Categories
Greinar

Lokum á skattaskjólin

Deila grein

19/04/2016

Lokum á skattaskjólin

frosti_SRGBSkattaskjól eru þau ríki kölluð sem gera litlar eða engar kröfur um að eignarhald fyrirtækja sé þekkt og innheimta litla eða enga skatta af fyrirtækjum. Með þessu skapa skattaskjólin fyrirtækjum og fjárfestum aðstöðu til að komast hjá skattlagningu. Skattheimta er forsenda þess að stjórnvöld geti byggt upp nauðsynlega innviði og veitt mikilvæga þjónustu. Skattaskjólin veikja því velferðarsamfélagið um leið og þau auka á ójöfnuð þar sem skattaundanskot leiða til þyngri skatta á þá sem standa í skilum.

Umfangið gríðarlegt
Í bókinni The Hidden Wealth of Nations eftir G. Zucman er fjallað um eignir í skattaskjólum og þær metnar á 7,6 þúsundir milljarða USD. Í Mið-Austurlöndum og Rússlandi er ríflega helmingur eigna falinn í skattaskjólum, í Evrópu er hlutfallið 10% en 4% í Bandaríkjunum og Asíu. Zucman áætlar að 80% af eignum félaga í skattaskjólum séu ekki taldar fram til skatts.

Skattaskjól eru víða
OECD telur upp 38 ríki sem uppfylla ekki lágmarkskröfur um upplýsingaskipti. Á lista OECD má finna Bresku Jómfrúreyjarnar, Panama, Möltu og Kýpur. Tvö síðasttöldu ríkin eru aðilar að ESB en á listanum er einnig Liechtenstein sem er aðili að EES svæðinu. En vandinn er víðar ef marka má óháð samtök sem kalla sig “Tax Justice Network”. Samtökin hafa birt athyglisverðan lista yfir skattaskjól en þar tróna Sviss, Hong Kong og Bandaríkin í efstu sætum. Luxembourg og Þýskaland eru einnig ofarlega á listanum en samkvæmt samtökunum geta erlendir aðilar í vissum tilvikum notið nafnleyndar eða mjög lágra skatta í þessum ESB ríkjum.

Hvað er til ráða?
Ísland er þátttakandi í átaki á vegum OECD sem meðal annars felst í því að skiptast á gögnum um fyrirtæki og skattgreiðslur þeirra. Á næstunni mun Ísland staðfesta reglur OECD sem skylda fjölþjóðleg fyrirtæki til að sundurliða ársreikninga sína niður á einstök ríki. Með því að upplýsa hvernig hagnaður myndast í hverju ríki fyrir sig verður erfitt fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki að flytja hagnað sinn til skattaskjóla. Einnig hafa verið innleiddar hér reglur um milliverðlagningu sem draga úr möguleikum fjölþjóðlegra fyrirtækja til að færa hagnað milli dótturfélaga sinna í ólíkum löndum.

Auk þess að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu gegn skattaskjólum er mikilvægt að kanna hvaða lagabreytingar hér á landi gætu miðað að sama marki. Til að kynna sér það nánar hefur Efnahags- og viðskiptanefnd alþingis boðað til sín fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, Fjármálaeftirliti og Seðlabanka.

Ljóst er að það verður ekki einfalt að ná til þeirra sem vilja leyna eignum sínum. Þótt sett yrði bann við því að íslenskir aðilar ættu félög í skattaskjólum, væri mögulegt að komast hjá banninu með því að setja upp erlent skúffufélag utan skattaskjóla. Erlenda félagið gæti þá stofnað félag í skattaskjóli og haft milligöngu um viðskipti við það.

Það yrði til bóta ef upplýst væri hverjir séu raunverulegir eigendur að ráðandi eignarhlutum í íslenskum félögum. Slík upplýsingaskylda er í ýmsum löndum. Raunverulegur eigandi er sá einstaklingur sem nýtur ávinnings af hlutafjáreigninni þótt það kunni að vera í gegnum skúffufélag. Hugsanlega mætti setja hliðstæða kröfu um raunverulega eigendur annarra fjármálagerninga svo sem innstæðna og skuldabréfa. Einnig hefur verið nefndur sá möguleiki að leggja skatt á greiðslur íslenskra félaga til félaga í skattaskjólum en fleiri leiðir koma til greina og verða skoðaðar nánar á næstunni. Í ljósi umfangs vandans hér á landi er afar mikilvægt að Ísland verði í fremstu röð í hinni alþjóðlegri baráttu gegn starfsemi skattaskjóla.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 19. apríl.

Categories
Greinar

Tímamót í öryggis- og varnarmálum

Deila grein

16/04/2016

Tímamót í öryggis- og varnarmálum

Lilja Alfreðsdóttir

Söguleg stund átti sér stað á Alþingi í vikunni þegar tillaga um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland var samþykkt mótatkvæðalaust. Samþykktin markar tímamót í lýðveldissögunni þar sem aldrei áður hefur verið mörkuð heildstæð stefna um þjóðaröryggi Íslendinga. Í raun hefur aldrei verið jafn brýnt að stjórnvöld marki slíka stefnu. Að öryggis- og varnarumhverfi Íslands og annarra Evrópuríkja stafa margar og flóknar áskoranir sem birtast okkur nær daglega í fyrirsögnum og fréttum.

Fyrir stjórnvöld er það mikill ábyrgðarhluti að í síkvikum heimi alþjóðastjórnmála – þar sem veðrabrigða gætir oft fyrirvaralaust – sé til staðar skýr stefnumörkun um framkvæmd þjóðaröryggis. Fyrir herlausa þjóð er vissulega um stórt skref að ræða en þetta skref er tekið með raunsæi og pólitíska sátt að leiðarljósi. Forsendurnar eru skýrar: Það er frumskylda stjórnvalda hvers ríkis að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar gagnvart þeim ógnum sem kunna að valda borgurum, stjórnkerfi og grunnvirkjum samfélagsins stórfelldum skaða – hvort sem um er að ræða innri eða ytri ógnir, af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara.

Hin nýja þjóðaröryggisstefna endurspeglar stöðu Íslands sem fámennrar eyþjóðar í Norður-Atlantshafi sem hvorki hefur vilja né burði til að ráða yfir eigin her og tryggir öryggi og varnir sínar með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Ástæða er til að staldra við atburði á síðustu misserum og líta á þróun mála í okkar nánasta öryggisumhverfi, sem minna á að öryggi er ekki sjálfgefið. Það er afar brýnt að stilla saman strengi og horfa með heildstæðum hætti á öryggismál. Þjóðaröryggisstefnan er slíkt tæki.

Þjóðaröryggisstefnan nær jafnt til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis og gerir meðal annars ráð fyrir að sett verði á fót sérstakt þjóðaröryggisráð sem hafi yfirsýn með framkvæmd stefnumiðanna og stuðli að virkri umræðu um öryggis- og varnarmál. Þegar er hafin vinna við frumvarp sem ég hyggst leggja fram, í samvinnu við innanríkisráðherra, til laga um stofnun þjóðaröryggisráðs líkt og stefnan kveður á um, og viðhalda áfram þeirri samstöðu sem ríkt hefur um málaflokkinn.

Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland er í stöðugri mótun og tekur mið af þróun öryggismála á hverjum tíma. Samkvæmt ályktuninni sem samþykkt var í vikunni skal hún endurskoðuð á að minnsta kosti fimm ára fresti og ég tel brýnt að um hana fari fram regluleg umræða. Horft verður sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum og að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna verði áfram lykilstoðir í vörnum landsins. Norræn samvinna um öryggis- og varnarmál verði ennfremur efld og þróuð og áfram lögð áhersla á virkt alþjóðasamstarf á grundvelli alþjóðalaga og virðingu fyrir mannréttindum. Tryggt verði að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum sé hluti af þjóðaröryggisstefnu og tekið verði mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum.

Öryggisumhverfi Íslands er einnig mótað af nýjum áskorunum sem þjóðaröryggisstefnan tekur mið af. Þar er áréttað að stuðlað verði að auknu netöryggi og að stefna stjórnvalda taki mið af hryðjuverkaógn, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við fjármála- og efnahagsöryggi. Þá verði Ísland og íslensk landhelgi friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.

Það var mér sérstök ánægja að taka þátt í umræðunum á Alþingi í aðdraganda samþykktarinnar og verða vitni að þeirri sátt og samstöðu sem ríkti um þennan mikilvæga málaflokk. Um leið og ég ítreka ánægju mína með stefnuna og þakklæti til þeirra sem lögð lóð á vogarskálarnar við vinnu henni tengda vil ég undirstrika að þjóðaröryggi Íslendinga byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og þeim grunngildum sem okkur Íslendingum eru svo kær – lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbærri þróun, afvopnun og friðsamlegri lausn deilumála.
Aðdragandi þjóðaröryggisstefnunnar hefur verið langur. Allt frá upphafi var lögð áhersla á að ná breiðri sátt og eiga þar forverar mínir í stóli – þeir Össur Skarphéðinsson og Gunnar Bragi Sveinsson – miklar þakkir skildar fyrir. Þá er ótalinn afar mikilvægur þáttur þverpólitískrar þingmannanefndar sem, undir styrkri stjórn Valgerðar Bjarnadóttur viðhélt sátt og skilaði af sér lykiltillögum sem þjóðaröryggisstefnan hvílir á. Þá fjallaði utanríkismálanefnd þingsins ítarlega um málið og skilaði sameiginlegu nefndaráliti með breytingatillögum sem allar voru til bóta.

Þjóðaröryggi er bjargfesta fyrir íslenska þjóð og í henni birtast þau gildi og þær skuldbindingar sem skapa grunninn að utanríkisstefnu Íslands. Það er ástæða til að fagna framsýni og ábyrgð allra stjórnmálaflokka á þingi sem náð hafa saman um þetta grundvallarmál.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. apríl 2016.

Categories
Greinar

Framsæknar konur

Deila grein

16/04/2016

Framsæknar konur

flickr-Þórunn EgilsdóttirÞau sögulegu tíðindi áttu sér stað í liðinni viku að í fyrsta skipti skipa konur meirihluta í ríkisstjórn fyrir Framsóknarflokkinn. Inn í ríkisstjórn kom Lilja Alfreðsdóttir, hæfileikarík, vel menntuð og reynslumikil ung kona. Hún er sjöundi kvenkynsráðherrann úr röðum flokksins.

Þetta eru einkar ánægjuleg tíðindi því í gegnum árin hafa Framsóknarkonur barist einarðlega fyrir jafnréttismálum. Innan Framsóknarflokksins hefur Landssamband Framsóknarkvenna verið ötult í að hvetja konur til að stíga fram og láta til sín taka, hvort heldur sem er á vettvangi stjórnmálanna eða í atvinnulífinu. Jafnréttisáætlun flokksins kveður á um hvernig Framsóknarflokkurinn vinnur að jafnrétti og virðingu allra í flokksstarfinu,  jafnt í innra sem ytra starfi.

Markmiðið er að ná jafnri þátttöku félagsmanna óháð uppruna, sérkennum, kyni og aldri í störfum á vegum flokksins, ákvarðanatöku og skiptingu ábyrgðar.

Um þessi markmið hefur verið mikil samstaða og hafa karlar og konur unnið saman að þeim.
Framsóknarflokkurinn hefur vissulega uppskorið í þessum efnum en við megum ekki gleyma því að til að ná árangri á þessu sviði sem öðrum eru samvinna og samtal mikilvægir þættir. Þá megum við ekki gleyma sögunni og því að sterkir einstaklingar hafa í gegnum tíðina ýtt við okkur hinum. Í því sambandi vil ég minnast framgöngu Rannveigar Þorsteinsdóttur sem kosin var á þing árið 1946, fyrst kvenna fyrir Framsóknarflokkinn.

Baráttumál hennar voru öðru fremur réttarstaða kvenna, skattamál og húsnæðismál. Hún var óþreytandi að hvetja konur til starfa í félags- og þjóðmálum.  Sem eintaklingur þótti hún kappsöm og skelegg og sannarlega var hún langt á undan sinni samtíð. Einstaklingum eins og Rannveigu getum við þakkað margt og nýtt verk þeirra okkur til áframhaldandi hvatningar.

Við Framsóknarmenn erum svo lánsöm að dreifing aldurs í okkar hópi er nokkuð breið og bakgrunnur okkar fjölbreyttur. Nefna má að í síðustu Alþingiskosningum gerðust þau sögulegu tíðindi að í þingflokki okkar eru bæði yngsti og elsti þingmaðurinn og ekki nóg með það heldur eru þeir báðir konur. Jóhanna María Sigmundsdóttir er yngsta konan sem  nokkru sinni efur verið kosin á þing. Framganga hennar er sannarlega ungum konum hvatning til að láta til sín taka á sviði stjórnmála. Þá er elsta konan Sigrún Magnúsdóttir sannarlega reynslubolti sem hefur víðtæka þekkingu og kunnáttu sem nýtist vel í ráðherrastól.

Við Íslendingar stöndum framarlega í jafnréttismálum en þrátt fyrir það eru enn verkefni fyrir höndum og mikilvægt að við ekki einungis viðhöldum árangrinum heldur stígum sífellt lengra og nær því að gera stöðu kynjanna jafna.

Sóknarfærin eru mörg og mun ríkisstjórn Framsóknarfokks og Sjálfstæðisflokks halda áfram að skapa verðmæti með kraftmiklum einstaklingum, körlum og konum.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 16. apríl 2016.

Categories
Greinar

Ríkisútvarpið og aflandslistarnir: Pólitískur herleiðangur

Deila grein

02/04/2016

Ríkisútvarpið og aflandslistarnir: Pólitískur herleiðangur

Þorsteinn-sæmundssonSíðasta hálfa mánuðinn hefur Ríkisútvarpið verið í samstarfi við aðila sem segjast hafa undir höndum upplýsingar um aflandsreikninga Íslendinga. Á þeim tíma hafa litlar upplýsingar birst en þess fleiri aðilar tjáð sig um málið hjá Ríkisútvarpinu sem hefur farið með þessa aflandslista eins og leyndarmál og ekki viljað birta þá í heild sinni þrátt fyrir áskoranir þar um.

Augljóst er að Ríkisútvarpið notar listana í þeim tilgangi að koma höggi á forsætisráðherra og ríkisstjórnina í stað þess að einbeita sér að því að veita upplýsingar um málið. Þannig er augljóst að tilteknar upplýsingar úr þessum listum eru birtar og öðrum haldið eftir. Síðan hafa álitsgjafar verið valdir af mikilli vandvirkni í því leikriti sem Ríkisútvarpið hefur sett á svið um leið og það hefur kastað allri hlutlægni fyrir róða.

Segja má að tónninn hafi verið slegin í umfjöllun Ríkisútvarpið um málið þegar Jón Ólafsson heimspekingur var kallaður sérstaklega til í Kastljós í kjölfar þess að eiginkona forsætisráðherra hafði greint frá reikningum sínum erlendis. Jón var trúnaðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrverandi forsætisráðherra og stjórnaði innra umbótastarfi Samfylkingarinnar eftir hrun. Hann hefur reglulega verið kallaður til af Ríkisútvarpinu til þess að fjalla um störf núverandi ríkisstjórnar.

Í morgunútvarpið föstudaginn 18. mars voru síðan kallaðir til að ræða mál forsætisráðherra þeir Jóhann Hauksson fyrrum upplýsingafulltrúi Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður á Stundinni, sem hefur skrifað ótal greinar um forsætisráðherra og Framsókn, þar sem hatri og fyrirlitningu á flokknum hefur verið sáð. Það er ekki að ástæðulausu að jafnvel Egill Helgason segir opinberlega að Stundin sé fjölmiðill sem hati Framsóknarflokkinn. Engin tilraun var gerð til að benda á pólitískan bakgrunn Jóhanns Haukssonar enda er hann flestum vel kunnur.

Í kvöldfréttum sama dag var efnt til sérstakrar umræðu um það hvort forsætisráðherra hefði farið eftir siðareglum. Var þá kallaður til Vilhjálmur Árnason prófessor en á sínum tíma kallaði hann afstöðu Sigmundar Davíðs, um að segja nei við Icesave-samningum, „siðferðilega óverjandi“. Facebook síða Samfylkingarinnar sá ástæðu til að dreifa þessu viðtali sérstaklega enda mætir Vilhjálmur gjarnan þar á félagsfundi.

Mánudagsmorguninn þar á eftir tók svo steininn úr þar sem enn á ný voru boðnir til að tjá sig tveir yfirlýstir andstæðingar forsætisráðherra, þeir Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar og Indriði H. Þorláksson hægri hönd Svavars Gestsonar í Iceasave samninganefndinni. Það þarf ekki lengi að lesa skrif og ræður Róberts til að átta sig á því að hann fyrirlítur Framsóknarflokkinn – „Til hvers er Framsóknarflokkurinn?“ spyr hann í blaðagrein árið 2007 – „Hann er vítið sem öllum ber að varast.“ er svarið.

Ríkisútvarpið virðist líka alveg hafa gleymt því að Indriði H. Þorláksson á sér sögu í pólitískri andstöðu við Sigmund Davíð, að hann samdi um og skrifaði undir Svavarssamningana árið 2009 og var hægri hönd Steingríms J. Sigfússonar, ýmist sem ráðuneytisstjóri eða pólitískur aðstoðarmaður, þegar bankarnir voru gefnir hrægammasjóðunum, eins og Víglundur Þorsteinsson hefur upplýst með því að draga fundargerðir eins og tennur úr kjafti kerfisins. En Indriði er að sjálfsögðu aðeins kynntur sem „fyrrverandi ríkisskattstjóri“ þegar hann mætir í Ríkisútvarpið til viðtals.

Þegar kom fram í dymbilviku flæddu einnar heimildar „fréttir“ um Ríkisútvarpið þar sem þingmenn stjórnarandstöðu fengu að úttala sig um fjármál eiginkonu forsætisráðherra. Viðtöl við þá sem báru blak af forsætisráðherra voru afflutt þannig að viðmælendur urðu að skrifa bloggfærslur til leiðréttingar. Þetta sást glögglega í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins föstudaginn langa. Þar var herferðinni gegn forsætisráðherra haldið áfram. Í inngangi að frétt Ríkisútvarpsins var sagt að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vilji þingflokksfund til að ræða fjármál eiginkonu forsætisráðherra. Það væri stórfrétt ef stjórnarþingmaður færi fram á þingflokksfund enda gaf það slúðrinu vængi.

Í inngangi fréttarinnar sagði:
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Wintris-málið sé óþægilegt fyrir ríkisstjórnarsamstarfið, sérstaklega í ljósi samninga við kröfuhafa og afnáms hafta. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þurfi að funda um málið og fá allar staðreyndir upp á borð áður en hægt sé að taka afstöðu til þess.

Þetta reyndist rangt. Brynjar óskaði ekki eftir þingflokksfundi til að ræða fjármál Önnu Sigurlaugar. Það kemur fram í meginmáli fréttarinnar, þar sem orð Brynjars eru endursögð. Brynjar sá sig knúinn að birta bloggfærslu til að taka af öll tvímæli: hann telur forsætisráðherra ekki vanhæfan. En hann gerir ráð fyrir að þingflokkurinn ræði málið, „sérstaklega ef fram kemur vantrauststillaga á þinginu.”

Það er vitanlega allt annað að gera ráð fyrir umræðum í þingflokki eða að fara fram á að þingflokkurinn ræði þetta tiltekna mál.

Ríkisútvarpið reyndi þannig sem fyrr að afbaka umræðuna til að hún þjóni pólitískum tilgangi fréttastofunnar.

Líklega má segja að toppurinn hjá fréttastofunni hafi verið fréttin með Svandísi Svavarsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, þar sem hún sagði efnahagslegt fullveldi landsins í hættu vegna bankareiknings eiginkonu forsætisráðherra.

Öllum má vera ljóst að RÚV stundar pólitík en ekki fréttamennsku í málinu. Þegar Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug tóku saman greinargerð til að svara ásökunum gerði Ríkisútvarpið þau viðbrögð tortryggileg og skautaði framhjá efnisatriðum málsins. Augljóst var að Ríkisútvarpið fann enga málefnalega veilu í greinargerðinni heldur var sérstaklega bent á lengd hennar!

Sama ástand ríkti eftir páska. Þriðjudaginn 29. mars var í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins fjallað um þau Bjarna Benediktsson og Ólöfu Nordal og tengsl þeirra við aflandsfélög. Inngangur fréttarinnar var endurtekning á ásökunum Ríkisútvarpsins á hendur forsætisráðherrahjónunum.

Áður hefur verið upplýst að sá listi sem Ríkisútvarpið er með aðgang að geymir nöfn stjórnmálamanna úr vinstriflokkunum. Þeirra var ekki getið í frétt Ríkisútvarpsins það kvöld frekar en önnur. Öllum má vera ljóst að Ríkisútvarpið stundar fréttahönnun með skýru pólitísku markmiði; að tengja aflandsfélög við stjórnarflokkana.

Nú þegar hefur verið upplýst að gjaldkeri Samfylkingarinnar var umsvifamikill eigandi aflandsfélaga er umfjöllun Ríkisútvarpsins í skötulíki. Undarlegast er að einn þeirra fréttamanna Ríkisútvarpsins, sem um málið hafa fjallað, er meðeigandi sama gjaldkera í fjölmiðlafyrirtækinu Kjarnanum ef marka má skráningu Fjölmiðlanefndar. Er hugtakið hlutlægni algerlega framandi fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins? Hafa þeir engan skilning á að þeir geti verið vanhæfir í einstökum málum eins og þarna hefur sannast. Ríkisútvarpið hefur flutt eina frétt af málefnum gjaldkera Samfylkingarinnar og í engu getið að hann hefur fjármuni annars staðar en í Lúxemborg.

Fréttaleikritið heldur áfram. Fyrir ríkisstjórnarfund á miðvikudaginn var mikill viðbúnaður af hálfu starfsmanna Ríkisútvarpsins sem hlupu á milli ráðherra á tröppunum fyrir framan Stjórnarráðið. Allir skyldu fá á tilfinninguna að það væri mikið óðagot og panik í herbúðum ríkisstjórnarinnar.

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra var gestur Síðdegisútvarps Rásar 1 fimmtudaginn 31. apríl. Þorsteinn hefur verið einn harðasti gagnrýnandi núverandi ríkisstjórnar og sparaði sig hvergi. Hann sagði að eftir að upplýst var um aflandsfélög tengd ráðherrum séu engar siðferðilegar stoðir lengur fyrir þeirri pólitísku stefnu ríkisstjórnarinnar að sumir geti staðið fyrir utan krónuhagkerfið, en aðrir ekki.

Vandræðagangur stjórnarandstöðunnar var augljós með vantrausttillögu sína þó Ríkisútvarpið gerði sitt besta til að breiða yfir það. Á ritstjórn ruv.is var greinilega óljóst um hvað fyrir stjórnarandstöðunni 31. mars: „Stjórnarandstaðan boðar vantrauststillögu og fer fram á þingrof.“ Þetta er auðvitað rangt. Stjórnarandstaðan hefur einmitt ekki boðað vantrauststillögu heldur þingrofstillögu. Kjarni þingræðisreglunnar er að ríkisstjórn hafi meirihluta þings að baki sér. Reglan snýst ekki um þingrof heldur kann samþykkt vantrausts að leiða til þingrofs.

Augljóslega er verið að móta orðræðuna á Ríkisútvarpinu. Þegar farið var yfir fréttir vikunnar að morgni föstudagsins 1. apríl með þeim Páli Magnússyni fyrrverandi sjónvarpsstjóra og Sigurði G. Guðjónssyni lögmanni. Þar talaði umsjónarmaður morgunútvarps um „vörn“ forsætisráðherra þegar hann vék að þeim upplýsingum sem hann hafði veitt. Ekki var rætt um að neinn væri í „sókn“ í málinu!

Á sama tíma var Óðinn Jónsson búinn að kalla aftur til leiks Vilhjálm Árnason, heimspekiprófessor á Morgunvakt Rásar 1. Vilhjálmur flutti erindi sitt enn á ný og sagði að vegna trausts og trúverðugleika í íslenskum stjórnmálum séu aflandsfélagsmál forystumanna mjög slæm. Stjórnmálamenn verði að vanda sig.

„Einmitt vegna þessa trausts eða trúverðugleika, sem er mikilvægast að byggja upp, eru þessi mál svona ótrúlega slæm. Ekki bara það að upp hafi komist um forystumenn í stjórnmálum sem ættu að vera til fyrirmyndar í málum sem þetta varðar. Þeir stjórnmálamenn sem veljast til forystu þurfa að vanda sig, sérstaklega ef þeir eiga peninga. Þeir þurfa að fara varlega í þessum málum og alls ekki haga sér á þann hátt sem þeir ætlast til þess að borgararnir geri ekki. Þarna eru ákveðnar kröfur, ákveðnar fórnir sem menn í svona stöðum verða að færa, ef þeir líta svo á að séu fórnir,“ sagði Vilhjálmur.

Í þessu samhengi er er rétt að ánýja hversu forsætisráðherrahjónin hafa vandað sig í meðferð arfshluta Önnu Sigurlaugar og hverju hún hefur til fórnað. Af framansögðu sést að aftur og aftur er kallað í sömu álitsgjafanna á meðan Ríkisútvarpið kýs að hundsa algerlega þá sem hafa tjáð sig um málið eða benda á staðreyndir án þess að vera neikvæðir í garð ráðherra.

Undanfarna daga hefur verið auglýstur rækilega sérstakur aukaþáttur Kastljóss sem verður sýndur í sjónvarpi sunnudaginn 3. apríl klukkan 18.00. Þar segir að Kastljós, ásamt Reykjavík Media, muni fjalla um íslenska stjórnmálamenn og aflandsfélög í skattaskjólum. Greiningin byggi á gögnum alþjóðlegra samtaka rannsóknarblaðamanna (ICIJ), þýska dagblaðsins Süddestuche Zeitung og fleiri miðla.

Í kynningu Ríkisútvarpsins segir að umrædd gögn og fyrirspurnir vegna þeirra hafi orðið til þess að eiginkona forsætisráðherra tilkynnti að hún ætti slíkt félag á bresku Jómfrúaeyjum. Síðar hafi komið í ljós að félagið hefði lýst kröfum upp á hálfan milljarð í föllnu bankana. Gögnin tengi einnig Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, og Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, við aflandsfélög.

Í frétt á heimasíðu Ríkisútvarpsins segir:
,,Í kjölfar þess var einnig greint frá því að Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, ætti félag í Lúxemborg. Hann sagði félagið full skattað og allt uppi á borðum en sagði engu að síður af sér í gær. Tenging ráðherranna við aflandsfélög hefur verið harðlega gagnrýnd. Stjórnarandstaðan boðar vantrauststillögu og fer fram á þingrof.“

Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur þannig dögum saman fjallað um einkafjármál forsætisráðherrahjónanna eftir að eiginkona forsætisráðherra upplýsti um að fjölskylduarfleið hennar væri geymd erlendis. Fjölskylduarfleið sem eiginkona forsætisráðherra hefur greitt skatta af alla tíð á Íslandi, ólíkt sumum sem ríkisútvarpið kýs að fjalla einhverja hluta vegna ekkert um.

Á sama tíma hafa forsætisráðherrahjónin gert ítarlega grein fyrir máli sínu. Ljóst er að að þeim er vegið af fádæma hörku og öllum sem þekkja til vinnubragða á fréttastofu ríkisútvarpsins (þar sem ráðherrann starfaði um tíma) verður ljóst að ekki er ætlunin að afla frétta með eltingarleik við ráðherrann heldur atast í honum á sama hátt og stjórnarandstaðan gerir. Ráðherrann hefur ekki viljað taka þátt í þeim gráa leik og rætt við aðra fjölmiðla: Fréttablaðið, útvarpsstöð og fjölmiðlamann á Bylgjunni sem sérhæfir sig í pólitískum fréttum auk þess sem forsætisráðherrahjónin hafa ritað ítarlega greinargerð í formi spurninga og svara og birta á netinu.

Upplýsingar um málið hafa þannig komist rækilega til skila án þess að þær hafi farið í gegnum Ríkisútvarpið. Flestum er ljóst að nálgun Ríkisútvarpsins er pólitísk og mótast af óvild í garð forsætisráðherra sem rennir aðeins stoðum undir þá skoðun að rót eltingarleiksins við ráðherrann sé pólitísk og því ófagleg með vísan til lögbundins hlutverks fréttastofunnar. Heiðarleiki stjórnmálamanna hér eða annars staðar ræðst ekki af því hvort þeir tala við einn fjölmiðil en ekki annan, jafnvel ríkisfjölmiðil. Vandi fréttastofunnar er meiri í þessu máli en forsætisráðherrans sem hefur gert skýra grein fyrir málinu. Það er skýlaus krafa þeirra sem búa við nauðungaráskrift að Ríkisútvarpinu að það birti aflandseignalistann í heild sinni tafarlaust.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist á www.visir.is 2. apríl 2016.

Categories
Greinar

Gleym mér ei

Deila grein

02/04/2016

Gleym mér ei

haraldur_SRGBÝmislegt gengur nú á í íslenskri pólitík. Vantrausttillögur eru ræddar og daðrað er við þá furðulegu alhæfingu að pólitíkusar hljóti nú hreinlega að vera spilltir fram í fingurgóma fyrst þeir tengjast erlendum félögum.

Þá er kosið að líta framhjá staðreyndum á borð við að félag hafi aldrei verið starfandi eða að allir skattar hafi verið greiddir og allt bókhald sé á hreinu, merkilegt nokk.

Umræða um einstaka persónuleg málefni ráðherra og annarra stjórnmálamanna hefur það í för með sér að þau góðu mál sem náð hafa í gegn á þessu kjörtímabili vilja stundum hverfa í mýrinni. Það er miður, því gríðarlegt efnahagslegt og samfélagslegt afrek hefur verið unnið síðustu þrjú ár.

Bættur hagur heimilanna og ríkissjóðs
Fyrir kosningarnar 2013 lofaði Framsókn því að leiðrétta stökkbreyttar verðtryggðar húnæðisskuldir heimilanna, ekkert réttlætti það að lánþegar sætu einir uppi með afleiðingar af völdum efnahagshrunsins. Strax um sumarið 2013 var lagt af stað í undirbúning þeirrar vinnu og skilaði það sér til neytenda um áramótin 2014-2015.

Leiðréttingin var fjármögnuð með svokölluðum bankaskatti, sem lagður var á þrotabú gömlu bankanna. Á sama tíma var auðveldað fólki að festa kaup á fasteign með séreignarlífeyris-sparnaðarleiðinni, að hægt væri að ráðstafa séreignarlífeyrissparnaði til lækkunar höfuðstóls. Einnig býðst fólki að nýta séreignarsparnað til fasteignakaupa og njóta samsvarandi skattafsláttar, en það getur meðal annars nýst fjölskyldum í leiguhúsnæði. Þetta var eitt af stærstu málum okkar og var þarna unninn mikill sigur fyrir íslenskan almenning.

Annað stærra mál var afnám fjármagnshafta. Þar var 1.200 milljarða króna vandi leystur án þess að stefna hagsmunum þjóðarinnar í hættu, með því að koma í veg fyrir að slík upphæð myndi hellast inná gjaldeyrismarkaðinn. Þannig var slitabúum bankanna gert að greiða stöðugleikaframlag sem nemur um 500 milljörðum króna og mun renna í ríkissjóð. Auk þess verður hinn svokallaði aflandskrónuvandi leystur með uppboði á gjaldeyri. Vinna við undirbúning þess hefur dregist nokkuð en áætlunin er óbreytt hvað þetta varðar og undirbúningur er í gangi í Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu. Þessi vinna mun lyfta gríðarþungm bagga af herðum þjóðarinnar.

Áþreifanlegur árangur
Til marks um þann árangur sem náðst hefur síðastliðin ár að kaupmáttur á Íslandi hefur aldrei nokkurn tímann mælst meiri en hann er í dag, atvinnuleysi mælist í 3,6% og er það Evrópumet, þeim fækkar sem þurfa fjárhagsaðstoð, tekjujöfnuður er meiri en nokkurn tímann frá því mælingar hófust og hamingja og jákvæðni Íslendinga eykst með hverju árinu, eftir mikla dýfu í kjölfar efnahagshrunsins. Við höfum einnig skapað okkur stóran sess í jafnréttisbaráttunni á alþjóðavettvangi og atvinnulífið hefur tekið hressilega við sér með auknum fjárfestingum og umsvifum.

Gagnrýni á vissulega alltaf rétt á sér, svo lengi sem hún er málefnaleg. Við megum hins vegar ekki afskrifa allt og gleyma því sem vel hefur verið gert þegar önnur umdeild mál -persónuleg mál- eru til umræðu í samfélaginu, því góðu málin eru nefninlega ansi mörg.

Haraldur Einarsson

Greinin birtist á www.visir.is 2. apríl 2016.

Categories
Greinar

Jóhönnustjórnin – Stjórnarskrá ver kröfuhafa!

Deila grein

01/04/2016

Jóhönnustjórnin – Stjórnarskrá ver kröfuhafa!

ásmundurÍ Kastljósi í gærkvöldi ræddu Vigdís Hauksdóttir og Steingrímur J. Sigfússon um endurreisn bankanna í tíð síðustu ríkisstjórnar. Steingrímur lét að því liggja að ekki væri ástæða til að fara ofan í það hvernig staðið var að endurreisn bankanna á síðasta kjörtímabili þar sem komið hefði út sérstök skýrsla um endurreisn bankanna og farið hefði fram umræða um hana á Alþingi. Ég man vel eftir þessari umræðu vegna þess að hún fór fram 1. júní 2011, en það var daginn sem ég gekk til liðs við Framsóknarflokkinn.

En hvað var sagt við umræður um áðurnefnda skýrslu?

Lilja Mósesdóttir sem á síðasta kjörtímabili var ein af okkar öflugustu þingmönnum þegar kom að efnahagsmálum og baráttunni við erlenda kröfuhafa hafði m.a. þetta að segja í þessari umræðum:

„…Þegar ég ákvað stuttu fyrir kosningar 2009 að bjóða mig fram fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs trúði ég að forystu VG væri best treystandi til að reisa við efnahagslífið með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Aldrei grunaði mig að formaður VG myndi ásamt forystu Samfylkingarinnar verða uppvís að því að gæta hagsmuna erlendra kröfuhafa, eins og Breta, Hollendinga og vogunarsjóða, í Icesave-málinu og nú við endurreisn bankakerfisins….Skjaldborg um bankanna skapar ekki velferð og hagvöxt. Það gerir hins vegar skjaldborg um heimilin og fyrirtækin. Endurreisn bankakerfis á forsendum vogunarsjóða en ekki hagsmuna almennings er vinstri stjórn til ævarandi skammar…“

Í þessari umræðu spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon að eftirfarandi spurningu:

„…Hefði ekki verið ráð að nota tækifærið sem gafst á meðan þessi eignasöfn voru lágt metin á heimsmarkaðsverði og láta íslenskan almenning og fyrirtæki njóta góðs af því, þau áttu inni vegna þeirra áhrifa sem efnahagskrísan hafði valdið?“

Þá svaraði Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra :

„…Ég veit ekki hversu rækilega þarf að reyna að útskýra að slíkt sé ekki hægt í svona ferli þegar menn verða að ganga út frá grundvallarreglunum sem ég hef farið yfir hér, þegar stjórnarskrá er í gildi þar sem eignarréttur er til staðar og varinn og verndaður og þegar stjórnvöld í ofanálag hafa heitið því að viðhafa sanngjarna málsmeðferð í svona uppgjöri….“

Skýrara verður það ekki. Jöhönnustjórnin taldi að ekki væri hægt að gera það sem Framsóknarflokkurinn vildi gera. Það var nefnilega búið að lofa kröfuhöfum „sanngjörnu“ uppgjöri!!

Er nema von að Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar hafi nýverið skrifað bréf til flokksmanna þar sem hann sagði m.a. að forgangsröðun í þágu kröfuhafa hafi verið ein af mistökum síðasta kjörtímabils. Er ekki kominn tími til að fá öll spilin á borðið og kanna hvað það var sem réði för þegar farið var gegn almenningi og kröfuhöfum lofað að ekki yrði tekið á þeim?

Ríkistjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks snéri strax af þessari braut. Byrjað var á því að afnema undanþágu fallinna fjármálafyrirtækja frá því að greiða bankaskatt og í framhaldinu hófst vinna sem miðaði að því að innlendar eignir þrotabúanna yrðu afhentar Íslendingum. Það er sérstakt að hlusta á þingmenn úr röðum núverandi stjórnarandstöðu setja uppgjör ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við kröfuhafana sem eina af ástæðum þingrofstillögu sinnar. Umræðurnar verða hinsvegar kærkominn vettvangur til að ræða breytta stefnu og þá staðreynd að erlendir kröfuhafar eru að færa ríkissjóði hundruði milljarða. Nokkuð sem kallað var poppúlismi fyrir síðustu kosningar.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist á https://blog.pressan.is/asmundurd 1. apríl 2016.

Categories
Greinar

Um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi

Deila grein

30/03/2016

Um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi

frosti_SRGBFrá því fjármálakreppan skall á hefur krafan um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi verið talsvert áberandi. Fjöldi sérfræðinga og nefnda í mörgum löndum hafa fjallað um málið en niðurstaðan hefur ekki verið einhlít um hve langt þurfi ganga í aðskilnaði. Lögum og reglum hefur verið breytt til að draga úr áhættu í bankarekstri og efla fjármálastöðugleika en hvergi hefur verið ráðist í að aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi enn sem komið er.

Rökin fyrir aðskilnaði
Fjárfestingabankastarfsemi getur verið bæði arðbærari og áhættusamari en hefðbundin viðskiptabankastarfsemi. Áhætta í fjárfestingabankastarfsemi er þó fyrst og fremst áhyggjuefni eigenda fjárfestingabankans en ekki ríkisins.

Öðru máli gegnir um viðskiptabanka því þeir njóta ríkisábyrgðar eins og útskýrt verður síðar í þessari grein. Áhættan í rekstri viðskiptabanka er því ekki einkamál eigenda bankans. Fjöldi dæma í mörgum löndum sýna að tjón af gjaldþroti viðskiptabanka lendir jafnan á ríkinu og tjónið getur verið gríðarmikið ef bankinn er stór.

Hagsmunir ríkisins felast í því að takmarka áhættu í rekstri viðskiptabanka en hagsmunir hluthafa og lykilstjórnenda lúta aftur á móti að því að hámarka arðsemi bankans. Til þess þarf iðulega að taka nokkra áhættu. Ríkið þarf því að setja viðskiptabönkum mjög skýrar reglur til að takmarka áhættuna, beitt virku eftirliti og ströngum  viðurlögum. Með því að banna viðskiptabönkum að stunda fjárfestingabankastarfsemi verða skilin skýr og eftirlitið auðveldara í framkvæmd.

En það eru fleiri rök nefnd fyrir aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Um leið og viðskiptabanki hefur fjárfestingastarfsemi skapast hætta á því að hagsmunir banka og innstæðuhafa fari ekki saman í tilteknum verkefnum. Hætta á hagsmunaárekstrum kallar á meiri reglur og eftirlit en það veldur auknum kostnaði. Einfaldara og öruggara væri að skilja á milli.

Einnig eru nefnd þau rök að viðskiptabankar sem njóta ríkisábyrgðar, njóti þar með óeðlilegs forskots í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki sem ekki njóta ríkisábyrgðar.

Að lokum hefur verið bent á að fái bankar að stunda blandaðan rekstur geti þeir orðið mun stærri en annars væri. Því stærri sem viðskiptabanki er þegar hann fellur, því meira getur tjón ríkisjóðs orðið.

Rökin gegn aðskilnaði
london
Það hafa verið færð ýmis rök gegn aðskilnaði. Bent hefur verið á að fjármagnskostnaður við fjárfestingastarfsemi muni aukast við aðskilnað frá viðskiptabanka. Eftir aðskilnað fær fjárfestingabankahlutinn ekki lengur aðgang að ódýru fjármagni í formi innstæðna og verður því að fjármagna sig á kjörum sem bjóðast á markaði. Vextir á innstæðum eru jafnan umtalsvert lægri en markaðskjörin, aðallega vegna þess að innstæður eru óbundnar og taldar njóta ríkisábyrgðar þegar á reynir.

Aukinn fjármagnskostnaður eru þó varla gild rök gegn aðskilnaði nema hægt sé að sýna fram á að fjárfestingabankastarfsemi eigi tilkall til ríkisábyrgðar á fjármögnun sinni en það hefur ekki verið sýnt fram á neitt slíkt.

Stærðarhagkvæmni getur vissulega tapast ef viðskiptabankar mættu  ekki stunda fjárfestingastarfsemi. En á móti má spyrja hvort það sé skylda ríkisins að axla verulega áhættu svo að bankar geti náð stærðarhagkvæmni. Hér á landi virðist fákeppni á bankamarkaði vera meira aðkallandi vandamál en skortur á stærðarhagkvæmni. Þrír stórir bankar ráða yfir 90% af markaðinum og við slíkar aðstæður er alls óvíst að aukin stærðarhagkvæmni myndi skila sér í bættum kjörum til neytenda.

Einnig er bent á að í stað aðskilnaðar ætti að leggja áherslu á betra regluverk, bætt siðferði í bankarekstri og virkara eftirlit. Setja eigi upp „girðingar” innan alhliða banka til að hindra að innstæður verði notaðar til að fjármagna fjárfestingabankastarfsemi og til að draga úr freistnivanda. Eflaust yrði þetta allt til bóta en áhætta ríkisins verður þó áfram til staðar og reglurnar og eftirlit getur brugðist. Blandaðir bankar geta líka orðið stærri en góðu hófi gegnir.

Að lokum er bent á að innlendir bankar þurfi að geta keppt við erlenda alhliða banka og því óæskilegt að íþyngja innlendum bönkum með löggjöf sem er strangari eða frábrugðin því sem tíðkast á EES svæðinu. Á móti má segja að viðskiptabankastarfsemi sé fremur staðbundin. Hún byggir að mestu leiti á því að taka við innlánum í krónum og veita lán í krónum til einstaklinga og fyrirtækja sem starfa hér. Erlendir bankar hafa ekki sýnt mikinn áhuga á þeirri starfsemi. En þeir hafa vissulega lánað til íslenskra fyrirtækja sem hafa erlendar tekjur og eru lánshæf í erlendri mynt. Erlendu bankarnir eru margfalt stærri en íslenskir bankar og fjármagnskostnaður þeirra er og verður líklega ávallt lægri en íslenskra banka. Þótt ríkissjóður Íslands standi að bönkunum í dag hefur það ekki nægt þeim til að undirbjóða erlenda banka í erlendum lánum. Það myndi því litlu breyta þótt ríkisábyrgðin hætti að bakka upp fjárfestingastarfsemi íslenskra banka.

Hvers vegna er ríkisábyrgð á viðskiptabönkum?
Það er vissulega mjög óheppilegt að viðskiptabankar njóti ríkisábyrgðar en það er því miður óumflýjanleg staðreynd eins og dæmin sanna.

Meginástæðan fyrir umræddri ríkisábyrgð liggur í því að starfsemi stórra viðskiptabanka er of mikilvæg fyrir samfélagið til að mega stöðvast en hin meginástæðan felst í því að fall eins viðskiptabanka getur komið af stað keðjuverkun sem fellt getur fleiri viðskiptabanka. Tjón af rekstrarstöðvun eins viðskiptabanka gæti þannig orðið margfalt meira en kostnaður ríkisins af því að bjarga bankanum. Þegar á reynir, kjósa ríkisstjórnir því að koma viðskiptabönkum til bjargar jafnvel þótt það kunni að kosta ríkissjóð og skattgreiðendur stórfé.

Skuldir viðskiptabankanna (innstæður) eru uppistaðan í greiðslumiðli landsins. Í stað þess að nota seðla og mynt sem greiðslumiðil í viðskiptum eru viðskipti að mestu gerð upp með millifærslum á milli bankareikninga. Það er því ljóst að nútíma samfélög reiða sig á að viðskiptabankar séu ávallt greiðslufærir. Annars væri ekki hægt að nota innstæður til greiðslu á nokkrum hlut. Truflanir á greiðslumiðlun þyrftu ekki að standa lengi til að verulegt tjón hlytist af.

Það er einnig staðreynd að viðskiptabankar eiga ekki nægilegt laust fé til að greiða út allar innstæður. Vakni grunsemdir um að banki sé kominn í vandræði getur hafist kapphlaup milli innstæðuhafanna um að taka út innstæður sínar. Til að mæta auknum úttektum þarf bankinn að losa um fé t.d. með sölu verðbréfa. Svo salan gangi hratt þarf bankinn að taka á sig veruleg afföll og jafnvel tap. Við það geta eiginfjárhlutföll hans fallið niður fyrir tilskilin lágmörk. Stóraukið söluframboð á verðbréfum getur leitt til verðlækkana á  verðbréfamarkaði sem hefði neikvæð áhrif á eiginfjárstöðu fleiri banka sem þá gætu einnig orðið fyrir áhlaupum. Þar sem kerfið er svona óstöðugt að upplagi, getur jafnvel tilefnislaust slúður um vandamál hjá einum banka komið af stað keðjuverkun sem leiðir til vanda hjá heilbrigðum bönkum og jafnvel leitt til falls alls bankakerfisins.

Ríkisstjórn sem stendur frammi fyrir sviðsmynd eins og hér var lýst mun ávallt telja þann kost skárri að stöðva áhlaup banka. Það er jafnan gert með því að lýsa yfir ríkisábyrgð á öllum innstæðum auk þess sem gripið er til annarra aðgerða. Hinn valkosturinn, að leyfa vandanum að breiðast út, yrði vafalaust margfalt dýrari fyrir samfélagið og ekki síst ríkissjóð.

En hvað með tryggingasjóð  innstæðueigenda og fjárfesta (TIF)?
Hér á landi er TIF sjálfseignarstofnun  sem starfar án formlegrar ábyrgðar ríkisins. Árið 2014 greiddu bankarnir iðgjöld í TIF sem námu 3,1 mia. kr. Eignir sjóðsins námu kr. 14,7 mia í lok sama árs.  Til að setja TIF sjóðinn í samhengi, námu innlán stóru viðskiptabankanna þriggja frá viðskiptavinum alls um 1.536 mia. kr. í árslok 2014 og af þeim voru um 70% laus innan 30 daga. Heildarfjárhæð innlána sem fellur að einhverjum hluta undir TIF nam samtals um 1.163 mia. kr. TIF sjóðurinn verður því líklega seint nógu stór til að afstýra áhlaupi á stóran banka hér á landi og því mun það áfram koma í hlut ríkisins að lýsa yfir fullri ríkisábyrgð á innstæðum.

Screen Shot 2016-03-28 at 15.31.03Það má rifja upp að þann 6. október árið 2008 taldi ríkisstjórn Íslands nauðsynlegt að gefa út eftirfarandi yfirlýsingu:

„Innstæður í innlendum  viðskiptabönkum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu”.

Á þessum tímapunkti var áhlaup innstæðuhafa á bankana í fullum gangi og segir sagan að birgðir viðskiptabankana  og Seðlabankans af peningaseðlum hafi verið nánast tæmdar.

Hefur nóg verið gert til að draga úr hættunni?
Eftir hrun hefur lögum og reglum ítrekað verið breytt m.a. til að draga úr áhættu í rekstri banka og má þar meðal annars telja að kröfur um eigið fé hafa verið auknar verulega og reglur um kaupaukakerfi hafa verið hertar. Fjármálaeftirlitið hefur líka fengið auknar eftirlitsheimildir. Nú er haldin sérstök skrá um stærri lántakendur. Heimildir banka til að eiga eigin hluti hafa verið þrengdar og bann lagt við lánum með veði í eigin hlutum banka. Þröngar skorður eru nú við lánveitingum

til stjórnarmanna, lykilstjórnenda og virkra eigenda. Reglur um stórar áhættuskuldbindingar hafa verið hertar. Kröfur um hæfi stjórnarmanna hafa verið auknar og ábyrgð þeirra aukin. Ákvæði um lausafjáráhættu hafa verið hert. Viðurlög við brotum hafa verið hert og hægt að beina þeim bæði að fyrirtækjum og þeim sem bera ábyrgð.

Þessar breytingar eru allar til bóta en breyta því ekki að ríkið er í ábyrgð fyrir innlánum viðskiptabankanna. Eftir sem áður stunda íslenskir viðskiptabankar áhættusama fjárfestingabankastarfsemi á ábyrgð ríkisins. Enn eru bankarnir of stórir og njóta um leið óeðlilegs forskots í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki vegna ríkisábyrgðar á innstæðum. Þessi vandamál verða ekki leyst nema viðskiptabönkum verði óheimilt að sinna fjárfestingastarfsemi.

Er einhver hreyfing á málinu?
Í október 2012 skilaði svokallaður þriggja manna hópur, skipaður Gavin Bingham, Jóni Sigurðssyni og Kaarlo Jännäri skýrslu til stjórnvalda sem bar yfirskriftina: Heildarumgjörð um fjármálastöðugleika á Íslandi. Hópurinn lagði til margvíslegar tillögur að úrbótum  og meðal annars að „unnt verði að aðgreina mikilvægustu rekstrarþætti,  svo sem fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi, við skilameðferð, og athugað verði gaumgæfilega hvort krefjast skuli lagalegs aðskilnaðar tiltekinna sérlegra áhættusamra starfsþátta frá þeim rekstri bankanna sem tekur við innlánum ef þeir starfsþættir eru verulegur hluti af rekstri banka.”

Alþingi hefur sýnt málefninu áhuga. Allt frá árinu 2003 hafa þingmenn lagt fram þingsályktunartillögur  sem miða að aðskilnaði viðskipta- og fjárfestingabanka. Nýjasta þingsályktun  þessa efnis var lögð fram í september 2015 af Ögmundi Jónassyni ásamt sjö þingmönnum. Því miður hefur tillagan ekki komist til fyrstu umræðu en haustið 2012 komst sambærileg tillaga til efnahags- og viðskiptanefndar sem ályktaði einróma að ráðherra ætti að skipa nefnd til að kanna hvort og þá með hvaða hætti megi aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka með það að markmiði að lágmarka áhættuna af rekstri banka fyrir þjóðarbúið. Þrátt fyrir góða samstöðu  í nefndinni dagaði málið uppi í þinginu.

Í umsögn Fjármálaeftirlitsins um tillöguna stendur meðal annars:

„Það er ekki til þess fallið að styrkja ímynd og traust íslenskra fjármálafyrirtækja, ef þau starfa samkvæmt lögum sem fela í sér veruleg frávik frá þeirri löggjöf sem er í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. … Í því samhengi má nefna að fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar utan Íslands, sem bjóða þjónustu sína hér á landi í samræmi við starfsleyfi heimalands síns, myndu að öllum líkindum ekki þurfa að lúta sérákvæðum íslenskra laga ef í þeim felast veruleg frávik frá evrópskri fjármálalöggjöf. Þetta gæti skekkt samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja.”

Síðan þessi umsögn var sett fram hefur margt breyst og hugsanlega mætti nú, ekki síst í ljósi vandamála fjármálakerfis Evrópska efnahagssvæðisins, efast um að regluverk EES sé til þess fallið að styrkja ímynd Íslands.

Hvað varðar samkeppnisstöðuna, virðast erlendir stórbankar nú þegar hafa nokkra yfirburði í erlendum lánum til íslenskra útflutningsfyrirtækja og þótt viðskiptabönkum verði bannað að stunda fjárfestingabankastarfsemi mun það vart breyta öðru en því að áhætta ríkisins myndi minnka verulega.

Í umsögn Seðlabanka stendur meðal annars:

„Ekki má útiloka að nefndin gæti komist að þeirri niðurstöðu að einhverjar takmarkanir, á starfsemi innlánsstofnana séu æskilegar, en ekki fullur aðskilnaður hefðbundinnar starfsemi viðskipta- og fjárfestingarbanka. Almennt snýst viðfangsefnið um að koma í veg fyrir að þau almannagæði sem eru hluti af bankakerfinu, þ.e. greiðslumiðlun og aðgangur hins almenna manns að lausum innstæðum, verði ekki sett í hættu eða jafnvel tekin í gíslingu stöðutöku  og veðmála bankanna sjálfra.  Til þess kunna að vera margar leiðir og ekki endilega víst að aðskilnaður viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi sé sú besta.”

Seðlabankinn virðist á því að það beri að kanna til þrautar allar aðrar leiðir áður en gripið verði til þess úrræðis að banna viðskiptabönkum að stunda áhættusama fjárfestingastarfsemi á ábyrgð ríkissjóðs. Þetta má teljast nokkuð sérkennileg afstaða í ljósi þess að Seðlabankanum ber lögum samkvæmt að stuðla að fjármálastöðugleika í landinu.

Screen Shot 2016-03-28 at 15.18.27Greinilegt er að meðal háskólamanna eru skoðanir skiptar. Á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga þann 17. nóvember 2015 flutti Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, fróðlegt erindi um kosti og galla aðskilnaðar. Niðurstaða hans var sú að alger aðskilnaður væri illmögulegur í reynd. Hann fæli í sér mikinn kostnað og óvissan ábata.

Már Wolfgang Mixa, aðjúnkt í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að aðskilja beri rekstur innlánsstofnana, sem njóta ríkisábyrgðar, frá annarri fjármálaþjónustu. Fjárfestingabankar eigi ekki að geta fjármagnað áhættusöm verkefni sín með ríkistryggðum innlánum eins og nú er. Fjárfestar sem njóti alls ávinnings af vel heppnuðum fjárfestingum eigi líka að bera alla áhættuna þegar verr gengur.

Elizabeth-Warren-TimeÍ Bandaríkjunum er öldungadeildarþingmennirnir Elisabeth Warren, John McCain og forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders meðal flutningsmanna lagafrumvarps sem gengur undir heitinu „21st Century Glass- Steagall Act of 2015”. Frumvarpinu, sem var fyrst lagt fram árið 2013, er ætlað að draga úr áhættu í fjármálakerfinu með því að banna viðskiptabönkum að taka þátt í tiltekinni áhættusamri starfsemi og einnig að draga úr hagsmunaárekstrum. Í frumvarpinu má finna rök fyrir aðskilnaði og nánari útfærslur á því hvað viðskiptabönkum yrði heimilt og óheimilt að fást við.

Ísland gæti þurft að bíða lengi eftir því að Bandaríkin, Bretland eða Evrópusambandið leggi til aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi. Hagsmunir stórra banka standa gegn því að skiptingin verði færð í lög og þessir bankar hafa ótal erindreka á sínum snærum sem tala um fyrir stjórnvöldum í þessum ríkjum. Líklega þarf stærra fjármálahrun áður en stjórnvöld í þessum ríkjum taka af skarið.

Að mínu mati vega rökin fyrir því að banna viðskiptabönkum að stunda fjárfestingabankastarfsemi mun þyngra en mótrökin. Með fullum aðskilnaði væri komið í veg fyrir að ríkissjóður sé í ábyrgð fyrir áhættusömum fjárfestingabankaverkefnum. Auk þess myndi draga úr hagsmunaárekstrum, samkeppni yrði jafnari og bankar sem nú eru of stórir myndu minnka.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í Þjóðmálum í mars 2016.

Categories
Greinar

Nánast ekkert

Deila grein

30/03/2016

Nánast ekkert

ÞórunnÍsland er í einstakri stöðu. Atvinnuþátttaka hefur sjaldan verið jafn mikil og nú. Í raun hefur atvinnuleysi ekki verið minna síðan árið 2008 og getur jafnvel farið niður í eitt til tvö prósent í sumar þegar störfum innan ferðaþjónustunnar fjölgar.

Í heildina hafa skapast um 15.000 ný störf á Íslandi frá árinu 2013. Þar hafa störf innan ferðaþjónustunnar sitt að segja en innan hennar hafa á síðustu fimm árum, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, orðið til 7.500 ný störf. Fram kemur í Félagsvísum 2015 að samhliða fjölgun starfa fækkar þeim sem atvinnulausir eru. Árið 2014 voru atvinnuleitendur 9.300 á móti 13.700 árið 2010 þegar afleiðingar efnahagshrunsins fóru að skila sér af fullum þunga. Til marks um að við höfum rétt úr kútnum má benda á að langtímaatvinnuleysi minnkar ört. Milli áranna 2013 og 2014 fækkaði körlum sem höfðu leitað vinnu í tólf mánuði eða lengur um helming eða úr 1,2 prósentum í 0,6 prósent. Hlutfall kvenna lækkaði úr 1,0 prósenti í 0,7 prósent.

Atvinnutækifærum fjölgar og fjölbreytni starfa eykst. Vöntun á störfum eru ekki okkar helstu áhyggjur í dag heldur miklu fremur þær að fólk vanti til að sinna þeim. Í raun er staðan þannig að flestum, sem vilja og getu hafa, stendur starf til boða.

Stöðugleikinn sem náðst hefur skapar störf. En tölurnar hér að ofan eru hvorki sjálfsagðar né sjálfsprottnar. Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að efla þrótt samfélagsins og skapa skilyrði til verðmætasköpunar, til að mynda með lækkun skatta og tryggingargjalds og auknum stuðningi við nýsköpun. Með jafnvægi í ríkisfjármálum, ábyrgri áætlun um losun hafta og ábyrgri hagstjórn hefur myndast aukinn stöðugleiki á Íslandi. Sá stöðugleiki skapar skilyrði fyrir fyrirtækin til aukinna fjárfestinga sem aftur skapa svo fleiri störf.

Grunnforsenda velferðarsamfélags er atvinna. Við viljum að fólk geti valið sér fjölbreyttar leiðir í lífinu og hafi kost á að sinna þeim störfum sem það helst kýs. Það er mikilvægt að stjórnvöld hverju sinni séu meðvituð um nauðsyn þess að styðja við fjölbreytt og vaxandi atvinnulíf. Nú gengur vel og því mikilvægt að halda einbeitingunni. Stefnan er sú að sækja ávallt fram.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. mars 2016.

Categories
Greinar

Saman gegn sóun

Deila grein

24/03/2016

Saman gegn sóun

sigrunmagnusdottir-vefmyndBetri nýtni og góð umgengni eru kjörorð mín sem umhverfis- og auðlindaráðherra. Með hliðsjón af þeim hefur matarsóun verið rauður þráður í starfi ráðuneytisins síðustu mánuði. Matarsóun veldur álagi á umhverfið og er áætlað að um 5% heildarlosunar Íslendinga á kolefni eigi rætur að rekja til matarsóunar. Því er eðlilegt að matarsóun sé liður í Sóknaráætlun í loftslagsmálum og er ráðgert að Umhverfisstofnun hafi fjórar milljónir á ári næstu þrjú árin til að vinna að þessum þætti.

En sóun á öðrum sviðum er jafnframt vandamál hér á landi. Á dögunum kynnti ég stefnuna Saman gegn sóun, sem fjallar um hvernig við getum bætt auðlindanýtingu og spornað gegn sóun. Um tímamót er að ræða því í fyrsta skipti er slík stefna sett fram af hálfu stjórnvalda.

Hlutir endast betur og lengur ef dagleg umgengni um þá er góð. Við jarðarbúar berum mikla ábyrgð. Hófsöm nýting auðlinda þarf að vera í fyrirrúmi til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Með réttu hugarfari og væntumþykju fyrir náttúrunni þurfum við að sporna gegn sóun á öllum sviðum og virkja ímyndunaraflið í þágu nýrra hugmynda sem geta leitt til framleiðslu á öðrum og nýjum hlutum úr þeim gömlu. Mikilvægt að hafa í huga að hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum. Mögulegt verður að sækja um styrki sem tengjast markmiðum stefnunnar í verkefnasjóð ráðuneytisins.

Lítum okkur nær 
Við getum breytt ýmsu í daglegu lífi okkar í því skyni að draga úr sóun. Sem dæmi má nefna endurnýtanlegar umbúðir í stað einnota. Neikvæð umhverfisáhrif af völdum einnota umbúða, ekki síst plasts, eru allt um kring og grafalvarleg. Hvert og eitt okkar þarf að líta í eigin barm og huga að umhverfisvænum lausnum í daglegu lífi.

Spennandi tækifæri eru framundan við að virkja kraft nýsköpunar og skapa græn störf. Fjárfestar þurfa í auknum mæli að huga að því hvernig þeir geta tekið þátt í að þróa græna framtíð svo fyrirtæki og einstaklingar geti lagt meira af mörkum til umhverfismála. Lokatakmarkið er að enginn úrgangur myndist og að allar vörur séu að öllu leyti endurvinnanlegar. Þannig helst stöðug hringrás efna og orku í náttúrunni sem tryggir hringrás auðlindanna.

Stefnan 
Í stefnunni Saman gegn sóun er sérstök áhersla lögð á níu flokka. Matarsóun, plast og textíll verða í forgangi hvert um sig tvö ár í senn og verður matarsóun í brennidepli næstu tvö árin.

Fræðsla er lykilþáttur í því að breyta hugarfari. Ánægjulegt er að á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, meðal annars í samstarfi við Ísland, hefur verið gefið út námsefni fyrir miðstig grunnskóla um auðlindanýtni og hvernig forðast má sóun. Námsefnið er sett fram á skemmtilegan hátt, til dæmis kemur fram að þegar upp er staðið hafa farið um 175 lítrar af vatni til að laga kaffi í einn bolla.

Jákvæð viðbrögð 
Það er sannarlega ánægjulegt og hvetjandi að skynja jákvæð viðbrögð og vilja samfélagsins til að draga úr matarsóun. Tillögur starfshóps ráðuneytisins um matarsóun hafa fengið góðan hljómgrunn og má m.a. nefna viðhorfskönnun meðal landsmanna um matarsóun, nýja vefgátt, matarsoun.is, og rannsókn á matarsóun er í undirbúningi. Þá hafa félagasamtök lagt hönd á plóg, m.a. með námskeiðum. Með nýju kerfi strikamerkja sjá framleiðendur og verslanir möguleika á að draga úr matarsóun og auka neytendaöryggi. Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með stofnunum og vinnustöðum sem hafa tekið til hendinni og dregið úr matarsóun. Sem dæmi má nefna Landspítalann sem ég veitti umhverfisviðurkenningu ráðuneytisins fyrir að hafa minnkað matarsóun um 40% síðustu ár. Allt eru þetta mikilvæg skref í þá átt að forðast matarsóun.

Saman gegn sóun til framtíðar 
Ég hef hugleitt hvaða leiðir við Íslendingar ættum að velja. Hvort við ættum að hafa til hliðsjónar lögin í Frakklandi sem banna að matvælum sé hent eða virkja allt samfélagið eins og Danir hafa gert. Það síðarnefnda hugnast mér betur. Stefnan Saman gegn sóun á að vera sameiginlegt leiðarljós okkar allra til að stemma stigu við hverskonar sóun.

Stefnuna má nálgast á: uar.is/frettir/saman-gegn-soun-stefna-um-urgangsforvarnir-2016-2027

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. mars 2016.

Categories
Greinar

Hver hefur staðið vörð um íslenska hagsmuni?

Deila grein

23/03/2016

Hver hefur staðið vörð um íslenska hagsmuni?

ÞórunnÞað hefur verið ansi merkilegt að fylgjast með umræðunni síðustu viku. Mörg misgáfuleg ummæli hafa verið látin falla um hæfi forsætisráðherra. Í þeirri umræðu eru menn uppteknir af fjárhag eiginkonu hans.  Ég velti því fyrir mér hvar við erum í raun stödd í jafnréttisumræðu þegar hjón eru gerð að einni manneskju þegar  kemur að fjárhag og sjálfstæði. Er það ekki skortur á jafnrétti?  Það er rétt að eiginkona forsætisráðherra er sterkefnuð kona og hefur sú staðreynd lengi legið ljós fyrir. Hvað hún gerir við auð sinn kemur mér bara ekki við svo lengi sem skattar eru greiddir til íslenska ríkisins. Það hefur verið gert og er staðfest opinberlega af endurskoðanda KPMG.

Annað sem ég velti fyrir mér er hvort það sé ekki kostur að einstaklingur sem leiðir þjóðina sé fjárhagslega sjálfstæður, engum háður og því ekki hætta á að hann gangi erinda peningaafla í þjóðfélaginu?

Innkoma Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í pólítik byggðist á vilja hans til vinna gegn því óréttlæti sem skapaðis við hrunið.  Það er kannski allt í lagi að rifja þetta upp og benda á að hans stærsta áherslumál hefur ávallt verið uppgjör föllnu bankanna og að tryggja það að tap fjármálafyrirtækjanna færðist ekki yfir á íslenskan almenning.

Sigmundur Davíð hefur gengið manna harðast gegn kröfuhöfum og hefur ekkert gefið eftir. Það liggur ljóst fyrir að eiginkona hans tapaði fjárhagslega við framgöngu hans en þjóðin stórgræddi. Undir forystu hans var samþykkt stöðugleikaframlag sem mun færa ríkissjóði um 500 milljarða, beint eða óbeint. Þetta ásamt mörgum fleiri aðgerðum ríkisstjórinnar gerir okkur nú í raun kleift að ræða og fara í alvöru uppbyggingu innviða í samfélaginu. Það verkefni er orðið mjög aðkallandi og gott að geta hafist handa við það.

Ég er nú ekki frá því að staðfestan sem Sigmundur Davíð hefur sýnt, þrátt fyrir háværar úrtöluraddir á köflum,  hafi heldur betur sannað sig. Hann verður seint sakaður um að hafa farið vettlingatökum um kröfuhafa eða gengið eigin erinda. Því treysti ég honum manna best til þess að standa vörð um íslenskt efnahagslíf.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, 23. mars 2016.