Categories
Fréttir Greinar

40 ára garðveisla íslenskrar tónlistar á erlendri grundu

Deila grein

19/11/2023

40 ára garðveisla íslenskrar tónlistar á erlendri grundu

Á þessu ári eru liðin 40 ár frá því að fyrsta ís­lenska dæg­ur­tón­list­in náði inn á alþjóðlega vin­sældal­ista þegar Mezzof­orte náði hæst 17. sæti á breska vin­sældal­ist­an­um. Fram að þeim tíma höfðu verið gerðar marg­vís­leg­ar til­raun­ir til að afla vin­sælda á er­lendri grundu. Á lýðveld­is­tím­an­um hef­ur orðið mik­il þróun á ís­lenskri dæg­ur­tónlist. Gunn­ar Hjálm­ars­son hef­ur gert þess­ari sögu ágæt skil í bók­um sín­um og sjón­varpsþátt­um þeim tengd­um. Ein­hverj­ir ís­lensk­ir tón­list­ar­menn náðu að ferðast um og flytja tónlist sína á Norður­lönd­un­um og Norður-Evr­ópu á sjötta og sjö­unda ára­tugn­um, þ. á m. Ragn­ar Bjarna­son, Hauk­ur Mort­hens og KK-sex­t­ett­inn. Þessi út­rás var ekki ein­ung­is karllæg, þar sem upp úr miðjum sjötta ára­tugn­um fór laga­smiður­inn og söng­kon­an Ingi­björg Þor­bergs til Banda­ríkj­anna með lög sín. Aðrar til­raun­ir til út­rás­ar voru gerðar á sjötta og sjö­unda ára­tugn­um og þekkt­ustu dæmi þess lík­lega Thor’s Hammers og Change í Bretlandi. Það var þó ekki fyrr en með djass­blend­inni tónlist Mezzof­orte árið 1983 að ís­lensk tónlist náði eyr­um er­lenda hlust­enda og sautjánda sæt­inu á breska vin­sældal­ist­an­um. Það leið síðan ekki á löngu þar til Syk­ur­mol­arn­ir fylgdu þessu eft­ir árið 1987 og náðu mikl­um vin­sæld­um beggja vegna Atlantsála og hin ein­staka Björk kom þar síðan í beinu fram­haldi.

Við eig­um frá­bæra tón­list­ar­menn á Íslandi og tónlist þeirra stend­ur fyr­ir sínu, en það gleym­ist stund­um að horfa til vinn­unn­ar baksviðs við að koma tón­list­inni á fram­færi og hafa marg­ir í gegn­um tíðina unnið öt­ul­lega að því með ágæt­um ár­angri. Hið op­in­bera hef­ur stutt við út­rás ís­lenskr­ar tón­list­ar með marg­vís­leg­um hætti frá ár­inu 1995. Í ný­stofnaðri Tón­list­armiðstöð hef­ur öll­um öng­um tón­list­ar verið safnað sam­an und­ir einn hatt og er þar meðal ann­ars að finna Útón, sem stutt hef­ur við kynn­ingu ís­lenskr­ar tón­list­ar á er­lendri grund frá ár­inu 2006.

Frá þeim tíma að Mezzof­orte náði inn á vin­sældal­ista er­lend­is hef­ur fjöldi ís­lenskra dæg­ur­tón­list­ar­manna náð fót­festu er­lend­is og má þar meðal ann­ars nefna Syk­ur­mola, Björk, Em­ilíönu Torr­ini, Sig­ur­rós, Gusgus, Jó­hann Jó­hanns­son, OMAM, Kal­eo, Hildi Guðna­dótt­ur, ADHD, Vík­ing Heiðar, Ásgeir Trausta, Ólaf Arn­alds, Ásdísi, Daða Frey og nú síðast Lauf­eyju. Það sem vek­ur at­hygli er fjöl­breytn­in í þess­um hópi lista­manna og seg­ir það til um þá miklu gerj­un sem er að finna í tón­list­ar­líf­inu á Íslandi. Í þeim efn­um ber sér­stak­lega að minn­ast á fram­lag þeirra tón­list­ar­manna sem kosið hafa að starfa ein­ung­is inn­an­lands. Ef litið er til þessa hóps vek­ur styrk­ur kvenna jafn­framt at­hygli.

Við til­nefn­ingu til Grammy-verðlauna fyrr í þess­um mánuði kom fram að tveir ís­lensk­ir lista­menn auk Sin­fón­íu Nord á Ak­ur­eyri voru til­nefnd­ir til verðlauna, sem eru auðvitað frá­bær­ar frétt­ir, en þykir í raun ekki leng­ur mikið til­töku­mál þar sem nokk­ur hóp­ur ís­lenskra lista­manna hef­ur áður fengið til­nefn­ing­ar og jafn­vel hreppt verðlaun. Það seg­ir jafn­framt ým­is­legt að ef ein­ung­is er horft til streym­isveit­unn­ar Spotify nálg­ast fimm efstu ís­lensku lista­menn­irn­ir nærri 40 millj­ón­ir mánaðarlegra hlust­enda. Það er ekki slæm­ur ár­ang­ur á 40 árum fyr­ir þjóð sem nú tel­ur 400 þúsund manns.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. nóvember 2023.