Categories
Greinar

Með fjölskyldur í Fjarðabyggð í fyrirrúmi

Deila grein

21/04/2022

Með fjölskyldur í Fjarðabyggð í fyrirrúmi

Sumardagurinn fyrsti er runninn upp. Þessi dagur hefur í gegnum tíðina verið helgaður börnum og fjölskyldum, löngum verið mikill hátíðisdagur og markar að mörgu leyti nýtt upphaf þegar drungi og kuldi vetursins byrjar að víkja fyrir birtu og yl sumarsins. Það er því er ekki úr vegi nú í upphafi sumars, og lok kjörtímabils, að horfa yfir farinn veg og skoða aðeins það sem hefur áunnist á síðustu fjórum árum í málefnum fjölskyldna í Fjarðabyggð.

Stefna Fjarðabyggðar hefur verið sú að sveitarfélagið sé í fremstu röð sem góður staður fyrir fjölskyldur og þess vegna hefur verið lögð áhersla á stuðning við þær. Á þessu kjörtímabili hefur fjármunum þannig verið forgangsraðað í þágu fjölskyldna og rík áhersla lögð á stefnumótun í málaflokkum sem snúa að þeim.

Skólamál

Á þessu kjörtímabili hefur bæjarstjórn Fjarðabyggðar undirstrikað áherslur sínar með ákvörðunum um byggja undir öflugt og gott samfélag þar sem málefni fjölskyldna eru í forgrunni. Þannig hefur fjármunum og krafti verið varið í uppbyggingu skólamannvirkja – og af því erum við stolt.

Á því kjörtímabili sem senn lýkur hefur m.a. verið lokið við að stækka leikskólann Lyngholt á Reyðarfirði og er húsnæði skólans nú vel í stakk búið til að takast á við fyrirsjáanlega fjölgun íbúa til framtíðar. Þá var ráðist í miklar framkvæmdir við húsnæði og lóð grunnskólans á Breiðdalsvík. Leikskólanum á Breiðdalsvík var einnig komið þar fyrir þannig að nú er miðstöð alls skólastarfs í Breiðdal komið undir eitt þak við góðar aðstæður. Þá hefur undirbúningur að stækkun leikskólans á Eskifirði verið í gangi og skrifað verður undir verksamninga þar um nú á næstu dögum og framkvæmdir hefjast þar í kjölfarið. Þá eru að hefjast framkvæmdir við lóð Nesskóla á Norðfirði á sumri komanda sem eru löngu tímabærar. Þetta eru nokkur þau atriði sem upp úr standa eftir kjörtímabilið.

Íþrótta- og tómstundamál

Íþrótta- og tómstundamál eru og munu verða fyrirferðamikil í rekstri sveitarfélagins, og einn af þeim þáttum sem horft er til þegar rætt er um öflugt fjölskyldusamfélag. Íþrótta- og tómstundastarf á breiðum grunni er mikilvægur hlekkur í fornvarnarstarfi og Fjarðabyggð býr vel því að í byggðakjörnum sveitarfélagsins eru rekin öflug íþróttafélög með mikla og góða starfsemi þar sem horft er til þess að flestir finni eitthvað við sitt hæfi.

Eitt af þeim stóru verkefnunum sem ráðist var í í kjörtímabilinu og ljúka mun á næstu mánuðum er bygging nýs íþróttahús á Reyðarfirði. Við sölu á Rafveitu Reyðarfjarðar árið 2020, var ákveðið að nýta þá fjármuni sem til yrðu til uppbyggingar innviða á Reyðarfirði. Fyrir valinu varð að ráðst í byggingu á nýju og glæsilegu íþróttahúsi sem nú er risið á á svæðinu við Fjarðabyggðarhöllina og Grunnskóla Reyðarfjarðar. Um þessar mundir er unnið að því að ljúka við gerð byggingarinnar og er það von okkar að hún verði komin í full not á haustdögum. Með tilkomu þessa húss bætist enn í flóru glæsilegra íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu sem ýta mun undir enn öflugra starf á þeim vettvangi til framtíðar.

Þá hófst á árinu 2021 tilraunaverkefni nýs kerfis almenningssamgangna í Fjarðabyggð sem stendur til áramóta 2022. Hinu nýja kerfi var ætlað að leysa af hólmi allskyns akstur sem Fjarðabyggð stóð fyrir um sveitarfélagið í tengslum við skóla, vinnu og íþrótta- og tómstundastarf. Í mínum huga er hér um gríðarstórt mál að ræða sem snertir fjölskyldur í Fjarðabyggð. Um er að ræða tímamóta tilraun til að tengja betur saman byggðakjarna sveitarfélagins og gera fólki kleift að sækja skóla, vinnu,og þjónustu þvert á sveitarfélagið. Með kerfinu opnast auk þess á möguleika barna og ungmenna, sem og fullorðinna, til að sækja íþróttaæfingar, afþreyingu og menningu utan síns byggðakjarna og styrkir það samfélagið okkar í Fjarðabyggð allt. Strax í sumar þarf að hefja vinnu við að meta árangur verkefnisins og koma á kerfi sem keyrt verður eftir til framtíðar.

Öflug og góð samstaða bæjarstjórnar

Uppbygging og verkefni tengd málum barna, fjölskyldna og þjónustu við þau eru stór og kostnaðasöm. Þegar kemur að slíkum verkefnum og forgangsröðun í þeirra þágu er ekki sjálfgefið að yfirvöldum á hverjum tíma takist að ná samstöðu um slíka uppbyggingu. Í Fjarðabyggð hefur bæjarstjórn sem betur fer tekist það og myndast hefur góð samstaða um flestar ákvarðanir sem teknar hafa verið í bæjarstjórn og nefndum og ráðum sveitarfélagsins þvert á flokkslínur sem hefur verið mikið gæfuspor. Samvinna er alltaf grundvöllur til góðra verka.

Höldum áfram á sömu braut!

Hér á undan hefur verið aðeins verið tæpt á nokkrum þeirra framfaraskrefa sem tekin hafa verið við þjónustu við fjölskyldur í Fjarðabyggð undanfarin fjögur ár. Ekki síður er hægt að nefna stofnun Fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar í upphafi kjörtímabilsins, en undir það heyra fjölskyldumál í víðum skilnigu; félagsþjónusta, barnavernd, grunnskólar, leikskólar og tónlistarskólar, æskulýðs- og íþróttamála og frístundamál barna og ungmenna. Með stofnun sviðsins hefur náðst mikil og góð yfirsýn yfir alla þessa málaflokka, og sviðinu gert kleift að takast betur á við þau fjölþættu og mikilvægu verkerfni sem undir þessa málaflokka heyra. Þá hefur verkefnið Sprettur, þar sem unnið er eftir hugmyndafræði um snemmtæka íhlutun og grípa fljótt inn í vanda barna með viðeigandi stuðningi úr nærumhverfinu, gefist vel og árangur verið afar góður.

Framsókn í Fjarðabyggð vill að haldið verði áfram á þessari sömu braut og Fjarðabyggð verði áfram í fararbroddi þegar kemur að þjónustu við börn og fjölskyldu og góð samstaða náist áfram um þau verkefni. Framsókn í Fjarðabyggð vill hafa fjölskyldur í Fjarðabyggð áfram í fyrirrúmi og er tilbúið til að halda áfram á þeirri vegferð til framtíðar. Við óskum því eftir stuðningi kjósenda í sveitarfélaginu þann 14.maí nk. til þess.

Að lokum sendi ég íbúum Fjarðabyggðar og landsmönnum öllum mínar bestu óskir um gleðilegt og veðursælt sumar!

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og situr í 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Fjarðabyggð.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. apríl 2022.

Categories
Fréttir

Ágætu félagar!

Deila grein

19/11/2021

Ágætu félagar!

Haustfundur miðstjórnar hafði verið ákveðinn helgina 4.-5. desember næstkomandi af landsstjórn flokksins. Þegar ákvörðunin var tekin fyrr í haust vorum við í þokkalegri stöðu gagnvart veirunni og allt leit út fyrir að hægt yrði að halda fundinn vel innan samkomutakmarkana. Það leit út fyrir að við gætum hist, rætt málin og fagnað góðum kosningasigri. 

Hins vegar hefur veiran enn og aftur gert okkur lífið leitt og enn hefur verið hert á sóttvarnartakmörkunum og ekki fyrirsjáanlegt að því linni á næstu vikum. Nú er aftur komið 50 manna hámark á fjöldatakmarkanir og ljóst að miðstjórnarfundur passar ekki í þann ramma. 

Því var ákveðið á fundi landsstjórnar í gær að slá af hinn hefðbundna haustfund miðstjórnar. Engu að síður má búast við því að boðað verði til miðstjórnarfundar þegar stjórnarmyndunarviðræður klárast. Þá gefst tækifæri til þess að ræða málin og vonandi greiða atkvæði um stjórnarsáttmála. Boðað verður til þess fundar með styttri fyrirvara en hefðbundið er fyrir miðstjórnarfundi í samræmi við lög Framsóknar. Mun sá fundur verða haldinn rafrænt á netinu í ljósi samkomutakmarkana. Landsstjórn mun funda fljótlega aftur og gera tillögu að dagsetningu flokksþings á nýju ári sem lögð verður fyrir þann miðstjórnarfund til afgreiðslu.

Við vonumst því til að sjá þá sem flesta miðstjórnarfulltrúa, þó á skjá verði, á þeim fundi sem haldinn verður vonandi fljótlega og óskandi getum við sem fyrst hvatt þessa veiru niður í eitt skiptið enn og farið að lifa eins eðlilegu lífi og hægt er.

Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknar og formaður landsstjórnar.

Categories
Greinar

„Ég trúi á mátt hinna mörgu“

Deila grein

21/03/2021

„Ég trúi á mátt hinna mörgu“

Framsóknarflokkurinn er leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum og hefur verið það um langt skeið enda elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins. Flokkurinn hefur undanfarin fjögur ár, eins og oft áður, verið kjölfestan í farsælu ríkisstjórnarsamstarfi ólíkra flokka og er þar brú á milli ólíkra sjónarmiða. En það eru ekki bara ráðherrar og þingmenn sem eiga heiðurinn að því, heldur ekki síður öflug fylking framsóknarfólks um allt land sem af sannfæringu talar máli flokksins og stefnu hans. Hin öfluga grasrót, sem finna má innan flokksins, er nefnilega einn helsti styrkur hans og auður og í henni endurspeglast svo sannarlega eitt af kjörorðum samvinnustefnunnar; „Máttur hinna mörgu“.

Ég hef í störfum mínum sem ritari Framsóknarflokksins undanfarin ár fengið að kynnast því öfluga flokkstarfi sem finna má um allt land sem er lífæð flokksins. Framsóknarflokkurinn byggir á öflugri samvinnu flokksmanna enda vitum við að þannig náum við bestum árangri; með góðri samvinnu og samtali þar sem ólík sjónarmið eru leidd fram og náum við best sameiginlegri og farsælli niðurstöðu. Það er því nauðsynlegt fyrir kjörna fulltrúa að rækta sambandið við fólki í flokknum og tryggja þannig gott og öflugt samstarf við grasrótina.

„Að vera í sambandi við annað fólk, er mér lífsnauðsyn.“

Svo kváðu Stuðmenn í frægum söngtexta sem fjallar um mikilvægi þess að efla góð sambönd við annað fólk. Á fundum mínum með framsóknarfólki í Norðausturkjördæmi nú í aðdraganda póstkosningar flokksins fyrir komandi kosningar til Alþingis, sem og á fundum með flokksfólki um land allt land, heyri ég þá miklu áherslu sem það leggur á að tengsl kjörinna fulltrúa við grasrótina heima í héraði sé góð. Þannig er það upplifun einhverra að þessi tengsl hafi minnkað með samfara stækkandi kjördæmum og auknum skyldum sem lagðar hafa verið á hendur kjörinna fulltrúa á báðum stjórnsýslustigum.

Það er ekki vænlegt til árangurs ef grasrótin, sem er öflugasti talsmaður framsóknarstefnunnar um allt land, upplifir slíkt í flokki sem byggir grundvallarhugsjón sína á samvinnu. Því er mikilvægt að við reynum með öllum ráðum að treysta sambandið við grasrótina og tryggja að raddir flokksmanna heyrist.

Norðausturkjördæmi er stórt, líkt og landsbyggðarkjördæmin eru öll, og það er kannski ekki óeðlilegt að menn upplifi fjarlægð við kjörna fulltrúa sína í svo víðfeðmu kjördæmi. En eitt af því sem yfirstandandi heimsfaraldur hefur kennt okkur er að fjarlægð milli fólks þarf ekki að þýða skort á tengslum. Með því að nýta tæknina má á auðveldan hátt viðhalda góðu sambandi við fólk óháð staðsetningu. Öll erum við að verða vön því að nýta okkur fjarfundatæknina á svo mörgum sviðum í starfi og leik og þannig getum við líka nýtt okkur hana í reglulegt samtal við flokksmenn um þau mál sem brenna á hverju sinni.

Það er nefnilega í hreinskiptum samskiptum meðal flokksmanna sem við brýnum og eflum stefnumál Framsóknarflokksins hverju sinni. Þannig myndum við öfluga breiðfylkingu á bakvið kjörna fulltrúa flokksins, sem skilar sér síðan í umræðuna út í samfélaginu. Kjörnir fulltrúar verða að hlusta, þeir verða að taka gagnrýni og svara henni, og standa síðan fyrir máli sínu gagnvart þeim sem veittu þeim umboð sitt til starfa. Þeir eru talsmenn þeirra og þetta samband má ekki trosna eða slitna. Þá er til lítils á stað farið.

Verum í sambandi!

Eins og hér er sagt að framan þá er það þungamiðja vexti og viðgangi Framsóknarflokksins til framtíðar að tengsl kjörinna fulltrúa við grasrótina séu sterk. Þau tengsl þarf að rækta vel. Það verður því eitt af fyrstu verkefnum, í upphafi nýs kjörtímabils, þingmanna Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi að byggja upp öflugt samband við fólkið sitt í kjördæminu sem og alla íbúa þess. Það er þangað sem umboðið er sótt. Og munum að það er hlutverk okkar allra sem Framsóknarflokkinn myndum að vera talsmenn Framsóknarstefnunnar. Stefnu sem mynduð er í breiðri samvinnu og af grunngildum sem svo sannarlega hafa staðist tímans tönn í langri sögu flokksins okkar – Það er máttur hinna mörgu.

Verum í sambandi!

Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins og sækist eftir 2.sæti á lista flokksins í NA-kjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. mars 2021.

Categories
Greinar

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Deila grein

11/03/2021

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Öflugir fjarskiptainnviðir eru forsenda búsetu og fjölbreyttrar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Ísland er í röð fremstu ríkja heims í fjarskiptainnviðum samkvæmt mati Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar. Sú staða er ómetanleg en enginn endapunktur því tækninni fleygir fram og nýjar áskoranir blasa við. Þörf er á metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir útbreiðslu og áreiðanleika fjarskipta um land allt nú þegar landsátakinu Ísland ljóstengt, sem á stóran þátt í að þessari góðu stöðu, fer að ljúka.

Landsátakið Ísland ljóstengt og uppbygging opinberra aðila á fjarskiptaaðstöðu á undanförnum árum er lýsandi dæmi um sérstaka fjármögnun á vegum ríkis og heimafólks til að jafna aðstöðumun milli dreifbýlis og þéttbýlis. Með lokaúthlutun fjarskiptasjóðs seinna í þessum mánuði hefur ríkið styrkt með beinum hætti tengingu um 6.000 lögheimila og annarra styrkhæfra staða í dreifbýli landsins og stuðlað óbeint að tengingu þúsunda sumarhúsa og annarra bygginga. Þetta landsátak hefur þegar bylt forsendum búsetu og atvinnurekstrar í sveitum landsins. 

Rúmt ár er síðan óveður afhjúpaði veikleika í raforkukerfinu sem olli truflun á fjarskiptum einkum á Norðurlandi og Austurlandi. Brugðist var hratt við og hafa stjórnvöld þegar m.a. bætt varaafl á rúmlega 68 fjarskiptastöðum víða um land. Framhald verður á verkefninu í ár í samvinnu fjarskiptasjóðs sem leggur til fjármuni og Neyðarlínunnar sem sér um framkvæmdir. Öryggiskröfur samfélagsins eru einfaldlega ríkari en það sem fjarskiptafyrirtæki eru skuldbundin til að gera eða geta tryggt á markaðslegum forsendum, einkum á landbyggðinni.

Fyrirsjáanleiki aðalatriði

Fólk vill aðgang að nýjustu og bestu fjarskiptaþjónustu hverju sinni og gerir jafnframt kröfu um að þjónustan sé áreiðanleg, örugg og á viðráðanlegu verði. Regluverkið, með áherslu á samkeppni og markaðslausnir, tryggir það upp að vissu marki. Þolinmæði gagnvart óvissu og bið eftir markaðslausnum er þó á undanhaldi.

Áhyggjur íbúa utan helstu þéttbýlissvæða hafa lengi snúist um hvort ljósleiðarinn eða nýjar kynslóðir farneta verði yfir höfuð í boði. Vissan fyrir því að ljósleiðarinn komi á grundvelli Ísland ljóstengt, hefur skapað ákveðna sátt og skilning gagnvart því að slík uppbygging getur ekki átt sér stað samtímis um allt land. Einhver byggðarlög verða á undan öðrum. Stóra málið er fyrirsjáanleiki um að ljósleiðarinn sé í það minnsta á leiðinni.

Kveikjan að Ísland ljóstengt var framtíðarsýn og markmið stjórnvalda um að ljósleiðaravæða dreifbýlið. Það gleðiefni að sjá nú fyrir endann á þessu samvinnuverkefni sem hornsteinn var lagður að með blaðagrein sem birtist 30. mars 2013 undir yfirskriftinni „Ljós í fjós“.

Landsdekkandi þráðlaus fjarskiptakerfi í opinberri eigu

Þó að 5G uppbygging sé ekki mjög brýn í þeim afmarkaða tilgangi að auka bandbreidd hér á landi, er sannarlega tímabært að huga að almennum markmiðum og aðgerðum til þess að gera samfélagið í stakk búið að hagnýta þá fjölbreyttu þjónustu sem 5G gerir mögulega á næstu árum.

Við þessi tímamót er viðeigandi að setja fram nýja framtíðarsýn sem er verðugur arftaki „Ljós í fjós“.

Neyðarlínan, sem er í opinberri eigu, á og rekur landsdekkandi neyðarfjarskiptakerfið TETRA fyrir neyðar- og viðbragðsaðila af miklum myndarskap. Hugað er nú að endurnýjun eða arftaka þess kerfis hér á landi, í Noregi og víðar.

Rekstur fjarskiptaaðstöðu og sendakerfa reynist Ríkisútvarpinu umtalsverð áskorun og tímabært er fyrir félagið að huga að endurnýjun/arftaka eigin og útvistaðra sendakerfa.

Margt bendir til þess að 5G tæknin geti hæglega leyst þarfir þeirra sem nýta TETRA og RÚV til framtíðar er varðar þráðlaus fjarskipti eða útsendingar. Í því felast tækifæri til tækniuppfærslu og hagræðingar. Fátt bendir til þess að skynsamlegt sé fyrir opinbera aðila að reka mörg sjálfstæð þráðlaus fjarskiptakerfi með háu öryggisstigi til framtíðar á sömu svæðum.

Ljósleiðari og 5G í byggðakjörnum

Ljósleiðaravæðing landsins heldur áfram og eru það eingöngu byggðakjarnar á landsbyggðinni sem búa nú við óvissu um hvort eða hvenær röðin kemur að þeim og á hvaða forsendum. Búast má við að fyrirhugað útboð á tveimur NATO-ljósleiðurum verði útfært m.a. með aukna samkeppni á landshringnum í huga og hvata til ljósleiðarauppbyggingar fjarskiptafyrirtækja í byggðakjörnum. Sú ljósleiðaravæðing, og þar með landsins alls, gæti því verið langt komin fyrir lok næsta kjörtímabils.

Líklegt er að uppbygging 5G gagnvart helstu þéttbýlissvæðum fari fram á markaðslegum forsendum og án sérstakra opinberra hvata. Slík uppbygging er hafin. Fyrirsjáanleiki í uppbyggingu markaðsaðila á 5G gagnvart litlum byggðakjörnum og utan þéttbýlis er hins vegar minni. 

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Á kjörtímabilinu hefur margt áunnist, hvort tveggja er varðar uppfærslu regluverks fjarskipta og netöryggis og uppbyggingu fjarskiptainnviða. Tímabært er að leggja línur fyrir nýja framsókn í fjarskiptum. Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu.

Með slíkri framtíðarsýn og tilheyrandi aðgerðum væri óvissu eytt um það hvort fólk, óháð búsetu, fái notið þeirrar þjónustu sem verður forsenda og hvati samfélagslegra framfara og nýsköpunar um land allt í fyrirsjáanlegri framtíð. Standi hún til boða er eðlilegt að hún verði jafnframt áreiðanleg, örugg og á sanngjörnu verði.

Á svæðum þar sem forsendur fyrir samkeppni í innviðum er ekki til staðar virðist vera skynsamlegt að byggja og reka eitt gott dreifikerfi sem bæði opinberir aðilar og markaðsaðilar geta nýtt. Hagkvæmni í innviðauppbyggingu skiptir máli. Kominn er tími til að opinberir aðilar sem eiga og reka fjarskiptainnviði ræði uppbyggingu fjarskiptainnviða til framtíðar og ákveðið verði hvernig hið mikilvæga hlutverk þeirra og samspil verður útfært með hliðsjón af heildstæðri framtíðarsýn og áherslu á byggðasjónarmið. Þar gæti komið til greina full sameining eða verulega aukið samstarf fjarskiptainnviðafyrirtækja í opinberri eigu.

5G verður bráðlega nauðsynleg innviðaþjónusta gangi spár eftir. Verður nokkurs konar grunnþjónusta og því enn ríkari ástæða til þess að setja fram heildstæða nálgun þess hvernig við ætlum að tryggja þá grunnþjónustu íslensku samfélagi til hagsbóta, óháð búsetu. Sundabraut verður ekki byggð á einum degi og það sama á við um 5G þjónustu um land allt, en framtíðarsýnin og markmiðin þurfa að vera skýr.

Verkefnið hlýtur að vera að tryggja fyrirsjáanleika í aðgengi, öryggi og verðlagningu 5G þjónustu gagnvart byggð, atvinnulífi, samgöngum og samfélagslega mikilvægum svæðum á landsbyggðinni sem og annars staðar. Einn lykill að þeirri vegferð er að nýta tækifæri til uppfærslu og langtíma hagkvæmni í fjárfestingum og rekstri landsdekkandi þráðlausra fjarskiptakerfa opinberra aðila, þ.m.t. Neyðarlínu og Ríkisútvarps. Annar lykill er að auka samvinnu og samþætta starfsemi fjarskiptainnviðafyrirtækja í opinberri eigu þannig að styðji við þessa vegferð, þ.m.t. að efla fjarskiptaaðstöðu og ljósleiðarastofnnet um landið.

Valkostir við uppbyggingu á landsbyggðinni

Fyrir liggur hvert viðfangsefnið er en ekki hvernig eigi að leysa það. Líkt og oftast eru valkostir í þeim efnum.

Nýstárlegur valkostur væri að efla Neyðarlínuna og fela henni að byggja og reka 5G kerfi, a.m.k. á markaðsbrestssvæðum, sem leysti af TETRA og kerfi RÚV á þeim svæðum. Með því gæti skapast möguleiki fyrir markaðsaðila að semja um aðgang að öruggum 5G sendum Neyðarlínunnar og möguleiki fyrir Neyðarlínuna að semja um aðgang að öruggum 5G sendum markaðsaðila á markaðssvæðum þeirra.

Aðrir hefðbundnari valkostir koma til greina, t.d. væri hægt að bíða og sjá hvað markaðsaðilum hugnast að gera á næstu árum. Þar má horfa til aukins samstarfs og samnýtingar við innviðauppbyggingu og jafnvel bjóða út 5G þjónustu svæðisbundið. Einnig mætti fela markaðsaðilum með útboðsleið að leysa verkefni Neyðarlínunnar og RÚV heildstætt um allt land með 5G og svo framvegis.

Það eru sem sagt fleiri en einn valkostur um leiðir og gaumgæfa þarf útfærslu þeirra. Aðalatriðið er að sammælast um það markmið að ná samlegð, hagræði og auknu öryggi með þróun kerfa RUV og Neyðarlínunnar í ljósi þeirrar 5G uppbyggingar sem fyrir dyrum stendur, almenningi í landinu öllu til heilla.

Áfram veginn

Greina þarf og bera saman mismunandi leiðir til að ná fram þeirri framtíðarsýn sem lögð er hér fram, Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu. Þær hafa tiltekna kosti og galla, mismunandi eftir því hver metur. Hér er ekki talað fyrir almennri ríkisvæðingu fjarskipta, heldur raunsæi gagnvart þeim fyrirsjáanlega markaðsbresti sem verður m.a. í uppbyggingu framtíðarkerfa og ekki síst 5G innviða. Þróunin er ör og mikilvægt er að taka verkefnið traustum tökum. Endurskoðun fjarskiptaáætlunar er hafin og því er tímabært að ræða um sameiginlega framtíðarsýn fyrir samfélagið og færar leiðir. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðarbyggðar og formaður Fjarskiptaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. mars 2021.

Categories
Greinar

Ný sóknar­færi opnast með störfum án stað­setningar

Deila grein

26/02/2021

Ný sóknar­færi opnast með störfum án stað­setningar

Þrátt fyrir að COVID-19 hafi reynt á okkur öll og samfélagið í heild þá hefur faraldurinn engu að síður opnað augu okkar fyrir tækifærum sem voru fjarlæg áður. Þannig hefur ný sýn nú opnast á að hægt sé að sinna mörgum störfum óháð staðsetningu. Ég verð þess áskynja að ungt fólk í dag horfir í auknum mæli til búsetu á landsbyggðinni. Það fylgja því nefnilega ýmis lífsgæði að búa í fámennari og dreifðari byggðarlögum víða um landið. Fjölmörg sveitarfélög bjóða upp á afburða þjónustu fyrir sína íbúa sem er á pari, og jafnvel betri en það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Það er skylda okkar sem þjóðar að byggð sé blómleg sem víðast um landið og einn þáttur í því er að tryggja að fólk getið stundað vinnu við hæfi og notið sambærilegra grunnlífskjara óháð búsetu.

Í þessu á hið opinbera að ganga fram með góðu fordæmi og hafa að leiðarljósi að auglýsa öll störf sem möguleg eru án staðsetningar. Í stefnumótandi byggðaáætlun sem samþykkt var á þingi árið 2018 er fjallað um þetta. Þar eru sett fram háleit markmið um að árið 2024 verði 10% allra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra auglýst án staðsetningar. Ráðuneyti og stofnanir hafa þegar áætlað að mögulegt sé að auglýsa um 890 störf án staðsetningar, eða um 13% allra stöðugilda þeirra. Í áðurnefndri byggðaáætlun eru ráðuneyti einnig hvött til þess að þegar að ný starfsemi hefst á vegum þeirra verði henni valinn staður utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta eru göfug markmið en því miður hefur hægt gengið að sjá þeim framfylgt. Oft finnst manni meir að segja niðurskurðarhnífur hins opinbera bitna harðast á stofnunum sem nú þegar eru staðsettar á landsbyggðinni og ekki horft til samlegðar áhrif við aðra opinbera þjónustu sem þar er að finna. Nærtækast er að nefna lokun fangelsisins á Akureyri árið 2020 og stundum er hreinlega eins og landsbyggðin passi ekki inní Excel skjalið hjá opinberum stofnunum, eins og ég hef áður fjallað um. Þessu þarf að breyta svo áætlanir um störf án staðsetningar hjá hinu opinbera verði trúverðugar.

En til að einfalda að flytja störf út um landið þarf fleira að koma til en góður vilji – innviðirnir þurfa að vera tilbúnir. Við þurfum að geta tryggt að um allt land sé aðgengi að húsnæði og aðstöðu til að hægt sé að koma upp starfsstöðvum. Í mínum heimahverfi í Fjarðabyggð, Neskaupstað, hefur, sem dæmi, nú verið reist Samvinnuhús (Klasasetur), sem hlotið hefur nafnið Múlinn. Húsið er reist fyrir tilstilli og mikinn myndarskap Samvinnufélags Útgerðarmanna í Neskaupstað og þar hefur starfsfólk hina ýmsu stofnanna og fyrirtækja hvaðanæfa að á landinu komið sér fyrir og myndað glæsilegan vinnustað. Svona lagað skiptir máli því að mikilvægt er að þeir sem kjósa að starfa án staðsetningar, jafnvel í einmenningsstörfum, eigi sér vinnustað. Það eru ekki allir svo heppnir að eiga Samvinnufélag eins og Norðfirðingar sem staðið getur fyrir byggingum á svona klösum. Við þurfum því með öllum tiltækum ráðum að tryggja það að þetta verði hægt sem víðast, í gegnum skattkerfið og jafnvel beinum styrkjum af hendi hins opinbera. Sveitarfélögin um landið þurfa einnig að koma að málum til að koma slíkri uppbyggingu áfram.

Við þurfum einnig að tryggja að fjarskiptakerfið sé undir þetta búið. Í því samhengi þarf að gera átak í því að ljúka við ljósleiðaravæðingu byggðarlaga um allt land. Verkefnið Ísland ljóstengt hefur gengið vel og víða er dreifbýlið orðið vel tengt. Hins vegar vantar enn upp á að þéttbýliskjarnar séu tengdir ljósleiðara og í það verkefni þarf að ganga hið fyrsta, jafnvel stíga inn í það og tryggja þannig góðar tengingar um land allt. Næsta skref okkar á að vera verkefnið Ísland fulltengt!

Landsbyggðin hefur upp á svo margt að bjóða, það er okkar hlutverk að tryggja það að henni verði haldið í blómlegri byggð. Það er mín trú að ef hið opinbera stígur fyrstu stóru skrefin í því mikla verkefni sem störf án staðsetningar eru, munu fyrirtæki á almennum markaði fylgja fast á eftir eins og þau eru reyndar þegar farin að gera.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, ritari Framsóknarflokksins og býður sig fram í annað sætið á lista framsóknarmanna í NA-kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Fjár­hags­á­ætlun Fjarða­byggðar 2021 – Með fjöl­skyldur í fyrir­rúmi

Deila grein

04/12/2020

Fjár­hags­á­ætlun Fjarða­byggðar 2021 – Með fjöl­skyldur í fyrir­rúmi

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2021, ásamt þriggja ára áætlun 2021 – 2024, var samþykkt eftir síðari umræðu í bæjarstjórn þann 3.desember. Eins og gefur að skilja liggur alltaf mikil vinna að baki gerðar fjárhagsáætlunar hvers árs og koma þar að bæði starfsmenn og kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins og vil ég hér í byrjun þakka þeim góð störf.

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2021 ber þess að vissu leyti merki að Covid-19 faraldurinn, sem tekist hefur verið á við frá upphafi ársins, hefur haft og mun hafa mikil efnahagsleg áhrif á samfélagið allt. Þannig er áætlað að niðurstaða ársins 2020 verði um 150 milljón krónum lakari í rekstri sveitarfélagsins en gert var ráð fyrir. Er þar fyrst og fremst um að ræða kostnaðarauka sem tilkominn er vegna viðbragða sveitarfélagsins við faraldrinum á árinu sem nú er að verða liðið. Stærsti liðurinn var fjölgun sumarstarfa fyrir námsmenn og atvinnulausa, sem tókst afar vel, og skipti sveitarfélagið miklu máli í ýmsum verkefnum á liðnu sumri. Auk þessa þurfti að fara í kaup á ýmsum búnaði til að gera starfsemi sveitarfélagsins mögulega í samkomutakmörkunum, auka sóttvarnir í stofnunum ásamt því að launakostnaður jókst óhjákvæmilega á meðan mestu takmarkanirnar gengu yfir. Engu að síður er það til fyrirmyndar hvernig starfsfólk sveitarfélagsins hefur gengið að sínum störfum í þessu ástandi, og leyst þau af hendi, þrátt fyrir að áskoranirnar hafi verið margar. Færi ég þeim hér með bestu þakkir bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

En vegna þeirrar óvissu sem uppi er í efnahagsmálum var lagt upp með að stíga varlega til jarðar við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2021. Gert er ráð fyrir að hækkun útsvars verði talsvert lægri en spá um almenna launaþróun segir til um og er það gert til að til að borð sé fyrir báru í tekjum sveitarfélagsins. Þá er spá um tekjur hafnarsjóðs varfærin og m.a. ekki gert ráð fyrir loðnuveiðum á árinu 2021, vegna þeirrar óvissu sem uppi er í þeim efnum. Engu að síður tel ég vera ástæðu til bjartsýni miðað við fyrstu niðurstöður úr loðnuleit sem fram hafa farið síðustu daga.

Öflugt fjölskyldusamfélag

Líkt og undanfarin ár leggur fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar áherslu á að viðhalda, og bæta það öfluga fjölskyldusamfélag sem Fjarðabyggð er. Áfram halda gjöld fyrir skólamáltíðir að lækka og stefna okkar er sú að þær verði gjaldfrjálsar frá og með haustinu 2021. Við erum afar stolt af því aðgjaldskrár leikskóla, frístundaheimila og tónlistarskóla standast mjög vel samanburð við önnur sveitarfélög og eru þær með þeim hagstæðari sem gerast á landinu.

Á árinu 2021 verður lokið við innleiðingu á Sprett, en það er verkefni sem fjölskyldusvið Fjarðabyggðar hefur unnið við að undanförnu. Með Spretti verður stoðkerfi fjölskyldusviðs stóreflt þar sem snemmtæk íhlutun er markmiðið með hag barna að leiðarljósi. Með þessu verður utanumhald um þá sem þurfa á aðstoð að halda öflugra og um leið gert ráð fyrir að kostnaður muni lækka til framtíðar.

Umfangsmiklar framkvæmdir í þágu fjölskyldna og atvinnulífs

Í Fjarðabyggð hefur fólki fjölgað á undanförnum árum og því fylgir aukinn krafa og þörf í framkvæmdum sem snúa að skólum og íþrótta- og æskulýðsmálum. Líkt og verið hefur síðustu ár gerir fjárhagsáætlun ársins 2021 ráð fyrir umtalsverðum fjárfestingum með þetta að leiðarljósi.

Þannig er gert ráð fyrir byggingu nýs íþróttahúss á Reyðarfirði en fjármagn til þess verkefnis kemur frá sölu Rafveitu Reyðarfjarðar sem samþykkt var í árslok 2019. Samhliða byggingunni verður einnig farið í viðgerðir á sundlauginni á Reyðarfirði þannig að hún geti þjónað Grunnskóla Reyðarfjarðar sem skólasundlaug. Er þarna um að ræða fjárfestingar í íþróttamannvirkjum á Reyðarfirði fyrir rúmlega 400 milljónir króna.

Einnig er gert ráð fyrir að farið verði í framkvæmdir í Félagslundi á Reyðarfirði með það í huga að félagsmiðstöðinni Zveskjan verði flutt þangað, ásamt því sem húsnæðið verði nýtt sem salur fyrir leikskólann Lyngholt. Er þetta í samræmi við stefnu bæjarstjórnar um bætta nýtingu eigna sveitarfélagsins, og verður gaman sjá Félagslund glæðast lífi að nýju. Er þetta í samræmi við þau skref sem stigin hafa verið með fjölnýtingu húsnæðis Egilsbúðar á Norðfirði á þessu ári.

Þá verður hafinn vinna við lokahönnun og gerð útboðsgagna vegna stækkunar leikskólans Dalborgar á Eskifirði og munu framkvæmdir hefjast í framhaldi af því. Það verkefni er langþráð, en lengi hefur legið fyrir að húsnæði leikskólans sé of lítið og starfsmannaaðstaða ekki viðundandi.

Einnig er gert ráð fyrir fjárfestingu í nýju skjalasafni Fjarðabyggðar sem kemur til með að vera í Lúðvíkshúsi í Neskaupstað, en skjalasafn Fjarðabyggðar hefur hingað til verið vistað í geymslum á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu sem ekki getur gengið til framtíðar. Jafnframt verður Skjala- og myndasafn Norðfjarðar samþætt skjalasafninu sem verið hefur í leiguhúsnæði frá upphafi.

Áframhald verður á fjárfestingum í ofanflóðavörnum. Unnið verður áfram við þriðja varnargarðinn á Norðfirði og varnir við Lambeyrará á Eskifirði. Fjarðabyggð hefur lagt á það höfuðáherslu að haldið verðu áfram við gerð ofanflóðavarna í sveitarfélaginu og að þeim verði að fullu lokið á næstu árum.

En gott fjölskyldusamfélag mætti sín lítils ef ekki kæmi til hið kraftmikla atvinnulíf sem hér er. Öflugur sjávarútvegur er einn af máttarstólpum atvinnulífsins í Fjarðabyggð og með sanni má segja að Fjarðabyggð sé miðstöð sjávarútvegs á Íslandi. Fjarðabyggðarhafnir hafa á undanförnum árum fjárfest mikið í bættri hafnaðstöðu. Á árinu 2021 er gert ráð fyrir að það haldi áfram og heildarfjárfesting Fjarðabyggðarhafna verði um 450 milljónir króna. Er þar stærst áframhald uppbyggingu á hafnaraðstöðu við nýtt fiskiðjuver og frystigeymslu Eskju á Eskifirði upp á 330 milljónir króna.

Samtals nema fjárfestingar A- og B hluta rúmlega 1 milljarði króna sem sýna vel þann kraft og þörf sem er í okkar öfluga sveitarfélagi.

Framtíðin er björt!

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar er metnaðarfullt plagg sem sýnir svo ekki verður um villst að Fjarðabyggð er framsækið fjölskyldusamfélag þar sem lögð er áhersla á veita íbúum framúrskarandi þjónustu og um leið að hlúð sé vel að atvinnulífinu.

Í heildina er gert ráð fyrir að rekstur A-hluta skili um 40 milljón króna afgangi, sem er jákvæð niðurstaða miðað við þær efnahagslegu aðstæður sem nú eru uppi. En eins og áður verður aðhald í rekstri sveitarfélagsins viðvarandi á næstu árum og áfram verður leitað hagræðingartækifæra og liggja fyrir markmið í þeim efnum sem unnið verður með á næsta ári. Ávallt verður þó haft að leiðarljósi hagur íbúa í slíkri vinnu, um leið og horft er til þess að rekstur sveitarfélagsins sé sem hagstæðastur. Þannig gerum við gott samfélag enn betra.

Að lokum vil ég þakka starfsmönnum og kjörnum fulltrúum sveitarfélagsins kærlega fyrir vel unnin störf í fjárhagsáætlunargerð sem og í öðrum störfum sínum fyrir sveitarfélagið. Ég er þess fullviss að þrátt fyrir að nú syrti í álinn um stund í efnahagsmálum sé framtíð Fjarðabyggðar björt.

Með aðventukveðju.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. desember 2020.