Categories
Fréttir Greinar

Fögnum lýðveldinu

Deila grein

10/06/2024

Fögnum lýðveldinu

Hand­an við hornið er merk­is­áfangi í sögu ís­lensku þjóðar­inn­ar en þann 17. júní næst­kom­andi verða liðin 80 ár frá því að stofn­un lýðveld­is­ins átti sér stað hér á landi. Með því lauk sam­bandi milli Íslands og Dan­merk­ur sem staðið hafði yfir í ald­ir og stjórn­ar­far­inu sem við þekkj­um í dag var komið á. Á ferðum og fund­um mín­um und­an­farið bera þessi tíma­mót nokkuð reglu­lega á góma í sam­töl­um mín­um við fólk. Þökk sé góðu lang­lífi hér á landi er drjúg­ur hóp­ur núlif­andi Íslend­inga sem fædd­ist und­ir dönsk­um kóngi. Átta­tíu ár eru í raun ekki það lang­ur tími þegar maður hugs­ar út í það, en breyt­ing­arn­ar sem orðið hafa á ís­lensku sam­fé­lagi eru ótrú­leg­ar. Frá því að vera eitt fá­tæk­asta ríki Evr­ópu, yfir í það að vera í fremstu röð lífs­kjara í heim­in­um sam­kvæmt helstu mæl­ing­um. Þannig hef­ur sjálf­stæðið reynst bless­un í sókn okk­ar fram á við, blásið í okk­ur enn frek­ari kjarki til þess að gera bet­ur. Það er óbilandi trú mín að það stjórn­ar­far sem er far­sæl­ast bygg­ist á því að ákv­arðanir um vel­ferð fólks eru tekn­ar sem næst fólk­inu sjálfu.

Lýðveldið er hraust og sprelllifn­andi eins og ný­af­staðnar for­seta­kosn­ing­ar eru til vitn­is um. Öflug­ur hóp­ur fram­bjóðenda gaf þar kost á sér til að gegna embætti for­seta Íslands, fjöl­marg­ir sjálf­boðaliðar lögðu for­setafram­bjóðend­um lið með ýms­um hætti og kjör­sókn var sú besta í 28 ár. Allt upp­talið er mikið styrk­leika­merki fyr­ir lýðræðis­sam­fé­lag eins og okk­ar. Því miður er sótt að lýðræði og gild­um þess víða um heim í dag. Það er óheillaþróun sem sporna þarf við. Lýðræðið þarf nefni­lega að rækta og standa vörð um. Þar gegn­ir virkt þátt­taka borg­ar­anna lyk­il­hlut­verki, hvort sem það felst í að bjóða sig fram til embætta, skrifa skoðanap­istla, baka vöffl­ur í kosn­inga­bar­áttu, bera út kosn­inga­bæklinga eða mæta á kjörstað. Allt þetta er hluti af virku lýðræðisþjóðfé­lagi.

Mik­il­væg­ur hluti af því að rækta lýðveldið og lýðræðið er að fagna því og halda upp á mik­il­væga áfanga í sögu þess. Kom­andi lýðveldisaf­mæli er ein­mitt slík­ur áfangi en fjöl­breytt hátíðardag­skrá verður út um allt land í til­efni af 17. júní. Einnig hef­ur nefnd skipuð full­trú­um for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins, menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins, skrif­stofu Alþing­is, skrif­stofu for­seta Íslands og Þing­vallaþjóðgarðs. Nefnd­in hef­ur unnið að und­ir­bún­ingi viðburða til að halda upp á tíma­mót­in um allt land á næstu mánuðum.

Sjálf mun ég fagna þjóðhátíðar­deg­in­um vest­ur á Hrafns­eyri, fæðingastað Jóns Sig­urðsson­ar, þar sem verður skemmti­leg dag­skrá í til­efni lýðveldisaf­mæl­is­ins og einnig 1150 ára af­mæl­is Íslands­byggðar. Ég vil hvetja sem flesta til þess að taka þátt í að fagna 80 ára af­mæli lýðveld­is­ins, enda er það fjör­egg okk­ar sem við verðum að hlúa að til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2024.