magnússon, Baldur Þórir Guðmundsson, Bragi Valdimar Skúlason, Bryndís Jónatansdóttir, Eiður Arnarsson, Gunnar Hrafnsson, María Rut Reynisdóttir, Sólrún Sumarliðadóttir og Valgerður Guðrún Halldórsdóttir,

Uppbygging tónlistariðnaðar

Tónlistarmiðstöðin mun bæði sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð mun styðja við uppbyggingu sprota og hlúa að ferli listafólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjölbreytni og grósku og að starfsumhverfið verði nútímalegt og hvetjandi fyrir íslenskt tónlistarlíf.

Með stofnun Tónlistarmiðstöðvar er stigið stórt skref í áttina að því að veita listgreininni aukið vægi og til að greiða leið íslensks tónlistarfólks, innan lands sem utan.

Tónlistarmiðstöð er sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og starfar samkvæmt sérstakri skipulagsskrá sem stjórn setur og staðfestir.

Gleðidagur! 🎶🎼🎵 Ný Tónlistarmiðstöð var formlega stofnuð í dag. Tilkoma hennar mun marka vatnaskil í stuðningi við…

Posted by Lilja Dögg Alfreðsdóttir on Þriðjudagur, 15. ágúst 2023
Categories
Fréttir

Ný framkvæmdaráætlun í barnavernd!

Deila grein

16/08/2023

Ný framkvæmdaráætlun í barnavernd!

„Er ótrúlega ánægður með áframhaldandi róttækar breytingar í málefnum barna. Þessar breytingar eru mikilvægt framhald af vinnu sem nú er í gangi og  byggja á þeim grunni sem lagður er með niðurlagningu pólitískra barnaverndarnefnda og þeim áhrifum sem lög um farsæld barna eru byrjuð að hafa.

Það er ánægjulegt að í fyrsta skipti var haft sérstakt samráð við börn sem hafa reynslu af barnaverndarkerfinu og þeirra innlegg voru mjög mikilvæg,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Morgunverðarfundur mennta- og barnamálaráðuneytisins um nýja framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2023 til 2027 fór fram í vikunni og voru á fundinum kynntar tillögur að aðgerðum og fyrirkomulagi þjónustu við börn með fjölþættan vanda.

Upptöku frá fundinum má nálgast hér.

Ný framkvæmdaráætlun felur m.a. í sér:

  • Fjölgun úrræða fyrir börn og fjölskyldur þeirra þar sem m.a. verða sett upp ný meðferðarúrræði.
  • Öll alvarleg atvik í lífi barna verði könnuð í þeim tilgangi að koma auga á tækifæri til úrbóta í þjónustu við börn.
  • Heildarendurskoðun barnaverndarlaga þar sem sérstaklega verði endurskipulögð öll úrræði í málefnum barna og settur verði hámarksbiðtími eftir nauðsynlegri þjónustu.
  • Samhæfing í vinnslu allra barnaverndarmála verður aukin.
  • Endurskipulagningu verklags í þjónustu við fylgdarlaus börn.
  • Umhverfi barnaverndarstarfsmanna verði bætt með ýmsum aðgerðum.
  • Unnið verði að því að stofnanir og þjónustuaðilar í málefnum barna sameinist á einum stað með það að markmiði að stytta boðleiðir og auka skilvirkni.
  • Samstarf verði aukið við fjölskyldur, börn, nærumhverfi barna og kerfa sem hafa aðkomu að málefnum barna.

„Takk allir sem komu að þessari vinnu – Saman erum við að breyta kerfinu fyrir okkar mikilvægustu borgara.“

Ný framkvæmdaráætlun í barnavernd! Er ótrúlega ánægður með áframhaldandi róttækar breytingar í málefnum barna. Þessar…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Þriðjudagur, 15. ágúst 2023
Categories
Fréttir

Endurskoðun landsskipulagsstefnu til næstu ára

Deila grein

14/08/2023

Endurskoðun landsskipulagsstefnu til næstu ára

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hyggst á komandi haustþingi leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára og er hægt að nálgast hana í samráðsgátt stjórnvalda. Grænbókin er liður í endurskoðun á landsskipulagsstefnu 2015-2026. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 24. ágúst nk.

Í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og lög nr. 30/2023 um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála leggur ráðherra fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til fimmtán ára. Í tillögunni skal felast endurskoðun á gildandi landsskipulagsstefnu þegar þörf er á, ásamt greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu. Í landsskipulagsstefnu eru samþættar áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun og nýtingu og vernd auðlinda haf- og strandsvæða með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Grænbókin byggir m.a. á fyrirliggjandi gögnum frá Skipulagsstofnun og öðrum opinberum aðilum, vinnu starfshópa, rafrænni spurningakönnun meðal sveitarfélaga, opnu samráði við almenning og aðra hagaðila, m.a. með fundaröðinni „Vörðum leiðina saman“ sem haldin var í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, sem og rafrænni spurningakönnun meðal ungs fólks.

Grænbókin leggur grunn að endurskoðun landsskipulagsstefnu til næstu ára. Í henni er stöðumat og drög að lykilviðfangsefnum, framtíðarsýn og áherslum, sem og nálgun við mat á umhverfisáhrifum. Samhliða grænbók eru drög að greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu í kynningu sem viðauki.

Mikilvægt er að fá fram skoðanir og álit almennings og annarra hagaðila og eru því öll hvött til að kynna sér efni grænbókarinnar og senda umsögn sína inn í samráðsgáttina. Á grundvelli hennar verður unnið stefnuskjal eða svokölluð hvítbók og í framhaldinu þingsályktunartillaga um landsskipulagsstefnu til 15 ára og fimm ára aðgerðaáætlun.

Stefnt er að því að tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu ásamt greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála verði lögð fram á haustþingi. 

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Skýrsla um hlutverk veitenda geðheilbrigðisþjónustu

Deila grein

14/08/2023

Skýrsla um hlutverk veitenda geðheilbrigðisþjónustu

Starfshópur sem Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, fól að skilgreina hlutverk og verkefni þeirra aðila sem veita fyrsta, annars og þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu hefur skilað skýrslu með niðurstöðum sínum.

Verkefnið er liður í framkvæmd aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum til ársins 2027 sem samþykkt var á Alþingi í júní sl.

Stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi í júní í fyrra og aðgerðaáætlun um framkvæmd hennar síðastliðið vor.

Ein þeirra aðgerða sem ákveðið var að setja í forgang (2.C.1) felst í því að skilgreina hlutverk og verkefni þeirra sem veita geðheilbrigðisþjónustu á öllum þjónustustigum, greina samvinnu og samfellu þjónustunnar og hvað skorti þar á og koma með áætlun til úrbóta. Aðgerð 2.C.1 er tvíþætt og var starfshópi heilbrigðisráðherra falið að vinna þann hluta hennar sem felst í því að skilgreina hlutverk og verkefni þjónustuveitenda.

Niðurstöður starfshópsins koma fram í meðfylgjandi skýrslu.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Öflug ferðaþjónusta á forsendum samfélagsins

Deila grein

08/08/2023

Öflug ferðaþjónusta á forsendum samfélagsins

Eld­gosið í Eyja­fjalla­jökli árið 2010 markaði ákveðin vatna­skil fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu. Með þessu út­spili sínu kom móðir nátt­úra land­inu ræki­lega á kort er­lendra fréttamiðla um langt skeið með til­heyr­andi aukn­um áhuga á að ferðast til lands­ins. Þannig óx fjöldi ferðamanna úr tæp­lega 500 þúsund árið 2010 í rúm­ar 2,3 millj­ón­ir árið 2018 þegar mest var.

Sam­hliða þessu hef­ur hlut­ur ferðaþjón­ust­unn­ar í lands­fram­leiðslu vaxið mjög en árið 2022 nam hann 7,8% og út­gjöld er­lendra ferðamanna námu 390,4 millj­örðum króna. Áætlað er að rúm­lega 18 þúsund ein­stak­ling­ar hafi starfað við ferðaþjón­ustu hér á landi í fyrra og síðustu fjóra árs­fjórðunga skilaði grein­in 411 millj­örðum króna í út­flutn­ings­tekj­ur eða tæp­um fjórðungi heild­ar­út­flutn­ingstekna þjóðarbús­ins. Það ger­ir grein­ina stærstu gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­grein lands­ins, með til­heyr­andi stuðningi við gengi krón­unn­ar og styrk­ari óskuld­sett­um gjald­eyr­is­forða fyr­ir þjóðarbúið. Þetta skipt­ir miklu máli fyr­ir Ísland.

Það hef­ur hins veg­ar eng­um dulist að vöxt­ur sem þessi reyn­ir á ýmsa þætti sam­fé­lags­ins og öll­um ljóst að Ísland get­ur ekki tekið við enda­laus­um fjölda ferðamanna á hverju ári. Í embætti mínu sem ferðamálaráðherra finn ég sam­eig­in­leg­an skiln­ing á þessu sjón­ar­miði inn­an ferðaþjón­ust­unn­ar. Það er í lagi að vera upp­seld­ur áfangastaður og að færri kom­ist að en vilja. Frá ár­inu 2010 hef­ur mikið vatn runnið til sjáv­ar þegar kem­ur að ferðaþjón­ust­unni. Geta lands­ins til að taka á móti er­lend­um ferðamönn­um hef­ur batnað veru­lega og mik­il­væg reynsla og þekk­ing hef­ur byggst upp í grein­inni. Fjár­fest hef­ur verið af mikl­um metnaði hring­inn í kring­um landið í upp­bygg­ingu áfangastaða og innviða, úr­val af afþrey­ingu og ým­iss kon­ar þjón­ustu hef­ur stór­auk­ist, at­vinnu­líf og bú­setu­skil­yrði batnað um allt land á sama tíma og hingað koma verðmæt­ari ferðamenn. Mæl­ing­ar sýna að ánægja er­lendra ferðamanna með Ísland sem áfangastað er mik­il í er­lend­um sam­an­b­urði. Það er vitn­is­b­urður um að ís­lensk ferðaþjón­usta sé á heims­mæli­kv­arða.

Í upp­gangi og vel­gengni sem þess­ari er hins veg­ar mik­il­vægt að sofna ekki á verðinum, að týna ekki sjálf­um sér; að huga að mörk­um. Það er óbilandi skoðun mín að liður í því að Ísland haldi sjarma sín­um sé að við stönd­um með sér­kenn­um lands og þjóðar, þar með talið tungu­mál­inu. Ég tel til að mynda að all­ar merk­ing­ar eigi að vera fyrst á ís­lensku, og svo á öðru tungu­máli, hvort sem það er í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar eða ann­ars staðar. Fyr­ir dyr­um stend­ur að gera ís­lensk­una miklu sýni­legri en hún hef­ur verið með sam­starfi við ferðaþjón­ust­una og at­vinnu­lífið. Tek­in verða mun ákveðnari skref til þess að gera ís­lensk­unni hærra und­ir höfði. Þetta og meira til verður ein­mitt und­ir í mót­un nýrr­ar aðgerðaáætl­un­ar á sviði ferðamála á grunni sem unnið er að. Það er framtíðar­sýn mín að ís­lensk ferðaþjón­usta eigi að vera leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is; öfl­ug ferðaþjón­usta á for­send­um sam­fé­lags­ins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. ágúst 2023.

Categories
Fréttir

Samstarf um sjálfbæra orku

Deila grein

31/07/2023

Samstarf um sjálfbæra orku

Samband ungra Framsóknarmanna (SUF) og RCDS Germersheim héldu á dögunum fjarfund um samstarf á sviði sjálfbærrar orku. Ræðumenn voru þingmennirnir Oliver Grundmann frá Þýskalandi og Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Fundurinn sem heppnaðist vel er liður í alþjóðlegu samstarfi Sambands ungra Framsóknarmanna og eiga þau hrós skilið fyrir framtakssemina.

Categories
Fréttir Greinar

Efnahagsaðgerðir skila árangri

Deila grein

22/07/2023

Efnahagsaðgerðir skila árangri

Stærsta verkefni hagstjórnarinnar er að ná verðbólgunni í markmið peningastefnunnar. Verðbólgumælingar gærdagsins gefa ákveðin fyrirheit um að efnahagsstjórnin sé á réttri leið og að allar líkur séu á að hagkerfið nái mjúkri lendingu. Hins vegar er afar brýnt að lýsa ekki yfir sigri fyrr en við sjáum verðbólguna komna enn frekar niður, því þarf áframhaldandi festu við stjórn efnahagsmála.

Þróunin jákvæð

Ársverðbólga mælist 7,6% og hefur lækkað töluvert frá júnímánuði en þá var hún 8,9%. Þessi þróun er afar jákvæð og sýnir svart á hvítu að hagkerfið er á réttri leið. Aðgerðir Seðlabanka Íslands eru farnar að hafa mikil áhrif og sjáum við það á því að húsnæðismarkaður er að ná betra jafnvægi. Ný útlán hafa einnig dregist saman. Samhliða aðhaldi í peningamálum sendir ný ríkisfjármálaáætlun skýr skilaboð um að meginverkefni stjórnvalda er að ná tökum á verðbólgunni og draga úr þenslu en á sama tíma standa vörð um velferðarkerfið og þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu okkar. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna hefur verið aukið og gert er ráð fyrir bættri afkomu árið 2024. Skuldir ríkissjóðs eiga að hafa náð hámarki eða sem nemur 33% af landsframleiðslu.

Horfurnar eru góðar

Horfur íslenska ríkissjóðsins eru metnar jákvæðar af hinum alþjóðlegu matsfyrirtækjum Moody’s og Standard & Poor’s. Það mat byggist á verulega bættum horfum ríkissjóðs um afkomu og skuldir, ásamt kröftugum efnahagsbata og því að Ísland býr að öflugum stofnunum og stjórnfestu. Gert er ráð fyrir 4% hagvexti í ár og 2,5% árið 2024 samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands og kemur í kjölfar 6,4% hagvaxtar á síðasta ári. Mikill útflutningur í öllum helstu atvinnugreinunum mun drífa áfram hagvöxt, og þar heldur ferðaþjónustan áfram að setja sitt lóð á vogarskálar ásamt einkaneyslu. Í baráttunni við verðbólguna munar jafnframt um öflugt gjaldeyrisinnstreymi frá þessum stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar. Það eru fáar þjóðir sem hafa náð að koma jafn kröftuglega út úr Covid-19-kreppunni og Ísland. Ánægjulegt er að sjá að afkoma ríkissjóðs hefur ítrekað verið umfram væntingar frá því heimsfaraldurinn skall á. Gert er ráð fyrir í ár að tekjur ríkissjóðs verði nærri 50 ma.kr. hærri en útgjöld ef frá eru talin vaxtatekjur og –gjöld. Þessi jákvæða þróun á lánshæfismatinu mun stuðla að aukinni hagsæld Íslands með lægri fjármögnunarkostnaði ríkissjóðs og fyrirtækja í landinu.

Áhættuþættir eru þó margir

Til að verðbólgan haldi áfram að lækka þarf allt efnahagslífið að vinna að því sameiginlega markmiði. Vinnumarkaðurinn er lykilbreyta í þeirri þróun og ljóst að launahækkanir verða að taka mið af því að verðbólga lækki. Launahækkanir æðstu embættismanna ríkisins hækkuðu því um 2,5%, sem er í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Sveitarstjórnarstigið hefur einnig ákveðið að hækkanir kjörinna fulltrúa taki mið af þessu. Þessar ráðstafanir eru afar mikilvægar til að ná tökum á verðbólguvæntingum og að víxlverkun launa og verðlags verði sjálfbær.

Verðbólgan er enn langt yfir markmiði og verðbólguvæntingar of háar. Það munar þó um að raunstýrivextir eru nú jákvæðir, sem minnkar heildareftirspurn og eykur sparnað í hagkerfinu. Hagstæðar verðbólgumælingar og sterkt gengi munu hafa jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar þegar fram líða stundir. Ríkisfjármálin eru þó enn rekin með halla og því fyrr sem ríkisfjármálin snúast í afgang því betra. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru umtalsverðar og hafa ríkisfjármálin fundið fyrir því á neikvæðan hátt eins og heimili landsins.

Verðbólga á heimsvísu hefur verið á niðurleið og afar brýnt að sú þróun haldi áfram. Allir óvissuþættir hafa auðvitað neikvæð áhrif og er stríðið í Úkraínu einn þáttur í því. Nýverið hafa rússnesk stjórnvöld rift samkomulaginu um útflutning á kornafurðum frá Úkraínu, en það þýddi að verðið hækkaði tímabundið. Öll óvissa er neikvæð í alþjóðaviðskiptum og því ómögulegt að segja hvort alþjóðlegt verðlag verði stöðugt eður ei. Því er afar brýnt fyrir Ísland að afgangur fari að myndast á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins til að draga úr óvissunni. Viðskiptakjör þjóðarinnar hafa verið afar hagkvæm undanfarin misseri og er ekki ávallt á vísan að róa í þeim efnum.

Lokaorð

Þótt öll helstu teikn séu jákvæð um þessar mundir er mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Aðgerðir í peninga- og ríkisfjármálum eru að skila raunverulegum árangri og mikilvægt að missa þá þróun ekki frá sér. Árangur í efnahagsmálum er langhlaup og snýr að trúverðugleika. Ég hef fulla trú á því að komandi kjarasamningar taki mið af því að ná verðbólgunni enn frekar niður. Ljóst er að ríkisstjórnin hefur það að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Lilja Dögg Alfreðsdóttir Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst 22. júlí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Heilbrigðiskerfi í takt við tímann

Deila grein

14/07/2023

Heilbrigðiskerfi í takt við tímann

Árið 1947 var samþykkt á Alþingi að hækka hámarksaldur starfsmanna ríkisins úr 65 árum í 70 ár á þeim forsendum ,,…að flestir opinberir starfsmenn væru færir um að gegna starfinu til sjötugs“. Þó ýmsar breytingar hafi verið gerðar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá árinu 1947 þá stendur reglan um 70 ára hámarksaldur starfsmanna ríkisins óbreytt. Á þessum tíma hefur meðalævi Íslendinga lengst um 10 ár. Lífslíkur á Íslandi eru rúmlega 83 ár í dag og með þeim mestu í Evrópu. Samhliða hækkandi lífaldri Íslendinga hefur heilsa eldra fólks batnað til muna og lífsgæði aukist verulega. Ef sömu rök og forsendur giltu nú og árið 1947 þá væri hámarksaldur starfsmanna ríkisins um 80 ár.

Allt frá árinu 1981 hafa endurtekið komið fram tillögur um hækkun starfslokaaldurs opinberra starfsmanna á þeim forsendum að við lifum lengur og við betri heilsu. Þrátt fyrir góðan vilja og samþykktar þingsályktunartillögur hafa áformin ekki raungerst og 70 ára reglan staðið óbreytt. Þar til nú.

70 ára reglan er komin á aldur

Það skýtur skökku við að á sama tíma og mönnun heilbrigðisþjónustu er ein helsta áskorun heilbrigðiskerfisins hefur opinberum heilbrigðisstofnununum verið gert á grundvelli 70 ára reglunnar að segja starfsfólki undantekningarlaust upp þegar það nær 70 ára aldri. Það hefur viðgengist þrátt fyrir gagnkvæman vilja starfsmanns og vinnuveitenda til að halda áfram störfum. Við slíkar aðstæður hafa stjórnendur opinberra heilbrigðisstofnana gripið til þess ráðs að gera tímavinnu- eða verktakasamninga og eru um 2% heilbrigðistarfsfólks á slíkum samningum í dag vegna aldurs.

Tímavinnu- og verktakasamningar eru óhagstæðir fyrir alla aðila og veita starfsmanninum lakari réttindi veikinda, lífeyris- og orlofs ásamt því að fela í sér talsverða launaskerðingu frá fyrri ráðningarsamningi. Slíkt ójafnræði er ekki til þess fallið að styðja við mönnun í heilbrigðisþjónustu eða gera störf innan opinbera heilbrigðiskerfisins aðlaðandi fyrir þá sem hafa náð 70 ára aldri.

Sveigjanleg starfslok

Í tengslum við forgangsverkefni heilbrigðisráðuneytisins varðandi umbætur á starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks og í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar tókum við af skarið á nýafstöðnu þingi með framlagningu frumvarps um hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks úr 70 árum í 75 ár. Frumvarpið var samþykkt undir þinglok og tekur gildi þann 1. janúar 2024. Hér er um margt merkilegt og mikilvægt mál sem snýr að sveigjanlegum starfslokum og umbótum á réttindum og kjörum heilbrigðisstarfsfólks sem bæði vill og getur unnið lengur en til sjötugs.

Í hinu nýsamþykkta frumvarpi um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn er að finna nýtt ákvæði sem veitir heilbrigðisstarfsfólki heimild til undanþágu frá 70 ára reglunni. Markmiðið er fyrst og fremst að bæta réttindi og kjör þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem kjósa að vinna eftir sjötugt ásamt því að styðja við mönnun í heilbrigðisþjónustu.

Í takt við tímann

Ég bind vonir við að þær umbætur sem lagabreytingarnar fela í sér á réttindum og kjörum heilbrigðisstarfsfólks eftir sjötugt séu til þess fallnar að gera störf í heilbrigðisþjónustu eftir sjötugt meira aðlaðandi og eftirsóknarverðari. Ákvæðið markar tímamót og er vonandi fyrsta skrefið í átt að sveigjanlegum starfslokum opinberra starfsmanna og auknu jafnræði.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. júlí 2023.