Categories
Fréttir

Hlutdeildarlán samþykkt á Alþingi

Hlutdeildarlánin virka þannig að kaupandi leggur til að lágmarki 5% eigið fé og tekur 75% fasteignalán hjá lánastofnun. Ríkið lánar síðan einstaklingum sem eru að kaupa sína fyrstu eign, að vissum skilyrðum uppfylltum, ákveðið hlutfall af verði þess íbúðarhúsnæðis sem þeir hyggjast kaupa. Hámarkslánstími hlutdeildarlána er 25 ár. Að þeim tíma liðnum skal endurgreiða ríkinu lánið hafi íbúðin ekki þegar verið seld. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum, þó bera þau vexti hækki tekjur lántaka á lánstímanum umfram ákveðin tekjumörk. Lántakendurnir endurgreiða hlutdeildarlánið þegar íbúðin er seld.

Deila grein

03/09/2020

Hlutdeildarlán samþykkt á Alþingi

„Ég er gríðarlega ánægður með að hlutdeildarlánin hafi verið samþykkt á Alþingi í dag og með því erum við að stíga mikilvægt skref í þá átt að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á fasteignamarkaðinn, og þar með auka öryggi fjölskyldna landsins þegar kemur að húsnæðismálum. Þessi aðgerð hefur reynst afskaplega vel í Skotlandi og lánin munu hafa jákvæð áhrif á byggingu húsnæðis á landsbyggðinni,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.

Alþingi samþykkti í dag frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um hlutdeildarlán sem ætlað er að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Hlutdeildarlánin eru að skoskri fyrirmynd og brúa bilið á milli lána veittum af fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum annars vegar og kaupverðs hins vegar. Hægt verður að sækja um lánin frá 1. nóvember næstkomandi á vefnum.

Hlutdeildarlánin virka þannig að kaupandi leggur til að lágmarki 5% eigið fé og tekur 75% fasteignalán hjá lánastofnun. Ríkið lánar síðan einstaklingum sem eru að kaupa sína fyrstu eign, að vissum skilyrðum uppfylltum, ákveðið hlutfall af verði þess íbúðarhúsnæðis sem þeir hyggjast kaupa. Hámarkslánstími hlutdeildarlána er 25 ár. Að þeim tíma liðnum skal endurgreiða ríkinu lánið hafi íbúðin ekki þegar verið seld. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum. Lántakendurnir endurgreiða hlutdeildarlánið þegar íbúðin er seld.