Categories
Greinar

Fjölgum körlum í áhrifastöðum

Deila grein

17/02/2014

Fjölgum körlum í áhrifastöðum

Anna-Kolbrun-ArnadottirLengi hefur heyrst að fjölga þurfi konum í áhrifastöðum, en það má einnig spyrja hvort ekki sé full ástæða til þess að fullyrða að fjölga þurfi körlum í áhrifastöðum? Báðar þessar fyllyrðingar eru réttar, það sem helst er athugavert við fullyrðingarnar er hugtakið áhrifastaða. Samfélagið með hjálp fjölmiðla skilgreinir oftar en ekki áhrifastöður sem stöður er snúa að viðskiptalífinu.

Áhrifastöður er víða að finna í samfélaginu og í aðalnámsskrá leikskóla er því beinlínis haldið fram að litið sé á leikskólakennara sem áhrifavald í uppeldis- og menntastarfi barna. Með því er verið að segja að það sé áhrifastaða að vera leikskólakennari. Ekki þarf að efast um að þetta sé rétt, leikskólakennara er ætlað að vera leiðandi í mótun starfsins, vera góð fyrirmynd og hann á að vera samverkamaður barna, foreldra og samstarfsfólks.

Einnig má segja að umönnunarstörf séu skipuð fólki í áhrifastöðum. Hver einasta fjölskylda í landinu hefur örugglega átt í samskiptum við einstaklinga sem sinna ástvinum þeirra að alúð og oftar en ekki á erfiðum tímum. Samskipti við umönnunaraðila eru og verða áhrifarík og þar með skipuð fólki í áhrifastöðum.

Rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er hindrun sem erfitt er að yfirstíga og skerðir atvinnumöguleika beggja kynja. Þegar talað er um umönnunar- og kennslustörf, þá er oftar en ekki talað um hefðbundin kvennastörf og jafnvel kvennastéttir sem sinna störfunum. Karlar eiga ekki séns og þeir karlar sem hætta sér inn á óhefðbundinn starfsvettvang hafa margir hverjir lýst fordómum sem þeir urðu fyrir vegna starfsvalsins. Vissulega vekur þetta einnig umhugsun um hvort (fleiri) drengir í framhaldsskóla hafi hug á því að sækja inn á svið umönnunar- eða kennslu þegar í sífellu er talað um kvennastörf. Eða hvort (fleiri) stúlkur hafi vilja til þess að sækja starf í verkgreinum þegar að talað er um hefðbundin karlastörf.

Þessum skrifum er ætlað að opna augu fólks fyrir því að fjölga þurfi körlum í áhrifastöðum.

 

Anna Kolbrún Árnadóttir, jafnréttisfulltrúi

Categories
Greinar

Bætt umræða – aukin virðing

Deila grein

17/02/2014

Bætt umræða – aukin virðing

Þorsteinn SæmundssonUndanfarið hefur nokkuð verið drepið á nauðsyn þess að bæta yfirbragð opinberrar umræðu, sérstaklega í netheimum. Sannarlega er ekki vanþörf á vakningu í þessum efnum því margir orðaleppar sem látnir eru falla eru engum sæmandi. Verst er þó þegar fólk sem vill væntanlega láta taka sig alvarlega lætur ummæli falla sem ganga þvert á allt velsæmi.

Þeir sem vinna opinber störf þurfa að vera við því búnir að finna til tevatnsins vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis. Allir hafa fullan rétt á að gagnrýna og benda á það sem betur má fara. Ég skal samt viðurkenna að með fullu tilliti til þess sem áður er sagt eru atriði sem ég felli mig ekki við að sé beint að mér og þeim stjórnmálasamtökum sem ég var kosinn á þing fyrir.

Ég felli mig til dæmis ekki við að vera kallaður fasisti eða að ég eða stjórnmálasamtök þau sem ég tilheyri búi yfir slíkum tilhneigingum. Að vísu er það svo að flestar ávirðingar í þessa átt hafa undanfarið borist frá einstaklingum sem eru lítt traustvekjandi og njóta reyndar ekki almenns trausts.

Nú rétt fyrir áramótin var birt viðtal í Fréttatímanum um atburði nýliðins árs. Þar lét annar viðmælandinn hafa eftir sér ummæli um síðustu kosningabaráttu sem gengu gersamlega fram af mér.

Meðal annars sagði viðkomandi: „…að í aðdraganda kosninganna, þegar skoðanakannanir sýndu í hvað stefndi og við sáum fylgi Framsóknar stíga, leið mér eins og ég væri að horfa á hryllingsmynd með raðmorðingja sem gengur laus.“ Og litlu síðar: „…ég held við séum á vissan hátt í gini morðingjans núna og erum að súpa seyðið af þessu.“

Ekki sæmandi
Nú er ekki eins og sá sem lét ummælin falla sé einhver skynskiptingur. Þvert á móti á viðkomandi að heita bókmenntafræðingur og ætti því að þekkja merkingu þeirra orða sem hún lætur falla.

Ekki lítur samt út fyrir að viðkomandi hafi verið á kafi í fagurbókmenntunum. Hvað sem því líður eru ummæli bókmenntafræðingsins náttúrulega ekki sæmandi og bera vitni um litla sjálfsvirðingu því sá sem ekki ber virðingu fyrir sjálfum sér er ekki fær um að bera virðingu fyrir öðrum.

Auðvitað á maður ekki að skensa svona fólk heldur vorkenna því en sá sem hér skrifar er ekki nógu langt kominn á þroskabrautinni til að láta svona ummæli sem vind um eyrun þjóta. Nú er nefnilega kominn tími til að spyrna við fótum.

Opinber umræða á ekki að vera á þessum nótum. Það á ekki að þola að stór hluti þjóðarinnar sé dreginn niður með þessum hætti. Brýn nauðsyn er á því að opinber umræða sé dregin upp úr þessum förum. Vinnum það áramótaheit að bæta opinbera umræðu og hætta slíkum endemis sleggjudómum heimsku og niðurlægingar.

 

Þorsteinn Sæmundsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Hriktir í stoðum Evrópusamstarfsins

Deila grein

17/02/2014

Hriktir í stoðum Evrópusamstarfsins

Karl GarðarssonMikil togstreita er innan Evrópu um þessar mundir. Það endurspeglaðist í ræðu Thorbjörns Jaglands, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, á fundi ráðsins fyrir skömmu. Þar lýsti hann yfir miklum áhyggjum af stöðu mála og hver þróunin yrði. Hann benti á að mikil ólga væri innan Evrópusambandsins, spenna milli sambandsins og annarra valdamikilla ríkja og jafnvel spenna innan Evrópuráðsins, sem samanstendur af 47 ríkjum sem eru bæði innan og utan ESB. Ástæðan er ekki síst sú að félagslegt misrétti hefur aukist til muna í aðildarríkjunum. Þá eiga öfgastefnur vaxandi fylgi að fagna og telja margir að það muni endurspeglast í kosningum til Evrópuþingsins í vor. Spyrja verður hvaða áhrif það muni mögulega hafa á Evrópusambandið á næstu árum. Óljóst er hvert sambandið stefnir og margir eru þeirrar skoðunar að evrusamstarfið geti ekki haldið nema til komi sérstakt sambandsríki Evrópu. Mikil andstaða er hins vegar við þá hugmynd innan aðildarríkjanna.

Jagland benti á að sú mikla óþolinmæði sem vart hefði orðið í Evrópu endurspeglaðist síðan í auknu kynþáttahatri og öfgaskoðunum. Minnihlutahópar ættu í vök að verjast, ný félagsleg vandamál væru að koma í ljós, og ofbeldi gegn konum og börnum hefði aukist. Þá væri peningaþvottur alþjóðlegt vandamál. Undirliggjandi væri andstaða við ríkjandi stjórnvöld vegna aukins misréttis. Fólk sættir sig ekki lengur við að sigurvegarinn hirði allt og að stórir hópar sitji eftir.

Mannréttindasáttmáli Evrópu hafi aldrei verið eins mikilvægur og nú. Á sama tíma er hins vegar nauðsynlegt að endurskoða hlutverk Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem þúsundir mála bíða afgreiðslu. Nauðsynlegt er að styrkja til muna lagaverk einstakra þjóða þannig að þau geti leitt til lykta flest mál sem lúta að mannréttindum. Jagland bendir á að einungis stærstu málin ættu að koma inn á borð Mannréttindadómstólsins. Taka verður undir þetta. Hlutverk Evrópuráðsins er ekki síst að standa vörð um mannréttindi og lýðræði í aðildarríkjunum. Þannig er framtíð Evrópuríkja best borgið.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Karlar geta allt!

Deila grein

13/02/2014

Karlar geta allt!

Eygló HarðardóttirHefur ljósfaðir tekið á móti barninu þínu? Hversu líklegt er að karl taki á móti barninu þínu í leikskólanum? Eða í grunnskólanum?

Ekki sérlega líklegt, segja tölurnar okkur. Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur og endurspegla tölur frá menntastofnunum á framhalds- og háskólastigi kynbundið námsval ungmenna. Enginn karl hefur útskrifast með menntun ljósmóður á Íslandi. Aðeins 2% félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eru karlar, 12% starfandi félagsráðgjafa og hlutfall karla af heildarfjölda nemenda í kennaradeild menntavísindasviðs HÍ er innan við 20%.

Í störfum kennara, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga er þjónusta við almenning ríkur þáttur starfsins og snertir því stráka og stelpur, karla og konur. Því er mikilvægt að þjónustan taki mið af báðum kynjum og starfsumhverfið sé aðlaðandi vettvangur fyrir einstaklinga óháð kyni. Ástæður fyrir námsvali ungmenna eru vísast jafn ólíkar og þær eru margar. Staðalmyndir um það hvað sé æskilegt starfsval fyrir konur og karla virðast hins vegar enn vera ráðandi og sýna tölurnar að karlar eiga enn langt í land hvað varðar jafna þátttöku á við konur í umönnunar- og kennslustörfum.

Rannsóknir sýna að þegar annað kynið er í miklum meirihluta í ákveðinni stétt er eins og varnargarðar hafi verið reistir utan um viðkomandi stétt sem virkar hamlandi á hitt kynið. Þannig verður það nær óyfirstíganlegt fyrir einstakling af hinu kyninu að velja sér það nám og starf sem hugur þeirra og hæfileikar standa til. Einstaklingarnir fá ekki að njóta sín og samfélagið líður fyrir.

Eitt verkefna aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti er að stuðla að aðgerðum sem draga úr kynjaskiptingu starfa. Engin ein aðgerð er talin líklegri til að minnka launamun karla og kvenna en uppbrot hins kynskipta vinnumarkaðar. Það staðfesta bæði innlendar og erlendar rannsóknir. Aðgerðahópurinn efnir því til opins umræðufundar þar sem rætt verður um mögulegar leiðir til að fjölga körlum í umönnunar- og kennslustörfum á Grand Hóteli Reykjavík, 13. febrúar.

Brjótum upp hinn kynbundna vinnumarkað og sýnum að karlar geta allt!

 

Eygló Harðardóttir

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 13. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Norrænt samstarf í öryggismálum

Deila grein

12/02/2014

Norrænt samstarf í öryggismálum

Gunnar Bragi SveinssonNorræn samvinna byggir á gömlum merg en á síðustu árum hefur samstarfi í utanríkis- og öryggismálum vaxið fiskur um hrygg. Í þessu sambandi mörkuðu skýrsla Thorvalds Stoltenbergs um aukið samstarf landanna á þessu sviði og norræn samstöðuyfirlýsing um gagnkvæma aðstoð á hættu- og neyðartímum tvímælalaust þáttaskil.

Það fer vel á því að í dag hittist utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar Norðurlandanna í Keflavík á sama tíma og flugsveitir Norðmanna, Svía og Finna stunda æfingar á Íslandi. Æfingarnar byggja á tillögum Stoltenbergs um norræna loftrýmisgæslu og gefa þátttökulöndunum tækifæri til að samhæfa aðgerðir og efla tengslin sín á milli. Þannig styrkja Norðurlöndin samvinnu sína á heimaslóð en efla jafnframt getu sína til að starfa saman í alþjóðlegum verkefnum.

Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin gegna lykilhlutverki í varnarmálum Íslands. Norræna samstarfið er mikilvæg viðbót vegna þess að það nær til margra og ólíkra áhættuþátta, m.a. hernaðarógna, skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka, umhverfisöryggis og netöryggis, svo fátt eitt sé nefnt. Samstarf og æfingar með grannríkjunum gera okkur betur í stakk búin til að vinna með frændþjóðunum og styrkir jafnframt staðarþekkingu erlendu gestanna en hvort tveggja getur reynst mikilvægt ef hætta steðjar að.

Dagskrá ráðherrafundarins í dag endurspeglar þessa auknu breidd í samvinnu landanna. Við munum ræða framtíðarþróun norræna samstarfsins, öryggishorfur á norðurslóðum, verkefni Atlantshafsbandalagsins og hvernig Norðurlöndin geta í sameiningu lagt sín lóð á vogarskálar alþjóðlegrar friðaruppbyggingar.

 

Gunnar Bragi Sveinsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Lífhagkerfið – dýrmæt auðlind

Deila grein

09/02/2014

Lífhagkerfið – dýrmæt auðlind

Sigurður Ingi JóhannssonÍsland er með formennsku í samstarfi Norðurlandanna árið 2014. Samkvæmt venju hafa verið skipulögð ákveðin formennskuverkefni og hafa þrjú ráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunar-, umhverfis- og auðlinda- og mennta- og menningarmálaráðuneyti, sameinast um framkvæmd forgangsverkefnis sem kallað er Norræna lífhagkerfið og fengið hefur vinnuheitið NordBio. Verkefninu er ætlað að standa yfir í þrjú ár.

Í dag boðar íslenska verkefnisstjórnin til opnunarfundar um NordBio í Norræna húsinu í Vatnsmýrinni. Þar munu koma saman um 100 manns frá Norðurlöndunum, að meðtöldum sjálfstjórnarsvæðum, og ræða framkvæmd verkefnisins.

Í NordBio endurspeglast norræn samvinna eins og hún gerist metnaðarfyllst. Verkefnið sameinar krafta sérfræðinga, stofnana og fyrirtækja sem starfa á sviði lífrænna auðlinda.

Því er ætlað styrkja norrænt atvinnulíf og bæta umhverfislegan, hagrænan og félagslegan afrakstur af nýtingu auðlinda úr lífríkinu, bæði til lands og sjávar. Þá er því einnig ætlað að styrkja byggðaþróun, þekkingarlegan grunn að stefnumörkun í atvinnulífinu og umhverfismálum með því að efla samstarf á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar í lífhagkerfinu. NordBio er ennfremur ætlað að leggja bættan grunn að orkuvinnslu, fæðuöryggi og lýðheilsu og opna norrænni framleiðslu aðgang að mörkuðum sem komi til góða vaxandi fólksfjölda í heiminum.

Hugmyndafræðin bak við NordBio-verkefnið tengist vel við opinbera stefnumótun íslenskra stjórnvalda, eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og Byggðaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi.

Ljóst er að lífrænar auðlindir eru ein helsta undirstaða velferðar á Íslandi sem og hjá hinum norrænu ríkjunum. Mikil verðmæti eru falin í lífrænum auðlindum landanna og löndin hafa góðar forsendur til að ryðja brautina í varðveislu og bættri nýtingu þeirra og er verkefninu meðal annars ætlað að tryggja Norðurlöndunum leiðandi hlutverk á þessu sviði. Til marks um áhuga annarra þjóða á verkefninu má nefna að samtök á vegum Breska samveldisins munu eiga áheyrnarfulltrúa á fundinum.

Það er von mín að formennska Íslands á þessum vettvangi verði til þess að opna augu fólks fyrir þessari miklu og dýrmætu auðlind, sem lífhagkerfið er.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. febrúar 2014)

Categories
Greinar

Þarf fjórðungur stúlkna aðstoð vegna þunglyndis eða kvíða?

Deila grein

06/02/2014

Þarf fjórðungur stúlkna aðstoð vegna þunglyndis eða kvíða?

Karl GarðarssonSpurningin vaknar í kjölfar könnunar sem Þjónustumiðstöð Breiðholts gerði í 9. bekk í grunnskólum hverfisins árið 2012. Könnunin leiddi í ljós að 26,2% stúlkna voru yfir viðmiðunarmörkum vegna kvíða 2012. Hlutfallið hafði lækkað í 15,5% á síðasta ári. Þá mældust 12,6% stúlkna vera yfir viðmiðunum vegna þunglyndis 2012. Hlutfallið hafði lækkað í 10,2% 2013. Það gæti meðal annars verið vegna þess að gripið var inn í þau tilfelli sem komu upp og rætt við nemendur og foreldra og bent á úrræði til hjálpar.

Það breytir hins vegar ekki stóru myndinni að heildartölurnar eru áhyggjuefni og vekja upp spurningar um geðheilbrigði þeirrar kynslóðar sem nú er að vaxa úr grasi.

Vandamálið virðist vera til staðar og nauðsynlegt fyrir borgaryfirvöld og stjórnvöld að bregðast skjótt við. Athygli vekur að mun lægri tölur mælast hjá drengjum í Breiðholtinu. Aðeins 4,1% þeirra var yfir viðmiðunarmörkum þegar kom að kvíða 2009 en 1,9% 2013. Þá voru 6,8% yfir mörkum vegna þunglyndis 2009 og 3,9% á síðasta ári.

Niðurstöður og umræður úr ýmsum könnunum um líðan skólabarna hafa verið birtar að undanförnu. Setja þarf spurningarmerki við margar þeirra, enda skortir oft upp á faglega nálgun á viðfangsefnið.

Átak á landsvísu
Könnunin í Breiðholti er hluti af svokölluðu Breiðholtsmódeli, sem þróast hefur í hverfinu á síðustu sjö árum. Þetta módel byggist meðal annars á því að reynt er að greina vandann eins fljótt og hægt er og veita síðan bestu mögulega þjónustu á sem hagkvæmastan hátt. Þá sinna sálfræðingar bráðamálum sem koma upp. Hönnuð hafa verið sérstök námskeið þar sem boðið er upp á fyrstu inngrip við uppeldis- og tilfinningavanda og eru þau hluti af þeim úrræðum sem boðið er upp á í Breiðholti. Námskeiðin eru ætluð foreldrum og börnum og þau ná allt niður til foreldra 3ja ára barna sem eru í áhættuhópi. Góð samvinna er við geðdeild Landspítala, BUGL og fleiri aðila.

Niðurstaða vinnulags Þjónustumiðstöðvar Breiðholts gefur tilefni til að staldra við. Hún bendir til mjög vaxandi tilfinningavanda unglinga á árunum eftir kreppu. Sú niðurstaða þarf ekki að koma á óvart í ljósi reynslu annarra þjóða, t.d. Finnlands, en Finnar glímdu við alvarlegar afleiðingar kreppu, sem birtist m.a. í auknum tilfinningavanda barna.

Nauðsynlegt er að ráðast í átak á landsvísu með því markmiði að skima fyrir tilfinningavanda unglinga og bjóða þeim sem þurfa viðeigandi hjálp. Það er fjárfesting til framtíðar.

 

Karl Garðarsson

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 6. febrúar 2014.)

Categories
Greinar

Konur til forystu

Deila grein

05/02/2014

Konur til forystu

Líneik Anna SævarsdóttirMargir hafa á síðustu vikum veitt slagorðinu „Konur til forystu“ athygli á samskiptamiðlum, sem og öðrum miðlum. Slagorðinu er ætlað að hvetja þá sem standa að framboðum til sveitarstjórnarkosninga til að skipa konur í forystusæti til jafns á við karla. Slagorðið á svo að sjálfsögðu við á fleiri sviðum, eins og í atvinnulífinu. Á öðrum sviðum þurfa karlar hins vegar hvatningu til dáða en geymum það að sinni.

Konur í forystu hjá sveitarstjórnum eru miklu færri en karlar en til þess að ná fram jafntefli (jafnrétti) er mikilvægt að hvetja liðið sem er undir. Nú eru konur um 40% sveitarstjórnarmanna. Engu að síður voru konur um helmingur frambjóðenda í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Konur skipuðu hins vegar síður en karlar efstu sæti framboðslista og því náðu færri konur kjöri. Konur voru í leiðtogasæti á fjórðungi lista. Hlutfall kvenna í forystu sveitarfélaga sem bæjarstjórar, sveitarstjórar eða oddvitar er 32%.

Á þeim fundum sem ég hef setið með sveitarstjórnarmönnum frá því ég varð þingmaður kom ég fljótt auga á að konur eru oft um 25-30% fundarmanna. Þetta eru fundir eins og aðalfundir samtaka sveitarfélaga og fundir þar sem forystumenn sveitarfélaganna fylgja eftir áherslumálum sveitarfélaga eða landshlutasamtaka. Þarna er hlutfallið sem sagt enn lægra en hlutfall kjörinna fulltrúa og jafnvel lægra en hlutfall kvenna í forystu sveitarfélaga.  Ég hef velt fyrir mér ýmsum skýringum, t.d. kynjaskiptingu á vinnumarkaði, þar sem konur sinna frekar störfum sem krefjast viðveru á þeim tímum sem fundir fara fram. Eins gæti verið að konur stoppi styttra við í sveitarstjórnum og því telji konur sig síður hafa reynsluna sem þarf til að sinna forystustörfum. Ekki veit ég hvort þetta eru réttar skýringar en það er verðugt viðvangsefni að velta þessum málum fyrir sér.

Ef við viljum ná fram breytingum er mikilvægt að félög sem standa að framboðum til sveitarstjórna og hins vegar sveitarstjórnirnar sjálfar axli ábyrgð og leiti leiða til úrbóta, þó ákvörðun um framboð verði alltaf einstaklingsins.

Félögin sem bjóða fram lista til sveitarstjórna verða að finna aðferðir sem tryggja jafnrétti við röðun á lista, bæði kynjajafnrétti sem og jafnrétti á ýmsum öðrum sviðum og það þarf líka að gæta að jafnrétti þegar skipað er í forystusætin.

Sveitarstjórnir þurfa að velta fyrir sér af fullri alvöru hvort hægt sé að haga starfi sveitarstjórna þannig að það geri þeim sem hafa áhuga og hæfileika til starfa að sveitarstjórnarmálum það mögulegt.  Ég hef talað við fjölda karla og kvenna sem gefast upp á störfum í sveitarstjórnum vegna þess hversu erfitt er að samrýma þau atvinnuþátttöku, löngum ferðalögum í sífellt stærri sveitarfélögum o.s.frv.  Hvernig eru jafnréttisáætlanir sveitarstjórna?

Einstaklingar sem taka þátt í starfinu þurfa einnig að vera duglegir að miðla af sinni reynslu, bæði jákvæðri og neikvæðri.  Störf að sveitarstjórnarmálum geta vissulega verið tímaþjófur og það getur verið krefjandi að sameina þau öðrum hlutverkum en þau eru líka gefandi á margan hátt.  Í gegnum þessi störf gefst tækifæri til að kynnast fjölda fólks, læra ótrúlega margt um fjölbreytt málefni og eiga ánægjulegt samstarf við ólíka einstaklinga.

Ég vil hvetja alla sem hafa áhuga á því samfélagi sem þeir búa í til að skoða möguleika á þátttöku. Ég vil þó sérstaklega hvetja konur til starfa, því við þurfum fleiri KONUR TIL FORYSTU.

 

Líneik Anna Sævarsdóttir

Categories
Greinar

Einhugur um afnám verðtryggingar – en hversu hratt?

Deila grein

02/02/2014

Einhugur um afnám verðtryggingar – en hversu hratt?

Frosti SigurjónssonNiðurstaða nefndar um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum er einróma sú að verðtrygging sé skaðleg og hana þurfi að afnema. Nefndin klofnaði hins vegar í afstöðu sinni til þess hversu hratt eigi að afnema verðtrygginguna. Minnihluti nefndarinnar leggur til afnám strax á miðju ári, en meirihlutinn vill afnema verðtryggingu í áföngum og taka fyrsta skrefið næstu áramót. Þingið þarf því að velja á milli þessara valkosta. Í þessum pistli skoða ég helstu rök meirihlutans gegn afnámi í einu skrefi og set fram mótrök gegn þeim.

Nefndin einhuga um skaðsemi vertryggingar á neytendalánum

Meðal ókosta sem taldir eru í skýrslu meirihlutans: Tekjur lántakenda eru óverðtryggðar og því geta verðtryggð lán skapað hættu á yfirveðsetningu á verðbólgutímum. Verðtrygging freistar til útlánaþenslu því greiðslubyrði verðtryggðra lána létt í upphafi en þyngist mjög í lokin. Ef verðtryggð jafngreiðslulán eru útbreidd þá dregur úr virkni stýrivaxtatækisins. Verðtrygging leiðir þannig til hærri stýrivaxta og vaxtastigs. Verðtrygging varpar allri áhættu af verðbólguskotum yfir á heimilin sem lántaka.

Í áliti minnihlutans koma fram fleiri ókosti verðtryggingar: Verðtrygging hvetji beinlínis til ofskuldsetningar heimila og auki þannig efnahagslegan óstöðugleika. Verðtrygging valdi værukærð gagnvart verðbólgu. Vísbendingar séu um að verðbólga hafi verið ofreiknuð. Bankakerfið hagnast á verðbólgu. Verðtrygging lána sé verðbólguvaldur.

Nefndin varð einhuga um að skaðsemi verðtryggingar sé það mikil að rökstyðja megi skert samningsfrelsi vegna lánssamninga verðtryggðra neytendalána. Ég er því sammála, hér er grein sem ég skrifaði um rök með og móti verðtryggingu.

Meirihlutinn leggur til afnám í skrefum

Tillaga meirihlutans er að frá og með 1. janúar 2015 verði bannað að veita verðtryggð jafngreiðslulán lengri en til 25 ára. Lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur úr 5 í 10 ár. Takmarkanir verði á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána og hvatar auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána. Eigi síðar en 2016 verði reynslan metin og mótuð áætlun um fullt afnám.

Minnihlutinn leggur til afnám í einu skrefi

Tillaga minnihlutans er að verðtrygging nýrra neytendalána verði óheimil frá og með 1. júlí 2014. Gripið verði til mótvægisaðgerða eftir því sem við á, þar á meðal: Skattívilnun til niðurgreiðslu á höfuðstól fyrstu ár lánstímans. Boðið verði upp á afborgunarlaus lán, þ.e. aðeins aðeins vextir greiddir fyrstu ár lánstímans. Nýta megi séreignasparnað til að lækka höfuðstól lána. Vaxtabótum verði beitt til að létta greiðslubyrði. Varnir settar gegn fákeppni og okri á bankamarkaði. Ríkið gefi út verðtryggð skuldabréf. Þak verði sett á verðtryggingu eldri lána. Endurskoða þurfi mælingu neysluvísitölu og leiðrétta hugsanlegan ofreikning hennar.

Helstu rök meirihlutans gegn afnámi í einu skrefi

Meirihlutinn telur að afnám verðtryggingar af neytendalánum í einu vetfangi hefði víðtæk áhrif.

  1. Greiðslubyrði óverðtryggðra lána er hærri en verðtryggðra í upphafi lánstíma, sem þýðir minna aðgengi að fjármagni, minni eftirspurn eftir húsnæði og lægra fasteignaverð. Einnig dragi úr einkaneyslu og þar með hagvexti. Greining Seðlabanka Íslands bendi til þess að afnám verðtryggingar geti haft mjög neikvæð áhrif á hagkerfið.
  2. Heimilin verði berskjölduð fyrir bröttu vaxtahækkunarferli þar sem ólíklegt sé að fastir vextir bjóðist til langs tíma.
  3. Staða Íbúðalánasjóðs myndi versna með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð.
  4. Þá sé óvissa um hvort lífeyrissjóðir muni halda áfram að fjármagna íbúðalán ef þau séu óverðtryggð.

Vegna ofantalinna áhrifa á hagkerfið, neytendur, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði, og með fjármálastöðugleika í huga telur meirihlutinn skynsamlegra að afnema verðtryggingu í áföngum.

Hversu vel halda þessi rök? 

Nefndin klofnaði í afstöðu sinni og því er eðliegt að menn skoði rökin og taki afstöðu til þeirra. Ólafur Margeirsson skrifaði pistil með gagnrýni á rök meirihlutans, Marinó G. Njálsson hefur talað fyrir afnámi strax hér og hér, og nú koma mínar hugleiðingar um efnið:

1) Aukin greiðslubyrði í upphafi lækkar fasteignaverð og dregur úr hagvexti

Það er vissulega rétt að greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum er meiri en af verðtryggðum fyrstu árin. En við því mætti bregðast með mótvægisaðgerðum: Bjóða mætti upp á lán sem væru án afborgunar af höfuðstól fyrstu árin, þ.e. eingöngu greiddir vextir. Aðlaga vaxtabætur þannig að þær væru hærri fyrstu árin og þær jafnvel greiddar út í takt við afborganir af lánum.

Meirihlutinn byggir niðurstöðu sína á greiningu Seðlabankans sem við nánari skoðun virðist ekki í samræmi við raunveruleikann. Seðlabankinn reiknar út að fasteignaverð geti lækkað um 14-20% verði verðtrygging bönnuð af nýjum lánum. Í skýrslu Analytica kemur fram að 75% nýrra húsnæðislána eru óverðtryggð og samt hefur fasteignaverð hækkað. Því virðist ósennilegt að fasteignaverð hrynji þótt öll ný úsnæðislán verði óverðtryggð. Það má reyndar vera að fasteignaverð myndi hækka eitthvað hægar en ella. En væri það svo slæmt? Það væru þá minni líkur á fasteignabólu sem er annars getur herjað á hagkerfi innan hafta.

Seðlabankinn varar við því að afnema verðtryggingu nýrra lána því það geti dregið úr einkaneyslu og hagvexti. Það er vissulega rétt, en telur Seðlabankinn æskilegt að einkaneysla í hagkerfinu sé fengin að láni? Væri ekki ábyrgara að hvetja til sparnaðar frekar en skuldsettrar neyslu?

2) Heimilin verða berskjölduð fyrir bröttu vaxtahækkunarferli

Heimilin eru nú þegar berskjölduð fyrir bröttu vaxtahækkunarferli þótt lánin séu verðtryggð. Vextirnir koma einfaldlega fram í formi verðbóta sem bætast við höfuðstólinn og bera síðan vaxtavexti út lánstímann. Skuldin hækkar og gengur þannig á eigið fé heimilisins án minnstu mótspyrnu. Verðtrygging deyfir vaxtaskyn lántakenda og lánastofnunum er veitt minna aðhald. Afleiðingin af þessum doða eru hærri vextir og á endanum meiri greiðslubyrði. Verði verðtrygging hinsvegar afnumin þá yrðu lánastofnanir sjálfar berskjaldaðar fyrir bröttu vaxtahækkunarferli og myndu deila áhættu af verðbólgu með heimilunum. Komi til verðbólguskots, munu lánastofnanir hika við að hækka vexti umfram greiðslugetu lántakenda. Það er betra fyrir þær að taka einhvern hluta af verðbólguskoti á sig og dreifa því á lengri tíma, fremur en að orsaka víðtæk vanskil hjá lántakendum.

Verði lán almennt óverðtryggð þá minnka líkur á snörpum vaxtahækkunum. Ástæðan er sú að stýrivextir Seðlabanka þyrftu ekki að hækka eins skart til að draga úr þenslu. Örlítil hækkun stýrivaxta myndi yfirleitt nægja til að slá á þenslu og vextir yrðu því almennt lægri en nú tíðkast.

3) Staða Íbúðalánasjóðs myndi versna

Fortíðarvandi Íbúðalánasjóðs er því miður orðinn hlutur sem þarf að horfast í augu við. Þeim fortíðarvanda verður vart sópað undir teppið með því að fresta afnámi verðtryggingar af nýjum lánum.

Vandi Íbúðalánasjóðs felst í því að hann getur ekki greitt upp útgefin verðtryggð eigin skuldabréf upp á 700 milljarða. Hann situr á lausu fé vegna þess að lántakendur hafa í talsverðum mæli greitt upp verðtryggð lán hjá sjóðnum. Þetta fé gæti sjóðurinn eflaust lánað út óverðtryggt til að draga úr tapinu. Þá myndi sjóðurinn reyndar sitja uppi með áhættu af misgengi á milli óverðtryggðra eigna og verðtryggðra skulda. Til að draga úr misvæginu gæti Íbúðalánasjóður gert vaxtaskiptasamning við ríkissjóð sem skuldar 700 milljörðum of mikið óverðtryggt. Einnig gæti Íbúðalánasjóður gert vaxtaskiptasamning við Landsbankann sem skuldar ríflega 200 milljörðum of mikið óverðtryggt.

4) Óvissa um að lífeyrissjóðir haldi áfram að fjármagna íbúðalán

Það er mjög erfitt að sjá fyrir sér að lífeyrissjóðir myndu ekki vilja lána til íbúðakaupa. Lán með veði í íbúðarhúsnæði eru traust fjárfesting til lengri tíma og hentar því lífeyrissjóðum einstaklega vel.

Fjármagnshöftin valda því að lífeyrissjóðir þurfa að fjárfesta ríflega 100 milljarða árlega hér á landi. Þótt fjármagnshöftin verði afnumin er ólíklegt að lífeyrissjóðir fengju ótakmarkað svigrúm til að fjárfesta erlendis næstu árin á eftir. Það ætti því að vera næg eftirspurn hjá lífeyrissjóðum eftir óverðtryggðum íbúðabréfum næstu árin.

Brýnt að afnema verðtygginu nýrra lána strax

Skýrslur bæði meiri- og minihluta nefndar um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum eru fróðleg lesning og bera vitni um mikla og vandaða vinnu. Ég er sammála því að verðtryggingin sé skaðleg og hana beri að afnema. Nefndin klofnaði í afstöðu til þess hversu hratt ætti að afnema verðtryggingu og því er eðlilegt að rökræðan muni snúast um það álitamál.

Að mínum dómi eru veigamikil rök fyrir því að afnema verðtryggingu nýrra lána strax. Því lengur sem verðtrygging er við lýði, því lengur búum við þau vandamál sem henni fylgja: háa stýrivexti, of mikla skuldsetningu heimila, heimilin bera ein áhættu af verðbólgu á meðan bankakerfið hefur hvata til að auka verðbólgu. Það þyrfti því mjög sterk rök til að fresta þeim umbótum sem afnám verðtryggingar er. Þau rök hafa að mínum dómi ekki enn komið fram.

 

Frosti Sigurjónsson

(Greinin birtist á www.frostis.is)

Categories
Greinar

Stríð og friður

Deila grein

28/01/2014

Stríð og friður

Eygló HarðardóttirNorræn ríki hafa í þúsund ár ýmist átt samstarf, herjað innbyrðis, gengið í bandalög eða hernumið hvert annað. Þann 14. janúar var haldið upp á að Norðurlöndin hafa ekki strítt sín á milli í 200 ár. Þennan dag árið 1814 undirrituðu Danir og Svíar sáttmála um frið í Kiel í Þýskalandi, í kjölfar ósigurs Dana í Napóleonsstríðunum. Danir létu Noreg í hendur Svía og Norðmenn lýstu yfir sjálfstæði en voru þó undir sænskum konungi til ársins 1905. Sáttmálinn markar því upphaf tímabils friðar, stöðugleika og aukinnar samvinnu Norðurlandanna.

Umfangsmikið norrænt vinasamstarf á sér nú stað. Norðurlandaráð, samstarfsvettvangur norrænu þjóðþinganna, var stofnað 1952 eftir seinni heimsstyrjöldina og Norræna ráðherraráðið, samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna, árið 1971. Bæði þessi ráð vaka yfir velferð norrænna íbúa.

Halló Norðurlönd
Eitt af verkefnum norrænar samvinnu er að auðvelda frjálsa för milli Norðurlandanna og fækka svo kölluðum landamærahindrunum. Um 40.000 Norðurlandabúar flytja árlega á milli landanna og svipaður fjöldi sækir vinnu daglega eða vikulega þvert á landamærin. Slík tengsl stuðla að friði. Norrænir samningar hafa reynst vel s.s. um sameiginlegan vinnumarkað, frjálsa för norrænna borgara innan svæðisins og samningurinn um æðri menntun sem er okkur Íslendingum ómetanlegur.

Samstarfsráðherrar Norðurlandanna skipuðu um nýliðin áramót nýtt Landamærahindranaráð sem í sitja fulltrúar allra landanna. Ráðið mun vinna að því að auðvelda för norrænna borgara yfir landamærin eins og hægt er. Upplýsingaþjónustan Halló Norðurlönd er mikilvæg í þessu sambandi, en til hennar geta allir leitað sem vilja kanna rétt sinn varðandi flutninga milli landa. Heimasíða íslensku skrifstofunnar er www.hallonordurlond.is og sími 511-1808.

Sterk og stór saman
Norðurlandabúar eru rúmlega 25 milljónir samtals og sameiginlegt hagkerfi þeirra er það 10. stærsta í heimi. Aukin norræn samvinna felur því í sér öflugan og jákvæðan slagkraft. Saman erum við sterk og stór. Með friði norrænna ríkja á milli og aukinni samvinnu þeirra á sem flestum sviðum ættu möguleikarnir á hagsæld og framförum að vera miklir. Það er því ábatasamt að auka norræna samvinnu. Samvinna er hagkvæm, sérlega við okkar nánustu vinaþjóðir.

 

Eygló Harðardóttir

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. janúar 2014.)