Categories
Fréttir Greinar

Efnahagurinn á réttri leið en tryggja verður nægt framboð á húsnæði

Deila grein

04/02/2024

Efnahagurinn á réttri leið en tryggja verður nægt framboð á húsnæði

Veiga­mesta hags­muna­mál ís­lenskra heim­ila og fyr­ir­tækja er að verðbólg­an haldi áfram að minnka. Mik­il verðbólga bitn­ar ávallt á þeim sem síst skyldi, það er þeim efnam­inni. Fólk jafnt sem fyr­ir­tæki hafa jafn­framt fundið vel fyr­ir háu vaxta­stigi. Með sam­stilltri stefnu­mót­un rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins – gæt­um við loks­ins náð að sjá til lands í glím­unni við verðbólg­una.

Vísi­tala neyslu­verðs án hús­næðis um 5,2%

Verðbólg­an hef­ur verið yfir 2,5% verðbólgu­mark­miði Seðlabanka Íslands í meira en þrjú ár. Vísi­tala neyslu­verðs hef­ur hækkað um 6,7% og vísi­tala neyslu­verðs án hús­næðis um 5,2%. Verðbólg­an hef­ur því lækkað um 1,3 pró­sentu­stig á tveim­ur mánuðum. Því miður var það reiknaða húsa­leig­an sem hafði mest áhrif til hækk­un­ar og jókst um 0,9%. Þetta sýn­ir áfram, svart á hvítu, hvar helsta upp­spretta frek­ari verðbólguþrýst­ings er í hag­kerfi okk­ar. Markaðsaðilar gera ráð fyr­ir að verðbólga haldi áfram að hjaðna og afar mik­il­vægt er að sú verði raun­in. Því er ekki hægt að leggja nægj­an­lega mikla áherslu á mik­il­vægi þess að lang­tíma­kjara­samn­ing­ar séu sniðnir á þá vegu að verðbólgu­mark­mið Seðlabanka Íslands ná­ist á næst­unni.

Hús­næðisliður­inn end­ur­skoðaður

Gleðileg tíðindi bár­ust í vik­unni um að Hag­stofa Íslands hefði um hríð unnið að því að end­ur­skoða aðferðir við mat á reiknaðri leigu í vísi­tölu neyslu­verðs. Sam­kvæmt Hag­stof­unni eru for­send­ur að skap­ast fyr­ir því að breyta um aðferð við mat á hús­næðisliðnum með það að mark­miði að búa til betri gögn. Afar brýnt er að mæl­ing­ar Hag­stof­unn­ar end­ur­spegli sem best raun­veru­lega þróun á hús­næðismarkaði. Breyt­ing­arn­ar munu hafa það í för með sér ann­ars veg­ar að sveifl­ur í reiknuðum hús­næðislið munu minnka og hins veg­ar mun þróun stýri­vaxta Seðlabanka Íslands ekki hafa sömu áhrif og verið hef­ur. Um er að ræða löngu tíma­bæra breyt­ingu.

Horf­ur í heims­bú­skapn­um hafa batnað

Upp­færð spá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins um horf­ur í heims­bú­skapn­um sem birt­ist í vik­unni er bjart­ari en spár að und­an­förnu. Gert er ráð fyr­ir meiri hag­vexti, eða rúm­um 3%, árin 2024-25. Hagspá­in hef­ur hækkað vegna auk­ins viðnámsþrótt­ar í Banda­ríkj­un­um og hjá stór­um ný­markaðs- og þró­un­ar­ríkj­um. Verðbólga á heimsvísu hef­ur hjaðnað hraðar en bú­ist var við, sem er já­kvætt upp á hagþróun, en á móti koma skell­ir á fram­boðshliðinni og hef­ur Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn áhyggj­ur af áhrif­um af vax­andi hafta­stefnu. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga í heim­in­um lækki í 5,8% árið 2024 og í 4,4% árið 2025, en verðbólgu­spá­in fyr­ir árið 2025 er end­ur­skoðuð til lækk­un­ar. Með minnk­andi verðbólgu og stöðugum hag­vexti hafa lík­ur á mjúkri lend­ingu auk­ist veru­lega. Þessi hag­fellda þróun get­ur leitt til þess að vext­ir lækki hraðar en gert hef­ur verið ráð fyr­ir. Skila­boð banda­ríska Seðlabank­ans hafa þó verið afar skýr eða að vaxta­lækk­un­ar­ferli muni ekki hefjast fyrr en mjög traust­ar vís­bend­ing­ar liggja fyr­ir um lækk­un verðbólgu. Vinnu­markaður­inn í Banda­ríkj­un­um held­ur áfram að vera sterk­ur og störf­um fjölg­ar ört. Markaðir hafa brugðist við vænt­ing­um um mjúka lend­ingu heimbú­skap­ar­ins und­an­farn­ar vik­ur og hafa hluta­bréfa­vísi­töl­ur tekið við sér og vext­ir á skulda­bréfa­mörkuðum al­mennt lækkað. Það eru áfram skipt­ar skoðanir um hvort verðhækk­an­ir nú séu skamm­vinn­ar eða vís­bend­ing um viðvar­andi þróun. Seðlabank­ar beggja vegna Atlantsála hafa gefið til kynna að ein­hver bið kunni að verða á vaxta­lækk­un­um.

Póli­tísk spenna og átök vega áfram þungt

Viðskipta­spenna, svæðis­bund­in átök og póli­tísk­ur óstöðug­leiki skap­ar áskor­an­ir í alþjóðlegu sam­starfi og mun áfram lita spár um framþróun efna­hags­mála. Vax­andi póli­tísk­ur órói í Mið-Aust­ur­lönd­um og árás­ir á flutn­inga­skip í Rauðahafi geta þó hæg­lega leitt til hækk­un­ar á hrávöru, sem aft­ur eyk­ur verðbólguþrýst­ing. Þröng staða á kín­verska fast­eigna­markaðnum er lík­leg til að draga úr þrótti hag­kerf­is­ins þar en vegna stærðar markaðar­ins geta áhrif­in verið mun víðtæk­ari. Bú­ast má við að Kín­verj­ar leggi auk­inn kraft í út­flutn­ing, sem gæti aft­ur haft áhrif á viðskipta­höft og vernd­artolla víða um heim. Útlitið á heimsvísu horf­ir þó í heild til betri veg­ar og það eru einkum þrír þætt­ir sem eru þar veiga­mest­ir. Aðfanga­keðja heims­ins er að ná betra jafn­vægi, verðbólga er að hjaðna hraðar en spár gerðu ráð fyr­ir og að lok­um þá gera markaðsaðilar ráð fyr­ir að vaxta­lækk­un­ar­ferlið hefj­ist fyrr en ella. Hag­vöxt­ur hef­ur verið kröft­ugri en bú­ist var við þrátt fyr­ir háa vexti. Hins veg­ar er hag­vaxt­ar­spá­in fyr­ir næstu ár nokkuð lægri en meðaltal síðustu 20 ára og vega þar vænt­an­lega mest háir raun­vext­ir, minnk­andi stuðning­ur rík­is­fjár­mála, m.a. í ljósi hærri rík­is­skulda, og spár um að fram­leiðni muni minnka.

Mesta áskor­un­in að tryggja nægt fram­boð á hús­næði

Áhrif hús­næðismarkaðar hafa verið viðamik­il í verðbólgu und­an­far­inna ára. Mik­il­vægt er að stjórn­völd bregðist við því að hús­næðismarkaður­inn verði ekki til þess að snúa við hag­stæðri verðbólguþróun. Stjórn­völd eiga að styðja við fram­boðshlið hús­næðismarkaðar­ins og ráðast í aðgerðir sem auka fram­boð. Mitt ráðuneyti hef­ur sent frá sér frum­varp um tak­mörk­un á rekstr­ar­leyf­is­skyldri gisti­starf­semi við at­vinnu­hús­næði. Mark­mið frum­varps­ins er að losa íbúðir sem nýtt­ar eru í skamm­tíma­leigu og or­lofs­í­búðir í þétt­býli. Frek­ari skref stjórn­valda í þessa átt gætu verið að koma íbúðum sem eru í svo­kölluðu „stoppi“ í upp­bygg­ingu af stað á ný. Þá má vinna að því að skapa skil­yrði fyr­ir aukna íbúðaupp­bygg­ingu til lengri tíma með fjár­hags­leg­um hvöt­um og síðast en ekki síst að tryggt verði nægt fram­boð bygg­ing­ar­hæfra lóða til framtíðar. Skref­in sem Reykja­vík­ur­borg hef­ur þegar tekið eru já­kvæð og verða til þess fall­in að auka fram­boð á hús­næðismarkaði.

Í litlu opnu hag­kerfi eins og hér á Íslandi skipta bæði ytri og innri þætt­ir miklu máli í hag­stjórn. Það er já­kvætt að sjá heims­bú­skap­inn þró­ast í rétta átt, bæði hvað varðar hag­vöxt og verðbólgu. Á tím­um eins og þess­um, þegar stjórn­völd standa frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um inn­an­lands, er ákveðinn létt­ir að þurfa ekki nauðsyn­lega að glíma við inn­flutta þætti sem gætu haft nei­kvæð áhrif, t.d. inn­flutt verðlag. Hins veg­ar er það áhyggju­efni til lengri tíma fyr­ir út­flutn­ingsþjóð, ef út­lit er fyr­ir að alþjóðaviðskipti muni í aukn­um mæli ein­kenn­ast af höft­um og toll­múr­um. Ein­ar Bene­dikts­son, skáld og frum­kvöðull, sagði eitt sinn: „Þeim sem vilja, vakna og skilja – vaxa þúsund ráð.“ Þess vegna ríður á að sam­stillt átak stjórn­valda, sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka og aðila vinnu­markaðar­ins – fólks jafnt sem fyr­ir­tækja – verði far­sælt og skili okk­ur sem best­um ár­angri.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. febrúar 2024.