Breytingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar eru ein af stóru áskorunum íslensks samfélags. Fjöldi eldra fólks eykst og hlutfall aldraðra af heildarmannfjölda fer ört hækkandi á næstu árum og áratugum. Kröfur eldra fólks til þjónustu hafa að sama skapi breyst verulega frá því sem áður var.
Því er þörf er á breyttum viðhorfum í þjónustu við eldra fólk með áherslu á aldursvænt, heilsueflandi og styðjandi samfélag. Af þessu tilefni mælti undirrituð fyrir þingsályktunartillögu í haust um markvissa öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Tillögu sem gengur út á að safna saman markvissum, samræmdum og tímanlegum upplýsingum um líðan, stöðu og velferð eldra fólks á hverjum tíma.
Markmiðið með þessari gagnaöflun er að geta mælt aðstæður eldra fólks svo hægt sé að marka stefnu til framtíðar, vinna að aðgerðaáætlun og úthluta fjármagni á rétta staði. Ánægjulegt er að segja frá því að vel var tekið undir þessa tillögu og hún hefur verið færð inn í annað og stærra verkefni.
Aðgerðaáætlun til fjögurra ára
Þær fréttir bárust í desember að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra hefðu sett af stað vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.
Tillaga stjórnvalda birtist á samráðsgátt stjórnvalda 19. desember sl. og hófst þá opið samráð. Þar segir að aðgerðaáætluninni sé ætlað að vera leiðarvísir fyrir stjórnvöld til að skapa skýra framtíðarsýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og vinna heildarstefnu sem felur í sér að eitt þjónustustig taki hnökralaust við af öðru, að ábyrgð á þjónustuþáttum milli aðila sé skýr og að gráum svæðum verði útrýmt.
Um er að ræða aðgerðaráætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk og er markmiðið að tryggja að eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Þá segir að mikilvægt sé að þjónustan sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi. Farið verður samhliða í þróunarverkefni og prófanir sem nýtast munu til ákvarðanatöku um framtíðarfyrirkomulag þjónustu við eldra fólk.
Nú er því komin af stað heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk þar sem lögð verður áhersla á þjónustukeðjuna, það er; hjúkrunarheimilin, sérhæfða heimaþjónustu og endurhæfingu, dagþjálfun, heimaþjónustu félags- og heilbrigðisþjónustu ásamt þjónustu sveitarfélaga til þess að hámarka virkni.
Ólíkar þarfir
Ég fagna þessari vinnu enda skiptir það verulegu máli að huga að með allra besta móti að eldra fólki hér á landi. Hér er verið að fara af stað með verkefni í sama anda og farsæld í þágu barna þar sem einstaklingurinn er þungamiðjan sem verkefnið og velferðarkerfið snýst um.
Eldra fólk er fjölbreyttur hópur, það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum. Það er mikilvægt að geta mætt einstaklingum á þeim stað þar sem þeir eru og þróa úrræði til þess að mæta mismunandi þörfum eldra fólks. Markmiðið ætti ávallt að vera að bæta lífsgæði ásamt því að viðhalda færni og virkni einstaklingsins en forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stóran þátt í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar.
Það er virkilega ánægjulegt að sjá þetta verkefni sé farið af stað enda, hér er um að ræða eitt af stóru áherslumálum okkar í Framsókn fyrir síðustu kosningar. Vinna er hafin af fullum krafti og breytingar munu strax fara að skila sér með margvíslegum hætti.
Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. janúar 2023.