Categories
Greinar

Vísindalegar forsendur – ábyrgar veiðar

Deila grein

15/03/2014

Vísindalegar forsendur – ábyrgar veiðar

Sigurður Ingi JóhannssonÍ vikunni gengu ESB, Færeyjar og Noregur frá samkomulagi um skiptingu makrílaflaheimilda. Í samkomulaginu felst að í ár taka Noregur og ESB 100% af ráðlögðum heildarafla Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Ég er vonsvikinn yfir því að ekki hafi tekist að ljúka fjögurra ríkja strandríkjasamkomulagi. Það var einstakt tækifæri til að ná samningi án þess að það hefði neikvæð efnahagsleg áhrif á nokkurt strandríkjanna frá fyrra ári þar sem ráðgjöf hækkaði mjög á milli ára. Nokkrir hafa risið upp og spurt af hverju Ísland sé ekki þátttakandi í samkomulaginu, og hvernig það hafi getað gerst að þessi þrjú ríki sömdu án þess að tala við Ísland? Þessu get ég svarað.

Afstaða Íslands í viðræðum um nýtingu makrílstofnsins hefur í meginatriðum verið að standa vörð um hagsmuni Íslands og að makrílstofninn sé nýttur á ábyrgan hátt. Í samningalotum vetrarins hefur stærsta verkefni samninganefndar okkar verið að tryggja samkomulag sem ekki byggðist á verulegri ofveiði. Þar hefur verið við ramman reip að draga undir stífri kröfu Norðmanna um veiðar umfram ráðgjöf, og gagnvart sinnuleysi Færeyinga þegar kemur að sjónarmiðum sjálfbærrar nýtingar. Þessum aðilum var fullljóst þetta sjónarmið Íslands. Ég get enga aðra ályktun dregið af lyktum mála en þá að þessi þrjú ríki hafi gefist upp á viðræðum á ábyrgum grundvelli, eins og krafa var um af okkar hálfu. Þegar ljóst var að ESB var tilbúið að víkja frá því samkomulagi sem það hafði gert við Ísland, og víkja frá sjálfbærum nýtingarsjónarmiðum, ákvað sambandið að freista þess að ná þríhliða samningi utan formlegs strandríkjafundar. Það gefur auga leið að það þurfti ekki miklar viðræður milli Noregs og ESB um að auka sínar heimildir frá fyrri árum og bjóða Færeyingum far til viðbótar eins og niðurstaðan er.

Íslenska samninganefndin hefur staðið vörð um sjónarmið sjálfbærrar nýtingar á þessum strandríkjafundum, og staðið sig með prýði. Það að ætla henni eða ríkisstjórninni að hafa sofið á verðinum, látið tækifæri framhjá sér fara eða hvernig það hefur verið orðað í þingræðunni er ómerkilegur rógur í garð þeirra sem að málinu koma fyrir Íslands hönd. Ómerkilegur rógur til heimabrúks til að leiða sjónir manna frá því sem raunverulega gerðist: íslensk stjórnvöld standa utan samkomulags sem stuðlar að veiðum verulega umfram vísindalega ráðgjöf. Við höfum í gegnum viðræðurnar ekki haft áhuga á að vera innan þessa sem hér var um samið, þá hefði líklegast löngu verið komið á fjögurra ríkja samkomulag. Það var alveg skýrt þegar formaður samninganefndar ESB, sem jafnframt boðaði og stýrði fundinum, sleit fundi í Edinborg í upphafi mánaðarins, að strandríkjaviðræðum um veiðar á makríl 2014 var lokið. Það kemur glögglega fram í fréttatilkynningu sjávarútvegsstjóra ESB þar sem segir að viðræðum sé nú lokið og hafnar verði tvíhliðaviðræður við Noreg. Eins í fréttatilkynningu sjávarútvegsráðherra Noregs þar sem segir að strandríkjaviðræðum sé lokið og hún harmi að ekki hafi tekist að ná samkomulagi fyrir 2014. Ólíkt sumum sem hafa tjáð sig, þá misskildi okkar fólk ekkert í þeim samskiptum.

Mér finnst íslensk stjórnvöld hafa haldið vel á málinu frá upphafi og pólitísk samstaða verið mikilvæg. Við höfum unnið með það í miklu samráði við utanríkismálanefnd þingsins og út frá sömu sjónarmiðum og unnið hefur verið með frá byrjun. Við erum flest, ef ekki öll, í grunninn sammála um það að Ísland er stolt af orðspori sínu sem ábyrg fiskveiðiþjóð. Við erum líka sammála því að hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi og í samningaviðræðum beri að verja. Við höfum nálgast viðræðurnar lausnamiðað, verið tilbúin til samninga, lagað okkar kröfur að möguleikum til þess að nálgast samkomulag. Þetta nægir ekki ef viðsemjendur okkar, Noregur í þessu tilfelli, vilja ekki semja við Ísland, þá einfaldlega verða ekki samningar. Vonbrigðin eru þau að ESB hafi, í stað þess að virða samkomulag það sem við náðum sem byggðist á sjálfbærri nýtingu, vikið frá þeim loforðum sem það gaf okkur.

Staðreyndir málsins eru þær að makríll gengur í ógnarmagni inn í íslenskra lögsögu, hér eru beitarsvæði hans, þyngdaraukning er gríðarleg og hann étur fæði frá öðrum stofnum á okkar miðum með tilheyrandi afleiðingum. Ísland hefur réttilega undanfarin ár nýtt þann rétt sinn að gera verðmæti úr þessari auknu gengd makríls. Annað væri vítavert sinnuleysi gagnvart hagsmunum. Á móti spyr ég því nú: Átti Ísland að gefa eftir viðmið sitt um ábyrga nýtingu auðlinda til að vera partur af samkomulagi sem leiðir til ósjálfbærra veiða? Átti Ísland að gefa eftir þann hlut sem við vorum tilbúin að fallast á ef samkomulag á grunni vísindalegrar ráðgjafar næðist? Er það þannig sem að Ísland á að ná samningum á alþjóðavettvangi, slá af sanngjörnum kröfum? Ég segi nei. Við eigum að standa vörð um hagsmuni okkar til lengri tíma.

Sigurður Ingi Jóhannsson

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. mars 2014.)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Vandamálið sem enginn talar um

Deila grein

15/03/2014

Vandamálið sem enginn talar um

Karl GarðarssonLjóst er að fjölga þarf hjúkrunarrýmum fyrir aldraða um allt að 1.700 á næstu 15 árum og nemur kostnaður vegna þessa um 54 milljörðum króna. Af þessum fjölda eru um 1.100 á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru staðreyndirnar sem stjórnmálamenn forðast að ræða, enda aldrei vinsælt að ræða um málefni aldraðra, hóps sem gerir litlar kröfur og er aldrei hávær. Slíkir hópar eru sjaldnast ofarlega í forgangsröðinni.

Miklar breytingar verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu áratugum. Þannig er gert ráð fyrir að þeim sem eru 67 ára eða eldri fjölgi um rúmlega 26.000 á næstu 15 árum, eða um 71% frá því sem er í dag. Talið er að þeim sem eru 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6.600, eða um 55%. Þessar miklu breytingar kalla á aðrar og ólíkar áherslur í heilbrigðismálum, þar sem hugsa þarf fyrir þörfum þessa vaxandi hóps.

Flestar fjölskyldur þekkja þann vanda sem skapast þegar þarf að koma öldruðum ættingjum í hjúkrunarrými. Að meðaltali voru um 250 manns á biðlista eftir slíkum rýmum á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, og var meðalbið hátt í fjórir mánuðir. Að óbreyttu mun þessi tími lengjast til muna. Niðurskurður undanfarinna ára á framlögum til heilbrigðismála hefur komið illa niður á öldruðum. Þjónusta hefur verið skert og lyfjakostnaður aukist. Þessu verður að breyta. Nauðsynlegt er að styrkja heimaþjónustu og stoðþjónustu til muna.

Flestir eru sammála um nauðsyn þess að veita auknu fjármagni í heilbrigðiskerfið, sem stendur frammi fyrir auknu álagi á næstu árum, þar sem þjónustan verður ekki síst að taka mið af því að þjóðin er að eldast. Þá hefur rekstur hjúkrunarheimila verið erfiður og daggjöld of lág. Minni heimili hafa átt sérstaklega erfitt.

Unnið er að úttekt á málefnum aldraðra sem gerð verður opinber í byrjun sumars. Málið þolir enga bið. Stjórnvöld verða að taka höndum saman við sveitarfélög og einkaaðila um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Við verðum að gera þá lágmarkskröfu að þörfum aldraðra sé sinnt með viðeigandi hætti og að langir biðlistar eftir þjónustu heyri sögunni til. Aldraðir eiga það skilið.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. mars 2014.)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ekki er fjandinn frændrækinn

Deila grein

15/03/2014

Ekki er fjandinn frændrækinn

Silja Dögg GunnarsdóttirNorðmenn, Evrópusambandið og Færeyingar,  hafa nú komist að samkomulagi um makrílveiðar. Samningurinn gildir í fimm ár. Samningurinn nú gerir ráð fyrir 1047 þúsund tonna afla þessara ríkja, sem er 18% yfir heildarveiðiráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins (ICES).

Þá á eftir að gera ráð fyrir veiðum Íslendinga, Grænlendinga og Rússa. Ljóst er að heildarveiðin getur samkvæmt þessu farið meira en 50% fram úr vísindalegri ráðgjöf ICES en þeir ráðlögðu 890 þúsund tonn.

Hafna sjálfbærum veiðum
Samningsaðilar eru með þessu að hafna algerlega sjálfbærum veiðum á stofninum og markmið þeirra virðist því vera að veiða makrílinn niður. Ákvörðunin er alger hneisa og ábyrgðarlaus gagnvart náttúrunni.

Evrópusambandið hefur gengið bak orða sinna um samning við okkur sl. haust sem var á grundvelli sjálfbærrar nýtingar og sýnir með óyggjandi hætti hvernig hugsunarháttur þeirra er gagnvart auðlindum hafsins.

Evrópusambandið ofveiðir nú 80% af sínum fiskistofnum og þar af eru 30% af stofnum þeirra að hruni komnir sökum ofveiði. Sambandið hefur lagt áherslu á að bæta fiskveiðistefnu sína sem einkenndist af ofveiði og brottkasti, en þessi ákvörðun grefur undan þeirri stefnu svo um munar, trúverðugleikinn er með öllu horfinn.

Reykfyllt bakherbergi
Norðmenn hafa leikið harðan leik allan tímann í málinu og því kom þessi ákvörðun þeirra ekki á óvart. En Evrópusambandið var búið að semja við Íslendinga um hlutdeild í makrílstofninum á grundvelli sjálfbærra veiða. Síðan færðist það nær Norðmönnum og samdi verulega umfram veiðráðgjöf. Þessi niðurstaða er því fullkomin svik af hálfu Evrópusambandsins, en kannski ekki við öðru að búast úr þeim herbúðum eftir fyrri hótanir þeirra um beitingu viðskiptaþvingana.

Nú ríður á að við stöndum saman í þessu mikla hagsmunamáli okkar Íslendinga og gagnrýnum harðlega þá ofveiði sem þessar þrjár þjóðir hyggjast efna til. Ísland stundar sjálfbærar veiðar.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. mars 2014.)

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Karlar – takið þátt!

Deila grein

08/03/2014

Karlar – takið þátt!

Eygló HarðardóttirÁ alþjóðlegum baráttudegi kvenna sendi ég baráttufólki um land allt bestu kveðjur. Dagurinn á sér sögu allt frá árinu 1910 þegar þýska baráttukonan Clara Zetkin bar upp hugmyndina um sérstakan dag tileinkaðan baráttunni fyrir réttindum kvenna. Upp úr 1970 tóku Sameinuðu þjóðirnar hann upp á arma sína og dagurinn fékk alþjóðlega viðurkenningu og vægi sem alþjóðlegur kvennadagur.

Við göngum að kjörborðinu eftir nokkrar vikur og enn berast þær fréttir að færri konur en karlar skipa forystusæti á framboðslistum og að fleiri konur ætli að hætta í sveitarstjórnum en karlar. Þessi sameiginlegi kynjavandi var til umræðu á ráðstefnu sem ég sat fyrir rúmri viku en því miður voru þar engir karlar mættir. Ég saknaði þeirra – og mér er ofarlega í huga hvernig við getum virkjað karlmenn betur í jafnréttisbaráttunni, körlum, konum og samfélaginu til hagsbóta.

Barátta kvenna fyrir jafnrétti kemur körlum nefnilega ekki síður við en konum, enda snýst hún um stöðu fjölskyldnanna, aðstæður til að stunda atvinnu, verkaskiptingu á heimilum, uppeldi barnanna okkar, atvinnu, heimilin, kynjahlutverk og staðalmyndir. Sú staðreynd að enn hallar á konur hvað varðar völd, áhrifastöður og laun, hefur einnig neikvæð áhrif á stöðu karla. Fullu jafnrétti kynjanna verður aðeins náð með aðgerðum sem eru jákvæðar fyrir bæði kynin.

Nærtækt dæmi um slíkt er áhrif fæðingarorlofslaganna. Mikill meirihluti nýbakaðra feðra tekur nú fæðingarorlof og nýlegar rannsóknir sýna að hlutdeild feðra í umönnun ungra barna hefur aukist verulega frá því að lögin tóku gildi. Þannig höfðu lögin mikil áhrif til að fá karla og konur til að átta sig betur á hve gjöfult og mikilvægt föðurhlutverkið er, hve brýnt það er að foreldrar séu góðar fyrirmyndir fyrir börn sín og virði hvort annað sem jafningjar.

Á undanförnum áratugum hafa íslenskar konur verið í mikilli menntasókn. Þær eru nú tvær af hverjum þremur nemendum í háskólum landsins. Hvar eru karlarnir? Af hverju höfðar langskólamenntun ekki til þeirra í sama mæli og kvenna?

Þekkingarsamfélagið sem byggist á góðri menntun sem flestra er það sem framtíðin ber í skauti. Ef karlar mennta sig ekki fer mikill mannauður í súginn, alveg eins og þegar konur fengu ekki að mennta sig. Við höfum ekki efni á því. Of mörgum drengjum gengur illa í skóla og við því þarf að bregðast. Karlar og konur eiga að geta valið það nám og starf sem hugur þeirra stendur til, óháð kyni. Við verðum líka að taka höndum saman gegn ofbeldismenningu sem bitnar bæði á konum og körlum þótt með mismunandi hætti sé.

Á þessu ári fer Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Það stendur mikið til í jafnréttismálunum enda er samstarf Norðurlandanna á því sviði 40 ára. Mörg mál verða tekin á dagskrá sem snúa að rannsóknum og aðgerðum sem hafa að markmiði að jafna stöðu karla og kvenna á öllum sviðum samfélagsins.

Það er margt að ræða á þessum alþjóðlega baráttudegi kvenna, allt frá uppeldinu til elliáranna. Það er líka mikilvægt að hugsa til þeirra kvenna víða um heim sem enn berjast fyrir rétti sínum til að tjá sig, ferðast óáreittar utandyra, fá að stunda nám, vinna fyrir sér og lifa án ofbeldis og átaka. Við sýnum þeim best stuðning í verki með því að vera til fyrirmyndar og sýna að það er hægt að breyta heiminum.

 

Eygló Harðardóttir

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 8. mars 2014)

Categories
Greinar

Heiðarleg skýrsla Hagfræðistofnunar

Deila grein

08/03/2014

Heiðarleg skýrsla Hagfræðistofnunar

Sigrún MagnúsdóttirÍ aðdraganda síðustu kosninga ályktuðu flokksþing Framsóknarflokksins og landsfundur Sjálfstæðisflokksins mjög ákveðið að aðild að ESB samræmdist ekki hagsmunum Íslands. Þessar samkomur hafa æðsta vald um stefnumótun viðkomandi flokka og ber kjörnum fulltrúum þeirra að framkvæma stefnuna eftir því sem þeim er unnt til næsta flokksþings. Í kosningunum í fyrravor unnu þessir flokkar báðir góða sigra en fráfarandi stjórnarflokkar biðu afhroð. Sigurvegararnir mynduðu ríkisstjórn svo sem vænta mátti og í málefnasamningi hennar var ákveðið að láta gera úttekt á stöðu Evrópumála. Í framhaldi af þeirri úttekt yrðu næstu skref ákveðin, hvað varðaði aðlögunarferli Íslands að ESB. Þó yrði ekki haldið áfram aðlögunarviðræðum, sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði frestað, nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Utanríkisráðherra fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að annast framangreinda úttekt. Það var eðlilegt val því ekki eru margar stofnanir hérlendis líklegri til að vera hafnar yfir gagnrýni og til að skila trúverðugri niðurstöðu.

Vönduð skýrsla

Nú hefur Hagfræðistofnun skilað ítarlegri skýrslu um stöðu mála hjá ESB og horfur í aðlögunarviðræðum Íslendinga og er skýrslan aðgengileg á netinu. Í stuttu máli er það ljóst að undanþágur frá reglum ESB eru ekki fáanlegar nema þá tímabundnar. Enda segir orðrétt í skýrslunni (bls. 65): »Í samanteknu máli má því segja að erfitt geti reynst að ná fram varanlegum undanþágum frá reglum sambandsréttar í þeirri merkingu sem hér er lögð í það orðasamband. Það á sérstaklega við á sviði fiskveiða og landbúnaðarmála þar sem stefnan er sameiginleg og Evrópusambandið fer að mestu leyti eitt með lagasetningarvald.«

Óhætt er að fullyrða að skýrslan er vönduð, varfærin og mjög trúverðug, greinir stöðuna af hófsemi en með sterkum rökum. Þrátt fyrir vikulanga umræðu á Alþingi, þar sem stjórnarandstaðan beitti miklu málþófi, gat hún ekki borið neinar niðurstöður skýrslunnar til baka.

500 ræður um fundarstjórn

Um 500 ræður voru fluttar undir liðnum fundarstjórn forseta. Það sjá það allir að einnar til tveggja mínútna innhlaup um fundarstjórn felur ekki í sér málefnalega uppbyggðar ræður um eitt höfuðmál íslenskra stjórnmála. Út á fundarstjórn forseta var ekkert að setja. Þetta var málþóf. Það var mjög leitt að vikan skyldi ekki nýtast betur í málefnalegar umræður um skýrslu Hagfræðistofnunar. Það er mikilvægt að finna leiðir til að kynna hana betur fyrir þjóðinni, vegna þess að skýrslan tekur af öll tvímæli um að það er rökrétt niðurstaða að hætta viðræðum við Evrópusambandið.

Undanþágur fást ekki

Það er þýðingarlaust að elta þann draum lengur, að okkur bjóðist viðunandi undanþágur eða sérlausnir vegna nauðsynja eða sérstöðu Íslands í frekari aðlögunarviðræðum. Það er því einboðið að draga til baka umsókn okkar að ESB eins og þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar kveður á um.

 

Sigrún Magnúsdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. mars 2014.)

Categories
Greinar

Biophilia – verkefni um skapandi kennslu

Deila grein

04/03/2014

Biophilia – verkefni um skapandi kennslu

Eygló HarðardóttirHvernig má örva krakka frekar í námi, auka virkni þeirra, vekja með þeim forvitni og gera námið sem skemmtilegast? Um þetta fjallar verkefnið Biophilia sem er eitt af stórum verkefnum formennskuárs Íslands í norrænu samstarfi. Um 2,8 milljónir danskra króna renna til verkefnisins á þessu ári, sem nemur tæpum 60 milljónum íslenskra króna.

Vísindamenn í skólastofunni
Verkefnið felst í þróun kennsluaðferða þar sem tónlist, tækni og vísindi eru tvinnuð saman á nýstárlegan hátt til að örva skynjun og áhuga barna á náttúrufyrirbærum og eðlisfræði. Hugmyndina má rekja til tónlistarkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur. Hefðbundið kennsluform er brotið upp og allir aldurshópar vinna saman, þvert á námsgreinar og fagsvið. Vísindakenningar öðlast líf þar sem krakkarnir fá sjálfir að prófa þær á skemmtilegan og einfaldan hátt og námið verður því fróðlegur leikur sem skilur eftir sig þekkingu og áhuga á frekara námi í tækni og vísindum.

Komdu og skoðað‘í kistuna mína
Þegar hafa hátt í 30 íslenskir skólar tekið þátt í verkefninu Biophiliu og nú er stefnt að því að börn annars staðar á Norðurlöndunum fái að njóta þess líka. Þróaðar verða svokallaðar kistur sem innihalda kennslumyndbönd, spjaldtölvur og annað tæknilegt sem til þarf. Hvert og eitt Norðurlandanna mun búa að einni kistu sem flyst milli skólanna til að kynna kennsluaðferðina á tungumáli viðkomandi lands.

Vísindasöfn á Norðurlöndum munu einnig koma að verkefninu sem og háskólar og menningarsöfn. Á slóðinni biophiliaeducational.org er verkefnið kynnt á myndrænan hátt. Árið 2016 fer fram mat á árangri verkefnisins. Það er von mín að Biophilia takist vel og verði grunnur að þróun nýrra kennsluhátta sem veita börnum og ungmennum gott veganesti út í lífið.

 

Eygló Harðardóttir

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. mars 2014)

Categories
Greinar

Flýtimeðferð, já takk

Deila grein

02/03/2014

Flýtimeðferð, já takk

Elsa lára_SRGB_fyrir_vefÍ gær birtist frétt á vef Hagsmunasamtaka heimilanna þess efnis að Neytendastofa hafi birt ákvörðun vegna kvörtunar yfir verðtryggðu húsnæðisláni Íslandsbanka. Með ákvörðuninni eru staðfest alvarleg brot bankans á ákvæðum laga um neytendalán og um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Neytendastofa hefur hér með staðfest að lánveitendum verðtryggðra neytendalána hafi verið með öllu óheimilt að taka mið af 0% verðbólgu við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, heildarlántökukostnaðar og framsetningu á greiðsluáætlun.

Í fréttinni kemur jafnframt fram að rannsóknir Hagsmunasamtaka heimilanna á lánasamningum neytenda hafa leitt í ljós að þeir eru í flestum tilvikum, sama eðlis og má því ætla að flest ef ekki öll verðtryggð neytendalán hér á landi, þar með talin húsnæðislán, brjóti í bága við umrædd lagaákvæði. Ekki er vitað um nein tilfelli þess að lánveitendur verðtryggðra neytendalána hafi á undangengnu tímabili tekið mið af raunverulegri verðbólgu við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnaði.

Samkvæmt niðurstöðu Neytendastofu hefur lánveitendum því verið óheimilt að innheimta verðbætur af verðtryggðum neytendalánum frá þeim tíma og af fasteignaveðlánum einstaklinga frá ársbyrjun 2001,  þegar lögin voru útvíkkuð.

Þessi niðurstaða staðfestir það sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa um langa hríð vakið athygli á, að framkvæmd verðtryggingar á neytendalánum hér á landi hefur verið ólögleg allt frá gildistöku laga nr. 121/1994 um neytendalán, að meðtöldum fasteignaveðlánum frá og með 2001.

Í ljósi þessara niðurstaðna finnst mér mjög mikilvægt að þau mál sem eru í gangi um lögmæti verðtryggingarinnar, fái flýtimeðferð í gegnum dómskerfið. Í sumar var samþykkt á Alþingi frumvarp sem tekur einmitt til þess, að gefa fordæmisgefandi málum er tengjast skuldamálum heimilanna hraðari meðferð í gegnum kerfið.

En þar segir að lagt er til að í þeim dómsmálum þar sem ágreiningur er uppi um lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla, vísitölu eða uppgjöri slíkra skuldbindinga, skuli hraða meðferð slíkra mála og veita forgang fram yfir önnur mál sem bíða meðferðar hjá dómstólum. Í því felst að dómari sjái til þess að allir frestir í máli séu eins stuttir og mögulegt er og að dómur sé kveðinn upp hið fyrsta. Á þetta bæði við um mál sem rekin eru fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

Það er mín persónulega skoðun að dómsmál er varða lögmæti verðtryggingarinnar af neytendalánum fái þessa flýtimeðferð sem lögin kveða á um. Þá fyrst vitum við raunverulega hverju við þurfum að bregðast við.

Ég leyfi mér að enda þessa færslu á þessum orðum. Lán hafa verið dæmd ólögleg fyrir dómstólum, það getur gerst aftur.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Categories
Greinar

Ísland og Japan: Tækifæri í jarðhita

Deila grein

28/02/2014

Ísland og Japan: Tækifæri í jarðhita

Sigurður Ingi JóhannssonMörg ríki reyna nú að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis til orkuframleiðslu, sem er helsta orsök skaðlegra loftslagsbreytinga á heimsvísu. Japan er þar engin undantekning og býr raunar við meiri vanda en mörg önnur ríki, því dregið hefur mjög úr notkun kjarnorku eftir slysið í Fukushima-verinu. Japan nýtur þess hins vegar að óvíða er meiri gnótt jarðhita. Hann er þó vannýttur og japönsk stjórnvöld hafa nýlega ákveðið að grípa til ýmissa aðgerða til að efla jarðhitanýtingu. Meðal annars er litið til Íslendinga og þekkingar okkar í þessu sambandi.

Nobuteru Ishihara, umhverfisráðherra Japans, kom síðastliðið sumar til Íslands í vinnuheimsókn að kynna sér jarðhitamál og sýndi reynslu Íslendinga mikinn áhuga. Í fyrri viku var heimsókn Ishihara endurgoldin og var tækifærið notað til að ræða efld samskipti ríkjanna við hann og fleiri ráðamenn og talsmenn atvinnulífs í Japan.

Í heimsókninni til Japans ávarpaði undirritaður málþing í Tókýó um möguleika á samstarfi í jarðhitamálum, sem nær 100 þátttakendur sóttu. Þar kom fram mikill áhugi á nýtingu jarðhita og mögulegu samstarfi. Japönsk fyrirtæki framleiða meirihluta af hverflum í jarðhitaverum á heimsvísu og eru framarlega í allri tækni á þessu sviði. Nýting jarðhita til rafmagnsframleiðslu er þó takmörkuð og nær engin til húshitunar. Þar liggja tækifæri fyrir okkur, því hvergi í heiminum er jafn víðtæk og fjölbreytt nýting á jarðhita og á Íslandi. Reynsla okkar þar er verðmæti.

Grálúða, æðardúnn og norðurljós
Viðskiptatækifæri í Japan eru ekki einungis á sviði jarðhita. Japan er annað helsta viðskiptaland Íslands utan Evrópu og þangað fara yfir 2% af útflutningi okkar að verðmæti um 12-15 milljarða króna árlega. Þar ber hæst ýmsar sjávarafurðir, sem eru 80% af útflutningi okkar til Japans, s.s. grálúða, karfi og loðnuafurðir. Líklega hefur engin þjóð ríkari og fjölbreyttari hefðir í matreiðslu sjávarfangs og Japanar og þar er mikil eftirspurn eftir hágæðafiski og hvers kyns sjávarfangi. Eftirspurn eftir íslenskri gæðavöru er þó ekki bundin við sjávarafurðir, því Japan er stærsti markaður fyrir æðardún, sem er seldur þangað fyrir um 300 milljónir króna.

Japanskir ferðamenn koma til Íslands í stórauknum mæli, ekki síst á veturna, meðal annars til að sjá norðurljós. Áhugavert er að reyna að efla enn frekar samgöngur og viðskipti við Japan og kom áhugi Japana á því skýrt fram í heimsókninni. Meðal annars er áhugi á norðursiglingum, en Japan fékk á fyrra ári áheyrnaraðild í Norðurskautsráðinu. Ef siglingaleið opnast yfir norðurpólinn myndi það stytta vöruflutninga milli Yokohama og Rotterdam um 40%. Japan opnar nú í vor fullmannað sendiráð með sendiherra staðsettum í Reykjavík. Teikn um aukin samskipti Íslands og Japans eru því víða á lofti, sem er vel, því þessar tvær eyþjóðir eiga margt sameiginlegt þótt siðir og saga séu ólík og höf og heimsálfur beri í milli.

Jarðhiti – lausn á heimsvísu
Auk tvíhliða samskipta Íslands og Japans er áhugavert að skoða hvort ríkin geti eflt samstarf í umhverfismálum á alþjóðavettvangi, svo sem með að styrkja græn verkefni í þróunarríkjum. Mögulega geta legið tækifæri í samstarfi Japana og Íslendinga við að auka útbreiðslu jarðhitanýtingar þar, enda er víða að finna jarðvarmaver sem byggja á japanskri tækni og íslenskri þekkingu.

Loftslagsvandinn er að langmestu leyti til kominn vegna bruna kola, olíu og gass til orkuframleiðslu. Endurnýjanleg orka er ekki laus við vandamál, en er þó margfalt betri lausn á heimsvísu í ljósi loftslagsváarinnar. Í jarðhitanum liggja gífurleg tækifæri. Sérfræðingur á fyrrnefndu málþingi taldi að e.t.v. væru aðeins um 6% jarðhita á heimsvísu nýtt nú. Þarna getur Ísland beitt sér til góðra verka og ekki er verra ef við getum unnið að þeim í samvinnu við Japan og önnur ríki sem vilja efla veg loftslagsvænnar orku.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Við vorum kosin til að gera breytingar

Deila grein

23/02/2014

Við vorum kosin til að gera breytingar

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSíðustu alþingiskosningar snerust fyrst og fremst um þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera til að koma samfélagi okkar upp úr hjólförunum. Það er vel þekkt staðreynd að í djúpri niðursveiflu felast tækifæri til að ná snöggri uppsveiflu. En á Íslandi varð biðin eftir viðsnúningi löng, enda voru mörg tækifæri vannýtt og árum saman fylgt stefnu sem var síst til þess fallin að ýta undir vinnu, vöxt og velferð. Óþreyjan eftir framförum var því orðin mikil.

Margar þeirra breytinga sem kallað var eftir við kosningar eru gríðarlega stórar og mikilvægar fyrir framtíð Íslands. Þar má meðal annars nefna leiðréttingu á verðtryggðum lánum heimilanna, einföldun skattkerfisins, breytingu á samskiptum Íslands og Evrópusambandsins, bætt viðhorf stjórnvalda til atvinnulífsins, grundvallarbreytingar á fjármálaumhverfinu, m.a. vegna afnáms verðtryggðra neytendalána, skuldaskil þrotabúa gömlu bankanna og afnám fjármagnshafta.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar fengu mjög afdráttarlaus skilaboð í alþingiskosningunum. Þau skilaboð tökum við alvarlega. Við vorum kosin til að gera breytingar. Það erum við að gera og munum gera áfram.

Breytingar mæta iðulega mótspyrnu. Miklar breytingar mæta mikilli mótspyrnu og hún getur tekið á sig ýmsar myndir. Gagnrýni og rökræða eru nauðsynleg í lýðræðissamfélagi. Þegar ráðist er samtímis í margar stórar og afgerandi samfélagslegar breytingar sem skipta máli fyrir afkomu heimilanna, skipan fjármálakerfisins, samskipti okkar við umheiminn og komið í veg fyrir að kröfuhöfum bankanna séu tryggð þau sérkjör sem einhverjir þeirra virðast hafa haft væntingar um, þá þarf ekki að koma á óvart að mótstaðan verði bæði mikil og áköf og gangi jafnvel lengra en talist getur til eðlilegrar gagnrýni.

Breytt stefna kallar alltaf á andstöðu þeirra sem vildu halda óbreyttri stefnu (eða stefnuleysi) og þeirra sem hafa hag af óbreyttu ástandi.

Strax og þessi ríkisstjórn tók við kom í ljós að þær breytingar sem boðaðar voru í kosningum, og ríkisstjórnin var mynduð um, mættu mikilli mótspyrnu. Sú mikla varnarbarátta sem nú er háð gegn hreyfiafli breytinganna, bæði í fjölmiðlum og annars staðar í samfélaginu, hefur ekki farið fram hjá neinum og er skýrt merki þess að breytingarnar séu byrjaðar að skila árangri.

Upp úr hjólförunum

Um allt land sjást þess nú merki að íslenskt samfélag er að vakna af þyrnirósarsvefni áranna eftir bankahrunið. Efnahagslífið er að taka við sér með verulega auknum hagvexti, hvarvetna eru framkvæmdir hafnar eða að hefjast. Merki um framfarir blasa víða við.

Ný þjóðhagsspá Arion banka var kynnt á ráðstefnu í vikunni með yfirskriftinni »komin upp úr hjólförunum«. Í fyrra var yfirskrift sömu ráðstefnu »föst í fyrsta gír« og sést ágætlega á þeirri breytingu að mikið hefur gerst á undanförnu ári.

Hagvöxtur tók stökk á afgerandi og jákvæðan hátt síðastliðið haust, hagvaxtarspá Seðlabankans fyrir næsta ár er nú mun jákvæðari en von var á. Fjárfesting hefur aukist meðal smærri fyrirtækja á árinu og byggingariðnaðurinn er að taka verulega við sér. Talið er að um 2.000 störf bætist við í byggingariðnaði á næstu árum og því er spáð að atvinnuleysi muni lækka niður undir 3% – eða nálægt atvinnuleysistölum í venjulegu árferði á Íslandi. Auk þess er því nú spáð að verðbólga muni fara lækkandi fram eftir árinu sem er sérstaklega mikilvægt vegna þess að brýna nauðsyn ber til að auka kaupmátt heimilanna.

Ekkert lát er á fjölgun erlendra ferðamanna og um allt land er uppbygging á spennandi tækifærum í ferðaþjónustu í fullum gangi. Við þetta bætist að hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum okkar fara nú batnandi, lánshæfi landsins er orðið stöðugt og ýmsar vísbendingar eru um bætt vaxtakjör og meira traust á íslenska ríkinu.

Það er því full ástæða til að gleðjast yfir þeim áberandi jákvæðu breytingum sem hafa orðið á stöðu landsins og aðstæðum í samfélaginu síðastliðið ár.

Ísland er land tækifæranna

Framundan eru stór verkefni og mikilvægar breytingar.

Ein þeirra er afnám fjármagnshafta, sem nú er unnið að með skipulegum hætti. Um er að ræða grundvallarmál sem snertir líf allra landsmanna og komandi kynslóða Íslendinga. Inn í það mál blandast gífurlegir hagsmunir vogunarsjóða sem eiga kröfur í þrotabú föllnu bankanna. Skuldaskil þeirra eru eitt þeirra verkefna sem leysa þarf af kostgæfni og með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í fyrirrúmi, svo að hægt sé að afnema fjármagnshöft. Það kemur ekki til greina af hálfu stjórnvalda að íslenskur almenningur og íslenskt atvinnulíf taki á sig auknar byrðar til að leysa einn hóp úr höftum á meðan aðrir eru skildir eftir með enn stærri vanda. Lausn þarf því að vera til þess fallin að leyfa almenna afléttingu fjármagnshaftanna.

Það er skiljanlegt að þeir sem eiga gífurlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta við uppgjör föllnu bankanna reyni að verja þá hagsmuni með kjafti og klóm. En ríkisstjórnin mun ekki undir nokkrum kringumstæðum fórna langtímahagsmunum komandi kynslóða við skuldaskil fallinna banka. Því er óhætt að treysta.

Það er ástæða til að vera mjög bjartsýnn á framtíð Íslands. Íslendingar hafa á liðnum áratugum oft fengið storminn í fangið en í hvert sinn staðið uppréttir eftir. Þjóðin hefur sýnt að hún er fullfær um að standa gegn hvers konar þrýstingi til að verja framtíðarhagsmuni sína.

Nú, þegar við erum loks komin upp úr hjólförunum, eru landinu allir vegir færir. Þjóðir um allan heim hafa áhuga á Íslandi og líta á Ísland sem land tækifæra. Við eigum að nýta þau tækifæri vel og leggja áherslu á að eiga viðskipti og uppbyggileg samskipti við öll þau lönd sem vilja vinna með okkur á slíkum grundvelli.

Þó að breytingar mæti alltaf mótstöðu, þeim mun meiri mótstöðu eftir því sem hagsmunirnir eru meiri, þá mun ríkisstjórnin hvergi hvika. Við vorum kosin til að gera breytingar og það munum við gera.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Gagnaver á Blönduósi

Deila grein

20/02/2014

Gagnaver á Blönduósi

Sigrún MagnúsdóttirAlþingi ályktaði 15. janúar sl að fela stjórnvöldum að koma á samstilltu átaki með sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Jafnframt ber að vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.

Með þessari ákvörðun Alþingis er stigið stefnumarkandi skref til þess að gagnaver rísi á Blönduósi. Forráðamenn sveitarfélagsins hafa undirbúið málið með því að bjóða fram mjög hentugt landsvæði í eigu sveitarfélagsins og komið því á aðalskipulag. Staðhættir bjóða þar upp á flesta hugsanlega kosti til starfrækslu gagnavers. Þar er mjög vítt og hentugt landrými, orkuflutningur frá Blönduvirkjun mjög öruggur og um skamma leið að fara svo orkutap er lágmarkað. Engin hætta er af eldgosum, jarðskjálftum eða annarri náttúruvá. Þá er veðrátta svo sem ákjósanlegust er, köld en ekki stórviðrasöm. Ljósleiðaratengingar auðveldar, samgöngur greiðar bæði norður og suður. Lítill flugvöllur er á Blönduósi sem með litlum endurbótum gæti greitt enn betur fyrir samgöngum.

Svo háttar til að Landsnet vill leggja nýja orkuflutningslínu frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Gert er ráð fyrir 220 volta línu á möstrum. Íbúar þeirra sveita sem fyrir mestri röskun yrðu eru þessum áformum mjög andvígir. Þegar af þeirri ástæðu er einboðið að nýta fremur orku Blönduvirkjunar á heimaslóð en að standa í stórdeilum við íbúa annarra sveita. Blöndulínu þrjú þarf því ekki að reisa í bráð og sparast við það ríkisfé sem kemur að góðum notum við atvinnuuppbygginguna í Austur-Hún.

Íslendingar hafa varið geipifé til lagningar sæstrengjanna Farice og Danice. Þeir eru mjög vannýttir og rekstur þeirra er mikill baggi. Gagnaflutningar sem verða með tilkomu gagnavers/gagnavera myndu skipta þar sköpum.

Stjórnvöld hafa það á valdi sínu hvar þau kjósa að iðnaðaruppbygging verði sem og hvar iðjuver rísa í landinu og nægir að benda á álver í Reyðarfirði. Því ber stjórnvöldum nú að beita sér af alefli við að laða þá sem fjárfesta vilja í gagnaverum hingað til lands og fá því stað á Blönduósi, öllum til hagsbóta.

 

Sigrún Magnúsdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2014)