Categories
Fréttir Greinar

GREIÐUM VEGINN

Deila grein

03/04/2024

GREIÐUM VEGINN

Jarðgöng bæta samgöngur

Það má með sanni segja að páskahretið hafi haft mikil áhrif á ferðalög landsmanna síðustu daga. Víða voru vegalokanir með tilheyrandi vandkvæðum fyrir þá sem þurftu að komast leiðar sinnar. Það er mjög skiljanlegt að umræður um jarðgöng verði háværari þegar vegir lokast í lengri tíma. Ég tek undir þá umræðu og tel afar brýnt að ávallt séu í gangi framkvæmdir við jarðgöng á hverjum tíma, ef ekki tvenn. Jarðgöng eru mikilvæg fyrir samfélagsuppbyggingu á hverjum stað, eins og dæmin sanna og geta skipt sköpum fyrir atvinnurekstur á landsbyggðinni svo ekki sé minnst á öryggið.

Beðið er eftir mörgum göngum

Undanfarin fjögur ár hefur ekki verið unnið að neinum göngum og mikilvægt að tímabil stöðnunar verði rofið. Samgönguáætlun er til umfjöllunar hjá Alþingi og viðbúið að það þurfi að hægja á einhverjum framkvæmdum til þess að draga úr þenslu og ná niður verðbólgu. Niðurskurður er ekki í kortunum en áhersla á forgangsröðun verkefna í samgönguáætlun verður í því ljósi.  Þegar því tímabili er lokið, sem verður vonandi sem fyrst er mikilvægt að endurskoða samgönguáætlun og hefja framkvæmdir af fullum krafti. Mikilvægir jarðgangakostir eru víða um land, en óhætt er að fullyrða að þörfin sé brýnust á Tröllaskaga, Austfjörðum og á Vestfjörðum. Um liðna helgi var Öxnadalsheiði lokuð og  umferðinni vísað um Tröllaskaga og umferðarteppa myndaðist við Múlagöng þar sem umferðarstjórn var tekin upp.  Ófært var til Seyðisfjarðar fimm daga í röð, en um er að ræða erfiðan fjallveg sem er í töluverðri hæð yfir sjó. Fjöldi ferðamanna sem kom með Norrænu sat fastur auk þess sem ekki var mögulegt að koma með aðföng til bæjarins. Það er mikil mildi að ekki komu upp alvarleg atvik eða veikindi á þessum tíma þar sem næsta víst er að erfitt hefði verið að bregðast við.  

Það er að mörgu að hyggja en ég fagna því að undirbúningur er hafinn vegna gangna í gegnum Almenninga, frá Siglufirði yfir Fljót þar sem segja má að Siglufjarðarvegur sé ekki á vetur setjandi.  Hér er um að ræða göng sem mikilvægt er að komist sem fyrst í gagnið. Með þeim má koma á góðum og öruggum samgöngum milli Fljóta, Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Til að bæta við óskalistann þá myndi það einnig auka verulega umferðaröryggi ef ráðist yrði í ný göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur og undir Öxnadalsheiði. Að mínu mati þarf að huga að því í alvöru hvort setja ætti slíkar framkvæmdir í einkaframkvæmd, með það að markmiði að hraða framkvæmdum.

Gjaldtaka

Til að ná árangri í jarðgangagerð þarf að ráðstafa auknu fjármagni til undirbúnings. Ferlið er flókið og tekur langan tíma. Til þess að hraða uppbyggingu og viðhald samgönguinnviða þarf nýja nálgun. Nú er unnið að greiningu á gjaldtöku í vegasamgöngum og beðið er eftir tekjumódeli fyrir jarðgöng á Íslandi frá verkefnastofu sem er á vegum fjármálaráðuneytisins og innviðaráðuneytisins. Það er hægt að færa rök fyrir því að það sé réttlætanlegt að hafa hófsama gjaldtöku í jarðgöngum á Íslandi, við þekkjum það hér á svæðinu. Með þeim hætti er hægt að hraða uppbyggingu jarðganga en hafa sanngirni fyrir íbúa að leiðarljósi og haga gjaldtöku þannig að þeir sem þurfa að fara oftar greiði lægra gjald en hinn almenni ferðamaður.

Svo er rétt að minnast á það að enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra undirritaði viljayfirlýsingu í fyrra við bandaríska fyrirtækið EarthGrid um möguleika á notkun kyndilborunar á Íslandi, m.a. á jarðgöngum fyrir umferð. Mikilvægt er að kanna hvort slík tækni er raunhæfur kostur á Íslandi en prófanir á tækninni standa nú yfir.

Það sem mestu munar er að við þurfum að halda áfram við að bæta vegakerfið, með hagsmuni allra að leiðarljósi.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 3. apríl 2024.