Categories
Fréttir Greinar

Dýrmætasta auðlind þjóðarinnar

Deila grein

12/06/2023

Dýrmætasta auðlind þjóðarinnar

Íslensk­an er ein dýr­mæt­asta auðlind þjóðar­inn­ar. Fjár­fest hef­ur verið í henni í yfir 1.000 ár og perl­ur heims­bók­mennt­anna ritaðar á ís­lensku.

Stjórn­völd hafa sett mál­efni ís­lenskr­ar tungu á odd­inn á und­an­förn­um árum með marg­háttuðum aðgerðum. Það að vinna að fram­gangi ís­lensk­unn­ar og tryggja stöðu henn­ar í heimi örra tækni­breyt­inga og fólks­flutn­inga er verk­efni sem þarf að sinna af kost­gæfni og atorku. Í vik­unni var ný aðgerðaáætl­un í mál­efn­um ís­lenskr­ar tungu sett í Sam­ráðsgátt stjórn­valda til kynn­ing­ar og um­sagn­ar.

Alls er um að ræða 18 aðgerðir sem mótaðar eru í sam­starfi fimm ráðuneyta, en mark­mið þeirra er að for­gangsraða verk­efn­um stjórn­valda árin 2023-2026 þegar kem­ur að vernd­un og þróun tungu­máls­ins. Hef­ur meðal ann­ars verið unnið að þeim á vett­vangi ráðherra­nefnd­ar um ís­lenska tungu sem sett var á lagg­irn­ar í nóv­em­ber 2022 að til­lögu for­sæt­is­ráðherra. Hlut­verk nefnd­ar­inn­ar er að efla sam­ráð og sam­starf milli ráðuneyta um mál­efni ís­lenskr­ar tungu og tryggja sam­hæf­ingu þar sem mál­efni skar­ast.

Hin nýja aðgerðaáætl­un kall­ast á við áhersl­ur stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar, þar sem lögð er rík áhersla á að styðja við ís­lenska tungu. Börn og ung­menni skipa sér­stak­an sess og stuðning­ur við börn af er­lend­um upp­runa verður auk­inn. Þá á áfram að vinna að því að styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar í sta­f­ræn­um heimi með áherslu á mál­tækni.

Ýmsar lyk­ilaðgerðir í áætl­un­inni und­ir­strika þetta en þær eru meðal ann­ars: starfstengt ís­lensku­nám fyr­ir inn­flytj­end­ur sam­hliða vinnu, auk­in gæði ís­lensku­kennslu fyr­ir inn­flytj­end­ur, inn­leiðing ra­f­rænna stöðuprófa í ís­lensku, sam­eig­in­legt fjar­nám í hag­nýtri ís­lensku sem öðru máli og ís­lenska handa öll­um.

Ný­mæli eru að gerðar verði kröf­ur um að inn­flytj­end­ur öðlist grunn­færni í ís­lensku og hvat­ar til þess efld­ir. Ásamt því verður ís­lensku­hæfni starfs­fólks í leik- og grunn­skól­um og frí­stund­a­starfi efld. Að sama skapi verður gerð ís­lensku­vef­gátt fyr­ir miðlun ra­f­ræns náms­efn­is fyr­ir öll skóla­stig, sam­ræmt verklag um mót­töku, kennslu og þjón­ustu við börn með fjöl­breytt­an tungu­mála- og menn­ing­ar­bak­grunn með sér­stakri áherslu á ís­lensku sem annað mál, og reglu­leg­ar mæl­ing­ar á viðhorfi til tungu­máls­ins.

Við þurf­um mikla viðhorfs­breyt­ingu gagn­vart tungu­mál­inu okk­ar. Íslensk­an er fjör­egg okk­ar og and­leg eign. Tungu­málið er rík­ur þátt­ur í sjálfs­mynd okk­ar, tján­ingu og sögu­skiln­ingi. Með nýrri aðgerðaáætl­un skerp­um við á for­gangs­röðun í þágu ís­lenskr­ar tungu. Ég hvet alla til þess að kynna sér málið í sam­ráðsgátt­inni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. júní 2023.