Framsóknarflokkurinn stóð fyrir viðburði á Fundi fólksins sem fram fór um helgina í Hofi á Akureyri. Viðburðurinn bar yfirskriftina Framtíðarmenntunin. Hvernig vinnum við með vélmennum? Líflegar og góðar umræður áttu sér stað og sneru um að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina, en á næstu árum munu fjölmörg störf hverfa á meðan ný koma að einhverju leyti í staðinn.
Fyrirsjáanlegt er að tækniþróunin verði hröð og því þarf hugarfarsbreytingu um hvernig við getum stuðlað að menntun og nýsköpun í takt við þarfir framtíðar. Á fundinum kom fram að mikilvægt er að menntun taki breytingum með þróun atvinnulífs og starfsgreina að leiðarljósi. Róbert Guðfinnsson, frumkvöðull flutti áhugavert erindi um rannsóknir, vöruþróun og fjárfestingar. Þá var Inga Eiríksdóttir kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga með fróðlegt erindi um nýtt fag sem er kennt við skólann og ber þann dularfulla titil vélmennafræði þar sem kennd er samsetning og forritun á hinum ýmsum vélmennum.
Þá voru í pallborði Soffía Gísladóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi og Jón Þór Sigurðsson umsjónarmaður FAB Lab smiðju í VMA. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins flutti síðan lokaorð og samantekt. Fundarstjóri var Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður.
Categories
Framsókn á Fundi fólksins
10/09/2017
Framsókn á Fundi fólksins