Categories
Fréttir

Ágætu félagar!

Deila grein

19/11/2021

Ágætu félagar!

Haustfundur miðstjórnar hafði verið ákveðinn helgina 4.-5. desember næstkomandi af landsstjórn flokksins. Þegar ákvörðunin var tekin fyrr í haust vorum við í þokkalegri stöðu gagnvart veirunni og allt leit út fyrir að hægt yrði að halda fundinn vel innan samkomutakmarkana. Það leit út fyrir að við gætum hist, rætt málin og fagnað góðum kosningasigri. 

Hins vegar hefur veiran enn og aftur gert okkur lífið leitt og enn hefur verið hert á sóttvarnartakmörkunum og ekki fyrirsjáanlegt að því linni á næstu vikum. Nú er aftur komið 50 manna hámark á fjöldatakmarkanir og ljóst að miðstjórnarfundur passar ekki í þann ramma. 

Því var ákveðið á fundi landsstjórnar í gær að slá af hinn hefðbundna haustfund miðstjórnar. Engu að síður má búast við því að boðað verði til miðstjórnarfundar þegar stjórnarmyndunarviðræður klárast. Þá gefst tækifæri til þess að ræða málin og vonandi greiða atkvæði um stjórnarsáttmála. Boðað verður til þess fundar með styttri fyrirvara en hefðbundið er fyrir miðstjórnarfundi í samræmi við lög Framsóknar. Mun sá fundur verða haldinn rafrænt á netinu í ljósi samkomutakmarkana. Landsstjórn mun funda fljótlega aftur og gera tillögu að dagsetningu flokksþings á nýju ári sem lögð verður fyrir þann miðstjórnarfund til afgreiðslu.

Við vonumst því til að sjá þá sem flesta miðstjórnarfulltrúa, þó á skjá verði, á þeim fundi sem haldinn verður vonandi fljótlega og óskandi getum við sem fyrst hvatt þessa veiru niður í eitt skiptið enn og farið að lifa eins eðlilegu lífi og hægt er.

Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknar og formaður landsstjórnar.