Categories
Fréttir

„Við erum á réttri leið“

Deila grein

20/11/2024

„Við erum á réttri leið“

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 8,5%.

„Við erum á réttri leið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.

  1. Við erum með ábyrga og trausta efnahagsstefnu;
  2. Við erum með langtímakjarasamninga sem stuðla að stöðugleika, svo aðilar vinnumarkaðarins hafa staðið sína plikt;
  3. Við erum að sjá verðbólguvæntingar lækka og þær hafa ekki verið lægri síðan í byrjun árs.

„Svo það er alveg kýrskýrt að við erum að ná tökum á verðbólgunni og það án þess að nein teikn séu á lofti um kollsteypu í efnahagslífinu. Þvert á móti virðumst við vera að ná að lenda hagkerfinu mjúklega. Það er risamál.“

Peningastefnunefnd lækkaði vexti um 50 punkta í dag og var búin að lækka í október um 25 punkta. Vextir hafa þannig…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Miðvikudagur, 20. nóvember 2024

„Það sem við höfum líka sagt er að þrátt fyrir að þetta sé orðið langt tímabil þá þurfum við að sýna þolinmæði. Það er hálf óþolandi, ekki síst þegar stutt er í kosningar, en það er ábyrga leiðin til að ná niður verðbólgu en á sama tíma lenda hagkerfinu mjúklega.

Það munar strax um þessar vaxtalækkanir. Greiðslubyrði 30 m.kr. láns lækkar um 190 þúsund krónur á ári við aðeins þær vaxtalækkanir sem þegar hafa orðið.

Þetta snýst líka um fyrirtækin, ekki síst þau sem eru í alþjóðlegri samkeppni, að þau búi við samkeppnishæft umhverfi til að vaxa og dafna og stuðla að bættum lífskjörum fólks í landinu.

Við erum í dauðafæri á að halda áfram á þessari braut. Það eru öll teikn á lofti um að vextir geti lækkað áfram. En það gerist ekki af sjálfu sér. Það krefst þess að við höldum áfram rétt á spilunum og tryggjum ábyrga, yfirvegaða og trausta hagstjórn,“ segir Sigurður Ingi.

***

Yfirlýsing peningastefnunefndar 20. nóvember 2024

Peningastefnunefnd
Peningastefnunefnd

„Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 8,5%.

Verðbólga hefur hjaðnað undanfarið og mældist 5,1% í október. Hjöðnun verðbólgu er á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað. Þá hafa verðbólguvæntingar almennt lækkað og raunvextir því hækkað.

Áhrifa þétts peningalegs taumhalds gætir áfram í efnahagsumsvifum og hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar. Atvinnuleysi heldur áfram að þokast upp og horfur eru á að það dragi úr spennu í þjóðarbúinu þótt það gerist hægar en áður var talið.

Þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar yfir markmiði kalla þó á varkárni. Áfram þarf því að viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.

Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“

Categories
Greinar

Um­hverfis­mál: „Hvað get ég gert?“

Deila grein

19/11/2024

Um­hverfis­mál: „Hvað get ég gert?“

Síðustu ár hefur almenningur sem betur fer glaðvaknað til umhverfismeðvitundar. Fjöldi fólks hefur spurt sjálft sig „Hvað get ég gert?” og gripið til aðgerða í stað þess að bíða eftir því að aðrir geri eitthvað.

Átta þúsund plokkarar

Fyrir um átta árum skall þannig á landinu bylgja þar sem einstaklingum sem blöskraði rusl á víðavangi um allt, land klæddi sig í útivistargallann, greip með sér plastpoka í göngutúra og byrjaði að tína upp þetta rusl. Eins og hendi væri veifað fæddist með þessum hætti átta þúsund manna hreyfing sem stundar það að plokka og á sér heimili á samfélagsmiðlum: Plokk á Íslandi.

Heillaspor fyrir umhverfið

Það stórsér á umhverfi flestra sveitarfélaga landsins eftir aðfarir þessa einstaklinga og allt í einu þykir það ekki lengur skrýtið að tína upp rusl eftir aðra. Nú þykir það hvunndagshetjulund og hvunndagshetjurnar fá klapp á bakið og like á myndirnar og smita þannig enn fleiri. Einstaklingarnir eru sannarlega misjafnlega stórtækir, en allt er þetta mikið gagn og til heilla náttúrunni og umhverfinu okkar.

Spornað gegn matarsóun

Á svipuðum tíma hefur orðið til samfélag fólks sem vill sporna við matarsóun og þar eru tólf þúsund manns að verki: Vakandi. Sú hreyfing hefur heldur betur náð árangri og matarsóun er hér fyrir vikið á miklu undanhaldi. Allar stóru smásölukeðjurnar – Bónus, Hagkaup, Krónan og Nettó – bjóða okkur nú að kaupa matvöru á afslætti sem á stutt eftir í síðasta söludag eða er nú þegar komin þangað. Síðan fara margar verslanir með mat til mannúðarsamtaka og keyra jafnvel mat í frískápa sem komið hefur verið upp víða um land.

Sparnaður til gagns

Sífellt fleiri nýta sér afsláttarhillur stórmarkaðaog frískápa, hvort heldur efnaminni einstaklingar og ungt fólk eða bara almenningur sem blöskrar upphæðirnar sem renna í matarkörfuna. Verslanakeðjan Samkaup, eigandi Nettó og fleiri verslana, áætlar að með þessum hætti hafi matvöru fyrir um 100 milljónir króna verið komið til gagns á þessu ári, sem er um fjórðungi meira en í fyrra, auk þess sem talsverðar fjárhæðir sparast við förgun.

Ábatinn er allra

Ábatinn af ofangreindum verkefnum er allra – jafnt umhverfis sem almennings og atvinnulífs. Þátttaka í plokki og spornum við matarsóun er líka einstaklingsframtak í sinni fallegustu mynd. Það má búa til enn fleiri hvata fyrir öll sem að þessum virðiskeðjum koma til að efla enn frekar virkni og árangur. Ég er með nokkra hvata í huga og það væri gaman að fá fleiri góðar hugmyndir frá áhugasömu fólki (einar@medbyr.is). Það ernefnilega hægt að gera svo miklu meira í umhverfismálum en að fljúga með þotu á næstu umhverfisráðstefnu…

Einar Bárðarson, skipar 2. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Mikil­vægi samfélagslöggæslu

Deila grein

19/11/2024

Mikil­vægi samfélagslöggæslu

Hvernig tryggjum við öruggt samfélag þar sem börn og ungmenni geta vaxið og dafnað? Lykillinn liggur í trausti, samstarfi og fyrirbyggjandi aðgerðum. Samfélagslöggæsla er ein áhrifaríkasta leiðin til að ná þessum mikilvægu markmiðum.

Hvað er samfélagslöggæsla?

Samfélagslöggæsla er nálgun í löggæslu sem leggur áherslu á að efla tengsl og traust milli lögreglu og samfélags. Hún snýst um að vera nálægt fólkinu, hlusta á þarfir þess og vinna í sameiningu að lausnum.

Lögreglumenn í samfélagslöggæslu eru sýnileg og aðgengileg í daglegu lífi, til dæmis með heimsóknum í skóla og félagsmiðstöðvar. Þar fræða þau börn og ungmenni um samþykki, afbrotavarnir og hvernig samfélagið getur sameinast gegn ofbeldi. Þannig er byggt upp traust sem er lykilforsenda öryggis.

Af hverju er samfélagslöggæsla nauðsynleg núna?

Samfélagið stendur frammi fyrir áskorunum, sérstaklega varðandi ofbeldi meðal barna og ungmenna. Á síðustu misserum hafa komið upp tilvik sem varpa ljósi á nauðsyn þess að bregðast við með afgerandi hætti og fjárfesta í forvörnum. Auk þess hefur stafræn tækni opnað fyrir nýjar tegundir ofbeldis, svo sem stafrænt einelti og óábyrga miðlun myndefnis.

Samfélagslöggæsla er lykilþáttur í því að bregðast við þessum áskorunum. Hún vinnur í samstarfi við samfélagið, skóla, frístundir og félagsþjónustu að því að fyrirbyggja ofbeldi, styðja við börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu og skapa umhverfi þar sem þau geta blómstrað.

Hvað er verið að gera til að efla samfélagslöggæslu?

Í júní síðastliðnum kynnti Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ásamt dómsmálaráðherra, aðgerðaáætlun með 14 markvissum aðgerðum gegn ofbeldi meðal barna og ungmenna. Ein þeirra er að efla samfélagslöggæslu um land allt, með sérstakri áherslu á höfuðborgarsvæðið.

Til að styðja við þessar aðgerðir hefur ríkisstjórnin tryggt umfangsmikið fjármagn í fjárlögum fyrir árið 2024. Alls verður 598 milljónum króna varið til samfélagslöggæslu og aðgerða gegn ofbeldi ungmenna. Af þessari upphæð renna 324 milljónir króna beint til eflingar samfélagslöggæslu, sem bætist við 120 milljónir króna sem þegar voru samþykktar í fjáraukalögum.

Öruggara samfélag

Sterk samfélagslöggæsla hefur víðtæk áhrif á líf okkar allra. Hún eykur öryggi barna og ungmenna, byggir upp traust milli lögreglu og samfélags og dregur úr ofbeldi. Með fyrirbyggjandi aðgerðum eins og fræðslu og samvinnu styrkir hún grunnstoðir samfélagsins og gerir það heilbrigðara og samheldnara.

Ofbeldi meðal barna og ungmenna er samfélagslegt mein sem við getum ekki sætt okkur við. Með því að styðja samfélagslöggæslu leggjum við grunn að öruggara og réttlátara samfélagi. Við í Framsókn trúum á kraftinn í samvinnu og ábyrgð. Þess vegna leggjum við áherslu á að tryggja bæði fjármögnun og framkvæmd þessara mikilvægu aðgerða.

Samfélagslöggæsla er ekki bara stefna — hún er leið til að skapa samfélag þar sem allir geta notið öryggis og virðingar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður og frambjóðandi Framsóknar í Reykjavík Norður.

Greinin birist fyrst á visir.is 18. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Lítið að frétta í lífi án frétta á landsbyggðunum

Deila grein

19/11/2024

Lítið að frétta í lífi án frétta á landsbyggðunum

Af þeim 27 fjölmiðlum sem hlutu rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla 2024 voru 13 staðbundnir fjölmiðlar og af þeim 10 staðsettir utan höfuðborgarsvæðisins. Hver og einn af þessum staðbundnu miðlum þjónar gríðarlega mikilvægu hlutverki í sinni heimabyggð og styrkveitingin því sannarlega fagnaðarefni.

Landsbyggðamiðlar sem fengu styrk: Akureyri.net, Austurfrétt/Austurglugginn, Bæjarblaðið Jökull, DB blaðið, Eyjafréttir, Feykir, Skessuhorn, Tígull, Vikublaðið og Víkurfréttir.

Í heildina var 68 milljónum úthlutað til þessara staðbundnu miðla utan höfuðborgarsvæðisins. Við þá upphæð mætti bæta 22 milljónum til Bændasamtaka Íslands fyrir að halda úti hinu mjög svo skemmtilega og mikið lesna Bændablaði. Blaðið er vissulega ekki staðbundið en stendur fyrir öflugri umfjöllun frá byggðum landsins.

Auka styrkur til staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins

Til viðbótar er einnig vert að nefna annan styrk sem menningar- og viðskiptaráðuneytið úthlutar til staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins. Sá styrkur er nú helmingi hærri en 2023, eða 10 milljónir og við hann bætast 2,5 milljónir kr. frá innviðaráðuneytinu vegna aðgerðar í byggðaáætlun, Efling fjölmiðlunar í héraði. Alls fengu 7 fjölmiðlar utan höfuðborgarsvæðisins úthlutun úr þessum sjóði árið 2023 og 9 árin 2022 og 2021.

100 milljónir til fjölmiðlunar á landsbyggðunum

Í heildina eru þetta um 100 milljónir sem settar eru í að styrkja fjölmiðlun á landsbyggðunum á þessu ári. Þetta er styrkur sem skiptir þessa miðla miklu máli og í sumum tilfellum algjör líflína. Á sama tíma og við höfum mikið aðgengi að fjölbreyttu úrvali frétta og dagskrárefnis hjá íslenskum fjölmiðlum án endurgjalds þá er fréttavinnsla og dagskrárgerð sannarlega ekki ókeypis. Rekstarumhverfi fjölmiðla í dag er síður en svo auðvelt og mikil samkeppni ríkir um auglýsingatekjur við stór og öflug erlend fyrirtæki sem reka samfélagsmiðla.

Framleiðsla sjónvarpsefnis utan höfuðborgarsvæðisins

Höfundur er fyrrum dagskrárgerðarmaður á N4. Á tímabilinu 2018-2021 átti ég þátt í framleiðslu um 400 sjónvarpsþátta, ásamt því að taka virkan þátt í ritstjórn og stefnumótun á miðlinum. Þar stýrði ég þáttum eins og Að norðan, Að austan, Að vestan á vestfjörðum, Lengri leiðin, Uppskrift að góðum degi, Taktíkin og áfram mætti lengi telja. Af lífi og sál gerðum við á N4 okkar besta, með takmarkmað fjármagn, til þess að halda úti sjónvarpsstöð sem fjallaði um landið utan höfuðborgarsvæðisins. Á endanum dugði hugsjónin ein og sér ekki til og N4 óskaði eftir gjaldþrotaskiptum 2023. Með því skapaðist gat í íslenskri dagskrárgerð sem enn hefur ekki verið fyllt.

„Ég sakna svo að geta ekki horft lengur á N4“

Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef heyrt þessa setningu bæði frá íbúum úti á landi en einnig á höfuðborgarsvæðinu. Það eru nefnilega ekki síður íbúar höfuðborgarsvæðisins sem vilja fylgjast með því sem er að gerast á landsbyggðunum. Styrkur til þessara fjölmiðla sem ég nefndi hér að ofan gagnast því öllum landsmönnum.

„Það var svo gaman að fylgjast með ykkur og fá jákvæðar fréttir af landi og þjóð“

Það skiptir svo miklu máli að fjalla líka um það jákvæða í samfélaginu. Ef umfjöllun er alltaf neikvæð verður upplifun okkar einnig neikvæð. Ég sannarlega þekki það hark sem því fylgir að sinna umfjöllun af stórum landsvæðum, með mikla kröfu um afköst og hraða og stöðugt á barmi bæði fjárhagslegs og andlegs gjaldþrots. Það sem keyrði mig þó alltaf áfram var krafturinn í fólkinu sem ég var svo heppinn að fá að kynnast á ferð minni um landið. Hvert samfélag er samansafn af því fólki sem þar býr. Beinum athygli okkar oftar að öðru fólki og leyfum þeim að finna að allt sem þau gera, stórt sem smátt, skiptir samfélagið máli.

„þetta er nú ekkert merkilegt þannig er það nokkuð?“

Jú sannaðu til! Mesta áhorfið var alltaf á þætti þar sem við sögðum sögur af venjulegu fólki sem var að gefa til samfélagsins á hverjum degi með sínum störfum.

Galdra járnsmiðurinn í bílskúrnum sem reddar því sem ekki er hægt að panta á netinu, álfahúsið sem boðar komu jóla, bruggarinn og kokkurinn sem nýta hráefni úr heimabyggð, bændurnir sem gera það að verkum að það eru til hráefni úr heimabyggð, hjúkunarfræðingurinn í fjarheilbrigðisþjónustunni, kennarinn sem býr í frítíma til þemaverkefni um fjölbreytileika og fjölmenningu, börnin og ungmennin sem krefjast betri umgengni við umhverfið og svona getum við lengi talið.

Næsta góða innslag getur leynst hvar sem er, þess vegna á næsta bæ, í næsta bílskúr eða í sögu næsta manns á næsta borði.

Stöndum vörð um fjölmiðlun á landsbyggðunum

Við finnum mörg fyrir því að það vantar eitthvað í flóruna eftir að N4 hætti útsendingum. Í kjölfarið misstum við einnig Fréttablaðið og Hringbraut úr íslenskri fjölmiðlaflóru og við áttuðum okkur á þeirri vondu staðreynd að ef við styðjum ekki við fjölmiðla í nútíma umhverfi þá missum við þá út einn af öðrum og umfjöllun verður einsleitari. Ég væri til í að geta lífgað þá alla við aftur en í staðinn getum við nýtt þetta sem áminningu um að passa vel upp á þá dýrmætu fjölmiðla sem við eigum.

Takk Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra fyrir að standa vörð um fjölmiðlun á landsbyggðunum með þessum styrkjum. Höldum áfram að styrkja starf allra fjölmiðla landsins á tímum upplýsingaóreiðu og skautunar. Höldum áfram að styrkja staðbundna miðla, tryggjum fyrirsjáanleika í styrkjakerfinu og lyftum byggðum landsins upp!

Skúli Bragi Geirdal, fjölmiðlafræðingur, fyrrum dagskrárgerðarmaður á N4 og í 4. sæti á lista Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Vinnum gullið án klósettpappírs

Deila grein

19/11/2024

Vinnum gullið án klósettpappírs

Öll vitum við hversu mikilvægar íþróttir og hreyfing eru fyrir heilsuna. Regluleg hreyfing dregur verulega úr hættu á langvinnum sjúkdómum, hefur jákvæð áhrif á geðheilsu, stuðlar að betri svefni og minnkar streitu, svo eitthvað sé nefnt. En ávinningurinn er ekki aðeins heilsufarslegur heldur einnig félagslegur. Íþróttir kenna okkur gildi eins og samvinnu, virðingu og ábyrgð. Þær byggja upp félagsfærni, styrkja sjálfsmynd og stuðla að betri samskiptum.

Afreksfólk á heimsvísu 

Um nýliðna helgi varð Sóley Margrét Jónsdóttir heimsmeistari í kraftlyftingum í sínum þyngdarflokki og skráði sig um leið í sögubækurnar sem fyrsti íslenski heimsmeistarinn í kraftlyftingum. Þetta var ekki eina íslenska íþróttaafrekið sem vannst um síðustu helgi því að þau Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza unnu fyrstu verðlaun Íslands í parakeppni á listskautum og eru á leið á EM í janúar. Fyrir fjórum vikum fögnuðu íslenska kvennalandsliðið og blandað lið ungmenna Evrópumeistaratitli í hópfimleikum og í lok október var Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, í 22. sæti yfir bestu fótboltakonur heims í kjörinu um Gullboltann.

Fjárfest í árangri 

Þetta eru aðeins nokkur nýleg dæmi um stórkostlegan árangur íþróttafólksins okkar hér á Íslandi. En það er ekki sjálfgefið að ná langt í íþróttum, það kostar blóð, svita og tár – og síðast en ekki síst mjög mikla peninga. Í janúar 2023 setti ég af stað vinnu sem leidd var af Vésteini Hafsteinssyni, sem samhliða var ráðinn afreksstjóri ÍSÍ. Hópurinn hafði það hlutverk að leggja fram tillögur sem myndu efla og styrkja íslenskt afreksstarf í sinni víðustu mynd hér á landi og bæta stöðu og réttindi afreksíþróttafólks.

Faglegri umgjörð umbylt 

Fjárframlag til afreksíþrótta verður stóraukið á næsta ári svo að hægt verði að umbylta umgjörð afreksíþróttafólks. Í fjárlögum, sem samþykkt voru á Alþingi í gær, verður 637 milljónum varið til eflingar afreksíþrótta sem er um það bil tvöföldun á því fjármagni sem áður fór í afreksstarfið. Ný Afreksmiðstöð Íslands mun sjá um að efla faglega umgjörð afreksstarfs á sem flestum sviðum í nánu samstarfi við sérsambönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Átta nýjar svæðisstöðvar 

Afreksmiðstöðin verður í nánu samstarfi við átta nýjar svæðisstöðvar íþrótta um land allt sem þegar eru komnar í gagnið. Svæðisstöðvarnar þjónusta íþróttastarf í sínu nærumhverfi og geta með skilvirkum hætti aukið íþróttaþátttöku barna og ungmenna með sérstakri áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Nýr hvatasjóður barna

Nýjum hvatasjóði barna fyrir íþróttahreyfinguna verður falið að deila árlega um 80 milljónum króna til verkefna hjá íþróttafélögunum sem er gagngert ætlað að efla íþróttaþátttöku barna.

Stuðningur við yngri landslið

Hluta af stórauknu fjárframlagi til afreksíþrótta verður jafnframt varið í að styðja sérstaklega við þátttöku yngri landsliða í landsliðsverkefnum. Íslenskt landsliðsfólk á ekki að þurfa að fjármagna landsliðsferðir með því að selja klósettpappír í bílförmum þrátt fyrir að allar þessar rúllur séu að sjálfsögðu ætíð vel þegnar á heimilum landsins!

Ný mannvirki á framkvæmdastigi

En landsliðsfólkið okkar á heldur ekki að þurfa að keppa í úreltum mannvirkjum sem mæta ekki alþjóðlegum kröfum. 1.500 milljónir króna fara þannig í uppbyggingu þjóðarleikvanga og er ný Þjóðarhöll í innanhúsíþróttum í Laugardal komin á hönnunar- og framkvæmdastig. Endurbætur á Laugardalsvelli eru hafnar og nýr þjóðarleikvangur í frjálsíþróttum í Laugardal er sömuleiðis í undirbúningi. 

Greiðum leiðina 

Á næstu dögum mun stór hluti þjóðarinnar hvetja íslenska kvennalandsliðið í handbolta til dáða þegar þær hefja leik á EM. Landsliðskonurnar eiga það allar sameiginlegt að hafa lagt líf og sál í að komast á þetta stóra svið. Það er góð áminning fyrir okkur að það dugir ekki bara að hvetja okkar besta íþróttafólk áfram þegar markmiðunum er náð. Það þarf að styðja þau á vegferðinni og búa til faglega umgjörð svo leiðin verði greiðari.

Betri framtíð án lakkríssölu

Með aukinni fjárfestingu í afreksíþróttum tryggjum við ekki aðeins betri framtíð þeirra sem keppa á stærsta sviðinu. Við búum líka til umgjörð fyrir íþróttasamfélagið allt og sýnum börnunum okkar að það er hægt að stefna á toppinn og vinna gullið – og það án þess að þurfa að selja klósettpappír og lakkrís í kílóavís til að komast í landsliðsverkefni.

Ekki bara loforð heldur aðgerðir 

Ég er stoltur af því að geta staðið við góðar fyrirætlanir með því að taka til aðgerða og hefja framkvæmdir. Þetta ferðalag er rétt að byrja og mig langar að halda áfram að byggja upp öfluga íþróttamenningu á Íslandi.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík norður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. nóvember 2024.

Categories
Fréttir

„Loksins eru framkvæmdir við nýja Ölfusárbrú að hefjast“

Deila grein

18/11/2024

„Loksins eru framkvæmdir við nýja Ölfusárbrú að hefjast“

„Framkvæmdir við Ölfusárbrú geta nú hafist eftir að Alþingi samþykkti í dag lagabreytingu sem tryggir grundvöll fyrir fjármögnun Ölfusárbrúar, vegum sem að henni liggja og tengdra vegaframkvæmda. Kostnaður brúarinnar er um 8,4 ma.kr, heildarkostnaður með vegum ofl er um 17,9 ma.kr. Skóflustunga verður tekin á miðvikudaginn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.

„Væntingar voru um að framkvæmdir gætu hafist fyrr. Á meðan hefur umferð um svæðið vaxið hratt, kostnaður hækkað og þörfin fyrir nýja brú verður æ brýnni. Þegar ég tók við í fjármála- og efnahagsráðuneytinu lagði ég mikla áherslu á að hraða ferlinu og með góðu samstarfi hefur tekist að vinna úr flóknum áskorunum. Þessi reynsla mun verða dýrmæt í stjórnkerfinu í framtíðinni, þegar sambærileg verkefni koma á dagskrá en ný brú verður tilbúin árið 2027/2028. Þessar tafir hafa aukið á álagið við núverandi brú, þar sem umferðarhnútar og töf verða algengari. Samt sem áður eru framkvæmdir nú loks komnar á dagskrá, sem veitir von um framfarir á þessu mikilvæga samgöngumannvirki.“

Loksins eru framkvæmdir við nýja Ölfusárbrú að hefjast. Framkvæmdir við Ölfusárbrú geta nú hafist eftir að Alþingi…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Mánudagur, 18. nóvember 2024

Nýja Ölfusárbrúin mun gjörbylta umferð um Suðurland, bæta umferðaröryggi og draga úr umferðartöfum og mengun á Selfossi. Hún verður mikilvæg fyrir lífsgæði íbúa og gesta og stórt skref í þróun innviða.

Núverandi brú hefur þjónað okkur vel í tæp 80 ár, en með aukinni umferð, sem nú er 14.500 ökutæki á dag, er kominn tími á að lyfta grettistaki.

Verkefnið verður fjármagnað sjálfstætt með veggjöldum og mun ekki tefja önnur verkefni í samgönguáætlun. „Það sýnir hvernig samvinna stjórnvalda og einkaaðila getur flýtt fyrir mikilvægum framkvæmdum, og við sjáum Hringveginn loks færast út fyrir þéttbýlið á Selfossi,“ segir Sigurður Ingi.

„Þetta er tímamótaverkefni fyrir Suðurland og landið allt – glæsilegt mannvirki sem eykur öryggi og bætir samfélagið. Til hamingju.“

Þessi leið við fjármögnun þýðir að framkvæmdir við Ölfusárbrú munu ekki tefja aðrar framkvæmdir við samgönguinnviði sem fjármögnuð eru beint af ríkinu. Ölfusárbrú verður þar af leiðandi ekki fjármögnuð af samgönguáætlun. Hvalfjarðagöng eru gott dæmi um fjármögnun samgönguframkvæmda af þessu tagi.

Categories
Fréttir

Stóraukið framlag til afreksíþrótta – 2.140 milljónir í fjárlögum 2025

Deila grein

18/11/2024

Stóraukið framlag til afreksíþrótta – 2.140 milljónir í fjárlögum 2025

„Ég hef lagt ríka áherslu á stóreflingu íþróttastarfs og þessi fjárlög marka algjör tímamót. Bæði með stórauknu framlagi til reksturs afreksíþróttastarfs en líka með því að ríkisvaldið hefur aldrei stigið af jafnmiklum krafti inn í mannvirkjagerð ætlaða landsliðunum okkar,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Fjárframlag stjórnvalda til afreksíþrótta verður stóraukið á næsta ári eftir samþykkt fjárlaga á Alþingi í dag. Alls verður 637 milljónum til viðbótar veitt til eflingar á afreksíþróttastarfi og 1.500 milljónum í þjóðarleikvanga. Markmiðið með þessum aðgerðum er að umbylta umgjörð íþróttastarfs á Íslandi og tryggja afreksíþróttafólki stuðning sem stenst alþjóðlegan samanburð.

Aukningin er liður í aðgerðum stjórnvalda til eflingar afreksíþróttastarfs. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, setti af stað vinnu undir forystu Vésteins Hafsteinssonar í byrjun síðasta árs til að bæta stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Vésteinn var samhliða ráðinn sem afreksstjóri ÍSÍ.

Ekki bara loforð – heldur aðgerðir. Ég hef lagt mikla áherslu á stóreflingu íþrótta og á kjörtímabilinu ætluðum við að…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Mánudagur, 18. nóvember 2024

Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til ráðherra í vor og voru þær kynntar á blaðamannafundi í Laugardalshöll. Áður höfðu áformin verið rædd á fjölmennri samráðsráðstefnu með íþróttahreyfingunni, Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi.

Vinnum gullið – ráðstefna um nýja stefnu í afreksíþróttum, 20. nóvember 2023 í Hörpu

Nú hefst vinna við að hrinda aðgerðum til eflingar afreksíþróttastarfs í framkvæmd. Ætlunin er að búa þannig um afreksíþróttafólk og -starf hérlendis að stuðningur og aðstaða verði til fyrirmyndar og ekki síðri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Beinn fjárstuðningur til sérsambanda og afrekssjóðs verður aukinn samhliða stórauknum stuðningi við yngri landslið. Ný Afreksmiðstöð Íslands mun gegna lykilhlutverki í tillögunum þar sem fagteymi sérfræðinga kemur saman á einum stað og hlúir að öllum undirstöðuþáttum fyrir framúrskarandi árangur í nánu samstarfi við sérsambönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Þar er horft til fleira þátta en eingöngu líkamlegrar þjálfunar. Taka þarf mið af nýjustu rannsóknum, huga vel að andlegum þáttum hjá afreksíþróttafólki og tryggja að það fái þann stuðning sem það þarf á að halda til að geta helgað sig íþrótt sinni og öðlast sömu réttindi og aðrir á vinnumarkaði. Einnig verður unnið að eflingu umgjarðar og hæfileikamótunar ungs íþróttafólks með aukinni samvinnu mismunandi skólastiga, íþróttafélaga og sérsambanda.

Vésteinn Hafsteinsson, formaður starfshóps mennta- og barnamálaráðherra, kynnir áformin á ráðstefnunni Vinnum gullið

Afreksmiðstöðin verður einnig í nánu samstarfi við átta nýjar svæðisstöðvar um land allt, fræðasamfélagið, íþróttahéruð og -félög. Ætlunin er að jafna tækifæri til íþróttaiðkunar óháð staðsetningu á landinu og skapa aðstæður þar sem hæfileikar fá að njóta sín.

Ný Þjóðarhöll í innanhússíþróttum er komin á hönnunar- og framkvæmdastig, endurbætur á Laugardalsvelli eru hafnar og nýr þjóðarleikvangur í frjálsíþróttum í Laugardal er í undirbúningi. Í fjárlögum næsta árs renna 1,5 milljarðar króna til nýrrar Þjóðarhallar. Nýir og endurbættir þjóðarleikvangar styðja enn frekar við bætta umgjörð utan um afreksíþróttastarf.

Afreksíþróttafólk er fyrirmynd annarra. Árangur þess hvetur til íþróttaiðkunar og metnaðs í starfi og stuðlar þannig að bættum hag og lýðheilsu.

Frá blaðamannafundinum „Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs“

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Fær ESB Ís­land í jóla­gjöf?

Deila grein

18/11/2024

Fær ESB Ís­land í jóla­gjöf?

Enn á ný er umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu komin á dagskrá. Það er eins og yfirráð Íslands yfir eigin auðlindum sé ekkert tiltökumál og bara einhver skemmtilegur jólapakki.

Auðlindir í eigu þjóðar

Við eigum miklu frekar að tryggja eign þjóðarinnar á auðlindum hafsins, orkunni í iðrum jarðar, vindorkunni, fjörðunum og heilnæmu vatni og nýta allt þetta til innlendrar verðmætasköpunar. Innganga í ESB gengur þvert gegn þessu markmiði. Við viljum hvorki selja Landsvirkjun eða selja raforku úr landi, getum við ekki öll verið sammála um það?

Við viljum að vindmyllur framtíðar séu í eigu þjóðarinnar og nýtist til orkuskipta og verðmætasköpunar. Við viljum setja skorður við uppkaup erlendra aðila á verðmætu landi.

Orku- og fæðuöryggi

Við sem þjóð megum ekki lenda í þeirri stöðu að ekki sé til næg orka fyrir heimili og fyrirtæki í landinu, það þurfum við að tryggja. Við þurfum einnig að tryggja að matvælaframleiðsla sé í landinu og að hún sé á forsendum heilnæmis og sjálfbærni.

Heimsfaraldur og stríð í Evrópu hafa sýnt okkur hversu fallvalt þetta öryggi er og það er mun meiri akkur fyrir íslenska þjóð að tryggja eigið öryggi en að taka áhættu á að aðrar þjóðir styðji okkur ekki þegar til kastanna kemur, eins og gerðist í bankahruninu, þegar lönd Evrópu snerust gegn okkur.

Töpuð vinna og tækifæri

Með inngöngu í ESB opnast fyrir frjálst kaupæði stórra auðhringja í íslensku samfélagi sem verður til þess að arður fyrirtækja fer úr landi, miðlæg atvinna, yfirstjórn og bakvinnsla færist erlendis og verður þannig til þess að atvinnuleysi eykst og laun lækka.

Látum ekki blekkjast

Umsókn er ekki aðildarviðræður heldur aðlögun og er ekki sú framtíðarsýn sem við í Framsókn höfum. Við viljum vera sjálfstæð þjóð með yfirráð yfir eigin auðlindum og við ætlum að tryggja að svo verði.

Okkar krafa komi til ríkisstjórnarviðræðna er að Ísland verði ekki fært Evrópusambandinu í jólagjöf.

Við ætlum að tryggja að Ísland verði jólagjöfin hvert einasta ár til afkomenda okkar.

Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyst á visir.is 18. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Í­þróttir fyrir alla!

Deila grein

18/11/2024

Í­þróttir fyrir alla!

Hver króna sem fer til íþróttafélaga er króna sem skilar sér margfalt til baka í samfélagið. Um kosti íþróttastarfs á Íslandi verður ekki deilt. Starfið er faglegt, fjölbreytt og gott. Það sem hefur breyst á undanförnum árum er að íþróttir eru gríðarlega atvinnuskapandi. Félögin á Íslandi í dag eru orðin stærri og komin með fleiri starfsmenn í full störf. Ásamt því að afleidd störf tengd íþróttum á Íslandi, t.d. í ferðaþjónustu, eru orðin ansi mörg og drjúg.

Við getum verið stolt af því starfi sem íþróttahreyfingin á Íslandi sinnir og vinnur. Framsókn leggur áherslu á fjölbreytt og faglegt íþróttastarf. Þannig hefur Framsókn stutt við ÍSÍ m.a. með ráðningu Vésteins Hafsteinssonar og innkomu svæðisfulltrúa ÍSÍ sem eiga að styðja við íþróttastarfið á öllu landinu.

Það er hinsvegar áhyggjuefni hversu mikið það kostar að stunda íþróttir á Íslandi. Fyrir utan hið augljósa sem eru æfingagjöld og búnaðarkaup þá eru ferðalög liða og félaga á landsbyggðinni farin að taka verulegan toll af fjárhagi heimilina. Dæmi eru um að foreldrar með þrjú börn að stunda íþróttir á landsbyggðinni þurfi að reiða fram um 800.000 kr. í ferðakostnað á ári fyrir börnin sín, ofan á áðurnefnd æfingagjöld og búnaðarkaup.

Íþróttastarf á að vera fyrir alla. Það eiga allir að geta stundað sína íþrótt óháð efnahagsstöðu foreldra. Og óháð búsetu! Þarna vill Framsókn stíga fast til jarðar með auknum framlögum í ferðajöfnunarsjóð ÍSÍ og með víðtækari nýtingu Loftbrúar. Einnig er vert að skoða hugmyndir um ívilnanir til fyrirtækja sem sjá um að keyra íþróttalið víðsvegar um landið. Auk þess er mikilvægt að skoða hugmyndir um hvernig hægt er að draga úr kostnaði við gistingu.

Með fjárfestingu í íþróttum er verið að styðja við forvarnarstarf! Við ölum upp heilbrigðari einstaklinga og styrkjum samfélagið okkar til lengri tíma. Það er dýrt að vera ekki með öflugt íþróttastarf. Það mun kalla á aukin fjárframlög annarstaðar í kerfinu okkar.

Fjárfesting í íþróttum er fjárfesting í framtíðinni.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

„Hve­nær var þetta sam­tal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn

Deila grein

17/11/2024

„Hve­nær var þetta sam­tal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn

Í vikunni heimsótti ég garðyrkjubændur á Suðurlandi. Úti var dimmur nóvember og veturinn minnti á sig með ísköldum vindkviðum, en inni í gróðurhúsunum ríkti hlýja og birta. Þar var lífið fullt af litum og ferskum ilmi. Það er alltaf jafn heillandi að sjá hvernig jarðhiti og hrein orka landsins skapa þessar ótrúlegu aðstæður sem við Íslendingar höfum byggt upp.

Samt er það ekki þessi hlýlega stemning sem er efst í huga mér heldur spurning sem einn garðyrkjubóndinn varpaði fram í umræðum um raforkumál. Þar ræddum við hvernig almenningur og minni fyrirtæki eiga sífellt erfiðara með að tryggja sér raforku á hagkvæmum kjörum vegna aukinnar samkeppni við stórnotendur, meðal annars garðyrkjubændur sem leika lykilhlutverk í grænmetisframleiðslu landsins og styðja þannig við fæðuöryggi, lýðheilsu og loftslagsmál og færa okkur litagleði blóma víða sömuleiðis. Hann spurði: „Hvenær var þetta samtal tekið, vill þjóðin þetta?“

Þessi spurning hefur setið í mér síðan. Hún hitti beint í hjartastað vegna þess að hún snertir kjarna þess sem ég glímdi við sem orkumálastjóri – hvernig við tryggjum að raforka, þessi sameiginlega auðlind þjóðarinnar, sé nýtt í þágu almennings og smærri fyrirtækja, frekar en að lúta markaðslögmálum þar sem þeir sterkustu ráða ferðinni. Til að skilja hvernig við komumst á þennan stað þurfum við að líta til baka.

Ábyrgðarleysi gagnvart orkuöryggi almennings

Árið 2003 var Landsvirkjun leyst undan þeirri lagalegu skyldu að tryggja orkuöryggi almennings. Með innleiðingu raforkutilskipana Evrópusambandsins í íslensk lög var ábyrgðin færð frá einni stofnun án þess að hún væri sett í hendur annars aðila. Þetta hefur skapað pólitískt tómarúm sem hefur skilið almenning eftir berskjaldaðan – án trygginga um orkuöryggi.

Margir kostir hafa fylgt þessari löggjöf og innan hennar eru heimildir sem hægt er að nota til að tryggja forgang almennings en samt ríkir þetta tómarúm enn í dag. Enginn hefur formlega skyldu til að tryggja að heimili og lítil fyrirtæki njóti aðgangs að nægri orku, jafnvel í neyðarástandi.

Ólíkt því sem víða þekkist eru stórnotendur hér, svo sem álver og gagnaver, ráðandi í raforkunotkuninni. Þeir nýta 80 prósent allrar raforku á Íslandi, önnur fyrirtæki um 15 prósent og heimili einungis 5 prósent. Undanfarið hefur ásókn í orku hér á landi vaxið mjög á sama tíma og við höfum verið að glíma við náttúrulegar áskoranir eins og sögulega lága vatnsstöðu í lónum.

Heimilin senda ekki lögmann til samningagerðar um orkuverð

Sem orkumálastjóri fékk ég oft spurninguna: „Af hverju tryggir þú ekki að nóg sé virkjað?“ Staðreyndin er sú að á síðustu þremur árum hafa verið gefin út leyfi fyrir fleiri megavöttum en áratuginn á undan. Fjöldi nýrra verkefna er í undirbúningi. Hins vegar leysir ný og ný virkjun ekki grunnvandann.

Ný framleiðsla fer einfaldlega þangað sem hæst verð er boðið. Stórnotendur, sem hafa sterka samningsstöðu og fjárhagslegan styrk, tryggja sér forgang með langvarandi samningum. Þetta þýðir að:

  • Orkan getur farið beint í stór verkefni, eins og stóriðju eða útflutning, í stað þess að styðja við almennar þarfir.
  • Minni orkunotendur, eins og grænmetisbændur, lítil og meðalstór fyrirtæki eða heimili, sitja eftir með sama ótrygga aðgang og áður.

Almenningur hefur engan lögmann sem semur fyrir þeirra hönd eða tryggir hagstæða skilmála á orkuverði langt fram í tímann. Venjulegt fólk og slík fyrirtæki treysta því á að stjórnvöld taki þessa ábyrgð að sér og gæti hagsmuna þeirra.

Getum við sætt okkur við að framtíð íslensks atvinnulífs og auðlindanýtingar sé ákvörðuð án þess að þjóðin fái að segja sitt álit? Höfum við raunverulega tekið umræðuna um það hvort við séum tilbúin að fórna garðyrkjubændum okkar, litlum fyrirtækjum og fjölbreyttu atvinnulífi fyrir hámarksarðsemi? Það er ekki lýðræði – það er tómlæti.

Almannahagsmunir mega ekki sitja á hakanum. Við þurfum að spyrja okkur: Viljum við samfélag sem stendur vörð um fjölbreytt atvinnulíf, nýsköpun og sjálfbærni – eða samfélag sem leyfir stærstu aðilunum að stjórna því hvernig við viljum haga framleiðslu okkar og áherslum?

Skortur á stefnu í þágu almennings

Mikið er talað um mikilvægi grænnar orkuöflunar fyrir orkuskipti og heimilin í landinu, þótt vitað sé að það eru ekki þessir aðilar sem geta borgað hæsta verðið fyrir orkuna. Ný uppbygging tryggir því ekki að orkan rati í þau verkefni sem sagt er að eigi að virkja fyrir.

Nýlegt dæmi um þá sundrung sem getur skapast þegar almenningi þykir á hagsmunum annarra troðið má finna í Noregi. Þar snerist almenningur harkalega gegn orkumálunum þegar orkuverð til heimila rauk upp úr öllu valdi í orkukrísunni og skortur var á vernd fyrir almennan notanda.

Auk þess hafa skapast miklar deilur um þróun vindorku í Noregi. Þar hefur allt að 70% af raforkuframleiðslu vindorkuvera farið til stækkunar orkufreks iðnaðar, en almenningur upplifir sig svikinn af fölskum loforðum um að þessi uppbygging myndi bæta orkuöryggi þeirra. Þetta hefur valdið djúpstæðum átökum og traust á stjórnvöldum hefur beðið hnekki.

Þess vegna skiptir sköpum að innleiða öryggisventla sem tryggja almenningi skjól og forgang í orkumálum. Slíkir ventlar gera það ekki aðeins mögulegt að beina nýrri orku í verkefni sem þjóna samfélaginu og grænum orkuskiptum, heldur stuðla einnig að því að heimilin og minni aðilar hafi raunverulegan ávinning af uppbyggingu orkukerfisins. Þegar slíkt jafnvægi er til staðar minnka líkurnar á átökum og vantrausti gagnvart nýjum nýtingarmöguleikum.

Að tryggja almenningi ávinning og vernd í þessum málaflokki er ekki aðeins réttlætismál heldur lykill að því að byggja upp traust og stuðla að þróun sem er til hagsbóta fyrir allt samfélagið. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir sem allir ættu að geta sameinast um.

Rifjum upp tilgang stóriðjustefnunnar

Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri og stjórnarformaður Landsvirkjunar, lýsti tilgangi stóriðjustefnunnar sem leið stjórnvalda til að nýta íslenskar orkuauðlindir á hagkvæman hátt og stuðla að efnahagslegum framförum. Í viðtali við Frjálsa verslun árið 2019 sagði hann:

„Markmiðið var að gera okkur kleift að ráðast í hagkvæma stórvirkjun með því að selja verulegan hluta orkunnar til orkufrekrar stóriðju. Þannig var annars vegar komið á fót nýjum útflutningsatvinnuvegi, en hins vegar tryggð hagkvæm raforka fyrir innlenda markaðinn.“

Hann bætti við að með sölu á orku til nýrrar stóriðju hefði bæði verið hægt að koma á nýjum útflutningsiðnaði og tryggja ódýra orku fyrir innlendan markað um langa framtíð.

Þegar við skoðum fortíðina sjáum við hvernig fyrri kynslóðir lögðu grunn að því orkuöryggi sem við njótum í dag. Vel er vitað að orkuöryggi Íslendinga í dag er ekki síst afrakstur orkufrekrar iðnaðaruppbyggingar fyrri kynslóða. Sú hugsun fyrirrennara að byggja upp iðnað, en á sama tíma hlúa ætíð um leið að orkuöryggi almennings, lagði mikilvægan grunn að þeim lífsgæðum sem við búum við í dag, eins og kemur glögglega fram í ævisögu Jóhannesar Nordal. Eða eins og Steingrímur Hermannsson sagði árið 1977 í ræðu um skipulag orkumála: Markmiðið var að tryggja að „allir landsmenn gætu haft aðgang að nægri orku, öruggri orku og ódýrri orku.“

Flestum er ljóst að fjölbreyttur iðnaður á Íslandi er mikilvægur fyrir nútíð og framtíð landsins. Hins vegar er jafn ljóst að stefna okkar í orkumálum þarf að byggja á samhug og skýrri forgangsröðun, þar sem hagsmunir almennings og smærri fyrirtækja eru tryggðir. Að stuðla að sundrung og skipa í fylkingar getur vart talist gott veganesti fyrir frekari uppbyggingu orkumála hér á landi. Við þurfum að læra af fortíðinni, nýta þá reynslu og tryggja að framtíðarsýn okkar taki mið af þörfum allra.

Tilgangur stjórnvalda með því að fá stórfyrirtæki hingað til lands til að byggja upp stóriðju var ekki að íslenskur almenningur myndi keppa við þau um orku á samkeppnismarkaði, eins og sumir fulltrúar stjórnmálanna virðast halda. Heldur var tilgangurinn að efla íslenskt atvinnulíf, að almenningur nyti góðs af uppbyggingu dreifkerfisins og að samfélagið allt myndi njóta efnahagslegs ávinnings af starfseminni og hafa eitthvað um hana að segja.

Þegar um er að ræða auðlindir í þjóðareign er ekki hægt að sætta sig við að almenningur og venjuleg fyrirtæki séu skilin eftir á hliðarlínunni – áhrifalaus og áhorfandi að því hvernig framtíð þeirra er mótuð án þeirra þátttöku.

Og eitt til viðbótar: Bæði Jóhannes Nordal og Steingrímur Hermannsson lögðu áherslu á mikilvægi þess að tryggja jafnvægi milli nýtingar auðlinda og náttúruverndar í ræðum og skrifum sínum.

Þörf á skýrum forgangi

Í starfi mínu sem orkumálastjóri lagði ég mikla áherslu á að tryggja raforkuöryggi fyrir almenning. Ég talaði fyrir því að setja öryggisventla í kerfið – reglur sem myndu tryggja að heimili og minni fyrirtæki fengju raforku í forgangi, sérstaklega á tímum umframeftirspurnar. Þessar tillögur mættu þó andstöðu.

Meðal annars var ég kölluð „skömmtunarstjóri ríkisins“ fyrir það eitt að leggja til að stórnotendur gætu ekki gert nýja samninga á kostnað almennings. En ég trúi því að forgangur heimila og minni fyrirtækja sé ekki skömmtun – það er sanngirni og almannahagsmunir!

Í íslenskri orkustefnu er skýrt kveðið á um að heimili eigi að njóta forgangs og fyrir þeirri stefnu tala ég. En á meðan engar reglur styðja þessa stefnu og enginn stjórnmálamaður talar fyrir henni er hún bara orð á blaði. Eins og fulltrúi Landsvirkjunar sagði nýlega: „Það blasir við að ef aðrir framleiðendur draga úr sölu á raforku inn á almenna markaðinn og selja hana þess í stað til stórnotenda, ógnar það raforkuöryggi almennings.“ Ég benti á þetta fyrir ári síðan en sem embættismaður gat ég ekki tekið endanlegar ákvarðanir eða breytt löggjöf. Það er á ábyrgð stjórnmálamanna að bregðast við.

Eitt helsta erindi mitt í íslensk stjórnmál er að tryggja að hagsmunir almennings mæti ekki afgangi stjórnmálamanna. Ég ætla mér ekki að vera stjórnmálamaður sem stýrist af háværustu hagaðilum með mestu áhrifin í bakherbergjunum. Ég ætla mér að vera stjórnmálamaður sem vinnur í þágu allra landsmanna.

Tími til að hefja samtalið

Spurning garðyrkjubóndans situr enn í mér: „Hvenær var samtal tekið við þjóðina?“ Þetta samtal hefur aldrei verið tekið. Þjóðin hefur ekki verið spurð hvernig við viljum nýta auðlindir okkar eða hverjir eiga að njóta þeirra mest. Það er kominn tími til að breyta því.

Raforka er ekki bara vara sem seld er til hæstbjóðanda. Hún er lífæð samfélagsins, grundvöllur daglegs lífs og atvinnurekstrar. Nú þarf að tryggja að allir njóti góðs af henni. Líka venjuleg fyrirtæki, garðyrkjubændur og heimilin í landinu.

Viljum við verða verstöð fyrir erlenda fjárfestingasjóði, þar sem við seljum auðlindir okkar sem hrávöru til hæstbjóðanda, eða viljum við byggja upp fjölbreytt atvinnulíf sem styður við nýsköpun, minni fyrirtæki, virðisaukandi framleiðslu og gjaldeyrissparandi starfsemi? Þetta er ekki aðeins spurning um hagnað eða markaðslögmál – þetta er spurning um stefnu, gildi og framtíðarsýn fyrir Ísland.

Raforka á ekki að vera lúxusvara sem einungis þeir sterkustu geta leyft sér að nýta á sínum forsendum. Hún er réttur allra landsmanna, réttur sem stjórnvöld verða að tryggja með skýrum reglum.

Garðyrkjubóndinn spurði: „Hvenær var samtal tekið við þjóðina?“ Nú er kominn tími til að svara þeirri spurningu með aðgerðum, ekki bara orðum. Við þurfum að setja hagsmuni almennings í fyrsta sæti, tryggja réttláta nýtingu auðlinda og byggja upp samfélag sem veitir öllum tækifæri til að njóta góðs af þeim lífsgæðum sem náttúra okkar býður upp á. Þetta er spurning um réttlæti, sjálfbærni og framtíðarsýn – og framtíðin byrjar núna.

Halla Hrund Logadóttir, fyrrverandi orkumálastjóri og oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. nóvember 2024.