Categories
Fréttir

Gunnar Bragi: Afleiðingar loftslagsbreytinga á norðurslóðum kalla á aukna alþjóðlega samvinnu

Deila grein

11/03/2015

Gunnar Bragi: Afleiðingar loftslagsbreytinga á norðurslóðum kalla á aukna alþjóðlega samvinnu

GBSGunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, lagði áherslu á stefnumótun í norðurslóðamálum sem sameinaði verndun náttúruauðlinda og nýtingu þeirra til að tryggja sjálfbæra þróun, í ræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um verndun norðurslóða, sem haldin var í Brussel þann 4. mars. Lagði ráðherra áherslu á alþjóðlega samvinnu þegar kæmi að því að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, ekki síst á norðurslóðum.
„Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa mikilvægu hlutverki að gegna, þegar litið er til alþjóðavægis sambandsins. Sum úrlausnarefnin sem blasa við okkur eru mikilvæg fyrir allan heiminn, til dæmis hvernig draga má úr losun gróðurhúsalofttegunda. Slíkar áskoranir verður aðeins tekist á við með samhentu alþjóðlegu átaki.“
Gunnar Bragi lýsti m.a. hvernig Íslendingum hefði tekist að gera fiskveiðar sínar og orkuframleiðslu sjálfbæra. Hann sagði Íslendinga, eins og aðrar þjóðir á norðurhveli, finna fyrir miklum áhrifum vegna loftslagsbreytinga. Miklar breytingar hefðu orðið á fiskistofnum í íslenskri lögsögu á síðustu árum; einkum loðnu, makríl og síld.
„Við höfum á undanförnum árum orðið vitni að breytingum á hefðbundinni hegðun fiskistofna í og í kring um íslensku efnahagslögsöguna,“ sagði Gunnar Bragi. „Þetta eru mikilvægar breytingar sem tengjast loftslags- og umhverfisbreytingum og kalla á aukna vísindasamvinnu á norðurslóðum.“
Gunnar Bragi kallaði því eftir ábyrgri auðlindastjórnun, án ríkisstyrkja, og samvinnu vísindamanna á norðurslóðum til að tryggja að sjávarútvegur yrði áfram sú sjálfbæra auðlind sem hún hefði reynst Íslendingum.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.