Categories
Fréttir

Verðtryggingarnefnd klofnaði

Deila grein

29/01/2014

Verðtryggingarnefnd klofnaði

STOPPSérfræðingahópur um afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum, sem forsætisráðherra skipaði þann 16. ágúst 2013, hefur skilað skýrslu sinni. Í skýrslu hópsins er lagt til að frá og með 1. janúar 2015 verði tekin veigamikil skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána með því að:

  • óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára,
  • lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár,
  • takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána og
  • hvatar auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána.

Mikilvægt er að draga úr vægi verðtryggðra jafngreiðslulána. Slíkt mun styðja við fjármálastöðugleika til langs tíma, efla virkni stýrivaxta Seðlabankans og byggja undir jafnvægi í hagkerfinu. Greiðsluferill 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána veldur hættu á yfirveðsetningu á fyrri hluta lánstímans og eykur heildarvaxtakostnað yfir lánstímann þar sem verðbótum er velt yfir á höfuðstólinn. Þessi ókostur lánanna ágerist eftir því sem lánstíminn er lengri.
Helstu áhrif afnáms langra verðtryggðra jafngreiðslulána á neytendur eru hækkuð greiðslubyrði og erfiðara aðgengi að lánsfé fyrir tekjulága hópa. Því þarf að koma til móts við tekjulægri einstaklinga og fyrstu kaupendur með aðgerðum eins og betur skilgreindum vaxtabótum, skattaafslætti og úttekt séreignarlífeyrissparnaðar.
Verðtrygging hefur verið samofin íslensku efnahagslífi í 35 ár. Engar hömlur hafa verið settar á verðtryggingu frá árinu 1998 þrátt fyrir vilja og fyrirheit þar um. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru því fyrstu takmarkanir á notkun verðtryggingar í langan tíma.
Fullt afnám verðtryggingar nýrra neytendalána krefst hins vegar meiri tíma og yfirlegu. Án vandaðs undirbúnings gæti afnám ógnað fjármálastöðugleika og rýrt stöðu neytenda og lánveitenda. Forsendur fyrir því að unnt sé að afnema verðtryggingu að fullu eru einkum að takist hafi að leggja grunn að nýju húsnæðiskerfi, skýra stöðu Íbúðalánasjóðs og endurbæta lífeyrissjóðakerfið. Að þessu er nú þegar unnið á vegum stjórnvalda og mikilvægt að sú vinna gangi greiðlega.
Lagt er til að stjórnvöld hefji eigi síðar en á árinu 2016 vinnu við að meta reynslu af þessum stóru skrefum, sem hér eru lögð til, í átt að afnámi verðtryggingar og móti í framhaldinu áætlun um fullt afnám.
Forsætisráðherra skipaði sérfræðingahópinn 16. ágúst 2013. Í honum áttu sæti eftirfarandi:

  • Ingibjörg Ingvadóttir, hdl., formaður
  • Helga Hlín Hákonardóttir, hdl.
  • Iða Brá Benediktsdóttir, viðskiptafræðingur
  • Sigrún Ólafsdóttir, alþjóðaviðskiptafræðingur í forsætisráðuneytinu
  • Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu
  • Valdimar Ármann, hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur
  • Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness

Allir fulltrúar sérfræðingahópsins sameinast um þessar niðurstöður nema Vilhjálmur Birgisson sem skilaði sinni eigin skýrslu. Í skýrslu sinni leggur Vilhjálmur til að verðtrygging nýrra neytendalána verði óheimil frá og með 1. júlí 2014 og gripið verði samhliða til ýmissa mótvægisaðgerða. Þá leggur hann til að böndum verði komið á vexti og verðtryggingu eldri verðtryggðra lána, að rannsakað verði hver raunverulegur vísitölubjagi er við útreikning verðbólgu og að stjórnvöld láti gera óháða rannsókn á íslenska lífeyrissjóðakerfinu.

Sjá einnig:

Categories
Greinar

Stríð og friður

Deila grein

28/01/2014

Stríð og friður

Eygló HarðardóttirNorræn ríki hafa í þúsund ár ýmist átt samstarf, herjað innbyrðis, gengið í bandalög eða hernumið hvert annað. Þann 14. janúar var haldið upp á að Norðurlöndin hafa ekki strítt sín á milli í 200 ár. Þennan dag árið 1814 undirrituðu Danir og Svíar sáttmála um frið í Kiel í Þýskalandi, í kjölfar ósigurs Dana í Napóleonsstríðunum. Danir létu Noreg í hendur Svía og Norðmenn lýstu yfir sjálfstæði en voru þó undir sænskum konungi til ársins 1905. Sáttmálinn markar því upphaf tímabils friðar, stöðugleika og aukinnar samvinnu Norðurlandanna.

Umfangsmikið norrænt vinasamstarf á sér nú stað. Norðurlandaráð, samstarfsvettvangur norrænu þjóðþinganna, var stofnað 1952 eftir seinni heimsstyrjöldina og Norræna ráðherraráðið, samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna, árið 1971. Bæði þessi ráð vaka yfir velferð norrænna íbúa.

Halló Norðurlönd
Eitt af verkefnum norrænar samvinnu er að auðvelda frjálsa för milli Norðurlandanna og fækka svo kölluðum landamærahindrunum. Um 40.000 Norðurlandabúar flytja árlega á milli landanna og svipaður fjöldi sækir vinnu daglega eða vikulega þvert á landamærin. Slík tengsl stuðla að friði. Norrænir samningar hafa reynst vel s.s. um sameiginlegan vinnumarkað, frjálsa för norrænna borgara innan svæðisins og samningurinn um æðri menntun sem er okkur Íslendingum ómetanlegur.

Samstarfsráðherrar Norðurlandanna skipuðu um nýliðin áramót nýtt Landamærahindranaráð sem í sitja fulltrúar allra landanna. Ráðið mun vinna að því að auðvelda för norrænna borgara yfir landamærin eins og hægt er. Upplýsingaþjónustan Halló Norðurlönd er mikilvæg í þessu sambandi, en til hennar geta allir leitað sem vilja kanna rétt sinn varðandi flutninga milli landa. Heimasíða íslensku skrifstofunnar er www.hallonordurlond.is og sími 511-1808.

Sterk og stór saman
Norðurlandabúar eru rúmlega 25 milljónir samtals og sameiginlegt hagkerfi þeirra er það 10. stærsta í heimi. Aukin norræn samvinna felur því í sér öflugan og jákvæðan slagkraft. Saman erum við sterk og stór. Með friði norrænna ríkja á milli og aukinni samvinnu þeirra á sem flestum sviðum ættu möguleikarnir á hagsæld og framförum að vera miklir. Það er því ábatasamt að auka norræna samvinnu. Samvinna er hagkvæm, sérlega við okkar nánustu vinaþjóðir.

 

Eygló Harðardóttir

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. janúar 2014.)

Categories
Fréttir

Kjördæmavika Framsóknar – NORÐAUSTURKJÖRDÆMI

Deila grein

28/01/2014

Kjördæmavika Framsóknar – NORÐAUSTURKJÖRDÆMI

Frambjóðendur Norðaustur 2013Opnir fundir í kjördæmaviku Framsóknar. Þingflokkurinn mun þá verða á faraldsfæti og boðar til opinna funda til að ræða stöðu landsmálanna og einstök mál þar að lútandi. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Fundirnir verða á eftirtöldum stöðum:
Norðausturkjördæmi
Mánudagur 3. febrúar – Egilsstaðir, Austrasalurinn kl. 20:00
Þriðjudagur 4. febrúar – Norðfjörður, Egilsbúð kl. 12:00; Fáskrúðsfjörður, Björgunarsveitarhúsið kl. 20:00.
Miðvikudagur 5. febrúar – Vopnafjörður, Hótel Tangi kl. 12:00; Húsavík, Kiwanishúsið kl. 20:00.
Fimmtudagur 6. febrúar – Fjallabyggð, Allanum sportbar 2.hæð kl. 12:00; Dalvík, Gíslieiríkurhelgi-kaffihús kl. 17:00; Akureyri, salur RKÍ Viðjulundi 2 kl. 20:00.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Deila grein

26/01/2014

Sigmundur Davíð á Sprengisandi

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Framsóknar var viðmælandi í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hér að neðan má nálgast viðtal Sigurjóns M. Egilssonar við forsætisráðherra.
Sprengisandur (1): SDG og afnám verðtryggingar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir einfalt að afnema verðtryggingu, en samt verði að athuga vel hverjar afleiðingarnar verða. Hann segir ríkisstjórnina ekki hafa langan tíma til að vinna að málinu.
https://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP24033
Sprengisandur (2): Störukeppni í fullum gangi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að enn sé störukeppni milli Íslendinga og kröfuhafa bankanna. Hann segir einnig að breytingarnar á bankaskattinum hafi komið einna verst við MP banka.
https://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP24034

Categories
Greinar

„Bandamenn íslenskrar verslunar eru í sjónmáli“ – Hvar eru bandamenn neytenda?

Deila grein

25/01/2014

„Bandamenn íslenskrar verslunar eru í sjónmáli“ – Hvar eru bandamenn neytenda?

Þorsteinn SæmundssonÍ nýlegri grein í Fréttablaðinu lýsti formaður Samtaka verslunar- og þjónustu hamingju sinni yfir vilja ríkisstjórnarinnar til að einfalda VSK-kerfið og endurskoða álagningu vörugjalda á innfluttan varning. Ekkert kemur fram í greininni um fyrirætlanir verslunarrekenda sjálfra til að bæta rekstur og lækka vöruverð.

Hvað segir skýrsla McKinsey?
Formaður SVÞ ber sig illa undan svokölluðum alhæfingum um óhagkvæmni verslunarrekstrar á Íslandi. En staðreyndir tala sínu máli. Í skýrslu alþjóðlega fyrirtækisins McKinsey kemur fram að ofmönnun í verslun á Íslandi nemi um 1.700 manns, sem betur væru komnir við vinnu í virðisaukandi greinum. Einnig kemur fram í skýrslunni að á Íslandi er 4,1 fermetri í verslunarhúsnæði á hvern íbúa, en til samanburðar um 1,6 fermetrar á hvern íbúa í Danmörku. Að auki kemur fram að meðalverslunareining á Íslandi er um 549 fermetrar að stærð en í Danmörku um 358 fermetrar. Svipaður munur er uppi á teningnum ef tekin eru til samanburðar önnur norræn lönd og Bretland.

Formaður SVÞ afgreiðir þessa staðreynd með því að höfðatölusamanburður geri okkur Íslendinga til skiptis að hetjum og skúrkum. Ég vona að þessi skýring formannsins sé misheppnuð tilraun til spaugs því offjárfesting og ofmönnun í verslun er ekkert grín heldur ein af höfuðástæðum hás vöruverðs á Íslandi.

Formaðurinn fullyrðir einnig að tækifæri sé fyrir nýja aðila að hasla sér völl á markaði. Mér þætti forvitnilegt að sjá nýja aðila koma inn á matvörumarkaðinn við núverandi aðstæður. Á þeim markaði er að finna aðra af meginástæðum fyrir okrinu, fákeppnina. Fákeppni sem m.a. kom í veg fyrir að veruleg styrking íslensku krónunnar á síðasta ári skilaði sér í lækkuðu verði á innfluttum vörum. Staðreyndin er sú að innfluttar vörur hækkuðu í verði þrátt fyrir styrkinguna.

Enn önnur ástæða fyrir háu vöruverði er óhóflegur afgreiðslutími sem verslunarmenn segja til kominn vegna eftirspurnar eftir slíkri þjónustu, en vandséð er hver þörf er fyrir sólarhringsafgreiðslutíma í 10–20 verslunum á höfuðborgarsvæðinu einu eins og nú er. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um beinan kostnað verslunarinnar af þessum afgreiðslutíma og hvað sá kostnaður vegur í vöruverði.

Breyttar áherslur – fjarri því
Lokaorð formanns SVÞ vekja ekki von um breyttar áherslur. Þar er henni efst í huga bætt staða verslunarinnar að lækkuðum opinberum gjöldum. Það hlýtur því að koma til álita að grípa til einhvers konar aðgerða til að tryggja að lækkanir vegna fyrirhugaðra breytinga á opinberum gjöldum verði ekki eftir í vasa kaupmanna heldur skili sér varanlega til neytenda.

 

ÞORSTEINN SÆMUNDSSON 

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. janúar 2014.)

Categories
Fréttir

Kjördæmavika Framsóknar – SUÐURKJÖRDÆMI

Deila grein

24/01/2014

Kjördæmavika Framsóknar – SUÐURKJÖRDÆMI

Frambjóðendur Suður 2013Opnir fundir í kjördæmaviku Framsóknar. Þingflokkurinn mun þá verða á faraldsfæti og boðar til opinna funda til að ræða stöðu landsmálanna og einstök mál þar að lútandi. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Fundirnir verða á eftirtöldum stöðum:
Suðurkjördæmi
Mánudagur 3. febrúar – Reykjanesbæ, Framsóknarhúsinu Hafnargötu 62 kl. 20:00.
Þriðjudagur 4. febrúar – Vestmannaeyjar, Kaffi Kró kl. 20:00.
Miðvikudagur 5. febrúar – Hornafjörður, kl. 12:00 (súpa); Kirkjubæjarklaustur, Icelandair Hótel Klaustur kl. 17:30; Vík, Hótel Vík kl. 20:30.
Fimmtudagur 6. febrúar – Hvolsvöllur, Hlíðarendi kl. 12:00 (súpa); Selfoss, Hótel Selfoss kl. 20:30.

Categories
Greinar

Jafnrétti er ekki annað hvort eða …

Deila grein

23/01/2014

Jafnrétti er ekki annað hvort eða …

Anna-Kolbrun-ArnadottirJafnrétti á sér margar hliðar. Segja má að jafnrétti snúi að mannréttindum og undanfarin misseri hefur umræða um aukinn hlut kvenna bæði í stjórnmálum og atvinnulífinu almennt verið áberandi. Ákveðið hefur verið að fara í aðgerðir til þess að auka hlut kvenna á þessum sviðum. Einnig hefur verið lögð áhersla á að fjölmiðlar hugi að því að velja viðmælendur af báðum kynjum, það hallar mjög á konur. Þessi tegund jafnréttis fjallar um kynjajafnrétti og ábendingarnar og fyrirhugaðar aðgerðir eru þarfar og vissulega er kominn tími til að bæta úr.

En eins og áður sagði þá á jafnrétti sér margar hliðar og hefur Eygló Harðardóttir ráðherra félagsmála beitt sér markvisst að því að benda á að svo sé. Nýverið fóru fram Vetrarhæfileikarnir í Borgarleikhúsinu með þátttöku hæfileikafólks úr röðum fatlaðra og ófatlaðra einstaklinga og var það réttindavakt Velferðarráðuneytisins sem stóð að leikunum í samstarfi við Geðhjálp, Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp. Markmið leikanna var að auka vitund almennings um styrkleika fatlaðs fólks, sem sagt að vekja athygli á fjölbreytileika mannlífsins. Jafnrétti snýst um jafnan rétt allra til þátttöku í samfélaginu.

Ráðherra hefur einnig réttilega bent á að nútíma fjölskyldan sé margbreytileg, ekki sé gefið að hún sé mamma, pabbi börn og bíll heldur eru fjölskyldur í dag margbreytilegar, þær eru af öllum stærðum og gerðum. Tímarnir breytast og samfélagsgerðin einnig og þess vegna var ánægjulegt að heyra í umræðum á Alþingi að Haraldur Einarsson okkar þingmaður gerði það að umtalsefni að endurskoða þyrfti barnalög frá árinu 2003 og þá sérstaklega það ákvæði sem segir að ef foreldrar barns séu hvorki í hjúskap eða í skráðri sambúð við fæðingu þess þá sé það móður að fara með forsjá barnsins. Það er rétt hjá Haraldi, þessu þarf að breyta, það á að ganga á út frá sameiginlegri forsjá barns, það er réttur barnsins. Jafnrétti snýst um að barn eigi rétt á umgegni við báða foreldra sína.

Jafnrétti á sér margar hliðar, það er ekki annað hvort eða.

Anna Kolbrún Árnadóttir, jafnréttisfulltrúi Framsóknar

Categories
Greinar

Sex konur í forystu í stórum sveitarfélögum árið 1990 fyrir Framsóknarflokkinn

Deila grein

21/01/2014

Sex konur í forystu í stórum sveitarfélögum árið 1990 fyrir Framsóknarflokkinn

Sigrún MagnúsdóttirÁ ljúfum janúardegi söfnuðust konur úr öllum flokkum saman í Iðnó til að hvetja kynsystur sínar til forystu á listum við komandi sveitarstjórnakosningar. Undirritaðri leið allt í einu undarlega og yfir mig kom óraunveruleikatilfinning. Hvers vegna þurfa stjórnmálaflokkar árið 2014 að fjalla um jafn sjálfsagðan hlut, sem er að konur komi jafn og karlar til greina í efsta sætið á framboðslistum í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Fyrir rúmum 30 árum stofnuðum við Landssamband framsóknarkenna til að örva konur um allt land til þátttöku í stjórnmálum og þar með mótum samfélagsins. Sem betur völdust gvalvaskar baráttukonur til að leiða samtökin og brugðust við verkefninu með áhrifamiklum hætti.

Málvík

Framsóknarkonurnar settu upp ímyndað sveitarfélag: Málvík. Þær fóru með Málvíkur-hugmyndina um landið og konur léku hlutverkin í stjórn sveitarfélagsins Málvíkur. Þær fluttu ræður á fundum, bjuggu til atvinnutækifæri og byggðu leikskóla auk margs annars. Þær fóru í rökræður sín á milli um brýnustu verkefnin o.s.frv.

Árangurinn varð í raun stórkostlegur. Valgerður Sverrisdóttir komst á þing árið 1987 og í næstu sveitarstjórnarkosningu voru framsóknarkonur í efstu sætum lista flokksins um allt land. Í stóru sveitarfélögunum Akureyri og Reykjavík trónuðu þær, sem og á Dalvík og Keflavík, Húsavík og Akranesi, á toppnum.

Hvers vegna höfum við ekki áfram gengið götuna til góðs…? Af hverju hefur þessari þróun hnignað fremur en vera í framför innan okkar raða? Við sem vorum svo stoltar þegar í fyrsta sinn í sögu landsins var jafnt hlutfall kvenna og karla í forystusætum til Alþingis í kjördæmum landsins 3 konur og 3 karlar. Enda fór svo að við komumst í ríkisstjórn og hlutfallið milli karla og kvenna þar hjá Framsóknarflokknum var jafnt þrjár konur og þrír karlar.

Gríðarlega margt hefur áunnist á Islandi í jafnréttismálum almennt og erum við á erlendri grundu skoðuð með sérstakri athygli hvað þennan árangur varðar. En… því miður finnst mér að þátttaka kvenna í almennum störfum flokksins og fundum fari aftur og það speglast líka í áhugaleysi við að bjóða sig fram til áhrifa á listum flokksins.

Sjónarhorn kvenna …

Kæru flokkssystur! Við þurfum á ykkur að halda. Samfélagið þarfnast ykkar og ég tala ekki um sveitarfélagið ykkar. Sjónarhorn kvenna verður að vera með í ákvarðanatökum sem varða okkur öll. Sveitarfélög voru skilgreind í upphafi vega – til að ákv. öryggisnet yrði virkt gagnvart íbúum sem minna mega sín. Það var stórt mál árið 1936 þegar almannatryggingarkerfið var sett á. Það er grunnurinn sem við byggjum til hjálpar fólki á öllum aldri sem lenda í lífsins ólgusjó eins og að missa heilsuna. Þetta öryggisnet erum við stöðugt að reyna að bæta og staga í eftir bestu vitund á hverjum tíma. Möskvar geta trosnað eða slitnað og þá þarf að reyna að stoppa upp í slík göt.

Það er nákvæmlega það sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur verið að gera síðan hún tók við. Fjárlögin sem samþykkt voru laugardaginn 21. des. á vetrarsólstöðum voru mögnuð. Stórkostleg vegna þess hvað þau innihalda og ótrúlegt hvað var unnt að gera í mjög þröngri stöðu. Almannatryggingakerfið var aukið um heila 8 milljarða mkr. og heilbrigðiskerfið um 4 milljarða, svo dæmi séu tekin.

Framsóknarkonur! ég bið ykkur að sýna djörfung og dug og sækja fram um land allt. Reynsla af sveitarstjórnarmálum er einn besti skóli sem völ er á og nýtist alla ævi í öllum störfum.

 

Sigrún Magnúsdóttir

Categories
Fréttir

Hreyft við málum að nýju

Deila grein

21/01/2014

Hreyft við málum að nýju

Fimm þingmenn Framsóknar tóku til máls undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag og má sjá áherslur þeirra í hér að neðan.
Í morgun var greint frá því í fréttum að nokkrar fjölskyldur búi nú í hesthúsum í Almannadal og er þar um að ræða ný hesthús og hverfið er staðsett fyrir ofan Reykjavík. Í fréttinni kemur einnig fram að Félag hesthúsaeigenda í Almannadal hafi sótt um það hjá skipulagsyfirvöldum í Reykjavík að einstaklingar fái að skrá lögheimili á efri hæðum hesthúsanna. – Elsa Lára Arnardóttir

Mig langar hér að vekja athygli á stórkostlegu íþróttaafreki sem Aníta Hinriksdóttir vann á sunnudaginn sem hefur kannski farið fram hjá fólki vegna handboltans. Aníta setti glæsilegt Íslandsmet í sínum aldursflokki í 800 metra hlaupi. – Sigrún Magnúsdóttir

Nú háttar svo til að fyrir dyrum er í störfum okkar að vinna úr margvíslegum málum sem snúa að húsnæðismarkaði, fjármögnun og framtíðarskipan húsnæðismála á Íslandi. Frumvörp um skuldaleiðréttingu munu koma til okkar kasta innan skamms. – Willum Þór Þórsson

Ársalgengi lyndis- og kvíðaraskana á Íslandi er áætlað um 10%. Eina einstaklingsmiðaða meðferðarúrræðið sem stendur til boða í heilsugæslunni er lyfjameðferð þrátt fyrir að árangur hennar sé misjafn og þrátt fyrir þá staðreynd að hagræn atferlismeðferð sé tilgreind sem forgangsmeðferð við lyndis- og kvíðaröskunum. – Þorsteinn Sæmundsson

Því miður er staðan þannig árið 2014 að þjóðin er enn að glíma við launamun kynjanna. Það hallar á annað kynið í stjórnunarstöðum og réttindi karla og kvenna eru ekki þau sömu þó að reynt sé með lagasetningu að jafna hana. En lagasetningunni er á mörgum jafnréttissviðum ábótavant. – Haraldur Einarsson

Categories
Fréttir

Kjördæmavika Framsóknar – NORÐVESTURKJÖRDÆMI

Deila grein

21/01/2014

Kjördæmavika Framsóknar – NORÐVESTURKJÖRDÆMI

Frambjóðendur Norðvestur 2013Opnir fundir í kjördæmaviku Framsóknar. Kjördæmavikan hefst 1. febrúar og stendur fram til 8. febrúar. Þingflokkurinn mun þá verða á faraldsfæti og boðar til opinna funda til að ræða stöðu landsmálanna og einstök mál þar að lútandi. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Fundirnir verða á eftirtöldum stöðum:

Norðvesturkjördæmi

Laugardagur 1. febrúar – Skagaströnd – Kaffi Bjarmanes kl. 12:00 (súpa)
Sunnudagur 2. febrúar – Sauðárkrókur, Kaffi Krókur kl. 20:30.
Mánudagur 3. febrúar – Blönduós, Potturinn-Eyvindarstofa kl. 12:00 (súpa) ; Hvammstangi, Hlaðan kaffihús kl. 17:00; Hólmavík, Cafe Riis kl. 20:30.
Þriðjudagur 4. febrúar – Þingeyri, Sláturhúsið Hafnarstræti 18 kl. 12:00; Ísafjörður, Framsóknarhúsið, Pollgötu 4 kl. 20:00.
Miðvikudagur 5. febrúar – Patreksfjörður, Félagsheimilið kl. 20:00.
Fimmtudagur 6. febrúar – Búðardalur, Glerskálinn Samkaupum kl. 12:00 (súpa); Stykkishólmur, veitingastaðurinn Plássið kl. 17:30; Ólafsvík, Hótel Hellissandi kl. 20:30.
Föstudagur 7. febrúar – Mýrar, Breiðablik kl. 12:00; Borgarnes, Félagsbær kl. 20:00.
Laugardagur 8. febrúar – Akranes, Framsóknarhúsið, Sunnubraut kl. 10:00.