Það var hátíðleg stund hinn 11. febrúar síðastliðinn, þegar dagur íslenska táknmálsins var haldinn með metnaðarfullri dagskrá. Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Þannig er íslenskt táknmál eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og eina málið sem á sér lagalega stöðu utan íslenskrar tungu, líkt og kemur fram í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Á Íslandi er orðið döff notað um heyrnarlaust fólk sem talar táknmál, en það að vera döff er að líta á táknmál sem sitt fyrsta mál og tilheyra samfélagi heyrnarlausra.
Frábært starf er unnið í þágu íslensks táknmáls á hverjum degi, eins og glögglega kom fram á degi íslensks táknmáls. Einstaklingarnir í döff samfélaginu eru framúrskarandi og fékk ég þann heiður að afhenda Önnu Jónu Lárusdóttur sérstaka heiðursviðurkenningu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) fyrir framlag til varðveislu íslensks táknmáls, en Anna hefur verið öflug í félagsstarfi og hagsmunabaráttu döff fólks en hún gegndi formennsku í Félagi heyrnarlausra um árabil og sat í stjórn félagsins og félagi Döff 55+ í fjölda ára. Þá hlaut Valgerður Stefánsdóttir viðurkenningu dags íslensks táknmáls fyrir hönd Málnefndar um íslenskt táknmál. Viðurkenninguna hlaut hún fyrir ómetanlegt framlag sitt til íslensks táknmáls og málsamfélags þess en þetta var í fyrsta skipti sem viðurkenningin er afhent. Valgerður varði í desember síðastliðnum doktorsritgerð í mannfræði við Háskóla Íslands sem er frumkvöðlarannsókn og fyrsta heildstæða yfirlitið hérlendis yfir íslenskt táknmál og þróun döff menningar. Mun ritgerðin þjóna sem mikilvæg heimild fyrir komandi kynslóðir um uppruna og þróun íslensks táknmáls og fólkið sem bjó það til, döff Íslendinga.
Það er skylda íslenskra stjórnvalda að hlúa að íslensku táknmáli og styðja við það. Nú hefur Alþingi til meðferðar þingsályktun og aðgerðaáætlun í málstefnu íslensks táknmáls sem ég mælti fyrir á Alþingi á yfirstandandi þingi. Málstefnan, sem er sú fyrsta fyrir íslenskt táknmál, tekur til sex meginstoða sem skipta máli fyrir málstefnu minnihlutamálsins og áhersluþætti innan hverrar meginstoðar, en þær eru: máltaka táknmálsbarna, rannsóknir og varðveisla, jákvætt viðhorf, fjölgun umdæma íslensks táknmáls, lagaumhverfi og máltækni. Aðgerðaáætlunin inniheldur aðgerðir sem miðast við að koma þurfi til framkvæmda á næstu þremur árum og hafa stjórnvöld nú þegar tryggt fjármuni til að fylgja þeirri áherslu eftir. Við getum gert íslensku táknmáli hærra undir höfði og það ætlum við að gera með ýmsum hætti. Í þingsályktuninni er meðal annars lagt til að dagur íslensks táknmáls verði fánadagur, líkt og tíðast fyrir dag íslenskrar tungu. Það er viðeigandi fyrir dag íslensks táknmáls. Ég vil þakka döff samfélaginu fyrir virkilega ánægjulegt samstarf og ég lít björtum augum til framtíðar þegar kemur að íslensku táknmáli.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2024.