Categories
Forsíðuborði Fréttir

Máttur hinna mörgu

Deila grein

27/10/2017

Máttur hinna mörgu

Kæru vinir og flokksfélagar um land allt, mér finnst vel við hæfi að setja einkunnarorð samvinnumanna sem yfirskrift þessa pistils því í þeim speglast grunnstef Samvinnuhreyfingarinnar og Framsóknarflokksins að virkja samtakamátt fólks til góðra verka og um leið að fjöldinn njóti afrakstursins með jöfnuð að leiðarljósi.
Og þrátt fyrir að ýmislegt hafi breyst í samfélaginu þá falla aldrei þessi lífsgildi úr tísku og gott ef ekki er að byggjast upp frekari eftirspurn eftir þeim nú í dag þegar óstöðuleiki í stjórnmálum er helsta vandamál okkar góða lands.
Þá komu þessi einkunnarorð ekki síður upp í huga mér þegar kosningarbaráttan, sem nú er á endasprettinum, hófst og enn einu sinni sá maður hvar auður Framsóknarflokksins lá þegar þið, félagsmenn hans, tókuð höndum saman um allt land og gengu til verka fyrir flokkinn og framboðslista hans, hugsjónir og stefnumál. Það var máttur hinna mörgu.

Líka það að þrátt fyrir að margt sé búið að vera okkur mótdrægt nú á þessum síðasta mánuði þá hefur verið svo einstakt að finna hversu góður andi er innan flokksins, aldrei uppgjöf, og gleði í störfum allra sem lagt hafa á sig ómælda vinnu um allt land til að vinna flokknum okkar fylgi og koma okkar flottu frambjóðendum á framfæri í komandi kosningum. Þetta er máttur hinna mörgu.
Og nú tökum við endasprettinn saman fram á laugardaginn kemur, 28.október, og berjumst fyrir flokkinn okkar og tryggjum honum góða kosningu og færum þannig stöðugleika aftur inn í stjórnmálin að nýju því þegar Framsóknarflokkurinn er sterkur þá er íslenskt samfélag sterkt líka. Við höfum góð stefnumál, sterka frambjóðendur og rætur sem eru orðnar rúmlega aldargamlar og standa í félagshyggjujarðvegi. Slíkar rætur standa af sér ágjöf um stund og halda áfram að gefa af sér ríkulega uppskeru inn í framtíðina. Um það veit ég að við erum öll sammála.
Framsóknar- og baráttukveðjur,
Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins