Þinglok urðu á 154. löggjafarþingi Alþingis um síðustu helgi. Þar með lauk viðburðaríkum þingvetri þar sem fjölmörg mál komu til kasta löggjafans. Sem menningar- og viðskiptaráðherra lagði ég fram 11 frumvörp og þingsályktunartillögur sem voru afgreidd. Má þar til dæmis nefna þingsályktunartillögu um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030 sem var samþykkt en með stefnunni er leiðin fram á við mörkuð til þess að styrkja umgjörð þessarar stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar þjóðarbúsins. Stjórnvöld eru staðráðin í styðja við þróun ferðaþjónustunnar hér á landi, stuðla að samkeppnishæfni hennar og tryggja að hún vaxi í sátt við náttúru og menn. Þá samþykkti Alþingi einnig þingsályktunartillögur mínar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu og nýja málstefnu um íslenskt táknmál sem mun stuðla að aukinni framþróun þess. Íslenskan hefur mikið verið til umræðu á undanförnum misserum sem er fagnaðarefni. Það liggur fyrir að tungumálið okkar stendur frammi fyrir áskorunum af áður óþekktri stærð sem bregðast verður við með skipulögðum hætti.
Ýmsar lagabreytingar urðu að veruleika á sviði viðskiptamála eins og til dæmis breytingar á lögum um samvinnufélög sem snúa að því að einfalda stofnun samvinnufélaga, þannig að lágmarksfjöldi stofnenda samvinnufélaga fari úr 15 í þrjá og tryggja að eignum samvinnufélaga verði útdeilt til uppbyggingar á starfssvæðum þeirra komið til slita á félögunum. Hert var á lögum um rekstrarleyfisskylda gististarfsemi þannig að hún skuli vera í samþykktu atvinnuhúsnæði. Því er ekki lengur heimilt að gefa út leyfi til reksturs gististaða í íbúðarhúsnæði. Með breytingunum er ekki lengur hægt að kaupa íbúðarhúsnæði í þéttbýli og gera það út sem gististað umfram 90 daga regluna líkt og gerst hefur í miðborginni þar sem jafnvel heilu íbúðablokkirnar hafa breyst í hótel. Með tímanum mun breytingin auka framboð af íbúðarhúsnæði í þéttbýli. Með breytingum á kvikmyndalögum var tryggð heimild fyrir nýjum styrkjaflokki innan Kvikmyndasjóðs til lokafjármögnunar á umfangsmiklum leiknum sjónvarpsþáttaröðum. Þannig verður mögulegt að fjármagna síðustu 15-20% í framleiðslu á stórum leiknum sjónvarpsþáttum og fá hluta styrksins aftur inn til Kvikmyndasjóðs, skili verkefnið hagnaði samkvæmt settum viðmiðum styrksins. Tímabærar breytingar á lögum um listamannalaun voru samþykktar en fjöldi listamannalauna hefur staðið óbreyttur í 15 ár. Með breytingunum verður umfang listamannalauna aukið um 55% á fjórum árum sem mun gefa fleiri listamönnum tækifæri til að efla íslenska menningu, meðal annars með tveimur nýjum sjóðum; Launasjóði kvikmyndahöfunda og Vegsemd, sjóði listamanna 67 ára og eldri.
Það er ánægjulegt og gefandi að vinna málaflokkum menningar- og viðskiptaráðuneytisins brautargengi en málefnasvið ráðuneytisins eru umfangsmikil og snerta þjóðarhag með fjölbreyttum hætti. Innan ráðuneytisins er undirbúningur að málum næsta þingvetrar þegar hafinn, málum er verður er ætlað að gera gott samfélag enn betra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. júní 2024.