Categories
Greinar

Traust ríkisfjármál skipta öllu fyrir Ísland

Deila grein

15/12/2022

Traust ríkisfjármál skipta öllu fyrir Ísland

Mik­il ókyrrð hef­ur verið á alþjóðamörkuðum síðustu ár. Verðbólga á heimsvísu hef­ur ekki mælst jafn­há í fjóra ára­tugi. Meg­in­or­sak­ir henn­ar eru heims­far­ald­ur­inn og rösk­un á aðfanga­keðju vegna hans, stríðið í Úkraínu og orkukrepp­an í Evr­ópu. Að auki lít­ur út fyr­ir áfram­hald­andi póli­tíska spennu milli Banda­ríkj­anna og Kína. Stýri­vext­ir halda áfram að hækka og lík­urn­ar aukast veru­lega á að efna­hagsniður­sveifla hefj­ist á heimsvísu. Tími ódýrs láns­fjár­magns er liðinn í bili. Ein­hver glæta er þó að birt­ast eft­ir að verðbólga er far­in að hjaðna í Banda­ríkj­un­um.

Minnk­andi alþjóðaviðskipti

Mikl­ar breyt­ing­ar virðast vera í far­vatn­inu í alþjóðahag­kerf­inu, sem snúa einkum að minnk­andi alþjóðaviðskipt­um og fjár­fest­ingu. Í þessu um­hverfi er sér­stak­lega mik­il­vægt að stefna í rík­is­fjár­mál­um sé traust og að þau séu sjálf­bær hjá ríkj­um. Fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, Liz Truss, og fjár­málaráðherra Bret­lands, Kwasi Kw­arteng, fundu held­ur bet­ur fyr­ir því að hafa ekki hugað að trú­verðugri rík­is­fjár­mála­stefnu. Frá því að „Litlu-fjár­lög­in“ voru kynnt af þáver­andi for­ystu Íhalds­flokks­ins leið ekki nema um vika þar til þau neydd­ust til að segja af sér. En hvað þýða þess­ir svipti­vind­ar alþjóðafjár­mála­kerf­is­ins og hver er þýðing þeirra hér á landi?

Lygi­leg at­b­urðarás í Bretlandi

Í kjöl­far þess að ,,Litlu-fjár­lög­in“ voru kynnt fór af stað mjög hröð at­b­urðarás á fjár­mála­mörkuðum. Veðköll hóf­ust vegna af­leiðuskuld­bind­inga líf­eyr­is­sjóðakerf­is­ins í bresk­um skulda­bréf­um. Það leiddi til þess að Seðlabanki Eng­lands þurfti að auka laust fé í um­ferð til að hægt væri að mæta veðköll­un­um. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in tapaði sam­stund­is öll­um trú­verðug­leika og í fram­hald­inu urðu stjórn­ar­skipti. Nýr fjár­málaráðherra, James Hunt, hef­ur kynnt fjár­mála­áætl­un sem miðar að því að skulda­lækk­un sé í aug­sýn og skatt­ar voru meðal ann­ars hækkaðir á þá tekju­mestu. Undið var ofan af fyrri áætl­un­um á mettíma. Til­trú og traust hef­ur minnkað vegna þess­ar­ar fram­göngu í rík­is­fjár­mál­um.

Rík­is­út­gjöld aukast í Evr­ópu og Ítal­ía áfram í hættu

Seðlabank­ar heims­ins hafa verið að hækka stýri­vexti og sam­hliða hef­ur fjár­mögn­un­ar­kostnaður verið að aukast. Að sama skapi sjá­um við ekki fyr­ir end­ann á stríðinu í Úkraínu og orkukreppu margra Evr­ópu­ríkja. Þýska­land hef­ur þegar riðið á vaðið til að styðja bet­ur við fyr­ir­tæk­in og heim­il­in í land­inu vegna hækk­andi orku­verðs og settu rúma 200 millj­arða evra til þess. Fjár­málaráðherra Þýska­lands, Christian Lindner, hafnaði því að aðgerðapakk­inn væri verðbólgu­hvetj­andi en engu að síður hef­ur verðbólga ekki mælst hærri í 70 ár og ávöxt­un­ar­krafa þýskra rík­is­skulda hækkað. Annað ríki í Evr­ópu, Ítal­ía, er enn viðkvæm­ara fyr­ir þreng­ing­um. Ítal­ía er háð rúss­nesku gasi og hef­ur lítið svig­rúm í rík­is­fjár­mál­un­um í ljósi mik­illa skulda og hækk­andi vaxta­greiðslna til að koma til móts við hækk­andi orku­verð. Ávöxt­un­ar­kraf­an á rík­is­skulda­bréf­in hef­ur verið að hækka veru­lega. Ófyr­ir­sjá­an­leiki í orku­öfl­un í Evr­ópu veld­ur því að fjár­fest­ar gera ráð fyr­ir að erfiðara verði að koma bönd­um á verðbólg­una.

Tauga­veiklaðir markaðir

Við sjá­um ekki fyr­ir end­ann á vaxta­hækk­un­um seðlabanka og því mun mynd­ast álag á helstu fjár­mála­mörkuðum. Vegna þessa er búið að herða tök­in á öll­um mörkuðum og lausa­fjárstaða þjóða og fyr­ir­tækja hef­ur versnað. Það má færa sann­fær­andi rök fyr­ir því að við mun­um sjá mikl­ar verðbreyt­ing­ar á mörkuðum og meiri óstöðug­leika á næsta ári. Gjá mynd­ast meðal þjóða sem hafa trú­verðug rík­is­fjár­mál og sjálf­bær­an greiðslu­jöfnuð ann­ars veg­ar og hins veg­ar þeirra þar sem grunnstoðir hag­kerfa eru veik­ar líkt og á Ítal­íu, í Tyrklandi og Arg­entínu. Seðlabanki Banda­ríkj­anna hef­ur hækkað vexti hraðar en aðrir seðlabank­ar að und­an­skild­um Seðlabanka Íslands. Þetta þýðir að gengi Banda­ríkja­dals hef­ur hækkað veru­lega eða um rúm 17% frá árs­byrj­un. Banda­rík­in hafa því verið að flytja verðbólg­una til annarra ríkja og því hafa aðrar þjóðir þurft að hækka vexti hraðar en ella.

Fjár­lög rík­is­sjóðs Íslands 2023 sýna af­komu­bata

Hag­vaxt­ar­horf­ur hafa styrkst á Íslandi og hag­vöxt­ur er óvíða meiri og mæl­ist 7,3% á 3. árs­fjórðungi sam­kvæmt töl­um Hag­stof­unn­ar. Hann er drif­inn áfram af mikl­um vexti í út­flutn­ingi, sér­stak­lega í ferðaþjón­ustu, og kröft­ugri einka­neyslu. Hlut­ur hins op­in­bera er að minnka í fjár­fest­ing­um og vöxt­ur sam­neyslu er hóf­leg­ur. Þrátt fyr­ir auk­in út­gjöld er lögð rík áhersla á að styrkja stöðu rík­is­fjár­mál­anna og hvika ekki frá því meg­in­mark­miði að lækka skuld­ir á næstu árum. Í ár hef­ur dregið hratt úr mikl­um halla­rekstri rík­is­sjóðs árin 2020 og 2021 sem ætlað var að draga úr áhrif­um heims­far­ald­urs­ins á fjár­hag heim­ila og fyr­ir­tækja. Efna­hags­bat­inn hef­ur leitt til mik­ill­ar tekju­aukn­ing­ar rík­is­sjóðs og þess að skulda­hlut­föll hins op­in­bera eru mun lægri en gert var ráð fyr­ir. Þessi efna­hags­bati er kröft­ug­ur og því hef­ur mynd­ast spenna í þjóðarbú­inu. Fjár­mál hins op­in­bera þurfa að róa í sömu átt og stefna Seðlabanka Íslands. Halli á rekstri rík­is­sjóðs verður því tæp­lega 3% af lands­fram­leiðslu. Útlit er fyr­ir að skulda­hlut­föll verði að sama skapi nær óbreytt frá samþykktri fjár­mála­áætl­un frá því í sum­ar, eða um 33% af VLF. Það er al­veg ljóst í mín­um huga að afar brýnt er að rík­is­sjóður nái tök­um á þess­um halla á næstu árum. Ísland er í kjöraðstöðu til að sýna fram á sjálf­bær rík­is­fjár­mál vegna af­komu­bata og framtíðar­horf­ur eru því bjart­ar.

Gera má ráð fyr­ir að þró­un­in verði sú að ríki séu í aukn­um mæli að fást við vax­andi rík­is­út­gjöld, erfiðari bar­áttu við verðbólgu og að hinir alþjóðlegu fjár­mála­markaðir muni veita aðhald vegna þeirra þreng­inga sem eru á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum. Við eig­um að taka þessa at­b­urðarás al­var­lega, þar sem kröf­ur um trú­verðuga rík­is­fjár­mála­stefnu eru að aukast ásamt því að alþjóðaviðskipti eru að drag­ast sam­an. Smærri ríki þurfa því að vanda sig enn frek­ar. Horf­ur ís­lensks efna­hags eru bjart­ar, hag­vöxt­ur er mik­ill og bygg­ist á auk­inni verðmæta­sköp­un. Að sama skapi halda skuld­ir áfram að lækka og er skuld­astaða rík­is­sjóðs ein sú besta í Evr­ópu. Þrátt fyr­ir þessa stöðu ber okk­ur að vera ætíð á tán­um til þess að auka kaup­mátt og vel­ferð í land­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 15. desember 2022.