Categories
Fréttir Greinar

Efnahagsaðgerðir skila árangri

Deila grein

22/07/2023

Efnahagsaðgerðir skila árangri

Stærsta verkefni hagstjórnarinnar er að ná verðbólgunni í markmið peningastefnunnar. Verðbólgumælingar gærdagsins gefa ákveðin fyrirheit um að efnahagsstjórnin sé á réttri leið og að allar líkur séu á að hagkerfið nái mjúkri lendingu. Hins vegar er afar brýnt að lýsa ekki yfir sigri fyrr en við sjáum verðbólguna komna enn frekar niður, því þarf áframhaldandi festu við stjórn efnahagsmála.

Þróunin jákvæð

Ársverðbólga mælist 7,6% og hefur lækkað töluvert frá júnímánuði en þá var hún 8,9%. Þessi þróun er afar jákvæð og sýnir svart á hvítu að hagkerfið er á réttri leið. Aðgerðir Seðlabanka Íslands eru farnar að hafa mikil áhrif og sjáum við það á því að húsnæðismarkaður er að ná betra jafnvægi. Ný útlán hafa einnig dregist saman. Samhliða aðhaldi í peningamálum sendir ný ríkisfjármálaáætlun skýr skilaboð um að meginverkefni stjórnvalda er að ná tökum á verðbólgunni og draga úr þenslu en á sama tíma standa vörð um velferðarkerfið og þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu okkar. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna hefur verið aukið og gert er ráð fyrir bættri afkomu árið 2024. Skuldir ríkissjóðs eiga að hafa náð hámarki eða sem nemur 33% af landsframleiðslu.

Horfurnar eru góðar

Horfur íslenska ríkissjóðsins eru metnar jákvæðar af hinum alþjóðlegu matsfyrirtækjum Moody’s og Standard & Poor’s. Það mat byggist á verulega bættum horfum ríkissjóðs um afkomu og skuldir, ásamt kröftugum efnahagsbata og því að Ísland býr að öflugum stofnunum og stjórnfestu. Gert er ráð fyrir 4% hagvexti í ár og 2,5% árið 2024 samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands og kemur í kjölfar 6,4% hagvaxtar á síðasta ári. Mikill útflutningur í öllum helstu atvinnugreinunum mun drífa áfram hagvöxt, og þar heldur ferðaþjónustan áfram að setja sitt lóð á vogarskálar ásamt einkaneyslu. Í baráttunni við verðbólguna munar jafnframt um öflugt gjaldeyrisinnstreymi frá þessum stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar. Það eru fáar þjóðir sem hafa náð að koma jafn kröftuglega út úr Covid-19-kreppunni og Ísland. Ánægjulegt er að sjá að afkoma ríkissjóðs hefur ítrekað verið umfram væntingar frá því heimsfaraldurinn skall á. Gert er ráð fyrir í ár að tekjur ríkissjóðs verði nærri 50 ma.kr. hærri en útgjöld ef frá eru talin vaxtatekjur og –gjöld. Þessi jákvæða þróun á lánshæfismatinu mun stuðla að aukinni hagsæld Íslands með lægri fjármögnunarkostnaði ríkissjóðs og fyrirtækja í landinu.

Áhættuþættir eru þó margir

Til að verðbólgan haldi áfram að lækka þarf allt efnahagslífið að vinna að því sameiginlega markmiði. Vinnumarkaðurinn er lykilbreyta í þeirri þróun og ljóst að launahækkanir verða að taka mið af því að verðbólga lækki. Launahækkanir æðstu embættismanna ríkisins hækkuðu því um 2,5%, sem er í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Sveitarstjórnarstigið hefur einnig ákveðið að hækkanir kjörinna fulltrúa taki mið af þessu. Þessar ráðstafanir eru afar mikilvægar til að ná tökum á verðbólguvæntingum og að víxlverkun launa og verðlags verði sjálfbær.

Verðbólgan er enn langt yfir markmiði og verðbólguvæntingar of háar. Það munar þó um að raunstýrivextir eru nú jákvæðir, sem minnkar heildareftirspurn og eykur sparnað í hagkerfinu. Hagstæðar verðbólgumælingar og sterkt gengi munu hafa jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar þegar fram líða stundir. Ríkisfjármálin eru þó enn rekin með halla og því fyrr sem ríkisfjármálin snúast í afgang því betra. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru umtalsverðar og hafa ríkisfjármálin fundið fyrir því á neikvæðan hátt eins og heimili landsins.

Verðbólga á heimsvísu hefur verið á niðurleið og afar brýnt að sú þróun haldi áfram. Allir óvissuþættir hafa auðvitað neikvæð áhrif og er stríðið í Úkraínu einn þáttur í því. Nýverið hafa rússnesk stjórnvöld rift samkomulaginu um útflutning á kornafurðum frá Úkraínu, en það þýddi að verðið hækkaði tímabundið. Öll óvissa er neikvæð í alþjóðaviðskiptum og því ómögulegt að segja hvort alþjóðlegt verðlag verði stöðugt eður ei. Því er afar brýnt fyrir Ísland að afgangur fari að myndast á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins til að draga úr óvissunni. Viðskiptakjör þjóðarinnar hafa verið afar hagkvæm undanfarin misseri og er ekki ávallt á vísan að róa í þeim efnum.

Lokaorð

Þótt öll helstu teikn séu jákvæð um þessar mundir er mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Aðgerðir í peninga- og ríkisfjármálum eru að skila raunverulegum árangri og mikilvægt að missa þá þróun ekki frá sér. Árangur í efnahagsmálum er langhlaup og snýr að trúverðugleika. Ég hef fulla trú á því að komandi kjarasamningar taki mið af því að ná verðbólgunni enn frekar niður. Ljóst er að ríkisstjórnin hefur það að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Lilja Dögg Alfreðsdóttir Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst 22. júlí 2023.