Veigamesta hagsmunamál íslenskra heimila og fyrirtækja er að verðbólgan haldi áfram að minnka. Mikil verðbólga bitnar ávallt á þeim sem síst skyldi, það er þeim efnaminni. Fólk jafnt sem fyrirtæki hafa jafnframt fundið vel fyrir háu vaxtastigi. Með samstilltri stefnumótun ríkis og sveitarfélaga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins – gætum við loksins náð að sjá til lands í glímunni við verðbólguna.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis um 5,2%
Verðbólgan hefur verið yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í meira en þrjú ár. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 6,7% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 5,2%. Verðbólgan hefur því lækkað um 1,3 prósentustig á tveimur mánuðum. Því miður var það reiknaða húsaleigan sem hafði mest áhrif til hækkunar og jókst um 0,9%. Þetta sýnir áfram, svart á hvítu, hvar helsta uppspretta frekari verðbólguþrýstings er í hagkerfi okkar. Markaðsaðilar gera ráð fyrir að verðbólga haldi áfram að hjaðna og afar mikilvægt er að sú verði raunin. Því er ekki hægt að leggja nægjanlega mikla áherslu á mikilvægi þess að langtímakjarasamningar séu sniðnir á þá vegu að verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands náist á næstunni.
Húsnæðisliðurinn endurskoðaður
Gleðileg tíðindi bárust í vikunni um að Hagstofa Íslands hefði um hríð unnið að því að endurskoða aðferðir við mat á reiknaðri leigu í vísitölu neysluverðs. Samkvæmt Hagstofunni eru forsendur að skapast fyrir því að breyta um aðferð við mat á húsnæðisliðnum með það að markmiði að búa til betri gögn. Afar brýnt er að mælingar Hagstofunnar endurspegli sem best raunverulega þróun á húsnæðismarkaði. Breytingarnar munu hafa það í för með sér annars vegar að sveiflur í reiknuðum húsnæðislið munu minnka og hins vegar mun þróun stýrivaxta Seðlabanka Íslands ekki hafa sömu áhrif og verið hefur. Um er að ræða löngu tímabæra breytingu.
Horfur í heimsbúskapnum hafa batnað
Uppfærð spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um horfur í heimsbúskapnum sem birtist í vikunni er bjartari en spár að undanförnu. Gert er ráð fyrir meiri hagvexti, eða rúmum 3%, árin 2024-25. Hagspáin hefur hækkað vegna aukins viðnámsþróttar í Bandaríkjunum og hjá stórum nýmarkaðs- og þróunarríkjum. Verðbólga á heimsvísu hefur hjaðnað hraðar en búist var við, sem er jákvætt upp á hagþróun, en á móti koma skellir á framboðshliðinni og hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áhyggjur af áhrifum af vaxandi haftastefnu. Gert er ráð fyrir að verðbólga í heiminum lækki í 5,8% árið 2024 og í 4,4% árið 2025, en verðbólguspáin fyrir árið 2025 er endurskoðuð til lækkunar. Með minnkandi verðbólgu og stöðugum hagvexti hafa líkur á mjúkri lendingu aukist verulega. Þessi hagfellda þróun getur leitt til þess að vextir lækki hraðar en gert hefur verið ráð fyrir. Skilaboð bandaríska Seðlabankans hafa þó verið afar skýr eða að vaxtalækkunarferli muni ekki hefjast fyrr en mjög traustar vísbendingar liggja fyrir um lækkun verðbólgu. Vinnumarkaðurinn í Bandaríkjunum heldur áfram að vera sterkur og störfum fjölgar ört. Markaðir hafa brugðist við væntingum um mjúka lendingu heimbúskaparins undanfarnar vikur og hafa hlutabréfavísitölur tekið við sér og vextir á skuldabréfamörkuðum almennt lækkað. Það eru áfram skiptar skoðanir um hvort verðhækkanir nú séu skammvinnar eða vísbending um viðvarandi þróun. Seðlabankar beggja vegna Atlantsála hafa gefið til kynna að einhver bið kunni að verða á vaxtalækkunum.
Pólitísk spenna og átök vega áfram þungt
Viðskiptaspenna, svæðisbundin átök og pólitískur óstöðugleiki skapar áskoranir í alþjóðlegu samstarfi og mun áfram lita spár um framþróun efnahagsmála. Vaxandi pólitískur órói í Mið-Austurlöndum og árásir á flutningaskip í Rauðahafi geta þó hæglega leitt til hækkunar á hrávöru, sem aftur eykur verðbólguþrýsting. Þröng staða á kínverska fasteignamarkaðnum er líkleg til að draga úr þrótti hagkerfisins þar en vegna stærðar markaðarins geta áhrifin verið mun víðtækari. Búast má við að Kínverjar leggi aukinn kraft í útflutning, sem gæti aftur haft áhrif á viðskiptahöft og verndartolla víða um heim. Útlitið á heimsvísu horfir þó í heild til betri vegar og það eru einkum þrír þættir sem eru þar veigamestir. Aðfangakeðja heimsins er að ná betra jafnvægi, verðbólga er að hjaðna hraðar en spár gerðu ráð fyrir og að lokum þá gera markaðsaðilar ráð fyrir að vaxtalækkunarferlið hefjist fyrr en ella. Hagvöxtur hefur verið kröftugri en búist var við þrátt fyrir háa vexti. Hins vegar er hagvaxtarspáin fyrir næstu ár nokkuð lægri en meðaltal síðustu 20 ára og vega þar væntanlega mest háir raunvextir, minnkandi stuðningur ríkisfjármála, m.a. í ljósi hærri ríkisskulda, og spár um að framleiðni muni minnka.
Mesta áskorunin að tryggja nægt framboð á húsnæði
Áhrif húsnæðismarkaðar hafa verið viðamikil í verðbólgu undanfarinna ára. Mikilvægt er að stjórnvöld bregðist við því að húsnæðismarkaðurinn verði ekki til þess að snúa við hagstæðri verðbólguþróun. Stjórnvöld eiga að styðja við framboðshlið húsnæðismarkaðarins og ráðast í aðgerðir sem auka framboð. Mitt ráðuneyti hefur sent frá sér frumvarp um takmörkun á rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi við atvinnuhúsnæði. Markmið frumvarpsins er að losa íbúðir sem nýttar eru í skammtímaleigu og orlofsíbúðir í þéttbýli. Frekari skref stjórnvalda í þessa átt gætu verið að koma íbúðum sem eru í svokölluðu „stoppi“ í uppbyggingu af stað á ný. Þá má vinna að því að skapa skilyrði fyrir aukna íbúðauppbyggingu til lengri tíma með fjárhagslegum hvötum og síðast en ekki síst að tryggt verði nægt framboð byggingarhæfra lóða til framtíðar. Skrefin sem Reykjavíkurborg hefur þegar tekið eru jákvæð og verða til þess fallin að auka framboð á húsnæðismarkaði.
Í litlu opnu hagkerfi eins og hér á Íslandi skipta bæði ytri og innri þættir miklu máli í hagstjórn. Það er jákvætt að sjá heimsbúskapinn þróast í rétta átt, bæði hvað varðar hagvöxt og verðbólgu. Á tímum eins og þessum, þegar stjórnvöld standa frammi fyrir miklum áskorunum innanlands, er ákveðinn léttir að þurfa ekki nauðsynlega að glíma við innflutta þætti sem gætu haft neikvæð áhrif, t.d. innflutt verðlag. Hins vegar er það áhyggjuefni til lengri tíma fyrir útflutningsþjóð, ef útlit er fyrir að alþjóðaviðskipti muni í auknum mæli einkennast af höftum og tollmúrum. Einar Benediktsson, skáld og frumkvöðull, sagði eitt sinn: „Þeim sem vilja, vakna og skilja – vaxa þúsund ráð.“ Þess vegna ríður á að samstillt átak stjórnvalda, sveitarfélaga, Seðlabanka og aðila vinnumarkaðarins – fólks jafnt sem fyrirtækja – verði farsælt og skili okkur sem bestum árangri.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. febrúar 2024.