Categories
Fréttir Greinar

Farsælt íslenskt lýðveldi í 80 ár

Deila grein

17/06/2024

Farsælt íslenskt lýðveldi í 80 ár

Ákvarðanir sem tekn­ar eru í dag skipta kom­andi kyn­slóðir máli. Kyn­slóðirn­ar í dag njóta góðs af þeim verk­um sem brautryðjend­ur fyrri tíma börðust fyr­ir. Því er fagnað í dag að lýðveldið Ísland fyll­ir 80 árin. Með stofn­un lýðveld­is­ins hinn 17. júní 1944 náðist loka­mark­miðið í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar eft­ir áfanga­sigra ára­tug­anna á und­an. Þeir sigr­ar voru born­ir uppi af eld­hug­um þeirra tíma, sem höfðu þá bjarg­föstu trú að ís­lenskri þjóð myndi farn­ast best á grund­velli sjálf­stæðis.

Í amstri hvers­dags­leik­ans og dæg­urþrasi stjórn­mál­anna vill það kannski stund­um gleym­ast hversu um­fangs­mikl­ar sam­fé­lags­breyt­ing­ar hafa orðið á Íslandi og hvernig Ísland hef­ur í fyll­ingu tím­ans farið úr því að vera eitt fá­tæk­asta ríki í Evr­ópu yfir í að verða að einu mesta vel­meg­un­arþjóðfé­lagi ver­ald­ar. Full­veldið árið 1918 og að lok­um sjálf­stæðið árið 1944 voru horn­stein­ar þeirr­ar framtíðar sem átti eft­ir að fylgja í kjöl­farið, sem byggð var á for­send­um og ákvörðunum Íslend­inga sjálfra um eig­in framtíð.

Viðskiptafrelsi grund­völl­ur póli­tísks frels­is

Stund­um er sagt að drop­inn holi stein­inn. Það er hægt að heim­færa upp á bar­áttu Íslend­inga fyr­ir sjálf­stæði lands­ins. End­ur­reisn Alþing­is árið 1845 skapaði vett­vang fyr­ir þá sem stóðu í stafni sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar til þess að setja á odd­inn gagn­vart Dana­kon­ungi ýmis þau fram­fara­mál sem skiptu fram­gang þjóðar­inn­ar máli. Í hug­um margra var versl­un­ar­frelsi samofið þjóðfrels­inu, enda var það mál­efni fyr­ir­ferðar­mikið á hinu end­ur­reista Alþingi – og skyldi eng­an undra í ljósi tæp­lega 200 ára af danskri ein­ok­un­ar­versl­un frá ár­inu 1602, sem var af­num­in með frí­höndl­un­ar­lög­um sem giltu í tæp 70 ár, og fólu í sér ákveðnar til­slak­an­ir sem mörkuðu upp­hafið að því að ís­lensk­ir kaup­menn komu fram á sjón­ar­sviðið, þó svo að þeir hafi verið í minni­hluta á tíma­bil­inu. Ríkt ákall var eft­ir fullu versl­un­ar­frelsi enda var það álitið grund­völl­ur póli­tísks frels­is þjóðar­inn­ar fram á veg­inn. Birt­ist þetta meðal ann­ars í orðum af­mæl­is­barns dags­ins, Jóns Sig­urðsson­ar, sem hann ritaði í bréfi nokkru sem stílað var á bróður hans þann 29. júní 1852, þar sem Jón rit­ar: „Ef verzl­un­ar­frelsi kæm­ist á, þá vildi eg helzt kom­ast heim að verða þar, því þá veit eg pólitiskt frelsi kem­ur á ept­ir.“ Það urðu því ákveðin vatna­skil hinn 1. apríl 1855 þegar rík­isþing Dan­merk­ur samþykkti lög um versl­un­ar­frelsi sem heim­ilaði kaup­mönn­um annarra ríkja að versla við Íslend­inga og inn­lend­um versl­un­ar­mönn­um gafst nú kost­ur á að leigja er­lend skip fyr­ir starf­semi sína. Hin nýju lög áttu eft­ir að leggja grund­völl að inn­lend­um pönt­un­ar- og versl­un­ar­fé­lög­um í land­inu, sem var vita­skuld mik­il breyt­ing.

Þjóð meðal þjóða

Um­turn­un hef­ur orðið á ís­lensku sam­fé­lagi frá þeim tím­um sem rakt­ir eru hér að ofan en þessi dæmi­saga geym­ir mik­il­væg­an lær­dóm. Stofn­un lýðveld­is­ins veitti Íslandi rödd í alþjóðasam­fé­lag­inu, bæði meðal þjóða og alþjóðastofn­ana. Sem sjálf­stætt ríki hef­ur Ísland látið rödd sína heyr­ast á alþjóðavett­vangi og yfir lýðveld­is­tím­ann hef­ur frjáls­ræði og mögu­leik­ar ís­lensks viðskipa­lífs auk­ist veru­lega, meðal ann­ars á grund­velli aðild­ar okk­ar að EES-samn­ingn­um sem trygg­ir frelsi í flutn­ingi vara, þjón­ustu, fjár­magns og vinnu­afls milli aðild­ar­landa samn­ings­ins, sem og fríversl­un­ar­samn­inga sem Ísland hef­ur gert á grund­velli EFTA en einnig tví­hliða við stórþjóðir í heim­in­um svo dæmi séu tek­in. Sam­hliða þessu hef­ur stoðum at­vinnu­lífs­ins fjölgað úr einni í fjór­ar og út­flutn­ings­tekj­ur þjóðarbús­ins marg­fald­ast sem skipt­ir miklu máli fyr­ir lítið og opið hag­kerfi eins og okk­ar. Þá er nán­ast sama hvar borið er niður í sam­an­b­urði á lífs­kjör­um og lífs­gæðum ým­is­kon­ar milli ríkja, Ísland mæl­ist þar nán­ast und­an­tekn­inga­laust meðal efstu ríkja í heim­in­um, sem er eft­ir­tekt­ar­verður ár­ang­ur fyr­ir fá­menna þjóð í Atlants­hafi. Þeim kyn­slóðum sem komu á eft­ir for­vígs­mönn­um sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar og tóku við sjálf­stæðiskefl­inu hef­ur þannig vegnað vel í að sækja fram í þágu ís­lenskra hags­muna á grund­velli sjálfs­ákvörðun­ar­rétt­ar þjóðar­inn­ar. Ekk­ert verður hins veg­ar til úr engu, en lands­menn hafa borið gæfu til að nýta auðlind­ir lands­ins á sjálf­bær­an hátt og styðja þannig við öfl­ugt vel­ferðarsam­fé­lag, þar sem all­ir eiga að fá tæki­færi til að lifa gæfu­ríku lífi óháð efna­hag. Ávallt þarf að huga að efna­hags­legu sjálf­stæði þjóðar­inn­ar, líkt og Jón gerði forðum daga, enda legg­ur það grunn­inn að fram­sókn lands og þjóðar.

Fögn­um lýðveld­inu

Það eru for­rétt­indi að búa í lýðræðis­sam­fé­lagi eins og okk­ar og geta fagnað lýðveldisaf­mæli sem þessu. Við sjá­um það víða er­lend­is að sótt er að þeim gild­um sem við grund­völl­um sam­fé­lag og stjórn­ar­far okk­ar á. Það er óheillaþróun sem þarf sporna við. Við Íslend­ing­ar þurf­um að halda áfram að rækta lýðveldið, fjör­eggið okk­ar, og allt það sem því fylg­ir. Það ger­um við meðal ann­ars með virkri þátt­töku þjóðfé­lagsþeg­anna, heil­brigðum skoðana­skipt­um, þátt­töku í kosn­ing­um og að fagna áföng­um eins og deg­in­um í dag um allt land. Ég óska lands­mönn­um öll­um til ham­ingju með 80 ára af­mæli lýðveld­is­ins og megi Ísland vera frjálst og sjálf­stætt um ókomna tíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin bitist fyrst í Morgunblaðinu 17. júní 2024.