Categories
Greinar

Styrking landsbyggðar – sterkari höfuðborg?

Deila grein

08/07/2014

Styrking landsbyggðar – sterkari höfuðborg?

Þórunn EgilsdóttirByggðaþróun- og byggðamál hafa verið ofarlega í umræðunni undanfarin ár. Samþjöppun byggðar og tilflutningur á störfum hefur orðið til þess að minni samfélög út um landið standa frammi fyrir því að atvinnulíf verður einhæft og stoðirnar veikjast.

Árum saman hefur verið talað um að þessari þróun verði að snúa við, en hægt hefur gengið. Hið opinbera hefur til þess þrjár leiðir; efla starfsemi á þess vegum á viðkomandi stað, flytja verkefni eða stofnanir.

Menn hafa séð á bak opinberum störfum sem flutt hafa verið suður. Þetta hefur gerst án mikillar umræðu eða athygli. Samfélagið er að breytast, störf breytast og þróast. En svo öfugsnúið sem það nú er þá hefur eðlisbreyting og nútímavæðing starfa ekki orðið til þess að þau haldist frekar út um landið heldur hefur þeim fjölgað á höfuðborgarsvæðinu.

Með tilkomu netsins og nýrrar tækni hefur þjónusta breyst en mörg störf má allt eins vinna utan höfuðborgarsvæðisins eins og þar.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stendur: »Mikilvægt er að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa.«

Það þarf því ekki að koma á óvart þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar tilkynna ákvarðanir um flutning starfa líkt og gerðist í liðinni viku. Við getum haft allskonar skoðanir á því hvernig er að málum staðið og ekki skal vanmeta stöðu þeirra sem nú standa frammi fyrir breytingum á starfsumhverfi.

En við hljótum að geta verið sammála um það að til að byggja hér upp sterkt samfélag þurfa innviðirnir að vera sterkir um allt land. Sterk höfuðborg þarf styrka landsbyggð og við þurfum öll að vinna saman að því að nýta tækifæri framtíðarinnar með því að stuðla að jafnvægi byggðar. Við þurfum hvert á öðru að halda.

Starfshópi, sem skipaður hefur verið, eru ætlaðir 18 mánuðir til að vinna að undirbúningi og skipulagningu þessa verkefnis. Í honum sitja tveir starfsmenn ráðuneytisins og þrír starfsmenn Fiskistofu. Verkefnið felst ekki í því að flytja alla starfsemina. Stefnt er að því að tölvudeild Fiskistofu verði áfram rekin á höfuðborgarsvæðinu og reiknað er með að þar verði starfsstöð sem þjónar suðvestursvæðinu.

Það er von mín að starfsemi á öllum starfsstöðvum stofnunarinnar, þ.e. í Vestmannaeyjum, Stykkishólmi, á Akureyri, Ísafirði, Höfn og í Reykjavík farnist vel og þær komi enn sterkari út úr þessi ferli.

Að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar er áskorun og vil ég óska öllum þeim sem að því verkefni koma góðs gengis.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júlí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

COSTCO – Kostir og gallar

Deila grein

07/07/2014

COSTCO – Kostir og gallar

sigrunmagnusdottir-vefmyndFréttir berast um að bandaríska verslunarkeðjan COSTCO vilji hasla sér völl hér á landi. Vonandi verða þau tíðindi til þess að vitræn umræða skapist um matvörumarkaðinn á Íslandi, samkeppni, hreinleika vöru, gæði íslenskra afurða og fleira.

Lengi hafa ákveðin fyrirtæki á matvælamarkaði haft markaðsráðandi stöðu á Íslandi og ráða því miklu um vöruverð og vörugæði. Margoft hefur verið reynt að hafa áhrif á lyfjafyrirtæki til lækkunar lyfjaverðs – en lítið hefur áunnist. Þá hefur olíufélögunum verið legið á hálsi fyrir samráð og fákeppni. Ef umræða um hugsanlega komu COSTCO hingað til lands verður þess valdandi að við tökum til á þessum sviðum er það vel.

Hins vegar óttast undirrituð sjúkdómahættu af óheftum innflutningi á hráu kjöti frá löndum sem við vitum að meðhöndla dýr með allt öðrum hætti en gert er hér á landi. Vitað er að þau eru sumstaðar sprautuð með lyfjum til að auka afurðirnar, m.a. með hormónum. Dæmi um búfjársjúkdóma hræða.

Heilbrigði matvara
Langlífi okkar Íslendinga er talið ekki síst koma til af fæðu okkar og umhverfi, hreinleika og gæðum. Nýverið birtist það álit virtra erlendra sérfræðinga að við værum með einstakt heilsufæði fólgið í fiskinum, kjötinu og mjólkinni. Heilsufæði sem hefur áhrif á að við lifum lengur en flestar aðrar þjóðir.

Meðan ég var matvörukaupmaður og varaformaður Kaupmannasamtakanna lagðist ég eindregið gegn sölu áfengis í matvöruverslunum. Ég er enn sömu skoðunar. Þá velti ég vöngum yfir hvaða áhrif lausasölulyf í almennum hillum stórmarkaða myndu hafa.

Það er gott ef umræðan um komu verslunarrisans COSTCO til landsins verður til þess að við kryfjum til mergjar matvöru- og olíumarkaðinn, sem og áfengissölu í almennum matvöruverslunum. Sama gildir um lyfjamarkaðinn. Jafnframt er til bóta að hófstillt en opinská umræða fari fram um innflutning á hráu kjöti og hugsanlegar afleiðingar þess. Mikilvægast er að við mótum sjálf heildstæða verslunarstefnu byggða á reynslu okkar en með vitneskju 21. aldar í farteskinu, en látum ekki aðra stjórna för.

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. júlí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Til hagsbóta fyrir heimilin

Deila grein

01/07/2014

Til hagsbóta fyrir heimilin

Gunnar Bragi SveinssonÍ dag, 1. júlí, tekur gildi fríverslunarsamningur Íslands og Kína. Felur samningurinn í sér sóknarfæri fyrir Íslendinga og íslensk fyrirtæki.

Mikið hefur verið rætt um tækifæri til útflutnings vegna samningsins en hann mun ekki síður gagnast heimilunum. Á undanförnum misserum hefur t.d. netverslun frá Kína stóraukist og er nú meira flutt til Íslands frá vefsíðunni Aliexpress en Ebay. Með samningnum fellur niður 15 prósenta tollur af fatnaði og skótaui framleiddu í Kína, sem ætti að skila sér í lækkuðu vöruverði.

Samningurinn hefur þegar fært okkur forskot í atvinnusköpun en forsvarsmenn Silicor Material segja hann hafa verið eina helstu ástæða þess að Ísland varð fyrir valinu fyrir staðsetningu sólarkísilverksmiðju á Grundartanga.

Nú þegar starfa um 20 íslensk fyrirtæki í Kína og segja þau fjölda tækifæra fyrir okkur að miðla því sem við gerum best, t.d. íslenskum matvælum og þekkingu á nýtingu hreinnar orku.

Ekki dugar að gera einn samning. Framsóknin á vettvangi EFTA heldur áfram í fjölgun fríverslunarsamninga. Góð og traust viðskipti við sem flestar þjóðir þarf að tryggja enda felast í því hagsmunir Íslands. Það er stefna ríkisstjórnarinnar.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. júlí 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Jafnrétti tryggir konum og körlum meiri lífsgæði

Deila grein

19/06/2014

Jafnrétti tryggir konum og körlum meiri lífsgæði

Eygló HarðardóttirTil hamingju með kvenréttindadaginn, íslenskar konur og karlar. Þann 19. júní 1915 fengu konur 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi til jafns við karla. Jafn kosningaréttur og kjörgengi kynja var einn mikilvægasti áfangi lýðræðisþróunar á Norðurlöndum því í þeim felast þau grundvallarmannréttindi að geta haft áhrif og þau endurspegla sýn okkar á réttlætis- og jafnréttismál.

Á næsta ári fögnum við 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna og mikilvægt er að nýta þessi tímamót til að horfa um öxl og ígrunda hvernig þær miklu breytingar sem orðið hafa á sviði jafnréttismála hafa átt sér stað. Í raun er ótrúlega stutt síðan að það þótti sjálfsagt að konur nytu ekki sömu grunnréttinda og karlar. Jafnréttismálin eru ein birtingarmynd þeirra miklu framfara sem við Íslendingar höfum upplifað á skömmum tíma, framfara sem við sem þjóð vinnum að í sameiningu en getum einnig þakkað því að einstaklingar og hópar hafi haft þann kjark sem þurfti til að berjast fyrir samfélagi jafnréttis og lýðræðis. Saga íslensku kvennahreyfingarinnar er dæmi um slíka sögu. Hún er saga um samtakamátt kvenna og á sama tíma saga einstaklinga sem á sínum tíma unnu ótrúleg þrekvirki.

Um leið og við þökkum þeim sem ruddu brautina skulum við hafa hugfast að rótgróin viðhorf breytast seint og að enn eigum við mikið verk að vinna hvað varðar jafnrétti kvenna og karla.

Meira jafnrétti

Við ætlum okkur meiri framfarir á sviði jafnréttismála. Ekki eingöngu vegna þess að jafnrétti er grundvöllur lýðræðis og mannréttinda heldur einnig vegna þess að við eigum að fjárfesta í mannauði karla og kvenna sem best við getum.

Í síðustu viku sótti ég sameiginlegan stórfund norrænna kvennahreyfinga, Nordiskt Forum. Mörg þúsund manns sóttu fundinn en þetta var í þriðja skipti sem boðað er til allsherjarfundar kvenna og jafnréttissinna á Norðurlöndunum. Markmið Nordiskt Forum var að þessu sinni að greina áskoranir og möguleika Norðurlandaþjóðanna til að hrinda markmiðum Peking-áætlunarinnar frá 1995 í framkvæmd þannig að hægt verði að tryggja raunverulegt jafnrétti, þróun og frið í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna. Fundurinn bar vott um mikla grósku í málaflokknum og var vettvangur samræðna og skoðanaskipta stjórnmálanna og frjálsra félagasamtaka sem er forsenda framfara í málaflokknum. Ánægjulegt var að sjá að mun fleiri karlar tóku virkan þátt en dæmi eru um frá fyrri fundum.

Í dag mælist kynjajafnrétti hvergi meira en á Norðurlöndunum en erfið verkefni bíða úrlausnar stjórnmálanna. Helst ber að nefna kynbundið náms- og starfsval, launamun kynja, kynbundið ofbeldi og nauðsyn þess að virkja betur karla og drengi til þátttöku á sviði jafnréttismála. Uppræta þarf staðlaðar kynjaímyndir sem hafa áhrif á náms- og starfsval kvenna og karla og styrkja nýjan hugsunarhátt um karla og karlmennsku.

Á Nordiskt Forum vakti ég máls á að breytingar á íslensku fæðingarorlofslöggjöfinni hafa haft margvísleg áhrif á stöðu jafnréttismála á Íslandi. Rannsóknir Guðnýjar Eydal og Ingólfs V. Gíslasonar sýna að karlar taka virkari þátt í heimilisstörfum og umönnun ungra barna. Þá hafa lögin breytt samkeppnisstöðu ungra foreldra á vinnumarkaði en síðast en ekki síst hafa þau haft áhrif á hugsunarhátt okkar um karlmennsku. Í dag þykir það flott og eðlilegt að karlar hugsi um ung börn, það þykir töff að vera góður pabbi.

Ný framkvæmdaáætlun

Ég mun á komandi löggjafarþingi leggja fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára. Í henni mun í fyrsta skipti vera sérstakur kafli um karla og jafnrétti en þannig vil ég bregðast við tillögum starfshóps um karla og jafnrétti sem lauk störfum árið 2013. Tillögur hópsins fjalla um leiðir til að auka þátttöku karla í umræðu um jafnréttismál og að stefnumótun taki í auknum mæli mið af breyttu hlutverki karla og feðra í samfélaginu. Dæmi um málaflokka sem tillögurnar taka til eru karlar og umönnunarstörf; karlar, menntun og kynskiptur vinnumarkaður; karlar sem gerendur og þolendur í ofbeldismálum og klám og vændiskaup. Mikilvægt er að hafa jafnréttismál að leiðarljósi við alla stefnumótun og bæði kynin þurfa að koma að mótun málaflokksins. Í þessu starfi eru fæðingarorlofsmálin okkur hvatning, þau kenna okkur að líta ekki á jafnréttismálin sem einangrað fyrirbæri enda gott dæmi um hvernig opinber stefnumótun sem tekur tillit til kynjajafnréttis getur aukið lífsgæði okkar allra í samfélaginu.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. júní 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Af mörgu er að taka

Deila grein

18/06/2014

Af mörgu er að taka

Elsa-Lara-mynd01-vefurNú er um eitt ár frá því ég settist inn á þing sem þingmaður Framsóknarflokksins. Þetta fyrsta ár mitt á þingi, hefur liðið hratt og verið einstaklega viðburða – og lærdómsríkt. Í starfinu hef ég fengið að kynnast mörgu sem ég hefði líklega ekki fengið að kynnast, hefði ég ekki gefið kost á mér til þessara starfa. Í starfinu er tekist á við hin ýmsu verkefni og marg oft þarf að hoppa út fyrir þægindarammann við vinnslu verkefna, það hefur gert mér gott.

Skuldamálin komumst í gegn

Verkefnin sem ég tókst á við í þinginu s.l. vetur var m.a. að tala fyrir aðgerðum er varða skuldavanda íslenskra heimila með verðtryggð húsnæðismál. Afar ánægjulegt var að sjá þetta helsta mál framsóknarmanna komast í gegnum þingið og sjá þann fjölda sem nú þegar hefur sótt um leiðréttingu sinna mála. Það er augljóst að aðgerðin virðist skipta fólk miklu máli miðað við fjölda umsókna og því ber að fagna. Aldrei mun ég samt skilja hvers vegna stór hluti þingmanna stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn þessum aðgerðum.

Unnið er að úrbótum á leigumarkaði

Í vetur sat ég í Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Þar var m.a. unnið að úrbótum á leigumarkaði og komið fram með tillögur þess efnis. Þar má m.a. nefna lækkun skatta á leigutekjur með það að markmiði að fjölga íbúðum á leigumarkaði. Vitað er til þess að talsverður hluti húsnæðis er í svartri leigu til ferðamanna. Ef við náum að auka framboð þá eru nokkrar líkur á að leiguverð lækki. Jafnframt eru hugmyndir uppi um að taka upp stofnstyrkjakerfi í stað niðurgreiðslu vaxta við uppbyggingu leigufélaga. Samkvæmt útreikningum ætti það að geta lækkað leiguverð um allt að 20 %. Nú þegar er hafin vinna við að koma þessum tillögum, sem og öðrum frá Verkefnisstjórninni, í vinnslu og vonir standa til að þær verði orðnar að frumvörpum eigi síðar en í lok október á þessu ári.

Hvað er framundan?

Af mörgu er að taka, en það eru mörg mikilvægt verkefni sem bíða. Nú vinn ég að málum sem lögð verða fram þegar þing kemur saman í haust. Eitt þeirra er skrifleg fyrirspurn sem ég lagði reyndar fram á lokadögum vorþingsins en náði ekki fram að ganga. Fyrirspurnin fjallar um skráningu viðskiptasögu einstaklinga hjá fjármálastofnunum. En margir höfðu samband síðasta vetur og sögðu að erfitt væri að fá upplýsingar hver staða þeirra væri gagnvart fjármálastofnunum, eftir að hafa klárað greiðsluaðlögunarsamninga.

Að mínu mati er afar þarft að endurskoða neysluviðmið og hver þau þurfa að vera að lágmarki.Vinna þarf að nýjum útreikningum og hafa þar inn í allan húsnæðiskostnað. Það  er staðreynt að stór hluti af tekjum okkar fer í að borga af húsnæði, sama hvort um eign eða leiguhúsnæði er um að ræða. Mikilvægt er að allir hluteigandi aðilar vinni saman að þessu verkefni.

Auk þessa eru fjölda mörg verkefni sem vinna þarf að. Nýta þarf sumarið vel, vinna þingmál og byggja brýr. Láta vita hver ég er og ég sé í starfinu til að vinna fyrir alla þá sem hér búa. Það er mitt markmið í sumar.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 17. júní 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

 

Categories
Fréttir

Góður árangur í sveitarstjórnarkosningunum

Deila grein

05/06/2014

Góður árangur í sveitarstjórnarkosningunum

logo-xb-14Framsóknarmenn geta verið mjög ánægðir með úrslit sveitarstjórnarkosninganna. Framsóknarfólki um land allt eru þökkuð mikil og árangursrík störf á liðnum vikum.
Niðurstaðan er mikil aukning í fylgi og fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum af B-listum eða þar sem framsóknarfólk var í samstarfi við aðra. Það voru alls 56 sveitarstjórnarmenn kjörnir af B-listum. Með flesta sveitarstjórnarmenn er Sveitarfélagið Skagafjörður, fimm fulltrúa, í 9 manna sveitarstjórn. Rangárþing eystra og Sveitarfélagið Ölfus eru með fjóra fulltrúa í sjö manna sveitarstjórn.
Sveitarfélög sem bættu við sig fulltrúum eru, Reykjavík, Borgarbyggð, Húnaþing vestra, Skagafjörður, Dalvíkurbyggð, Akureyri, Fjarðabyggð, Hveragerði og Sandgerði.
B-listar með yfir 30% fylgi:
Sveitarfélagið Ölfus – 54,79%
Mýrdalshreppur – 53,72%
Rangárþing eystra – 46,41%
Skagafjörður – 45,42%
Dalvíkurbyggð – 44,90%
Húnaþing vestra – 40,84
Vopnafjörður – 38,7
Hornafjörður – 37,81
Seyðisfjörður – 32,55
Úrslit kosninganna á höfuðborgarsvæðinu:
Reykjavík
Seltjarnarnes
Kópavogur
Garðabær
Hafnarfjörður
Mosfellsbær
Úrslit kosninganna í Norðvesturkjördæmi:
Akranes
Borgarbyggð
Ísafjarðarbær
Húnaþing vestra
Sveitarfélagið Skagafjörður
Úrslit kosninganna í Norðausturkjördæmi:
Fjallabyggð
Dalvíkurbyggð
Akureyri
Norðurþing
Vopnafjarðarhreppur
Seyðisfjörður
Fjarðabyggð
Fljótsdalshérað

Úrslit kosninganna í Suðurkjördæmi:
Hornafjörður
Mýrdalshreppur
Rangárþing eystra
Árborg
Hveragerði
Sveitarfélagið Ölfus
Grindavík
Sandgerði
Reykjanesbær

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Rétt merktur kjörseðill B-lista

Deila grein

31/05/2014

Rétt merktur kjörseðill B-lista

Hér er rétt merktur kjörseðill Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík.
aaarettmerkturkjorsedill

Categories
Greinar

Tálsýnir og veruleikinn

Deila grein

28/05/2014

Tálsýnir og veruleikinn

Silja-Dogg-mynd01-vefUndirrituð hefur átt sæti í atvinnu-og hafnaráði Reykjanesbæjar sl. fjögur ár. Samstarfið í ráðinu hefur verið til fyrirmyndar. Fyrsta árið okkar fór í ná nauðasamningum við kröfuhafana því eins og flestir vita þá skuldar hafnarsjóður nú ríflega sjöþúsund milljónir króna. Stærstur hluti þeirrar upphæðar er tilkominn vegna framkvæmda við Helguvík, sumir segja ótímabærra en ég læt það liggja á milli hluta hvort svo hafi verið. Nú berast fregnir að því að kísilfyrirtækið United Silicon hyggist hefja lóðaframkvæmdir í Helguvík í dag; er allt að fara af stað? Vonandi.

Lóðaframkvæmdir og hvað svo?

Síðasti fundur hafnarráðs var haldinn í sl. viku. Við vorum sammála að margt hefði gerst á þessum fjórum árum í atvinnumálum, t.a.m. atvinnuuppbygging á Reykjanesi, stækkun Flugstöðvarinnar og gróskumikið starf á Ásbrú. En á hinn bóginn hefðu við öll viljað sjá atvinnulífið í Helguvík verða að veruleika á þessum tíma, en svo varð því miður ekki.

Nú berast fréttir af því að United Silicon, sem er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa fest sér lóð á svæðinu, ætli að hefja jarðvegsframkvæmdir í dag, 28. maí. Hafnarstjóri sendi starfsmönnum hafnarráðs þann 27. maí tölvupóst þar sem segir: „United Silicon hafa tilkynnt að þeir muni byrja að jarðvegsskipta inn á lóð sinni sem þeir keyptu 2012. ÍAV hf. munu trúlega byrja á morgun við framkvæmdirnar. Reykjaneshöfn mun ekki semja við ÍAV við holræsalagnir í Helguvík fyrr en greiðsla berst frá U.S. eins og við ræddum um á síðasta stjórnarfundi.“

Veruleikinn- Staðan er óbreytt

Ég verð að viðurkenna að ég veðraðist aðeins upp við þessar framkvæmdafréttir fjölmiðla. Það skyldi þó ekki vera að nú væru hlutirnir að fara að gerast, þremur dögum fyrir kosningar? Þegar betur er að gáð þá er staðan óbreytt í Helguvík. United Silicon á eftir að greiða Reykjaneshöfn 100 milljónir, sem er fyrsta afborgun. Greiðslan er ekki gjaldfallin en eigendur United Silicon munu ekki greiða þessa upphæð fyrr en raforkusamningur við Landvirkjun hefur verið fullgildur. Menn stefna á að það verði gert fyrir júnílok.

Látum verkin tala

Við vonum svo sannarlega öll að atvinnuuppbygging í Helguvík fari af stað sem fyrst. Enn sem komið er eru samningar ekki í höfn. Reynsla sl. 4 ára í atvinnu-og hafnaráði hefur kennt mér að viljayfirlýsingar og yfirlýsingar almennt hafa lítið gildi. Það borgar sig ekki að hlaupa upp til handa og fóta um leið og einhver segist vera með hugmynd eða hafa áhuga. Það sem skiptir raunverulega máli eru undirritaðir samningar og að menn greiði hafnarsjóði það sem þeim ber. Aðeins þá trúi ég að verkefnin verði að veruleika.

Spörum ótímabærar yfirlýsingar og látum verkin tala. X-B fyrir breytingar í Reykjanesbæ!

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir, fulltrúi Framsóknar í atvinnu-og hafnarráði og alþingismaður.

Categories
Fréttir

Áríðandi skilaboð frá ungum framsóknarmönnum

Deila grein

27/05/2014

Áríðandi skilaboð frá ungum framsóknarmönnum

logo-suf-forsidaHér að neðan má sjá áríðandi skilaboð frá ungum framsóknarmönnum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á laugardaginn. Það er mikilvægt að ungt fólk nýti atkvæðisrétt sinn og hefur Framsókn á að skipa ungum frambjóðendum um land allt sem eru tilbúnir að endurspegla hugmyndir og hugsjónir ungs fólks og koma þeim í framkvæmd.
 
ungir-siguroliSiguróli Magni Sigurðsson, 3. sæti á Akureyri
 
 
 
ungir-karenKaren H. Karlsdóttir Svendsen, 4. sæti í Árborg
 
 
 
ungir-johannaJóhanna María Kristinsdóttir, í 12. sæti í Reykjanesbæ
 
 
 
 
Á kjördag setjið þið X við B á kjörseðlinum.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Á aðeins einu ári

Deila grein

23/05/2014

Á aðeins einu ári

Sigmundur Davíð GunnlaugssonÍ dag er liðið eitt ár frá því að ný ríkisstjórn hóf sókn í þágu lands og þjóðar eins og kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu hennar. Leiðarljós ríkisstjórnarinnar er bættur hagar heimilanna í landinu og efling atvinnulífs með aukinni verðmætasköpun í almannaþágu. Á aðeins einu ári hafa orðið gríðarmiklar framfarir á fjölmörgum sviðum.

Hagþróun og atvinnumál
4.000 ný störf (heil ársverk) hafa orðið til frá því að ný ríkisstjórn tók við. Það eru að jafnaði 11 störf á dag eða 16 hvern virkan dag.

Hagvöxtur tók mikinn kipp síðastliðið haust. Hinn aukni hagvöxtur seinni hluta ársins var langt umfram spár og með því mesta sem þekkist meðal iðnvæddra þjóða. Þess er nú vænst að hagvöxtur aukist enn á þessu ári og því næsta.

Verðbólga er komin niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans í aðeins annað skipti í heilan áratug og í fyrsta skipti hefur verðbólga haldist undir viðmiðunarmörkum í nokkra mánuði í röð. Afleiðingin er aukinn kaupmáttur.

Kaupmáttur hefur aukist meira á tímabilinu en nokkru sinni frá árinu 2007. Ætla má að kaupmáttur, það hvað fólk getur keypt fyrir launin sín, aukist nú hraðar á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi.
Atvinnuleysi fer enn minnkandi og er nú í kringum 4% á sama tíma og meðaltals atvinnuleysi á evrusvæðinu er búið að ná nýjum hæðum í 12 prósentum.

Ferðamönnum fjölgaði um 34% fyrstu 4 mánuði ársins frá sama tímabili í fyrra. Ný ríkisstjórn ákvað að hverfa frá áformum síðustu ríkisstjórnar um að hækka skatta á ferðaþjónustu. Áformin voru talin ótímabær því þau myndu draga úr vexti greinarinnar og skerða tekjur þeirra sem selja ferðamönnum vörur og þjónustu og þar með tekjur ríkisins. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu eru orðnar meiri en af sjávarútvegi.

Fjárfesting hefur aukist, ekki hvað síst meðal smærri og meðalstórra fyrirtækja. Byggingariðnaðurinn sem gengið hefur í gegnum miklar þrengingar er að taka við sér. Samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins nema þekkt verkefni, bara á sviði hótelbygginga í Reykjavík á næstu þremur árum um 45 milljörðum króna.

Aukin velferð
Jöfnuður hefur aukist þrátt fyrir hraðan hagvöxt. Útlit er fyrir að Ísland haldi stöðu sinni sem það land Evrópu sem er með lægst hlutfall landsmanna undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun. Samkvæmt síðustu mælingu var hlutfallið 12,7% á Íslandi en meðaltalið í ESB var 25%. Hvað varðar jafna tekjudreifingu mælda með Gini-stuðlinum var Ísland komið í þriðja sæti árið 2013, einkum vegna hlutfallslegrar lækkunar hæstu launa en nú er útlit fyrir að við getum styrkt stöðu okkar með hækkun lægri og meðallauna.

Barnabætur hækkuðu úr 7,5 milljörðum í 10,2 milljarða króna milli ára. Það er þriðjungs aukning.
Tekjuskattur lækkaði um 5 milljarða, mest hjá millitekjufólki.

Framlög til velferðarmála hafa verið aukin til mikilla muna. Skerðingar á greiðslum til öryrkja og eldri borgara sem teknar voru upp árið 2009 voru afnumdar og framlög til almannatrygginga aukin um 9 milljarða eða 11%. Íslensk stjórnvöld hafa aldrei sett jafnmikið fjármagn til félagsmála og á árinu 2014.

Framlög til heilbrigðismála voru aukin um 6,8 milljarða að raunvirði og ráðist í brýnar úrbætur á húsa- og tækjakosti Landspítalans. Það var ekki gert með auknum lántökum heldur sparnaði annars staðar í ríkiskerfinu, einkum í ráðuneytum. Unnið er að undirbúningi uppbyggingar þjóðarsjúkrahúss og eflingu heilbrigðisþjónustu um allt land. Með verkefninu »Betri heilbrigðisþjónusta« er ætlunin að tryggja aðgang allra Íslendinga að heilsugæslulækni.

Endurskoðun menntakerfisins hefur þegar leitt til þess að hægt var að hækka laun kennara í grunn- og framhaldsskólum umtalsvert.

Þrátt fyrir þetta var hallalausum fjárlögum skilað í fyrsta skipti frá árinu 2007.

Nýsköpun, uppbygging og byggðamál
Ný byggðaáætlun mun jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla verður lögð á stuðning við svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

Veiðigjaldinu var breytt til að hlífa minni og meðalstórum fyrirtækjum. Ljóst var að ef fylgt hefði verið gjaldtökuaðferðum fyrri ríkisstjórnar hefði mikill fjöldi sjávarútvegsfyrirtækja um allt land komist í þrot og fótunum verið kippt undan byggð í mörgum. Um leið hefði aukin hagræðingarþörf valdið mikilli samþjöppun í greininni. Þrátt fyrir breytingarnar hefur sjávarútvegur aldrei skilað samfélaginu jafnmiklum tekjum og á síðasta ári og fjárfesting og vöruþróun hefur tekið við sér.

Unnið hefur verið að endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins með það að markmiði að hámarka tekjur samfélagsins af greininn um leið og rekstrarumhverfi er tryggt og grundvöllur sjávarbyggðanna er styrktur.

Áhersla ríkisstjórnarinnar á nýtingu tækifæra á norðurslóðum og gerð fríverslunarsamninga hefur þegar sannað gildi sitt. Eitt stærsta hafnafyrirtæki heims, Bremenports, hefur undirritað samning um rannsóknir í Finnafirði með það að markmiði að byggja þar nýja heimshöfn. Um allt norðanvert og austanvert landið er verið að undirbúa framkvæmdir til að nýta tækifæri komandi ára.

Ráðist hefur verið í endurskoðun regluverks með það að markmiði að einfalda líf fólks, nýsköpun í atvinnulífinu og rekstur fyrirtækja.

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar skilaði 111 tillögum um hvernig spara mætti í ríkiskerfinu. Nú er unnið eftir þeim og öðrum hagræðingaráformum ríkisstjórnarinnar í öllum ráðuneytum.

Samkeppnishæfni Íslands eykst nú hröðum skrefum. Í nýbirtri mælingu á samkeppnishæfni þjóða fór Ísland upp um 4 sæti.

Rannsóknar- og nýsköpunarstarf mun stóreflast með nýsamþykktri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og Vísinda- og tækniráðs. Þar er gert ráð fyrir verulegri aukningu ríkisframlags til nýsköpunar og rannsókna (aukning upp á allt að 2,8 milljarða) og innleiðingu hvata fyrir atvinnulífið sem skila muni tvöfaldri þeirri upphæð til viðbótar. Með því kemst Ísland í hóp þeirra fáu ríkja sem verja yfir 3% af landsframleiðslu til vísinda og nýsköpunar.

Heimilin
Fyrirheit ríkisstjórnarflokkanna um aðgerðir í skuldamálum heimilanna eru komin til framkvæmda. Búið er að ljúka öllum liðunum 10 í þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

Sérfræðihópur ríkisstjórnarinnar hefur skilað tillögum að því hvernig afnema megi verðtryggingu á nýjum neytendalánum og ríkisstjórnin hefur samþykkt að hrinda áætluninni í framkvæmd.

Skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar hefur verið hrint í framkvæmd. Með því er komið til móts við fólk með stökkbreytt verðtryggð fasteignalán eftir fimm ára bið. Á síðasta kjörtímabili stóð til að skattleggja heimilin til að greiða skuldir gjaldþrota einkabanka. Nú er heimilunum hjálpað að takast á við skuldir sínar og á sama tíma greiða slitabú hinna föllnu banka loks skatt eins og eðlilegt er.
Með skattleysi séreignarsparnaðar gefst fólki tækifæri til að greiða lán sín niður enn meira. Þegar aðgerðirnar koma saman má gera ráð fyrir að fólk geti fært niður lán sín sem nemur allri verðbólgu umfram 2-3% á árunum í kringum hrun.

Með tillögum að nýju húsnæðiskerfi er markmiðið að lækka húsnæðiskostnað heimilanna og auðvelda ungu fólki að eignast húsnæði. Sérstök áhersla er lögð á að bæta stöðu leigjenda og húsnæðissamvinnufélaga, með bættri réttarstöðu, auknu framboði leiguhúsnæðis, skattalegum hvötum, hagkvæmari fjármögnun og þar með lægri leigu auk nýrra húsnæðisbóta sem komi í stað vaxtabóta og taki mið af tekjum en ekki búsetuformi til að auka jafnræði.

Sumar
Það er ákaflega ánægjulegt að geta sagt frá öllum þessum breytingum sem hafa orðið til batnaðar á síðustu tólf mánuðum. Þess má svo geta að bætt vinnubrögð í þinginu urðu til þess að stjórnarmeirihlutanum tókst að afgreiða óvenjumörg mál á tilsettum tíma og aldrei hafa jafnmörg þingmannamál fengið afgreiðslu, þar á meðal mikill fjöldi stjórnarandstöðumála.

Við göngum því inn í sumarið ánægð með veturinn um leið og við búum okkur undir að gera enn betur á næsta ári og hlökkum til að fagna saman 70 ára afmæli lýðveldisins hinn 17. júní. Ég óska landsmönnum öllum góðs og heilladrjúgs sumars.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. maí 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.