Categories
Greinar

Byggjum upp landsbyggðina

Deila grein

21/10/2024

Byggjum upp landsbyggðina

Ísland er fámenn þjóð á stóru landi og þótt margt hafi áunnist á sviði framfara hefur byggðastefna okkar klikkað þegar kemur að jafnvægi milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Þróunin hefur orðið sú að æ meiri mannfjöldi safnast saman á höfuðborgarsvæðinu, þar sem innviðir eru undir miklu álagi og lóðaskortur og umferðarvandi sívaxandi vandamál. Á sama tíma er víða á landsbyggðinni nóg pláss og mikil tækifæri. Það er tími til kominn að stokka spilin upp á nýtt og horfa til landsbyggðarinnar sem raunhæfs kosts til framtíðaruppbyggingar.

Það er einfaldlega ekki sjálfbært fyrir þjóðina að ætla öllum að búa á sama stað. Þegar aðeins einn landshluti er lagður undir mikla fólksfjölgun verður álag á innviði og þjónustu honum ofviða, á meðan landsbyggðin stendur frammi fyrir fólksfækkun og hnignandi atvinnumöguleikum. Við þurfum nýja stefnu sem lítur til þess að efla og styrkja byggðir landsins – bæði með því að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og byggja upp fjölbreytt atvinnulíf í samvinnu við heimamenn.

Samvinnuhugsjónin – leiðin að sjálfbærri uppbyggingu

Samvinnuhugsjónin er lykillinn að því að byggja upp sjálfbær samfélög á landsbyggðinni. Í stað þess að fylgja eingöngu markaðsdrifnum ákvörðunum byggist samvinnuhugsjónin á því að fólkið sjálft komi að stjórnun, þróun og nýtingu þeirra auðlinda sem fyrir hendi eru. Þetta þýðir að arðurinn af starfseminni er endurfjárfestur í samfélaginu og skapar þannig langtímaáhrif.

Með því að fjölga samvinnufélögum á sviðum eins og ferðaþjónustu, nýsköpun, matvælaframleiðslu og grænum iðnaði getum við byggt upp sjálfbæra atvinnuvegi sem nýta sér sérstöðu hvers svæðis. Í þessum félögum eiga allir jafnan hlut, sem skapar meiri hvata til að þróa verkefni sem eru bæði arðbær og samfélagslega gagnleg.

Opinber störf út á land

Það er einnig nauðsynlegt að ríkisvaldið axli ábyrgð á þessari þróun. Með því að færa fleiri opinber störf út á landsbyggðina má dreifa fólksfjölda á skilvirkari hátt og stuðla að fjölbreytni í starfsemi á landsvísu. Nú þegar hafa fjölmörg tæknileg framfaraskref, eins og aukin fjarvinna, sýnt að margt af því sem áður þótti ómögulegt getur nú orðið raunverulegt. Ekki er lengur þörf á því að öll stjórnsýslan sé miðlæg í Reykjavík – hún getur virkað jafnvel á landsbyggðinni.

Að færa opinber störf út á landsbyggðina hefur þann ávinning að þau verða mikilvægur grunnur fyrir atvinnulíf á svæðunum, en einnig styðja þau við alla aðra starfsemi sem reiðir sig á öfluga innviði. Það er lífsnauðsynlegt að þessi dreifing eigi sér stað til að jafna álagið og skapa betri lífsskilyrði um land allt.

Nóg pláss og næg tækifæri á landsbyggðinni Landsbyggðin býr yfir miklum möguleikum sem ekki hafa verið nýttir til fulls. Hvort sem litið er til grænna orkumöguleika, sjálfbærrar ferðaþjónustu eða framleiðslu á hreinum íslenskum matvælum, þá eru tækifærin fyrir hendi. Það er nóg pláss á landsbyggðinni fyrir ný fyrirtæki, nýjar hugmyndir og nýtt fólk. Við þurfum bara að nýta þau skynsamlega.

Samvinnuhugsjónin gefur okkur tækifæri til að endurvekja gömlu gildin um að standa saman og byggja sameiginlega framtíð. Með slíkri nálgun getum við stutt við uppbyggingu innviða, skapað stöðugleika í atvinnulífi og tryggt að verðmæti verði eftir í samfélögunum sjálfum.

Byggjum upp framtíð fyrir allt landið

Það er ljóst að höfuðborgarsvæðið getur ekki eitt borið framtíðarþróun landsins. Við verðum að dreifa álaginu og byggja upp sterk samfélög um allt land. Samvinnuhugsjónin er verkfæri sem getur hjálpað okkur að ná þessu markmiði – með því að stuðla að sameiginlegri ábyrgð, fjölbreytni í atvinnulífi og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Með skýrri byggðastefnu sem lítur til framtíðar getum við tryggt jafnvægi milli landshluta og skapað betra og fjölbreyttara Ísland fyrir komandi kynslóðir. Það er tími til að taka af skarið og byggja upp landsbyggðina – til að styrkja landið í heild.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Rödd skyn­seminnar

Deila grein

20/10/2024

Rödd skyn­seminnar

Stjórnvöld og ákvarðanir þeirra spegla þann tíðaranda sem er uppi hverju sinni, enda samsett fólki sem er þverskurður samfélagsins. Það er mikilvægt að líta um öxl og horfa gagnrýnum augum á þær ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið í tilraun til þess að tryggja að ákvarðanir framtíðarinnar séu hafnar yfir persónulegar kreddur, vanþekkingu, fordóma og óöryggi. Stjórnvöld verða að tryggja það að hagsmunir heildarinnar eru hafðir að leiðarljósi um leið og staða þeirra verst settu í samfélaginu er sett á oddinn og bætt með öllum þeim leiðum sem okkur framast er unnt.

Langar mig í framhaldinu að minna á að Ísland á ekki fegurstu söguna þegar kemur að framkomu gagnvart konum og stúlkum. Í því samhengi nefni ég ástandið en bókin Kynlegt stríð eftir Báru Baldursdóttur kom út nýverið og varpar ljósi á tvö lykilskjalasöfn sem varpa algjörlega nýju ljósi á efnið sem við töldum okkur öll þekkja þokkalega vel. Íslensk stjórnvöld stunduðu á þeim tíma miklar persónunjósnir gagnvart konum og börnum og beittu stúlkur ofbeldi og frelsisviptingu vegna mögulegra samneyta þeirra við erlenda karlmenn.

Við verðum að læra af sögunni og vinna markvisst að því að hún endurtaki sig ekki, að við stöndum ekki vörð um kerfi sem eru mannanna verk og verja sérhagsmuni eða halda ákveðnum hópum samfélagsins í fjárhagslegri eða félagslegri gíslingu.

Bakslag um allan heim í stöðu jafnréttismála er einnig merkjanlegt í íslensku samfélagi og jafnréttisparadísin Ísland rétt slefar í það sæti. Við höfum dregist aftur úr okkar helstu viðlíkjendum hvað varðar t.d. heilsu og menntun kvenna og annarra jaðarsettra hópa hér á landi. Við þurfum í okkar stefnu að beina sjónum okkar að því sem viðheldur bágri stöðu kvenna og annarra jaðarsettra hópa.

Eru það þá helst vinnumarkaðstengdir þættir og í fyrsta lagi má nefna lágt virðismat kvennastétta.

Ég verð hér að benda á kjarabaráttu kennara, einnar stærstu kvennastéttarinnar. Það virðist vera „landlægur andskoti“ að kennarar þurfi að sætta sig við lág laun og krefjandi vinnuaðstæður af því að þeir eru svo lánsamir að „fá að kenna“ eins og formaður Samtaka Atvinnulífsins komst svo skemmtilega að orði í fjölmiðlum í vikunni.

Í öðru lagi og tengist einnig vinnumarkaði eru hlutastörf – en þriðjungur kvenna er í hlutastörfum til að geta axlað frekar þau umönnunarstörf sem falla til innan sem utan heimilisins.

Í þriðja lagi og það sem kemur á óvart að er ekki einu sinni breyta í jafnréttismælingum er kynbundið ofbeldi. Við gætum tekið langa stund til að telja upp nýleg atvik sem snúa að kynbundnu ofbeldi þar sem ljótasta birtingarmyndin eru kvenna- og barnamorð.

Bakslag hvað stöðu jafnréttis varðar er svo sannarlega greinanlegt hér á landi. Tölfræðin er svört þegar við skoðum fjölda kvenna sem starfa eða starfað hafa á Alþingi bæði sem kjörnir fulltrúar og sem starfsmenn þingsins og hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni eða ofbeldi í starfi eða 80%. Það eru svimandi háar tölur.

Þetta er ekki fasti, þetta er menning sem þarf að uppræta.

Þessar tölur birtast á sama tíma og við þurfum að hvetja konur til að taka aukinn þátt í stjórnmálum svo jafnrétti verði hér náð. En þátttaka kvenna í stjórnmálum er grundvöllur jafnréttis.

Í stjórnmálum höfum við val um stefnu og strauma. Við höfum valið að setja skynsemina á oddinn og tala af yfirvegun og gegn þeirri pólun sem hefur átt sér stað í stjórnmálunum. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að rödd skynseminnar nái í gegnum falsfréttir og popúlisma og komist alla leið inn að ríkisstjórnarborðinu á ný.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, kennari og formaður Kvenna í Framsókn.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. október 2024.

Categories
Fréttir

Uppstilling í öllum kjördæmum hjá Framsókn

Deila grein

19/10/2024

Uppstilling í öllum kjördæmum hjá Framsókn

Að loknum kjördæmisþingum Framsóknar í dag er ljóst að uppstilling verður viðhöfð sem aðferð við val á framboðslista flokksins í öllum kjördæmum. Kjördæmisþing Framsóknar í Reykjavík hafði fyrr í vikunni samþykkt að viðhafa uppstillingu. Tillaga um uppstillingu var samþykkt samhljóða í öllum kjördæmum.

Framboðslistar Framsóknar munu verða samþykktir á kjördæmisþingum næsta laugardag, 26. október.

Categories
Fréttir Greinar

Stærsta hagsmunamálið

Deila grein

19/10/2024

Stærsta hagsmunamálið

Það er ábyrgðahluti að sitja í rík­is­stjórn Íslands. Á und­an­förn­um árum höf­um við í Fram­sókn ein­beitt okk­ur að því að horfa fram á veg­inn, vera á skófl­unni og vinna vinn­una í þágu ís­lenskra hags­muna. Við höf­um haldið okk­ur fyr­ir utan reglu­legt hnútukast milli annarra stjórn­mála­flokka og reynt að ein­blína frek­ar á verk­efn­in og finna á þeim hag­felld­ar lausn­ir fyr­ir land og þjóð.

Ég er stolt af þeim ár­angri sem náðst hef­ur á ýms­um sviðum þjóðlífs­ins á und­an­förn­um árum. Margt hef­ur áunn­ist þótt það séu fjöl­mörg tæki­færi til þess að gera bet­ur. Þannig er gang­ur lífs­ins.

Lægri verðbólga og lækk­un vaxta eru stærsta hags­muna­mál heim­ila og fyr­ir­tækja um þess­ar mund­ir. Það voru já­kvæð tíðindi þegar Seðlabank­inn lækkaði vexti nú í byrj­un mánaðar. Slíkt ger­ist ekki af sjálfu sér. Lyk­il­atriði á næstu vik­um er að tryggja að at­b­urðarás­in á næst­unni verði ekki til þess að tefja vaxta­lækk­un­ar­ferlið. Fram­sókn mun ekki láta sitt eft­ir liggja í þing­inu til að tryggja að skyn­sam­leg fjár­lög verði samþykkt, líkt og boðað er í því fjár­laga­frum­varpi sem fjár­mála- og efna­hags­ráðherra hafði mælt fyr­ir fyrr í haust. Leiðarljós þess eru að ná niður verðbólgu og bæta þannig kjör heim­ila og fyr­ir­tækja. Það er skoðun okk­ar að traust sam­spil pen­inga­stefnu Seðlabanka Íslands, op­in­berra fjár­mála og aðila vinnu­markaðar­ins sé lyk­il­for­senda þess að stuðla að stöðugu verðlagi og skapa skil­yrði fyr­ir lækk­un verðbólgu og vaxta. Í þágu þessa þarf for­gangs­röðun í op­in­ber­um fjár­mál­um sem kall­ast á við aðgerðir stjórn­valda í þágu lang­tíma­kjara­samn­inga á vinnu­markaði, sem snúa að því að fjár­festa í fólki.

Það eru áhuga­verðir tím­ar í ís­lensk­um stjórn­mál­um um þess­ar mund­ir. Það er skylda okk­ar sem störf­um á þeim vett­vangi að tak­ast á við stöðuna af ábyrgð og festu enda er til mik­ils að vinna að ná mjúkri lend­ingu í hag­kerf­inu. Það er heiður að starfa í umboði kjós­enda lands­ins og vinna í þágu ís­lenskra hags­muna. Í kom­andi kosn­ing­um munu flokk­arn­ir óska eft­ir end­ur­nýjuðu umboði til þess að sitja á Alþingi Íslend­inga. Við í Fram­sókn erum klár í bát­ana og vél­arn­ar hafa verið ræst­ar, til­bú­in til að leggja okk­ur öll áfram fram til þess að gera sam­fé­lagið betra en það var í gær.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2024.

Categories
Fréttir

Halla Hrund boðin velkomin í Framsókn

Deila grein

18/10/2024

Halla Hrund boðin velkomin í Framsókn

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, hefur í yfirlýsingu ákveðið að færa sig niður í annað sæti framboðslistans Framsóknar í Suðurkjördæmi. Sigurður Ingi segir í yfirlýsingu að formaður sem ekki leggi ekki sjálfan sig að veði fyrir flokkinn sinn sé ekki sannur leiðtogi. Sigurður Ingi býður Höllu Hrund Logadóttur velkomna í öflugan hóp Framsóknarfólks og í forystu sæti flokksins í kjördæminu.

„Ég er fullviss um að þessi nýja rödd Framsóknar og samvinnustefnunnar muni hljóma sterk fyrir kjördæmið og landið allt á Alþingi Íslendinga.“

Hér að neðan er yfirlýsing Sigurðar Inga í heild sinn:

„Síðustu dagar hafa verið dagar mikilla umbrota í íslenskum stjórnmálum. Á sunnudag tilkynnti forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins mér og formanni Vinstri grænna, og nokkrum mínútum síðar þjóðinni á blaðamannafundi, að hann hefði ákveðið að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Sú ákvörðun var formlega staðfest í gær með þingrofi og ríkisráðsfundi á Bessastöðum.

Það er því ljóst að kosningar til Alþingis verða haldnar eftir sex vikur.
Ef horft er á skoðanakannanir þá á Framsókn á brattann að sækja. Staða flokksins í Suðurkjördæmi er sú að enginn kjördæmakjörinn þingmaður Framsóknar næði inn á þing ef kosið væri nú. Það væri ekki aðeins slæmt fyrir flokkinn heldur er það einlæg trú mín að það séu hagsmunir kjördæmisins og þjóðarinnar að Framsókn eigi sterka rödd á þjóðþinginu. Ég hef því tekið ákvörðun um að leggja til við kjörstjórn Framsóknar í Suðurkjördæmi að Halla Hrund Logadóttir, starfandi orkumálastjóri, verði í fyrsta sæti á lista Framsóknar fyrir Alþingiskosningarnar 30. nóvember. Sjálfur býð ég mig fram í annað sæti.

Með þessari tillögu legg ég sjálfan mig undir. Enda lít ég svo á að sá formaður sem ekki leggur sjálfan sig að veði fyrir flokkinn sinn sé ekki sannur leiðtogi.

Ég býð Höllu Hrund velkomna í öflugan hóp Framsóknarfólks. Ég er fullviss um að þessi nýja rödd Framsóknar og samvinnustefnunnar muni hljóma sterk fyrir kjördæmið og landið allt á Alþingi Íslendinga.“

Halla Hrund Logadóttir hefur einnig sent frá sér yfirlýsingu sem má lesa í heild sinni hér að neðan:

„Kæru vinir og stuðningsfólk,
frá því ég man eftir mér hef ég verið knúin áfram af ástríðu fyrir landinu okkar, auðlindunum sem við eigum, og þeim tækifærum sem þær gefa okkur sem þjóð.

Eins og þið vitið hef ég aldrei tilheyrt stjórnmálaflokki, því ég hef alltaf séð mig fyrst og fremst sem Íslending, sem vill vinna með fólki úr öllum áttum með hagsmuni landsins okkar að leiðarljósi. Í kosningabaráttunni í vor fékk ég tækifæri til að vinna með einstöku fólki úr öllum stjórnmálaflokkum sem brennur fyrir samfélaginu okkar. Það sýndi mér svo vel að það sem sameinar okkur er sterkara en það sem sundrar – ástin á landinu og framtíðarsýn um betri tíð.

Það er einmitt þess vegna sem ég hef ákveðið að ganga til liðs við Framsókn. Að mínu mati er hann hvorki hægri né vinstri. Ég tengi flokkinn einnig sterkt við að vera einfaldlega eins og Íslendingur sem vill vinna ötullega að fyrir landið sitt enda er Framsókn elsti stjórnmálaflokkur landsins. Hann er flokkur sem leggur áherslu á samvinnu og málamiðlanir. Það skal vera nýr tónn stjórnmálanna og þannig vil ég vinna í Framsókn fyrir Ísland.

Það sem knýr mig til þátttöku á sviði stjórnmálanna eru auðlindamálin. Þar stöndum við á mikilvægum tímamótum, og ég tel það vera skyldu mína að leggja mitt af mörkum til að tryggja að auðlindir okkar séu nýttar á skynsaman og sanngjarnan hátt og að ábati þeirra renni til samfélagsins. Ég vil vera vakin og sofin yfir verðmætunum sem við eigum í einstakri náttúrunni og þeim ólíku nytjum sem hún gefur; fyrir komandi kynslóðir um ókomna tíð. Ég bið um stuðning ykkar til að geta unnið að þessum málum.

Hjarta mitt slær ekki síst fyrir landsbyggðina. Við megum aldrei missa sjónar á því að mikilvæg verðmæti – eins og fiskurinn í sjónum, orkan sem við treystum á, matvælin okkar og ferðaþjónustan – verða til víða um landið. Ég vil tryggja að allir landshlutar fái að taka þátt í þeirri þróun sem við upplifum í dag. Sterkir innviðir, fjölbreytt menningarlíf og atvinnumöguleikar um allt land skapa ekki aðeins betri lífskjör heldur líka fleiri spennandi tækifæri fyrir ungt fólk til að þroskast og vaxa hér heima.
Samhliða vil ég efla áherslu á líðan og samkennd í samfélaginu okkar, þvert á stétt, uppruna og stöðu. Það skiptir máli að allir hafi möguleika á að tilheyra og finna sér farveg. Einstaklingshyggjan og einangrun hópa má ekki taka yfir. Við erum í samfélagi, og samvinna og þátttaka skiptir öllu.
Húsnæðismálin eru mér einnig sérstakt hjartans mál því núverandi staða ýtir undir misskiptingu og sundrung. Það er ólíðandi að venjulegt fólk þurfi að keppa við fagfjárfesta á fasteignamarkaði. Slíkt ástand er ekki sjálfbært. Hér þarf skynsemi og stjórnmálamenn sem geta tekið ákvarðanir með almannahagsmuni í forgrunni.

Ég trúi á jákvæðni, drifkraft og skapandi lausnir á öllum sviðum, frá innviðum til íþrótta, menningar og lista, sem kjarna hver við erum. Slíkur metnaður á öllum sviðum lýsir sjálfstæðri þjóð í sókn sem hlúir að fólkinu sínu og gæðum landsins fyrir framtíðina. Ég vonast eftir þínum stuðningi í þá vegferð og hlakka til samstarfs við Sigurð Inga og ykkur sem flest næstu vikurnar.“

Categories
Fréttir

Spennandi dagur í vændum!

Deila grein

18/10/2024

Spennandi dagur í vændum!

Á laugardaginn 19. október verður stór dagur hjá Framsóknarfólki víðsvegar um landið. Við byrjum með kjördæmisþing í Suðurkjördæmi kl. 11.00 á fjarfundi. Kjördæmisþing þing í Suðvesturkjördæmi hefst kl. 13.00, í Bæjarlindinni í Kópavogi. Á sama tíma hefst kjördæmisþing í Norðvesturkjördæmi að Laugum í Sælingsdal.
Norðausturkjördæmi verður með aukakjördæmisþing á fjarfundi á Teams kl. 14.00.

Við viljum minna á söfnun meðmælenda á framboðslista Framsóknar – þið skráið ykkur inn með rafrænum skilríkum á hlekkinn hér að neðanog xB er að sjálfsögðu málið!

HLEKKUR Á MEÐMÆLENDASÖFNUN FRAMSÓKNAR

Aukakjördæmisþing KSFS

Laugardagur 19. október 2024 –

Boðað er til aukakjördæmisþings KSFS laugardaginn 19. október 2024 í fjarfundi á Teams kl. 11.00. (HLEKKUR)

Fyrir aukakjördæmisþinginu liggur aðeins eitt mál sem er að afgreiða aðferð við val frambjóðenda á framboðslista fyrir komandi alþingiskosningar.

Vegna þeirrar stöðu sem upp er kominn er uppstilling á framboðslista flokksins sú aðferð sem rúmast innan þess þrönga tímaramma sem fyrir liggur, en þarf engu að síður samþykki kjördæmisþings.

24. Kjördæmisþing KFSV

Laugardagur 19. október 2024 –

Boðað er til 24. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) laugardaginn 19. október að Bæjarlind 14-16 í Kópavogi.  Húsið opnar kl. 12:00 og verður boðið upp á kjötsúpu kl. 12:30 og þingið setning kl. 13:00.

24. Kjördæmisþing KFNV

19.-20. október 2024 –

Boðað er til 24. Kjördæmisþings Kjördæmissambands Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) dagana 19.-20. október að Laugum í Sælingsdal. Þingsetning er kl. 13.00 laugardaginn 19. október. Þinggjaldið er kr. 4.000,-

Formenn aðildarfélaga eru hvattir til þess að huga að því að manna kjörbréf fyrir þingið og gott væri að áhugasamir félagsmenn myndu tilkynna sig til þeirra.

Aukakjördæmisþing KFNA

Laugardagur 19. október 2024 –

Boðað er til aukakjördæmisþings KFNA laugardaginn 19. október 2024 á Teams kl. 14.00. (HLEKKUR)

Fyrir aukakjördæmisþinginu liggur aðeins eitt mál sem er að afgreiða aðferð við val frambjóðenda fyrir komandi alþingiskosningar.

Vegna þeirrar stöðu sem upp er kominn er uppstilling á framboðslista flokksins sú aðferð sem rúmast innan þess þrönga tímaramma sem fyrir liggur, en þarf engu að síður samþykki kjördæmisþings.

Categories
Fréttir Greinar

Á ríkið að svíkja samninga?

Deila grein

14/10/2024

Á ríkið að svíkja samninga?

Í vik­unni birt­ist frétt í Morg­un­blaðinu um til­lög­ur Viðskiptaráðs, en þær hafa það að mark­miði að spara rík­inu ákveðnar fjár­hæðir. Það sem þar kem­ur aðallega á óvart er að marg­ar til­lög­ur snú­ast um það að ríkið eigi að virða skuld­bind­ing­ar sín­ar að vett­ugi og draga úr mik­il­væg­um aðgerðum fyr­ir fólkið í land­inu.

Að eiga aðild að samn­ing­um er ábyrgð sem ber að sinna af heiðarleika og heil­ind­um og það er eng­um til heilla ef ríkið á að draga til baka lof­orð, skuld­bind­ing­ar og und­ir­ritaða samn­inga. Slík rík­is­stjórn myndi varla vera traust­vekj­andi í aug­um þjóðar­inn­ar, hvað þá ein­stak­linga sem binda mikl­ar von­ir við þær aðgerðir sem ríkið hef­ur skuld­bundið sig til.

Að sjálf­sögðu á ríkið að vera með ábyrga og skyn­sam­lega hag­stjórn. Við sjá­um að aðhald og aðgerðir nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar eru far­in að hafa áhrif á lækk­un verðbólgu og vext­ir eru byrjaðir að lækka.

Aðkoma að kjara­samn­ing­um

Það er um­hugs­un­ar­vert að svo virðist sem að Viðskiptaráð beri ekki mikla virðingu fyr­ir rót­gró­inni meg­in­reglu samn­inga­rétt­ar um að samn­inga skuli halda. Það er rétt að skipt­ar skoðanir eru á því hvort ríkið hefði átt að stíga inn í síðustu kjaraviðræður. Einnig er rétt að það er mik­il­vægt að við tök­um þátt í slík­um samn­ingaviðræðum af var­færni, eins og Viðskiptaráð hef­ur bent á. En þegar búið er að gefa fyr­ir­heit, þá er mik­il­vægt að standa við það sem lagt hef­ur verið fram.

Und­ir­rit­un kjara­samn­inga í mars sl. á al­menn­um markaði var mik­il­væg skref. Aðilar al­menna vinnu­markaðar­ins sýndu með þess­um samn­ing­um mikla ábyrgð og fram­sýni. Aðkoma stjórn­valda, bæði rík­is og sveit­ar­fé­laga, skipti sköp­um í þeirri samn­inga­gerð. Þær aðgerðir, sem ríkið skuld­batt sig til, eru til þess falln­ar að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­ila með sér­stakri áherslu á hús­næðis­upp­bygg­ingu, tryggja hús­næðisstuðning og stór­efla stuðning við barna­fjöl­skyld­ur. Þetta er stuðning­ur við þau sem standa höll­um fæti á hús­næðismarkaði og hafa orðið fyr­ir auk­inni byrði vegna hús­næðis­kostnaðar. Aðgerðir til að auka fram­boð íbúðar­hús­næðis stuðla að auknu jafn­vægi á hús­næðismarkaði og lægri hús­næðis­kostnaði.

Er Viðskiptaráð virki­lega að leggja til að auka byrði barna­fjöl­skyldna og auka byrði hús­næðis­kostnaðar þeirra sem síst geta? Það að svíkja skuld­bind­ing­ar sín­ar og láta þann hóp bera auk­inn kostnað get­ur haft langvar­andi áhrif þó svo að það myndi spara rík­is­sjóð ein­hverj­ar fjár­hæð í dag.

Mik­il­væg­ar aðgerðir rík­is­ins í hús­næðismál­um

Hvað varðar til­lögu Viðskiptaráðs um lækk­un vaxta­bóta­kerf­is­ins og hlut­deild­ar­lána er nauðsyn­legt að ít­reka að ríki og sveit­ar­fé­lög hafa aðkomu að þriðjungi af bygg­ingu hús­næðis ár hvert. Það er ekki nýtt að ríkið gangi til aðgerða á hús­næðismarkaði með það að mark­miði að grípa viðkvæma hópa og jafna aðgengi að markaðnum.

Tíma­bilið 2019-2024 hef­ur verið mesta upp­bygg­ing­ar­tíma­bil Íslands­sög­unn­ar, en það hef­ur þó ekki dugað til. Eft­ir­spurn eft­ir hús­næði hef­ur auk­ist um­tals­vert á stutt­um tíma sam­hliða mik­illi fólks­fjölg­un hér á landi. Því erum við að byggja und­ir áætlaðri íbúðaþörf, en ekki vegna aðgerðal­eys­is í hús­næðismál­um.

Við í Fram­sókn höf­um lagt höfuðáherslu á að auka aðgengi að hús­næði, sér­stak­lega fyr­ir ungt fólk, fyrstu kaup­end­ur og leigj­end­ur. Þetta ger­um við m.a. með hlut­deild­ar­lán­un­um, sem hafa reynst þess­um hóp­um vel og reynst mik­il­væg aðgerð í hús­næðismál­um.

Hlut­deild­ar­lán fyr­ir fyrstu kaup­end­ur eru kom­in til að vera og rík­is­stjórn­in hef­ur nú þegar samþykkt að veita 4 millj­arða til hlut­deild­ar­lána á þessu ári. Ann­ars veg­ar til að styðja við fyrstu kaup­end­ur og til að hvetja fram­kvæmdaaðila til að halda áfram að byggja. Eins var þetta til þess að fram­kvæmdaaðilar lækkuðu verð til að passa inn í viðmið hlut­deild­ar­lána. Hlut­deild­ar­lán­in stuðluðu bein­lín­is að því að halda fast­eigna­verði niðri, þvert á orð Viðskiptaráðs.

Við stönd­um við það sem segj­um

Til að mæta aukn­um vaxta­kostnaði heim­il­anna síðustu miss­eri var á ár­inu 2024 greidd­ur út sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur til heim­ila með íbúðalán. Grunn­fjár­hæðir hús­næðis­bóta og eigna­skerðinga­mörk í hús­næðis­bóta­kerf­inu hækka 1. júní 2024 auk þess sem aukið til­lit verður tekið til fjöl­skyldu­stærðar og munu fram­lög til hús­næðis­bóta aukast um 2,5 ma.kr. á árs­grund­velli vegna þessa.

Áfram verður dregið úr tekju­skerðing­um barna­bóta þannig að mun fleiri for­eldr­ar njóta stuðnings. Barna­bæt­ur hækka því ríf­lega og unnið verður að því í sam­starfi rík­is og sveit­ar­fé­laga að skóla­máltíðir grunn­skóla­barna verði gjald­frjáls­ar frá og með hausti 2024. Þá verða há­marks­greiðslur úr Fæðing­ar­or­lofs­sjóði hækkaðar í þrem­ur áföng­um á næstu tveim­ur árum. Þegar breyt­ing­ar á fram­lagi til Fæðing­ar­or­lofs­sjóðs verða að fullu komn­ar til fram­kvæmda árið 2027 nem­ur upp­söfnuð hækk­un um 5,7 ma.kr. á árs­grund­velli.

Við í Fram­sókn leggj­um mikla áherslu á hag ís­lensku þjóðar­inn­ar í heild m.a. með nauðsyn­legri íhlut­un rík­is­ins á hús­næðismarkaði. Við höld­um áfram með aðgerðir til að tryggja stöðug­leika og draga úr nei­kvæðum áhrif­um á hag­kerfið og vilj­um stuðla að því að áfram verði unnið með þann grund­völl sem þegar hef­ur verið lagður.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ísland verður leiðandi í gervigreind og máltækni

Deila grein

14/10/2024

Ísland verður leiðandi í gervigreind og máltækni

Þegar reyn­ir á stoðir tungu­máls okk­ar og menn­ing­ar finn­um við til ábyrgðar. Mál­efni tungu­máls­ins hafa sjald­an verið eins áber­andi í umræðunni og síðustu ár. Íslensk­an skipt­ir okk­ur öll máli og okk­ur þykir öll­um raun­veru­lega vænt um tungu­málið okk­ar. Því í tungu­mál­inu býr menn­ing okk­ar, merk og alda­göm­ul saga; sjálf þjóðarsál­in. Mál­tækni­áætl­un stjórn­valda og at­vinnu­lífs hef­ur skilað undra­verðum ár­angri fyr­ir tungu­málið svo eft­ir er tekið um all­an heim. Enn frek­ari aðgerða er þörf á því sviði og ég mun beita mér fyr­ir því að komið verði á fót gervi­greind­ar- og mál­tækni­miðstöð á Íslandi, í áfram­hald­andi sam­vinnu við at­vinnu­lífið.

Mik­il­vægi ís­lensk­unn­ar

Hæfni barna í móður­mál­inu ræður oft för um tæki­færi þeirra til framtíðar. Ég finn vel fyr­ir áhyggj­um Íslend­inga af framtíð tungu­máls­ins. Í minni ráðherratíð, sem ráðherra menn­ing­ar­mála, er þetta lík­lega það mál sem ég er tíðast brýnd til að beita mér fyr­ir. Fólk gef­ur sig á tal við mig úti á götu með áhyggj­ur af stöðu barn­anna okk­ar sem hrær­ast í ensku mál­um­hverfi, í sím­un­um og allt of oft í sjálf­um skól­un­um þar sem sí­fellt fleiri starfs­menn og sam­nem­end­ur þeirra tala litla sem enga ís­lensku. Þegar fólk geng­ur um miðbæ Reykja­vík­ur blasa við því upp­lýs­inga­skilti, aug­lýs­ing­ar og mat­seðlar á ensku. Er­lendu af­greiðslu­fólki fjölg­ar sí­fellt sem tal­ar enga ís­lensku. Nýj­ustu tækni­lausn­ir hafa síðasta ára­tug aðeins verið aðgengi­leg­ar á ensku. Ég leyfi mér þó að horfa bjart­sýn­um aug­um til framtíðar og segja að okk­ur sé að tak­ast að snúa þess­ari þróun við.

Íslensk­an er víða í sókn

Fjöld­inn all­ur af lausn­um sem aðstoða inn­flytj­end­ur við að læra ís­lensku hef­ur birst á síðasta ári, sem all­ar njóta veru­legra vin­sælda. Ég nefni þar sem dæmi RÚV ORÐ, sem kenn­ir fólki ís­lensku í gegn­um afþrey­ing­ar­efni RÚV, og Bara tala, for­rit með sér­sniðinni ís­lensku­kennslu eft­ir orðaforða úr mis­mun­andi starfs­grein­um á Íslandi. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér. Upp­lýs­inga­skilti í Leifs­stöð gera nú loks­ins ís­lensku hærra und­ir höfði en ensku, líkt og eðli­legt er á ís­lensk­um flug­velli eins og ég hef bent á ít­rekað und­an­far­in ár. Þetta gerðist ekki af sjálfu sér.

Stærstu mállíkön heims hafa á síðasta ári lært því sem næst lýta­lausa ís­lensku. Nýj­ustu fyr­ir­tækjalausn­ir, sem flest­ar eru byggðar ofan á þau líkön, eru því not­hæf­ar á ís­lensku. Áhrifa­mesta gervi­greind­ar­fyr­ir­tæki heims gum­ar af hæfni mállík­ans síns í tungu­máli sem um 350 þúsund manns tala, ís­lensku. Ekk­ert af þessu gerðist af sjálfu sér.

Sam­vinna at­vinnu­lífs og stjórn­valda skil­ar ár­angri

Far­sælt sam­starf stjórn­valda og at­vinnu­lífs í þróun á nýj­ustu tækni fyr­ir tungu­málið hef­ur sannað sig. Um­fangs­mik­il fjár­fest­ing stjórn­valda í þess­ari þróun, sem hófst árið 2018 með fyrstu mál­tækni­áætl­un, hef­ur borgað sig. Með söfn­un á gríðarlegu magni gagna á ís­lensku og þróun á gervi­greind­ar­tækni á ís­lensku hef­ur Ísland orðið leiðandi afl meðal smáþjóða í heimi mál­tækni og gervi­greind­ar. Fjár­fest­ing og þróun á tækni­leg­um innviðum sem þess­um í nafni tungu­máls og menn­ing­ar­arfs heill­ar þjóðar hef­ur vakið at­hygli út fyr­ir land­stein­ana. OpenAI, eitt stærsta gervi­greind­ar­fyr­ir­tæki heims, hef­ur viljað vinna náið með Íslandi á þess­um for­send­um: við deil­um áhuga með fyr­ir­tæk­inu á tungu­mál­inu og ger­um okk­ur grein fyr­ir að stærsta tækni­bylt­ing síðustu ára­tuga, gervi­greind­ar­bylt­ing­in, grund­vall­ast á sam­spili mann­legs tungu­máls og tölvu­tækni.

Áfram sækj­um við fram

Við erum hvergi af baki dott­in. Ég er þess full­viss að tækn­in muni á næstu árum, jafn­vel mánuðum, færa okk­ur lausn­ir við mörg­um af helstu vanda­mál­um sem nú ógna tungu­máli okk­ar. Tækni sem þýðir og tal­set­ur barna­efni með eins rödd­um og í upp­haf­legri út­gáfu þess er rétt hand­an við hornið. Fleiri tækni­lausn­ir sem auðvelda inn­flytj­end­um að læra ís­lensku eiga eft­ir að koma út. Nýj­ustu lausn­ir frá Microsoft og Google og fleiri tækn­iris­um verða aðgengi­leg­ar á ís­lensku. iP­ho­ne-sím­inn þinn mun á end­an­um geta talað ís­lensku. Ég er viss um það. En þetta ger­ist hins veg­ar ekki af sjálfu sér.

Við verðum að tryggja áfram­hald­andi þróun í ís­lenskri mál­tækni og gervi­greind og að mála­flokk­ar þess­ir tali sam­an. Um síðustu mánaðamót hrinti menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið ann­arri mál­tækni­áætl­un af stað, sem fel­ur í sér mikla fjár­fest­ingu og áfram­hald­andi sókn í mál­tækni. Þar er áhersl­an á hag­nýt­ingu þeirra innviða sem við höf­um smíðað síðustu ár og lausn­ir á ís­lensku sem gagn­ast al­menn­ingi og tungu­mál­inu.

Gervi­greind­ar- og mál­tækni­set­ur

Sýn okk­ar er að Ísland verði að koma á fót öfl­ugri ein­ingu, helst í sam­starfi stjórn­valda og at­vinnu­lífs, sem færi með mál­efni bæði gervi­greind­ar og mál­tækni. Slík ein­ing myndi vinna stöðugt að efl­ingu þess­ara greina á Íslandi, tryggja ný­sköp­un inn­an þeirra, hag­nýt­ar rann­sókn­ir há­skóla sem gagn­ast ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um og vera leiðandi afl á þessu sviði meðal smærri þjóða. Ísland hef­ur alla burði til að standa und­ir slíku starfi. Græn orka og nátt­úru­leg­ar aðstæður eru full­komn­ar fyr­ir fram­leiðslu á reikniafli, sem get­ur um­bylt tækniiðnaði og rann­sókn­ar­starfi á Íslandi. Íslenskt hug­vit og tækni geta staðið stolt á meðal fremstu þjóða heims, og efl­ing þessi verður reist á grund­velli menn­ing­ar og tungu­máls Íslend­inga. Við höf­um lagt til að ráðast í sam­starf við há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið um að gera þessa framtíðar­sýn að veru­leika og ég von­ast til að við get­um hafið þessa upp­bygg­ingu á allra næstu mánuðum. Mín von er að slík gervi­greind­ar- og mál­tækni­miðstöð yrði rek­in í sam­vinnu stjórn­valda og at­vinnu­lífs með ekki ósvipuðu fyr­ir­komu­lagi og Íslands­stofa. Hægt væri að sam­eina ýms­ar smærri stofn­an­ir og ein­ing­ar í mál­tækni, gervi­greind og ný­sköp­un und­ir ein­um hatti og auka hagræði í mála­flokk­un­um báðum á sama tíma og starf inn­an þeirra yrði eflt.

Bók­mennta­arf­ur Íslands þykir eitt af undr­um ver­ald­ar og er sann­ar­lega fram­lag okk­ar til heims­bók­mennt­anna. Að sama skapi hef­ur Ísland alla burði til að vera ein öfl­ug­asta gervi­greind­ar- og mál­tækniþjóð í heimi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. október 2024.

Categories
Greinar

Á­form um einka­væðingu á vatns­veitu Sand­gerðis

Deila grein

13/10/2024

Á­form um einka­væðingu á vatns­veitu Sand­gerðis

Í nútímasamfélagi er eitt mikilvægasta verkefni okkar að tryggja jafnan aðgang að grunninnviðum eins og vatni og rafmagni. Nú liggja fyrir áform um einkavæðingu á vatnsveitu Sandgerðis í Suðurnesjabæ, áform sem geta haft víðtækar og ófyrirséðar afleiðingar fyrir íbúa. Samkvæmt tillögu núverandi meirihluta bæjarstjórnar – Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans – er til skoðunar að selja vatnsveituna til HS Veitna. Við teljum þetta mál kalla á athygli og þátttöku íbúa.

Ákvörðun um einkavæðingu grunninnviða á borð við vatnsveitu á ekki aðeins við um rekstur heldur snýr hún beint að því hvernig við tryggjum jafnan og sanngjarnan aðgang að nauðsynlegum auðlindum. Með því að selja vatnsveituna til einkaaðila, eins og núverandi meirihluti leggur til, er verið að opna á möguleika þess að þjónusta muni fara frá almannaeign yfir í hendur einkafjárfesta, með ófyrirséðum afleiðingum. Þar sem þjónustugæði og verðlagning geta ráðist af arðsemiskröfum fjárfesta frekar en samfélagslegum hagsmunum.

Við þekkjum dæmi þar sem slík sala hefur farið fram áður, til dæmis í Garði, þar sem vatnsveitan var seld einkaaðilum. Þar missti sveitarfélagið yfirráð yfir mikilvægum vatnsréttindum við Árnarétt, sem nú gegnir lykilhlutverki á Reykjanesi vegna jarðhræringa. Nú er rekstur vatnsveitunnar í höndum HS Veitna, fyrirtækis sem er að stórum hluta í eigu einkafjárfesta. Reynslan ætti því að vera okkur víti til varnar þar sem slík sala hefur ekki endilega leitt til aukinna hagsbóta fyrir íbúa.

Upptaktur að einkavæðingu

Á 56. fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar lagði Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður ráðsins, fram starfsáætlun fyrir vatnsveituna. Þar kom í ljós að viðræður væru hafnar við HS Veitur um möguleg kaup á vatnsveitunni í Sandgerði, án þess að formleg umræða hefði átt sér stað innan stjórnsýslu Suðurnesjabæjar. Því er afar mikilvægt að íbúar Suðurnesjabæjar viti hvaða afleiðingar einkavæðing getur haft og hvaða áhrif hún hefur á rekstur og stjórnun vatnsveitunnar. Með því að vera vel upplýst og taka virkan þátt í umræðunni getum við tryggt að hagsmunir íbúa séu settir í forgang.

Grunninnviðir í eigu almennings

Grunninnviðir eins og vatnsveita eru lífsnauðsynlegir fyrir samfélagið. Opinber eign á slíkum innviðum tryggir aðgang allra óháð búsetu eða efnahag. Þegar auðlindir og grunninnviðir færast í hendur einkaaðila, er hætta á að þjónustan verði ekki lengur veitt á jafnræðisgrundvelli, þar sem hagsmunir fjárfesta geta orðið fyrirferðarmiklir.

Gagnsæi og aðkoma íbúa

Við eigum að standa vörð um vatnsveituna sem almannaeign og tryggja að hún haldist í opinberri eigu. Það er á ábyrgð okkar að tryggja að auðlindir okkar séu ekki seldar frá okkur án þess að við fáum tækifæri til að segja okkar skoðun.

Aðkoma íbúa að svona stórum ákvörðunum er lykilatriði. Stöndum saman og tryggjum að grunnþjónusta, eins og vatnsveitan, verði áfram í höndum almennings. Það er mikilvægt að íbúar séu vel upplýstir um slík áform og fái tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri þegar kemur að sölu á sameiginlegum innviðum.

Anton Guðmundsson og Úrsúla María Guðjónsdóttir bæjarfulltrúar Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Sunneva Ósk Þóroddsdóttir varabæjarfulltrúi Framsóknar.
Magnús Sigfús Magnússon óháður bæjarfulltrúi.

Categories
Fréttir

Hjördís Guðný nýr formaður Kvenna í Framsókn

Deila grein

13/10/2024

Hjördís Guðný nýr formaður Kvenna í Framsókn

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir var um liðna helgi kjörin nýr formaður á Landsþingi Kvenna í Framsókn. Fráfarandi formaður Guðveig Lind Eyglóardóttur gaf ekki kost á sér til endurkjörs og eru henni færðar þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf.

Hjördís Guðný hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Framsókn frá árinu 2017 og er meðal annars sitjandi formaður Framsóknar í Garðabæ. Hún er fulltrúi Framsóknar og minnihluta bæjarstjórnarinnar í Garðabæ í málefnahópi um málefni fatlaðs fólks og sem áheyrnarfulltrúi í skólanefnd Garðabæjar. Áður hefur Hjördís setið sem aðalmaður í stjórn Tónlistarskóla Garðabæjar og stjórn Kvenréttindafélags Íslands. Er Hjördís þá einnig varamaður í útflutnings- og markaðsráði, skipuð af Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra.

Hjördís Guðný er með B.Ed gráðu frá Háskóla Íslands og stundaði meistaranám í mannauðsstjórnun við sama skóla. Hefur hún starfað sem stjórnandi í grunnskóla um árabil og þar áður sinnt grunnskólakennslu og stigsstjórn.

Kröftugt þing Kvenna í Framsókn

„Var landsþingið kröftugt og rödd kvenna einróma í því að jafnrétti skuli setja á oddinn í málefnavinnu flokksins og að bakslag það sem sést hefur í samfélaginu hvað jafnrétti varðar sé áskorun sem stjórnvöld og félagasamtök verða að mæta af fullum krafti. Verkefnið sé ærið og snertir alla kima stjórnsýslunnar og samfélagsins,“ segir Hjördís Guðný.

Aðrar kjörnar í framkvæmdastjórn Kvenna í Framsókn eru þær Ásdís Helga Bjarnadóttir, Liv Åse Skarstad, Linda Hrönn Þórisdóttir, Margrét Vala Marteinsdóttir og Ragnheiður Ingimundardóttir. Til vara eru þær Ragnheiður Ingimundardóttir og Karítas Ríkharðsdóttir.

Landsstjórn Kvenna í Framsókn skipa:
Díana Hilmarsdóttir (Suður)
Fanný Gunnarsdóttir (Reykjavík norður)
Svava H. Friðgeirsdóttir (Suðvestur)
Rakel Dögg Óskarsdóttir (Reykjavík suður)
Sunna Hlín Jóhannesdóttir (Norðaustur)
Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir (Norðvestur)
Drífa Sigfúsdóttir (Suður)
Ingveldur Sæmundsdóttir (Reykjavík suður)
Magnea Gná Jóhannesdóttir (Reykjaík norður)
Pálína Margeirsdóttir (Norðaustur)
Ragnheiður Ingimundardóttir (Norðvestur)
Þórey Anna Matthíasdóttir (Suðvestur)

Skoðunarmenn reikninga voru kjörnar:
Hildur Helga Gísladóttir og
Þorbjörg Sólbjartsdóttir