,,Hæstv. forseti. Góðir landsmenn.
Þegar farið er yfir það í fljótheitum hvert við stefnum sem þjóðfélag er ekki alveg augljóst hver niðurstaðan er. Það kann að vera að stjórnarmeirihlutinn sé með það á hreinu en ég stórefast um að svo sé. Mig langar að nefna nokkur dæmi:
Á að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og taka gjald af ferðamönnum — eða ekki? Er verið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna — eða ekki? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að fjármagna uppbyggingu samgangna, veggjöld eða ekki? Hversu mikið ætlar ríkisstjórnin að einkavæða í skólakerfinu? Gjaldmiðilsmál; króna eða ekki króna? Hvernig á fjármálakerfið að vera?
Þetta eru bara nokkur dæmi um það sem ríkisstjórnin hefur verið að fást við á undanförnum mánuðum en enginn virðist vita hvert beri að stefna. Og reyndar er það ekki bara svo, heldur virðist sem einstaka ráðherra virðist ekki hafa hugmynd um hvert hann stefnir.
Ég leyfi mér sérstaklega að nefna hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann kemur af fjöllum þegar rætt er um að verið sé að einkavæða í heilbrigðisþjónustunni, segir lögin óskýr og þar fram eftir götunum. En hver er hans pólitíski vilji? Hvert telur hann heppilegt að stefna? Mér vitanlega hefur það ekki komið fram með skýrum hætti. Það sem hann hefur þó sagt um þetta kom fram í viðtali við ráðherra á dögunum. Þar sagði hann að það væri ekki endilega plottað um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þar höfum við það. Hann aftekur ekki með öllu að sú sé raunin.
Ég held að það gæti verið ágætt fyrir ráðherra að reyna að átta sig á því fyrr en síðar hvort eitthvað sé að gerast á hans vakt sem hann kærir sig ekki um. Það getur varla talist ofrausn af hálfu manns sem talar um ný vinnubrögð að samtal um aukið einkaframtak í heilbrigðisþjónustu sé tekið við þjóðina, þótt í litlu væri.
Frú forseti. Sé gengið til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn þarf að hafa afl til að standa í lappirnar. Slíkt afl hefur mér sýnst að viðhengin tvö, Björt framtíð og Viðreisn, hafi ekki. Viðreisn er útibú frá Sjálfstæðisflokknum, Björt framtíð virðist svo vera orðin útibú frá Viðreisn. Og í 11 manna ríkisstjórn sitja sex Sjálfstæðismenn, sem sagt meiri hluti við ríkisstjórnarborðið. Fyrir ekki svo löngu síðan voru níu af þeim sem eru ráðherrar nú í Sjálfstæðisflokknum.
Þótt ekki sé langt liðið á kjörtímabilið virðist ljóst að hver stefnir í sína átt og það leiðir hugann að gjaldmiðilsmálum, öllu heldur því stefnuleysi sem virðist ríkja. Krónan er framtíðargjaldmiðill Íslands, segir forsætisráðherra. Fjármálaráðherrann talar krónuna hins vegar niður hvenær sem færi gefst. Það er merkilegt að upplifa það að fjármálaráðherra landsins skuli vera svo taktlaus að tala niður gjaldmiðil þjóðarinnar á erlendum sem innlendum vettvangi. Það má vera að ófyndin framsetning hans í ástarjátningu til evrunnar sé fyndin í þröngum hópi Viðreisnar, en ég hygg þó að fleiri séu undrandi á þessari framkomu.
Frú forseti. Það er eitthvað bogið við það, í fullri alvöru, að fjármálaráðherra skuli reyna eftir fremsta megni að koma hér á myntráði sem líklega á að ljúka með upptöku evru. Hann segist áhyggjufullur vegna styrkingar krónunnar en gerir ekkert, hreint ekki neitt, enda veit hann sem er að liður í því að koma hér á myntráði og svipta íslensk stjórnvöld ráðum á eigin mynt verður auðveldara því minna sem hann aðhefst.
Það verður að segjast alveg eins og er, frú forseti, að það virðist vera lítill dugur í hæstv. forsætisráðherra þegar kemur að þessum efnum eða það væri gaman að fá svar við því frá hæstv. ráðherra, þótt ekki verði það í kvöld, hvort hann sé sammála fjármálaráðherra um að best sé að gera ekki neitt, taka upp myntráð og fórna forræði á eigin mynt. Ætlar ríkisstjórnin að marka sér einhverja stefnu í þessum málum? Jú, sett er á laggirnar nefnd um endurskoðun peningastefnu. Hvort mun hún fylgja stefnu forsætisráðherra eða fjármálaráðherra?
Á meðan stjórnarherrar fljóta sofandi að feigðarósi boðar Seðlabankinn að hann sé hættur reglulegum kaupum á gjaldeyri. Hafi verið þörf á að kaupa gjaldeyri fram til þessa er alveg augljóst að þörfin er meiri nú en nokkru sinni.
Fram hefur komið í fréttum að svo virðist sem vaxtamunarviðskipti séu að ná sér á strik á ný og ég veit fyrir víst að það setur hroll að mörgum við þær fréttir, enda höfðu þau viðskipti örugglega mikið um það að segja hversu illa fór haustið 2008. Síðasta ríkisstjórn var með ákveðin úrræði til að bregðast við þess háttar viðskiptum.
Frú forseti. Ég tel að hér verði að gera mun meira og reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að fjármagn flæði óhindrað til landsins með tilheyrandi áhættu fyrir þjóðarbúið. Ef það er eitthvað sem læra má af bankahruninu 2008 er það það að mikið innstreymi af erlendu fé til vaxtamunarviðskipta mun alltaf koma okkur í koll. Enn og aftur eru það allt of háir vextir sem virðast vera undirrót vandans.
Á hvaða vegferð er fjármálakerfið á vakt núverandi ríkisstjórnar? Engri sérstakri, held ég að lýsi því best.
Á dögunum komu hingað áhugasamir erlendir kaupmenn og sögðust hafa keypt Arion banka. Úr herbúðum ríkisstjórnarinnar heyrðust fagnaðaróp og hér sagðir alvörufjárfestar á ferð sem væru að veðja með Íslandi en ekki á móti, þetta væru tímamót, mikil tímamót. Í hvaða skilningi eru það tímamót að erlendir vogunarsjóðir, sumir með vafasama og glæpsamlega fortíð, skuli vilja eignast hér banka og reka? Er mönnum ekki sjálfrátt? Og hefur ríkisstjórnin sett það niður fyrir sér hvernig fjármálakerfið á Íslandi á að vera? Hefur ríkisstjórnin einhverja hugmynd um það eða á að láta „markaðinn“ um þetta eins og fleira?
Það er í raun merkilegt til þess að hugsa að almenningur og ríkið skuli hafa verið nógu góð til að taka á sig stóran skell við hrun bankanna en svo virðist ríkisstjórninni standa á sama hvernig fjármálakerfið eigi að líta út.
Og meira af afrekum ríkisstjórnarinnar. Menntamálaráðherra er að einkavæða framhaldsskóla án umræðu á Alþingi. Þegar upp komst harmaði hann ótímabæra umræðu um breytingarnar fyrirhuguðu, það voru hans viðbrögð, sem sagt að einhver skyldi vilja ræða hvort færa skyldi Ármúlaskóla inn í einkarekstur. Það voru alveg ótrúlega furðuleg viðbrögð. Hvenær átti að ræða og hverjir máttu ræða breytinguna? Allt gerist þetta á vakt ríkisstjórnar sem boðað hefur ný og vandaðri vinnubrögð og minna fúsk.
Hér er rétt að staldra við og spyrja: Hvert ætlar ríkisstjórnin með menntakerfið? Eigum við að ræða það eða er bannað að ræða það? Ótímabært?
Frú forseti. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er eins og hún er. Eins og á öllum tímum vantar sífellt meira fé. En ríkisstjórnin virðist ekki ætla að bregðast við vegna skorts á uppbyggingu innviða. Enn vantar milljarða króna í heilbrigðiskerfið, samgöngur og menntamálin, svo aðeins sé minnst á það sem hæst ber. Helst er að skilja að ríkisstjórnin vilji hraða einkavæðingu í þessum geirum. Hennar áætlun virðist vera að láta fólkið bara greiða meira fyrir þjónustuna fyrst það endilega þarf á henni að halda.
Málflutningur samgönguráðherra er náttúrulega sá sem best passar í þessum efnum þegar hann segir: Ef þið viljið meira skuluð þið borga meira, og það fyrir þjónustu sem ég hygg að flestir séu sammála um að ríkið eigi að greiða og að menn séu með sköttum og gjöldum af eldsneyti búnir að greiða í ríkissjóð nú þegar.
Góðir landsmenn. Það er til önnur leið, leiðin sem er kennd við blandað hagkerfi. Stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í dag er að lækka vexti og stuðla að mjúkri lendingu hagkerfisins. Til þess eru til úrræði, til að mynda stofnun stöðugleikasjóðs sem myndi nýtast sem eitt hagstjórnartækið til viðbótar þeim sem fyrir eru, endurskoðun peningastefnu sem hafi það m.a. að markmiði að gengið sé stöðugt, vextir sambærilegir við önnur lönd. Það er hægt að setja á gjaldtöku í ferðaþjónustu, komu- eða brottfarargjöld og breyta gistináttagjaldi. Það er skynsamlegt að fjárfesta í innviðum víða um land þar sem engin þensla er án þess að blása í þenslubóluna.
Okkur ber að varðveita og byggja upp velferðarkerfi í landinu sem ríkisvaldið ber ábyrgð á sem byggir á traustum atvinnugreinum, nýjum sem gömlum. Við eigum að tryggja að samfélagið reki sams konar heilbrigðiskerfi fyrir alla. Heilsufar er ekki markaðsvara. Sama gildir um menntun. Jafnrétti til náms þarf að ríkja. Við eigum að nýta allar okkar auðlindir með sjálfbærum hætti og m.a. þannig koma að liði við loftslagsmálin. Það er til önnur leið en ríkisstjórnin er að fara, það er leið skynseminnar. Þá leið viljum við Framsóknarmenn fara. Þakka þeim sem á hlýddu. — Gleðilegt sumar.”
Sigurður Ingi Jóhannsson í almennum stjórnmálaumræðum 29. maí 2017
Categories
Eldhúsdagsumræður #1
30/05/2017
Eldhúsdagsumræður #1