Samfélagið okkar er eitt samvinnuverkefni. Við í Framsókn leggjum mikla áherslu á að fjárfesta í fólki vegna þess að fjárfesting í mannauði skilar sér í aukinni hagsæld og velsæld í samfélögum líkt og hagrannsóknir sýna. Ríkisstjórn Íslands hefur á undanförnum árum sannarlega fjárfest í fólki, forgangsraðað í þágu aukinnar verðmætasköpunar og náð árangri á fjölmörgum sviðum, þar með talið efnahagsmálum, þrátt fyrir þau innri og ytri áföll sem á vegi hennar hafa orðið. Í því samhengi er áhugavert að skoða þróun nokkra lykilstærða í þjóðarbúskapnum á undanförnum árum. Í fyrsta lagi hefur hagvöxtur á síðustu þremur árum verið 20%, sem er það mikill vöxtur að það er ekki mögulegt að bera hann saman við önnur ríki. Til dæmis eru Danir að horfast í augu við neikvæðan hagvöxt, enginn hagvöxtur er að ráði í Evrópu og helst er litið til Bandaríkjanna eftir einhverjum hagvexti í nánustu framtíð. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur einmitt nýlega lýst því sem miklu áhyggjuefni að þessi áratugur muni einkennast af stöðnun í heimsbúskapnum.
Í öðru lagi er atvinnustig mjög hátt en atvinnuleysi nemur aðeins 3,5%. Auðlegð Íslands er mikil og það eru fá þjóðríki þar sem fullt atvinnustig er ráðandi yfir langt tímabil. Eitt það mikilvægasta í samfélaginu okkar er að allir geti fundið sér starf við hæfi og tekið þannig virkan þátt í samfélaginu okkar, eflt atvinnulífið og undirbyggt aukna verðmætasköpun sem nýtist meðal annars til að fjárfesta enn frekar í fólki.
Í þriðja lagi hafa meðallaun verið að hækka og það skiptir gríðarlegu máli. Þannig eru meðallaun hér á landi með þeim hæstu á byggðu bóli. Þrátt fyrir verðbólgu undanfarinna missera höfum við Íslendingar séð kaupmátt launa aukast verulega undanfarin 10 ár. Nýir langtímakjarasamningar eru góð tíðindi fyrir áframhaldið og glímuna við verðbólgu, þar skiptir aðkoma stjórnvalda miklu máli.
Í fjórða lagi langar mig til að benda á það að hrein erlend staða þjóðarbúsins er óvenju sterk eða sem nemur um 40% af landsframleiðslu. Fyrir um 20 árum var staðan neikvæð um 80%. Við vorum í gríðarlegum erfiðleikum með að halda jákvæðum gjaldeyrisforða en hann var iðulega tekinn að láni sem reyndist mikil áskorun fyrir þjóðarbúið. Kröftug ferðaþjónusta hefur meðal annars drifið þessa þróun áfram ásamt öflugum sjávarútvegi, iðnaði, hugverkum og vexti í skapandi greinum sem hefur skilað sér inn í hagkerfið okkar. Samhliða þessu hefur gjaldeyrismarkaðurinn dýpkað á sama tíma og hefur dregið úr sveiflum. Til dæmis er það merkilegt að jarðhræringarnar á Suðurnesjum hafi ekki orðið til þess að krónan hafi sveiflast mikið þótt eitthvert flökt hafi verið í fyrstu. Ofangreint ber vitnisburð um góður árangur sem við getum verið stolt af. Stærsta verkefni hagstjórnarinnar fram á veginn verður að ná niður verðbólgu og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta í þágu heimila og fyrirtækja. Peningastefnan, ríkisfjármálin og vinnumarkaðurinn eru farin að ganga í takt, sem mun skila árangri fyrir samfélagið og undirbyggja betri lífskjör á Íslandi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. ágúst 2024.