Categories
Fréttir

Akureyri sem svæðisborg

Deila grein

15/12/2022

Akureyri sem svæðisborg

Tölum Ísland upp, án þess að tala einstök svæði niður. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra, þegar starfshópur um mótun borgarstefnu kom saman til fyrsta fundar í innviðaráðuneytinu í dag, 14. desember. Markmiðið með stofnun starfshópsins er að efla stærstu þéttbýlissvæði landsins, Reykjavík og Akureyri, og styrkja samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun.   

Hlutverk hópsins er tvíþætt. Að skilgreina hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og stuðla að aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins. Enn fremur að skilgreina hlutverk og uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar til að hún geti boðið upp á meiri fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum.

Formaður starfshópsins er Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.JL. Aðrir í starfshópnum eru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Með hópnum starfa Ásdís Sigurbergsdóttir, ráðgjafi hjá Aton.JL, Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, og Reinhard Reynisson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum eigi síðar en í árslok 2023.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 14. desember 2022.