Categories
Fréttir Greinar

Styrkleiki og sérstaða Íslands í utanríkismálum

Deila grein

08/03/2025

Styrkleiki og sérstaða Íslands í utanríkismálum

Við lif­um á óvissu­tím­um þar sem ör­ygg­is­mál í Evr­ópu og víðar eru í brenni­depli. Stríðsátök og versn­andi sam­skipti stór­velda hafa sett alþjóðakerfið í upp­nám og gert það ljóst að smærri ríki, á borð við Ísland, þurfa að huga sér­stak­lega að lang­tíma­hags­mun­um sín­um í ut­an­rík­is­mál­um. Á slík­um tím­um er nauðsyn­legt að Ísland haldi skýrri stefnu í ör­ygg­is­mál­um og byggi á þeim varn­artengsl­um sem hafa reynst far­sæl.

Við höf­um sér­stöðu á meðal Evr­ópuþjóða, ekki síst vegna varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in, sem hef­ur tryggt ör­yggi okk­ar í ára­tugi. Við erum ekki í sömu stöðu og marg­ar aðrar þjóðir á meg­in­landi Evr­ópu sem standa and­spæn­is bein­um ógn­un­um vegna stríðsrekst­urs. Þess í stað eig­um við að leggja áherslu á að styrkja þau alþjóðlegu tengsl sem hafa reynst okk­ur best og viðhalda varn­ar­sam­starfi okk­ar á traust­um grunni.

Örygg­is- og varn­ar­sam­starf skipt­ir sköp­um

Ísland hef­ur ára­tuga­langa reynslu af varn­ar­sam­starfi við Banda­rík­in og Atlants­hafs­banda­lagið (NATO). Varn­ar­samn­ing­ur­inn og aðild­in að NATO hafa verið horn­stein­ar ís­lenskr­ar ut­an­rík­is­stefnu og tryggt um leið ör­yggi lands­ins án þess að við þyrft­um að byggja upp eig­in herafla. Staðsetn­ing lands­ins í norður­höf­um skipt­ir máli í alþjóðlegu ör­yggi og ger­ir Ísland að lyk­ilþætti í varn­ar­stefnu NATO.

Með aukn­um ör­ygg­is­áskor­un­um í Evr­ópu hef­ur NATO eflt viðveru sína á Íslandi. Þessi stefna hef­ur skilað sér í aukn­um varn­ar­viðbúnaði og þannig dregið úr hætt­um sem gætu skap­ast í norður­höf­um. Það er því lyk­il­atriði að halda áfram á þess­ari braut og styrkja varn­artengsl okk­ar við banda­lagið í heild sinni.

Mik­il­vægi öfl­ugra varn­artengsla

Ísland hef­ur í ára­tugi átt far­sælt sam­starf við banda­lagsþjóðir sín­ar, bæði inn­an NATO og á tví­hliða grunni. Sam­starf okk­ar við Norður­landa­rík­in, Bret­land og Kan­ada hef­ur styrkt varn­ar­stöðu lands­ins og er mik­il­vægt að halda því áfram. Norður­landa­rík­in hafa sýnt fram á mik­il­vægi svæðis­bund­inn­ar sam­vinnu í ör­ygg­is­mál­um og Ísland get­ur áfram verið hluti af slíkri stefnu án þess að tapa sjálf­stæði sínu í alþjóðamál­um.

Aðild að Evr­ópu­sam­band­inu myndi veikja stöðu Íslands

Aðild að Evr­ópu­sam­band­inu myndi hafa víðtæk áhrif á ut­an­rík­is­stefnu okk­ar og skerða sveigj­an­leika lands­ins í mik­il­væg­um ör­ygg­is­mál­um. Evr­ópu­sam­bandið er póli­tískt tolla­banda­lag sem hef­ur vaxið langt út fyr­ir upp­haf­legt efna­hags­sam­starf og tek­ur nú af­drifa­rík­ar ákv­arðanir um ör­ygg­is- og varn­ar­mál aðild­ar­ríkj­anna.

Ef Ísland gengi í Evr­ópu­sam­bandið myndi það skerða mögu­leika okk­ar til sjálf­stæðrar ákv­arðana­töku í ör­ygg­is­mál­um og gæti dregið úr virkni varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in. Auk þess eru óljós áhrif og eng­in góð sem slík aðild hefði á önn­ur NATO-ríki sem treysta á sam­starf við Ísland í norður­höf­um.

Ekki sundra þjóðinni með ónauðsyn­leg­um deil­um

Á tím­um eins og þess­um er mik­il­vægt að ein­blína á lang­tíma­hags­muni Íslands og tryggja ör­yggi þjóðar­inn­ar með skyn­sam­legri stefnu í alþjóðamál­um. Það er ekki ráðlegt að opna á deil­ur um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og færa þar með all­an fókus ut­an­rík­is­stefnu lands­ins yfir í það verk­efni.

Í stað þess að beina orku okk­ar í slík­ar deil­ur þurf­um við að styrkja varn­ar­sam­starfið, tryggja áfram­hald­andi efna­hags­leg­an stöðug­leika og vera leiðandi afl í alþjóðasam­starfi sem gagn­ast Íslandi sem sjálf­stæðu ríki. Þannig tryggj­um við stöðu okk­ar í sí­breyti­legu alþjóðakerfi án þess að fórna sjálf­stæði okk­ar í mik­il­væg­um mál­um. Við í Fram­sókn erum til í slíkt þver­póli­tískt sam­starf.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2025.

Categories
Fréttir

Þurfum skýr svör um framtíð hjúkrunarrýma

Deila grein

07/03/2025

Þurfum skýr svör um framtíð hjúkrunarrýma

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ítrekaði áhyggjur sínar af framtíð hjúkrunarrýma á Alþingi og krafði núverandi ríkisstjórn um skýr svör um hvort áframhaldandi uppbygging yrði tryggð.

Hún minnti á að fyrri ríkisstjórn hafi sett af stað framkvæmdaáætlun til ársins 2028 sem miðar að uppbyggingu hjúkrunarrýma um land allt. Ingibjörg sagði að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur stæði frammi fyrir einfaldri spurningu: „Ætlar hún að fylgja þessari vinnu eftir?“

Samkvæmt áætlunum eiga um 250 ný hjúkrunarrými að opna á þessu ári. Ingibjörg nefndi sérstaklega að hjúkrunarrýmin á Boðaþingi og Nesvöllum ættu að opna í vor og að samningar um leigu hjúkrunarrýma í Urðarhvarfi væru þegar komnir á rekspöl. Hins vegar lagði hún áherslu á að „orð á blaði nægja ekki“ heldur þurfi skýran pólitískan stuðning og fjármagn.

Ingibjörg gagnrýndi einnig að enn væri ekki komin lausn á framtíð hjúkrunarrýma í Seljahlíð, sem fyrri ríkisstjórn bjargaði í fyrra þegar Reykjavíkurborg ætlaði að loka heimilinu. Hún ítrekaði að með flokk ráðherra í meirihluta í borginni ætti að vera auðvelt að tryggja framtíð hjúkrunarrýmanna án tafar.

Að lokum spurði Ingibjörg hvort núverandi ríkisstjórn ætlaði að fylgja áætlunum fyrri ríkisstjórnar eftir eða hvort ætlað væri að draga úr þeirri uppbyggingu sem þegar hafi verið skipulögð. „Hvernig ætla ný stjórnvöld að tryggja raunhæfa og tímanlega uppbyggingu hjúkrunarrýma svo við lendum ekki aftur í þeirri stöðu að framkvæmdaáætlanir dugi ekki til að mæta vaxandi þörf?“ spurði hún og kallaði eftir skýrum svörum og ákveðnum aðgerðum.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi kallar eftir tafarlausum aðgerðum í vegamálum

Deila grein

06/03/2025

Sigurður Ingi kallar eftir tafarlausum aðgerðum í vegamálum

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, gagnrýndi ástand vega í ræðu á Alþingi og hvatti núverandi ríkisstjórn til að auka fjárveitingar í vegaviðhald. Hann vísaði í eigin reynslu úr samgönguráðuneytinu og minnti á að svipuð staða hefði komið upp þegar hann gegndi embætti samgönguráðherra á árunum 2017–2021.

Sigurður Ingi sagði að ástand vega hefði versnað verulega víða um land, sérstaklega á Vesturlandi, þar sem vegir sem voru í góðu ástandi árið 2018 væru nú hrundir. Hann benti á að aukin umferð og veðuraðstæður hefðu haft mikil áhrif á burðarlag vega og kallaði eftir tafarlausum aðgerðum til að tryggja öryggi vegfarenda.

Hann rifjaði upp að í fyrri ríkisstjórn hefði verið gripið til aðgerða þegar sambærileg staða kom upp. Þá hafi hann aflað upplýsinga frá Vegagerðinni, farið í ríkisstjórnina og fengið samþykkt 4 milljarða króna úr varasjóði til viðgerða á vegum. Þó tók tvö ár að koma þeim fjármunum í framkvæmd, þar sem ekki sé alltaf nóg að auka fjármagn heldur þurfi að tryggja að verktakar og verkferlar séu til staðar. Hann nefndi að fjárfesting sú hafi skilað árangri, en nú væri staðan aftur orðin alvarleg og þyrfti að bregðast við án tafar.

Í ræðu sinni gagnrýndi Sigurður Ingi að núverandi samgönguráðherra hefði fyrst og fremst horft til fortíðar í umræðunni í stað þess að setja fram skýrar lausnir. Hann vísaði til þess að ráðherrann hefði lagt áherslu á að ástand vega væri arfleifð fyrri ríkisstjórna í stað þess að leggja fram skýra aðgerðaáætlun. Hann minnti á að viðhaldsfjárveitingar hefðu aukist verulega á síðustu árum, úr 5,5 milljörðum árið 2017 í 13-14 milljarða í dag, og að stefnt væri að frekari hækkunum í fjármálaáætlun. Hann lagði þó áherslu á að þrátt fyrir þessa aukningu væri ekki nægilegt fjármagn sett í vegaviðhald og að grípa þyrfti til frekari aðgerða.

Sigurður Ingi beindi loks spurningu til núverandi samgönguráðherra og ríkisstjórnarinnar: Í stað þess „að bölsótast út í fortíðina og segja að þetta væri allt ómögulegt“, heldur segja hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til til að bæta ástand vega um landið? Hann kallaði eftir aukinni fjárfestingu og markvissari viðhaldsáætlun til að tryggja öruggari samgöngur fyrir landsmenn.

Categories
Fréttir Greinar

Ruglið um kyrrstöðuna

Deila grein

06/03/2025

Ruglið um kyrrstöðuna

Við veit­um því ekki eft­ir­tekt í dag­legu lífi en snún­ing­ur jarðar ger­ir það að verk­um að við erum í raun á ríf­lega 700 kíló­metra hraða á klukku­stund alla daga hér á Íslandi. Að sama skapi er sam­fé­lagið á fleygi­ferð þótt við tök­um ef til vill ekki alltaf eft­ir því. Það er áhuga­vert, á köfl­um átak­an­legt, að hlusta á mál­flutn­ing rík­is­stjórn­ar­flokk­anna þar sem þeim verður tíðrætt um að „rjúfa kyrr­stöðuna“. Fyr­ir skömmu fór þing­flokks­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar mik­inn í Viku­lok­un­um á Rás 1 og þingmaður Viðreisn­ar, María Rut Krist­ins­dótt­ir, skrifaði grein í sama anda í Morg­un­blaðinu 19. fe­brú­ar. Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, þingmaður Flokks fólks­ins, rit­ar grein í sama dúr hinn 25. fe­brú­ar. Yf­ir­lýs­ing­ar þeirra eru reist­ar á ótrú­legri staðreyndafirr­ingu – eða þá að staðreynd­irn­ar skipta þau hrein­lega engu máli.

Hús­næðismál: Öflug­asta upp­bygg­ing í ára­tugi

Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur gríðarleg­ur þungi verið lagður í upp­bygg­ingu hús­næðis. Sig­urður Ingi Jó­hanns­son og Fram­sókn hafa leitt marg­vís­leg mik­il­væg verk­efni sem bein­ast að því að tryggja jafn­vægi á hús­næðismarkaði og auka hús­næðis­ör­yggi lands­manna.

• Síðastliðin sjö ár hef­ur full­bún­um íbúðum á land­inu fjölgað um 25.000 og aldrei áður hafa jafn marg­ar íbúðir verið byggðar utan höfuðborg­ar­svæðis­ins.

• Tíma­móta­samn­ing­ur rík­is og sveit­ar­fé­laga var und­ir­ritaður árið 2022 um að byggja 35.000 íbúðir frá 2023 til 2032. Þar af eiga 30% að vera hag­kvæm fyr­ir tekju- og eignam­inni hópa og 5% fé­lags­legt hús­næði. Þetta mark­mið skal end­ur­skoða ár­lega og Reykja­vík reið á vaðið með sér­stak­an samn­ing um 16.000 nýj­ar íbúðir á tíu árum.

• Rík­is­stjórn­in hef­ur stór­aukið stofn­fram­lög og hlut­deild­ar­lán; um 4.300 íbúðir hafa verið fjár­magnaðar með þess­um hætti og stuðning­ur rík­is­ins við hús­næðismál hleyp­ur á tug­um millj­arða króna.

• Sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur var greidd­ur út vegna hækk­andi vaxta, 5,5 millj­arðar króna sem náðu til tæp­lega 56 þúsund ein­stak­linga.

• Rétt­arstaða leigj­enda var styrkt með end­ur­skoðun á húsa­leigu­lög­um og sveit­ar­fé­lög fengu aukn­ar heim­ild­ir til að tryggja að bygg­ing­ar­fram­kvæmd­ir gengju eft­ir, meðal ann­ars með tíma­bundn­um upp­bygg­ing­ar­heim­ild­um.

Stór­sókn í sam­göngu­mál­um

Önnur full­yrðing sem oft heyr­ist frá tals­mönn­um „kyrr­stöðukórs­ins“ er að ekk­ert miði í sam­göng­um. Staðreynd­irn­ar segja annað:

• Fjár­fest­ing­ar í sam­göng­um hafa verið með mesta móti síðustu ár og veru­lega verið bætt í viðhald vega. Alþing­is bíður að fjalla um og staðfesta nýja sam­göngu­áætlun, en á þeirri sam­göngu­áætlun sem lögð var fyr­ir þingið síðastliðinn þing­vet­ur fyr­ir árin 2024-2038 eru 909 millj­arðar króna í beina fjár­fest­ingu á fimmtán árum, þar af 263 millj­arðar fyrstu fimm árin. Þar að auki bæt­ist við fjár­mögn­un í sam­starfs­verk­efn­um eins og Sunda­braut og Ölfusár­brú.

• Ein­breiðum brúm fækk­ar stöðugt og stefnt er að því að eng­in ein­breið brú verði eft­ir að loknu áætl­un­ar­tíma­bil­inu. Gríðarlegt átak í bundnu slit­lagi held­ur áfram, auk sam­göngu­verk­efna á borð við Reykja­nes­braut, Suður­lands­veg, Kjal­ar­nes, Foss­vogs­brú, fram­kvæmd­ir sem til­greind­ar eru í jarðganga­áætl­un og aðrar fram­kvæmd­ir víða um land. Fram­kvæmd­ir við Sunda­braut eru komn­ar á rek­spöl þannig að stefnt er að opn­un árið 2031.

• Vara­flug­vall­ar­gjald var leitt í lög til að byggja upp inn­an­lands­flug­velli og veru­leg upp­bygg­ing hef­ur átt sér stað meðal ann­ars á Ak­ur­eyr­arflug­velli.

Heil­brigðismál: Aldrei meiri fjár­fest­ing

Sjald­an hafa orðið jafn víðtæk­ar fram­far­ir í heil­brigðis­kerf­inu og á síðustu árum. Will­um Þór Þórs­son fv. heil­brigðisráðherra beitti sér af miklu afli fyr­ir fjöl­breytt­um aðgerðum til að bæta þjón­ustu og lækka greiðsluþátt­töku sjúk­linga:

• Lang­tíma­samn­ing­ar við sjúkraþjálf­ara, sér­greina­lækna og tann­lækna sem tekn­ir voru upp eft­ir fjög­urra ára samn­ings­leysi.

• Stór­auk­in end­ur­hæf­ing­ar­rými, upp­bygg­ing á bráðamót­tök­um og heilsu­gæslu­stöðvum um allt land; m.a. í Reykja­nes­bæ og á Ak­ur­eyri.

• Marg­ir biðlist­ar hafa styst með samn­ing­um til að mynda um kaup á liðskiptaaðgerðum og aðgerðum vegna en­dómetríósu.

• Fjar­skipta­lækn­ir og upp­bygg­ing tækni­búnaðar við bráðaþjón­ustu um land allt, til að jafna aðgengi og bæta ör­yggi.

• Mikl­ar fram­kvæmd­ir standa yfir vegna Nýja Land­spít­al­ans (stærsta op­in­bera fram­kvæmd Íslands­sög­unn­ar) upp á sam­tals 210 millj­arða, auk þess sem ráðist hef­ur verið í und­ir­bún­ing að áfanga 2 og nýju geðsjúkra­húsi. Svo mætti lengi áfram telja.

Kyrrstaðan í efna­hags­mál­um?

Ein furðuleg­asta goðsögn­in er að ís­lensk efna­hags­mál séu í kyrr­stöðu. Þvert á móti hef­ur hag­vöxt­ur verið kröft­ug­ur og at­vinnu­leysi með því minnsta sem þekk­ist í Evr­ópu.

Ísland hef­ur staðið af sér mikl­ar áskor­an­ir, frá falli WOW til heims­far­ald­urs covid-19 og jarðhrær­inga á Reykja­nesi. Þrátt fyr­ir það hef­ur hag­kerfið sýnt ótrú­lega þraut­seigju, þar sem hag­vöxt­ur hef­ur hald­ist sterk­ur og at­vinnu­leysi verið minna en í ESB und­an­far­inn ára­tug. Raun­ar hef­ur helsta áskor­un Seðlabank­ans verið að halda aft­ur af þess­um mikla krafti m.a. með hækk­un vaxta.

Kyrrstaðan um ESB

Eina raun­veru­lega kyrrstaðan sem þessi rík­is­stjórn gæti rofið er kyrrstaðan um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Sá leiðang­ur var geng­inn til þraut­ar síðast þegar Sam­fylk­ing­in sat í for­sæt­is­ráðuneyt­inu og að lok­um var viðræðum slitið. Í ljós hafði komið, sem marg­ir höfðu raun­ar bent á löngu áður, að hags­mun­um Íslands væri bet­ur borgið utan sam­bands­ins. Leiðang­ur­inn var kostnaðarsam­ur og tíma­frek­ur, skipti ís­lenskri þjóð upp í fylk­ing­ar og niðurstaðan fyr­ir­sjá­an­leg. Nú á að gera sömu mis­tök­in aft­ur.

Það eina sem hef­ur breyst er að ný­út­gefn­ar skýrsl­ur staðfesta að Evr­ópa stend­ur frammi fyr­ir veru­leg­um áskor­un­um, at­vinnu­leysi er óviðun­andi, hag­vöxt­ur slak­ur og skort­ur á sam­keppn­is­hæfni veru­legt áhyggju­efni. Á sama tíma hef­ur ís­lenskt efna­hags­líf ein­kennst af mikl­um þrótti síðustu ár og ein helsta áskor­un­in fal­ist í því að halda aft­ur af spennu og af­leiddri verðbólgu.

Þegar allt kem­ur til alls

Er allt full­komið? Nei. Auðvitað ekki. Áskor­an­ir við stjórn­un og framþróun sam­fé­lags­ins munu alltaf fyr­ir­finn­ast og verk­efni nýrr­ar rík­is­stjórn­ar verður án efa krefj­andi þótt hún taki sann­ar­lega við góðu búi fyrri rík­is­stjórn­ar. Upp munu koma áskor­an­ir sem ekki eru á sjón­deild­ar­hringn­um þegar þetta er skrifað og öll get­um við sam­ein­ast í því að óska þeim sem fara með valdið velfarnaðar.

Allt tal um að rjúfa kyrr­stöðu er inn­an­tómt þegar horft er til staðreynda. Það má kannski gefa tals­mönn­um Sam­fylk­ing­ar og Viðreisn­ar prik fyr­ir snjalla póli­tík, því það er sann­ar­lega auðvelt að „rjúfa kyrr­stöðu“ sem á sér enga stoð í raun­veru­leik­an­um. Áróður þeirra skilaði nokkr­um ár­angri í síðustu kosn­ing­um, en nú væri vert að þau nálguðust verk­efni sín af virðingu og ábyrgð og hættu þess­um fyr­ir­slætti.

Svo má kannski svona á létt­um nót­um í rest­ina, úr því þingmaður Viðreisn­ar er áhuga­sam­ur um að skíra börn sem nálg­ast ferm­ingu með vís­an í skrif henn­ar um fyrri rík­is­stjórn, gefa nýrri rík­is­stjórn nafn við hæfi. Nafnið „end­ur­vinnslu­stjórn­in“ færi þeim vel, enda er lítið að frétta af þeim bæn­um annað en fram­lagn­ing frum­varpa fyrri rík­is­stjórn­ar.

Helgi Héðinsson, fram­kvæmda­stjóri Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hugum að sameiginlegum gildum

Deila grein

06/03/2025

Hugum að sameiginlegum gildum

Alþjóðamál hafa ekki verið jafn þýðing­ar­mik­il í ára­tugi. Það er brýnt að tryggja hags­muni Íslands með skyn­sam­legri og mark­vissri stefnu. Í sí­breyti­legu alþjóðlegu um­hverfi, þar sem efna­hags­leg, póli­tísk og ör­yggis­tengd mál þró­ast hratt, skipt­ir sköp­um að ís­lensk stjórn­völd og fyr­ir­tæki séu vel und­ir­bú­in til að tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir. Staða Íslands á alþjóðavett­vangi er sterk vegna þess að stjórn­völd frá lýðveld­is­stofn­un hafa valið far­sæla veg­ferð. Til að mynda var Ísland stofnaðili að Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum, Alþjóðabank­an­um, Atlants­hafs­banda­lag­inu og Norður­landaráði. Seinna meir var ákveðið að ger­ast stofnaðili að Efna­hags- og fram­fara­stof­un­inni og Evr­ópska efna­hags­svæðinu. Þátt­taka Íslands hef­ur reynst vera giftu­rík og það er afar mik­il­vægt fyr­ir lítið opið hag­kerfi að vera virk­ur þátt­tak­andi á alþjóðavett­vangi. Það rík­ir í dag nokkuð góð sátt um þátt­töku í of­an­greind­um alþjóðastofn­un­um. Mest­ur styr stóð um aðild Íslands að Atlants­hafs­banda­lag­inu og seinna meir svo gerð tví­hliða varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in árið 1951. Þegar ákv­arðanir voru tekn­ar á sín­um tíma, þá vildu stjórn­völd vera í banda­lagi með lýðræðisþjóðum og þeim sem deildu sams­kon­ar heims­sýn. Þessi saga þjóðar­inn­ar á upp­hafs­ár­um lýðveld­is­ins eld­ist vel.

Ýmsir meta stöðuna í heims­mál­um á þann veg að brýnt sé að flýta skoðun á kost­um og göll­um þess að Ísland ger­ist aðili að Evr­ópu­sam­band­inu og að þjóðar­at­kvæðagreiðsla um fram­hald viðræðna fari fram sem allra fyrst. Þetta séu hrein­lega þjóðar­hags­mun­ir! Mér finnst afar brýnt að öll stærri hags­muna­mál Íslands fari í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Var­ast skal þó að flýta þessu máli, áður en heild­ar­hags­muna­mat hef­ur verið gert. Skömmu eft­ir efna­hags­hrunið ákvað rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur að sækja um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, þegar Ísland og öll þjóðin var í mikl­um sár­um. Ekki var hugað að því, því nota átti ferðina til að koma land­inu í Evr­ópu­sam­bandið. Öll sú veg­ferð var mis­lukkuð, þar sem þjóðin var ekki spurð og ekki ríkti ein­ing um málið í rík­is­stjórn­inni. Allt eitt bjölluat. Ég vara ein­dregið við því að hefja nýja ESB-veg­ferð, þegar mik­il óvissa rík­ir í alþjóðastjórn­mál­um. Íslandi hef­ur farn­ast vel að velja trausta banda­menn og ég hef fulla trú á því að svo verði áfram, ef við höf­um þjóðar­hags­muni að leiðarljósi. Evr­ópu­sam­bandið er ekki varn­ar­banda­lag og hef­ur ekki sam­eig­in­leg­an her. Fram­kvæmda­stjóri banda­lags­ins hef­ur vissu­lega til­kynnt um stór­auk­in fram­lög til ör­ygg­is- og varn­ar­mála vegna þeirr­ar stöðu sem uppi er í Evr­ópu. Hins veg­ar rík­ir enn mik­il óvissa og við verðum að sjá hvernig mál­in þró­ast. Að þessu sögðu er afar mik­il­vægt að móta þver­póli­tíska ör­ygg­is- og varn­ar­stefnu. Þeirri vinnu ber að flýta og einnig meta hin þjóðhags­legu áhrif af breyttri stöðu. „Veg þú aldrei meir í hinn sama knérunn en um sinn, og rjúf aldrei sætt þá er góðir menn gera meðal þín og annarra og þó síst á því máli.“ Þetta voru ráð Njáls til Gunn­ars á Hlíðar­enda um mik­il­vægi þess að rjúfa ekki traust og trúnað við ætt Ot­kels. Auðvitað eru breytt­ir tím­ar í dag á Íslandi en það sem er sam­eig­in­legt er að það ber ekki að efna til ófriðar um Evr­ópu­mál­in á þess­um óvissu­tím­um. Mik­il­væg­ast fyr­ir stjórn­mál líðandi stund­ar er að for­gangsraða rétt í þágu þjóðar­inn­ar og að breið sátt ná­ist um þá stefnu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2025.

Categories
Fréttir

Framsókn kallar eftir þjóðarátaki í fæðuöryggi

Deila grein

05/03/2025

Framsókn kallar eftir þjóðarátaki í fæðuöryggi

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, skoraði á ríkisstjórnina að setja af stað þjóðarátak í fæðuöryggi. Hún lagði áherslu á að efla innlenda matvælaframleiðslu og tryggja aðföng líkt og raforku, eldsneyti og áburð, sem eru nauðsynleg fyrir framleiðsluna.

Óvissa í heimsmálum kallar á aðgerðir

Halla Hrund benti á að óvissan í heimsmálum væri mikil og hefði bein áhrif á markaði. Hún nefndi nýlegar tollaákvarðanir Bandaríkjanna gagnvart Kanada og Mexíkó sem dæmi um versnandi viðskiptaskilyrði, auk viðskiptatakmarkana gagnvart Kína. Þetta bætist við þá óstöðugleika sem skapast hafa í Evrópu vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Hún lagði áherslu á að alþjóðasamvinna væri mikilvæg, en Ísland þyrfti einnig að byggja upp sitt eigið áfallaþol.

Landbúnaður sem hluti af öryggisinnviðum

Þingmaðurinn gagnrýndi skort á skilningi stjórnvalda á mikilvægi landbúnaðar sem innviðum. Hún sagði að hann ætti að vera hluti af varnarviðbrögðum þjóðarinnar, rétt eins og aðrir innviðir, og nefndi Suðurnesin sem dæmi um svæði þar sem slíkt væri í forgrunni. Hún benti á að þessi skortur á skilningi kæmi fram í tollamálum gagnvart mjólkurbændum og hækkandi raforkuverði sem gæti leitt til lokunar garðyrkjubænda, eins og kom fram í Kastljósi í gærkvöldi.

Þverpólitísk samstaða nauðsynleg

„Þetta er allt eitthvað sem hægt er að breyta með lagasetningu og mun ekki standa á okkur í Framsókn að styðja við. Ég held þess vegna að við eigum þvert á flokka að styðja við þjóðarátak í fæðuöryggi. Munum að það er líka eitthvað sem mun efla lýðheilsu og efla efnahag okkar þjóðar til lengri tíma,“ sagði Halla Hrund að lokum.


Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég skora á ríkisstjórnina að setja af stað þjóðarátak í fæðuöryggi. Hér á ég við að efla innlenda matvælaframleiðslu og líka að bæði kortleggja og styðja við aðföng líkt og raforku, eldsneyti, áburð og annað sem þarf fyrir hana. Af hverju er þetta mikilvægt nú? Jú, við vitum að óvissan í heimsmálum er mikil. Bara í gær hækkuðu Bandaríkjamenn tolla á innflutning þeirra frá Kanada og Mexíkó, um fjórðung auk þess að herða viðskiptatakmarkanir gagnvart Kína. Við vitum að óvissan á mörkuðum er mikil og þetta bætist ofan á þá stöðu sem við höfum í Evrópu eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Ég held að það efist enginn um það að alþjóðasamvinna er gríðarlega mikilvægt svar við þessari þróun. Við þurfum að vera í hagsmunabaráttu, styðja við mál bæði austan hafs og vestan, en við þurfum líka að byggja upp og bæta okkar áfallaþol. Hér er ég að hugsa um að það er mikilvægt varnarviðbragð að hugsa um innviði okkar og mér finnst skorta skilning á því. Mér finnst einfaldlega skorta skilning á því að landbúnaður er hluti af innviðum okkar. Hluti af okkar varnarviðbragði á að vera að byggja hann upp alveg eins og við horfum á aðra innviði, t.d. á Suðurnesjunum. Mér finnst hafa skort skilning á þessu hjá ríkisstjórninni sem hefur birst m.a. í tollamálunum gagnvart mjólkurbændum og það birtist okkur í Kastljósi í gærkvöldi þar sem garðyrkjubændur eru að hugsa um að hætta starfsemi vegna hækkana á raforkuverði. Þetta er allt eitthvað sem hægt er að breyta með lagasetningu og mun ekki standa á okkur í Framsókn að styðja við. Ég held þess vegna að við eigum þvert á flokka að styðja við þjóðarátak í fæðuöryggi. Munum að það er líka eitthvað sem mun efla lýðheilsu og efla efnahag okkar þjóðar til lengri tíma.“

Categories
Fréttir

Framtíð flugsamgangna á Vestfjörðum í uppnámi – Stefán Vagn kallar eftir stórhug

Deila grein

05/03/2025

Framtíð flugsamgangna á Vestfjörðum í uppnámi – Stefán Vagn kallar eftir stórhug

Vestfirðingar standa frammi fyrir mikilli áskorun eftir að Flugfélag Íslands tilkynnti um áform sín um að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar sumarið 2026. Þetta sagði Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi og lagði áherslu á að nú væri rétti tíminn til að hugsa stórt og horfa til framtíðarlausna.

Ófullnægjandi flugvöllur kallar á nýjar lausnir

Stefán Vagn benti á að núverandi flugvöllur á Ísafirði væri of lítill, óhentugur og háður veðri fyrir nútímaflugsamgöngur. Hann sagði nauðsynlegt að bregðast við með framtíðarlausn sem sameinaði nokkrar hugmyndir í eina heildstæða áætlun. Með flugvelli við Arnardal mætti bæta áreiðanleika og auka öryggi, þar sem stærri flugvélar gætu lent og tvær flugbrautir tryggt að flugferðir yrðu sjaldnar aflýstar.

Ný flugvallarstæði og jarðgöng lykillinn að betri samgöngum

Með því að grafa Álftafjarðargöng mætti leysa hættulegan veg um Súðavíkurhlíð, þar sem snjóflóðahætta og grjóthrun eru viðvarandi vandamál. Stefán Vagn lagði áherslu á að efni úr göngunum mætti nýta til uppbyggingar nýs flugvallar í Arnardal og þannig sameina tvö stór samgönguverkefni í eina lausn.

Millilandaflug og ný tækifæri

Nýr og stærri flugvöllur gæti ekki aðeins þjónað innanlandsflugi heldur skapað möguleika á millilanda- og fraktflugi. Stefán Vagn nefndi að slíkt myndi auka verðmæti útflutnings með því að flytja ferskan fisk, mjólkurvörur og lækningavörur beint á erlenda markaði. Þetta gæti einnig skapað ný tækifæri fyrir atvinnulífið á Vestfjörðum.

Farsælt skipulag fyrir Ísafjörð

Flutningur flugvallarins í Arnardal myndi jafnframt leysa upp núverandi flugvallarstæði á Ísafirði, sem mætti nýta fyrir íbúðarhúsnæði og atvinnustarfsemi. Með fjölgun íbúða og öflugra atvinnulíf gæti Ísafjörður blómstrað enn frekar.

Að lokum benti Stefán Vagn á að uppbygging flugvallarins og nýrra samgönguleiða gæti leitt til þess að álag á vegakerfi Vesturlands, Dala og Snæfellsness myndi minnka, þar sem mikil aukning hefur verið í þungaflutningum á þeim svæðum undanfarin ár.

„Í öllum áskorunum felast tækifæri,“ sagði þingmaðurinn og hvatti til þess að stjórnvöld gripu til aðgerða með stórhug og framtíðarsýn.


Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Með tilkynningu Flugfélags Íslands um áform sín um að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar sumarið 2026 standa Vestfirðingar frammi fyrir mikilli áskorun. Flugvöllurinn er einfaldlega of lítill, óhentugur og of háður veðri fyrir nútímaflugsamgöngur. En í áskorunum felast tækifæri og nú er kominn tími til að hugsa stórt. Hvers vegna ekki að sameina fjórar eða jafnvel fimm hugmyndir í eina framtíðarlausn? Með flugvelli við Arnardal mætti taka á áreiðanleika og þeim öryggisvanda sem plagar flugvöllinn í dag. Stærri flugvélar gætu lent, tvær flugbrautir væru lagðar til þess að auka áreiðanleika og tryggja að flugi verði ekki aflýst jafn oft. Meiri stöðugleiki þýðir betri tengingar og betra aðgengi að svæðinu. Með því að grafa Álftafjarðargöng væri unnt að leysa af hættulegan veg um Súðavíkurhlíð. Þar er mikið grjóthrun og snjóflóðahætta en ekki nóg með það, efni úr göngunum mætti nýta til uppbyggingar hins nýja flugvallar. Tvö stór verkefni, ein lausn.

Ef nýi flugvöllurinn yrði nógu stór gæti hann ekki bara þjónað innanlandsflugi heldur einnig skapað möguleika á millilanda- og fraktflugi. Hægt væri t.d. að flytja ferskan fisk, mjólkurvörur og lækningavörur beint á markað erlendis og auka þannig verðmæti útflutnings og opna nýjar dyr fyrir atvinnulífið. Með því að flytja flugvöllinn í Arnardal losnar núverandi flugvallarstæði sem mætti nýta fyrir íbúðir og atvinnustarfsemi fyrir Ísafjörð. Með nýjum hverfum og vaxandi atvinnulífi gæti Ísafjörður blómstrað enn frekar. Aukaafurð af þessu öllu saman er það að vegaframkvæmdir og vegirnir á Vesturlandi, Dölum og Snæfellsnesi, sem margir hverjir eru ónýtir eftir mikla notkun þungaflutninga — álagið á þeim myndi snarminnka þar sem uppbygging hefur verið mikil á Vestfjörðum á síðustu árum.

Virðulegur forseti. Í öllum áskorunum felast tækifæri.“

Categories
Fréttir

Framsókn kallar eftir skynsamlegri hagræðingu í ríkisrekstri

Deila grein

05/03/2025

Framsókn kallar eftir skynsamlegri hagræðingu í ríkisrekstri

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýnir aðgerðir ríkisstjórnarinnar í hagræðingu ríkisrekstrar og kallar eftir skýrari stefnumörkun og raunhæfum útreikningum. Í ræðu sinni í störfum þingsins á Alþingi sagðist hún fagna því að ríkisstjórnin legði fram tillögur um 70 milljarða króna sparnað á fimm árum, en efast um að þær séu raunhæfar og nægilega vel undirbyggðar.

Óljós útreikningar og vanmat á tímafresti

Ingibjörg benti á að í tillögum ríkisstjórnarinnar væri ekki tekið tillit til kostnaðar við innleiðingu þeirra. Hún nefndi að sameining stofnana og endurskipulagning verkefna gæti tekið eitt til tvö ár, en mótun, samningagerð og samþykkt frumvarpa gæti tekið enn lengri tíma. Hún spurði hvort tímavirði sparnaðarins væri rétt reiknað og hvort raunverulegur sparnaður væri jafnvel mun lægri en gefið væri upp.

Skortur á heildstæðri stefnumörkun

Þingmaðurinn gagnrýndi einnig að ríkisstjórnin hefði ekki mótað skýrari áherslur um hlutverk ríkisins áður en fjöldi tillagna væri settur fram. Hún hvatti til þess að ríkið skilgreindi betur hvað það ætti að sinna og hvað ekki, frekar en að leggja einfaldlega áherslu á niðurskurð. Að hennar mati ætti að líta á ríkisfjármálin í heild, þar með talið tekjuhliðina og hlut stjórnenda innan ríkisins.

Hagsmunir landsmanna í forgang

Ingibjörg lagði áherslu á að Framsókn vildi raunhæfa hagræðingu sem virkar, ekki óskhyggju. Hún hvatti til þess að ríkisstjórnin setti fram raunhæfar tillögur og aðgerðaáætlun til lengri og skemmri tíma og gætti þess að tryggja hagsmuni allra landsmanna, þar með talið íbúa landsbyggðarinnar.

Að lokum spurði hún hvort ríkisstjórnin hygðist setja þessar tillögur inn í næstu fjármálaáætlun, sem á að leggja fram fyrir 1. apríl, og gefa þinginu þannig færi á að fjalla um þær í þaula. Framsókn vill, að hennar sögn, horfa á stóru myndina og tryggja heildarsýn í ríkisfjármálum og hagstjórn.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Við í Framsókn styðjum hagræðingu í ríkisrekstri. Tillögur ríkisstjórnarinnar frá 4. mars eru vissulega ánægjulegt skref en við getum eflaust velt því fyrir okkur hvort það sé hægt að kalla þetta tillögur frekar, kannski meira hugarflug. Það er auðvelt að lofa 70 milljörðum kr. sparnaði á fimm árum án skýrra útreikninga. Í tillögunum er lítið sem ekkert fjallað um kostnaðinn við innleiðingu á tillögunum. Það tekur eitt, tvö ár að sameina stofnanir og endurskipuleggja verkefni. Það tekur eitt til þrjú ár að móta, semja og svo samþykkja frumvörp. Það þarf oft áralangt samráð. Er því tímavirði meints sparnaðar rétt reiknað? Er kannski um að ræða 30 milljarða eða jafnvel lægri tölu? Væri ekki rétt eða a.m.k. skynsamlegra að ríkisstjórnin mótaði fyrst skýrari áherslur um hvert hlutverk ríkisins sé að hennar mati áður en tugir tillagna eru settar fram? Við í Framsókn köllum eftir skynsamlegri og raunhæfri hagræðingu. Nær ríkisstjórnin að setja þessar tillögur inn í næstu fjármálaáætlun, sem á að leggja fram fyrir 1. apríl, og gefa þinginu þá tækifæri til að fjalla um þær? Við í Framsókn viljum hagræðingu sem virkar, ekki óskhyggju. Við þurfum að horfa á stóru myndina, skilgreina hvað ríkið á að gera og hvað ekki, horfa ekki eingöngu á niðurskurð heldur líka á tekjuhliðina, horfa heildstætt á ríkisfjármál og hagstjórnina og ekki gleyma hlut stjórnenda innan ríkisins, því að ekkert gerist án þekkingar og frumkvæðis, og setja fram raunhæfar tillögur og aðgerðaáætlun til lengri og skemmri tíma. En umfram allt tryggjum við hagsmuni allra landsmanna, þar með talið landsbyggðarinnar. Við eigum að horfa á stóru myndina, horfa á heildarmyndina og hagsmuni heildarinnar allrar.“

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi gagnrýnir áherslur stjórnvalda í öryggismálum

Deila grein

04/03/2025

Sigurður Ingi gagnrýnir áherslur stjórnvalda í öryggismálum

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, átti orðastað við forsætisráðherra á Alþingi um stefnu stjórnvalda í öryggis- og varnarmálum. Gagnrýndi hann að áherslur ríkisstjórnarinnar í öryggis- og varnarmálum væru ekki í samræmi við sérstöðu Íslands og samstarfið innan NATO.

„Við vorum í kjördæmaviku í síðustu viku og tónninn í fólkinu í landinu er eðlilega svona ákveðinn ótti, hræðsla, ekki síst vegna síðustu frétta sem við sáum bara í Hvíta húsinu hér á föstudaginn.“

Sigurður Ingi vék einnig að umræðu sem fram fór á Alþingi fyrir skemmstu um varnar- og öryggismál og benti á að sérstaða Íslands hefði verið þar í brennidepli. Hins vegar hefði það vakið athygli að forsætisráðherra og utanríkisráðherra væru meira og minna erlendis á fundum innan Evrópusambandsins og í Evrópu. Sagði hann slíkt ekki samræmast því að treysta varnarsamstarf Íslands við NATO og Bandaríkin.

„Það er eins og það sé einhver skortur á jafnvægi.“

Sigurður Ingi benti á nýleg ummæli utanríkisráðherra Frakklands um að hættan á stríði í Evrópu hafi aldrei verið meiri. Hann vék einnig að orðum Dags B. Eggertssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem sagðist vilja flýta fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu og eins að forsætisráðherra hefði fundað með jafnaðarmönnum á Norðurlöndunum um varnarsamstarf.

Sigurður Ingi lagði áherslu á að Ísland væri herlaus þjóð, en verið virkur þátttakandi í NATO í áratugi og einnig byggt á tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin. Hann velti fyrir sér hvort ríkisstjórnin væri að feta aðra braut í varnarmálum en þá sem íslensk stjórnvöld hafa fylgt síðustu 80 ár.

„Fólkið í landinu hefur verið ánægt með þá vegferð sem við höfum verið á í 80 ár. Er ríkisstjórnin á einhverri annarri braut? Er verið að leggja áherslu á eitthvað annað en það sem okkur hefur gagnast svo vel í allri lýðveldissögunni?“ spurði hann.

Þó NB8-ríkin séu mikilvægir bandamenn Íslands í öryggis- og varnarmálum, eru NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin hornsteinar í öryggisstefnu Íslands og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar landsins.

Sigurður Ingi vék að því á dögunum í ræðu á Alþingi, vegna yfirlýsingar forsætisráðherra að ótímabært væri að stofna eða ræða evrópskan her.

Var forsætisráðherra í framhaldi spurður hvort ekki væri „skynsamlegast að viðhalda þeirri sérstöðu sem við höfum hér á Íslandi með varnarsamninginn við Bandaríkin, með stofnaðild að NATO og þar sé okkar öryggi best borgið, en ekki að hlaupa í skjól Evrópu þar sem er enginn her“.

„Og hvað þýðir yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra um að það sé ótímabært að ræða her Evrópu? Er það svipað og hin ótímabæra umræða var að hennar mati fyrir aðild að Evrópusambandinu fyrir kosningar?“ En orð forsætisráðherra féllu að lokinni nýliðinni öryggisráðstefnu í Evrópu í München.

Categories
Fréttir

Jafnara aðgengi að háskólanámi – inntökupróf nú haldin bæði í Reykjavík og Akureyri

Deila grein

04/03/2025

Jafnara aðgengi að háskólanámi – inntökupróf nú haldin bæði í Reykjavík og Akureyri

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, vakti athygli á framfaraskrefi sem væri verið að taka í menntakerfinu. Í fyrsta sinn verður inntökupróf í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði haldið bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þetta framfaraskref í menntakerfinu er liður í að jafna aðgengi að háskólanámi óháð búsetu.

„Á síðasta ári fékk ég ábendingu frá foreldri sem óttaðist að barn þess myndi ekki komast í inntökupróf í læknisfræði vegna veðurs. Þetta var ekki einstakt tilfelli. Margir nemendur á landsbyggðinni hafa þurft að leggja í langar og kostnaðarsamar ferðir til Reykjavíkur til að taka próf og veðuraðstæður hafa jafnvel komið í veg fyrir að þeir geti mætt,“ sagði Ingibjörg.

„Þess vegna lagði ég fram fyrirspurn um fjölgun próftökustaða og nú er fyrsta skrefið tekið með því að bjóða upp á inntökupróf á Akureyri. Þetta er mikilvægt fyrir landsbyggðina og fyrir jafnrétti til náms. Með þessu skrefi erum við að mæta fólki og efla tækifæri þess til að sækja sér menntun óháð því hvar það býr.“

Nú verður prófunum sinnt samhliða í Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands með rafræna prófakerfinu Inspera, sem tryggir samræmi í framkvæmd prófanna. Ingibjörg telur þetta vera fyrsta skrefið í stærri breytingum og hvetur til þess að í framtíðinni verði inntökupróf einnig haldin á fleiri stöðum, eins og Ísafirði, Egilsstöðum og Hornafirði, þar sem aðstaða til háskólanáms og prófaumsýslu er þegar til staðar í samstarfi við Háskóla Íslands.

„Það er brýnt að við höldum áfram að þróa menntakerfi með þarfir nemenda að leiðarljósi og tryggjum að allir hafi sömu möguleika.

Þessi breyting er sönnun þess að þegar hlustað er á raddir fólks og unnið markvisst að lausnum er hægt að ná árangri. Ég vil þakka rektor Háskóla Íslands og öllum þeim sem hafa unnið að þessari breytingu. Höldum áfram á þessari braut, að tryggja að menntakerfið okkar taki mið af þörfum allra landsmanna,“ sagði Ingibjörg að lokum.

***

Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í dag vil ég vekja athygli á mikilvægu framfaraskrefi sem verið er að taka í menntakerfinu okkar. Í fyrsta sinn verður inntökupróf í læknisfræði, sjúkraþjálfunarfræði og tannlæknisfræði haldið bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þetta er breyting sem lengi hefur verið barist fyrir og er hún skref í átt að jöfnun aðgengis að háskólanámi óháð búsetu. Á síðasta ári fékk ég ábendingu frá foreldri sem óttaðist að barn þess myndi ekki komast í inntökupróf í læknisfræði vegna veðurs. Þetta var ekki einstakt tilfelli. Margir nemendur á landsbyggðinni hafa þurft að leggja í langar og kostnaðarsamar ferðir til Reykjavíkur til að taka próf og veðuraðstæður hafa jafnvel komið í veg fyrir að þeir geti mætt. Þess vegna lagði ég fram fyrirspurn um fjölgun próftökustaða og nú er fyrsta skrefið tekið með því að bjóða upp á inntökupróf á Akureyri. Þetta er mikilvægt fyrir landsbyggðina og fyrir jafnrétti til náms. Með þessu skrefi erum við að mæta fólki og efla tækifæri þess til að sækja sér menntun óháð því hvar það býr. Próf verða nú haldin samhliða í Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands með rafræna prófakerfinu Inspera sem tryggir samræmi í framkvæmd prófanna og verður gaman að fylgjast með hvernig til tekst. En við skulum líta á þetta sem fyrsta skrefið í stærri breytingum. Í framtíðinni væri eðlilegt að horfa til fleiri staða, eins og Ísafjarðar, Egilsstaða, Hornafjarðar, sem nú þegar hafa aðstöðu til að sinna háskólanámi og prófaumsýslu í samstarfi við Háskóla Íslands. Það er brýnt að við höldum áfram að þróa menntakerfi með þarfir nemenda að leiðarljósi og tryggjum að allir hafi sömu möguleika.

Virðulegi forseti. Þessi breyting er sönnun þess að þegar hlustað er á raddir fólks og unnið markvisst að lausnum er hægt að ná árangri. Ég vil þakka rektor Háskóla Íslands og öllum þeim sem hafa unnið að þessari breytingu. Höldum áfram á þessari braut, að tryggja að menntakerfið okkar taki mið af þörfum allra landsmanna.“