Categories
Forsíðuborði Greinar

Kjósum samvinnu

Deila grein

28/10/2017

Kjósum samvinnu

Í dag er kosið um traust stjórnarfar og stöðugleika næstu fjögur árin, skýra forgangsröðun verkefna og framtíðarsýn fyrir Ísland. Sú ríkisstjórn sem tekur við að loknum kosningum þarf að vera framsækin og lausnamiðuð til að ná fram nauðsynlegum umbótum í íslensku samfélagi.

Heilbrigði og velferð
Við þurfum að gera betur í heilbrigðismálum á Íslandi. Góð heilbrigðisþjónusta á að standa öllum til boða, óháð efnahag og búsetu. Efla þarf heilsugæsluna um land allt, fjölga hjúkrunarrýmum og reisa þjóðarsjúkrahús. Geðheilbrigðismálin hafa setið á hakanum of lengi og því þarf að breyta. Fjölga þarf geðlæknum á heilbrigðisstofnunum víðsvegar um landið og létta álaginu af Landspítalanum. Það er með öllu óviðunandi að andlega veikt fólk rekist á veggi í kerfinu, því það fær ekki rétta hjálp. Við viljum vinna að því framtíðarmarkmiði að allir geti fengið læknisþjónustu án tillits til efnahags. Núverandi greiðsluþátttökukerfi er íþyngjandi, sérstaklega ef fólk er búið að greiða hámarkskostnað fyrir læknisþjónustu og lyf. Þessu viljum við breyta. Tannlækna-, sálfræði- og ferðakostnaður sjúklinga á að vera hluti af greiðsluþátttökukerfinu. Samhliða þessu þurfum við að tryggja að heilbrigðiskerfið okkar sé vel mannað. Allt sem þarf er vilji og samvinna.

Aukið fé í menntakerfið
Menntun er forsenda hagvaxtar og framþróunar og eflir einstaklinga á margvíslegna hátt. Bæta þarf námsárangur í grunnskólum en þar erum við Íslendingar eftirbátar annarra þjóða. Fjölga þarf iðn-, verk-, tækni- og raungreinamenntuðum einstaklingum á vinnumarkaði. Árangur í tækni og nýsköpun gerir okkur hæfari til að mæta kröfum framtíðarinnar. Við eigum öflugt vísindafólk og rannsóknarfyrirtæki sem skara fram úr á sínu sviði og eru að gera það gott á alþjóðavettvangi. Öflugt vísindastarf og nýsköpun gerir okkur samkeppnishæfari á alþjóðavettvangi.
Setja þarf meira fjármagn í háskólana svo þeir nái OECD-meðaltalinu árið 2020 og meðaltali Norðurlandanna í kjölfarið.

Endurskoðum peningastefnu og fjármálakerfi
Ein stærsta áskorun nýrrar ríkisstjórnar verður að byggja undir stöðugleika. Með réttri stefnu má búa til skilyrði lægri vaxta. Það þarf að vinna á fjórum sviðum. Í fyrsta lagi er það endurskoðun peningastefnunnar en sú vinna hefur staðið yfir um nokkurt skeið. Ljóst er að krónan verður áfram gjaldmiðill okkar Íslendinga og styrkja þarf umgjörð hennar. Í öðru lagi þurfa ríkisfjármál að vera ábyrg þannig að aðhald sé sýnt á þenslutímum en útgjöld aukin þegar dregur úr vexti. Í þriðja lagi þarf vinnumarkaður að aðlaga sig að stöðunni hverju sinni þannig að launahækkanir leiði ekki til verðbólgu og þar með til hærri vaxta. Í fjórða lagi þarf að móta framtíðarsýn um fjármálamarkaðinn með það að leiðarljósi að fjármálakerfið þjóni heimilum og fyrirtækjum á hagkvæman og skilvirkan hátt. Þessu til viðbótar þarf að efla stofnanaumgjörðina þannig að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið sameinist og til verði öflugt eftirlit með fjármálamarkaðnum. Stofna á Stöðugleikasjóð sem byggir á auðlindum okkar og dregur úr sveiflum í íslensku hagkerfi. Enn má bæta lánshæfi ríkissjóðs sem skilar sér í lægri kostnaði fyrir ríkið og íslenskt atvinnulíf. Skuldir ríkissjóðs þarf að lækka enn frekar til að draga úr vaxtakostnaði svo meira fé sé til aflögu fyrir velferð landsmanna.

Utanríkismálin
Frjáls og opin alþjóðaviðskipti eru til hagsbóta fyrir lítil opin hagkerfi og auka velsæld þeirra. Hagsmunum Íslendinga er best borgið með því að vera áfram sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) er mikilvægasti alþjóðasamningur Íslands, hvort heldur sem er í efnahagslegu eða stjórnmálalegu samhengi. Íslensk stjórnvöld verða að sinna framkvæmd samningsins vel. Með ákvörðun Breta um útgöngu úr Evrópusambandinu er staðan gjörbreytt. Framtíðarskipulag Evrópu mun taka breytingum á næstu misserum og brýnt að góðir samningar náist við Bretland fyrir Íslands hönd enda er landið okkar helsta viðskiptaland. Stefnumótun í utanríkismálum á að miðast að þessum breytta heimi. Ísland á að vera virkur aðili í stefnumótun um málefni norðurslóða enda hefur landið mikilvæga sérstöðu sem norðurskautsríki og fylgja því bæði tækifæri og áskoranir. Tækifærin þarf að nýta með ábyrgum og sjálfbærum hætti þar sem náttúran fær að njóta vafans.

Framsóknarflokkurinn hefur djúpar rætur í samfélaginu og hefur látið verkin tala í heila öld, flokkur án öfga – hvorki til vinstri eða hægri, flokkur með skýr markmið um hvernig ná eigi árangri og bæta íslenskt samfélag þannig að Ísland verði í fremstu röð. Það þarf festu í íslensk stjórnmál, traust og stöðugleika, skýra forgangsröðun verkefna og bjarta framtíðarsýn fyrir Ísland. Að þessu viljum við vinna næstu fjögur árin. Til þess þurfum við þinn stuðning.

Lilja Alfreðsdóttir, alþingismaður og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. október 2017.