Hér áður fyrr stóð ytri staða þjóðarbúsins oft og tíðum tæpt, þar til straumhvörf á viðskiptajöfnuðinum áttu sér stað fyrir rúmlega tíu árum með tilkomu sterkrar ferðaþjónustu hér á landi. Fyrir lítið opið hagkerfi er nauðsynlegt að hafa styrkar útflutningsstoðir. Viðskiptaafgangurinn vegna ferðaþjónustunnar hefur einnig gert lífeyrissjóðum kleift að dreifa sparnaði félaga og byggja myndarlega sjóði erlendis. Á tímum kórónuveirunnar kom glöggt í ljós hversu hagfellt var að vera með gjaldeyrisforða sem gat jafnað mestu sveiflur.
Það skiptir miklu máli að skapa ferðaþjónustunni, stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins, hagfelld skilyrði til þess að vaxa og dafna með sjálfbærum hætti, með það fyrir augum að skapa aukin verðmæti og lífsgæði fyrir íslenskt samfélag.
Eitt helsta forgangsverkefnið í nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfluga aðgerðaáætlun á sviði ferðamála á grunni Framtíðarsýnar og leiðarljóss íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Undirbúningur þeirrar vinnu hefur staðið yfir af fullum þunga innan ráðuneytisins en í vikunni skipaði ég sjö starfshópa, sem hver og einn er skipaður 6-8 sérfróðum aðilum, og verður þeim falið að vinna tillögur að aðgerðum en miðað er við að þeir skili drögum að aðgerðum fyrir 1. október næstkomandi og lokatillögum fyrir 15. desember 2023. Hóparnir ná utan um sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og svo menningartengda ferðaþjónustu. Stefni ég að því að leggja fram nýja ferðamálastefnu til ársins 2030 ásamt aðgerðaáætlun fyrir vorþing 2024, eins og kom fram í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í mars.
Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahagslegs og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf, í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Þjóðríki sem hafa miklar útflutningstekjur, stöndugan gjaldeyrisforða og góðan innlendan sparnað eru í mun sterkari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll og njóta betri lánskjara á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þar mun ferðaþjónustan skipta lykilmáli til framtíðar og því er gríðarlega mikilvægt að styrkja umgjörð hennar enn frekar til framtíðar, með skýrum aðgerðum til að hrinda til framkvæmda.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. júní 2023.