Categories
Fréttir

Mikilvægi fjallaleiðsögunáms á Íslandi

Deila grein

07/04/2025

Mikilvægi fjallaleiðsögunáms á Íslandi

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnum um mikilvægi fjallaleiðsögunámsins við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu á Hornafirði. Námið, sem er einstakt á Íslandi, er í hættu vegna kostnaðar og er því kallað eftir stuðningi til að tryggja áframhaldandi starfsemi þess.

Mikilvægi fyrir ferðaþjónustu og almannavarnir

Halla Hrund vakti athygli á mikilvægi námsins fyrir öryggi og fagmennsku í fjallamennsku, sérstaklega á jöklum. „Þetta er nám í sérstakri leiðsögn á jöklum sem er afar mikilvægt fyrir öryggi og fagmennsku í okkar síbreytilegu náttúru. Námið er hið eina sinnar tegundar á Íslandi og starfar í höfuðstöðvum helstu jökla landsins þar sem ferðamannafjöldi hefur aukist um rúm 500% á undanförnum árum.“

Hún benti á að nemendur sem ljúka náminu fari flestir að starfa við fagið og að það sé mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna og almannavarnir.

Dómsmálaráðherra tekur undir mikilvægi námsins

Dómsmálaráðherra tók undir mikilvægi námsins í sínu svari og benti á að það hafi forvarnagildi. Hún nefndi að öryggismál landsmanna séu á ábyrgð dómsmálaráðuneytisins og að menntun á þessu sviði sé mikilvæg.

Halla Hrund lagði áherslu á að finna leiðir til að tryggja áframhaldandi starfsemi námsins og kallaði eftir samstarfi ólíkra ráðuneyta til að leysa málið.

„Við erum að tala um þetta forvarnagildi og öryggissjónarmið fyrir okkar lykilatvinnugrein.“

Dómsmálaráðherra sagðist ætla að taka málið til skoðunar og nefna það við aðra ráðherra.

Fjallaleiðsögunámið er mikilvægt fyrir öryggi og fagmennsku í fjallamennsku á Íslandi. Það er nauðsynlegt að finna leiðir til að tryggja áframhaldandi starfsemi þess til að stuðla að öryggi ferðamanna og almannavarna.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi gagnrýnir skort á samráði um varnarmál – kallar eftir auknu samstarfi Alþingis og ríkisstjórnar

Deila grein

07/04/2025

Sigurður Ingi gagnrýnir skort á samráði um varnarmál – kallar eftir auknu samstarfi Alþingis og ríkisstjórnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, átti orðastað við forsætisráðherra og ræddi samráð við Alþingi um öryggis- og varnarmál. Hann gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki nægilegt samráð áður en stefnumál eru lögð fram.

„Við höfum séð nýja ríkisstjórn fara af stað og í samskiptum hérna við þingið hef ég tekið eftir því að það er oft og tíðum þannig að ríkisvaldið virðist líta svolítið á að löggjafarþingið sé bara beinlínis framhald af framkvæmdarvaldinu,“ sagði Sigurður Ingi.

Áhyggjur af veiðigjöldum og fjármálaáætlun

Samkvæmt lögum og venjum ætti framkvæmdarvaldið að hafa samráð við löggjafarþingið áður en stefnumál eru lögð fram, sérstaklega þegar um er að ræða mikilvæg mál eins og öryggis- og varnarmál. Sigurður Ingi benti á að veiðigjöld hafi verið sett í samráð í aðeins sjö daga og að fjármálaáætlun hafi verið lögð fram án markmiða.

Samstarf við Kanada og Evrópusambandið

Sigurður Ingi lýsti áhyggjum sínum yfir því að utanríkisráðherra hafi talað um aukið samstarf við Kanada og Evrópusambandið án þess að ræða það við þingið. Hann spurði forsætisráðherra hvaða skilaboð hún myndi fara með á fund framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, síðar í vikunni.

Forsætisráðherra svaraði og sagði að utanríkisráðherra hafi skipað þverpólitíska nefnd til að fara yfir öryggis- og varnarmálin. Hún sagði að fundur með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins myndi snúast um hagsmuni Íslands í tollastríði. Hún lagði áherslu á að samstaða væri mikilvæg á þessum viðsjárverðu tímum.

Þverpólitískt samráð mikilvægt

Forsætisráðherra lofaði að upplýsa þingið um niðurstöður fundarins með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Categories
Fréttir Greinar

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Deila grein

07/04/2025

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Það er fátt sem sameinar okkur eins og þegar íslenskt íþróttafólk stígur inn á stóra sviðið erlendis. Flest þekkjum við tilfinninguna þegar við setjumst saman fyrir framan sjónvarpið, klædd í landsliðstreyju, með hjartað í buxunum og full af stolti. Við hvetjum íþróttafólkið okkar áfram, lifum okkur inn í leikinn. Fögnum þegar vel gengur, syrgjum saman og styðjum okkar fólk – sama hvar það er í heiminum. Við stöndum saman sem þjóð.

Dýrmætt starf sjálfboðaliða

En það gleymist stundum að í hvert skipti sem íslenskur íþróttamaður stendur á sviðinu, þá standa ótal sjálfboðaliðar að baki hans – ósýnilegir en ómissandi. Á bak við hvert mark, hverja medalíu og hvern leik liggur þrotlaus vinna sem á sér rætur í hverfinu heima. Á íþróttasvæðinu, í félagsheimilinu, á æfingunni, á mótunum – þar eru sjálfboðaliðarnir mættir til að aðstoða, skipuleggja, keyra, moka snjó af vellinum, setja upp rásir, selja vöfflur og svo margt fleira – allt án þess að fá borgað fyrir. Án þessa fólks væru engin landslið – og ekkert EM.

Áætlað er að sjálfboðaliðar í íþróttum vinni um 7,7 milljónir klukkustunda á ári. Verðmæti þeirrar vinnu er metið á yfir 15 milljarða króna á ári ef miðað er við tímagjald upp á um 1.950 kr. Þetta er byggt á greiningum og svörum félaga innan ÍSÍ og UMFÍ og birtist í skýrslu ÍSÍ um sjálfboðaliða 2024. Þetta sýnir svart á hvítu að íslenskt íþróttastarf stendur og fellur með þessu gríðarlega ólaunaða framlagi. Í raun er þetta stærsti „sjóðurinn“ sem hreyfingin byggir á – og hann er algjörlega háður vilja fólks til að gefa vinnu sína. Þó að starfið hafi haldist öflugt lengi, þá standa blikur á lofti.

Stöndum með sjálfboðaliðunum okkar

Vísbendingar eru um að erfiðara sé að fá fólk til sjálfboðastarfa en áður. Sérstaklega í ábyrgðarhlutverk eins og stjórnir og nefndir, fá fólk til að sjá um viðburði og halda utan um starfið. Hluti þess skýrist af auknum kröfum og væntingum – en einnig af því að sjálfboðaliðar búa oft við óljósa réttstöðu og takmarkaðan stuðning. Það dregur úr vilja fólks til þátttöku ef það veit ekki hvaða ábyrgð það ber – eða hvort það fái aðstoð ef eitthvað kemur upp á.

Þess vegna lagði undirrituð fram þingsályktunartillögu um aukið réttaröryggi sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Með því að skipa starfshóp með fulltrúum úr öllum lykilstofnunum viljum við greina stöðuna, skýra ábyrgð, bæta tryggingavernd, efla fræðslu og styðja við sjálfboðaliða með markvissum hætti.

Það þarf að tryggja að tryggingar séu til staðar – bæði gegn slysum og mögulegri ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis. Að verklýsingar séu skýrar. Að fræðsla og þjálfun sé aðgengileg. Að fólk viti hvað er verið að fara fram á – og hvað það fær til stuðnings. Það mun auka öryggi, draga úr brottfalli og ekki síst – hvetja fleiri til þátttöku.

Við viljum nefnilega hvetja fleiri til þátttöku. Það gerum við með því að gera hlutverk sjálfboðaliða skýrara, bjóða upp á handbækur, kynningar, aðgengi að upplýsingum – og ekki síst: sýna þakklæti. Það getur verið í formi viðurkenninga, fríðinda eða einfaldlega þess að einhver segi „takk fyrir“.

Íþróttahreyfingin hefur ekki efni á því að missa þetta fólk

Það er auðvelt fyrir okkur að fagna og hvetja áfram okkar afreksfólk og landslið Íslands. Við stöndum þétt saman þegar að þau keppa úti í heimi. En til að landsliðið verði til þurfa tugir, jafnvel hundruð sjálfboðaliða að hafa staðið vaktina árum saman. Nú er tími til kominn að við stöndum með fólkinu sem vinnur ósýnilegu vinnuna til að ryðja veginn svo afreksfólkið okkar geti haldið áfram að láta ljós sitt skína og skila árangri í hús.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. apríl 2025.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun KSFS

Deila grein

05/04/2025

Stjórnmálaályktun KSFS

25. Kjördæmisþing Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi haldið í Suðurnesjabæ 5. apríl 2025 skorar á ríkisstjórnina að endurskoða þegar verklag við breytingar á sköttum eða skattahækkunum.

Breytingar og hækkanir á sköttum geta haft víðtæk áhrif á atvinnulíf um allt land og mikilvægt að samráð sé haft við sveitarfélög landsins. Sveitarfélög eiga mikið undir að ríkið kollvarpi ekki atvinnugreinum og raski þannig lífskjörum heilu byggðarlaganna með óvandvirkum vinnubrögðum.

***

25. Kjördæmisþing Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi haldið í Suðurnesjabæ 5. apríl 2025 skorar á ríkisstjórnina að stórefla samstarf og samráð við sveitarfélögin í landinu og bera virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétt þeirra og hagsmunum íbúa þeirra.

***

Categories
Fréttir

Alvarlegir gallar í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Deila grein

05/04/2025

Alvarlegir gallar í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Á Alþingi fór fram í vikunni fyrri umræða fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2030. Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gagnrýndi í ræðu sinni harðlega að áætlunin væri án skýrra markmiða og mælikvarða og bryti þannig gegn lögum um opinber fjármál.

Skortur á mælanlegum markmiðum

Stefán Vagn benti á að ríkisstjórnin hafi ekki uppfyllt lagaskyldu sína um að setja fram mælanleg markmið og skýrar áherslur fyrir einstök málefnasvið í fjármálaáætluninni. „Einhverra hluta vegna hefur fjármála- og efnahagsráðherra gleymt að setja fram markmið og mælikvarða í umfjöllun um áherslur og málefnasvið,“ sagði Stefán Vagn. Í stað þess að veita greinargóða stefnumótun sé einungis vísað til ófullgerðra mælaborða og annarra gagna í vinnslu: „Það dugar ekki að vísa í mælaborð í vinnslu einhvers staðar uppi í sveit eða Word-skjal í mótun hjá einhverjum starfsmanni ráðuneytisins,“ bætti hann við.

Óskýrar útskýringar ráðherra

Fyrr um daginn hafði Stefán Vagn spurt fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann væri meðvitaður um skort á markmiðum í fjármálaáætluninni. „Ég þakka hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni fyrir að vekja athygli á því að þessir mælikvarðar eru ekki í þessari áætlun,“ sagði ráðherrann. Hann bætti við að mælikvarðar myndu koma fram með ársskýrslum ráðherra og útskýrði að fyrri ákvörðun um að hafa mælikvarða í fjármálaáætlun hafi verið tekin af „einhverjum fyrirrennara“ hans. Stefán Vagn svaraði ákveðið: „Hvernig á þingið að geta metið og tekið afstöðu til markmiða næstu ára innan málefnasviðanna ef þau koma ekki fram?“

Lagaskylda vanrækt

Í 20. grein laga um opinber fjármál er kveðið skýrt á um að ráðherrar skuli setja fram stefnu fyrir málefnasvið sín til a.m.k. fimm ára, þar sem tilgreind eru skýr og mælanleg markmið, ábyrgðarskipting og hvernig fjármunum verði varið. Þetta er lykilatriði svo Alþingi og almenningur geti fylgst með árangri af opinberri fjárnotkun.

Alþingi ófært um að meta árangur

Stefán Vagn segir að ríkisstjórnin hafi horfið frá því að setja fram þessi mikilvægu markmið í fjármálaáætluninni, sem gerir þinginu ómögulegt að meta raunverulegar áætlanir og áhrif þeirra. „Skýr markmið eru forsenda þess að Alþingi og almenningur geti metið hvort og hver árangurinn er af ráðstöfun opinbers fjár,“ sagði Stefán Vagn og nefndi dæmi um málefni eins og utanríkismál, nýsköpun og sjávarútvegsmál, þar sem stefnur séu annað hvort óskýrar eða í mótun, jafnvel eftir að ákvarðanir um veigamiklar breytingar, eins og hækkun veiðigjalda, hafi verið teknar.

Mótsagnir í málflutningi

Stefán Vagn gagnrýndi einnig mótsagnir varðandi stöðu ríkisfjármála, þar sem ríkisstjórnin talar nú um trausta stöðu þrátt fyrir fyrri fullyrðingar um slæmt ástand ríkissjóðs: „Þetta er sem sagt mat ríkisstjórnar á árangri síðustu ára, en er þetta ekki sama ríkisstjórnin og sagði við almenning þegar hún tók við að hún tæki við mun verri stöðu ríkissjóðs en áætlanirnar höfðu gert ráð fyrir? Það eru aðeins 100 dagar síðan það var fullyrt. Hér sjáum við ákveðna mótsögn sem vekur upp spurningu um trúverðugleika og samræmi í málflutningi.“

Fjármálaáætlun óboðleg

Stefán Vagn telur að þessi fjármálaáætlun uppfylli ekki lögbundnar kröfur og sé því óboðleg Alþingi og almenningi. Hann kallar eftir skýrum, mælanlegum og ábyrgum markmiðum sem nauðsynleg eru til að tryggja gagnsæi og árangur í opinberum rekstri. „Við getum og verðum að gera betur. Fjármálaáætlun á að vera vegvísir framtíðarinnar, skýr, ábyrg, mælanleg, með skiljanlegum markmiðum,“ sagði Stefán Vagn að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Komum náminu á Höfn í höfn

Deila grein

05/04/2025

Komum náminu á Höfn í höfn

„Við erum með þrjú gengi sem skiptast á, vinna í klukkutíma í senn við mokstur og niðurbrot á ís. Þannig munum við sigla áfram inn í daginn”, sagði Sveinn Rúnar Kristjánsson á vettvangi aðgerða í kjölfar hrun íshellisins í Breiðamerkurjökli síðastliðið haust.

Í slysinu lést einn ferðamaður. Það minnti harkalega á hversu mikilvæg þekking í leiðsögn er í síbreytilegu umhverfi jökla hér á landi. Þar skiptir fagmennskan öllu. Færni. Reynsla. Ábyrgð.

Þessa þrjá þætti hefur fjallamennskunámið við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) á Höfn einmitt lagt mikla áherslu á. Námið er eina sinnar tegundar á Íslandi. Það útskrifar fólk með eftirsótta þekkingu fyrir lykilgrein á Íslandi; ferðaþjónustuna. Slíkt er þarft og ekki síst „höfuðstöðvum“ helstu jökla landsins þar sem ferðamannafjöldi hefur aukist um rúmlega 500% á undanförnum árum.

Samhliða aukningu hafa ný ferðaþjónustufyritæki sprottið fram og eftirspurn eftir fólki með sérhæfða þekkingu í leiðsögn aukist langt umfram framboð. Svo mikið að ráðuneytisstjórahópur sem lagði mat á aðgerðir í kjölfar slyssins ályktaði sérstaklega; „að auka þyrfti kröfur um menntun og reynslu til þess að starfa í Vatnajökulsþjóðgarði“.

Öflugt nám er einfaldlega forsenda þess að leiðsögn á jökla, sem eru eitt helsta aðdráttarafl landsins, sé vönduð, enda er orðspor okkar sem áfangastaðar undir. Allt annað er áhætta fyrir fólk, fyrirtæki og framtíð ferðaþjónustunnar, greinar sem styður jafnframt blómlega byggð um allt land. Námið er einmitt uppskera kraftmikils fólks sem margt hvert sneri aftur heim í Öræfin með fjölbreytta menntun og reynslu í farteskinu.

Námsbrautinni á hins vegar nú að loka. Kostnaðurinn þykir of mikill. Spurningin ætti þó heldur að vera; hvað kostar Ísland að hafa ekki slíkt nám? Að ógna öryggi ferðaþjónustunnar sem telur í dag rúm átta prósent af landsframleiðslu Íslands. Að draga úr vaxtatækifærum í menntun og atvinnu utan höfuðborgarinnar. Hvernig framtíðarsýn er það?

Við mat á verðmæti námsins þarf einfaldlega að setja hlutina í stærra samhengi; víkka linsuna á vaxtatækifærin sem eru til staðar. Hægt væri að sækja hluta tekna til reksturs námsins frá erlendum nemendum og áhugafólki um útivist, og gefa kost á að nýta ákveðnar einingar þess á háskólastigi. Þetta þekkir undirrituð frá því að hafa byggt upp alþjóðlegt nám við Háskólann í Reykjavík og Harvard.

Til viðbótar við ferðaþjónustu mætti einnig horfa á þverrandi líðan ungs fólks og spyrja; er fjallamennskunám mögulega sproti sem við ættum að leyfa okkur sem þjóð að fjárfesta meira í sem hluta af samfélagsáherslu Íslands í menntun. Vel er þekkt að sú vellíðan og liðsheild sem myndast í samveru á fjöllum er á við margar vítamínssprautur og skapar bæði seiglu og þrótt fyrir verkefnin sem við fáum í fangið í lífsins ólgusjó.

Ég skora á hæstvirtan menntamálaráðherra að gefa náminu svigrúm til þess að finna nýjan farveg í stað þess að hætta stuðningi nú. Til þess þarf plan til eins til þriggja ára á meðan fjölbreyttari tekjugrundvöllur er þróaður. Ég trúi því að þingmenn óháð flokkum horfi sömu augum á málið og að við leggjumst öll á árarnar.

Komum náminu á Höfn í höfn; með langtímahagsmuni og metnaðarfulla sýn fyrir Ísland að leiðarljósi.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. apríl 2025.

Categories
Fréttir

Óvissa um aukinn varnarbúnað

Deila grein

04/04/2025

Óvissa um aukinn varnarbúnað

Jóhann Friðrik Friðriksson, varaþingmaður, flutti ræðu í störfum þingsins þar sem hann gagnrýndi skort á skýrum upplýsingum um aukinn varnarbúnað á Íslandi. Hann spurði hvað felist í auknum varnarbúnaði og hvort hann væri af hálfu íslenskra stjórnvalda eða annarra ríkja. „Hvað felst í auknum varnarbúnaði hér á landi? Er hann af hálfu okkar, íslenskra stjórnvalda? Er hann af hálfu annarra ríkja? Þetta skiptir gríðarlega miklu máli,“ sagði hann.

Áhyggjur af fjármögnun öryggismála

Jóhann Friðrik lýsti áhyggjum sínum af fjármögnun Landhelgisgæslunnar, lögreglu og almannavarna varðandi þjóðaröryggismál. Hann benti á að forsætisráðherra hafi eyrnamerkt 900 milljónir í Landhelgisgæsluna, sem hann sagði vera jákvætt skref, en að það þurfi að raungerast. „Ég hef verulegar áhyggjur af því hvernig hlutirnir blasa við varðandi fjármögnun Landhelgisgæslunnar, lögreglu og almannavarna varðandi þjóðaröryggismál sem tengjast okkar varnarmálum beint,“ sagði hann.

Aukið samstarf við Evrópusambandið

Jóhann Friðrik benti á að öryggismál í Evrópu kalli á aukið samstarf á milli ríkisstjórnar og Alþingis og upplýsingagjöf til þjóðarinnar. Hann vísaði til samtals utanríkisráðherra við fréttamann RÚV. „Þar kom fram að sækjast ætti eftir því að fjölga stoðum undir varnir landsins með auknu samstarfi við Evrópusambandið og sækjast eftir ákveðnum öryggistryggingum. Þetta er einmitt það sem við þurfum að ræða hér á þingi, hvað felst í því,“ sagði hann og bætti við: „Staðan er bara þannig að öryggismál í Evrópu kalla á aukið samstarf á milli ríkisstjórnar og þings og upplýsingagjöf til þjóðarinnar.“

Áskorun til ríkisstjórnarinnar ‒ tryggja skýra upplýsingagjöf til þjóðarinnar

Að lokum skoraði Jóhann Friðrik á ríkisstjórnina og þingið að halda samtali um öryggismál áfram og tryggja skýra upplýsingagjöf til þjóðarinnar. „Ég vil bara brýna ríkisstjórn og þing til þess að halda slíku samtali áfram og það skiptir máli að upplýsingagjöf frá stjórnvöldum um þennan málaflokk sé skýr,“ sagði hann.

Categories
Fréttir

Skortur á stuðningi við Suðurnes

Deila grein

04/04/2025

Skortur á stuðningi við Suðurnes

Fida Abu Libdeh, varaþingmaður, gagnrýndi skort á stuðningi við Suðurnes í ræðu í störfum þingsins. Hún spurði hvort svæðið væri sniðgengið og ef svo væri, hvers vegna. „Við verðum að spyrja: Er verið að sniðganga Suðurnes, og ef svo er, hvers vegna? Ef ekki, af hverju eru þessi tækifæri þá ekki nýtt?“ sagði hún.

Menntunarstigið það lægsta á landinu

Fida lagði sérstaka áherslu á menntamál og benti á að menntunarstigið á Suðurnesjum sé það lægsta á landinu og brottfall úr framhaldsskólum hátt. „Nemendur af erlendum uppruna fá ekki þann stuðning sem þau þurfa. Íslenskukennslan er ófullnægjandi. Það er engin móttökuleið til að aðlagast skólakerfinu. Þessi hópur týnist í kerfinu og við látum það gerast,“ sagði hún.

Fjármagn skilar sér ekki

Fida benti einnig á að fjármagn skili sér ekki á svæðið og lítil og meðalstór fyrirtæki fái ekki tækifæri til að vaxa. Hún sagði að traustið vanti, en framtíðarsýn sé til staðar. „Við á Suðurnesjum eigum auðlindir, við eigum hugmyndir, við eigum mannauð og við eigum Keili. Keilir er lykillinn að því að tengja saman menntun og atvinnulíf, sérstaklega í tækni og nýsköpun, en verkefnið þeirra bíður svars í ráðuneytinu,“ sagði hún.

Áskorun til ríkisstjórnarinnar

Að lokum skoraði Fida á ríkisstjórnina að hætta að horfa fram hjá Suðurnesjum, styðja við Keili, stækka FS, fjárfesta í menntun og stuðla að fjölbreytileika og sjálfbæru atvinnulífi. „Tækifærin eru á Suðurnesjum og við þurfum pólitískan vilja til að það verði að veruleika,“ sagði hún.

Categories
Fréttir

Fjármögnun nýrra hjúkrunarrýma í uppnámi

Deila grein

03/04/2025

Fjármögnun nýrra hjúkrunarrýma í uppnámi

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, efast um að fjárveitingar ríkisstjórnarinnar dugi til að fjölga hjúkrunarrýmum eins og stefnt er að. Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi spurði Ingibjörg fjármála- og efnahagsráðherra hvort fjárveitingar í fjármálaáætlun nægi raunverulega til að fjölga hjúkrunarrýmum um 100 á ári, eins og áður hefur verið rætt. Hún bendir á að samkvæmt núverandi áætlun verði aðeins hægt að byggja árlega 70-90 rými miðað við fyrirliggjandi fjármagn. Þá kallaði Ingibjörg eftir svörum um hvort tryggð séu nægileg framlög til reksturs þessara nýju rýma.

Ingibjörg bendir á að núverandi áætlun geri ráð fyrir 2,7 milljarða króna fjárfestingu árið 2026, sem nægi ekki til 100 hjúkrunarrýma miðað við raunverulegan kostnað. Hún vekur einnig athygli á því að uppbygging ein og sér nægi ekki; tryggja þurfi einnig rekstur og þjónustu.

„Er fjármálaáætlunin raunhæf og gerir hún í reynd ráð fyrir 100 nýjum hjúkrunarrýmum á ári eða fleirum? Og ef ekki, hvert er þá raunverulegt markmið ríkisstjórnarinnar varðandi fjölgun hjúkrunarrýma og hvernig er fjármögnun þjónustunnar tryggð?“

Fjármála- og efnahagsráðherra segir að fjárfestingarframlög hafi safnast upp vegna framkvæmda sem ekki hafi náðst að ljúka síðustu ár. Hann telur að með þessum uppsöfnuðu framlögum ásamt nýjum fjárveitingum í fjármálaáætlun sé raunhæft að ná markmiðum um fjölgun hjúkrunarrýma. Hann viðurkennir hins vegar að rekstur nýrra rýma sé ekki að fullu útfærður í áætluninni.

Ingibjörg spurði einnig hvort ríkisstjórnin hygðist halda áfram svokallaðri „leiguleið“, þar sem ríkið gerir langtímasamninga við fasteignafélög um byggingu og leigu hjúkrunarheimila. Hún gagnrýndi tregðu við að koma útboðum af stað. Fjármála- og efnahagsráðherra sagði leiguleiðina áfram vera meðal valkosta en að frekari skýringar þyrfti að sækja sérstaklega til Framkvæmdasýslunnar.

Ljóst er að óvissa ríkir um raunhæfa fjármögnun og framkvæmd fjölgunar hjúkrunarrýma. Ingibjörg krefst skýrari svara og aðgerða ríkisstjórnarinnar til að tryggja markmið um fjölgun rýma verði náð.

Categories
Fréttir Greinar

Að bregðast ungu fólki í við­kvæmri stöðu

Deila grein

03/04/2025

Að bregðast ungu fólki í við­kvæmri stöðu

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að sérstök áhersla verði lögð á að efla geðheilbrigðisþjónustu og styðja fjölbreytt rekstrarform. Þessi loforð eru innantóm, því fyrsta stórtæka aðgerðin í geðheilbrigðismálum nýrrar ríkisstjórnar er að loka Janusi endurhæfingu – úrræði sem hefur í 25 ár þjónustað einn viðkvæmasta hóp samfélagsins; ungt fólk með alvarlegan geðrænan og félagslegan vanda.

Þetta eru ungmenni sem hafa dottið út úr skóla og vinnu. Mörg þeirra með greiningu á einhverfurófi, þunglyndi, kvíða, áfallasögu og félagslega einangrun að baki. Þau hafa leitað víða í kerfinu – og fengið þau svör að úrræði sniðið að þeirra þörfum sé ekki til staðar. Í Janusi endurhæfingu hafa þau fundið skjól, fundið von og náð árangri. Rúmlega 56% (meðaltal) þeirra sem hafa lokið þjónustu síðastliðin 3 ár hafa farið í nám, vinnu eða virka atvinnuleit. Þjónustan sem Janus veitir skjólstæðingum sínum er veitt af sérfræðiteymi með sértæka þekkingu undir forystu geðlæknis með áratuga reynslu. Janus er einstök, þverfagleg og samhæfð þjónusta, sem finnst hvergi annarsstaðar í kerfinu.

Úrræðinu lokað – ekkert sambærilegt tekur við

Nú á að leggja þessa þjónustu niður. Starfsfólki hefur verið sagt upp. Engin sambærileg lausn er tilbúin. Fjöldi ungmenna – sem og þeir sem bíða eftir plássi – standa eftir í algjöru tómarúmi, óvissan um framtíðina þjakar aðstandendur þeirra líka.

Í fyrirspurn á Alþingi á dögunum, spurði ég heilbrigðisráðherra út í hvað taki við fyrir þetta unga fólk. Engin skýr svör fengust. Ekki hvar, ekki hvenær, ekki hvernig! Ekki einu sinni viðurkenning á því hversu alvarleg staðan er þegar ljóst er að ekkert úrræði mun taka á móti þessum viðkvæma og jaðarsetta hópi með sama hætti.

Það sem er einnig alvarlegt er að hvorki heilbrigðisráðherra né stjórnarþingmenn hafa sýnt því sóma að kynna sér starfsemi Janusar endurhæfingar á vettvangi. Fulltrúar Janusar endurhæfingar hafa boðið ráðherrum að koma og skoða aðstöðuna, kynna sér starfsemina. En engin heimsókn hefur orðið að veruleika. Þögnin er ærandi. Ábyrgðarleysið augljóst.

Fagfólk varar við

Geðlæknafélagið, Píeta samtökin, Þroskahjálp, Einhverfusamtökin og fleiri hafa varað við að úrræði á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs – sem nú eiga að taka við hlusta af þjónustunni – hafi ekki þá fagþekkingu sem til þarf. Ungmennin sem Janus endurhæfing þjónustar eru ekki tilbúin í hefðbundin atvinnutengd úrræði – þau þurfa fyrst geðræna endurhæfingu, í öruggu og samþættu umhverfi veitta af fagaðilum með sértæka þekkingu, reynslu og tryggum aðgangi að geðlækni.

Það er erfitt að sjá þessa ákvörðun sem annað en hugmyndafræðilega aðför að einkaframtaki. Það læðist að grunur – sem ekki er úr lausu lofti gripinn – að ef Janus endurhæfing hefði verið ríkisrekið úrræði, þá væri þetta ekki að gerast. En hér er það ekki kerfið sem þarf að verja – heldur unga fólkið.

Í þjónustukönnunum og viðtölum lýsa þátttakendur hvernig Janus endurhæfing hefur bjargað lífi þeirra, veitt þeim tilgang, sjálfstraust og nýja byrjun. Foreldrar ungmenna segja frá því að þar hafi þau loksins fundið stað sem skilur þarfir barnanna þeirra. Hvers konar samfélag lítur fram hjá þessari reynslu?

Það er siðferðilega rangt – og faglega ábyrgðarlaust – að loka virku úrræði án þess að annað jafngott sé tilbúið. Það er ekki boðlegt að færa slíka þjónustu yfir í almennara kerfi án mats, aðlögunar eða raunverulegs samtals við þá sem þekkja þjónustuna best.

Enn er glugginn opinn

En það er enn tími til stefnu. Heilbrigðisráðherra getur snúið frá þessari ákvörðun. Hún getur gert bráðabirgðasamning, tryggt áframhaldandi starfsemi á meðan unnið er að framtíðarsýn í samstarfi við fagfólk, notendur og aðstandendur.

Við eigum ekki að fórna framtíð ungs fólks fyrir kerfisreglur. Við eigum ekki að þegja þegar þjónusta sem virkar er tekin niður – af því hún er ekki hluti af stóru opinberu myndinni. Við verðum að láta í okkur heyra. Vegna þeirra sem ekki fá rödd – og vegna þess sem í húfi er.

Ef Janusi endurhæfingu verður lokað – þá er það í boði stjórnarmeirihlutans. Ráðamenn bera þá ábyrgð – bæði pólitíska og siðferðilega.

Unga fólkið okkar hefur stofnað undirskriftalista til að mótmæla þessari aðför að lífsbjargandi úrræði þeirra. Sýnum stuðning í verki;

https://island.is/undirskriftalistar/ace3bde9-f921-4833-b2ff-21e966be072d

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar.