Categories
Greinar

Forgangsmál – staða eldri borgara

Deila grein

27/10/2016

Forgangsmál – staða eldri borgara

lilja____vef_500x500Málefni aldraðra standa upp úr í þessari kosningabaráttu. Ég hef farið víða í kosningabaráttunni, gengið í hús í Breiðholtinu og fundað út um allan bæ. Málefni eldri borgara koma upp í nánast öllum samtölum. Hvort sem það tengist lífeyrismálum, húsnæðismálum eða heilbrigðisþjónustu. Frásagnir fjölda fólks hafa komið við mig. Það hefur opnað augu mín enn frekar fyrir því að stærsta mál þessara kosninga eru þeir málaflokkar sem snúa að öldruðum.

Eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að leiðrétta þá skerðingu sem eldri borgarar höfðu orðið fyrir. Lífeyrisréttindi hafa einnig verið aukin og margt hefur áunnist á kjörtímabilinu. Þessar breytingar sem kynntar voru nýverið leiða til mikillar hækkunar á bótum almannatrygginga á næstu tveimur árum. Til dæmis munu bætur eldri borgara sem býr einn og hefur engar aðrar tekjur hækka um 22% á næstu tveimur árum. Hins vegar er það svo að fjöldi fólks býr við bág kjör og kvíðir framtíðinni. Þetta er sorglegt og sér í lagi þar sem þetta er fólkið sem hefur byggt landið okkar upp og veitt okkur þeim sem yngri eru tækifæri sem þau gátu ekki látið sig dreyma um.

Á þessu kjörtímabili voru stóru málin leiðrétting húsnæðislána og losun fjármagnshafta. Í báðum tilfellum var lagt upp með vel skilgreind markmið og áætlun teiknuð upp um hvernig væri hægt að ná þeim. Ég legg til að sama aðferðafræði verði viðhöfð til að ná mun betur utan um stöðu eldri borgara. Ég legg til að okkar helstu sérfræðingar í þessum málaflokki verði kallaðir til verks með það að markmiði að bæta stöðu eldri borgara. Í fyrsta lagi þarf að auka kaupmátt þeirra sem verst standa, í öðru lagi þarf að fara með skipulegri hætti í húsnæðismál aldraðra, og í þriðja lagi þarf að halda áfram að auka fé í hjúkrunarrými. Allt þetta er gerlegt ef viljinn er fyrir hendi. Ég hef viljann og mun beita mér fyrir því á næsta kjörtímabili, að þessi mál fái þá athygli sem nauðsynleg er.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. október 2016.

Categories
Greinar

Er eitthvað að óttast við faglegt mat?

Deila grein

27/10/2016

Er eitthvað að óttast við faglegt mat?

lilja____vef_500x500Meirihluti Íslendinga vill að nýtt þjóðarsjúkrahús verði byggt á besta stað, þar sem aðgengi er gott og framkvæmdir trufla ekki sjúklinga, starfsfólk og íbúa. Af því má leiða að meirihluti landsmanna vilji hlífa sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki við ærandi hávaða frá loftpressum, jarðvegssprengingum, umferð steypubíla og annarra stórvirkra vinnutækja. Að meirihluti þjóðarinnar vilji vissu fyrir því, að faglegar forsendur liggi til grundvallar ákvörðun um staðsetningu þjóðarsjúkrahússins.
Þótt fyrirhuguð framkvæmd sé ein sú stærsta sem Íslendingar hafa tekist á hendur eru forsendur fyrir núverandi staðarvali hæpnar. Raunar hefur aldrei farið fram ítarlegt faglegt mat á öðrum kostum en spítalalóðinni við Hringbraut og lóð Borgarspítalans við Fossvog. Upphaflega þótti síðarnefndi kosturinn langtum betri en síðar varð Hringbrautin ofan á, enda væri þá ráðist í miklar skipulags- og vegaframkvæmdir til að tryggja gott aðgengi að spítalanum. Nú er ljóst að þær framkvæmdir verða ekki að veruleika. Aðrar mikilvægar forsendur hafa líka breyst, t.d. spár um fjölda þeirra sem þurfa þjónustu. Þá bendir ýmislegt til að Alþingi hafi ekki fengið trúverðugar áætlanir um alla verkþætti og því þurfi að yfirfara fjárhagsáætlanir sem liggja til grundvallar verkefninu. Samt er því haldið til streitu, að framtíðarsjúkrahús þjóðarinnar skuli staðsett í þéttri íbúabyggð í miðborg Reykjavíkur og hvergi annars staðar.
Ofsafengin viðbrögð
Óskin um faglega úttekt á bestu mögulegu staðsetningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús hefur kallað fram mjög sterk viðbrögð hjá hagsmunaaðilum sem vilja lagfæra gamla Landspítalann við Hringbraut, byggja fjölda nýbygginga og tengja sjúkrahúsþyrpingu í miðbænum saman með flóknu neti tengibygginga og undirganga. Tólf síðna kynningarrit var sent með Fréttablaðinu inn á heimili landsmanna í vikunni, á kostnað hins opinbera, og í Morgunblaði gærdagsins bregst Þorkell Sigurlaugsson, varaformaður landssamtakanna Spítalinn okkar, harkalega við óskum um faglega úttekt á málinu. Viðbrögðin komu reyndar ekki á óvart, því hugmyndum um faglega nálgun hefur ítrekað verið mætt af mikilli hörku og þeir gjarnan taldir skemmdarvargar sem vilja skoða málið.
Okkar hugmynd er einföld: Að hópur færustu erlendra og óháðra sérfræðinga geri faglega úttekt og skili stjórnvöldum tillögum að staðarvali fyrir 30. apríl 2017. Á meðan haldi framkvæmdir áfram við Hringbraut samkvæmt áætlun, enda geti þær sannarlega nýst þótt framtíðarsjúkrahúsinu verði fundinn annar staður. Ef Hringbraut verður metinn heppilegasti staðurinn hafa engar tafir orðið á framkvæmdum. Ef ekki getum við afstýrt hroðalegum og dýrum mistökum. Vandséð er að opnun nýs sjúkrahúss myndi tefjast, þar sem framkvæmdir á opnu og aðgengilegu svæði eru bæði fljótlegri og ódýrari en innan um sjúklinga og íbúa í Þingholtunum.
Hinn fullkomni spítali
Ég vil að Íslendingar eignist fullkomið þjóðarsjúkrahús. Heildstæða og nútímalega byggingu þar sem byggt er frá grunni samkvæmt þörfum þjóðarinnar en ekki úreltum forsendum. Ég vil byggja miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðgengi er gott, samgönguæðar koma saman og ónæði fyrir almenning á framkvæmdatíma er lágmarkað. Ég vil að fjárveitingar til verkefnisins nýtist sem best og horft sé til framtíðar, t.d. varðandi mögulega stækkunarþörf sjúkrahússins. Verði niðurstaða óháðra sérfræðinga sú að best sé að byggja við Hringbraut mun ég una henni. Viðbrögð Hringbrautarmanna við áherslum Framsóknarflokksins gefa hins vegar til kynna að þeir óttist niðurstöðuna.
Lilja Alfreðsdóttir 
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. október 2016.
Categories
Greinar

Kröfuhafar sleikja útum

Deila grein

26/10/2016

Kröfuhafar sleikja útum

160218-Þorsteinn SæmundssonEitt helsta baráttumál Framsóknar fyrir þessar kosningar er breytt stefna í vaxtamálum. Ljóst er að núverandi peningastefna er ekki að virka með ofurháum stýrivöxtum sem enginn hagnast á nema fjármagnseigendur. Þar fara fremstir í flokki erlendir fjárfestar sem komið hafa hér fyrir kvikum krónum sem þeir munu fara með úr landi aftur fyrr en varir og um leið og það hentar þeim. Fyrir utan að vera einn mesti dragbítur á heimkomu Íslendinga sem búa erlendis býður hávaxtastefnan upp á að áhættufjárfestar hrúgi inn í landið milljarðatugum til að hagnast á vaxtamismun. Svo vel virkar núverandi vaxtastefna fyrir áhættufjárfesta að þeir sem eiga s.k. aflandskrónur hér kæra sig ekki um að fara vegna þess gróða sem þeir hafa af dvölinni. Þvert á móti hafa þeir enn bætt í. Krónuútboðið í vor var til að losna við um 230 milljarða í krónueignum. Það mistókst af framangreindum ástæðum. Auk þeirrar krónueigna sem hér hafa verið í höftum hafa streymt inn í landið rúmlega 70 milljarðar á síðustu 15 mánuðum. Alþingi þurfti að bregðast við í vor og setja lög um bindiskyldu og bindingu erlendra eigna til að koma í veg fyrir að holskefla erlends fjármagns riði hér yfir.

Það er fróðlegt og nauðsynlegt að rifja upp hverjir það eru sem hafa varað ítrekað við þessu ástandi undanfarin tæp fjögur ár. Þingmenn Framsóknar eru þeir einu sem haft hafa uppi gagnrýni á stýrivaxtastefnu Seðlabankans. Þingmenn Framsóknar eru þeir einu sem bent hafa á þann skaða sem hávaxtastefnan veldur fólki og fyrirtækjum í landinu. Framsókn er eini flokkurinn sem nú á sæti á þingi sem hefur baráttuna gegn hávaxtastefnunni í kosningaáherslum sínum. Það er hægt að taka undir með Vilhjálmi Birgissyni verkalýðsforingja þegar hann undrast að enginn svokallaðra félagshyggjuflokka hefur svo mikið sem minnst á vaxtaokrið hvort sem er á Alþingi eða nú í aðdraganda kosninga.

Ljóst er að eigendur aflandskróna hugsa sér gott til glóðarinnar nú þegar hætta er á að vinstri stjórn verði mynduð eftir kosningar. Þeir muna þá sæludaga á síðasta kjörtímabili þegar þáverandi stjórnvöld voru titrandi á beinunum gagnvart erlendu valdi. Sem betur fer komst hér á stjórn undir forystu Framsóknarflokksins sem lengst af hafði staðið einn gegn valdi kröfuhafa. Það er því í þágu erlendra kröfuhafa að draga úr áhrifamætti Framsóknar því þeir vita hverjir eru líklegastir til að standa upp í hárinu á þeim og hverjir eru líklegastir til að guggna undan kröfum og hótunum. Ítrekaðar heilsíðuauglýsingar sem eru nánast dónaskapur við lýðveldið Ísland eru upptakturinn að þeirri baráttu sem kröfuhafar eru nú að undirbúa. Það skiptir Ísland öllu máli að flokkur sem stendur í lappirnar gagnvart kröfuhöfum sé sterkur og áhrifamikill í stjórnmálum. Það skiptir því öllu máli að stuðningur við Framsóknarflokkinn í þessum kosningum verði ótvíræður.

Þorsteinn Sæmundsson.

Greinin birtist á Visir.is 26. október 2016.

Categories
Greinar

Aðildarumsókn og samskipti við Evrópusambandið

Deila grein

24/10/2016

Aðildarumsókn og samskipti við Evrópusambandið

sigurduringi_vef_500x500Í samantekt hér í Kjarnanum um helgina eru tínd til nokkur mál er ritstjórn Kjarnans telur vera afleiki ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þar með er reynt að leita skýringar á því af hverju stjórnin nýtur ekki meira fylgis í aðdraganda kosninga þó að á ,,… Íslandi ríkir efnahagsleg velsæld um þessar mundir,“ eins og segir í samantektinni. Óhætt er að segja að fleiri undrist það en ritstjórn Kjarnans.

Eitt atriði er tínt til sem mér finnst að lesendur Kjarnans eigi skilið að fá betri útlistun á. Það lítur að afdrifum ESB umsóknarinnar sem síðasta ríkisstjórn hrinti af stað. Það vekur reyndar eftirtekt að í sambærilegri samantekt ritstjórnar Kjarnans á afleikjum vinstri stjórnarinnar 2009-2013 telst umsóknin ekki til afleikja! Og er þó öllum fullljóst að hún telst nú til mestu svika sem kjósendur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafa orðið að þola. Það er rakið með skýrum hætti í nýrri bók Jóns Torfasonar, Villikettirnir og vegferð VG: Frá vænt­ingum til vonbrigða. VG lofaði kjósendum sínum að ekki yrði sótt um aðild að ESB og stóð svo að aðildarviðræðum strax eftir kosningar. Skýrari verða svikin varla. Og svo virðist reyndar sem VG sé nú þegar komið í viðræður um myndun nýrrar stjórnar; fróðlegt verður að vita hvort VG gerir grein fyrir stefnu sinni gagnvart ESB fyrir kosningar, eða hvort það verður látið bíða betri tíma. Og svo öllu sé til haga haldið, þá klufu þessi svik fyrir kosningarnar 2009 þjóðina í herðar niður. Á að endurtaka þann leik með „Reykjavíkurstjórninni“ 2016?

Hvað um það – við skulum rifja upp þau skilaboð sem ESB fékk frá ríkisstjórninni sem tók við á vormánuðum 2013:

  • að ríkisstjórnin hyggist ekki endurvekja aðildar­ferlið,
  • að skuldbindingar fyrri ríkisstjórnar í aðildarferli séu ekki lengur gildar í ljósi nýrrar stefnu,
  • að Ísland teljist ekki lengur umsóknarríki, og
  • óskað að ESB geri ráðstafanir sem taki mið af því.

Á sama tíma var áhersla lögð á að styrkja framkvæmd EES samningsins og nánara samstarf við ESB á grunni hans. En af hverju kaus ríkisstjórnin að enda aðildarferlið? Tínum til nokkur atriði:

  • Stefna beggja stjórnarflokka var skýr fyrir kosningar. Hag Íslands yrði best borgið utan ESB og að ekki skyldi haldið áfram í viðræðum án þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Niðurstaða stjórnarsáttmála er alveg skýr. Viðræður í hlé og ekki framhaldið án þjóðaratkvæðis. Jafnframt að úttekt yrði gerð á viðræðum og stöðunni innan ESB og þróun þess.
  • Framsóknarmenn hafa fylgt þessari stefnu í einu og öllu og staðið við það sem lofað var í kosningabaráttunni.
  • Það var ekkert sagt um það í okkar kosningabaráttu að það ætti að kjósa á kjörtímabilinu.

Mikilvægt er að hafa í huga að á fundum forsætisráðherra með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og forseta leiðtogaráðsins í júlí 2013 var þessi nýja stefna útskýrð. Á þeim fundum kom skýrt fram að þessir tveir leiðtogar stofnana ESB myndu fagna skýrri stefnu varðandi aðildarferlið enda mátti öllum vera ljóst að það var komið í ógöngur og óásættanlegt að hafa málið í þeim farvegi sem það var þegar ríkisstjórnin tók við.

Fjögurra ára árangurslaust ferli

Það birtist skýrt í úttekt Hagfræðistofnunar HÍ sem var kynnt 2014. Ekki verður annað séð af skýrslunni en að hún styðji við það að umsóknarferlið passi okkur ekki. Skýrslan staðfestir að ríki hafi notað ferlið til að beita okkur þvingunum í óskyldum málum. Engar lausnir voru á borðinu eftir fjögurra ára ferli í okkar helstu hagsmunamálum. Úttekt aðila vinnumarkaðarins sem unnin var af Alþjóðamálastofnun HÍ sagði í raun sömu sögu þó að nálgunin hafi verið önnur.

Það var því eðlilegt og sanngjarnt gagnvart ESB, aðildarríkjum þess og íslensku þjóðinni að skýrleiki ríkti í þessu máli á vakt þessarar ríkisstjórnar. Engin ástæða var til að halda lífi í ferli um aðild að sam­bandi sem engin vissa er fyrir hvernig muni þróast. Þessu til viðbótar blasir við að sjaldan hefur verið meiri óvissa um hverslags samband ESB verður innan fárra missera.

Stefna Framsóknarflokksins er skýr í þessum málaflokki. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins og hafnar því aðild að sambandinu. Framsóknarflokkurinn fagnar því að ríkisstjórn undir forystu Framsóknarflokksins afturkallaði aðildarumsóknina að ESB. Flestum, þó ekki öllum, var ljóst að forsendur þeirrar umsóknar voru brostnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist á kjarninn.is 24. október 2016.

Categories
Greinar

Þarf að bíða 100 ár eftir launajafnrétti?

Deila grein

24/10/2016

Þarf að bíða 100 ár eftir launajafnrétti?

Anna-Kolbrun-ArnadottirsgmKvennafrídagurinn er í dag mánudaginn 24. október og eru konur hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14.38 og fylkja liði á samstöðufundi sem haldnir eru um allt land. Í þessu sambandi er gott að minnast þess að íslenskar konur vöktu athygli um allan heim 24. október árið 1975 þegar þær lögðu niður vinnu. Segja má að þessi samstöðufundur sem þá var haldinn hafi markað djúp spor í söguna enda setti hann samfélagið nánast á hliðina og muna flestir sem þá voru fæddir hvar þeir voru þennan dag.
Á þessum tíma var kallað eftir launajafnrétti og núna er það því miður ennþá sama krafan. Því það hefur gengið hægt að bregðast við launamismun kynjanna. Hófst það árið 1961 þegar samþykkt voru lög um launajöfnuð kvenna og karla sem átti að ná að fullu 1967. Síðan með setningu jafnréttislaga 1976 var kveðið á um sömu laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Samt er töluvert launamisrétti enn staðreynd.
Það sem þó hefur breyst er, að í dag verða kynnt fyrstu fyrirtækin og stofnanirnar sem hafa tekið þátt í tilraunaverkefni stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar um launajafnrétti með innleiðingu jafnlaunastaðalsins.
Þetta verkfæri er stórt skref í þá átt að eyða kynbundnum launamun með raunverulegum aðgerðum.
Jafnlaunastaðalinn hefur það að markmiði að auka gagnsæi og mun vonandi breyta landslaginu á vinnumarkaði til framtíðar. og segja má að nú loksins sé komið fram alvöru tæki sem byggir, m.a. á opinberri staðlavottun.
Þessu ber að fagna en á sama tíma þarf að hafa það hugfast að áfram þarf að velta við hverjum steini til þess að jafna kjör kynjanna. Áfram eru þættir sem hafa áhrif, sömu þættir og höfðu áhrif fyrir 41 ári síðan og er kynskiptur vinnumarkaður enn talinn einn af aðal orsakaþáttum launamunar kynjanna.

Anna Kolbrún Árnadóttir og Sunna Gunnars Marteinsdóttir, Landssambandi Framsóknarkvenna.

Categories
Greinar

Lækkum skatta á meðallaun

Deila grein

22/10/2016

Lækkum skatta á meðallaun

sigurduringi_vef_500x500Tillögur framsóknarmanna í skattamálum hafa vakið athygli. Stórar kerfisbreytingar vekja þó ætíð spurningar og því er ástæða til að skýra nánar hvað felst í þessari róttæku aðgerð sem ætlað er að einfalda skattkerfið og gera það sanngjarnara.

Við framsóknarmenn viljum nýta tekjuskattskerfið til að draga úr byrðum millitekjufólks en í þeim hópi eru flestir launþegar. Það hefur meðal annars í för með sér að breiðu bökin taka aðeins meira á sig en um leið þurrkum við út óæskileg jaðaráhrif. Í dag er það þannig að fólk með meðaltekjur stendur frammi fyrir mjög háu tekjuskattsþrepi og of litlum hvata til að auka tekjur sínar með meiri vinnu. Jaðarskatturinn svokallaði, eða sá skattur sem greiddur er af næstu viðbótarkrónu í launaumslagið, er of hár. Við viljum breyta þessu. Það gerum við með millistéttaraðgerð í skattamálum líkt og með Leiðréttingunni sem var millistéttaraðgerð í skuldamálum og Fyrstu fasteign sem er vinnuhvetjandi úrræði fyrir ungt fólk til að létta því kaupin á sinni fyrstu fasteign.

Framsókn vill lækka tekjuskattsprósentuna, þ.e. staðgreiðslu opinberra gjalda, fyrir einstaklinga með lágar tekjur og millitekjur samhliða því að tekjutengja persónufrádrátt þannig að hann falli niður þegar ákveðnum tekjum er náð. Barnabætur verði réttur barnsins og fylgi barninu. Þær hækki verulega en skerðingarhlutfall hækki á móti þannig að barnabætur komi tekjulágum best. Vaxtabætur falli niður í núverandi mynd en sparnaði vegna þessa verði beint til lágtekjuhópa með útborganlegum persónufrádrætti. Jafnframt viljum við taka upp einstaklingsframtöl og hætta samsköttun hjóna. Með öllum þessum aðgerðum er hægt að lækka skatta hjá meginþorra almennings og auka hvatann til vinnu.

Einfalt í framkvæmd 

Þetta er einfalt í framkvæmd. Neðra tekjuskattsþrep í staðgreiðslu skatta, 25%, gerir það að verkum að einstaklingur með 600 þúsund króna tekjur á mánuði greiðir 150 þúsund krónur í skatta. Skattþrepið er aðeins eitt og enginn persónufrádráttur af þessum tekjum. Taki viðkomandi ákvörðun um að vinna sér inn 40 þúsund króna viðbótartekjur greiðir hann fjórðunginn, eða 10 þúsund krónur, í skatt eftir breytingu. Einstaklingur með 100 þúsund króna tekjur á mánuði greiðir engan skatt heldur fær um 50 þúsund króna persónufrádrátt útborgaðan. Ráðstöfunartekjur beggja hækka frá núverandi kerfi.

Með þessari róttæku einföldun á skattkerfinu vinnst þrennt:

  1. Tekjujöfnun eykst enn frekar. Íslendingar standa mjög framarlega í tekjujöfnun í alþjóðlegum samanburði. Með frekari tekjujöfnun gerum við enn betur á því sviði.
  2. Aukinn hvati til vinnu. Lægri jaðarskattur á millitekjur er vinnuhvetjandi fyrir mikinn meirihluta launafólks.
  3. Jafnréttismál. Samsköttun dregur úr hvata maka með lægri laun til að fara út á vinnumarkaðinn en í meirihluta tilvika eru það konur. Afnám samsköttunar er því jafnréttismál. Atvinnuþátttaka 16-74 ára karla er nú um 86% en 79% hjá konum. Væri ekki afnám samsköttunar gott tækifæri til að minnka þennan mun og auka enn frekar á forskot okkar Íslendinga í jafnréttismálum?

Framsókn hefur unnið að útfærslu þessara hugmynda um alllangt skeið. Þeirri vinnu, sérstaklega samspili við almannatryggingakerfið, er ekki lokið og viljum við vinna með öðrum flokkum að nánari útfærslu á nýja kjörtímabilinu. Við teljum að fjármálaáætlun hins opinbera, sem leggja skal fram næsta vor, geti tekið mið af þessum hugmyndum og þær þannig komið til framkvæmda strax 1. janúar 2018. Tillögurnar eiga rætur sínar að rekja til hugmynda Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem síðar voru nánar útfærðar af verkefnisstjórn Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.

Það er mér mikil ánægja að geta kynnt þessar hugmyndir fyrir landsmönnum og við framsóknarmenn vonumst til þess að fá styrk til þess að geta hrinnt þessum mikilvægu úrbótum í framkvæmd.

Sigurður Ingi Jóhannsson

Greinin birtist í  Morgunblaðinu 22. október 2016.

Categories
Greinar

Stefnan tekin í Norðaustur

Deila grein

15/10/2016

Stefnan tekin í Norðaustur

sigmundurEftir flokksþing Framsóknarmanna og atburði sem því tengdust lýsti ég því yfir að ég myndi helga mig málefnum Norðausturkjördæmis og því að kjördæmið fengi notið þeirra tækifæra sem þar liggja. Það er enda hagur landsins alls að Norðausturkjördæmi gangi vel.

Eins og flestum má vera ljóst gramdist mér mjög að menn skyldu taka þá ákvörðun að flýta kosningum og hætta við að leggja fram fjárlög. Mér mislíkaði þetta af mörgum ástæðum. Ein var sú að ég hafði vikið úr embætti forsætisráðherra um tíma, á meðan mál væru að skýrast, einmitt svo að ríkisstjórnin gæti komist hjá slíkum útspilum. Þess í stað gæti hún þá einbeitt sér að því að klára þau verkefni sem út af stóðu. Önnur ástæða er sú að með þessum ákvörðunum varð lítið úr þeirri sókn sem ég hafði boðað í byggðamálum enda þótt tekist hefði að skapa þær efnahagslegu aðstæður sem voru forsenda slíkrar sóknar.

Allt er til reiðu
Aðalatriðið er þó það að grunnurinn hefur verið lagður. Með blöndu hefðbundinna en oft erfiðra aðgerða í ríkisrekstrinum og óhefðbundinna aðgerða sem hvergi höfðu verið reyndar áður tókst að gjörbylta stöðu og framtíðarhorfum ríkissjóðs til hins betra. Það er því allt til reiðu svo ráðast megi í þær aðgerðir sem taldar verða upp hér að neðan. Það þarf að gera bæði með hefðbundnum og óhefðbundnum aðgerðum.

Veiðigjöldunum skilað
Engin ríkisstjórn hefur skilað jafnmiklum veiðigjöldum í ríkiskassann og stjórnin sem starfaði frá 2013-2016. Það er nauðsynlegt að þessi gjöld og önnur auðlindagjöld sem kunna að vera lögð á skili sér aftur í byggðir landsins. Núverandi fyrirkomulag er í raun nánast hreinn landsbyggðarskattur. Tugir milljarða eru teknir út úr samfélögum hringinn í kringum landið. Þessu þarf að breyta.

Þriðjungur veiðigjaldanna ætti að renna til sveitarfélaganna utan höfuðborgarsvæðisins, þriðjungur í þróunarverkefni hringinn í kringum landið, einkum nýsköpun á sviði atvinnumála og þriðjungur í sérstök sóknarverkefni sem gera byggðir landsins að eftirsóknarverðari stöðum til að búa, starfa og fjárfesta. Það á t.d. við um menningarmál og fegrun byggða m.a. í gegnum verkefnið »verndarsvæði í byggð«.

Dreifing ferðamanna um landið
Sú áætlun sem lýst er að ofan mun gera byggðir landsins, ekki hvað síst hina fögru bæi og náttúru Norðausturkjördæmis, að enn eftirsóknarverðari ferðamannastöðum. En til viðbótar þarf sértækar aðgerðir til að dreifa ferðamönnum betur um landið og nýta þar með betur þá auðlind sem í landinu liggur.

Bæta þarf samgöngumannvirki, t.d. með malbikun Dettifossvegar til að klára »demantshringinn« sem yrði gríðarlega sterk söluvara í ferðaþjónustu.

Flugþróunarsjóðurinn sem forsætisráðuneytið vann að því að koma á fyrr á kjörtímabilinu skiptir sköpum við að opna nýjar fluggáttir til landsins á Akureyri og Egilsstöðum. En meira þarf að koma til. Bæta þarf aðstöðu á flugvöllunum (fjárfesting í Keflavík nemur tugum milljarða) og jöfnun flutningskostnaðar á eldsneyti er nauðsynleg til að gera þessa flugvelli betur samkeppnishæfa við Keflavíkurvöll.

Sátt virðist hægt að ná um hækkun komugjalda. Rétt er að a.m.k. hluti þeirrar gjaldheimtu renni til sveitarfélaga. Á sama tíma og við hækkum komugjöld í Keflavík mætti halda komugjöldum á Akureyri og Egilsstöðum umtalsvert lægri til að skapa aukinn hvata fyrir flugfélög að nýta þá flugvelli.

Tekjustofnar sveitarfélaga
Sveitarfélög bera að miklu leyti hitann og þungann af fjölgun ferðamanna. Þau hafa ekki fengið auknar tekjur til samræmis við það. Að hluta til koma endurheimtur auðlindagjalda til móts við þann vanda en einnig þarf að færa sveitarfélögum auknar beinar tekjur af vaxandi ferðaþjónustu. Þar þarf þó að huga að því að megnið af kostnaðinum við innviðauppbyggingu fellur til utan Reykjavíkur en megnið af tekjunum, t.d. gistináttagjöld, eru lögð á í borginni. Þess vegna þurfa komugjöld að renna til sveitarfélaganna svo að þau geti staðið straum af nauðsynlegri innviðauppbyggingu. Hlutdeild í fjármagnstekjuskatti er líka eðlileg krafa í ljósi þess hversu mikið hallar á sveitarfélögin hvað varðar tekjuskiptingu.

Skattalegir hvatar
Lengi hefur verið rætt um að æskilegt gæti verið að veita skattalegar ívilnanir til fólks og fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins. Í því sambandi hefur m.a. verið litið til Noregs. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að innleiða slíka stefnu. Í henni felst að tryggingargjald verður lægra því fjær sem reksturinn er frá Reykjavík en einnig búsetustyrkir, þ.m.t. ferðastyrkir til þeirra sem þurfa að ferðast langa vegalengd til og frá vinnu. Einnig er ástæða til að líta til fyrirmynda í Noregi varðandi endurgreiðslu námslána þar sem fólk sem starfar utan höfuðborgarsvæðisins fær sérstaka niðurfærslu námslána.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. október 2016.

Categories
Greinar

Skynsamleg nálgun í fiskeldismálum

Deila grein

11/10/2016

Skynsamleg nálgun í fiskeldismálum

[fusion_builder_container hundred_percent=”yes” overflow=”visible”][fusion_builder_row][fusion_builder_column type=”1_1″ background_position=”left top” background_color=”” border_size=”” border_color=”” border_style=”solid” spacing=”yes” background_image=”” background_repeat=”no-repeat” padding=”” margin_top=”0px” margin_bottom=”0px” class=”” id=”” animation_type=”” animation_speed=”0.3″ animation_direction=”left” hide_on_mobile=”no” center_content=”no” min_height=”none”]

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra

Fiskeldi er ört vaxandi og spennandi atvinnugrein á Íslandi. Um 40% af fiski sem neytt er í heiminum í dag er eldisfiskur og t.d. í Færeyjum og Noregi hefur verið gríðarmikill vöxtur í greininni. Mikil umræða hefur verið um sjókvíaeldi að undanförnu og hefur umræðan á stundum verið ómarkviss og órökstudd. Mikilvægt er að ræða þessi mál af yfirvegun og með staðreyndir að vopni.

Aukið eftirlit, meiri rannsóknir og stefnumótun 

Í því augnamiði að skapa skýrari ramma og meiri sátt um fiskeldið hef ég ákveðið að hafin verði vinna við stefnumótun, auka rannsóknir og auka eftirlit.
Stefnumótunin er mikilvæg og þá sérstaklega til þess að horfa til samfélags- og efnahagslegra áhrifa, gjaldtöku á nýtingu auðlindarinnar, umhverfisáhrifa og fleiri þátta.

Það er öllum til hagsbóta að eftirlit og rannsóknir séu öflugar í þessari grein og ekki síður að störfin séu staðsett nálægt greininni. Rannsóknarhlutinn er ekki hvað síður mikilvægur en nauðsynlegt er að meta lífríki fjarðanna með tilliti til hve mikið álag þeir þoli, hvaða áhrif þetta hefur á annað lífríki og svo framvegis.

Miðstöð fiskeldis á Vestfjörðum 

Í ráðherratíð minni hef ég haft það að leiðarljósi að ný störf á vegum míns ráðuneytis verði helst til úti á landi. Það er því ánægjulegt að geta tilkynnt um að yfirmaður nýs fiskeldissviðs Hafrannsóknarstofnunar verður staðsettur á Ísafirði frá árinu 2018 en nú þegar verða ráðnir tveir sérfræðingar á Ísafjörð sem m.a. munu sinna fyrrnefndum innfjarðarrannsóknum. Hjá Matvælastofnun verða til tvö ný störf í eftirliti og verða þau staðsett á Austfjörðum annars vegar og sunnanverðum Vestfjörðum hins vegar en á þessum tveimur landshlutum er eldisuppbyggingin hvað mest.

Þessar aðgerðir eru í takt við skýrslu Vestfjarðarnefndarinnar sem afgreidd var úr ríkisstjórn í seinasta mánuði en þar var kveðið á um að miðstöð fiskeldismála yrði á Vestfjörðum. Í skýrslunni er einnig kveðið á um að byggt verði upp fræðasetur á sunnanverðum Vestfjörðum tengt fiskeldi t.d. í samvinnu við Hólaskóla og er ég mjög áfram um að svo verði.

Einnig má geta þess að 1. September opnaði útibú Fiskistofu á Ísafirði aftur með tveimur starfsmönnum en Fiskistofa er rannsóknaraðili ef t.d. slysasleppingar verða í eldi.

Sjálfbær nýting 

Það er allra hagur að ganga vel um náttúruna. Mikilvægt er að skilyrði og umgjörð um greinina sé eins og best verður á kosið og í sem mestri sátt við samfélag og umhverfi. Í leyfisferlinu í dag þurfa umsækjendur að reiða fram mikið magn af upplýsingum sem liggja svo til grundvallar hvort leyfið skuli veitt ásamt áliti fagstofnana. Fyrir rúmlega ári síðan voru innleiddir hér á landi ströngustu staðlar Norðmanna og hér í ráðuneytinu er stöðugt fylgst með framþróun á aðferðum, búnaði og öðru sem viðkemur eldinu.

Samfélagslegi þátturinn 

Gífurlegur viðsnúningur hefur orðið í byggðaþróun á Vestfjörðum í kjölfar uppbyggingar eldisins. Fjöldi umsókna um leyfi hefur stóraukist og hefur verið sótt nánast um hvern einasta blett sem einhver möguleiki er á að geta stundað eldi. Það er virkilega ánægjulegt að sjá líf og framkvæmdir í byggðarlögum nú sem áttu í vök að verjast fyrir nokkrum árum. Skólarnir orðnir fullir og vöntun á íbúðarhúsnæði. Við þessar aðstæður megum við samt sem áður ekki fara fram úr okkur. Ég hef lagt áherslu á að uppbygging sjókvíaeldis taki tillit til annarrar nýtingar og atvinnusköpunar sem fyrir er á svæðunum og ég hef fulla trú á því svo geti orðið.

Að þessu öllu sögðu er það mín trú að með öflugri stefnumótun undirbyggðri af vísindum og rannsóknum getum við byggt upp öfluga atvinnugrein í sátt við umhverfið, samfélaginu og þjóðinni til hagsbóta.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist á www.bb.is 7. október. 2016. [/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Categories
Greinar

Selt undan flugvellinum

Deila grein

01/09/2016

Selt undan flugvellinum

Sigmundur-davíðNú er liðið eitthvað á annan áratug frá því ég birti myndir af því í sjónvarpi hvernig verið væri að þrengja að Reykjavíkurflugvelli með því að sækja að honum úr öllum áttum og sneiða búta af landinu í kringum flugvöllinn jafnt og þétt. Áformað var að flytja götur og vegi nær flugvellinum og skipuleggja lóðir undir hina ýmsu starfsemi allt um kring. Loks yrði búð að byggja meðfram flugbrautunum og inn á milli þeirra og þá yrði loks bent á að það gengi ekki að vera með flugvöll inn á milli húsanna.

Samkvæmt áætlun
Smátt og smátt hefur þetta svo gengið eftir. Hringbrautin var færð þannig að nú er beinlínis ekið undir lendingarljós einnar flugbrautarinnar og lóðaúthlutanir hafa farið fram af meira kappi en forsjá. Valsmenn hf. hafa til dæmis búið við óvissu í meira en áratug vegna lóðasamkomulags við borgina. Stundum hefur virst sem borgaryfirvöldum þætti það bara ágætt ef hremmingar Valsmanna mættu verða til þess þrýsta á um lokun flugvallarins. Það er varla hægt annað en að hafa samúð með Valsmönnum vegna þeirra fyrirheita sem borgin hefur gefið byggingafélaginu og ætlað svo ríkinu að uppfylla.
Háskólinn í Reykjavík fékk líka að kynnast því að borgaryfirvöld eiga það til að fara fram úr sér þegar kemur að lóðaúthlutunum í kringum flugvöllinn. Þegar þau óttuðust að skólinn kynni að flytja í annað sveitarfélag fékk hann snarlega lóð við flugvöllinn. Eftir að skipulag uppbyggingarinnar var kynnt kom í ljós að borgin hafði óvart lofað að gefa skólanum hluta af landi ríkisins og land innan öryggisgirðingar flugvallarins. Það gerðist þrátt fyrir að nægt pláss hefði verið fyrir skólann og aðrar byggingar á landi borgarinnar og það utan flugvallargirðingar. Málið var svo leyst með því að sópa því undir veg sem lagður var inn á flugvallarsvæðið og með því að færa öryggisgirðinguna nær flugbrautinni. Þannig gerðist það að eitt af flugskýlum Reykjavíkurflugvallar stendur nú á umferðareyju utan flugvallargirðingarinnar.
Samkomulagið
Stærsti áfanginn í því að bola flugvellinum burt átti að vera lokun NA/SV-flugbrautarinnar sem í daglegu tali er kölluð neyðarbrautin vegna þess að flugvélar lenda þar þegar ekki er talið eins öruggt að lenda á hinum flugbrautunum tveimur.
Í október 2013 var þess farið á leit við mig sem forsætisráðherra að ég undirritaði samkomulag ríkisins, Reykjavíkurborgar og Flugfélags Íslands (eða Icelandair Group) um að gerð yrði enn ein úttekt á því hvar best væri að hafa Reykjavíkurflugvöll. Fyrir vikið sögðust fulltrúar borgarinnar til í að eyða óvissu um flugvöllinn af sinni hálfu a.m.k. til ársins 2022. Óvissuna höfðu þeir reyndar skapað sjálfir með því að leggja fram tillögu að aðalskipulagi þar sem gert var ráð fyrir að norður/suðurbrautin, önnur af stóru brautum flugvallarins, viki árið 2016.
Í drögum að samkomulaginu var tekið fram að aðilar féllust á að NA/SV-brautinni yrði lokað. Þetta sagði ég vera fráleitt skilyrði sem ekki kæmi til greina að samþykkja. Auk þess sem ég gerði athugasemdir við fleiri atriði í drögunum. Ég kvaðst svo reiðubúinn að undirrita samkomulagið gegn því skilyrði að umrædd atriði yrðu tekin út og það væri á hreinu að ekki væri verið að samþykkja lokun NA/SV-brautarinnar. Þvert á móti væri ég að fallast á þátttöku í undirrituninni til að tryggja að ekki yrði samið um lokun brautarinnar.
Fallist var á þetta og samkomulagið undirritað í viðurvist ljósmyndara og blaðamanna. Það kom mér því mjög á óvart að dómstólar skyldu telja ríkið skuldbundið til að loka neyðarbraut flugvallarins þegar ég sem forsætisráðherra hafði beinlínis gert það að skilyrði fyrir undirritun samkomulags við borgina að horfið yrði frá því að semja um það.
Lokun neyðarbrautarinnar
Þeir sem annast sjúkraflug og ýmsir aðrir talsmenn íslenskra flugmanna og fyrirtækja í flugrekstri hafa varað við lokun neyðarbrautarinnar og bent á að ekki hafi verið rétt staðið að öryggismati sem lá þar til grundvallar. Nú síðast lýsti öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna yfir vonbrigðum með drög að samgönguáætlun meðal annars með vísan til lokunar brautarinnar. Bent er á að ekki sé hægt að lenda flugvél á suðvesturhorni landsins í stífri suðvestanátt eftir lokunina.
Brautin seld
Ég læt vera að fjalla um tæknilegar forsendur lokunarinnar þótt ærið tilefni sé til að leiða þá umræðu til lykta eins fljótt og auðið er. En á meðan sú umræða stendur enn berast þær óvæntu og óskemmtilegu fréttir að ríkið hafi selt Reykjavíkurborg rúmlega 110.000 fermetra land sem nú er undir suðurenda umræddrar neyðarbrautar fyrir 440 milljónir króna. Þetta er algjörlega óskiljanleg ráðstöfun eftir það sem á undan er gengið í átökum ríkisvaldsins við núverandi borgaryfirvöld um Reykjavíkurflugvöll og með hliðsjón af stöðunni sem uppi er í þeirri deilu.
Þar fyrir utan er verðið fáránlega lágt fyrir svo stórt og verðmætt land. Vandfundnar eru verðmætari lóðir í Reykjavík og ekki óvarlegt að ætla að verðmæti þessarar ríkiseignar nemi 8 til 10 milljörðum króna sé litið til söluverðs byggingarréttar annars staðar í borginni, m.a. verðlagningar borgarinnar sjálfrar á lóðum sem ekki eru jafnverðmætar og þær sem hér um ræðir.
Að vísu mun ríkið eiga að fá einhvern hlut í þeim tekjum sem fást af sölu byggingarréttar en ekki hefur komið fram hversu mikill sá hlutur verður að öðru leyti en því að tekið er fram að því meira sem fáist fyrir lóðirnar þeim mun stærri verði hlutdeild Reykjavíkurborgar.
Óheimil sala
Þessi sérkennilega sala, sem að óbreyttu mun kosta ríkið veikari stöðu í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og milljarða króna, er sögð gerð á grundvelli samnings sem tveir fyrrverandi varaformenn Samfylkingarinnar gerðu rétt fyrir kosningar 2013. Þ.e. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Katrín Júlíusdóttir, þáverandi fjármálaráðherra. Vísað er í heimild í fjárlögum ársins 2013 til að réttlæta söluna nú.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, lýsti því reyndar yfir fyrir þremur árum að til stæði að vinda ofan af þessum gjörningi og heimildin var ekki endurnýjuð. Auk þess hafa lögmenn, þ.m.t. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, bent á að salan nú standist ekki lög. Jafnvel þótt fjallað hefði verið um málið í fjárlögum þessa árs (sem ekki var gert) dygði það ekki til. Samþykkja þyrfti sérstök lög um söluna.
Ljóst má vera að sala á flugvallarlandi ríkisins í Skerjafirði stenst hvorki lagalegar forsendur né fjárhagslegar forsendur og hún vinnur gegn því markmiði að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll og öruggar flugsamgöngur milli höfuðborgarinnar og landsins alls. Annað getur því vart talist forsvaranlegt en að rifta hinum ólögmæta samningi. Sú riftun myndi vonandi marka umskipti í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og sýna að ríkisvaldið sé reiðubúið að gera það sem þarf til að stöðva tilraunir borgaryfirvalda til að fjarlægja flugvöllinn sneið fyrir sneið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. september 2016. 

Categories
Greinar

Parísarsamningnum fylgt eftir

Deila grein

01/09/2016

Parísarsamningnum fylgt eftir

sigrunmagnusdottir-vefmyndRíkisstjórnin hefur óskað eftir heimild Alþingis til að fullgilda Parísarsamninginn um aðgerðir í loftslagsmálum. Vonandi gengur það hratt og vel fyrir sig, svo Ísland geti verið meðal ríkja sem fullgilda hann snemma og stuðla þannig að því að samningurinn taki gildi á heimsvísu. Nú hafa yfir 20 ríki fullgilt samninginn, en hann gengur í gildi þegar 55 ríki með 55% af losun á heimsvísu hafa fullgilt hann.

Tímamót í loftslagsmálum
Parísarsamningurinn markar tímamót. Viðræður í loftslagsmálum höfðu árum saman verið í hnút, þar sem hver benti á annan. Nú er í fyrsta sinn kominn samningur þar sem öll ríki heims leggja sín lóð á vogarskálarnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem ríki munu hjálpast að við að bregðast við breytingum sem verða óhjákvæmilega. Reynt verður að halda hlýnun innan við 2°C, en jafnframt leitað leiða til að halda henni innan við 1,5°C. Framlög ríkja til að draga úr losun eru sjálfviljug, en ríkjum er ætlað að setja metnaðarfull markmið og efla þau reglulega. Í samningnum felst bókhalds- og aðhaldskerfi, sem mun krefja ríki til að fylgja eftir settum markmiðum.

Áskoranir og tækifæri
Ísland býr um margt við óvenjulegar aðstæður í loftslagsmálum. Flest ríki setja á oddinn að draga úr orkuframleiðslu með jarðefnaeldsneyti. Hér er orka til rafmagns og hitunar nær 100% með endurnýjanlegum orkugjöfum.
Draga þarf úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum og fiskveiðum. Einnig þarf að minnka kolefnisfótspor landbúnaðar og minnka losun frá úrgangi. Ekki má gleyma því að möguleikar Íslands til að binda kolefni með skógrækt og landgræðslu eru miklir og þarf að nýta.

Töluleg markmið Íslands eru sett á alþjóðlegum vettvangi og í ákvæðum EES-samningsins. Nú er í gildi áætlun um að ná markmiðum Kýótó-bókunarinnar til 2020, sem þarf að uppfæra til 2030. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur óskað eftir sérfræðiskýrslu um möguleika til þess, sem byggir m.a. á nýrri orku- og eldsneytisspá sem kom út nú í sumar.

Sóknaráætlun komin á skrið
Stjórnvöld vildu hefjast handa strax í anda Parísarsamningsins. Sóknar­áætlun í loftslagsmálum var kynnt í fyrra og er komin á fullan skrið. Innan hennar eru sextán verkefni sem miða að minnkun losunar á Íslandi og með alþjóðlegri samvinnu og að eflingu margvíslegs starfs í loftslagsmálum.

Sóknaráætlunin er fyrsta heildstæða aðgerðaáætlunin í loftslagsmálum sem byggir á fjármögnuðum verkefnum. Fé er sett til eflingar innviða fyrir rafmagnsbíla, efldrar skógræktar og endurheimtar votlendis. Aðilar í sjávarútvegi, landbúnaði og háskólasamfélaginu eru fengnir að borðinu til að gera vegvísa um minnkun losunar á landi og sjó. Eitt verkefnið miðar að því að gera jökla Íslands að lifandi kennslustofum um áhrif loftslagsbreytinga. Annað vinnur gegn matarsóun, sem veldur verulegri og óþarfri losun.

Ég er ánægð að sjá þessi verkefni komast á skrið og bind vonir við að þau muni laða fleiri heila og hendur til góðra verka og leiða til raunverulegs árangurs í loftslagsmálum. Ég tel einnig skipta miklu máli að við sendum skýr skilaboð til samfélags þjóðanna um að við viljum fylgja eftir tímamótasamningnum í París. Með skjótri fullgildingu Parísarsamningsins leggjum við okkar af mörkum til að tryggja bætta framtíð afkomenda okkar.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. september 2016.