Categories
Greinar

Höggvum á hnútinn

Deila grein

25/04/2018

Höggvum á hnútinn

Þann 19. september árið 2016 var haldin mikil sýning í Kópavogi þar sem bæjarstjóri og formaður bæjarráðs undirrituðu samkomulag við heilbrigðisráðherra um uppbyggingu 64 rýma hjúkrunarheimilis í Boðaþingi. Stefnt var að því að taka heimilið í notkun seinni hluta árs 2018.

Ekkert bólar hins vegar á upphafi framkvæmdanna og er nú málið komið fyrir dómstóla og ekki sér fyrir endann á þessum vandræðagangi. Hönnun og framkvæmdir munu ekki fara af stað fyrr en eftir einhver ár ef ekkert verður aðhafst. Það hefur vantað pólitíska forystu hjá núverandi meirihluta í Kópavogi til að knýja málið áfram og algjörlega óviðunandi að tugir einstaklinga fái ekki inn á hjúkrunarheimilið við Boðaþing vegna þessa seinagangs.

Kópavogsbær á að höggva á hnútinn í þessu máli og taka yfir hönnun og framkvæmdir við hjúkrunarheimilið. Reykjavíkurborg fór slíka leið í samvinnu við Hrafnistu vegna uppbyggingar hjúkrunarheimilisins við Sléttuveg í Reykjavík. Eftir sem áður mun ríkið greiða sinn hluta af framkvæmdunum. Það er óásættanlegt að horfa upp á núverandi stöðu mála og við framsóknarmenn munum taka af skarið fáum við umboð til þess frá íbúum í Kópavogi.

Birkir Jón Jónsson, skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi

Baldur Þór Baldvinsson, skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kópavogi.

Categories
Greinar

Ábyrg, róttæk og framsækin stefnumótun til framtíðar

Deila grein

25/04/2018

Ábyrg, róttæk og framsækin stefnumótun til framtíðar

Sogkraftur þéttbýliskjarna og höfuðborga er þekktur um allan heim. Okkar verkefni á landsbyggðinni miða að því að sporna við fólksflótta til höfuðborgarinnar með því að tryggja rekstrarumhverfi hefðbundinna greina til framtíðar og auk þess að skapa aðstæður sem miða að því að auka aðdráttarafl landsbyggðarinnar sem góðum valkost fyrir einstaklinga og fyrirtæki að setjast að. Aukin fjöldi fjölskyldufólks metur Borgarbyggð sem góðan búsetukost, stundar vinnu á höfuðborgarsvæðinu og keyrir daglega á milli. Borgarbyggð er orðinn hluti af atvinnusvæði höfuðborgarinnar og nauðsynlegt að við nýtum tækifærin sem því fylgja.

Í ársreikningum sveitarfélagsins síðust ár kemur fram að framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er hundruðum milljóna meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir sem er merki um aukin hagvöxt og góðan bata í efnahagsmálum. Skuldir ríkisjóðs hafa lækkað og efnahagsleg skilyrði hafa verið hagfelld.  Á landsvísu sjáum við að undirstöðu atvinnugreinum er að fjölga með meiri fjölbreytileika í atvinnulífinu. Tækifærin í matvælaframleiðslu hér á landi til framtíðar eru mikil með okkar sérstöðu.  Og það má gera þær væntingar til ferðaþjónustunnar að hún tryggi búsetu á ársgrunni og eigi þátt í að fjölga íbúum. Vöxtur í ferðaþjónustu hefur verið mikill síðustu ár og talið er að um 50% af hagvaxtaraukningu sé hægt að rekja til ferðaþjónustunnar og ávinningurinn er ýmiskonar en því tengjast líka áskoranir.  Forsendur fyrir því að við getum nýtt okkur þessi tækifæri eru gott samstarfs ríkis og sveitarfélaga. Það er okkur í hag að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur skilning, þekkingu og áhuga á atvinnugreinum landsbyggðarinnar. Það er samstarfsverkefni þessara aðila að gera gangskör í tryggja lífæðar atvinnulífsins það eru samgöngur og fjarskipti. Forgangsverk í byggðastefnu samtímans verður að vera skilvirkari uppbygging 3ja fasa rafmagns og viðhald og vöxtur vegsamgangna á landsbyggðinni. Það er undirstöðu atriði til að styðja við vöxt og viðgang atvinnu og búsetu.

Verkefni okkar sem sveitarfélags er að festast ekki í fortíðinni og hræðast breytingar og áskoranir sem fylgja framtíðinni. Við þurfum metnaðarfulla skólastefnu frá leikskóla upp í framhaldsskóla sem tekur mið af þeirri þróun sem á sér stað með áherslum á að virkja hugvit og sköpun og efla tækni- og raungreinar. Við þurfum að meta hvað hefur tekist vel og hvar má gera betur.  Verum ábyrg með skýra sín og óhrædd við það að vera róttæk.

Með framsækinni stefnumótun getum við sem sveitarfélag verið í fremstu röð.

Guðveig Anna Eyglóardóttir

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í sveitarstjórn Borgarbyggðar.

Categories
Greinar

Metnaður í markmiðum fyrir frístundaheimili

Deila grein

18/04/2018

Metnaður í markmiðum fyrir frístundaheimili

Frístundaheimili gegna mikilvægu hlutverki í lífi flestra fjölskyldna barna á grunnskólaaldri. Þar fer fram frábært starf og á dögunum urðu ákveðin tímamót í faglegri umgjörð þeirra þegar í fyrsta sinn voru gefin út markmið og viðmið um gæði starfs á frístundaheimilum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Starfsemi frístundaheimila hefur þróast mikið frá árinu 1995 þegar heimildarákvæði um þau var sett grunnskólalög. Leiðarljós frístundaheimila er að bjóða börnum upp á þátttöku í fjölbreyttu frístunda- og tómstundastarfi með það að markmiði að efla sjálfstraust og félagsfærni þeirra. Lögð er áhersla á að umhverfi starfsins einkennist af öryggi, fagmennsku og virðingu þar sem jákvæð samskipti og lýðræðislegir starfshættir eru í hávegum hafðir í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þessi nýju markmið og viðmið sem kynnt voru á dögunum lýsa í senn metnaði og eru skýr varðandi hlutverk, öryggi, velferð, inntak starfsins, jafnræði og fagmennsku starfsfólks frístundaheimila. Gætt var að því að þau væru ekki íþyngjandi fyrir sveitarfélögin, ættu frekar að vera leiðbeinandi en þó með það að markmiði að aðbúnaður barna á grunnskólaaldri sem dvelja á frístundaheimilum og skóladagvistum sé góður og að tryggt sé að faglega verði staðið að rekstri slíkrar þjónustu. Mikið og gott samráð hefur átt sér stað í þessari vinnu við sveitarfélögin sem reka frístundaheimilin og aðra helstu hagsmunaaðila starfseminnar. Alls staðar komu fram jákvæð viðhorf við gerð markmiða og viðmiða og rætt um þýðingarmikið skref til að efla faglegt starf frístundaheimila og auka þróunarstarf í heimabyggð.

Nú er mikilvægur áfangi er í höfn sem snýr að því að samræma kröfur til starfsemi frístundaheimila og stuðla að þróunarstarfi um land allt í útfærslu og aukinni samþættingu skóla- og frístundastarfs fyrir yngri nemendur í grunnskólum. Ég bind vonir við að sú góða vinna muni gagnast öllum þeim sem starfa að málaflokknum og verða til þess að efla starf frístundaheimilanna – nemendum, foreldrum þeirra og starfsfólki til hagsbóta.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. apríl 2018.

Categories
Greinar

Horft um öxl

Deila grein

13/04/2018

Horft um öxl

Nú þegar rúmlega sex vikur eru til bæjarstjórnakosninga er fróðlegt að horfa um öxl og rýna í það sem gert hefur verið hér á Akureyri á yfirstandandi kjörtímabili.

Meirihluti Framsóknar, L-lista og Samfylkingar ákvað strax í upphafi að leggja upp með samstarfssamning um þau mál sem mikilvægt þótti að vinna á yfirstandandi kjörtímabili. Óhætt er að segja að afar vel hafi tekist til við að framfylgja samstarfssamningnum og flest þau málefni sem lagt var upp með hafa ýmist verið framkvæmd eða komin í vinnslu.

Við bæjarfulltrúar Framsóknar og nefndarfólk okkar höfum staðið í ströngu á kjörtímabilinu og höfum leitt vinnu við mörg mikilvæg mál.

Þannig hefur umbreytingum á fjármálum og stjórnsýslu verið stýrt af formanni bæjarráðs, Guðmundi Baldvin. Ráðist var í stjórnsýslubreytingar, bókhald bæjarins var opnað, skýrslugjöf til bæjarfulltrúa var stóraukin og stöðugleiki í rekstri hefur aukist svo fátt eitt sé nefnt af því sem lagt var upp með í upphafi kjörtímabilsins.

Í skipulagsmálum hefur mikið mætt á formanni skipulagsráðs Tryggva Má. Nú nýverið samþykkti bæjarstjórnin samhljóða aðalskipulag 2018-2030 og í máli allra bæjarfulltrúa kom fram , mikil ánægja með störf skipulagsráðs og verkstjórn formannsins en mikil samvinna einkenndi alla hans vinnu.

Á vettvangi Umhverfis- og mannvirkjasviðs hefur verið ráðist í viðamiklar framkvæmdir og hefur Ingibjörg Ólöf, formaður umhverfis- og mannvirkjasviðs, staðið í brúnni og fylgt þeim eftir. Umhverfismálin hafa einnig verið á hennar könnu en Akureyrarbær stendur framarlega í umhverfismálum þannig að eftir er tekið.

Já, sá meirihluti sem stofnaður var í upphafi kjörtímabilsins var skipaður sex bæjarfulltrúum sem höfðu það að markmiði að gera góðan bæ betri. Það er skoðun okkar að vel hafi tekist til og við tvö sem eftir stöndum af þeim bæjarfulltrúum sem mynduðu meirihlutann erum sannanleg tilbúin að taka áfram slaginn með öflugum frambjóðendum Framsóknar og halda á þeirri vegferð að gera góða bæ enn betri.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs og Ingibjörg Ólöf Isaksen, framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi.

Greinin birtist á vikudagur.is 13. apríl 2018.

Categories
Greinar

Leikskólalausnir

Deila grein

13/04/2018

Leikskólalausnir

Það hefur ekki farið fram hjá mörgum að ekki er allt með felldu í málefnum leikskóla Reykjavíkurborgar. Ljóst er að gera þarf stórátak áður en skólarnir verða reiðubúnir til þess að veita þá þjónustu sem borgarbúar vænta. Kallað er eftir skýrum svörum og raunhæfum lausnum frá stjórnmálamönnum nú í aðdraganda kosninga. Skiljanlega, ástandið er óþolandi.

Þessu kalli keppast frambjóðendur nú við að svara, með ýmsum fyrirheitum og hugmyndum. Meðal loforða er að byggja fleiri leikskóla og fjölga deildum. En stöldrum aðeins við. Áður en við leitum svara skulum við skilgreina spurninguna, hvert er vandamálið?

Ekki hefur, með góðu móti tekist að manna leikskólana síðustu misseri, með tilheyrandi keðjuverkandi vanda. Þó það sé gott skref að huga að byggingu nýrra leikskóla þá mun fjölgun leikskólaplássa ein og sér eingöngu auka á mannekluvanda skólanna. Vandinn í grunninn er sá að einhverra hluta vegna vill fólk ekki starfa á leikskólum og leikskólakennurum fækkar. Spurningin sem við þurfum að svara er; hvað veldur?

Að starfa með stórum hóp af litlum börnum, í litlu rými allan daginn er gríðarlega krefjandi, það veit ég af eigin raun. En vinnan göfgar manninn og eins og gefur að skilja þá eru fá störf eins gefandi. En hvers vegna fæst þá ekki fólk til starfa á leikskólum? Er svarið í raun ekki eins einfalt og það er augljóst?

Laun á leikskólum eru ekki samkeppnishæf og við söltum ekki grautinn okkar með hugsjónum einum. Megin ástæða þess að fáir leggja í þá vegferð að mennta sig í leikskólafræðum er þessi staðreynd. Af þeim sökum eru leikskólarnir bornir uppi af ófagmenntuðu starfsfólki og launin sem við bjóðum þeim eru með ólíkindum lág.

Ef ekki fæst hæft starfsfólk til starfa á leikskólum vegna þeirra lágu launa sem í boði eru, hvað gerum við þá? Bjóðum börnum og gamalmennum störfin, þyggja þau ekki hvaða laun sem er? Nei hættið nú alveg, á hvaða vegferð er þessi umræða? Við hljótum að geta gert betur.

Við þurfum að gera það upp við okkur hvort við viljum hafa fagmenntað starfsfólk á leikskólum borgarinnar. Ef svo er, þá þurfum við að hækka launin, þetta er ekki flókið.

Framsókn í Reykjavík vill fara í aðgerðir með það að markmiði að auka samkeppnishæfni leikskólanna til þess að laða að hæft og fagmenntað starfsfólk. Við viljum hækka laun leikskólakennara og leikskólaliða. Samhliða því viljum við fara í ýmsar aðgerðir til þess að bæta starfsaðstæður allra á leikskólum borgarinnar.

Nýlega kynnti Starfshópur um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík tillögur sínar. Tillögurnar falla margar vel að stefnu Framsóknar í Reykjavík og teljum við þær skref í rétta átt. Meðal þess sem við viljum leggja áherslu á, samhliða launahækkun er að vinnuvika starfsmanna leikskóla verði stytt enda hefur það verkefni gefið góða raun. Þá þarf að bæta aðbúnað og húsakost strax og minnka álag á starfsfólk og börn með því að minnka deildir leikskólanna.

Við getum og viljum gera betur.

Snædís Karlsdóttir, skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík

Greinin birtist á visir.is

Categories
Greinar

Látum góða hluti gerast

Deila grein

04/04/2018

Látum góða hluti gerast

Sveitarstjórnarmál eru nokkuð sérstök að því leyti, að það er fleira og meira sem sameinar okkur en sundrar. Ég tel að það sé óhrekjanleg staðreynd að flokkspólitískar línur séu ekki jafn skýrar og í landsmálunum. Sveitarstjórnarmálin snúast um að taka höndum saman og sameinast um lykilverkefni, til heilla fyrir nærsamfélagið. Að veita góða, stöðuga og áreiðanlega þjónustu og sameinast um það að búa til samfélag sem við getum verið stolt af og þar sem allir Hafnfirðingar fái notið sín.

Fjölskyldufólk í fyrirrúmi

Nú árar vel og það þarf að nýta aðstæður og svigrúm til uppbyggingar á nauðsynlegum innviðum og jafnframt gera það af skynsemi. Á sama tíma og það árar betur er óásættanlegt að Hafnarfjörður sé eitt dýrasta sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að þjónustu við fjölskyldufólk. Þjónustukönnun Gallup fyrir árið 2017 gefur vísbendingar um nauðsyn þess að gera betur á mörgum sviðum hafnfirsks samfélags. Oft er þörf á nýrri sýn, nýrri hugsun og snjöllum lausnum til að bregðast við og gera betur. Framsókn og óháðir munu á næstu dögum kynna tillögur að úrbótum með framsýnum og áreiðanlegum lausnum, Hafnfirðingum öllum til heilla.

Framboðið

Mikill undirbúningur hefur átt sér stað hjá framboði Framsóknar og óháðra undanfarna mánuði. Fjölmargir gáfu sig fram og sóttust eftir sæti á lista. Það er í senn, bæði ánægjulegt og styrkleikamerki. Og sterk vísbending um fólk vill breytingar og er tilbúið til að vera aflvaki breytinga. Listi Framsóknar og óháðra er breið fylking fólks á öllum aldri, einstaklinga sem koma úr ólíkum áttum, hafa ólíka reynslu, þekkingu og menntun. Einstaklingar sem náð hafa saman um það verkefni að gera Hafnarfjörð að betra samfélagi fyrir okkur öll.

Kosningabaráttan er rétt að byrja og við hlökkum til að hitta Hafnfirðinga og kynna fyrir þeim málefni okkar og áherslur. Við erum þegar farin af stað að hitta kjósendur og munum halda því áfram næstu vikurnar. Hvert og eitt okkar er tilbúið að leggja sitt af mörkum til hagsbóta fyrir Hafnfirðinga og í sameiningu munum við láta góða hluti gerast. Við erum sterkari saman.

Ágúst Bjarni Garðarsson, oddviti Framsóknar og óháðra í Hafnarfirði.

Greinin birtist á vísir.is 4. apríl 2018.

 

Categories
Greinar

Samstarf um Sundabraut

Deila grein

04/04/2018

Samstarf um Sundabraut

Reykvíkingar hafa haft Sundabraut til umræðu í áratugi, enda um mikla samgöngubót að ræða. Tilgangur Sundabrautar er margþættur og margumræddur en hún er m.a. talin hafa mikilvægu hlutveki að gegna í þróun byggðar á suðvesturhorni landsins og er forsenda uppbyggingar í Gufunesi og Geldingarnesi. Sundabraut er talin hafa mikla þýðingu fyrir samgöngur á landsvísu og hefur verið skilgreind sem þjóðvegur í þéttbýli, en því fylgir að kostnaður við gerð hennar mun greiðast úr ríkissjóði.
Reykjavíkurborg og Vegagerðin hafa unnið að þessu verkefni í sameiningu frá árinu 1995 í ljósi þess að borgin fer með skipulagsvald á því svæði sem brautinni er ætlað að liggja. Í gegnum tíðina hafa komið upp ýmsar hugmyndir að leiðarvali en á síðustu árum hefur aðallega verið þrætt um tvo kosti, innri leið (leið III) og ytri leið (leið I).

Báðar leiðir hafa verið taldar leysa meginhlutverk Sundabrautar sambærilega en kostnaðaráætlanir sýndu að ytri leiðin var um 50% dýrari en innri leiðin. Á þeim forsendum gerði Vegagerðin innri leiðina að tillögu sinni á sínum tíma. Þá er vert að benda á að skipulagsfræðingar hafa á síðari árum tekið undir tillögu Vegagerðarinnar á þeim forsendum að stefna innri leiðar Sundabrautar sé betur í takt við þróun samgönguáss höfuðborgarsvæðisins.

 

Samstarfi slitið
Reykjavíkurborg sló hins vegar innri leiðina, að því er virðist einhliða út af borðinu við útgáfu aðalskipulags Reykjavíkurborgar 2010-2030. Í nýju skipulagi er einungis gert ráð fyrir ytri leið Sundabrautar en í vegstæði innri leiðar áætluð íbúabyggð. Við þessa tilhögun skipulags gerði Vegagerðin ítrekaðar athugasemdir, með hliðsjón af 2. mgr. 28. gr. Vegalaga nr. 80/2007 en þar segir að lega þjóðvega í skipulagi skuli ákveðin að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Er þar jafnframt tekið fram að fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstutt sérstaklega.
Af viðbrögðum Vegagerðarinnar í framhaldinu að dæma má draga þá ályktun að hún telji Reykjavíkurborg ekki hafa gætt að þessu þegar innri leið var hafnað með nýju skipulagi. Steininn virðist loks hafa tekið úr í fyrra þegar Reykjavíkurborg undirritaði samning um uppbyggingu íbúða á Gelgjutanga, en sú uppbygging mun að óbreyttu koma varanlega í veg fyrir innri leið Sundabrautar. Hreinn Haraldsson vegarmálastjóri sendi Reykjavíkurborg í kjölfarið bréf þar sem enn og aftur var vakin athygli borgarinnar á fyrrgreindri 2. mgr. 28. gr. Vegalaga. Þá benti hann einnig sérstaklega á 3. mgr. sama ákvæðis sem hljóðar svo: „Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en sá sem Vegagerðin telur betri með tilliti til kostnaðar og tæknilegrar útfærslu og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmuninn.“

Ágreiningur milli ríkis og borgar
Vegagerðinni hefur verið falið það hlutverk að vinna að þróun og endurbótum á vegakerfinu með gerð áætlana um nýjar framkvæmdir eftir því sem almannahagsmunir og þarfir samfélagsins krefjast. Almennt er viðurkennt að ákvörðun um vegstæði þjóðvega sé ekki einkamál, hvorki einstaklinga né einstakra sveitarfélaga. Af þeim sökum hafa bæði ríki og sveitarfélög ýmis þvingunarúrræði til þess að ná bestu útkomunni við lagningu vega, með almannahag að leiðarljósi. Fyrrgreint og tilvitnað ákvæði vegalaga er eitt þeirra. Sú staða er því upp komin að Vegagerðin lítur svo á að Reykjavíkurborg eigi að fjármagna þann umfram kostnað sem til fellur vegna vals borgarinnar á dýrari leiðinni. Hér er um gríðarlegar fjárhæðir að ræða, því þó fyrri áætlanir hafi ekki verið unnar upp frá grunni gerir Vegagerðin ráð fyrir hér um bil 10 milljarða mun milli leiða, að núvirði.

Sáttarhönd Framsóknar
Ágreiningur um greiðslu umframkostnaðar er í okkar huga ekki stóra málið, þó það sé að sjálfsögðu stórmál fyrir íbúa Reykjavíkur ef 10 milljarða krafa verður stíluð á þá eina. Stóra málið er það að sérfræðingar Vegagerðarinnar gerðu innri leiðina að tillögu sinni, eftir ítarlega úttekt. Sú leið varð fyrir valinu með hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi og okkur stjórnmálamönnum ber að taka mark á því.

Það hæfir ekki höfuðborg landsins að standa í deilum við ríkið sjálft. Við viljum vera til fyrirmyndar og með hagsmuni almennings að leiðarljósi ganga aftur til samstarfs við Vegagerðina við val á þeirri leið sem Sundabraut verði mörkuð um ókomna tíð. Sé það enn tillaga Vegagerðarinnar, að undangenginni nýrri úttekt og kostnaðarmati að innri leiðin sé betri, erum við tilbúin til þess að viðurkenna að lóðaúthlutun á Gelgjutanga hafi verið mistök og skoða hvort ekki borgi sig að vinda ofan af þeim. Fyrsta skrefið í þá átt væri að ganga til samninga við lóðahafa með það að markmiði að greiða aftur innri leið Sundabrautar. Við viljum leita sátta og velja þá leið sem verður hagkvæmust fyrir okkur öll, Reykvíkinga sem og aðra landsmenn.

Ingvar Mar Jónsson

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum 2018.

Greinin birtist á eyjan.pressan.is 3. apríl 2018.

Categories
Greinar

Bleiki fíllinn í skólamálum

Deila grein

02/04/2018

Bleiki fíllinn í skólamálum

Eftir nærri tvo áratugi í starfi með börnum og kennurum í borginni okkar, og víðar, veit ég frá fyrstu hendi yfir hvaða mannauði við höfum að ráða og mikilvægi þess að hlúa vel honum. Reykjavíkurborg er stærsta sveitafélag landsins og á að mínu mati að vera best til þess fallin að vera leiðandi í skólaþróun og skólastarfi. Við getum gert miklu betur, ef vilji stjórnvalda eða borgaryfirvalda er fyrir hendi.

Leik- og grunnskólakennarar eru sérfræðingar á sínu sviði. Kennarar þurfa svigrúm, tíma og frelsi til að stýra skólaþróun, enda engir aðrir betur til þess fallnir. Finnska leiðin, sem margir hafa nefnt en færri vita kannski nákvæmlega hvað snýst um, gengur út á það að valdefla sérfræðinginn sem kennarinn er og auka samstarf og jöfnuð í skólakerfinu. Þá eiga allir að hafa jöfn tækifæri til náms óháð búsetu eða efnahag. Einkareknir skólar eru því ekki til umræðu í Finnlandi, slíkt elur á samkeppni og ójöfnuði. Samstaða þarf að ríkja þvert á pólitíska flokka um að samvinna og menntun fari best saman og að hver og einn skipti máli. Það á ekki að skipta framtíð barns máli hvort það búi í bæ sem er „grænn“ eða „blár“ eða „rauður“ á hinu pólitíska litrófi.

Í stað þess að hvetja skóla til samkeppni með von um að eitthvað batni sem aflaga hefur farið, þá er krafa um samstarf. Þar sem vel gengur er skoðað í kjölinn og það er yfirfært á aðra staði sem þurfa eitthvað að bæta. Ef kennari nær ekki til nemanda fær hann annan kennara í til að reyna og sjá hvað gerist. Ef erfiðlega gengur með einn bekk, þá er samstarf sett í gang með öðrum bekk þar sem betur gengur. Það er nefnilega miklu meira í húfi en orðspor og meðaleinkunn. Líf barna eru í húfi. Að mínu mati er því algjörlega galið að ætla að ala á samkeppni milli skóla eða hverfa með aukinni einkavæðingu því í valnum munu liggja nemendur sem ekki hafa bakland eða stuðning eða einhvers konar annan vanda sem er þeim hamlandi í hröðu umhverfi harðrar samkeppni.

Kennarar á Íslandi vita þetta manna best enda keppast þeir við og þreytast aldrei á að viðhafast einhvers konar samstarf sín á milli. Hér eru haldnar menntabúðir um alls konar út um allt land, menntamál eru rædd á twitter undir #menntaspjall, ótalmargir facebookhópar um hverja faggrein hafa myndast sem vettvangur kennara til að skiptast á hugmyndum að verkefnum og lausnum. Kennarar sitja kvöld eftir kvöld og þýða og staðfæra eða útbúa kennsluefni til að kveikja áhuga nemenda og leyfa öðrum kennurum að njóta góðs af því. Kennarar sækja ráðstefnur um allan heim og nýta eigið fé og endurmenntunartíma og fjármagn til að ferðast um landið og heiminn til að skoða hvað er í gangi þar og taka sem mest með sér heim í sinn skóla – og aftur – miðla til kollega sinna. Alþjóðlegt samstarf og verkefni eru í gangi víða um allt land og krefst það mikilla fórna af hálfu þeirra kennara sem að því standa enda dugir hinn eiginlega skilgreindi vinnutími skammt þegar eitthvað stórt er í bígerð.

Skólarnir okkar búa yfir gríðarlegum mannauði og gríðarlegri þekkingu. Það væri algjört glapræði af hálfu yfirvalda á hverjum stað að ætla þessu fólki að halda áfram að troðast enn frekar inn í aukna miðstýringu sem sveitarfélögin hafa komið á á undanförnum árum, með stærsta sveitarfélag landins, Reykjavík, í broddi fylkingar.

Hér á landi eru fjölmargir einstaklingar sem virkilega myndu vilja gera kennslu og starf með börnum að sínu framtíðarstarfi, ef hvatinn væri til staðar. Við höfum alið upp gagnrýna einstaklinga sem sjá og skilja að það lifir enginn af hugsjóninni einni saman. Myndu því betri kjör og starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara skila okkur fleiri fagmenntuðum kennurum inn í skólana sem svo aftur gerði það að möguleika að bjóða upp á fleiri leikskólapláss og bæta meðleinkunn og alþjóðlegan orðstír bókaþjóðarinnar í norðri, ef því er að skipta.

Valdeflum kennarann og viðurkennum þá sem þá sérfræðinga sem þeir eru. Greiðum leik- og grunnskólakennurum laun sem ná að lágmarki meðallaunum sérfræðinga hér á landi, með sama menntunarstig að baki. Um þetta þarf að skapa þjóðarsátt.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir

Höfundur er grunnskólakennari og er að ljúka meistaranámi í mannauðsstjórnun við HÍ.

Hjördís skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins til borgarstjórnarskosninganna í vor.

Greinin birtist á visir.is 28. mars 2018.

Categories
Greinar

Fjölnota íþróttahús til heilsueflingar fyrir alla aldurshópa

Deila grein

31/03/2018

Fjölnota íþróttahús til heilsueflingar fyrir alla aldurshópa

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á  að aðstaða fyrir alla aldurhópa til heilsueflingar og félagsstarfs sé eins góð og kostur er.  Því teljum við tímabært að hafist verði handa við það að hanna og skipuleggja stækkun og endurbætur á íþróttahúsinu okkar í Borgarnesi.

Á næstu áratugum mun öldruðum fjölga umfram aðra aldurshópa. Við þessu verðum við að vera undirbúin.  Aldraðir verða að hafa kost á því að hátta lífi sínu eftir heilsu og getu á þeim stað sem þeir kjósa. Fólk þarf að geta búið sem lengst á sínum heimilum með öflugum stuðningi heimaþjónustu og heimahjúkrunar, í samvinnu ríkis og sveitarfélaga.  Stór hluti fólks á sjötugs- og áttræðisaldir er við góða heilsu og virkir lykilþátttakendur í samfélaginu. Það hefur blasað við lengi að staða öldrunar- og hjúkrunarheimila í landinu er ekki ásættanleg. Viðvarandi og vaxandi skortur er um land allt á rýmum. Eitt af brýnustu verkefnum okkar sveitarstjórnarfulltrúa er að tryggja í samstarfi við ríkið framtíðar uppbyggingu og rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila í landinu. Framsóknarflokkurinn hefur þegar lýst yfir áhyggjum af sérstækum húsnæðisskorti á landsbyggðinni og vonir bundnar við áform félags- og jafnréttismálaráðherra um áætlanir til að bregðast við því með uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á þeim svæðum þar sem þörfin er brýn.

Nauðsynlegt er að áherslan varðandi málefni aldraðra snúi ekki aðeins að því að veita fullnægjandi heilbrigðisþjónustu, þessum hópi verður að standa til boða viðeigandi félags-, tómstunda- og íþróttatengd þjónusta sem bætir lífgæði.  Í janúar s.l. tók til starfa stýrihópur á vegum sveitarfélagsins sem hafði það að markmiði að endurskoða stefnumótun í þjónustu við þennan hóp. Fulltrúar frá eldriborgararáði og báðum félögum eldriborgara í Borgarbyggð hafa starfað í þessum hóp. Niðurstaða þessarar vinnu er mikilvægt gagn fyrir  okkur sem störfum í sveitarstjórn að vinna með og hafa að leiðarljósi.

Góð aðstaða til heilsueflingar félags- og tómstunda fyrir alla aldurshópa mun skila sér margfalt til baka til samfélagsins.

Guðveig Anna Eyglóardóttir

Höfundur er oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar.

Greinin birtist á skessuhorn.is 28. mars 2018.

Categories
Greinar

Dýrmætasta auðlindin

Deila grein

28/03/2018

Dýrmætasta auðlindin

Grunnur Samfélagsins
Til þess að byggja upp velferðarsamfélag þar sem allir geta lifað með reisn er gott að hugsa sér pýramýda. Grunnur pýramýdans er menntun og þar er eins gott að vandað sé til verksins. Kennarar byggja þennan grunn og til þess að vel takist til, þurfum við sem samfélag að tryggja að vel hæft og áhugasamt fólk sinni því vandasama starfi. Mannauðurinn er hverju samfélagi dýrmætasta auðlindin og náttúrúauðlindir blikkna í samanburði. Úti í hinum stóra heimi þekkjast fjölmörg dæmi þess að samfélög, rík af náttúruauðlindum eru í molum vegna þess að grunnurinn er ótraustur. Í menntun höfum við Íslendingar dregist aftur úr á síðustu árum og brestir eru komnir í grunninn, en hvað er til ráða?

Finnska leiðin
Við þurfum sem betur fer ekki að finna upp hjólið því Finnar hafa gert það fyrir okkur. Þeim hefur gengið hvað best að mennta börn sín og um leið treysta grunninn. En hvernig fara þeir að? Þeir viðurkenna og valdefla kennarann sem sérfræðing, borga honum laun sem samrýmist sérfræðimenntun kennarans og treysta honum til að vinna skapandi og sjálfstætt. Einnig býr kennarinn við góðar starfsaðstæður. Kennararar njóta mikillar virðingar í finnsku samfélagi og kennarastarfið er eftirsótt. Í námi er lögð áhersla á að börnin læri að vinna saman fremur en að vera í samkeppni. Þeim er kennt að vinna sjálfstætt og skapandi fremur en að kenna þeim staðla. Síðast en ekki síst er gerð rík krafa um að börnum sé aðeins kennt af faglærðum kennurum.

Hæðir pýramýdans
Þegar menntamál þjóðar eru í lagi þá verður grunnurinn traustur og eftirleikurinn auðveldur. Með traustum grunni er vel hægt að byggja ofan á hann margar hæðir verðmætasköpunar. Því fleiri hæðir verðmætasköpunar sem samfélag byggir þeim mun fallegri og betri verður efsta hæðin þar sem velferðferðin býr fyrir alla samfélagsþegna. Ef við lögum ekki grunninn þá munu hæðirnar hrynja.

Þessa finnsku leið vill Framsóknarflokkurinn í Reykjavík fara til þess að framtíðin verði góð og gjöful fyrir okkur öll.

Ingvar Mar Jónsson

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum 2018.

Greinin birtist á visir.is 17. mars 2018.