Greiðslumiðlun er einn af grunninnviðum hagkerfisins. Það fer ekki mikið fyrir greiðslumiðlun dagsdaglega en henni má líkja við pípulagnir fyrir greiðslur. Það fer ekki mikið fyrir lagnakerfinu, eins og fyrir hefðbundnum pípulögnum, en það stuðlar að því að peningar komast frá punkti A til punkts B þegar einstaklingar og fyrirtæki greiða fyrir vörur og þjónustu svo dæmi sé tekið. Greiðslumiðlun er þannig grundvallarstoð í samfélaginu og telst vera mikilvæg almannagæði.
Það er því hlutverk stjórnvalda að tryggja að hér landi sé starfrækt traust og örugg greiðslumiðlun. Seðlabankinn rekur svokallað millibankakerfi sem er vettvangur fyrir jöfnun og uppgjör á milli fjármálastofnana. Einnig fer fram í þessu kerfi uppgjör fyrir greiðslukort og viðskipti sem tengjast verðbréfum. Á undanförnum tveimur áratugum hefur verið unnið talsvert að bættu fyrirkomulagi greiðslumiðlunar hér á landi. Á Alþingi nýverið var til að mynda mælt fyrir frumvarpi um innlenda greiðslumiðlun sem myndi auka efnahagslegt þjóðaröryggi Íslands. Jákvæð hliðaráhrif slíkra breytinga væru umtalsverður sparnaður fyrir þjóðfélagið, sem ætti að skila sér í lægra vöruverði til neytenda.
Rík þjóðaröryggissjónarmið í breyttum heimi
Það er engum blöðum um það að fletta að greiðslumiðlunin er órjúfanlegur hluti af nútímasamfélagi. Árið 2019 vakti Seðlabanki Íslands athygli þjóðaröryggisráðs á því að íslensk stjórnvöld þyrftu að sjá til þess að traust innlend rafræn smágreiðslumiðlun væri til staðar. Vandamálið var að rafræn greiðslumiðlun var háð erlendum aðilum og tækniinnviðum. Eftir hrun bankanna haustið 2008 var ráðist í stefnumótun til að tryggja fulla virkni innlendrar greiðslumiðlunar. Á þeim tíma tóku innlendir aðilar ábyrgð á innviðum rafrænnar greiðslumiðlunar og þar með gátu erlendir aðilar ekki haft áhrif á kerfislæga virkni hennar. Á síðustu árum hefur orðið mikil breyting á hvernig greiðslur með greiðslukortum, bæði debet- og kreditkortum, eru framkvæmdar. Nú til dags fara yfir 90% af öllum debet- og kreditkortagreiðslum fram í gegnum alþjóðleg kortafyrirtæki sem eru staðsett utan Íslands. Í úttektum sínum á árinu 2022 tók þjóðaröryggisráð Íslands fyrir ábendingar og hættur sem tengjast þjóðaröryggi, með áherslu á greiðslumiðlun. Það benti meðal annars á mikilvægi þess að hafa í boði áreiðanlegar innlendar greiðslulausnir sem ekki eru háðar erlendum fjarskiptum. Áhersla var lögð á að hafa fleiri en eina slíka lausn, þar sem bæði greiðslur og uppgjör eiga sér stað innan kerfa sem eru undir innlendri stjórn. Einnig var lagt til að auka eftirlit með net- og fjarskiptaógnunum sem steðja að fjármálakerfinu, bæta skilvirkni boðleiða í tilfelli netárása og skipuleggja tilbúnað við slíkum ógnum. Þar gegnir Seðlabanki Íslands lykilhlutverki. Á síðustu árum hefur áhætta vegna greiðslukerfa á Íslandi aukist. Vaxandi hætta í heiminum, bæði hvað varðar netöryggi, ástand stríðs í Evrópu og alþjóðlega sundrung, hefur enn frekar undirstrikað mikilvægi þess að styrkja viðnám og öryggi greiðslukerfa. Ísland, eins og aðrar þjóðir, þarf einnig að bregðast við þessari þörf.
Hagkvæmara kerfi fyrir fólk og fyrirtæki
Verði fyrrnefnt frumvarp um innlenda greiðslumiðlun samþykkt á Alþingi mun Seðlabankinn öðlast skýrar heimildir til að koma á fót innlendri greiðslumiðlun. Til viðbótar við bætt þjóðaröryggi yrðu jákvæð hliðahrif þeirra breytinga að kostnaður fyrir neytendur og íslenska söluaðila myndi lækka. Með frumvarpinu yrði sköpuð forsenda fyrir nýjum innviðum á sviði greiðslumiðlunar sem gerðu neytendum kleift að greiða fyrir vöru og þjónustu með millifærslu milli tveggja bankareikninga með skilvirkum hætti. Má ráðgera að slíkt myndi stuðla að aukinni samkeppni á greiðslumarkaði og skapa tækifæri til hagræðingar í kerfinu og þar með lægri kostnaði fyrir söluaðila og neytendur.
Það er ljóst að núverandi fyrirkomulag greiðslumiðlunar er allt of dýrt. Í skýrslu um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna sem ég lét vinna á síðasta ári kom meðal annars fram að Seðlabankinn áætlaði að kostnaður samfélagsins af notkun greiðslumiðla hér á landi á árinu 2021 hefði verið um 47 ma.kr. eða um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslukorta ríflega 20 ma.kr.
Lítum til Noregs – og spörum!
Í greiningu Seðlabankans kemur fram að Noregur sé eina landið sem telja má samanburðarhæft við Ísland sem nýlega hefur birt niðurstöður úr kostnaðargreiningu í greiðslumiðlun. Í Noregi var samfélagskostnaður á árinu 2020 um 0,79% af vergri landsframleiðslu. Væri kostnaðarhlutfallið það sama hér á landi og í Noregi væri kostnaðurinn tæpir 26 milljarðar eða 21 milljarði króna lægri. Það liggur í augum uppi að hægt er að gera betur í þessum málum hér heima og í nýju fyrirkomulagi felast tækifæri til að bæta hag fólks og fyrirtækja á Íslandi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. febrúar 2024.