Hvað ætlum við að gera og hvernig á að gera það? Það er stóra spurningin sem allir kappkosta við að tjá sig um þessar mundir. Vinnumarkaðurinn kallar eftir skýrum aðgerðum stjórnvalda og að kjör fólks séu jöfnuð með einhverjum hætti. Það er útópía að halda því fram að fullkominn jöfnuður í þróuðu samfélagi sé mögulegur. Það er þó hægt að jafna stöðuna með aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar.
Við stöndum frammi fyrir stórum verkefnum og það er ekkert launungamál. Það þarf að beita samvinnuhugsuninni og samheldni til að koma böndum á verðbólguna með fjölþættum aðgerðum og stuðla að frekari kaupmáttaraukningu hjá venjulegu launafólki.
Menntun metin til launa
Ákveðin kjaragliðnun hefur átt sér stað en sú þróun hefur átt sér stað lengi.
Við þurfum líka að horfast í augu við að þá gliðnun má einnig rekja til hærra menntunarstigs hér á landi. Það er fagnaðarefni að sjá fólk sækja sér aukna þekkingu og þar með er það að skila þeirri þekkingu í virðisaukningu fyrir samfélagið. Við viljum að menntun sé metin til launa og að það sé hvati til að auka þekkingu sína og færni á vinnumarkaði. Það er eðlilegt að slíkur hvati sé til staðar til að afla sér frekari þekkingar á sínu sviði og fyrir aukna þekkingu er sanngjarnt að fá betur greitt. Við eigum að hvetja fólk til að sækja sér aukna þekkingu og þarna á jöfnuðurinn að vera mestur. Að allir geti aflað sér þekkingar í formi menntunar og að það skili sér í launum.
Eru sanngjarnar leikreglur til staðar?
Kjaragliðnunin er mest á milli fjármagnseigenda og launafólks en á undanförnum tíu árum hafa fjármagnstekjur aukist gífurlega eða um 120% að raunvirði. Atvinnutekjur í hagkerfinu jukust um 53%.
Ekki er greitt tryggingargjald né útsvar af útgreiddum arði og mikill munur er á milli skattlagningar á hagnað lögaðila og tekjuskatts. Það er því spurning hvort ekki sé löngu kominn tími til að taka þetta til endurskoðunar. Að mínu mati er þessari spurningu auðsvarað. Það þarf að girða fyrir tekjutilflutning milli launa og fjármagnstekna.
Allir skila sínu til samfélagsins
Er ekki kominn tími til að taka samtalið um það skatthlutfall sem fjármagnseigendur greiða af útgreiddum arði? Við þurfum að skapa sanngjarnara og skilvirkara skattkerfi og að fjármagnstekjuskattur verði settur í þrepaskiptingu. Við eigum að styðja vel við nýsköpunarstarfsemi auk lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Punkturinn með þessari grein er að breiðu bökin borgi rétt til samfélagsins. Við getum gert mun betur í þeim efnum og ég kalla eftir því hér með.
Við búum jú öll í þessu landi saman og ættum þar af leiðandi að bera samfélagslega ábyrgð saman og að allir greiði sitt með skilvirkari hætti inn í samneysluna. Það á að vera leiðarljósið í þessum efnum og við eigum að búa til sanngjarnari leikreglur í skattkerfinu okkar.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. maí 2023.