Categories
Fréttir

Forgangsraðað verði auknum fjármunum til skógræktarmála

Deila grein

05/11/2019

Forgangsraðað verði auknum fjármunum til skógræktarmála

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, spurði umhverfis- og auðlindaráðherra út í fjárframlög til Skógræktarinnar í  í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær.
„Að rækta skóg er einn af þeim þáttum sem horft er til er binda á kolefni. Blásið hefur verið til sóknar í skógrækt og landgræðslu af hálfu stjórnvalda. Miðað við fjárlög 2020 er þó eins og hljóð og mynd fari ekki saman þegar talað er um framlög til Skógræktarinnar. Hinir svokölluðu Mógilsárpeningar, 28 milljónir, og Straumspeningar, 76 milljónir, samtals 104 milljónir, eru skornir af. Af þeim 200 milljónum sem stjórnvöld lögðu til sem nýja fjármuni vegna loftslagsmála skiluðu sér 32 milljónir til Skógræktarinnar.“
„Lagt var upp með á sínum tíma að skipting milli Landgræðslunnar og Skógræktarinnar væri 50:50. Mig langar að vita hvað hefur breyst, hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, því að í umsögn umhverfis- og samgöngunefndar með fjármálaáætlun 2020–2024 segir að lögð sé áhersla á, með leyfi forseta,

„að forgangsraðað verði auknum fjármunum til skógræktarmála umfram þá fjárhæð sem nú er í ríkisfjármálaáætluninni.“

Í umsögn fjárlaganefndar um fjármálaáætlun 2019–2023 í júní 2018 kemur fram að lögð er áhersla á, með leyfi forseta,

„að forgangsraðað verði til skógræktarmála. Framlög til þeirra drógust mjög saman árin eftir bankahrunið en fjárfesting í þeim málaflokki styður við mörg markmið stjórnvalda í umhverfismálum.“

„Nú þegar það lítur þannig út að Skógræktin þurfi að draga úr kostnaði við rekstur stofnunarinnar er aukning í þann lið sem heitir Framlög til skógræktar á lögbýlum, sem er vel. Skógræktin getur vel tæklað aukin umsvif miðað við hvernig hún er rekin í dag með mannafla um allt land. Skógræktin getur það hins vegar ekki þegar skorið er niður rekstrarfé til stofnunarinnar. Til að hægt sé að vera með ráðgjöf til bænda, gott gæðakerfi og árangursmat þarf fólk að vera í vinnu. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef Skógræktin á að fara að draga úr þessu eftirliti og segja upp fólki, minnka þjónustu við bændur, fækka störfum úti um landið og á sama tíma er talað um stórauknar aðgerðir í loftslagsmálum,“ sagði Þórarinn Ingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra baðst afsökunar á að þetta hafi ekki skilað sér rétt inn í fjárlagafrumvarpið. „Ástæðan fyrir því að það birtist eins og það sé niðurskurður til Skógræktarinnar á milli ára er fyrst og fremst sú að þar er um að ræða tímabundna heimild til Skógræktarinnar sem felst í eignarnámsbótum vegna jarðar sem komu inn á ákveðnu tímabili. Það voru um 76 milljónir á ári og þær eru ekki lengur til staðar. Hér er ekki verið að reyna að draga tennurnar úr Skógræktinni heldur aukast framlögin til hennar þvert á móti á næstu árum. Ég er jafnframt að leita leiða til að leiðrétta eitthvað þann mun sem verður af þeirri stóru, má segja, breytingu sem þarna er að verða á milli ára út af eignarnámsbótafjármagninu.“
Þórarinn Ingi vildi árétta í síðari ræðu sinni að þetta væri skerðing og hann gæti ekki skilið það öðruvísi en hún sé fyrir hendi í fjárlagafrumvarpinu.
„Þrátt fyrir breytingar á fjármunum varðandi Straums- og Mógilsárpeningana eru þetta 104 milljónir, sem er náttúrlega bagalegt á þeim tíma þegar við eigum að vera að bæta í skógrækt. Skógræktin vinnur mjög gott starf í gæðaeftirliti sínu og hefur t.d. gert einhverja 700 tilraunareiti o.fl. sem er verið að taka út til þess að skógræktin nái sem mestum árangri. Þá erum við að tala um nytjaskógrækt. Varðandi skiptingu á þessum 200 milljónum hef ég hingað til skilið það þannig að lagt hefði verið upp með að jöfn hlutföll væru milli Landgræðslunnar og Skógræktarinnar í þeim málum, en Skógræktin virðist einungis fá 32 milljónir. Mér leikur forvitni á að vita hvers vegna,“ sagði Þórarinn Ingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra sagði það vera rétt hjá Þórarin Inga það væru ekki bara eignarnámsfjármagnið sem þarna detti út heldur líka svokallaðir Mógilsárpeningar „sem ég reyndar ber enga ábyrgð á, enda ber atvinnuvegaráðuneytið ábyrgð á þeim.“