Á undanförnum rúmum áratug hefur umtalsverður árangur náðst í efnahagsmálum á Íslandi eftir högg fjármálaáfallsins haustið 2008. Aðferðafræði stjórnvalda gagnvart þrotabúum hinna föllnu banka skipti þar sköpum þar sem ríkissjóður Íslands leysti til sín verðmæti upp á hundruð milljarða króna sem nýttust meðal annars við skuldaleiðréttingu heimilanna, uppbyggingu innviða samfélagsins og verulega lækkun skulda ríkissjóðs. Á sama tíma hefur hagvöxtur verið þróttmikill heilt yfir sem og kaupmáttaraukning launa.
Í vikunni birti tímaritið The Economist efnahagslegan samanburð á milli ríkja heims fyrir árið 2023, byggðan á þremur mælikvörðum sem tímaritið telur að gefi fyllri mynd í slíkum samanburði. Þeir eru; landsframleiðsla á mann í bandaríkjadölum, jafnvirðismælikvarðinn (e. Purchasing Power Parities, PPP) til að umreikna landsframleiðslu einstakra landa þegar tillit er tekið til verðlags og landsframleiðslu á hverja vinnustund til að mæla afköst vinnuafls. Í þessum samanburði tímaritsins er Ísland í 7. sæti á heimsvísu á eftir Noregi sem leiðir listann, Lúxemborg, Katar, Belgíu, Danmörku og Sviss. Árangur sem þessi er vissulega ánægjulegur og er ekki sjálfsagður, þrátt fyrir að það sé vissulega rými til þess að gera enn betur.
Þessi staðreynd breytir því ekki að lægri verðbólga er forgangsmál efnahagsstjórnar landsins um þessar mundir. Öll samanburðarríki Íslands hafa glímt við talsverða verðbólgu á undanförnum árum, en á tímabili mældist verðbólga næstlægst á Íslandi. Hins vegar hefur hún reynst þrálátari hér á landi en í helstu samanburðarríkjum sem endurspeglast meðal annars í háum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Jákvæð teikn hafa þó verið í verðbólguþróuninni en í síðustu mælingu Hagstofunnar fór hún í fyrsta sinn undir 6% í tvö og hálft ár þegar hún mældist 5,8% í júnímánuði. Traust samspil peningastefnu Seðlabanka Íslands, opinberra fjármála og aðila vinnumarkaðarins er lykilforsenda þess að hægt sé að stuðla að stöðugu verðlagi og skapa skilyrði fyrir lækkun verðbólgu og vaxta, en það er stærsta einstaka hagsmunamál fólks og fyrirtækja í landinu. Á þeirri vegferð hefur aukin forgangsröðun í opinberum fjármálum verið viðhöfð sem kallast á við aðgerðir stjórnvalda í þágu langtímakjarasamninga á vinnumarkaði, sem snúa að því að fjárfesta í fólki. Að sama skapi er brýnt að komið verði í veg fyrir að kostnaðarverðbólga á húsnæðismarkaði festi sig í sessi og verði að sjálfstæðu vandamáli í íslensku hagkerfi. Þar þurfa umfangsmiklar aðgerðir á framboðshlið hagkerfisins að raungerast þar sem nægjanlegt magn af byggingarhæfum lóðum til hraðrar uppbyggingar þarf að vera til staðar – samhliða bættu fjármögnunarumhverfi sem lægra vaxtastig myndi leiða af sér.
Þrátt fyrir að hægst hafi á hagkerfinu á undanförnum mánuðum er staða Íslands samt sem áður sterk í alþjóðlegum samanburði. Stjórnvöld þurfa samt sem áður að vera enn frekar á tánum til að tryggja að árangur þeirra aðgerða sem ráðist hefur verið í raungerist og skili sér til fólks og fyrirtækja í landinu. Með dugnaði, elju og hugviti mun okkar farnast vel til framtíðar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júlí 2024.